02.04.2021 10:35

880. Víðir SU 175. TFPI.

Vélskipið Víðir SU 175 var smíðaður í Simrishamn í Svíþjóð árið 1946. 91 brl. 215 ha. Polar vél. Eigandi var Víðisútgerðin hf (Sigurður Magnússon skipstjóri og útgerðarmaður) á Eskifirði. Ný vél, (1953) 360 ha. Lister vél. Selt 12 janúar 1965, Guðjóni Ólafssyni í Vestmannaeyjum, hét þá Ágústa VE 350. Skipið sökk um 27 sjómílur suðaustur af Dalatanga 11 október árið 1965. Áhöfninni, 11 mönnum var bjargað um borð í vélskipið Friðrik Sigurðsson ÁR 17 frá Þorlákshöfn.


Vélskipið Víðir SU 175 á sundunum við Reykjavík.   (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.

   Þetta er engin aðstaða, þessi ósköp

  bryggjuspjall við Sigurð Magnússon
           skipstjóra á Víði SU 175

Sigurður Magnússon skipstjóri á Víði frá Eskifirði er þjóðkunnur maður. Hann er þaulreyndur síldarskipstjóri, veizlustjóri í skipstjórahófum og formaður skemmtinefndar síldarskipstjóra. Hann er einskonar sjálfseignarbóndi á sjónum. Á sína útgerð sjálfur og stjórnar henni með rausn og skörungsskap, skipi jafnt sem reiðaríi. Ég var á vakki við höfnina nýlega, þegar ég rakst á Sigurð. Hann gekk að mér þar sem ég var að miða myndavélinni á mann, sem bætti dragnótina sína í gríð og ergi, sitjandi á einskonar pramma úti á höfninni. - Af hverju geturðu verið að taka myndir hér? Spurði Sigurður og var greinilega vantrúaður á þessa iðju mína. - O, það er hægt að mynda allan skollan, svaraði ég kotroskinn, en spurði síðan hvort hann ætlaði ekki að fara að veiða síld. - Ja, ég veit ekki. Þetta er nú ekkert, sem komið er af síld ennþá, eitthvað smávegis kannski og í litlum torfum. Ætli það verði nokkuð fyrr en seinnipartinn í mánuðinum. Það er ekki gott að segja. Nú lítur Sigurður á mig og er  íbygginn á svip: Það er verst hvað ég er skolli hræddur við verkföll. Ert  þú það ekki líka? - Nei, nei. Þau vinnast alltaf, eins og þú veizt. - Já, en það er sko ekkert grín fyrir mig að fara að byrja á síld og verða svo allt í einu stopp í verkfalli, kannski nýfarinn út. Nei, mér er næst skapi að hreyfa mig ekkert fyrr en útséð er hvernig allt fer. Það kostar ekki svo lítið að byrja. Aldrei minna en 75000. - Ertu ánægður með aðstöðuna hérna í höfninni? spyr ég og verður litið yfir til nýju vöruskemmunnar og yfir flotann, upp  undir 100 báta. - Þetta er agaleg aðstaða, segir hann og horfir í sömu átt og ég.  - Og svo þetta þarna. Uss. Það er heldur ekki nokkur meining ; að geta ekki haft bátinn við  bryggju þegar eitthvað þarf að gera. Maður er alltaf að skælast utan á 3ja og fjórða bát. Nei, nei.  Þegar maður þarf að gera eitthvað fyrir bátinn sinn, taka dót í land eða setja eitthvað um borð, verður maður að geta verið við bryggju.
Þó að Sigurður sé að mestu fluttur með útgerð sína til Reykjavíkur, er hann samt Austfirðingur í húð og hár og nú kemur aðkomumaðurinn upp í honum: - Já, ég held, að Reykvíkingar ættu að vara sig á því, að reka  ekki flotann af höndum sér nú eins og um árið. Þetta hérna er ekki nokkur höfn eins og hún er núna, og hvar stæðu þeir svosem ef við færðum þeim ekki síldina og atvinnuna. Ég er nú hræddur um að það hefði einhversstaðar orðið þröngt í búi, ef síldin hefði ekki komið til. Nú sýnir Sigurður á sér fararsnið, en ég bið hann að sitja fyrir áður. - Qg hvað ætlarðu svosem að gera með mynd af mér?  spyr hann, en stingur svo upp á að hann stilli sér þannig upp að stefnið á Víði verði í bakgrunni. Þetta var því miður óframkvæmanlegt, vegna þess að það var beint í sólina, en við sættumst á það að lokum að hafa bara einhverja aðra fallega báta í bakgrunninum og urðu fyrir valinu ekki ómerkari bátar en aflaskipið Grótta og Húni II. Björns á Löngumýri.  

Alþýðublaðið. 11 október 1963.


Víðir SU 175 í heimahöfn, Eskifirði.                                                  (C) Vilberg Guðnason.

