12.07.2017 06:26

815. Sveinn Guðmundsson AK 70. TFOR.

Sveinn Guðmundsson AK 70 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1947 fyrir Harald Böðvarsson & Co h/f á Akranesi. Eik. 67 brl. 225 ha. June Munktell vél. Ný vél (1958) 390 ha. MWM díesel vél. Seldur 11 nóvember 1963, Haukaveri h/f í Reykjavík, hét Haukur RE 64. Seldur 12 maí 1972, Haukaveri h/f á Djúpavogi, báturinn hét Haukur SU 50. Endurmældur 1974, mældist þá 71 brl. Báturinn sökk suður af Stokksnesi 25 nóvember 1975. Áhöfnin, 4 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát. Var mönnunum síðan bjargað um borð í togarann Skinney SF 20 frá Höfn í Hornafirði.


Sveinn Guðmundsson AK 70 á siglingu.                                                             (C) Ólafur Árnason.


Haukur RE 64 í Reykjavíkurhöfn.                                  Ljósmyndari óþekktur, mynd úr Íslensk skip.


Haukur RE 64.                                                                                            (C) Sigurður Bergþórsson.


Sveinn Guðmundsson AK 70 í hópi fríðra Akranesbáta.                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.

   Nýr 70 smálesta bátur til Akraness

Í fyrradag kom nýr bátur til Akraness byggður í Friðrikssund. Bátur þessi sem er eign Haraldar Böðvarssonar & Co,, heitir ,Sveinn Guðmundsson" og er 65-70 smálestir. Í bátnum er 225 hestafla June-Munktel-vél. Hingað heim sigldi bátnum Elías Benediktsson, en skipstjóri á honum verður Þórður Sigurðsson. Báturinn fer strax norður á síld. Akranessbátarnir eru nú að verða tilbúnir á síldveiðar og fóru þrír norður í fyrradag, og aðrir eru alveg á förum. Alls munu 10-12 bátar frá Akranesi verða gerðir út , á síldveiðar, auk Ólafs Bjarnasonar og Sindra.

Alþýðublaðið. 5 júlí 1947.


Bjargaði 4 mönnum eftir að bátur                              þeirra sökk

Vélbáturinn Haukur SU 50 frá Djúpavogi sökk 22 sjómílur SA af Stokksnesi um kl. 20.30 í gærkvöldi. Fjórir menn voru á bátnum og komust þeir um borð í gúmbjögunarbát og var bjargað um borð í skuttogarann Skinney frá Hornafirði litlu síðar. Var Skinney væntanleg til Hafnar í Hornafirði um miðnæturleytið með skipbrotsmennina. "Björgun mannanna tókst ágætlega, þeir voru búnir að vera í gúmmíbátnum í um það bil hálfa klukkustund, þegar við komum að þeim," sagði Þorleifur Dagbjartsson, skipstjóri á Skinney er Mbl. hafði samband við hann í gærkvöldi. "Þeir voru fjórir í öðrum bátnum en hinn höfðu þeir bundið samsíða.
Þegar við áttum eftir 8 mílur í Hauk sáum við hann á ratsjánni, en stuttu síðar hvarf hann. Leið svo nokkur stund, en þá sáum við hvar flugeldum var skotið á loft frá gúmmíbátnum, og eftir það gekk allt vel." Hannes Hafstein framkvæmdastjóri Slysavarnafélags Íslands sagði að Tilkynningaskyldunni hefði borizt orðsending frá loftskeytastöðinni á Höfn um að leki væri kominn að Hauki og var það um kl. 19.15 og var síðan haft samband við skip úti af Stokksnesi. Brátt kom í ljós, að Skinney SF 20 var nærstödd og sagðist skipstjóri togarans sjá bátinn í átta sjómílna fjarlægð. Fylgdust skipverjar á Skinney með Hauki í ratsjánni þar til hann sökk, síðast heyrðist frá bátnum kl. 19.30.

Morgunblaðið. 26 nóvember 1975.

Flettingar í dag: 75
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 723421
Samtals gestir: 53674
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 02:08:48