Færslur: 2019 Apríl

30.04.2019 09:10

238. Eldborg GK 13. TFAF.

Vélskipið Eldborg GK 13 var smíðað hjá Bolsönæs Værft í Molde í Noregi árið 1964 fyrir Útgerðarfélagið Eldborg hf í Hafnarfirði. 220 brl. 660 ha. Mannheim vél. Smíðanúmer 200. Selt 12 apríl 1967, Þrótti hf í Grindavík, hét þá Albert GK 31. Selt 12 desember 1972, Mars hf á Rifi, hét Hamrasvanur SH 201. Selt 1 nóvember 1978, Sigurði Ágústssyni hf í Stykkishólmi, sama nafn og númer. Ný vél (1978) 826 ha. Lister vél, 607 Kw. Frá árinu 1996 hét skipið Hamrasvanur ll SH 261. Selt til Hollands 21 júní sama ár. Skipið heitir Ensis KG 8 og er gert út á skelfiskveiðar þar í landi.


238. Eldborg GK 13.                                                      (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

     Ný Eldborg GK 13 varð 200 skip                        Bolsönæs værft

Hin nýju og glæsilegu fiskiskip halda nú stöðugt áfram að sigla heim og er hér um svo mikla endurnýjun flotans að ræða, að það nálgast jafnvel eða yfirstígur það átak, sem var kallað á sínum tíma nýsköpun, þegar glæsllegir nýir togarar komu hingað heim til landsins í hrönnum. Sannleikurinn er sá, að í sjávarútveginum er nú að verða bylting hvað gerð og stærð fiskiskipa viðvikur og það að mestu í kyrrþey án þess að menn hafi veitt þessu verulega athygli. Nær öll hin nýju fiskiskip eru miklu stærri en tíðkazt hefur fram að þessu, t.d. var Höfrungur III sem heim kom um daginn nærri 300 tonn eða talsvert stærri en "tappatogararnir" svonefndu og fjöldi annarra báta eru um 230 tonn eða kringum 200 tonn. Þessi fiskiskip eru öll smíðuð úr stáli og þorri þeirra í norskum skipasmíðastöðvum, en það var fyrir tæpum tíu árum, sem bylting  varð í norskum skipasmíðum og flestar stöðvarnar fóru að smíða stálskip í stað tréskipa áður.
Hin miklu skipakaup íslendinga í Noregi hafa orðið til að auðvelda þessum iðnaði Norðmanna mjög gönguna, en aðeins fá stálskip hafa verið smíðuðu hér á landi. Í byrjun vikunnar var enn eitt fiskiskip afhent íslenzkum eigendum úti í Noregi. Var það hinn kunni aflamaður Gunnar Hermannsson í Hafnarfirði, sem fékk þar í hendur nýtt skip og hefur það sömu einkennisstafi GK-13 og sama heiti, Eldborg, eins og eldra skip, sem Gunnar hefur verið með.  Skipasmíðastöðin sem byggði þetta nýja 200 tonna skip heitir Bolsönæs Værft og er í bænum Molde. Hún er gamalt fyrirtæki, sem smíðaði áður tréskip. Frá aldamótum og fram til ársins 1953 hafði hún smíðað 157 tréskip. En þá varð mikil breyting á starfseminni, ákveðið var að snúa framleiðslunni yfir í stálskip. Fyrsta stálskipinu var lokið 1954 og síðan hefur aldrei orðið lát á framleiðslunni. Megnið af skipunum hefur verið fiskiskip, en einnig nokkrir dráttarbátar og ísbrjótar. Í fyrstu var framleiðslan nær eingöngu fyrir heimamarkað, en á síðari árum hefur meirihluti skipanna verið seldur úr landi. Skipasmíðastöðin getur nú smíðað sjö fiskiskip á ári. Þegar hin nýja Eldborg var afhent nú í byrjun vikunnar var allmikið um dýrðir hjá Bolsönæs Værft. Svo vildi til, að Eldborg var 200. skipið, sem skipasmíðastöðin gerir frá stofnun og auk þess voru nú 10 ár liðin frá því að stálskipasmíðar hófust. Hélt stöðin upp á þessa áfanga með góðum veizlum.
Eldborgin er sem fyrr segir um 200 tonna skip, 33 metra langt og með 600 hestafla vél. Hún er þannig um 60 tonnum stærri og 6 metrum lengri en eldri Eldborgin. Hún er fyrst og fremst ætluð til síldveiða, en einnig til þorsknótaveiða, sem nú er orðin ný veiðiaðferð hér á landi.

Vísir. 16 mars 1964.


238. Albert GK 31.                                                                                           Ljósmyndari óþekktur.

 Oddeyrin EA seld til Stykkishólms

Samherji hf. hefur selt frystitogarann Oddeyrina EA-210 til Sigurðar Ágústssonar hf. í Stykkishólmi, en togarinn er með búnað til vinnslu bolfisks og rækju. Togarinn verður afhentur nýjum eigenda innan þriggja vikna og er hann seldur án kvóta að mestu leyti. Upp í kaupin tekur Samherji hf. 168 tonna bát, Hamrasvan SH 201, og hann verður síðan úreltur. Oddeyrin EA hefur legið við bryggju á Akureyri um tíma ásamt Hríseyjunni EA-410. Þorsteinn Már Baldvinsson, framkvæmdastjóri Samherja hf" segir að inniveru Hríseyjarinnar EA megi rekja til kvótaleysis. Í júnímánuði þarf Samherji hf. að fækka skipum vegna þess að þá kemur ný Helga RE til landsins, og þá þarf útgerðin að skila úreldingu á móti kaupunum á Þorsteini EA-810 sem Samherji hf. keypti af útgerð Helgu RE.
Hvort það verður Hríseyjan EA vildi Þorsteinn Már ekki staðfesta, málið þyrfti að skoða frekar. Akraberg FD, sem Samherji hf. á með færeyskum aðilum, landaði hér í síðustu viku og hélt í gærkvöld á úthafskarfaveiðar á Reykjaneshrygg og fer síðan á veiðar í rússneskri landhelgi í lok þessa árs. Í næsta mánuði halda fleiri togarar Samherja hf. á Reykjaneshrygg, m.a. Baldvin ÞorsteinssonEA-10.

Dagur. 27 mars 1996.


238. Hamrasvanur SH 201.                                                          (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.


Skelfiskveiðiskipið Ensis KG 8 í Hollandi árið 2016.                                 (C) Óskar Franz Óskarsson.

Hamrasvanur SH seldur til Hollands

Vélbáturinn Hamrasvanur SH frá Stykkishólmi er seldur til Hollands þar sem hann verður gerður út á skelveiðar. Hamrasvanur var smíðaður í Noregi 1964.

Ægir. 1 ágúst 1996.



27.04.2019 08:10

Helgi Flóventsson ÞH 77. TFJX.

Vélskipið Helgi Flóventsson ÞH 77 var smíðaður hjá Ottesen Skibsbyggeri í Saagvag í Noregi árið 1960 fyrir útgerðarfélagið Svan á Húsavík. Eik. 109 brl. 300 ha. Wichmann vél. Skipið fórst um 4,5 sjómílur norðvestur af Langanesi 4 ágúst árið 1961. Áhöfnin, 11 skipverjar, björguðust í gúmmíbjörgunarbát. Það var síðan vélbáturinn Stígandi ÓF 25 frá Ólafsfirði sem bjargaði mönnunum til lands. Helgi var á síldveiðum og var á landleið með fullfermi þegar mikil slagsíða kom að honum með fyrrgreindum afleiðingum.


Helgi Flóventsson ÞH 77 á siglingu.                                                                   (C) Snorri Snorrason.