  Vélbáturinn Ágústa VE 350 hætt kominn
                   við Surtlu í fyrrinótt

          Sogaðist á dularfullan hátt að                                   gosstöðvunum

Vélbáturinn Ágústa VE 350 var mjög hætt kominn við nýju gosstöðvarnar hjá Surtsey í nótt, þar sem hann var á veiðum. Flæktist nót bátsins í skrúfuna og sogaðist báturinn síðan á lítt skiljanlegan hátt að gosstöðvunum og tók þar niðri. Fréttir af atburði þessum eru enn óljósar og hvílir yfir þeim dula. Þeir, sem í þessu lentu, verjast allra frétta, og skýrist málið sennilega ekki til fulls fyrr en við væntanleg sjóþróf. Samkvæmt upplýsingum þeim, sem Tíminn aflaði sér í kvöld hjá mörgum aðilum, varð atburðurinn með eftirfarandi hætti.:
Sjómenn hafa tekið eftir því, að síld hafði þjappazt mikið saman þarna við gosstöðvarnar og hafði Ágústa farið þangað á veiðar í nótt. Var nýbúið að kasta er það óhapp varð, að nótin flæktist í skrúfu bátsins og tók hann strax að reka að Surtlu, þ.e. nýju gosstöðvunum. Er báturinn nálgaðist eyjuna, tók að gæta mikils sogs, sem hreif bátinn með sér nær henni, þar til hann tók niðri á rifi. Var báturinn þá svo nærri, að gosmökkurinn lék um hann. Einhvern veginn losnaði báturinn þó af sjálfsdáðum af rifinu og rak nú í átt að Surtsey sjálfri. Var báturinn kominn mjög nærri henni, er vélbáturinn Ófeigur ll. kom á vettvang og dró Ágústu út á frían sjó. Var þá Lóðsinn úr Vestmannaeyjum einnig kominn til aðstoðar. Var froskmaður þar um borð, sem kafaði þegar og skar nótina úr skrúfu Ágústu, sem hélt síðan rakleiðis áfram á veiðar. Ekki reyndist unnt að ná sambandi við Ágústu í kvöld og má raunar segja um alla aðra, sem voru þarna á vettvangi, að þeir verjast allra frétta. Eftir upplýsingum Tímans, hefur hér verið um mjög alvarlegan atburð að ræða, sem þó giftusamlega rættist úr. Lausafregnir herma, að aðgerðir þær, sem áður getur, hafi staðið yfir í 6 klukkustundir og hafi mikil spenna hvílt yfir öllu, meðan á þeim stóð, því tæpt hafi staðið um björgun bátsins.

Tíminn. 25 júní 1965.


Sigurður skipstjóri á Víði á bryggjuspjalli við blaðamann Alþýðublaðsins.


Víður SU 175 með fullfermi við bryggju í Neskaupstað.                    (C) Sverrir Einarsson.

       Vélskipið Ágústa sökk út af                                 Austfjörðum

Í gærmorgun sökk vélskipið Ágústa V.E. 550 suðaustur af Gerpi á leið til lands með síldarfarm. Skipið var áður Víðir S.U. 175 eign hins kunna aflamanns Sigurðar Magnússonar á Eskifirði. Hafði hann fyrir nokkru selt skipið núverandi eiganda Guðjóni Ólafssyni í Vestmannaeyjum og skipstjóra á skipinu og var það þá skýrt upp. Mannbjörg varð og náðust skipverjar óhraktir. Það var vélskipið Friðrik Sigurðsson frá Þorlákshöfn sem bjargaði mönnunum. Blaðið náði í gær tali af báðum skipstjórunum, bæði hins sokkna skips og þess er bjargaði. Í gærkvöldi kl. 21. komu skipbrotsmenn til Reykjavíkur með flugvél frá Egilsstöðum, en þeir höfðu áður verið fluttir til Seyðisfjarðar. Fréttamaður blaðsins náði þá sem snöggvast tali af Guðjóni Ólafssyni skipstjóra á Ágústu. "Við vorum staddir 26-27 mílur SA af A frá Dalatanga er skyndilega kom leki að skipinu kl. rúmlega 8 í morgun. Við reyndum að dæla í 20 mínútur, en síðan lagðist skipið á hliðina á einni og hálfri mínútu. Þá var ekki annað hægt að gera en flýta sér í bátana, en áður höfðum við náð sambandi við vélskipið Friðrik Sigurðsson og hafði honum tekizt að miða okkur. Við fórum í tvo gúmmíbáta og liðu ekki nema 15-20 mínútur þar til okkur var bjargað. Veður var 5-6 vindstig og kröpp kvika. Við vorum 11 um borð og í sumar höfum við fengið 25 þúsund mál og tunnur. Í þessari ferð vorum við með 700 tunnur í lestum. Guðmundur Friðriksson skipstjóri á Friðriki Sigurðssyni frá Þorláksihöfn sagði svo frá í símtali við blaðið, en hann var þá staddur á Seyðisfirði.
Klukkan mun hafa verið um 10 þegar við björguðum, skipverjum af Ágústu. Við höfðum heyrt frá þeim kallið og miðuðum þá strax og þegar við fengum skipið í ratsjána vorum við fjórar mílur í burtu. Þegar tvær mílur voru eftir hvarf skipið, en áður höfðum við heyrt að þeir væru að fara í bátana og skipstjórinn þá einn eftir um borð að senda síðasta kall. Það var dimm þoka þarna um hálfrar mílu skyggni eða minna, en við komum beint í brakið og fundum strax gúmmbátana. Mennirnir voru óhraktir. Við fluttum þá svo hingað til Seyðisfjarðar. Frekari upplýsingar er ekki að hafa um atburð þennan fyrr en sjóprófum er lokið í málinu.

Morgunblaðið. 12 október 1965.




Flettingar í dag: 360
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 723706
Samtals gestir: 53706
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 11:45:26