28.11.2016 09:41

B. v. Ingólfur Arnarson RE 201. TFXD.

Ingólfur Arnarson RE 201 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. 654 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipinu var hleypt af stokkunum hinn 18 maí árið 1946 og kom til landsins 17 febrúar árið 1947, sá fyrsti af 32 Nýsköpunartogurum sem ríkisstjórn Ólafs Thors samdi um smíði á í Bretlandi árið 1945. Ingólfur var jafnframt fyrsta fiskiskip í heiminum sem fékk ratsjá að talið er. Skipið var endurmælt 5 nóvember 1971, mældist þá 610 brl. 26 júní 1972 var óskað eftir nafnbreytingu á skipinu, hét þá Hjörleifur RE 211. Togarinn var seldur í brotajárn til Spánar og tekinn af skrá 3 desember árið 1974.

121. Ingólfur Arnarson RE 201.    (C) Snorri Snorrason. Úr safni Hauks Sigtryggs Valdimarssonar.

Það var bjart yfir Reykjavík í gær þegar Ingólfur Arnarson, fyrsti nýsköpunartogarinn sigldi fánum skreyttur inn á höfnina. Forsjónin hafði sjeð fyrir því, að Reykjavík gat tjaldað sínu fegursta skrúði, þegar hún fagnaði komu hins glæsilega skips, sem ber nafn landnámsmanns hennar. Það var tilkynnt í hádegisútvarpinu í gær, að Ingólfur Arnarson myndi koma á ytri höfnina kl 12.30. En klukkan 14,30  myndi skipið sigla inn í höfnina og leggjast við hafnargarðinn, þar sem fram átti að fara opinber athöfn í sambandi við komu skjpsins. Á laugardagskvöld var ekki búist við skipinu hingað fyrr en í fyrsta lagi á mánudagskvöld, eða jafnvel ekki fyrr en á þriðjudag. En ferðin heim hafði gengið miklu betur en ráðgert hafði verið, enda var gagnhraði skipsins rúmar 12 sjómílur á klst. að meðaltali á heimleiðinni.
Strax eftir kl. 1 fóru bæjarbúar að streyma niður að höfn, því allir vildu sjá togarann, sem svo mikið orð hafði farið af. Var Ingólfsgarður og bryggjan við hann brátt þjettskipað fólki. Laust fyrir kl. 12,30, sjest til Ingólfs Arnarsonar, þar sem hann siglir fánum skreyttur inn á milli eyjanna. Var það fögur sjón. Ingólfur Arnarson flautar, heilsar Reykjavík. Þegar hann var kominn innarlega á Engeyjarsund kemur flugvjel sveimandi og flýgur nokkra hringi yfir skipið. Það var fyrsta árnaðaróskin frá Reykjavík. Ingólfur Arnarson legst nú á ytri höfnina og lóðsbátur og tollbátur fara út. Aðeins 50-60 faðma frá Ingólfi Arnarsyni, þar sem hann staðnæmdist á ytri höfninni, var skip á síldveiðum, nýbúið að kasta nótinni og voru skipverjar að draga nótina inn. Byrjuðu þeir að háfa inn gott kast í sama mund og Ingólfur stöðvaðist. Var þetta skemtileg aðkoma.


Fyrsti landnemi nýsköpunar á ytri höfninni.                                      Ljósmyndari óþekktur.

