20.10.2018 08:09

620. Hjálmar NK 3 TFWY.

Vélbáturinn Hjálmar NK 3 var smíðaður hjá Marselíusi Bernharðssyni á Ísafirði árið 1960 fyrir Harald Hjálmarsson útgerðarmann í Neskaupstað. Eik. 82 brl. 525 ha. MWM díesel vél. Seldur 1 júní 1962, Jónasi Jónassyni á Miðnesi og Sigurði Bjarnasyni í Sandgerði, hét þá Jón Oddsson GK 14. Mikill eldur kom upp í bátnum þegar hann var á humarveiðum um 10 sjómílur vestur af Eldey 24 ágúst árið 1971. Áhöfnin, 7 menn, fóru um borð í Útey KE en vélbáturinn Helga Björg HU 7 tók Jón í tog og dró hann inn til Keflavíkur þar sem eldurinn var slökktur. Báturinn var talinn ónýtur eftir brunann og tekin af skrá árið 1972.


Vélbáturinn Hjálmar NK 3 í reynslusiglingu á Ísafirði í júlí 1960.        (C) Ljósmyndasafnið á Ísafirði.

      Nýr bátur til Neskaupstaðar

Neskaupstað 7. Júlí. Kl. 11 í dag kom hingað vélbáturinn Hjálmar NK 3, eign Haraldar Hjálmarssonar, útgerðarmanns í Neskaupstað. Er þetta nýr bátur, smíðaður í skipasmíðastöð M. Bernharðssonar hf. á Ísafirði og kom hann nú í fyrsta skipti til heimahafnar. Báturinn fór frá Ísafirði um síðustu helgi til Reykjavíkur og tók síðan veiðarfæri í Vestmannaeyjum. Vélbáturinn Hjálmar er 82 lestir að stærð, með 525 ha Mannheimvél. Hann er búinn öllum nýjustu siglinga- og fiskileitartækjum. Þykir smíði hans öll hin vandaðasta. Báturinn fer á síldveiðar á morgun. Skipstjóri er Þórlindur Magnússon frá Eskifirði, og 1. vélstjóri Jón Árni Sigurðsson frá Seyðisfirði.

Morgunblaðið. 9 júlí 1960.


Hjálmar NK 3 við bryggju síldarsöltunarstöðvarinnar Drífu í Neskaupstað.  (C) Þórarinn Ölversson.


Helga Björg HU 7 með Jón Oddsson GK 14 alelda í togi.           (C) Morgunblaðið / Gunnar Steinn.

                   Eldur í báti

Eldur kom upp í vélarrúmi Jóns Oddssonar GK 14 frá Keflavík, þegar báturinn var að humarveiðum um 10 mílur vestur af Eldey um hádegisbilið í gær. Skipverjum tókst ekki að ráða niðurlögum eldsins og var þá vélarrúminu lokað, en vélbáturinn Helga Björg dró Jón til Keflavíkur. Þangað komu bátarnir um sjöleytið í gærkvöldi. Slökkvilið beið á bryggjunni og tók um klukkustund að slökkva eldinn í bátnum. Miklar skemmdir urðu í vélarrúminu. Þegar fréttist af eldinum um borð í Jóni fór Snarfari RE frá Sandgerði með slökkvidælu og menn, en þegar aðstæður höfðu verið kannaðar, þótti ekki rétt að freista slökkvistarfs á sjó úti. Áhöfnin á Jóni Oddssyni, 7 menn, fór um borð í Útey KE, sem fylgdi Helgu Björg og Jóni Oddssyni til hafnar í Keflavík.
Jón Oddsson er 82 tonna eikarbátur, smíðaður á Ísafirði 1960.

Morgunblaðið. 25 ágúst 1971.


Flettingar í dag: 379
Gestir í dag: 216
Flettingar í gær: 1207
Gestir í gær: 337
Samtals flettingar: 738007
Samtals gestir: 55429
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 12:05:41