20.10.2023 16:05

H. sk. Christiane.

Hákarlaskipið Christiane var smíðuð í Rönne á Borgundarhólmi í Danmörku árið 1863 fyrir þá Dalabæjarfeðga í Dalabæ í Úlfsdölum við Siglufjörð, Þorvald Sigfússon og son hans Pál Þorvaldsson. Christiane var upphaflega smíðuð sem einmastra Jakt og var rúmar 14 brl. Dýpt miðskips var 5 ft. (dönsk). Fyrsti formaður hennar mun hafa verið Bessi Þorleifsson frá Sölvabakka. Hún var oftast nefnd í daglegu tali “Hákarla-Sjana“ eða „Dala-jaktin“. Í skýrslu yfir lýsisafla þilskipa á Siglufirði fyrir árið 1873, sem birtist í blaðinu Norðanfara í ágúst 1874, kemur fram að Christiane hafi fengið 67 tunnur af hákarlalýsi og ennfremur að Páll Þorvaldsson og Bessi Þorleifsson væru þá eigendur Christiane og formaður var þá Kristján Björnsson í Dalabæ. Mun Christiane hafa verið gerð út að mestu til hákarlaveiða en jafnframt til þorskveiða. Síðasta úthald hennar til hákarlaveiða var vorið 1923. Það úthald varð í styttra lagi og sögulegt því að Christiane rak á land í Hornvík ásamt þremur öðrum skipum í maí það ár. Þangað leituðu þau í var undan austan stormi. Christiane náðist út um sumarið, en hin þrjú munu hafa eyðilagst. Tók nokkurn tíma að lagfæra skipið eftir þetta strand. Christiane, sem raunar var alla tíð nefnd Kristjana að íslenskum hætti, þó hið danska nafn væri málað á skipið og skartaði í öllum opinberum skjölum fram yfir 1930. Nokkrum árum eftir að Christiane kom til landsins var henni breytt og hún lengd. Það gerði Jóhann Jónsson skipasmiður í Höfn í Siglufirði. Eftir það var hún orðin tvísigld skonnorta. Þannig var hún fram yfir aldamót, en þá var hún byggð upp í annað sinn og enn stækkuð nokkuð. Það gerði Páll Kroyer, sonur Jóhanns skipasmiðs í Höfn. Mældist þá eftir þessar breytingar 23 brl. 14,38 x 4,58 x 1,75 m.
Christiane komist í eigu Gránufélagsins á Siglufirði um árið 1889, eða jafnvel eitthvað fyrr. Átti þá Gránufélagið helming á móti Hafliða Guðmundssyni á Siglufirði og Erlendi Pálssyni á Sauðárkróki, sem áttu sinn fjórðunginn hvor. Stuttu eftir aldamótin fær hún skráningarnúmerið EA 29. Líklegt þykir að sett hafi verið vél í hana um líkt leyti. Heimild hef ég fyrir því að sett hafi verið í hana vél fyrst árið 1916, það var 16 hestafla Dan, tveggja strokka. Var hún þá ennþá stýrirhúslaus og stýrt með taumum. Sennilega hefur Páll Kroyer smíðað á hana stýrishús eftir aðra endurbygginguna eftir aldamótin 1900. Um árið 1914 er hún komin í eigu Hinna sameinuðu íslensku verslana á Siglufirði. Árið 1923 fær hún skráningarnúmerið SI 2. Frá árinu 1929 er hún í eigu Einars Malmquist á Akureyri, sama nafn og númer. Ný vél (1929) 50 ha. Tuxham vél. Var í eigu Þorsteins Þorsteinssonar og Þorvalds Sigurðssonar á Ólafsfirði frá 12 nóvember 1937, hét þá Christiane EA 615. Sama ár var hún endurbyggð og lengd í þriðja sinn og mældist þá eftir það 25 brl. 14,57 x 4,58 x 1,82 m. Ný vél (1944) 110 ha. Grey vél. Frá 10 janúar 1950 var Hraðfrystihús Patreksfjarðar eigandi Christiane, bar þá skráningarnúmerið BA 7. Ný vél (1952) 150 ha. GM vél. Nafnabreyting fór fram á henni 1952, hét þá Sigurfari BA 7. Ég held að skipið hafi verið selt til Stykkishólms 1957-58, eða gerð út þaðan undir nafninu Vísir SH 7, en verið talið ónýtt og rifið þar á árunum 1960-70.
Kristjana var lengi elsta skipið í íslenska flotanum. Hún var í notkun í meira en eina öld. Nafni sínu hélt hún á níunda tug ára, þó það væri íslenskað, líklega árið 1936.