           Nýr bátur til Húsavíkur

Húsavík í gær:
Um helgina kom hingað nýr bátur, Helgi Flóventsson ÞH 77, en nafni hans, sem var hér fyrir, hefir verið seldur suður og hlotið nýtt nafn og númer. Eigandi hins nýja báts er Svanur h.f. Er hann 112 smálestir, byggður hjá Ottesen Skibsbyggeri í Saagvág á eynni Stord skammt frá Bergen. Skipið er byggt samkvæmt reglum "Norsk Veritas" (klassa A 1 for havfiske) og Skipaskoðunar ríkisins. Vélin er af Wichmann-gerð, 400 hestöfl, og var ganghraði skipsins 11 sjómílur í reynsluferð, en til jafnaðar á heimleið 10.4 sjómílur. Í skipinu eru öll nýjustu og fullkomnustu fiskileitar- og öryggistæki, svo sem Simrad fiski- og síldarleitartæki, dýptarmælir, talstöð, ratsjá með 50 mílna sjónvídd og sérstöku stækkunargleri, "Koden" miðunarstöð, sjálfvirk. Stýrisútbúnaður allur sjálfvirkur. Olíudrifin spil, knúin með dælum. Í skipinu eru 4 klefar fyrir skipverja og íbúð fyrir skipstjóra. Í öllum íbúðum vaskar með heitu og köldu vatni, útvarpi og síma. Í dekkshúsi er matsalur og eldhús með ísklefa. Einnig snyrtiklefar. Skipið er allt mjög vandað að frágangi og hið stærsta, sem hingað til hefir verið í eigu Húsvíkinga. Hreiðar Bjarnason sigldi skipinu til Íslands og verður skipstjóri. I. vélstjóri er Sigþór Sigurðsson. Stýrimaður Kristbjörn Árnason. Eftirlitsmaður við byggingu skipsins var Helgi Bjarnason útgerðarmaður. Helgi Flóventsson er nú farinn til veiða við Suðurland og leggur afla sinn upp í Keflavík.

Íslendingur. 10 tbl. 11 mars 1960.


Helgi Flóventsson ÞH 77. Líkan Gríms Karlssonar.                                      (C) Þórhallur S Gjöveraa.

    Báturinn á hliðina á 4 mínútum
       segir skipstjórinn á Helga Flóventssyni
           sem sökk út af Langanesi í gær
   
  
"Ekki liðu nema 4-5 mínútur frá því við urðum fyrst varir við, að báturinn var farinn að hallast þar til hann var kominn alveg á hliðina og möstrin námu við sjó", sagði Hreiðar Bjarnason skipstjóri á Helga Flóventssyni ÞH 77, í símtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. Eins og kunnugt er sökk Helgi Flóventsson um 4,5 sjómílur norðaustur af Langanesi kl. rúmlega 4,30 í gærdag. Áhöfnin, 11 manns, bjargaðist öll í gúmmíbát skipsins og síðan yfir í vélbátinn Stíganda frá Ólafsfirði, sem flutti mennina til Raufarhafnar, en þangað komu þeir um kl. 9 í gærkvöldi.- Hvað haldið þið, að komið hafi fyrir? spurði blaðamaðurinn skipstjórann. - Þetta bar allt svo skjótt að, að maður gat naumast gert sér grein fyrir, hvað var að gerast. Hið eina, sem við getum ímyndað okkur, að gerzt hafi, er, að skilrúmið fram í lúkarinn hafi sprungið. Annars er maður eiginlega ekki búinn að átta sig á þessu. - Þú sagðir, að þetta hafi allt ,gerzt í mjög skjótri svipan. Á hve löngum tíma heldurðu? - Það liðu ekki nema 4-5 mínútur frá því við urðurn fyrst varir við, að báturinn var farinn að hallast, þar til hann var kominn alveg á hliðina og möstrin námu við sjó.
Honum hvolfdi alveg nokkru eftir að við vorum komnir yfir í björgunarbátinn. Og sokkinn var hann eftir 15-20 mínútur, en þá vorum við komnir yfir í Stíganda. - Fór nokkur í sjóinn? - Já, 1 maður fór í sjóinn, en honum var fljótlega bjargað uppí gúmmíbátinn til okkar hinna. - Líður ekki öllum vel? - Jú, þakka þér fyrir. - Hvernig var veðrið? - Það var hálf slæmt, norðaustan 6. - Þið voruð með talsverðan afla? -Já, við voruim með 7-800 mál, þar af 200-300 mál á dekki.
Einar Jónsson, hreppstjóri á Raufarhöfn, yfirheyrði skipstjórann á Stíganda, þegar báturinn kom þangað í gærkvöldi. Hafði Stígandi verið á leið frá Ólafsfirði austur fyrir land. En þegar hann var staddur 4-5 sjómílur norðaustur af Langanesi um kl. 4.30 mætti hann Helga Flóventssyni. Sáu skipverjar á Stíganda, að hann hallaðist óeðlilega mikið á stjórnborða, en var að beygja upp á bakborða til þess að reyna að rétta sig af. Örskömmu síðar féll Helgi alveg á síðuna, en þá var Stígandi kominn að honum. Þegar hér var komið, setti skipshöfnin á Helga Flóventssyni út gúmmíbjörgunarbát sinn og gátu allir skipverjar stokkið niður í hann, nema einn, sem lenti í sjónum, en náðist þó fljótlega upp í bátinn, sem fyrr segir. Stígandi fór svo nærri Helga sem hann taldi ráðlegt, en ekki vildi skipstjórinn leggja alveg upp að honum af ótta við að nótin, sem var á floti, lenti í skrúfu Stíganda. Gekk síðan mjög greiðlega að ná mönnunum upp úr bátnum. Var haldið rakleiðis til Raufarhafnar, en þegar þangað kom um kl. 9 var mikill mannsöfnuður saman kominn á bryggjunni til þess að taka á móti skipbrotsmönnunum. Skipverjar á Helga Flóventssyni fóru til Húsavíkur í gærkvöldi, og munu sjópróf hefjast þar í dag.
Helgi Flóventsson var nýr bátur, smíðaður í Noregi í fyrra, 109 lestir brúttó. Var hann talinn mjög traustbyggður. Eigandi er Svanur hf. á Húsavík. Báturinn hefur verið á síldveiðum í sumar og mun hafa fengið um 9.000 mál og tunnur. Skipstjórinn, Hreiðar Bjarnason, er alþekktur dugnaðarmaður. 

Morgunblaðið. 5 ágúst 1961.


26.04.2019 16:15

1834. Neisti HU 5. í Reykjavíkurhöfn.

Vélbáturinn Neisti HU 5 var smíðaður hjá Bátalóni hf í Hafnarfirði árið 1987 fyrir Gunnar Karl Garðarson á Bíldudal, hét þá Jörundur Bjarnason BA 10. 10 brl. 199 ha. Mitsubishi vél, 147 Kw. Seldur 11 apríl 1989, Hafsteini Stefánssyni á Höfn í Hornafirði, hét Jörundur Bjarnason SF 75. Frá 22 maí 1989 er nafn bátsins Jökull SF 75, sami eigandi. Seldur 23 janúar 1991, Daníel Péturssyni, Eðvald Daníelssyni, Ársæli Daníelssyni og Pétri Daníelssyni á Hvammstanga. Neisti HU 5 er gerður út í dag af Sigga afa ehf í Mosfellsbæ, en með heimahöfn á Hvammstanga. Ég tók nokkrar myndir af bátnum á bryggjurölti í góða veðrinu í gær.


Neisti HU 5 í Reykjavíkurhöfn.










Neisti HU 5 á grásleppuveiðar.                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 25 apríl 2019.