Kl. stundvíslega 14,30, siglir Ingólfur Arnarson inn í höfn og legst við hafnargarðinn fyrir framan hafnarhúsið. Þar var mikill mannfjöldi saman kominn á uppfyllingunni, á nærliggjandi skipum, á húsþökum og yfir höfuð hvar sem hægt var að fóta sig. Kl. 4 hófst móttökuathöfnin um borð í skipinu og var henni útvarpað. Fyrst ljek lúðrasveit Reykjavíkur undir stjórn Albert Klahn minni Ingólfs: Lýsti sól, stjörnustól. Þessu næst flutti Jóhann Þ. Jósepsson sjávarútvegsmálaráðherra ræðu. Hann hóf mál sitt á þessa leið: "Þessi fagri febrúardagur markar tímamót í sögu íslenskrar stórútgerðar, og er merkisdagur í sögu þessarar þjóðar. í dag fagnar höfuðstaður landsins, fagnar þjóðin öll, komu þessa skips, sem er hið fyrsta af 32 samskonar botnvörpuskipum, sem fyrverandi ríkisstjórn ákvað í ágústmánuði 1945 að láta smíða fyrir íslendinga í breskum skipasmíðastöðvum. Vjer bjóðum hjer með skip og skipshöfn hjartanlega velkomna heim"Því næst rakti ráðherrann í stórum dráttum aðdraganda togarakaupanna, sem var stærsti þátturinn í nýsköpun atvinnulífsins, sem fyrverandi ríkisstjórn beitti sjer fyrir. Þetta væri fyrsti togarinn af 32, sem íslendingar sömdu um smíði á í Bretlandi. Síðan sagði ráðherrann: "íslendingar. Öld fram eftir öld bjuggu landsmenn við skarðann hlut hvað skipakost snerti en sóttu samt fast sjóinn og færðu björg í bú. Skráðar eru sögur og þjóð- inni kunnar um dáðrakka drengi og hugumprúða, sem buðu höfuðskepnunum byrginn á opnu skipunum sínum á þeim tímum sem skáldið hafði í huga er kvað: Fljúga stórir út frá Eyjum áragammar á vastir framla innan frá landi með öllum söndum út er róið á þrútinn sjóinn. Þótt mörg sje sagan kunn um baráttu og fórnfúst starf feðra vorra og þeirra feðra á þessu sviði eru þær þó fleiri, sem hann einn veit sem alt sjer og yfir öllu vakir. í dag minnumst vjer þeirra sem í því aldalanga stríði stóðu með þakklátum huga. Og þá ber oss líka að minnast þeirra stórhuga athafnamanna, sem á liðnum áratugum hafa staðið í fylkingarbrjósti í sjávarútvegsmálum vorum, þeirra, sem hófu þilskipaútgerð og þeirra, sem síðan rjeðust í það stórræði að kaupa gufutogara til landsins, ennfremur þeirra, sem bygt hafa upp vjelbátaútgerð landsins á hverjum stað.


Ingólfur Arnarson RE 201 leggst við nýju uppfyllinguna við Miðbakka Reykjavíkurhafnar. Mikill fjöldi fólks var samankominn á hafnarsvæðinu að fagna komu skipsins.              (C) Friðrik Clausen.

Við hvert framfaraspor í þessum efnum hefur stórhugur og bjarsýni athafnamanna landsins verið að verki. En einkum og alveg sjerstaklega verða oss í dag hugstæð afrek og fórnir sjómanna vorra, sem á undanförnum stríðs og hættutímum öfluðu þjóðinni flestra þeirra gæða, sem hún nú nýtur, og þeirra verðmæta, sem hafa gert það fjárhagslega kleift að koma fótum undir nýsköpun atvinnuvega þjóðarinnar. Þegar vjer nú lítum þetta hið mikla og fríða skip, sem að bestu manna yfirsýn er talið standa í fremstu röð botnvörpu skipa, eins og þau gerast best meðal annara þjóða og jafnvel framar, er ánægjulegt til þess að hugsa, að á þessu og næsta ári á þjóðin von á því að eignast yfir 30 jafn mikil og góð skip, sem munu dreifast á helstu útgerðarstaðina hjer við land. Þessu skipi hafa forráðamenn höfuðstaðarins valið nafn landnámsmannsins gifturíka, sem trúði á handleiðslu æðri máttarvalda og reisti hjer byggðir og bú samkvæmt þeirri trú sinni. Megi gifta landnámsmannsins fylgja þessu fríða skipi og hugarfar hans marka þau spor sem vjer stígum til framfara og viðreisnar í þjóðlífi voru. í lok ræðu sinnar afhenti ráðherrann borgarstjóranum í Reykjavík skipið til eignar og umráða til handa Reykjavíkurbæ. "Megi því jafnan vel farnast og verða landi og þjóð til bjargræðis og blessunar", sagði ráðherrann. Lúðrasveitin ljek "Íslands Hrafnistumenn".
Gunnar Thoroddsen borgarstjóri tók næst til máls og birtist ræða hans hjer í heild:
 Reykvíkingar og aðrir áheyrendur! í dag hefur mikill viðburður gerst í sögu Reykjavíkur og landsins alls. Fullkomnasta fiskiskip þjóðarinnar hefur lagst við landfestar á Íslandi. Það er fyrsta skip hins fyrirheitna lands nýsköpunar atvinnulífsins og munu mörg eftir fara. Höfuðborg landsins á þetta skip og mun gera það út. Reykjavík, heimili þessa fyrsta landnema nýsköpunarinnar, Ingólfs Arnarsonar, eins og það var Reykjavík, sem var heimili og aðsetur fyrsta landnámsmannsins, Ingólfs Arnarsonar.