 Líklegt þykir að Christiane hafi verið smíðuð hjá Skibsbygmester Sören Peter Bech í Rönne á Borgundarhólmi í Danmörku.

Árið 1827 hafði tekið við búi í Dalabæ Þorvaldur Sigfússon. Kvæntur var hann Guðrúnu Þorsteinsdóttur, bónda á Staðarhóli, Ólafssonar. Þau hjón voru héraðskunn að rausn allri og skörungsskap. Var Þorvaldur búhöldur hinn mesti, hafði bátaútveg all mikinn og sótti sjó af kappi. Græddist honum brátt fé. Oft avr Þorvaldur svo birgur af nauðsynjavöru ýmiss konar, að menn sóttu til hans bæði frá Siglufirði og úr Fljótum, þegar skortur var á matvælum. Þorvaldur var oft nemdur hinn ríki, en enginn var hann nurlari eða nánös. Leituðu margir á náðir hans og fæstir án fyrirgreiðslu. Synir Þorvalds voru hinir merkustu menn og urðu sumir víðkunnir. Allir voru þeir tilteknir kraftamenn, ekki síst Björn og Jóhann. Einna fyrirmannlegastur var þó Páll, sem tók við búi föður síns í Dalabæ og hélt þar uppi sömu rausn sem gert hafði garðinn frægan. Þeir feðgar í Dalabæ, Þorvaldur og Páll , létu ekki lengi á sér standa að hefja þilskipaveiðar eftir að sú alda tók að ganga. Um 1860 fengu þeir Jóhann Jónsson skipasmið í Höfn í Siglufirði til að smíða fyrir sig þilbát. Var hann nefndur Úlfur eða Dala-Úlfur. Skipstjóri á Dala-Úlfi var Þorsteinn sonur Þorvalds í Dalabæ. Úlfur mun hafa verið skamma stund notaður. Hann hafði að sjálfsögðu bækistöð á Siglufirði, því að hafnleysa fullkomin er fram af Dalabæ. Á Siglufirði bar Úlfur beinin og var að lokum dreginn þar í sundur. Skemmtileg frásögn er í júníblaði Norðanfara frá 1863 af atviki nokkru, sem hent hafði Dalabæjarfeðga þá um vorið. Hana má sjá hér nokkru neðar undir greininni „Hákarlaskip Dalabæjarfeðga“
Annað þilskip þeirra Dalabæjarfeðga hét Haffrúin. Mun hún hafa verið smíðuð upp úr opnu skipi, en ekki er vitað hver það gerði. Vorið 1864 tók Þorsteinn Þorvaldsson við stjórn Haffrúarinnar, en hætti á Úlfi. Haffrúin fórst þá um vorið í áhlaupaveðri miklu 10 eða 11 apríl. Í sama veðri fórust tvö þilskip önnur, Sókrates frá Skipalóni og Valdimar frá Flatey á Skjálfanda. Brak úr Haffrúnni fannst rekið undir Hraunsmúla á Skaga. Þar rak einnig öll líkin, 11 að tölu. Voru þau flutt að Ketu og jörðuð í einni gröf. Christiane hét dönsk jakt, einsigld, sem Dalabæjarfeðgar keyptu 1863. Hún þótti mesta kolla, stutt, kubbsleg og ákaflega ljót, en var sterklega smíðuð. Vegna þess hve álappaleg jakt þessi var, nefndu margir hana“ofnbrauðið“. Jóhann skipasmiður í Höfn stækkaði Christiane, setti á hana skúta og lotstefni og breytti í tvísiglda skonnortu. Þótti hún batna þá stórlega. Skipstjórar voru ýmsir á Christiane. Einna lengst var með hana á hákarlaveiðum Bessi Þorleifsson á Sölvabakka. Christiane komst að lokum í eigu Gránufélagsins og var þá smíðuð upp í annað sinn. Hún er enn til og á heima á Ólafsfirði. Heldur hún sínu gamla nafni, þó það hafi verið íslenskað (Kristjana), þótt flest annað muni vera nýtt. Ekki munu Dalabæjarmenn hafa eignast fleiri þilskip en þau þrjú sem nú hafa nefnd verið. Þorvaldur ríki Sigfússon varð gamall maður. Hann andaðist 1879, kominn um áttrætt. Tveimur árum síðar lést Páll sonur hans á besta aldri.

