17.04.2016 09:45

B.v. Haukanes GK 3 slitnar upp í óveðri í Hafnarfjarðarhöfn 18 febrúar 1973.

Togarinn Haukanes GK 3 frá Hafnarfirði slitnaði upp og rak á land við Fjarðargötuna þar í bæ í vestan óveðri hinn 18 febrúar 1973. Náðist togarinn út tveimur dögum síðar. Töluverðar skemmdir urðu á botni togarans og dró dráttarbáturinn Magni hann til Reykjavíkur þar sem hann var tekinn í slipp, þar sem bráðabirgðaviðgerð fór fram. Eigendur skipsins voru þá Haraldur Jónsson og Jón Hafdal í Hafnarfirði. Skipið hét áður Gylfi BA 16 og var í eigu Útgerðarfélagsins Varðar h/f á Patreksfirði, smíðaður í Goole á Englandi 1952 og var 696 brl. að stærð. Örlög togarans urðu sú að hann var seldur til niðurrifs stuttu síðar og rifinn hjá Masnedo A/S í Vordingborg í Danmörku árið 1974.


B.v. Haukanes GK 3 í fjörunni við Fjarðargötuna.                               (C) Mynd: Sæmundur Þórðarson.


B.v. Haukanes GK 3.                                                                      (C) Mynd: Sæmundur Þórðarson.


Skopteiknarinn Sigmund sá ástæðu til að gera góðlátlegt grín af þessu atviki. 
Morgunblaðið í febrúar 1973.

Togarinn Haukanes lagðist við aðalgötuna.

Í gær tókst að ná Haukanesinu á flot, en mótorbáturinn Hringur dró togarann á háflóðinu rétt fyrir kl. 9 um morguninn. Botn togarans var nokkuð dældaður og var smávegis leki, er skipið var dregið af dráttarbátnum Magna til Reykjavikur. Togarinn Haukanes slitnaði frá bryggju á sunnudagsmorgun rétt yfir kl. 7 í miklum veðurofsa að vestan, og rak togarann upp í fjöru fyrir framan Fjarðargötuna. Haukanesið verður tekið upp í slipp í Reykjavik.

Þjóðviljinn 20 febrúar 1973.

Flettingar í dag: 563
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 1928
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 732316
Samtals gestir: 54299
Tölur uppfærðar: 1.5.2024 17:11:26