Gunnar Thoroddsen borgarstjóri heldur ræðu af brúarvæng Ingólfs sem var jafnframt útvarpað til landsmanna.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur. 

Fiskveiðar hafa lengst af verið undirstaða Reykjavíkur og aðalatvinnugrein. En tækin hafa tekið miklum breytingum. Hinir opnu árabátar voru lengi lífsbjörg Reykjavíkur. Síðar komu þilskip og loks togarar. Eftir súðbyrðingsför kom hinn seglprúði knörr, eftir seglskipið vjelknúin skeið, yrkir Örn Arnarson. Þessar gjörbyltingar í útveginum hafa orðið á skömmum tíma. Og nú þegar ný atvinnubylting er hafin með komu nýtísku togarans Ingólfs Arnarsonar, hljótum vjer að minnast með virðingu og þökk brautryðjendanna, hinna framtakssömu forystu- og athafnamanna, er skynjuðu andardrátt hinnar nýju tækni og færðu þannig þjóðinni aukinn afla og afköst. Nú er nýr þáttur að hefjast í sögu íslenskrar útgerðar. Togaraflotinn er að endurnýjast. Til viðbótar og í stað gamalla skipa koma nú þrír tugir nýrra og fullkominna botnvörpuskipa. Þau verða hraðskreiðari og fengsælli en hin eldri, og hollari vistarverur fyrir sjómennina. Þau eru atvinnuleg og fjelagsleg framför. En það hefst einnig nýr þáttur í sögu Reykjavíkur á marga lund. Þetta er til dæmis í fyrsta sinn, sem bæjarfjelagið sjálft ræðst í rekstur útgerðar. Reynslan mun sýna, hvort sú tilhögun hentar betur eða verr. Skoðanir eru skiptar um ágæti opinbers atvinnureksturs. En það segi jeg óhikað, að meginsjónarmið vort hlýtur að vera það, að fá atvinnutækin og halda þeim úti. Óskir allra flokka munu sameinast í því að árna hinni nýju bæjarútgerð Reykjavíkur heilla og velgengni. Forgöngumönnum þessa máls, fyrrverandi ríkisstjórn og nýbyggingarráði, og ekki síst sjávarútvegsnefnd og útgerðarráði Reykjavíkur, vil jeg flytja alúðar þakkir Reykjavíkurborgar. En það eitt er ekki nóg að eignast listaskip, sem líklegt er til mikilla afreka. Þótt tæknin muni komin á það stig að geta siglt mannlausum skipum eftir áætlun, verða fiskveiðar ekki ennþá a. m. k. stundaðar án mannafla. Þjóð vor er svo lánsöm að eiga stóra stjett karl menna, sem sækja sjóinn fast og hræðast hvergi holskeflur Ægis eða dutlunga Ránardætra. Sjómenn íslands hafa sannað öllum heimi kjark sinn og karlmannslund á árum styrjaldarinnar. Þeir munu ekki reynast deigari á tímum heimsfriðar í glímu sinni við hafið. Þeir eiga kröfu til þess, að þjóðin búi þeim í hendur örugg skip með góðum aðbúnaði fyrir þá sjálfa. Skipið er tæki, fiskimaðurinn stjórnandi þess.