Heimildir:
Skútuöldin. ll bindi. Gils Guðmundsson. 2 útgáfa 1977.
Sjóferðaminningar Sigurpáls Steinþórssonar. Sigurjón Sigtryggsson 1981.
Danska skipaskráin frá 1871.
Hagskýrslur um fiskveiðar.
 

Hákarla og síldveiðiskipið Christiane SI 2 á Siglufirði.   (C) Minjasafnið á Akureyri.
 
Ein mastra Jakt, smíðuð í Rönne á Borgundarhólmi á árunum 1860-70. Christiane gæti hafa litið svona út í upphafi.


              Hákarlaskip Dalabæjarfeðga


Í næstliðnum mánuði var þilskipið Úlfur frá Eyjafjarðarsýslu, ásamt fleirum skipum við hákarl, fram á hinu svonefnda fremragrunni, var þá svo mikið harðviðri og gaddur, að allt sem vott var sýlaði og klakaði, meðal annars skipsbáturinn er var bundinn við gafl skipsins og þá orðinn svo áriða þungur, að skipverjar voru á glóðum, um að báturinn þá og þegar mundi kippa gaflinum úr skipinu, rjeðu þó það af, að höggva hann eigi frá sjer, en slitnaði þó frá um síðir. Nokkru eptir þetta hjeldu þeir í land, en tveim dögum síðar fannst báturinn rekin upp á fjöru í Fögruvík hjá Dalalendingu jafn heill og þá hann fór frá skipinu, og hjá honum 18 álna Iangt rekatrje, en skammt frá 3 álna löng lúða. þetta mun fáheyrt dæmi, enda eru þeir feðgar á Úlfsdölum, þorvaldur Sigfússon og Páll sonur hans miklir giptu og ágætismenn.
Fyrir löngu síðan er sagt, að svo miklu spurzt hefir hingað, að skip sjeu komin á allar hafnir hjer við land, og nú seinast eitt skip á Húsavík 24. f. m. eptir 3 vikna ferð að heiman. Jakt 7 lesta stór sem heitir, Christjana og með henni aðeins 3 menn á Siglufjörð, send frá lausakaupmanni Lund í Rönne á Borgundarhólmi til fyrnefndra feðga þorvaldar og Páls á Úlfsdölum, smíðuð í vetur, og sem vera á til Hákarlaveiða.
Norðanfari. 21-24 tbl. 1 júní 1863.
 

Christiane EA 615 á siglingu.                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.



               Fjögur skip stranda
              Einn maður drukknar

Ísafirði, 7. maí. Vélskipin Sigurfari og Björninn frá Ísafirði, Róbert frá Akureyri og Kristjana frá Siglufirði strönduðu á Hornvík í ofsaveðrinu um helgina. Einn maður, Tryggvi Tryggvason frá Haga á Árskógsströnd, drukknaði af Róbert. Lætur eftir sig konu og tvö börn. Annars varð mannbjörg af öllum skipum. Skipverjar á Róbert hröktust á flakinu í sex klukkutíma. Skipin eru brotin nema Kristjana. Kolalaust er hér í bænum, og virðist horfa til vandræða af.


Alþýðublaðið. 7 maí 1923.
 

Christiane EA 615 (Kristjana) í síðustu upphalningunni á Siglufirði árið 1937. Ljósmyndari óþekktur.
 
