27.10.2020 15:27

Pólski togarinn Podole GDY 312 strandar á Meðallandssandi.

"Togarinn Podole GDY 312 strandaði á Meðallandsfjöru 5. mars 1946, en náðist á flot fyrir eigin vélarafli 10. júní sama ár. Skipið var skráð pólskt en gert út frá Fleetwood. Þetta var eitt af svonefndum "stjórnarskipum" sem breski flotinn lét raðsmíða í fyrri heimstyrjöldinni, og keyptu Íslendingar marga þeirra á þriðja áratugnum. Podole gekk undir mörgum nöfnum um ævina og skipti oft um eigendur. Skipið var smíðað í Goole, og klárað 1919 sem togarinn St. Endelion frá Hull. Það var selt til Grimsby 1928 og eftir að hafa strandað við Noreg 1934 var það selt til Fleetwood en skráð í London. (Hét þá Barbara Rose). Það var þá komið í eigu Parkes-fjölskyldunnar (Boston Deep Sea- fyrirtækið), en hún braskaði mikið með skip. 1937 var það selt til Póllands og varð Barbara GDY 95. Þegar stríðið braust út var skipinu stefnt til Fleetwood þar sem eitt af fyrirtækjum Parkes varð eigandi og gaf því nafnið Blighty FD 68. Breski flotinn tók það í sína þjónustu en 1943 var það afhent pólska flotanum, enda var þá búið að "selja" það pólskum eigenda. Þá fékk það nafnð Podole. 1944 var því sleppt úr herþjónustu og sá Parkes um útgerð þess frá Fleetwood uns það strandaði. Eftir að það náðist út var það selt hæstbjóðanda og keyptu Sandavogsmenn í Færeyjum það og gáfu nafnið Torkil Önundarson VA 171. Kaup Færeyinga á gömlum togurum reyndist hið mesta glapræði og fór sú útgerð flest snarlega á hausinn og voru skipin seld í brotajárn upp úr 1950, þetta 1952."

Heimild: Birgir Þórisson.

Togarinn var smíðaður hjá Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd í Goole á Englandi. Smíðanúmer 244.

Það má bæta því við hér að það var pf. Sandavágs Trolarafelag sem keypti togarann í Reykjavík hinn 29 október sama ár. 28 júní 1952 keypti Föroya Fiskimannafelag togarann á uppboði og seldu þeir hann í brotajárn 31 október 1952, til British Iron & Steel Corporation Ltd í Englandi.

Heimild: Glottar úr trolarasöguni. Óli Ólsen. 2019.


Podole nánast á þurru á Slýjafjöru í Meðallandi.                                                    (C) Eirík A Eylands.

Pólskur togari strandar á Slýjafjörum

Um kl. 9 í fyrrakvöld strandaði útlendur togari austur á Slýjafjöru, austur af Kirkjubæjarklaustri. Mönnum úr nágrenninu tókst að bjarga skipshöfninni. Skeyti um strandið barst frá togaranum til loftskeytastöðvarinnar í Reykjavík, er gerði Slysavarnafélaginu þegar aðvart. Slysavarnafélagið símaði austur að Fagurhólsmýri og voru gerðar ráðstafanir þaðan til að manna björgunarsveitir, er kæmu skipbrotsmönnum til hjálpar. Það tók björgunarsveitirnar nokkurn tíma að finna strandstaðinn, en um kl. 2 um nóttina voru björgunarsveitirnar búnar að koma línu um borð í skipið og kl. 9.30 í gærmorgun voru allir mennirnir af skipinu, 18 að tölu, komnir heilu og höldnu í land. Voru þeir komnir heim að Fljótum, er blaðið hafði fregnir af strandinu í gær, og leið þeim öllum vel. Að björgunarstarfinu unnu björgunarsveitir úr nálægum sveitum, en björgunaráhöldin, sem notuð voru, voru úr björgunarstöð Slysavarnafélags Íslands við Skaftárós, en þar hefir félagið björgunarskýli. Björgunarstarfið gekk vel.  Togari þessi, Podlasie að nafni, var upphaflega pólskur, en er nú gerður út frá Englandi, þó er nokkuð af áhöfninni Pólverjar. Skipið strandaði mjög nærri landi og í gærmorgun hafði það færzt enn meira upp svo heita mátti, að það væri alveg komið upp í fjöru og mátti ganga út í það. Ólíklegt er því að takast megi að bjarga skipinu. Áhöfn skipsins er væntanleg til Reykjavíkur í dag. Ekki er vitað um orsök strandsins, þar sem gott veður var og tiltölulega bjart.

Tíminn. 7 mars 1946.


Togarinn í þjónustu breska sjóhersins sem HMT Blighty.                       Ljósmyndari óþekktur.


Færeyski togarinn Torkil Önundarson VA 171.                                   Ljósmyndari óþekktur.


Togarinn Torkil Önundarson VA 171.                                                                  Málari óþekktur.

       Hamar nær út togara og selur                               til Færeyja

Vélsmiðjan Hamar náði á s.l. sumri út pólska togaranum Podole, sem strandaði á Slýafjöru fram undan Kirkjubæjarklaustri. Reyndist togarinn lítið sem ekkert skemmdur og var fyrst farið með hann til Vestmannaeyja, en síðan til Reykjavíkur. Hefir hann nú verið seldur Færeyingum og er farinn þangað. Togarinn Grimsby Town, sem strandaði hjá Vík hefir Hamar einnig nýlega keypt. En þar sem það skip mun vera mjög mikið skemmt, mun ekki takast að ná því út. Verða því aðeins lauslegir hlutir hirtir úr því.

Vísir. 23 nóvember 1946.

Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 479
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 722678
Samtals gestir: 53643
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 00:41:38