Ingólfur Arnarson RE 201 nýsmíðaður.                                                              Ljósmyndari óþekktur. 

Örn Arnarson segir í hinu snjalla sjómannakvæði sínu: Hvert eitt fljótandi skip ber þó farmannsins svip, hann er ferjunnar andi og hafskipsins sál. Sjómannastjettin mun færa björgin í grunn undir framtíðarhöll. Fyrir eitt þúsund sjötíu og þrem árum nam Ingólfur Arnarson land hjer í Reykjavík vegna þess að öndvegissúlur hans rak hjer að landi. Þetta glæsta skip er heitið eftir landnemanum fyrsta. Það er öndvegisskip íslenska fiskiflotans. Vjer berum nú fram til forsjónar vors fagra lands þá ósk, að gifta fylgi nafni, og að farsæld Ingólfs landnámsmanns svífi jafnan yfir vötnunum þar sem þetta skip leggur leið sína um. Fyrir hönd bæjarstjórnar og Reykjavíkurborgar býð jeg togarann Ingólf Arnarson velkominn og skipshöfn hans alla og veiti honum viðtöku fyrir bæjarins hönd. Lúðrasveitin ljek: Þar fornar súlur flutu á land. Gísli Jónsson alþm, sem hefur haft eftirlit með smíði skipsins talaði næst. Hann lýsti skipinu og er ræða hans birt á öðrum stað í blaðinu. Lúðrasveitin ljek: Það laugast svölum úthafsöldum.
Þegar móttökuathöfninni var lokið voru landfestar skipsins leystar og siglt út fyrir eyjar. Var margt boðsgesta innanborðs. Skoðuðu menn skipið eftir því sem kostur var á, en veitingar (brauð og öl) voru framreiddar í hinum rúmgóðu vistarverum skipsins.
Af þeim 32 togurum sem samið var um smíði á í Englandi, var 15 úthlutað til Reykjavíkurbæjar og útgerðarfyrirtækja í bænum. Af þessum 15 togurum keyptu einstaklingar 5 í upphafi, en Reykjavíkurbær 10, en bærinn seldi aftur 5 til útgerðarfyrirtækja í bænum. Bærinn sjálfur,á því enn 5 togara, þrjá eimknúna og tvo dieseltogara.


Hjörleifur RE 211.                                                                                                Ljósmyndari óþekktur. 

Sjerstakt útgerðarráð hefir yfirstjórn á rekstri bojartogaranna. Það skipa þessir menn: 
Kjartan Thors, formaður, Sveinn Benediktsson, Ingvar Vilhjálmsson, Jón Axel Pjetursson og Ingólfur Jónsson. Útgerðarráð hefir kjörið þá Svein Benediktsson og Jón A. Pjetursson til þess að annast framkvæmdarstjórn bæjartogaronna fyrst um sinn. Skrifstofa Útgerðarráðsins er í Hafnarhúsinu. Ráðgert er að Ingólfur Arnarson fari á veiðar eftir 10 daga. Bræðslutæki verða sett í skipið hjer og það búið til veiða að öðru leyti.
Þrettán manna áhöfn var á skipinu heim. Skipsstjórinn er, sem kunnugt er, Hannes Pálsson. Aðrir skipsverjar voru: 1. vjelstjóri: Þorkell Sigurðsson. 1. stýrimaður: Loftur Júlíusson. 2. vjelstjóri Baldur Snæland. 2. stýrimaður: Gunnar Auðunsson. Bátsmaður: Ólafur Sigurðsson. Matsveinn: Guðm. Maríasson. Loftskeytamaður: Ingólfur Friðbjarnarson. Hásetar: Jónatan Kristleifsson, Kári Gíslason og Leó Kristleifsson. Kyndarar: Ármann Brynjólsson og Einar M. Karlsson.
Ingólfur Arnarson tók um 140 smálestir af vörum í Hull til flutnings heim. Útvegaði Eimskipafjelag Íslands skipinu flutninginn og sjer um afgreiðslu hans hjer. Sem tákn góðvildar til þessa fyrsta hinna nýju togara, lætur Eimskipafjelagið aðstoð sína í tje án nokkrar þóknunar.
Í dag á almenningur þess kost að skoða skipið. Verður það til sýnis frá kl. 9-12 árd. og 1-7 síðd.

