03.10.2023 06:19

V.b. Snorri SI 49. LBVQ / TFWI.

Vélbáturinn Snorri SI 49 var smíðaður af Anton Jónssyni skipasmíð á Akureyri árið 1918. Eik og fura. 35 brl. 16 nt. 36 ha. Avance vél. 18,02 x 4,39 x 1,97 m. Hét fyrst Snorri EA 376 og var í eigu Verslunar Snorra Jónssonar (Rögnvaldur Snorrason) á Akureyri. Sumarið 1918 fór Snorri í ferð til Jan Mayen til þess að afla rekaviðar, þar sem mikill skortur var á eldsneyti til húshitunar í lok stríðsins. Leiðangursstjóri var Gunnar Snorrason á Akureyri ásamt 8 öðrum leiðangursmönnum. Hér fyrir neðan segir lítillega frá þessari Jan Mayen ferð þeirra félaga. Frá 17 maí 1929 var Jón Jóhannesson á Siglufirði eigandi bátsins. Fékk þá nafnið Snorri SI 49. Ný vél (1929) 80 ha. Skandia vél. Snorri var talinn ónýtur og tekinn af skrá 4 febrúar árið 1964.

Hér fyrir neðan er slóðin á ferð þeirra Snorramanna til Jan Mayen eftir Freymóð Jóhannesson málara er birtist í tímaritinu Óðni árið 1922. Ansi merkileg grein hjá honum og þess virða að renna í gegn um hana.

https://timarit.is/page/2292215?iabr=on#page/n33/mode/2up
 

Snorri SI 49 á Siglufirði með fullfermi af síld. Norsk síldveiðiskip í baksýn. Ljósmynd í minni eigu.



                                              Snorri EA 376

„Snorri“ heitir vélskip sem þeir Rögnvaldur og Gunnar Snorrasynir hafa látið byggja í vetur og var faðir þeirra byrjaður á því skömmu áður en hann lagðist banaleguna. Anton Jónsson hefir verið yfirsmiður. Skipið er „kútter" bygt, 35 smálestir að stærð með 36 hestafla „Avance" vél.

Norðurland. 15 júní 1918.
 

Mynd Freymóðs Jóhannessonar af Snorra á Norðvik á Jan Mayen sumarið 1918. Eldfjallið Beerenberg (Bjarnarfjall) í baksýn.



          M.b. Snorri EA 376 til Jan Mayen
            eftir rekavið og öðru timbri


Snorra er hér getið vegna sérstæðrar ferðar, sem báturinn fór til Jan Mayen sumarið 1918. Einn af leiðangursmönnum var Freymóður Jóhannsson listmálari, og er hér stuðzt við frásögn hans, er hann flutti í útvarpið fyrir nokkrum árum. Þá málaði Freymóður myndina af Snorra á Norðurvík á Jan Mayen, og sést eldfjallið Beerenberg (Bjarnarfjall) í baksýn. Leiðangur þessi var farinn til öflunar á rekaviði, þar sem mikill skortur var orðinn á timbri í landinu af styrjaldarástæðum. Leiðangursstjóri var Gunnar Snorrason frá Akureyri, en aðrir í áhöfn Snorra voru: Rafn A. Sigurðsson skipstjóri, Friðrik Steinsson stýrimaður, Axel Jóhannsson og Jón Eðvaldsson vélamenn, Barði Barðason, síðar kunnur aflaskipstjóri, var kokkur. Þorvaldur Jacobsen háseti og Jóhan Svenson, sænskur maður, smiður og trjáviðarsérfræðingur leiðangursins. Farið var frá Akureyri. Fyrsta áfanga leiðarinnar sigldi Snorri í gegnum vaðandi síld, en norðvestur af Grímsey skall á þokusúld, sem hélzt alla leið til Jan Mayen. Klukkan tvö aðfaranótt 29. júlí lagðist Snorri svo á Norðurvík eftir að hafa siglt norðvestur fyrir eyna í rúma viku, eða til 6. ágúst var unnið að viðartöku á Norðurvík, Timburvík og Maríuvík. Tvö skip hittu þeir við eyna á þessum tima, gufuskipið Ludolf Eyde, sem var á hákarlaveiðum, og andarnefjubát sem Svalbard hét, bæði norsk. Enga menn hittu þeir á sjálfri eynni, en skoðuðu hýbýli fyrrverandi leiðangurs- og veiðimanna, er höfðu haft þar vetursetu. Freymóður ferðaðist nokkuð um eyna fótgandi, gekk m. a. yfir hana þvera til Rekavikur, málaði myndir safnaði grösum. Frá Jan Mayen hélt Snorri heimleiðis um miðnætti Þann 7 ágúst. Djúpt af Húnaflóa fóru norðlenzku fjöllin að koma í ljós þann 9. ágúst. Eftir viðkomu á Siglufirði kom Snorri svo til Akureyrar eftir 19 sólarhringa útivist. Þegar ferð þessi var, var Jan Mayen ónumið land, og þurfti ekkert leyfi til viðartöku. Nokkrum árum síðar öðluðust Norðmenn yfirráð yfir eynni, sem þeir hafa enn í dag.

Guðmundur Sæmundsson.
Æskan. 3 tbl. 1 mars 1973.

Flettingar í dag: 2216
Gestir í dag: 270
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 740868
Samtals gestir: 55860
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 18:26:48