1834. Jörundur Bjarnason BA 10 sjósettur hjá Bátalóni hf í Hafnarfirði 13 ágúst 1987. (C) Þjóðviljinn.

             Bátalón h/f
  Næg verkefni í raðsmíði

Þetta er þriðji báturinn sem við sjósetjum af þeim bátum sem við höfum í raðsmíði hjá okkur í Bátalóni h/f í Hafnarfirði. Báturinn er 9.8 brúttó-rúmlestir að stærð, samkvæmt gömlu mælingarreglunum, en samkvæmt þeim gömlu væri hann 16 tonn. Kaupverðið með öllum útbúnaði er um 11 milljónir króna, sagði Hjalti Sigfússon, verkstjóri i Bátalóni h/f, í samtali við Þjóðviljann í gær. Að sögn Hjalta hafa verið gerðir samningar um smíði 11 báta af þessari stærð hjá Bátalóni h/f og auk þess eru þeir með í smíðum 22 tonna bát, sem kemur í stað annars sem dæmdur var í úreldingu. Hann er smíðaður fyrir togveiðar ýmiskonar, svo sem á dragnót, innfjarðarrækju og skelfiskveiðar. Þessi bátur fer ásamt þeim sem sjósettur var í fyrradag til Bíldudals. Þessa stundina hefur skipasmíðastöðin nægileg verkefni út þetta ár og það næsta. Er það óvenjugott miðað við mörg önnur fyrirtæki í skipasmíðaiðnaðinum. Þrátt fyrir næg verkefni veitist erfitt að fá mannskap til vinnu, nema með mjög miklum yfirborgunum. Sagði Hjalti að það væri nú að koma fram sem menn hafa lengi óttast að mjög erfitt reynist að fá réttindamenn í járniðnaði til starfa, þar sem lítið af þeim útskrifaðist um þessar mundir úr iðnskólum landsins. Þá ber einnig nokkuð á því að vélvirkjar, svo dæmi sé tekið, leita í miklum mæli í önnur og þrifalegri störf, sem gefa ekki lakari laun, nema síður sé.

Þjóðviljinn. 14 ágúst 1987.


25.04.2019 06:48

B. v. Ólafur Jóhannesson BA 77.

Nýsköpunartogarinn Ólafur Jóhannesson BA 77 var smíðaður hjá Hall Russell & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Hlutafélagið Gylfa á Patreksfirði. Hét Andvari á smíðatíma. 681 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 56,83 x 9,21 x 4,11 m. Smíðanúmer 825. Kom fyrst til heimahafnar, Patreksfjarðar hinn 14 mars það ár. Árið 1962 er togarinn kominn í eigu ríkissjóðs. Seldur 23 apríl 1963, Hans Ole Vindenes útgerðarmanni í Fjell í Noregi, hét þar Sörfold H-186-F. Árið 1967 var skipið endurbyggt í Hollandi og breytt í nótaveiðiskip. Einnig var sett í það 2.000 ha. díesel vél. Seldur til Havöysund í Noregi (óþekkt hvenær og um eigenda) Seldur til Chile árið 1989, sama nafn. Skipið sökk við eyjuna Isla Santa Maria út af borginni Coronel í Chile í óveðri 12 júlí árið 1993. 

 

"Á árinu hófst ný togaraútgerð hér á Patreksfirði með því að hlutafélagið Gylfi festi kaup á einum af hinum tíu togurum sem ríkissjóður lét byggja í Englandi. Skipið hlaut nafnið Ólafur Jóhannesson BA 77  og kom til Patreksfjarðar hinn 14 mars. Skipinu stýrði í heimahöfn hinn margreyndi og farsæli skipstjóri Jóhann Pétursson. Ein er sú nýjung í búnaði skipsins sem áður hefur ekki þekkst í íslenskum fiskiskipum, en það er að í því eru vélar og tæki til frystingar á fiski. Í þessu frystikerfi er hægt að hraðfrysta um hálfa aðra smálest af fiskflökum á sólarhring. Er hér um að ræða merkilega nýbreytni í þá átt að vinna aflann um borð í skipunum sjálfum. Í skipinu eru einnig fiskimjölsvélar."

Árbók Barðastrandarsýslu 1951.


B.v. Ólafur Jóhannesson BA 77 á veiðum.                                                         Ljósmyndari óþekktur.
 

 Togarinn heitir Ólafur Jóhannesson 

Samkvæmt upplýsingum, sem Vísir hefir fengið frá skrifstofu Gísla Jónssonar, fer togarinn Andvari, sem fer til Patreksfjarðar og fær nafnið Ólafur Jóhannesson, í reynsluferð í dag. Hann er smíðaður hjá Hall Russell í Aberdeen. Togarinn Júní, sem Bæjarútgerð Hafnarfjarðar fær, mun fara í reynsluferð á morgun.

Vísir. 27 febrúar 1951.


B.v. Ólafur Jóhannesson BA 77 í reynslusiglingu.                     (C) Hall Russell & Co Ltd Aberdeen.
 

        Nýi Patreksfjarðartogarinn
           kom til landsins í gær

Patreksfirði, 14. mars. 
Hinn nýi togari Gylfa h.f. "Ólafur Jóhannesson" lagðist hjer að bryggju í hinni nýju höfn kl. 10 í morgun í sólskini og blíðviðri. Mikill fjöldi þorpsbúa var mættur við móttöku hans. Þegar skipið hafði lagst við festar, flutti oddviti Patrekshrepps, Ásmundur Olsen, stutt ávarp og fagnaði komu þess. Gat hann þess m. a. að þetta væri sjöundi togarinn, sem þeir Vatneyrarbræður hefðu eignast síðan faðir þeirra, Ólafur Jóhannesson, keypti togarann "Glað" árið 1925 og nefndist þá "Leiknir", en með það skip kom þá sami skipstjóri og nú, Jóhann Pjetursson. Sýslumaður Barðstrendinga, Jóhann Skaftason, fagnaði einnig komu skipsins með nokkrum ávarpsorðum, en Friðþjófur Jóhannesson, einn af eigendum skipsins, og skipstjórinn, Jóhann Pjetursson, þökkuðu góðar árnaðaróskir og buðu fólki að skoða skipið.
Skipið er byggt hjá skipasmíðastöð Hall Russell í Aberdeen og er hið vandaðasta í alla staði. Það hreppti slæmt veður á leiðinni til landsins, en þótt það væri þrauthlaðið af kolum og olíu reyndist það hið besta sjóskip. Láta skipverjar mjög vel yfir því. "Ólafur Jóhannesson" mun fara á veiðar nú um næstu helgi.

Morgunblaðið. 15 mars 1951.


B.v. Ólafur Jóhannesson BA 77 kemur til löndunar á Patreksfirði.          (C) Kristján Jóhann Jónsson.
 

B.v. Ólafur Jóhannesson fór í fyrstu              veiðiförina á þriðjudag

Vatneyri 18 marz.
Merkust tíðindi í þessu plássi á vetrinum er að sjálfsögðu koma nýja togarans Ólafs Jóhannessonar, en hann sigldi inn á nýju höfnina árdegis hinn 14. þ.m., fánum skreyttur í fögru veðri. Þyrptust þorpsbúar allir, sem vettlingi gátu valdið, niður að höfninni til þess að fagna komu hans og skoða hann. Stutt en virðuleg fagnaðarathöfn fór þá fram þar, við höfnina, en um kvöldið var ýmsum borgurum og frúm þeirra boðið til hófs, úti í skipinu. Hafði það farið virðulega fram og vakti það fögnuð, að frú Áróra Jóhannesson, ekkja Ólafs heitins Jóhannessonar, stofnanda þeirra miklu fyrirtækja, sem nú hafa um langt skeið haldið uppi mestum atvinnurekstri hér, háöldruð kona, sem aldrei sést nú orðið á mannamótum, heiðraði hóf þetta með nærveru sinni. Dagarnir, sem síðan eru liðnir, hafa verið notaðir til þess að búa skipið á veiðar, meðal annars til að fullgera hraðfrystikerfið, sem komið hefir verið fyrir í skipinu, og eins og menn vita, er það í fyrsta sinni, sem slík tilraun er gerð á togara hér. Mjölvinslutækin voru þá og reynd og er talið, að þau séu í bezta lagi, enda var reyndur maður sendur út héðan til þess að vera með í ráðum um fyrirkomulag þeirra og var farið að tillögum hans. Fer "Ólafur Jóhannesson" nú út í frumlega veiðiför á morgun (þriðjudag), eða í fernskonar tilgangi: fyrst og fremst á hann að veiða bæði í salt og ís, þá á að reyna til þrautar gúanótækin, og loks á að flaka og hraðfrysta um borð, það, sem til vinnst. Það hef eg ennfremur frá góðum heimildum, að von muni vera á öðrum nýjum togara, síðar á þessu ári.

