13.10.2023 10:48

Hrólfur Sturlaugsson SU 263. / Göngu-Hrólfur.

Vélbáturinn Hrólfur Sturlaugsson SU 263 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1905. Eik og fura. 5,84 brl. 8 ha. Dan vél. Eigendur hans voru Stefán Stefánsson kaupmaður, Hinrik Þorsteinsson, Vilhjálmur Stefánsson í Hátúni, Jón Sveinsson, Magnús Hávarðsson skipstjóri og útgerðarmaður og Sigurbjörn Davíðsson á Nesi í Norðfirði. Þegar Hrólfur kom til Norðfjarðar, var hann opinn en fljótlega var hann dekkaður eins og aðrir vélbátar sem Norðfirðingar eignuðust á þessum tíma. Var hann jafnan nefndur Göngu-Hrólfur og mun það nafn hafa fest við hann. Síðar eignuðust bátinn þeir Vilhjálmur Stefánsson og Hinrik Þorsteinsson. Ný vél (1911) 9 ha. Gídeon vél. Báturinn var seldur veturinn 1915, Rögnvaldi Gíslasyni kaupmanni á Ólafsfirði, hét þá Göngu-Hrólfur EA 369. Báturinn var endurbyggður mikið og stækkaður á Akureyri árið 1922, mældist þá 8,34 brl. 11,18 x 3,08 x 1,38 m. Ný vél 1929) 20 ha. Skandia vél. Frá 1929-30 eru Bergur Björnsson og Kristján Jakobsson á Akureyri eigendur hans. Fékk þá nafnið Vísir EA 369. Frá 22 ágúst 1933 voru Þórhallur Karlsson, Kristján Pétursson, Hallgrímur Steingrímsson og Sigtryggur Jónasson á Húsavík eigendur hans, hét þá Vísir TH 59. Ný vél (1935) 20 ha. Deutz vél. Báturinn finnst ekki á skrá eftir árið 1938, en það ár (1938) keyptu eigendur Vísis TH 59 (Göngu-Hrólfur), nýjan bát í Frederikssund sem fékk sama nafn og númer og var 21 brl. Hefur gamli Vísir sennilega verið orðinn ónýtur og rifinn fljótlega eftir það.

Upphaf vélbátasmíða á Norðfirði má rekja aftur til ársins 1906, en það var árið eftir að slíkir bátar komu í eigu Norðfirðinga. Hrólfur Sturlaugsson eða Göngu-Hrólfur eins og hann var venjulega nefndur, var einn fjögurra báta sem Norðfirðingar eignuðust árið 1905. Hinir voru,
Fram, smíðaður í Frederikshavn í Danmörku 4,83 brl. 6 ha. Dan vél. Var í eigu Gísla Hjálmarssonar kaupmanns og Jóns Eiríkssonar á Nesi í Norðfirði. Fram var fyrsti vélbáturinn sem kom til Norðfjarðar.
Gylfi, 8,06 brl. Í eigu Verslunar Þorbjargar Runólfsdóttur (Verslun Sigfúsar Sveinssonar) á Nesi í Norðfirði.
Víkingur 6,35 brl. Smíðaður á Seyðisfirði og var í eigu Lúðvíks S Sigurðssonar og Bjarna Hávarðssonar á Nesi í Norðfirði.
Rétt fyrir páska í aprílmánuði 1905 kom flutningaskip Thorefélagsins, Mjölnir til Eskifjarðar með fyrsta vélbát Norðfirðinga, Fram. Afturendi bátsins lá á lunningu en framendinn á lestarlúgu. Þegar í höfn var komið var framenda bátsins lyft með vindu það hátt að báturinn rann þá auðveldlega í sjóinn. Koma bátsins markaði mikil tímamót í sögu útgerðar á Norðfirði, því árið eftir, 1906, komu tíu vélbátar þangað.

Heimildir:
Guðmundur Sveinsson. Skjala og myndasafn Norðfjarðar.
Norðfjarðarsaga ll. Fyrri hluti frá 1895 til 1929. Smári Geirsson 2009.
Íslensk sjómannaalmanök frá 1926 til 1938.
 

Hrólfur Sturlaugsson SU 263 á Seyðisfirði við konungskomuna 1907. (C) Skjala og Myndasafn Norðfjarðar.
 
Líkan af vélbát, smíðuðum í Danmörku 1905-10. Mynd úr Vestmannaeyjablaðinu Blik.
 
Vísir TH 59 frá Húsavík.                                                           Ljósmyndari óþekktur.
 