Morgunblaðið. 18 febrúar 1947.


Ingólfur Arnarson RE 201. Líkan.                                                         (C) Þórhallur S Gjöveraa.

               Lýsing á Ingólfi Arnarsyni

       Ræða Gísla Jónssonar alþm. við móttökuathöfnina

Togarinn  Ingólfur Arnarson, er stærsti og glæsilegasti togarinn, sem Íslendingar hafa enn eignast. Hann er fyrsta skipið af þrjátíu, sem samið var um smíði á í Bretlandi, í október 1945, fyrir milligöngu Nýbyggingarráðs og íslensku ríkisstjórnarinnar. Skipið ef smíðað hjá skipasmíðastöð Mrss Cochrane & Sons, Ltd. Í Selby. Er það fyrsta skipið af átta, sem samið var um í þeirri smíðastöð. Það er smíðað samkvæmt ströngustu reglum flokkunarfjelagsins Lloyds í Bretlandi (+ 100 A L) og þó nokkuð styrkara, þar sem það þótti nauðsynlegt, vegna íslenskrar vetrarverðráttu. Lengd þess er 175 fet, breidd 30 fet og dýpt 16 fet. Það er 642 br rúmlestir og 216 nettó rúmlestir. Burðarmagn þess er 500 smálestir með 81 cm borð fyrir báru. Bolurinn er hólfaður í sundur með 7 vatnsþjettum skiljum, en alls eru í skipinu 20 vatnsheld hólf. Botn þess er tvöfaldur frá vjelarúmi og fram úr, og skiptist í geyma fyrir olíur, vatn og lýsi, þannig, að vatnsgeymar eru fyrir 60 smál. olíugeymar fyrir 245 smál. og lýsisgeymar fyrir 20 smál. Slík skipting bolsins í vatnsheld hólf, skapar margfalt öryggi fyrir skipið, ef það mætir áföllum af völdum veðurs, árekstra eða strands. Framrúmi er skipt í tvö fiski rúm, en þeim aftur skipt í 12 stíur, sem hver er útbúin með 4 hillum. Rúmar skipið þannig 300 smál. af ísfiski. Stærð þeirra er alls 45 þús. teningsfet. Eru þau öll þiljuð vatnsþjettri viðarsúð. Fyrir framan fiskirúmin er stór veiðafærageymsla, með hillum og skápum. Aðgangur er í hana frá þilfari.
íbúðir skipverja eru sem hjer segir: í stafni skipsins eru íbúðir og hvílur á tveimur hæðum fyrir 24 menn alls. Á neðri hæðinni er klefi fyrir 16 menn, og er það rúm mun stærra en áður var í eldri skipum, ætlað 24 mönnum. Á efri hæð er klefi fyrir 8 menn. En þess utan er þar setustofa sameiginleg fyrir hásetana, útbúin með borðum og bekkjum. Á þennan hátt geta þeir, sem frí eiga frá störfum, hvílt sig í næði, án þess að vera truflaðir af umgangi þeirra, sem við störf eru. Hverri hvílu fylgir sjerstakur geymsluskápur fyrir föt o. fl. og setubekkir eru meðfram öllum hvílum. Aðeins tvær hvíluraðir eru í hæðinni, í stað þriggja í gömlu skipunum, og því bæði loftrými og gólfflötur meiri fyrir hvern mann en áður þekktist. Út frá setustofunni og innan gengt úr henni, er baðherbergi og hreinlætisklefi fyrir skipverja, svo er sjerstakur klefi til að þurka og geyma í yfirhafnir og hlífar skipverja. Þar eru og tvö vatnssalerni. Í skut skipsins eru einnig íbúðir á tveimur hæðum.