Vísir. 28 mars 1951.


B.v. Ólafur Jóhannesson BA 77.                                                       Úr safni Sigurðar Bergþórssonar.
 

   Íslenzkur togari seldur til Noregs

Íslenska ríkið hefur selt norska útgerðarmanninum Vindenes togarann Ólaf Jóhannesson fyrir 2,7 milljónir króna. Samningar um kaupin voru undirritaðir sl. þriðjudag. Ríkið yfirtók togarann á sínum tíma úr þrotabúi Vatneyrarþrotabúsins vegna ábyrgðar ríkissjóðs á togaranum, sem var smíðaður í Aberdeen 1951 og er 680 brúttótonn. Það var sonur Vindenæs útgerðarmanns, Ejnar, sem kom til Reykjavíkur til að ganga frá kaupunum. Mun áætlað að skipta um vél í togaranum, sem verður að fara í mikla og dýra klössun. Vindenæs mun hafa í hyggju, að nota Ólaf Jóhannesson á síldveiðar, m. a. við Ísland.

Morgunblaðið. 25 apríl 1963.


Norska síldveiðiskipið Sörfold H-186-F við bryggju í Leirvik á Hjaltlandseyjum.  (C) Shetland museum.

   Dauðadæmd togaraútgerð

Talið hagkvæmara að "gefa" togarana
            úr landi en kosta upp á                                 allsherjarklössun

Svo virðist sem ný stefna hafi verið tekin upp í sjávarútvegsmálum þjóðarinnar, sem búast má við að hafi ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir þjóðarbúskapinn. Togarinn Ólafur Jóhannesson hefur verið seldur úr landi fyrir álíka verð og lítilmótlelegur vélbátur, og virðast allir dauðfegnir að vera lausir við togarann! Virðist því ekkert annað fyrir dyrum en aðrir togarar þjóðarinnar fari sömu leiðina, en eins og kunnugt er hefur togaraútgerðin átt í óskaplegu basli, hvert útgerðarfyrirtækið af öðru farið hreinlega á hausinn, og þeim fáu, sem sæmilega hefur gengið, reynzt erfitt að fá mannskap á fleyturnar. Togarinn Ólafur Jóhannesson er einn af nýsköpunartogurunum svonefndu, búinn hverskyns nýtízku veiðarfærum, og upphaflega ætlað það hlutverk að vera a. m. k. heilu plássi bjargvættur. Verðgildi hans er óvíst, en samkvæmt upplýsingum, er okkur hafa borizt, munu samskonar togarar, sem eru í gangi, vera tryggðir (skv. matsverði?) fyrir allt að 23 milljónum króna.
Söluverð togarans var 2,5 milljónir íslenskra króna. Fylgdu fregninni um söluna þær upplýsingar, að fyrir dyrum hefði staðið kostnaðarsöm allsherjarviðgerð, og sjálfur hefði togarinn bara hlaðið á sig kostnaði með því að liggja aðgerðalaus við land.
Þá hefur flogið fyrir, að hinir norsku kaupendur hafi orðið all kámpakátir yfir þessum kjörum á togaranum, þar eð kaupverðið væri tæplega verðgildi góðmálms í togaranum og mælitækja, væri hann rifinn. En það mun naumast ætlun þeirra. Almenningi er naumast láandi, þótt hann reki upp stór augu yfir þessum tíðindum. Merkir þetta upphafið á endalokum togaraútgerðar á Íslandi, og verða togarar þeir, sem nú liggja bundnir ef til vill látnir sæta sömu eða svipuðum örlögum og Ólafur Jóhannesson? Þetta er annars orðið alvörumál, hvernig komið er fyrir togaraútgerðinni. Flestir einstaklingar og allar bæjarútgerðir stórtapa á henni. Hér þarf róttækra aðgerða við. Hvernig væri nú að setja á laggirnar nefnd til að gera samanburð á rekstri og útgerðarafkomu togara og stærri bátanna. Við lifum víst í landi nefndanna og það hefði einhvern tíma þótt minni ástæða til að skipa nefnd í mál en af þessu tilefni. Það er sannað mál að hægt er að græða á útgerð nú á dögum. Það er því eitthvað bogið við þessi stórtöp bæjarútgerðanna, þegar aðrir leika sér að því að græða á fiskveiðum.
Ef það kemur í ljós, að bátarnir eru gróðavænlegir, en togararnir ekki, eins og allar líkur benda til, þá er sjálfgert fyrir öll útgerðarfélög að hætta við togaraútgerð og fara þess í stað að gera út stóra báta. Annað væri hrein heimska. Það yrði að vísu blóðugt að sjá þessi góðu og fallegu skip fara úr landi fyrir sama og ekkert verð, eða horfa á þá bundna við hafnarbakkann eða fyrir akkerum á skipalægi, mánuð eftir mánuð, jafnvel ár eftir ár. En við því verður ekkert að segja. Við verðum að gera okkur það ljóst, að það er að verða bylting í þessum málum hér á landi. Stóru bátarnir eru að taka við af togurunum. Togaraútgerðin er dauðadæmd. Við skulum bara horfast í augu við þá staðreynd og hegða okkur í samræmi við það. 

 

Ný vikutíðindi. 19 tbl. 10 maí 1963.

24.04.2019 15:18

V. b. Helgi SF 50. TFDV.

Vélbáturinn Helgi SF 50 var smíðaður í Faaborg í Danmörku árið 1956 fyrir Tryggva Sigurjónsson útgerðarmann og Ólaf Runólfsson skipstjóra á Höfn í Hornafirði. Eik. 56 brl. 230 ha. Deutz vél. Vorið 1961 eru bræðurnir Ólafur og Bjarni Runólfssynir á Höfn eigendur bátsins. Báturinn fórst um 60 sjómílur vestur af Suðurey í Færeyjum 15 september árið 1961. 7 skipverjar fórust, en 2 björguðust í gúmmíbjörgunarbát og var þeim svo sólarhring síðar bjargað um borð í skoska línuveiðarann Verbena KY frá Kirkhaldy í Skotlandi.


Vélbáturinn Helgi SF 50 á leið inn Siglufjörð með síldarfarm.                         (C) Snorri Snorrason. ?

        Tveir bátar til Hornafjarðar

Í fyrradag komu til Hafnar í Hornafirði tveir nýir fiskibátar, sem byggðir voru í Faaborg á Fjóni. Bátarnir eru eins að stærð og gerð, 53 lestir hvor með 230 ha. vélar. Bátarnir heita Akurey og Helgi. Eigendur Akureyjar eru Haukur Runólfsson og fleiri, en eigendur Helga eru Tryggvi Sigurjónsson og Ólafur Runólfsson. Bátarnir munu þegar hefja róðra.

Austurland. 6 apríl 1956.


Helgi SF 50 með góðan afla á Siglufirði.                                                       (C) Hannes Baldvinsson.