            Fyrstu vélbátar Austfirðinga


Vorið 1904 kom fyrsti vélbáturinn til Austfjarða, á Seyðisfjörð. Það var v.b. Bjólfur NS-9, 6,04 tonn að stærð. Eigendur hans voru Stefán Th. Jónsson og Sigurður Jónsson kaupmenn á Seyðisfirði. Formaður fyrsta sumarið var Símon Jónasson frá Svínaskála við Reyðarfjörð. Báturinn var byggður í Frederikssund í Danmörku. 10. okt. sama ár er skráður 3,28 tonna bátur hjá sýslumanninum á Seyðisfirði. Báturinn var byggður í Reykjavík 1904 og hét Hermes NS-38, eigandi Magnús Jónsson útvegsbóndi á Landamóti. Ennfremur er þetta sama ár skrásettur lítill vélbátur, 2,93 tonn að stærð, frá Búðum við Fáskrúðsfjörð. Eigandi bátsins, sem nefndur var Karmá SU-201, var P. Stangeland kaupmaður á Búðum. Þessi bátur er sagður byggður á Fáskrúðsfirði. Árið 1905 kemur nokkur skriður á vélbátaútgerð á Austurlandi. Þá kom v.b. Laxinn SU-236, en það eru allar líkur til að hann sé fyrsti vélbátur með þilfari í Múlaþingi. Hann var byggður í Danmörku og eigendur voru bræðurnir Símon og Árni Jónassynir á Svínaskála við Reyðarfjörð og bræðurnir Halldór og Jón Jónssynir á Svínaskálastekk. Símon hafði áður verið formaður á v.b. Bjólfi eins og áður sagði.
Fjórir vélbátar komu til Norðfjarðar þetta ár. Þeir voru Fram SU-234, eigandi Jón Eiríksson Nesi í Norðfirði o.fl. Gísli Hjálmarsson kaupmaður mun hafa lagt fram fé til kaupanna. Annar var Gylfi SU-260, eigandi Verslun frú Þorbjargar Runólfsdóttur á Nesi. Þriðji Hrólfur Sturlaugsson SU-263 (Göngu-Hrólfur), eigandi Stefán Stefánsson kaupmaður á Norðfirði o.fl. Þessir þrír bátar voru keyptir í Danmörku. Fjórði báturinn var Víkingur SU-298, byggður á Seyðisfirði af fyrirtæki sem Stefán Th. Jónsson kaupmaður og Fr. Gíslason úrsmiður stofnuðu á Seyðisfirði, yfirsmiður var Guðfinnur Jónsson. Eigendur bátsins voru Lúðvík Sigurðsson kaupmaður Norðfirði og Bjarni Hávarðsson Norðfirði. Á þessu ári 1905 fékk Konráð kaupmaður Hjálmarsson í Mjóafirði bát sem hann nefndi Hrossabrest SU-331. Nafnið mun vera tilkomið út af skellum í vél bátsins. Í bækur sýslumanns Norður-Múlasýslu eru þetta ár skráðir 16 vélbátar í sýslunni, þar af 15 á Seyðisfirði og einn á Vopnafirði. Þeir eru þessir á Seyðisfirði:
Brimnes NS-178, eig. Sigurður Jónsson bóndi á Brimnesi; Geir NS-117, eig. Páll Árnason; Hákon NS-179, eig. Jens Martinus Hansen; Herðubreið NS-174, eig. Stefán Stefánsson kaupm.; Höfrungur NS-171, eig. Erlendur Erlendsson skósmiður; Njáll NS-120, eig. Friðrik Gíslason o.fl.; Seyðisfjörður NS-118, eig. T.L. Imsland kaupm.; Skáli NS-176, eig. Jón Stefánsson verslunarstj. & Co; Smyrill NS-173, eig. Björn Gíslason útvegsb.; Stóri Björn NS-177 eig. Jón Stefánsson verslunarstj. & Co; Tjaldur NS-125, eig. Þórarinn Guðmundsson kaupm.; Örn NS-126, eig. Sigurður Sveinsson kaupm.; Aldan NS-121, eig. Th. C. Imsland verslunarm.; Garðar (Grænborði) NS-180, eig. Stefán Th. Jónsson kaupm.; Kári NS-172, eig. Björn Gíslason útvegsb. Frá Vopnafirði var Sigurfari NS-182, eig. Sigurd Johansen verslunarstjóri þar. Margir af þessum bátum voru litlir, bara litlar trillur og ekki með þilfari.

Tekið úr greininni, Þilskip á Austurlandi.
Viðtal við Guðmund Sveinsson í Neskaupstað.
Múlaþing. 11 hefti. 1 janúar 1981.
 

Flettingar í dag: 576
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 742335
Samtals gestir: 55946
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 03:39:34