 Á neðri hæðinni er sameiginlegt anddyri fyrir íbúðirnar á þessari hæð, með stiga á milli hæðanna. Fyrir aftan það er salur með 6 hvílum, borðum og legubekkjum. "Fyrir framan anddyrið er herbergi tveggja kyndara, með hvílum og bekkjum. Sitt til hvorrar hliðar eru tvö herbergi, annars vegar fyrir yfir og undirvjelstjóra, hins vegar fyrir yfir og undirstýrimann. Öll herbergi á þessari hæð eru útbúin með hvílum, stoppuðum og klæddum legubekkjum, borðum og skápum, en þiljur allar af gljáðum harð- viði. Á efri hæð er matsalur með borðum og bekkjum, nægilega stór fyrir alla skipshöfnina, með búri, skápum og matvælageymslum. Þar er og baðherbergi, hreinlætisklefi, tvö vatnssalerni og þurkklefi fyrir yfirhafnir. Er þessu komið fyrir til hliðar við borðsalinn og innangengt úr honum í alla þessa klefa.
Fyrir framan borðsalinn er rúmgott eldhús, með borðum, hillum og skápum og olíukynntri eldavjel. Samgangur er á milli borðstofu og eldhúss, Þar er og kæliklefi fyrir vistir, svo skipverjar geti jafnan haft nýmeti á borðum. Inngangur á þessa hæð er frá báðum hliðum og frá bátaþilfari, en samgangur til vjelarúms. Fremst í reisn er herbergi skipstjóra, með hvílu, legubekkjum, borði, stólum og fatask. allt af gljáðum harðviði. Þar fyrir aftan er baðherbergi, hreinlætisklefi og vatnssalerni. Samgangur er milli herbergis skipstjóra og stýrishúss, sem komið er fyrir á næstu hæð ásamt loftskeytaklefa og kortahúsi. Íbúðir allar eru hitaðar upp með olíukynntum miðstöðvarvjelum. Er dælt um þær allar tæru lofti eftir vild. Er það hvorttveggja nýjung frá því  sem áður hefur verið. Alls eru í skipinu íbúðir og hvílur fyrir 38 menn. Á bátapalli að aftan er komið fyrir við "patent" uglur tveim bjargbátum, útbúnum að öllu leyti  eftir ströngustu reglura um öryggi. Í reisn skipsins, yfir vjelarúmi, er komið fyrir lifrarbræðsluklefa. Verður þar komið fyrir bræðslutækjum af nýrri gerð, sem smíðuð eru hjerlendis að fyrirsögn Ásgeirs Þorsteinssonar, verkfræðings.
Skipið er útbúið með 1300 hestafla eimknúinni aðalvjel, er knýr það rúmar 13 mílur á klst. Er hún af hinni venjulegu þríþenslu tegund, gerð fyrir að nota yfirhitaðan eim, en þó endurbætt á margvíslegan hátt frá því sem áður hefur þekkst í togurum. M.a. er loftdæla vjelarinnar ekki sambyggð með henni, eins og venja er til, heldur er hún sjerstæð og rafknúin. Á þann hátt er ávalt hægt að halda uppi fullu sogafli, bæði fyrir aðalvjel og togvindu, hvort sem aðalvjelin er í hægum eða fullum gangi eða alveg stöðvuð. Er þetta mjög mikill eldsneytissparnaður og Ijettir mikið gang bæði aðalvjelar og togvindu, og fer miklu betur með þær vjelar báðar, í meðferð. Er hjer að ræða um algjörlega nýjung í togurum. Eimketill skipsins er smíðaður fyrir 225 lbs. þrýsting. Hitaflötur hans er 2800 ferfeta. Hann er kyntur með olíu í stað kola, og sparast því alt það erfiði og óþrifnaður, sem áður fylgdi kyndingu, kolamokstri, eldhreinsun og öskuburði. Mun margur gleðjast yfir þeim umbótum.