       Hörmulegt sjóslys við Færeyjar
          Sjö Íslenskir sjómenn farast

  Tveir komust af, er Helgi frá Hornafirði fórst

Sá hörmulegi atburður varð um hádegisbil á föstudaginn, að vélbáturinn Helgi SF-50 frá Hornafirði fórst í ofsaveðri skammt vestur af Færeyjum og með honum sjö ungir menn, sá elzti um fertugt. Tveir af áhöfninni komust af og var þeim bjargað um borð í skozkan fiskibát eftir að þá hafði hrakið fyrir sjó og vindi í gúmmíbát í tæpan sólarhring. Það var ekki fyrr en í gærmorgun, að vitnaðist um slysið. Skozki línubáturinn Verbena, sem þá var staddur skammt suður af Suðurey í Færeyjum, kallaði laust fyrir kl. 10 f. h. og sagðist hafa bjargað tveimur íslenzkum skipbrotsmönnum. Togarinn Þormóður goði  var á svipuðum slóðum, á leið frá Þýzkalandi, og hafði Marteinn Jónasson, skipstjóri, þegar samband við hið skozka skip. Sagði skozki skipstjórinn, að skip íslendinganna hefði sokkið mjög snögglega um hádegisbil á föstudag. Hefði komið á það hnútur, sem hvolfdi skipinu í einu vetfangi svo að ekki vannst tími til að kalla á hjálp. Hafði skozki skipstjórinn það og eftir skipbrotsmönnum, að vonlaust væri að fleiri hefðu komizt af. Skipbrotsmennirnir töldu, að Helgi hefði verið staddur því sem næst á 60,45 gr. n. br. og 9 gr. v. l., er slysið varð, en skozka skipið fann þá um 25 mílur suður af Suðurey og mun þá hafa rekið 60 mílur eða því sem næst þegar þeir fundust. Eins og fyrr segir var þarna  aftakaveður. Þormóður goði sendi fréttina strax til Íslands og þessi hörmulegu tíðindi komu eins og reiðarslag. Helgi var á heimleið frá Bretlandi, hafði siglt utan með ísaðan fisk. Áhöfnin var öll ungir og vaskir menn, flestir frá Hornafirði. Bræðurnir Ólafur og Bjarni Runólfssynir keyptu Helga SF 50 í vor og þegar lysið varð, voru þeir að koma heim úr fyrstu siglingunni. 
Ólafur var skipstjórinn, 28 ára gamall, kvæntur og fjögurra barna faðir.
Bjarni bróðir hans var háseti, fertugur að aldri, kvæntur, fjögurra barna faðir og átti heimli að Sogavegi 116 hér í bæ.
Bróðursonur þeirra, Trausti Valdimarsson, 2. vélstjóri, var undir tvítugu. Hann var búsettur að Birkihlið 20, Kópavogi.
Olgeir Eyjólfsson, mágur þeirra Ólafs og Bjarna, var háseti, 32 ára, kvæntur og þriggia barna faðir. Einar Pálsson, 1 vélstjóri, 28 ára en ókvæntur. Hann lætur eftir sig aldraða foreldra á Hornafirði.
Birgir Gunnarsson, 19 ára, háseti, sonur Gunnars Snjólfssonar, fréttaritara Mbl. á Hornafirði og
Björn Jóhannsson, stýrimaður, úr Suðursveit, 26 ára.
Mennirnir, sem björguðust voru Helgi Simonarson, matsveinn, ættaður úr Hafnarfirði. Hann er tengdasonur Gunnars Snjólfssonar og búsettur á Hornafirði. Hinn er Gunnar Ásgeirsson, háseti, Hornafirði.
Helgi SF 50 var 56 tonna eikarbátur, byggður í Danmörku 1956. Þeir bræður keyptu bátinn í vor og voru að togveiðum í sumar. Þeir veiddu sjálfir aflann, sem þeir sigldu með í þessari ferð. 

Morgunblaðið. 17 september 1961.

       Hröktust tæpan sólarhring                             í gúmmíbáti  

Morgunblaðið náði í gær sambandi við Martein Jónasson, skipstjóra, um borð í Þormóði goða til þess að fá nánari fregnir af þessum hörmulega atburði, því hann fékk fyrstur fréttir af því, sem gerzt hafði. Verbena kallaði korter fyrir 10 í morgun, sagði Marteinn. Þeir sögðu okkur þá, að þeir hefðu fundið íslendingana tvo, en fyrr vissi enginn um slysið. Ég talaði ekki við skipbrotsmennina, en skozki skipstjórinn talaði við mig örstutta stund og sagði, að Helgi hefði sokkið á Færeyjabankanum, um 70 mílur SV af Suðurey, samkvæmt því, er skipbrotsmennirnir hefðu gefið upp. Skotarnir fundu þá ekki fyrr en í morgun, um 25 mílur suður af Suðurey og samkvæmt þeim staðarákvörðunum, sem skozki skipstjórinn gaf upp, þá hefur mennina rekið um 60 mílur frá því á hádegi á föstudag þar til í morgn. Það var alveg vitlaust veður á þessum slóðum, 12- 13 vindstig, vestan. Og það var mjög slæmt í sjóinn. Skipbrotsmennirnir sögðu björgunarmönnum sínum, að skipinu hefði hvolft í einni svipan og ekki unnizt tími til að gera neinar ráðstafanir til að leita hjálpar. Þeir sögðu líka vonlaust, að fleiri hefðu komizt af. Um hádegið í dag (laugardag) vorum við komnir á þær slóðir, sem skipbrotsmennirnir sögðu Helga hafa sokkið á, en þar var ekkert að sjá, sagði Marteinn, enda ekki við því að búast. Ef eitthvert brak er á reki úr bátnum, þá er það komið austur fyrir Suðurey. Veðrið er heldur skárra núna, en hann versnar með kvöldinu. Ég geri samt ráð fyrir að verða í Reykjavík aðfaranótt mánudags, sagði Marteinn að lokum.

Morgunblaðið. 17 september 1961.


21.04.2019 11:39

B. v. Surprise GK 4. TFRD.

Nýsköpunartogarinn Surprise GK 4 var smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir Einar Þorgilsson & Co í Hafnarfirði. 661 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 204. Kom til landsins hinn 28 október sama ár. Togarinn strandaði á Landeyjasandi 5 september árið 1968. Áhöfninni, 29 mönnum, var bjargað á land af björgunarsveitum úr Landeyjum og frá Hvolsvelli. Nokkrar tilraunir voru gerðar til að ná togaranum út en þær reyndust árangurslausar. Örlög Surprise urðu eins og hjá fjölda annara skipa sem strandað hafa við suðurströnd landsins, að hverfa í sandsins djúp.


B.v. Surprise GK 4 á siglingu.                                                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

     Nýsköpunartogarinn Surprise                        kom í morgun

Nýsköpunartogarinn "Surprise", eign Einars Þorgilssonar og Co" kom til Hafnarfjarðar um fimmIeytið í morgun. "Surprise" er smíðaður í Aberdeen, og er svipaður nýsköpunartogurunum, sem áður eru komnir. Í Hafnarfirði verða væntanlega sett lýsisbræðslutæki í togarann og að því loknu mun hann halda á veiðar. Geta má þess, að í reynsluferð gekk togarinn 13 1/2 sjómílu á klst. skipstjóri er Jónbjörn Elíasson.

Vísir. 28 október 1947.


B.v. Surprise GK 4.                                                (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen. 


B.v. Surprise GK 4 að landa afla sínum.                                                         Ljósmyndari óþekktur.

        Maður drukknar af Surprise
              Skipið hlaut áfall á heimleið  

Togarinn Surprise frá Hafnarfirði fékk áfall í gærkvöldi, er hann var á heimleið af miðunum. Tók einn skipsverjanna út og drukknaði hann. Auk þess missti skipið báða bátana. Togarinn Surprise hafði verið á veiðum á Halamiðum. Var hann á leið til Hafnarfjarðar í gær. Vont var í sjó og hvasst. Hlaut skipið þá áfall og tók út einn skipverja, Guðmund Jóhannsson til heimilis að Austurgötu 29 í Hafnarfirði, og drukknaði hann. Guðmundur var ungur maður, aðeins 31 árs að aldri. og lætur eftir sig ekkju og þrjú börn ung. Surprise misti einnig báða bátana í þessum brotsjó. Einari Þorgilssyni & Co., sem á togarann, barst skeyti frá skipstjóranum um þetta slys í gærkvöldi.

