14.11.2023 18:17

V.b. Hallvarður Súgandi ÍS 335.

Vélbáturinn Hallvarður Súgandi ÍS 335 var smíðaður á Ísafirði árið 1908. 6,28 brl. 4 ha. Alpha vél. Eigendur voru Helgi Sigurðsson formaður á Suðureyrarmölum og Guðmundur Ásgrímsson bóndi á Gelti í Súgandafirði frá sama ári. Helgi var formaður á bátnum og var hann jafnan gerður út frá Suðureyri. Árið 1914 var báturinn ennþá í eigu þeirra Helga og Guðmundar. Engar upplýsingar hef ég um afdrif hans.
Því hefur verið haldið fram að báturinn á myndinni væri Sigurvon ÍS 304 og jafnvel að áhöfn Sigurvonar sé þarna um borð. Það gæti alveg verið, en margar af þessum gömlu heimildum eru mjög misvísandi og oft beinlínis rangar. Betra væri að hafa það sem sannara reynist ef það væri einhver möguleiki.

Úr Súgandafirði (Vestur-Ísafjarðarsýslu) er „Þjóðviljinn“ ritaði 1. nóv. þ. ,á.: „Árið, sem nú er að líða, hefir verið erfiðleikaár hér og bera þó ekki húsabyggingarnar vott um það, því að bæði hefir Friðbert Guðmundsson og Kristján Kristjánsson byggt myndarleg hús á Suðureyri sem og prestur á Stað. — Auk þess hafa verið byggð, og eru í byggingu, fjögur smærri íbúðarhús. Hvað afla snertir, aflaðist fremur vel á aðalvertíðinni (vorvertíðinni), en útkoman hjá sjómönnum þó léleg, af því að þeir seldu aflann blautan, og munu þeir ekki brenna sig á því soði aptur. Vikan, sem leið, fyrsta vetrarvikan, var einstök fiskivika. Af átta vélabátum söltuðu þá þrír úr nálega þrjátíu tunnum hver,’’og allir fiskuðu þeir vel. Heyfengur í sumar var bærilegur, en illviðriskastið, sem byrjaði með oktober, sló óhug á]menn, því að þá .gjörði víðast jarðlaust. Svo var fannfergi mikið. ,Og þann snjó er ekki farið að leysa enn“

Þjólviljinn + Þjólviljinn ungi. 24 desember 1909.
 

Vélbáturinn Hallvarður Súgandi ÍS 335 á Súgandafirði, sennilega árið 1910. (C) Byggðasafn Vestfjarða.



                            Fyrstu vélbátar Súgfirðinga

Fyrstu fimm vélbátarnir sem Súgfirðingar eignuðust voru í fyrstu opnir að öðru leyti en því að þiljað var að nokkru yfir barka og skut. Þilfar var svo sett í suma þessara báta síðar og vélbátarir sem Súgfirðingar eignuðust á árunum 1908 og 1909 voru allir með þilfari en dráttarrúm þó opið.
Sumarið 1908 voru tveir vélbátar keyptir til Suðureyrar og höfðu báðir verið smíðaðir á Ísafirði. Annar þeirra fékk nafnið Hallvarður Súgandi og eigendur hans voru Helgi Sigurðsson formaður á Suðureyrarmölum og Guðmundur Ásgrímsson, bóndi á Gelti. Hinn bátinn keypti Kristján Albertsson, bóndi á Suðureyri, í félagi við mág sinn, Þórð Þórðarson á Suðureyri. Bátinn nefndu þeir Frey og varð Þórður formaður á honum. Þórður var þá á 33. Aldursári og hafði bæði verið formaður á vélbátum og skipstjóri á þilskipi í eigu Ásgeirsverslunar á Ísafirði. Haustið 1908 voru vélbátar Súgfirðinga orðnir sjö eins og hér hefur nú verið rakið. Flestir voru þeir um það bil fjórar lestir að stærð og allir með fjögurra hestafla vél. Á næstu árum hélt vélbátunum áfram að fjölga. Veturinn 1912-1913 gengu 11 heimabátar til veiða frá Suðureyri og ennfremur 3 bátar frá Dýrafirði. Að minnsta kosti tveir formannanna á Dýrafjarðarbátunum voru þó búsettir á Suðureyri. Vorið 1913 reru héðan 17 bátar og voru að jafnaði 6 menn á hverjum bát. Af þessum 102 sjómönnum voru 75 búsettir í Súgandafirði en 27 annars staðar, flestir í Dýrafirði. Fáum árum síðar komst fjöldi heimabáta, sem reru frá Suðureyri, yfir 20 og flestir munu þeir hafa orðið 22. Nokkrir aðkomubátar gengu þá líka héðan til veiða og munu hafa verið 6-8 þegar þeir voru flestir á öðrum áratug 20. aldar.
Á fyrstu árum vélbátaútgerðarinnar voru bátar sem reru frá Suðureyri að vetrinum jafnan settir á degi hverjum þegar komið var úr róðri og þá með öllum afla. Á vorin og alveg fram á haust lágu þeir hins vegar í legufærum og þá var aflinn fluttur í land á litlum árabátum. Á vélbátunum komust menn í mun fleiri róðra en áður hafði verið og aflinn varð meiri í hverri veiðiferð. Þessir bátar færðu eigendum sínum því mun meiri arð en árabátarnir höfðu gert þó að rekstrarkostnaðurinn hækkaði verulega. Um hlutaskipti á fyrstu árum vélbátaútgerðar frá Suðureyri ritar Kristján G. Þorvaldsson á þessa leið:
Á vélbátum þessum var venjulega sex manna áhöfn eins og verið hafði á sexræðingunum en skiptin urðu önnur. Í Súgandafirði voru átta staða skipti á sexræðingum. Voru tveir hlutir kallaðir dauðir hlutir en hinir mannahlutir, einn til hvers skipverja. Af dauðu hlutunum fékk formaður hálfan hlut en útgerðin einn og hálfan. Frádráttur var þá ekki nema keypt beita og salt þegar saltað var. Skipti á vélbátum urðu þau í Súgandafirði að skipt var í tíu staði með sex manna áhöfn og olía, salt og beita tekið af óskiptu. Flestir formenn tóku heilan hlut sem formannshlut í stað hálfs áður. Með þessum skiptum varð hlutur háseta mun minni en áður, miðað við aflamagn, en miklu meiri en áður sökum meiri afla.

 

Sögur & sagnir Suðureyri.

 

 

Flettingar í dag: 1049
Gestir í dag: 207
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 739701
Samtals gestir: 55797
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 09:20:31