10.09.2017 09:16

Stella NK 61. LBVP / TFVI.

Stella NK 61 var smíðuð hjá Brödrene Andersen Baadebyggeri og Savskæreri í Frederikssund í Danmörk árið 1910; tvísigld mótorskonnorta, karvel byggð úr eik og lerki, 34,40 brúttótonn að stærð, 10,93 nettótonn, 49,9 fet (15,21 m) á lengd, 17,2 fet (5,24 m) á breidd og risti 7,1 fet (2,16 m). 65 ha. Bolinder vél (1917). Stella var afhent eiganda fyrir 1. mars 1910. Eigandi var Verslun Þorbjargar Runólfsdóttur á Nesi í Norðfirði. Þorbjörg nefndi hana Stellu SU 3.
Stella flutti vörur frá Thor E. Tulinius & Co. í Kaupmannahöfn til Norðfjarðar. Hún sigldi frá Danmörku þann 3. maí 1910 og kom til Norðfjarðar 12. maí. Eftir komuna til Norðfjarðar var hún skrásett og gefið út fiskiveiðaskírteini fyrir hana, hvort tveggja gert 14. maí 1910.
Stella var í eigu Þorbjargar Runólfsdóttur og afkomenda hennar allt til ársins 1954.
Um tíma (1917-1934) var Stella gerð út frá Akureyri og skráð Stella EA 373. Á þeim tíma var Verslun Snorra Jónssonar á Akureyri meðeigandi að Stellu ásamt Sigfúsi Sveinssyni, syni Þorbjargar Runólfsdóttur.
Árið 1913 var Stella lengd á Akureyri og árið 1920 var settur á hana skúti, styrkt bönd og styttur, einnig er settur á hana nýr skans. Þessi breyting fór fram á Akureyri og árið 1927 voru þar enn gerðar breytingar á skipinu. Þá var hluti þilfarsins endurnýjaður, sett grind undir mótorhúskappa, tveir þverbitar og allir styrkbitar settir nýir. Einnig var sett nýtt afturmastur, skammdekk og hástokkar settir nýir á parti.
Árið 1934 er Stella umbyggð og stækkuð á Norðfirði af Peter Vigelund, kunnum skipasmið. Mældist þá 64 brl. Einnig var sett ný vél í skipið, 140 ha. Wichmann díesel vél. Þá var gefið út skipasmíðaskírteini fyrir hana, dagsett þann 7. júlí 1934. Í því er hún nefnd Stella NK 61. Eigandi er þá skráður Verslun Sigfúsar Sveinssonar í Neskaupstað. Þann 13. janúar 1935 andaðist Sigfús Sveinsson kaupmaður, 59 ára gamall. Eftir það sá Guðmundur Sigfússon sonur hans um rekstur verslunarinnar sem hélt nafni sínu óbreyttu. Stella var gerð út í báðum heimsstyrjöldunum og sigldi mikið með fisk til Englands í seinna stríðinu. Ný vél (1947) 200 ha. Ruston díesel vél.
Árið 1954 var Stella seld til Útgerðarfélags Grindavíkur og fór alfarin frá Norðfirði miðvikudaginn 15. desember 1954. Eftir eigendaskiptin varð heiti skipsins Stella GK 350.
Aðfaranótt þriðjudagsins 27. ágúst 1962 sökk vélbáturinn Stella GK 350 frá Grindavík, en fimm manna áhöfn bátsins bjargaðist um borð í vélbátinn Flóaklett frá Hafnarfirði. Þegar þetta gerðist var Stella á humarveiðum um 10-15 sjómílur norður af Eldey.     


Stella NK 61 á Norðfirði á stríðsárunum.                                                     (C) Björn Björnsson.


Stella eins og hún leit út upphaflega. Myndin er tekin árið 1914 á Akureyri.    Ljósmyndari óþekktur.

         Humarbátur sökk í fyrrinótt

Í fyrrinótt sökk 64 tonna humarveiðibátur, Stella, frá Grindavík skyndilega norður af Eldey. Áhöfnin, fimm manns, komst í gúmmíbjörgunarbát og bjargaðist yfir í annað skip. Mbl. náði í gær tali af stýrimanninum á Stellu, Hauki Kristjánssyni í Hafnarfirði. Sagðist honum svo frá, að báturinn hefði verið staddur á 80 faðma dýpi 10-15 mílur norður af Eldey kl. tvö um nóttina þegar mikils leka varð vart. Skipverjar luku við að koma humarnum úr fyrsta holinu fyrir um kl. hálftólf um kvöldið, en lögðust síðan til svefns nema vaktmaður. Á humarveiðum þýðir lítt sem ekki að veiða yfir mesta dimmutímann, svo að venja er að sjómennirnir leggist til hvíldar á meðan. Kl. rétt fyrir tvö voru vaktaskipti. Skömmu síðar taka vaktmennirnir eftir því, að sjór flæðir af miklu afli úr lestinni og inn í vélarrúmið. Var greinlegt, að allhátt myndi vera orðið í lestinni. Skipstjóri, Einar Jónsson, var nú vakinn og eins þeir, sem frammi í sváfu.
Skipti það engum togum, að svo mikill sjó flæddi í vélarrúmið, að hátt var orðið á vélinni eftir stutta stund. Flugeldi var nú skotið á loft og gúmmíbáturinn blásinn út. Ekki vannst tími til þess að kalla í talstöðina, enda hæpið, að hlustað sé á þessum tíma. Kom það í ljós síðar, að flugeldurinn sást frá einum báti, Stafnesi, sem fór þegar að leita. Stukku skipverjar, fimm að tölu, nú út í gúmmíbátinn, og greip skipstjóri um leið með sér skilrúmsborð (stíufjalir). Var róið með þeim í áttina að næsta skipi. Gott var í sjóinn og blankalogn. svo að ljós nærliggjandi humarbáta spegluðust í sjónum. Þegar klukkuna vantaði 23 mínútur í þrjú, sökk Stella. Nokkru síðar kom áhöfnin af Stellu að Flóakletti, þar sem hún fékk forkunnar góðar móttökur hjá Einari Símonarsyni skipstjóra og mönnum hans. Hélt Flóaklettur síðan til lands og var komina þangað um kl. hálfsex í gærmorgun. Að lokum sagði Haukur, að ekki væri nokkur vafi á því, að gúmbáturinn hefði bjargað lífi þeirra Stellumanna.
Stella var 64 tonna bátur, smíðaður í Danmörku árið 1910, en var umbyggður á Norðfirði árið 1934.

Morgunblaðið. 29 ágúst 1962.

Smíðaupplýsingar og saga skipsins er frá 
Héraðsskjalasafninu í Neskaupstað.

Flettingar í dag: 578
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 146
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 207278
Samtals gestir: 5906
Tölur uppfærðar: 17.8.2022 14:43:35