Tíminn. 10 nóvember 1947.


Úr Hafnarfjarðarhöfn. Maí GK 346 við bryggjuna, þá Surprise GK 4, Vonin VE 113 og Glaður SH 144. Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Surprise GK 4 á leið til hafnar í Vestmannaeyjum.                       Málverk Ketils B Bjarnasonar.

       Reynt að ná Surprise út í dag

  Giftusamleg björgun áhafnarinnar

Togarinn Surprise GK 4, strandaði klukkan hálf sex í gærmorgun á Landeyjarsandi, beint niður undan bænum Sigluvík. Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins í Landeyjum og á Hvolsvelli komu á vettvang og tókst greiðlega að bjarga mönnunum. Voru 24 þeirra dregnir í land í björgunarstóli á hálftíma, en 3 yfirmenn seinna, eftir að þeir höfðu gengið frá um borð. Varðskipið Ægir kom um hádegi að strandstað, en gat ekkert aðhafzt þar því veður hafði versnað er leið á morguninn. í gærkvöldi höfðu varðskipsmenn kannað aðstæður á léttabáti, og töldu sig geta komizt í 300 faðma fjarlægð frá togaranum, en þaðan væri kannski hægt að skjóta kaðli yfir í togarann, þegar veðrið lægði. Veðurspá var góð og átti að freista þess að bjarga togaranum í dag. Þegar togarinn strandaði í gærmorgun, mun hann hafa verið 40-50 metra frá landi. Nokkurt brim var við sandinn, en ekki mikill sjór.


B.v. Surprise GK 4 á strandstað á Landeyjasandi.                                                (C) Ottó Eyfjörð. 

Var skipið á siglingu austur með landi, og flestir í koju nema þeir sem áttu vakt. Surprise sneri í fyrstu stefninu í land og hjó svolítið í briminu. Er leið á morguninn herti veðrið og "hækkaði á sér", eins og þeir sögðu fyrir austan, þ.e. snerist heldur til landáttar. Kaðall, sem festur hafði verið í stefni skipsins frá jeppum í landi héldu því ekki, svo það tók að snúast og var komið næstum þvert fyrir, þegar fréttamenn Mbl. fóru af staðnum um miðjan dag. Þá var komið háflóð og skipið tekið að hallast nokkuð. Varðskipið Ægir beið fyrir utan, og björgunarsveitarmenn ætluðu að hafa vakt á staðnum. Yfir daginn hafði togarinn færzt mun nær landi á flóðinu. Ef togarinn fer þvert fyrir og hallast, þá leggur hann sig í ölduna, sögðu karlarnir. Þá er búið með hann. Og skipstjórinn fór í síma, til að ráðast við eigendur og tryggingarfélag um ráðstafanir til að fá þangað ýtu niður á sandinn, ef hún gæti haldið við kaðla er festir yrðu í skipið. Surprise er 20 ára gamall togari, sem hefur verið mesta happaskip. Hann hafði farið í fullkomna klössun í fyrra og í síðasta mánuði var hann í slipp til viðgerðar og hreinsunar, enda er skipið fallegt og nýmálað, þar sem það vaggaði í briminu á strandstað. Það fór í fyrstu veiðiferð eftir snyrtinguna s.l. laugardag, og var aflinn orðinn 70 tonn, sem fengizt höfðu út af Reykjanesi. Nú var hann á leið austur með landi.
Eigandi skipsins er Einar Þorgilsson & Co í Hafnarfirði og er þetta þriðja skipið með þessu nafni. Togarinn er tryggður hjá Samtryggingu íslenskra botnvörpunga.

Morgunblaðið. 6 september 1968.


B.v. Surprise GK 4 á strandstað.                                                                 (C) Guðrún Indriðadóttir.

                        Á strandstað

            Öllum bjargað á hálftíma
            Enginn vöknaði í fæturna

Skipverjar af togaranum Surprise voru að koma upp að Hvolsvelli í áætlunarbíl, þegar fréttamann Mbl. bar þar að snemma í gærmorgun. Það gekk ljómandi vel að komast í land, sögðu þeir. Enginn svo mikið sem vöknaði í fæturna. Við vorum að veiðum í gær og var nokkuð hvasst, en í nótt vorum við á siglingu austur með landi. Flestir sváfu, þeir sem ekki voru á vakt. Það var fyrsti stýrimaður, sem var á vaktinni. Við vöknuðum ekki fyrr en skipið tók niðri og tíndum á okkur garmana. Þegar við komum upp, hallaði skipið dálítið á stjórnborða, en snerist svo nokkuð, þannig að stefnið sneri til lands. Við biðum svo átekta. Björgunarsveitin í Landeyjum kom fyrst og við skutum línu til hennar, Það gekk fljótt og vel, enda var þetta stutt haf. Og strax niður í fjöru er nokkur kambur, svo stóllinn dróst ekki niður í sjó, þegar þeir drógu okkur í land. Þá var björgunarsveitin á Hvolsvelli komin líka. Voru allir komnir í land kl. 8.30. Björgunarsveitarmenn sögðu okkur, að það hefði tafið þá að fá staðarákvörðun togarans miklu austar, eða nálægt Markarfljóti, og voru þeir lagðir af stað þangað. En Lóðsinn frá Vestmannaeyjum hafði miðað togarann út og þá hefði þetta leiðrétzt, enda sendi togarinn upp rakettur.


B.v. Surprise GK 4. Maður á leið út í skipið.                                            (C) Guðrún Indriðadóttir. 

Ólafur Vignir Sigurðsson, loftskeytamaður, sagðist hafa verið sofandi, en vaknaði við kippinn, er skipið tók niðri. Þegar hann var að klæða sig, kallaði skipstjóri í hann, til að senda út kall á neyðarbylgju. Náði hann strax sambandi við Vestmannaeyjar, Neptúnus og Hallveigu Fróðadóttur, sem umsvifalaust sendu neyðarbeiðnina áfram til Hannesar Hafsteins í Slysavarnafélaginu. Skipstjórinn sendi samtímis á örbylgju og náði sambandi við Vestmannaeyjar. Vegna mótvinds hefði skipinu sennilega ekki miðað eins vel og talið var og staðarákvörðunin því verið of austarlega í fyrstu. Það er ákaflega þakkarvert hve þeir voru vel á verði á bylgjunum, sagði Ólafur Vignir og hve þeir brugðu skjótt við. Já, skipið var alveg heilt, þegar við komum upp. Og enginn sjór var í því er við yfirgáfum það, nema eitthvað smávegis, sem kom inn þar, sem dyr voru opnar, því fyrst gaf svolítið á. En eftir því sem togarinn festis betur og snerist, svo stefnið var í veðrið, þá braut minna yfir hann. Annars var veður betra þarna en úti. Við vorum í landvari, sagði Ólafur Vignir ennfremur. Hver var fyrst dreginn í land? spurðum við. Og allir bentu á 19 ára gamlan pilt, Pál Sigurðsson úr Reykjavík. Hann var þó ekki yngsti maður um borð. Yngstur var Guðjón Ingason, 17 ára, úr Kópavogi. Ég var á vakt niðri í vél, sagði Guðjón, og varð strax var við þetta. Togarinn hallaðist. Þeir hringdu á fulla ferð aftur á bak. Vélstjórinn framkvæmdi skipunina. Nei, mér varð ekkert ónotalega við, sagði Guðjón ennfremur. Ég hafði nýlega litið út og vissi að við vorum nálægt landi. Annar skipverji, sem var á vakt, var Hjalti Bergmann úr Reykjavík.


B.v. Surprise GK 4 á strandstað.                                                              (C) Guðrún Indriðadóttir.
  