Aðalvjel og ketill er smíðað hjá Mrss Amos & Smith. Ltd., Hull. Settu þeir einnig niður allar vjelar í skipið. Ketillinn er útbúinn með yfirhitunarkerfi, frá Superheater Co., og loftþrýstivjelum frá Howdensverksmiðjum, sem dæla upphituðu lofti inn í eldkolin. Olíukyndingarvjelarnar eru smíðaðar hjá Walsend Shipway & Engineering Co., sem smíðuðu allar vjelarnar í herskipið Hood. Eru þær allar rafknúnar. Loftdælan og eimvatnsdælurnar eru rafknúðar sjerdælur, smíðaðar af Weirs-verksmíðjunum, en kælidælur, þilfarsdælur, austurdælur og aðrar sjerdælur, af Qroysdale-verksmiðjunum, og eru þær einnig allar rafknúðar. Er dælukerfið þannig útbúið, að þótt bæði kælidæla, aðalvjelar og loftdæla bili, má nota aðalvjel með 80% afli, sem er afarmikið öryggi fyrir skipið og algert nýmæli. Ný tegund vökvastýrisvjela, smíðuð hjá Donkin & Co. er tengd beint við stýrið, en virkt frá stýrishúsi. Öllum stýristaumum er því sleppt, og er það bæði til öryggis og þæginda. Ganga vökvadælurnar fyrir raf orku. Er þetta einnig nýmæli. Akkersvinda, tvöföld, smiðuð af Clark Chopman, og alveg sjerstaklega gerð fyrir íslenska togara, er rafknúin. Getur hún lyft báðum akkerum í einu á 15 faðma dýpi. Togvinda skipsins er eimdrifin. Er það eina aukavjelin, sem drifin er þannig'. Hún er 300 hestöfl að stærð, gerð fyrir 1200 faðma á hvert kefli. Er hún smíðuð af C. D. Holmes & Co., Hull, og margvíslega endurbætt frá fyrri tegundum. Þá eru í skipinu 2 dieselvjelar, hvor 120 hesta, með átengdum 80 kw rafal, sem framleiða raforku fyrir allar aukavjelar og til Ijósa.
Eru vjelar þessar smíðaðar hjá Ruston Hornsby & Co. En auk þess er ein 5. kw samstæða frá sömu verksmiðju, sem nota má til ljósa í höfnum. Skipið er útbúið með talstöð, loftskeytastöð og miðunarstöð frá M. P. Pedersen, Kbh., tveimur dýptarmælum Fathometer & Huges, sem bæði sjálfrita og senda neista, eftir vild, einnig með rafmagnshraðamæli, rafmagnsvjelsíma, " sjerstakri gerð áttavita, Radartækjum og öðrum nýtísku áhöldum. Þegar hinn valinkunni skipstjóri, Jóhann Pjetursson, var að lýsa fyrir blaðamönnum hinu glæsilega skipi sínu "Gylfa", fyrir nokkrum dögum, fjellu honum af munni þessi orð: "Ingólfur Arnarson er listasmíð. Þar er saman"komið allt, sem íslenskir og breskir útgerðarmenn og sjómenn geta óskað sjer". Betur verður þessu skipi ekki lýst. Hið glæsilega skip er árangur af samstiltum vilja þeirra manna allra, sem metið hafa verk ykkar sjómannanna undan farin mörg og erfið ár, til þess að mæta óskum ykkar og vonum um betra og öruggara far. Velkominn býð jeg Ingólf Arnarson að landi. Enn mun hjer með honum hefjast nýtt landnám, nýir möguleikar, nýir og betri tímar fyrir land og lýð, Þjer allir, sem mál mitt megið heyra, gefið honum blessun ykkar. Felið hann Guði og góðum vindum í bænum ykkar fyrr og síðar.

Morgunblaðið. 18 febrúar 1947.



 

Flettingar í dag: 532
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 479
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 723197
Samtals gestir: 53663
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 17:07:13