27.10.2023 17:33

B.v. Þórólfur RE 134. LCJH / TFOC.

Kveldúlfstogarinn Þórólfur RE 134 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1920 fyrir h.f. Kveldúlf í Reykjavík. 403 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. 45,65 x 7,63 x 3,61 m. Smíðanúmer 694. Fyrsti skipstjóri var Guðmundur Guðmundsson í Nesi. Þórólfur var systurskip Skallagríms RE 145, bæði smíðuð eftir sömu teikningu, en Þórólfur var talinn mun betra sjóskip af þeim sem til þekktu og var allatíð mikið afla og happaskip. Togarinn varð fyrir miklu áfalli hinn 17 desember árið 1948. Var hann þá á heimleið úr söluferð til Englands og var staddur um 13 sjómílur norðvestur af Þrídröngum við Vestmannaeyjar er mikill brotsjór óð að honum b.b. megin og allar rúður í brúnnu brotnuðu þeim megin. Lagðist togarinn svo gjörsamlega á hliðina, að þegar sjórinn var farinn hjá námu siglutoppar við hafflötinn. Töluverður sjór komst í vélarrúmið og slökknaði eldur í þremur af fjórum fýrum ketilsins. Lestar togarans voru nær fullar af kolum og kastaðist farmurinn til og mikil slagsíða kom að togaranum. Tók langan tíma að rétta skipið og koma fýrunum í gang aftur. Megnið af bátapallinum og björgunarbátarnir, sópuðust í hafið. Kom togarinn til Reykjavíkur seinni partinn daginn eftir. Skipstjóri var þá Hallgrímur Guðmundsson. Þórólfur var einn þeirra togara sem voru að veiðum á Halamiðum í febrúarbyrjun árið 1925 þegar eitt mesta óveður í manna minnum gekk yfir landið (Halaveðrið) og tveir togarar, Leifur heppni RE 146 og Hellyerstogarinn Field Marshal Robertson H 104 og mótorskipið Sólveig, fórust með allri áhöfn, 68 skipverjum. Í þessu veðri sannaði Þórólfur hversu afburðagott sjóskip hann var. Togarinn var seldur vorið 1955, Guðmundi Kolka sem seldi hann í brotajárn til Óðinsvé í Danmörku.

Heimildir :
Þrautgóðir á raunastund. IV bindi. Steinar J Lúðvíksson 1972.
Í særótinu. Sveinn Sæmundsson 1967.

Ég fékk þetta fallega málverk af Þórólfi á nytjamarkaði hér í bænum nú í vikunni. Það er ómerkt en það er teiknað lítið anker í neðrahornið hægramegin. Það væri gaman að vita hver hefur málað þessa mynd, gott ef að einhver kannast við málverkið. Var fljótur að taka það til gagns og bjarga því frá glatkistunni. Það sést á því að Þórólfur var glæsilegt skip.
 

B.v. Þórólfur RE 134 á siglingu. Málari óþekktur. Málverk í minni eigu.



                                           „Þórólfur“

Þórólfur, hið nýja skip Kveldúlfsfélagsins, liggur nú hér á innri höfninni. Er það mikið skip og fagurt, af sömu gerð og Skallagrímur. Skipstjóri þess er Guðmundur Guðmundsson frá Nesi, sem lengi hefir verið í þjónustu Kveldúlfsmanna og er reyndur og þektur dugnaðarmaður, eins og hann á kyn til.

Ísafold. 16 tbl. 12 apríl 1920.
 

B.v. Þórólfur RE 134 á veiðum í salt.                               (C) Hjálmar R Bárðarson.
 
Kyndarinn hamast við að moka kolum í fírinn.                  Ljósmyndari óþekktur.
 
Þórólfur í Reykjavíkurhöfn eftir áfallið í desember 1948. Allt horfið af bátadekkinu.  (C) Ólafur Magnússon.