Ég var við stýrið, sagði hann. Ég sé ekkert, fann bara þegar við tókum niðri. Stýrimaðurinn var þarna líka. Við reyndum að hringja aftur á bak, en það stoðaði ekki. Hve oft skipið tók niðri? Við fórum fyrst yfir eitt rif, reyndum að setja á aftur á bak. Svo stoppaði skipið á einhverju. Þá var ég sendur að vekja. Erlingur Axelsson kvaðst líka hafa verið á vaktinni. Hann var nýfarinn aftur á, er hann varð var við að skipið tók niðri. Ég hefi lent í strandi áður á Herðubreið við Skagafjarðartá og þekkti þetta. Mitt fyrsta verk var að fara upp í brú og fá skipun hjá skipstjóra. Hann lét mig fara til að vekja mannskapinn og segja mönnum að vera alveg rólegum. Og allir koma sér saman um, að það hafi menn einmitt verið. Loks hittum við þrjá elztu sjómennina í hópnum. Sófus Hálfdánarson, bátsmaður hefur verið 43 ár til sjós. Oft hefur hann lent í vondum veðrum, en aldrei neinu svona, sagði hann. Gunnar Ólafsson hefur verið á sjó síðan 1928. Hann var einu sinni á síldarbát, sem sökk undan honum. Það voru ekki eins mikil rólegheit og í þetta sinn, sagði hann.


Flak togarans í sandinum.                                                            Úr safni Tryggva Sigurðssonar.  

Björgvin Jónsson hefur verið á Surprise síðan skipið kom til landsins 1947, en hann hefur verið til sjós í 40 ár. Ekkert hefur fyrr komið fyrir hann á sjó, í 40 ár. Hann kvaðst vera úr Rangárvallasýslu, en ekki hefði hann samt ætlað svona beina leið til æskustöðvanna. Og hann sagði að sér fyndist nú hálf kjánalegt að fara á þennan hátt af Surprise eftir öll þessi ár. Kristján Andrésson, skipstjóri, Hilmar Þór, 1. stýrimaður, Finnur Steinþórsson, 2. stýrimaður, og vélstjórarnir Bjartur Guðmundsson og Salomon Loftsson, höfðu orðið eftir á strandstað og farið að fá sér kaffi í Sigluvík. Þeir voru nú aftur komnir niður á sand, þegar okkur bar að. Togarinn Surprise var þarna rétt fyrir utan. Það gljáði á nýmálaðan grænan skrokkinn, þar sem hann vaggaði léttilega, að því er virtist laus að framan og aftan. Hann líktist stórri lifandi skepnu. Stefnið sneri beint upp í fjöruna og enn var ekki mikið brim. Björgunartaug lá út í skipið. Rétt að láta hann ekki snúa sér, sögðu menn. Og fyrsti stýrimaður fór í stólnum út í skipið með taug, sem hann setti fasta. Síðan var hún fest við spilið í jeppa, sem hélt í og kom í veg fyrir að stefnið færðist til hliðar. Stýrimaður kom aftur í land. Allir biðu eftir varðskipi,, sem væntanlegt var undir hádegi. Menn voru heldur bjartsýnir. Þetta lítur sæmilega út, ef ekki breytist áður en varðskipið kemur, sögðu menn. En það var greinilegt að veður var að versna.


Flakið af Surprise GK 4.                                                                     Úr safni Tryggva Sigurðssonar  

Togarinn tók stærri dýfur og rikkti í böndin. Sjórinn hækkaði nokkuð ört í fjöruborðinu og hvítt brimið skvettist hærra á togaranum. Hleri hafði losnað og dynkir heyrðust, þegar hann skall þungt í hliðinni Jú, um 12 leytið kemur reyndar varðskipið Óðinn og talar við, skipstjórann á Surprise í gegnum talstöðina í einum bílnum. Það er ráðgast fram og aftur. Okkur, sem hlustum við bílgluggana, heyrist að helst verði til ráða að láta eitthvað reka í land með kaðal frá varðskipinu. En þeir ætla að sjá til. Skipherra ætlar fyrst að borða og athuga málið. Þá er eins gott að þið fáið eitthvað í svanginn, sagði þá Ágúst Jónsson, bóndi í Sigluvík við yfirmenn togarans. Það er ekkert að vita hvað þið verðið hér lengi í dag. Drífið þið ykkur með mér í jeppanum heim í bæ. Og af mikilli riddaramennsku tók hann með blaðamann Mbl., líklega af því hann var eini kvenmaðurinn í pressuhópnum. Og við komum öll eins og hvirfilvindur heim á bæ í jeppa, sem dóttir hjónanna ók og gleyptum í okkur matinn hjá húsfreyjunni, Sigríði Lóu Þorvaldsdóttur. Helvíti er hann farinn að halla! Hann er að snúast! hrópuðu menn upp þegar við komum aftur niður í fjöru. Skipið hafði líka slitið af sér einn kaðalinn. Skipstjórinn átti aftur langar samræður við varðskipið í talstöðinni. Það sagðist ekki geta farið nær en á 10 faðma dýpi. Og í því hvassviðri, sem nú væri komið, þýddi ekki að reyna að koma kaðli á milli. Það yrði að bíða þar til lægði. Veðrið var ekkert orðið líkt því sem var um morguninn.+


Flakið af Surprise GK á Landeyjasandi.                                      Úr safni Tryggva Sigurðssonar. 

Brimið hafði stóraukizt, svo og hvassviðrið og sandurinn rauk svo dimmt var yfir. Hann má bara ekki snúast þvert, áður en hægt verður að koma á hann böndum og kippa í sögðu karlarnir. Þá leggst hann í ölduna. En hvað var hægt að gera? Jú, ef þarna væru komnar jarðýtur, þá mundu þær líklega ekki renna eins og bílarnir. Skipstjórinn ætlaði að ráðgast við tryggingarnar um það. Þarna var margt manna saman komið. Hjá krökkunum í sveitinni var þetta mikill viðburður. Og reyndar hjá flestum. Fulltrúi sýslumanns, Pálmi Eyjólfsson, hafði komið strax um morguninn, svo og fréttamenn, og auðvitað björgunarsveitir. Við hittum snöggvast Þorstein Þórðarson, formann björgunarsveitarinnar í Landeyjum. Hann kvaðst hafa verið ræstur rétt fyrir kl. 6. Hann kallaði út lið sitt, getur náð saman 20-30 mönnum í skyndi. Röng staðarákvörðun í upphafi tafði þá svoItið, en ekki að ráði. Og björgunarstarfið gekk fljótt og vel, sem fyrr er sagt.
Hér hafa ekki oft orðið mörg strönd, sagði hann. Fyrir nokkrum árum strandaði báturinn Frosti frá Vestmannaeyjum hér rétt á sama stað. Mannbjörg varð og seinna tókst að ná bátnum út með varðskipi. En á Austur-Landeyjasandi hafa oftar orðið strönd. Þar var það t.d. sem Wislock fórst.

Morgunblaðið. 6 september 1968.

       Stingst óvænt upp úr sandi

Flakið af tog­ar­an­um Surprise GK 4 frá Hafnar­f­irði gæg­ist nú upp úr Land­eyjasandi neðan við bæ­inn Siglu­vík í Vest­ur-Land­eyj­um. Ný­sköp­un­ar­tog­ar­inn Surprise (sem merk­ir óvænt eða furða) var rúm­lega 20 ára og ný­kom­inn úr skver­ingu, græn­málaður og glæsi­leg­ur, þegar hann strandaði um klukk­an 05.30 að morgni 5. sept­em­ber 1968. Um borð var 23 manna áhöfn. Henni var bjargað á hálf­tíma og vöknuðu skip­verj­ar ekki í fæt­urna þegar þeir voru dregn­ir í land í björg­un­ar­stól.
Gerð var til­raun til að bjarga tog­ar­an­um en veðrið kom í veg fyr­ir það og Surprise komst aldrei aft­ur á flot. Fjar­an þar sem tog­ar­inn strandaði er sí­breyti­leg og stund­um hef­ur skips­flakið horfið í sand­inn jafn­vel árum sam­an. Svo fer fjar­an á flakk og svipt­ir hul­unni af Surprise, al­veg óvænt, líkt og nú er að ger­ast.
Georg Orms­son, vél­virkja­meist­ari í Kefla­vík, keypti flakið af Surprise og vann að því ásamt aðstoðarmönn­um að bjarga verðmæt­um úr skip­inu. Georg náði fljót­lega til baka því sem hann lagði í kaup­in með því að selja kop­ar og ýms­ar vél­ar og tæki. Hann sagði að það hefði verið tölu­verð vinna að hirða það sem nýti­legt var.