Christiane EA 615 (Kristjana) við bryggju á Ólafsfirði ásamt Þór EA 553 með fullfermi síldar og bíður löndunar. Ljósmyndari óþekktur.


                         Aflaskip


Í 10. tölublaði sjómannablaðsins Víkings eru birtar myndir og frásagnir af þrem aflahæstu síldveiðiskipunum á s. l. vertíð og skipstjórum þeirra, og enn fremur ósk um það til sjómanna og útvegsmanna að senda Víkingi myndir af skipum sínum o. fl. Ég vil því leyfa mér að senda yður hér með mynd af m/b. Kristjönu, E. A. 615, að stærð 25 smálestir, og af skipstjóra hennar, Ásgrími Sigurðssyni, Grundargötu 22, Siglufirði. M/b. Kristjana hefir verið gerð út á síldveiðar þrjú s. l. sumur með hringnót, með 9 manna áhöfn, og alltaf verið aflahæst af þeim bátum, sem fiskað hafa með því veiðarfæri. Tekur aðeins 250 mál síldar í hverri veiðiferð. Hásetahlutir hafa verið þessi ár: 1942 kr. 4.537,00, 1943 kr. 6.735,00, 1944 kr. 7.760,00. Og svara þessi aflahlutur til þess, að skip, sem fiskar með snurpinót og ekki tekur upp báta, hefði þurft að veiða, til að skila sama hásetahlut: 1942 12.250 mál., 1943 15.200 mál og 1944 17.500 mál síldar. Nú verður að hafa það í huga, að þessi bátur er ekki nema 25 smálestir, og hlýtur því að vakna sú spurning hjá mönnum: Hvað mundi þessi skipstjóri hafa fiskað og hásetarnir fengið mikinn hlut, ef hann hefði verið á stærra skipi með þetta veiðarfæri? Eg held því að það sé tímabært fyrir þá, sem gera út lítil skip á síldveiðar, og þá sérstaklega þá, sem gera út svonefnda „tvílembinga“, að gefa meiri gaum að hringnótinni en til þessa hefir verið gert. Nú hef ég sjálfur gert út slíka báta á síldveiðar og veit því vel hver munur það er.
Hinu verður svo reynslan að skera úr, hvernig hringnótin reynist á stærri skipum. En mín trú er sú, að hringnótin eigi sér framtíð, en að sjálfsögðu með eitthvað breyttri aðferð frá því, sem nú er, þegar farið yrði að nota hana á stærri skipum, t. d. myndi þá þurfa að hafa mótorvél í nótabátnum, eða þá að útbúa skipin sjálf þannig, að hægt væri að taka nótina upp á þau og kasta henni af því sjálfu. Vonandi prófar nú einhver framtakssamur útgerðarmaður hringnótina á t. d. 40—50 smál. stóru skipi, því þó að útgerðarkostnaðurinn verði svipaður og ef til vill ekki rétt að reikna með meira aflamagni en með venjulegri snurpinót, og því útkoman sú sama fyrir útgerðina, þá væri árangurinn samt sá, að mannskapurinn á því skipi fengi langtum stærri hlut, þar sem ekki mundi þurfa meira en 10 manna áhöfn, og tel ég það stóran ávinning, þar sem nú þarf í flestum tilfellum að láta skipshöfninni í té lágmarkskauptryggingu yfir veiðitímann. Gæti svo farið, að það skip þyrfti aldrei að grípa til slíkrar tryggingar, en aftur á móti skip sömu stærðar og með sama aflamagni, sem veiddi með venjulegri snurpinót og fullri áhöfn, gæti þurft að greiða sinni skipshöfn lágmarkskaup. Ennfremur tel ég rétt og sjálfsagt að spara sem mest mannafla við hvaða atvinnurekstur sem er, og jafnhliða því afla meiri tekna hverjum einstaklingi.

Þorsteinn Þorsteinsson.
Sjómannablaðið Víkingur. 1-2 tbl. 1 janúar 1945.


 

 

Flettingar í dag: 2539
Gestir í dag: 278
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 741191
Samtals gestir: 55868
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 20:35:36