          B.v, „Þórólfur“ stórskemdist
              í síðustu Englandsför

Kveldúlfstogarinn „Þórólfur“ stórskemdist í síðustu ferð sinni heim frá Englandi er brotsjóir gengu yfir skipið, þar sem það var statt hjer sunnan við landið. Báða björgunarbáta skipsins tók út og bátadekk brotnaði, en allt lauslegt tók af bátadekkinu. Loftskeytastöngin á aftursiglu brotnaði og bátsuglur stjórnborðsmegin, en sjókort, tæki í loftskeytaklefa og annað smávegis í stjórnpalli skemdist talsvert. Togarinn lá á hliðinni, hálfmarandi í kafi, þannig að stjórnborðsbrúarvængur lá að sjó og allt fram að hvalbak í 4 ½ klukkustund. En slagsíða skipsins stafaði af því, að kolafarmur í framlest og kolageymslum skipsins gekk til og var ekki hægt að rjetta skipið við fyr en búið var að moka til kolum í lest og kolageymslu (boxum). Engan skipverja sakaði við þetta áfall og komst skipið á eigin vjelarafli til hafnar í Reykjavík, þótt kolasalli og önnur óhreinindi úr kjalsogi kæmust í legur vjelarinnar og vjelin skemmdist við það mikið. Það er talið, að það muni taka að minsta kosti um mánaðartíma, að gera við skemmdir skipsins.
Morgunblaðið hefur snúið sjer til Hallgríms Guðmundssonar, skipstjóra á Þórólfi, og fengið hjá honum eftirfarandi lýsingu á áfallinu, sem skipið varð fyrir: Klukkan var rjett 8,30 að kvöldi, föstudaginn 17. þ. m. Við vorum þá staddir um 13 sjómílur NV af Þrídröngum. Veður var slæmt, en þó ekki svo, að það gæfi tilefni til þess, að vænta mætti neinna ófara. Það var sunnan haugasjór, vindhraði 8—9 stig og rjett að byrja að votta fyrir vestanöldu. Við sigldum með hægri ferð. Þegar við urðum varir við ólag hægðum við á okkur og skipið var stansað, er brotsjór skall á því. Ólagið reið á brúna bakborðsmegin og var svo snöggt, að klukkur, sem voru í brú og lofskeytaklefa stöðvuðust. Eitthvað hafði bilað í þeim, en slíkt er óvanalegt, þó skip fái á sig brotsjó, að þau tæki bili. Rúðu braut í stýrishúsi og fleiri smáskemmdir urðu. Annar sjór lenti á bátadekkinu bakborðsmegin og tók með sjer björgunarbátinn þeim megin. Skipið hefði nú átt að rjetta sig, ef allt hefði verið með feldu, en það byrjaði að siga að aftan og hallaðist á stjórnborða. Var þá sett full ferð fram á og reif skipið sig upp á afli vjelarinnar, en við það sviftist stjórnborðsbáturinn, hluti af bátadekki og bástuglur af og allt lauslegt er á bátadekkinu var. Og skipið rjetti sig enn ekki. heldur hallaðist þannig, að það lá undir sjó frá brúarvængnum stjórnborðsmegin og fram úr. Varð brátt Ijóst hvað því olli. Kol í framlest höfðu verið fermd svo illa í skipið í Englandi, að við kastið, sem á það kom við ólagið, höfðu þau farið út í aðra hliðina og ennfremur í kolaboxunum.
Við kastið, sem á skipið kom drapst í öllum eldum undir gufukatli með þeim afleiðingum, að vjelin fjekk ekki neitt afl. Á eldunum drapst með þeim hætti, að ristarnar í eldhólfunum köstuðust til og voru miklir erfiðleikar á að kynda upp á ný, á meðan skipið hallaðist eins og það gerði. Lítill, sem enginn sjór kom þó í skipið, en er afl vjelarinnar dvínaði, eftir að dautt var undir katlinum urðu lensdælur einnig óvirkar. Sjór úr kjalsogi slettist inn á legur skipsvjelarinnar, en í kjalsogi safnast jafnan fyrir kolasalli og annað rusl. Olli þetta að sjálfsögðu skemdum á legum vjelarinnar, þar sem nauðsynlegt var að hafa hana í gangi. Loftskeytatæki skipsins biluðu í áfallinu, er sjór kom í loftskeytaklefa og er stöng, sem heldur uppi loftneti skipsins fór. Enda höfðum við ekkert not fyrir loftskeytatæki eins og komið var. Það, sem gera þurfti urðum við að vinna sjálfir um borð. Fyrsta verkið var að moka til kolum í boxum og framlest til þess að fá skipið á rjettan kjöl. Það var nokkrum erfiðleikum bundið. Fimm menn voru settir niður í framlestina til að „lempa“, en sökum þess hve skipið var undir miklum sjó, þurfti að loka þá niðri í lestinni á meðan þeir unnu verkið. Eftir að búið var að koma upp eldum á ný og gufa fór að koma upp svo mikið að hægt var að nota dælur skipsins var vatni dælt í lýsistanka, sem eru á þilfari bakborðsmegin og rjetti skipið þá smátt og smátt við. Veðrið hjelst óbreytt fram til klukkan 11, en þá fór það heldur að linna og um klukkan 1 var búið að moka kolunum það til, að skipið var komið nokkurnvegin á rjettan kjöl. Gufan komin upp og hægt að halda af stað til Reykjavíkur og gekk ferðin þangað vel.
Frá öllu þessu segir Hallgrímur skipstjóri rólega og hversdagslega. Er hann er spurður að því, hvort ,,Þórólfur“ hafi ekki verið hætt kominn, svarar hann því til, að það sje aldrei hægt að fullyrða neitt um slíkt, hvenær skip sjeu hætt komin í slíkum kringumstæðum sem þessum. Það hafi sýnt sig að tog ararnir þoli mikinn sjó og stór áföll, jefnvel þótt það komist sjór í þá. „Maður sá þetta í Halaveðrinu þegar Egill Skallagrímsson fjekk sjóinn á sig og sjór fór niður um reykháfinn. Nei, það er aldrei hægt að fullyrða neitt um slíkt“, segir þessi rólyndi sjómaður. Hallgrímur rómar mjög framgöngu skipshafnar sinnar, sem hafi komið mjög vel fram í alla staði þegar skipið varð fyrir þessu áfalli. B.v. Þórólfur liggur nú hjer í höfninni, þar sem viðgerð fer fram.

