06.11.2023 11:50

2883. Sigurður VE 15. TFMR.

Uppsjávarveiðiskipið Sigurður VE 15 var smíðaður hjá Celiktrans Deniz Insaat Ltd í Istanbúl í Tyrklandi árið 2014. 3.707 brl, 1.112 nt. 6.120 ha. Wartsilä 9L32, 4.500 Kw. 80,3 x 17,0 x 9,6 m. Smíðanúmer CS 44. Norska útgerðarfélagið Magnarson A/S í Torangsvaag, samdi um smíði þessa skips, en í ágúst 2013, gekk Ísfélagið h.f. í Vestmannaeyjum  inn í kaupin. Mun hafa heitið Magnarson í upphafi smíðatíma. Sigurður kom til heimahafnar sinnar, Vestmannaeyja í júlí 2014. Sigurður VE 15 er mikið og öflugt uppsjávarveiðiskip og fallegt eins og systurskip hans hér á landi.
 

Sigurður VE 15 við Grandagarð í Reykjavíkurhöfn.             (C) Þórhallur S Gjöveraa.
 
Sigurður VE 15. Myndin sennilega tekin við komu skipsins til Vestmannaeyja. Ljósmyndari óþekktur.


                                            Nýr Sigurður VE
   Meðal öflugustu uppsjávarskipa flotans

 Í júlímánuði síðastliðnum bættist í flota landsmanna nýtt og glæsilegt uppsjávarskip þegar Ísfélag Vestmanneyja tók á móti Sigurði VE-15 sem smíðaður var í Tyrklandi. Fyrir tveimur árum bættist annað nýtt uppsjávarskip í flota fyrirtækisins þegar Heimaey VE-1 kom til Eyja og með komu Sigurðar VE hefur fyrirtækið lokið stórum áfanga í endurnýjun skipastóls þess. Að hætti Eyjamanna var mikið um dýrðir þegar Sigurður VE lagðist að bryggju enda mun skipið gegna veigamiklu hlutverki í hráefnisöflun fyrir vinnslur Ísfélagsins í Vestmanneyjum og á Þórshöfn. Sigurður VE-15 er sínu stærri en Heimaey VE eða 80 metrar að lengd og 17 metrar á breidd. Skipið er búið öllum besta búnaði til uppsjávarveiða og getur það að hámarki borið um 3000 tonna afla. Öflugt skjókælikerfi er í skipinu og 12 sjókælitankar. Skipið er knúið 4500 kW aðalvél. Vistarverur eru fyrir fyrir 22 manna áhöfn í 15 klefum og er vel búið að áhöfn hvert sem litið er í skipinu, hvort heldur er í vistarverum eða vinnurýmum. Hörður Már Guðmundsson er skipstjóri á Sigurði VE en hann var áður með Þorstein ÞH. Hörður hafði nýlokið fjórða túrnum á makríl frá því skipið kom, sem jafnframt var sá stærsti hvað aflamagn snertir eða um 800 tonn. „Það gekk mjög vel í þessum túr og við fengum stórt kast í restina á túrnum en alla jafna viljum við vera með um 5-600 tonn í einu, sem er hæfilegur skammtur fyrir landvinnsluna að ráða við,“ segir Hörður Már en skipið landaði úr sínum fyrsta túr á Þórshöfn og síðan næstu þremur förmum í Vestmannaeyjum.
Skipstjórinn segir sjókælikerfið meðal þess sem skipi Sigurði VE framar öðrum uppsjávarskipum. „Sjókælikerfið er mjög stórt og öflugt en síðan er önnur nýlunda að skipið er hannað með það fyrir augum að pokinn er ekki tekinn fram með síðunni eins og hefðbundið er á uppsjávarskipunum heldur að skutnum þar sem eru krani og dælubúnaður. Menn hafa verið að reyna þetta í skipum hér í flotanum en Sigurður VE er hannaður með þetta fyrirkomulag sérstaklega fyrir augum og hefur virkað vel í þessum fyrstu túrum,“ segir Hörður Már og bætir við að stærsta atriðið við nýja skipið sé auðvitað stærð þess. „Það er alls staðar mikið rými og skipið er á allan hátt mjög öflugt.“ Hörður Már reiknar með að vera á makrílveiðum fram yfir mánaðamótin en síðan taka við síldveiðar og loðnuveiðar í vetur. Í flota Ísfélags Vestmanneyja eru nú fjögur uppsjávarskip, þ.e. Álsey VE og Júpíter ÞH, auk Sigurðar VE og Heimaeyjar VE. Ísfélagið gerir einnig út togskipin Dala-Rafn VE og Suðurey VE. Fyrr á þessu ári seldi Ísfélagið tvö uppsjávar skip til Grænlands, þ.e Guðmund VE og Þorstein ÞH. Ísfélagið greiðir á þessu ári hálfan annan milljarð í tekjuskatt og veiðileyfagjöld og hefur félagið sagt í tilkynningum að endurnýjun í skipaflotanum sé liður í að auka hagræðingu til að mæta þessum kostnaði.

Ægir. 7 tbl. 1 júlí 2014.

Flettingar í dag: 1390
Gestir í dag: 234
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 740042
Samtals gestir: 55824
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 12:49:54