14.03.2021 11:35

B.v. Ísólfur NS 14. TFLD.

Nýsköpunartogarinn Ísólfur NS 14 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir Bjólf hf á Seyðisfirði. 655 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 1327. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Seyðisfjarðar hinn 8 desember sama ár. Ríkissjóður Íslands eignaðist togarann á uppboði sem haldið var á Seyðisfirði 2 mars 1957. Ríkið selur síðan togarann aftur til Seyðisfirðinga og er hann síðan gerður út af Fiskiðjuveri Seyðisfjarðar hf og fær þá nafnið Brimnes NS 14. Í desember 1958 er útgerð Brimness aftur komin í þrot. Það var svo í apríl 1959 að Axel Kristjánsson forstjóri (í Rafha) í Hafnarfirði tekur við rekstri togarans fyrir hönd ríkissjóðs og er hann þá gerður út frá Hafnarfirði. Haustið 1962 hóf ríkissaksóknari rannsókn á Brimnessútgerðinni og voru þeir Axel í Rafa og Sigurður Lárus Eiríksson ákærðir fyrir bókhaldsbrot og misnotkun á aðstöðu með fjárreiður útgerðarinnar. Þeim málaferlum lauk með fjársektum. Togarinn lá lengi síðan inn á sundunum við Reykjavík ásamt öðrum togurum sem hafði verið lagt. Togarinn var seldur í brotajárn til Hughes Bokkow í Blyth í Englandi í janúar árið 1968. Það var síðan gamli Ægir sem einnig hafði verið seldur í brotajárn, sem dró Brimnesið ásamt Sólborgu ÍS til Englands í júlí sama ár.


B.v. Ísólfur NS 14 að veiðum.                                                 (C) Sigurgeir B Halldórsson.

           Fyrsti togari Seyðfirðinga

          Nýsköpunartogarinn Ísólfur                           kom þangað í fyrradag 
Fréttaritari Þjóðviljans á Seyðisfirði í gær:
Nýsköpunartogari Seyðisfjarðarkaupstaðar, Ísólfur, kom hingað í gær. Hann er eign h.f. Bjólfs, sem bærinn er langstærsti hluthafinn í. Kl. 8 um morguninn fóru bæjarfulltrúar og stjórn h.f. Bjólfs um borð í togarann úti á firði. Síðan hófst hatíðleg móttökuathöfn kl. 10 f. h., er togarinn lagðist upp að bryggju. Þar flutti forseti bæjarstjórnar, Gunnlaugur Jónasson, ávarp; Björn Jónsson, kennari, flutti frumort kvæði og Árni Vilhjálmsson, erindreki Fiskifélags Íslands, flutti ávarp. Síðast talaði skipstjórinn, Ólafur Magnússon, fáein hvatningarorð til skipshafnarinnar. Milli atriða söng karlakór undir stjórn Jóns Vigfússonar. Bæjarbúar höfðu safnazt saman á bryggjunni og hrópuðu þeir húrra fyrir togaranum. Að athöfninnin lokinni skoðaði mannfjöldinn skipið. Kl. 9 um kvöldið hófst samsæti í sölum barnaskólans að tilhlutan h. f. Bjólfs. Hófinu stjórnaði Theodór Blöndal bankastjóri. Aðalræðuna flutti Erlendur Björnsson bæjarstjóri, frumort kvæði fluttu þeir Jóhannes Arngrímsson sýsluskrifari og Knútur Þorsteinsson kennari. Þá ávarpaði skipstjórinn Seyðfirðinga fyrir hönd skipshafnarinnar. Því næst söng samkór undir stjórn Steins Stefánssonar skólastjóra, nokkur lög. Margar aðrar ræður voru fluttar og almennur söngur milli atriða, undir stjórn Jóns Vigfússonar. M. a. voru sungin erindi úr framan greindum kvæðum. Að loknu samsætinu var dansað til kl. 4 um nóttina. Húsfyllir var og bezti mannfagnaður.
 Togarinn er nefndur eftir Ísólfi, syni Bjólfs landnámsmanns. Hann er fyrsti togarinn sem Seyðfirðingar eignast. Smíðaður í Englandi og voru sett í hann radartæki þar. 1. stýrimaður verður Erlingur Klemensson. Togarinn má nú heita tilbúinn á veiðar. 

Þjóðviljinn. 10 desember 1947.


B.v. Ísólfur NS 14 á Seyðisfirði.                                                          Ljósmyndari óþekktur.

     Ríkið kaupir togarann Ísólf

Seyðisfirði. Frá fréttaritara Þjóðviljans.
Togarinn Ísólfur var seldur á uppboði hér í gær. Kaupandi togarans er ríkið, og mun það selja Seyðisfjarðarbæ eða fiskiðjuveri bæjarins togarann, geti bærinn tekið að sér greiðslu á kaupverði hans, 5,7 millj. kr.
Togarinn Ísólfur var eign Bjólfs hf og var hagur þess orðinn slæmur, og því var togarinn seldur samkvæmt kröfu Landsbankans. Ísólfur lagði lítið af afla sínum upp á Seyðisfirði s.l. ár, eða aðeins framan af árinu. Af þeim sökum hefur lítið verið um atvinnu á þessum vetri  og hefur því fjöldi manna orðið að leita eftir vinnu á Suðurlandi á vertíðinni. En þótt Ísólfur legði ekki á land nema lítið af afla sínum á Seyðisfirði voru þó laun verkafólks í landi vegna landana hans þar, á aðra millj. Kr. Á árinu sem leið. Ríkisstjórnin hefur stuðlað að því með öllu móti að Seyðfirðingar geti haldið togaranum. Hefur bæjarstjórn þegar samþykkt að kaupa Ísólf.
Vonir standa til að Fiskiðjuver bæjarins komist í gang á miðju þessu ári og eykst þá þörfin fyrir hann mjög, jafnframt því sem aðstaða til nýtingar á afla hans gerbreytist til hins betra.

Þjóðviljinn. 3 mars 1957.

             Brimnesið á flot

Axel Kristjánsson, forstjóri í Hafnarfirði, hefur tekið að sér að sjá um rekstur Seyðisfjarðartogarans Brimnes næstu mánuði, a. m. k. Togarinn Brimnes hefur legið aðgerðarlaus austur á Seyðisfirði síðan um miðjan desember. Hann mun koma til Reykjavíkur einhvern næstu daga til eftirlits og útbúnaðar, en fara síðan á veiðar undir mánaðamótin. Er togarinn eign Seyðisfjarðarkaupstaðar, en fjármálaráðuneytið ásamt bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefur fengið Axel til þess að taka rekstur togarans að sér.

Alþýðublaðið. 12 apríl 1959.


Varðskipið Ægir með Brimnes og Sólborgu í togi.                                          (C) Albert Hansen.

         Ægir dregur tvo úr landi
          skipin seld í brotajárn

Ægir gamli hefur nú verið seldur í brotajárn til Englands, að því er annar eigandinn, Gísli Ísleifsson, hrl, tjáði Morgunblaðinu í gær. Verður honum siglt til Blyth í næstu viku og á að láta hann draga með sér tvo togara, Brimnes og Sólborg, sem einnig hafa verið seldir þangað í brotajárn. Skipstjóri í þessari síðustu för Ægis gamla verður Haraldur Ólafsson, en alls taldi Gísli, að 10 eða 11 menn þyrftu að vera á skipunum þremur í þessari ferð.

Morgunblaðið. 16 júní 1968.

Flettingar í dag: 572
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 418
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 698111
Samtals gestir: 52756
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 17:08:45