Morgunblaðið. 29 desember 1948.
 

B.v. Þórólfur RE 134.                                                        (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

                                                       
                  Sex gamlir togarar höggnir upp
             í Danmörku og Bretlandi

Á næstunni munu sex hinna gömlu togara fara í sína hinztu siglingu til Danmerkur og Bretlands, þar sem þeir verða ''höggnir“ upp. Mun þá ekki vera nema einn eftir hinna gömlu togara. Það er Guðmundur Kolka, sem keypt hefur þessi gömlu skip. Hefur hann undanfarna mánuði unnið að því að fylla þau hvert af öðru af brotajárni. Hann hefur sem kunnugt er safnað brotajárni í mjög stórum stíl. Um skeið var hann t. d. með togara hér úti á ytri höfninni, þar sem hann náði upp allmiklu af legufærum. Í síðasta mánuði, er verkfallið stóð yfir, var áformað að brotajárnsskipin yrðu dregin út. Við það varð að hætta, en á morgun eða föstudag er væntanlegur stór dráttarbátur frá Hollandi, sem fara mun með 3 í eftirdragi til Danmerkur.
Fjórir þessara togara liggja nú vestur við Ægisgarð og hafa legið þar um Iangt skeið, en þeir eru: Skallagrímur, Þórólfur og Höfðaborg, sem væntanlega munu hafa samflot yfir hafið til Danmerkur um helgina. Vestur við Ægisgarð er einnig Tryggvi gamli, sem sóttur var inn á Kleppsvík í fyrradag. Suður í Hafnarfirði á togaralegunni liggur svo Maí, og Faxi inni á Eiðsvík. Þessir togarar munu verða dregnir til Bretlands síðar. Ráðgert er að þegar dráttarbáturinn leggur af stað með togarana þrjá, þá verði á hverjum þeirra fjórir menn, til þess að hafa eftirlit með dráttartaugum og öðru. Þegar þessir gömlu togarar fara í sína hinztu siglingu vakna án efa í brjóstum margra togarasjómanna endurminningar frá lengri eða skemmri sjómennsku á þessum skipum á tímum friðar og ægilegra ófriðarára. Hversu miklu fiskmagni skyldu þau vera búin að landa? T. d. Skallagrímur, er Guðmundur heitinn Jónsson var aflakóngur á honum og í áraraðir var Skallagrímur með aflahæstu togurunum. Nú er eftir aðeins einn hinna gömlu togara, og er það Venus frá Hafnarfirði.

Morgunblaðið. 18 maí 1955.

Flettingar í dag: 2840
Gestir í dag: 302
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 741492
Samtals gestir: 55892
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 22:30:51