19.11.2016 07:53

B. v. Guðmundur júní ÍS 20. LBQG. / TFJD.

Guðmundur júní ÍS 20 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1925 fyrir h/f Belgaum í Hafnarfirði. Hét fyrst Júpíter GK 161. 394 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið var selt 14 desember 1929, h/f Júpíter í Hafnarfirði, (Tryggva Ófeigssyni), sama nafn og númer. 9 apríl árið 1948 flytur Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður, útgerð sína (h/f Júpíter) til Reykjavíkur og fær þá togarinn skráningarnúmerið RE 61. Skipið var selt 21 ágúst 1951, Togaraútgerð Dýrfirðinga h/f á Þingeyri, hét Guðmundur júní ÍS 20. 21 júní árið 1955 eignast Einar Sigurðsson útgerðarmaður í Reykjavík togarann, sama nafn og númer, með heimahöfn á Flateyri. Sumarið 1960 stóð til að breyta Guðmundi júní í flutningaskip, hann var þá í eigu bræðranna, Hákonar og Magnúsar Kristinssona í Njarðvík sem áttu Vélsmiðju Njarðvíkur. Skipið hafði þá legið lengi í Reykjavíkurhöfn. Togarinn brann í Njarðvíkurhöfn, 18 maí 1963, og talinn ónýtur 29 júlí sama ár. Flak skipsins var síðan dregið til Ísafjarðar og notað sem brimbrjótur við Skipasmíðastöð Marselíusar. Endalok togarans urðu þau að hann var notaður í uppfyllingu á tanganum á Ísafirði.


Guðmundur júní ÍS 20 að veiðum.                                                            (C) Samúel Arnoldsson.


Guðmundur júní ÍS 20 í Hafnarfjarðarhöfn.                                                 Ljósmyndari óþekktur.


Guðmundur júní ÍS 20.                                                              (C) Samúel Arnoldsson.


Stjórnpallur skipsins ein íshella að sjá. Færeyingurinn Leif Berg er í glugganum.                                                                                                             (C) Samúel Arnoldsson. 


Flak togarans á Ísafirði. Sjá má í flak Notts County GY 673.    Ljósmyndari óþekktur.


Stjórnpallur togarans.                                                (C) Sæmundur Þórðarson.


Guðmundur júní ÍS 20.                                             (C) Sæmundur Þórðarson.


Flak togarans á Ísafirði.                                                                          Ljósmyndari óþekktur. 

Enn í dag sér vel í flak skipsins í uppfyllingunni.                               (C) Sæmundur Þórðarson. 

Set hér inn mynd af líkani sem Sæmundur Þórðarson á Suðureyri sendi mér fyrir löngu síðan. Það er spurning hvort hugmyndir manna hafi verið þær að gera skipið upp eins og myndin sýnir. 

           Útgerðin hvarf á einni nóttu

Athafnamaðurinn Einar Sigurðsson, oft nefndur Einar ríki, lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands vorið 1924 og um haustið hóf hann eigin atvinnurekstur. Vestmannaeyjar urðu of litlar fyrir athafnasemi Einars og flutti hann til Reykjavíkur 1950 og var þar með starfsemi í viðbót við reksturinn í Eyjum. Þegar Einar hafði mest umleikis í sjávarútvegi var hann með útgerð og fiskvinnslu í Vestmannaeyjum, Keflavík, Reykjavík á Flateyri og víðar. Allt voru þetta einkafyrirtæki og var Einar oft með milli fimm og sexhundruð manns í vinnu. Það var hins vegar mikið áfall fyrir atvinnulífið á Flateyri þegar Einar ákvað í einni svipan að fara með útgerð togarana Guðmund Júní og Gylli suður og segja má að hann hafi þá skilið eftir sviðna jörð á Flateyri. Heimamönnum var talin trú um að nýr togari, Sigurður sem var smíðaður í Þýskalandi fyrir Ísfell á Flateyri sem var fiskverkunarfyrirtæki í eigu Einars , kæmi til Flateyrar, enda hlaut hann einkennisstafina ÍS-33. Hann var hins vegar aldrei gerður út frá Flateyri heldur frá Reykjavík enda var hann síðar skráður í Reykjavík og hlaut þá einkennisstafina RE- 4. Hann var í eigu Ísfells til 1984. Þá eignast Hraðfrystistöð Vestmannaeyja hann og 1992 verður hann eign Ísfélagsins þegar Hraðfrystistöðin og Ísfélagið sameinast. Þá fær hann einkennisstafina VE- 15. En Einar átti útgerðina, og hvað gátu heimamenn á Flateyri þá gert? Einar gegndi mörgum trúnaðarstörfum og var í forystu á sviði útgerðar og fiskvinnslu. Hann var einn af stofnendum og lengi í forystu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, í stjórn skipafélagsins Jökla, Tryggingamiðstöðvarinnar, Umbúðamiðstöðvarinnar, Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar í Reykjavík og stjórnarformaður Coldwater í Bandaríkjunum.

Aldan. 4 apríl 2015. 

  35 ára gömlum togara breytt í flutningaskip?

Vestur á Grandagarði er nú verið að kanna möguleikana á því að breyta gömlum togara í flutningaskip. Er skrokkur skipsins sagður svo góður, að ófært sé að órannsökuðu máli, að láta skipið fara í brotajárn, en það virtist yfirvofandi. Hér er um að ræða togarann Guðmund Júní frá Flateyri. Hann er búinn að liggja bundinn vestur við Grandagarð langa lengi. Var talið að togarans biði ekki annað en að verða dreginn til útlanda og rifinn í brotajárn. Nú er búið að rífa keisinn og reykháfinn og taka gufuketilinn úr skipinu. Menn eru að vinna í skipinu við að breyta því. Það er Vélsmiðja Njarðvíkur, sem bræðurnir Hákon og Magnús Kristinssynir veita forstöðu, sem hér er að verki. Er hugmyndin að breyta Guðmundi Júní í flutningaskip. Verður vélin tekin úr skipinu og yfirbygging þess færð aftast á skipið og sett í það díselvél. Var á smiðum að heyra, að ástæða væri til þess að ætla að þetta heppnaðist, því svo traustbyggður er þessi gamli togari, að ekkert mun þurfa að styrkja skrokk hans vegna þessarar breytingar. Gert er ráð fyrir að skipið geti þá lestað alls um 500 lestum af vörum. Það verður að heita má allt ein lest stafna á milli, líkt og litlu saltflutningaskipin dönsku eða hollenzku, sem hér hafa verið á ferðinni. Togarinn Guðmundur Júní hét áður Júpiter. Hann var byggður í Bretlandi árið 1925.

Morgunblaðið. 2 júlí 1960.                                                     
Flettingar í dag: 440
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 767
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 718261
Samtals gestir: 53384
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 11:17:55