Flakið af Surprise GK og útlínur þess sjást vel á myndinni.   (C) Ragnar Axelsson. / Morgunblaðið.

"Ég hef verið að þessu í þrjú til fjög­ur ár þegar veður gaf," sagði Georg. "Ég tók mynd­ir til að sýna hvernig er með sand­inn þarna fyr­ir aust­an. Tog­ar­inn lá oft­ast nær á síðunni. Svo fór það eft­ir sand­in­um hvort hann var að graf­ast eða ekki. Sand­ur­inn er svo ólm­ur þarna. Það er al­veg met. Stund­um var tog­ar­inn al­veg hreint uppi og stund­um al­veg á kafi." Georg sagði að þegar þeir tóku skrúf­una af tog­ar­an­um hefði svo ört graf­ist að skip­inu að hann hefði þurft að saga öxul­inn, enda var hann bú­inn að selja skrúf­una.
"Ég tók fyrst eft­ir flak­inu fyr­ir rúm­um mánuði," sagði Gísli Matth­ías Gísla­son, þyrluflugmaður hjá Norður­flugi. Hann er ættaður úr Vest­manna­eyj­um og á oft leið með Suður­strönd­inni. Þá er Gísli af sjó­mönn­um kom­inn og er áhuga­sam­ur um sjó­ferðasög­una. Ragn­ar Ax­els­son ljós­mynd­ari var ein­mitt í flug­ferð með Gísla þegar stóra mynd­in hér á opn­unni var tek­in.


Flakið af Surprise GK 4 í flæðarmálinu. Gufuketillinn fyrir miðri mynd. (C) Guðni A Einarsson 2015.

Gísli sagði að fyrst hefði hann séð þegar gufu­ketill­inn fór að stinga koll­in­um upp úr sand­in­um. "Ég hélt að þarna væri bara ketill­inn. Svo er ég bú­inn að fara nokkr­ar ferðir síðan og það hef­ur alltaf komið meira og meira í ljós af skip­inu." Nú má greini­lega sjá móta fyr­ir út­lín­um skips­ins. Gísli sagði að flakið væri al­veg í fjöru­borðinu og út­lín­ur skrokks­ins sjást ekki nema á fjöru. Skrokk­ur­inn virðist vera nokkuð heil­leg­ur en yf­ir­bygg­ing­in er löngu horf­in. Hún var yfir þar sem ketill­inn var í vél­ar­rúm­inu.
Gísli merkti inn á kort staðsetn­ingu flaks­ins nokk­urn veg­inn. Hann setti einnig mynd af skips­flak­inu og færslu í umræðuhóp á Face­book, Göm­ul ís­lensk skip, hinn 3. júní sl.
Mik­il umræða spratt upp um hvaða skipi flakið til­heyrði og komu ýms­ar til­gát­ur þar um. Í gær höfðu verið skráðar 107 færsl­ur um flakið sem sýn­ir að tals­verður áhugi er á göml­um skips­flök­um.

Mbl.is 10 júní 2015.




19.04.2019 14:19

M. b. Sæfari MB 11.

Mótorbáturinn Sæfari  MB 11 var smíðaður í Frederikshavn í Danmörku árið 1913 fyrir Sigurð Þorvarðarson Kaupmann, Þorvarð Sigurðsson og Karvel H Jónsson, allir í Hnífsdal og Grím Jónsson verslunarmann í Álftafirði, hét þá Sæfari ÍS 360. Eik og fura. 27 brl. 36 ha. Alpha vél. Sæfari var í póst og vöruflutningum á Ísafjarðardjúpi, veturinn 1913-14. Seldur Sigurði Þorvarðarsyni árið 1923. Seldur 1 nóvember 1930, Magnúsi Guðmundssyni og Axel Sveinbjörnssyni á Akranesi, hét þá Sæfari MB 11. Ný vél (1931) 76 ha. Tuxham vél. Ný vél (1937) 90 ha. June Munktell vél. Seldur 2 nóvember 1940, Hreggviði Bergmann og Huxley Ólafssyni í Keflavík, hét Ægir GK 263. Ný vél (1945) 165 ha. Gray vél. Hét Ægir KE 11 frá árinu 1949. Seldur 15 nóvember 1949, Meitlinum hf. í Þorlákshöfn, hét Þorlákur ÁR 5. Báturinn slitnaði úr legufærum í óveðri í Þorlákshöfn,13 apríl árið 1962 og rak á land og eyðilagðist.


Sæfari MB 11 á siglingu.                                                                                    Ljósmynd í minni eigu.

       Nýr vélarbátur til Hnífsdals

Nýr vélarbátur, af sömu gerð og vélarbátur Karls Löve og þeirra félaga, kom hingað á sunnudaginn. Hafði haft 12 daga útivist og fengið harðneskjuveður. Með bátinn komu: Hjörtur Lárusson skipstjóri, Ingólfur Jónsson formaður og Eiríkur Einarsson skipstjóri.
Eigendur eru sagðir: Sigurður Þorvarðsson kaupmaður í Hnífsdal og Þorvarður sonur hans, Karvel H. Jónsson formaður og Grímur Jónsson verslunarmaður í Álftafirði. Báturinn heitir "Sæfari."

Vestri. 33 tbl. 30 ágúst 1913.

       Sæfari ÍS 360 í póstferðum

Sæfari heitir vjelabátur er hafður verður í vetur á Ísafjarðardjúpi til þess að annast þar flutning á pósti farþegum og farangri. Byrjar hann ferðir sínar kl. 7 í fyrramálið frá Ísafirði, en áætlaðar 4-5 ferðir um Djúpið í hverjum mánuði. Viðkomustaðirnir eru helstir þessir:
Aðalvík, Ármúli, Arngerðareyri, Grunnavík, Hesteyri, HnífsdaIur, Höfði, Laugaból, Melgraseyri, Sandeyri, Skálavík, Vatnsfjörður, Æðey og Ögur.

Vísir. 4 nóvember 1913.


Þorlákur ÁR 5 á línu eða netaveiðum.                                             (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

     Bát rekur á land í Þorlákshöfn

Í landssynningsrokinu í morgun slitnuðu legufæri 27 tonna vélbátsins Þorláks ÁR-5 austur í Þorlákshöfn. Rak bátinn þegar upp að klöppunum aðeins um bátslengd norðar en þar sem vélbáturinn Faxi fórst fyrr í vetur. Leki kom þegar að Þorláki og mun hann vera fullur af sjó en stendur eins og skorðaður í klöppinni. Er hugsanlegt að tilraun verði gerð til að bjarga honum síðar í dag, ef vindurinn snýst til sunnanáttar eins og spáð er. Þó er óvíst um björgun vegna þess að báturinn er gamall, smíðaður 1913 í Frederikstad. Þorlákur hét áður Ægir frá Keflavík. Nokkur ár eru síðan hann var keyptur til Þorlákshafnar og hefur hann verið gott aflaskip, skipað þúsundum lesta af fiski á land í Þorlákshöfn á undanförnum árum.
Vísir átti í morgun tal við Benedikt Thorarensen framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Meitils. Hann sagði að legufærin á Þorláki hefðu slitnað kl. 9 í morgun. Það byrjaði að hvessa af SA í gærkvöldi og stóð rokið af sömu átt alla nóttina.
Þetta er hættulegasta áttin í Þorlákshöfn, sérstaklega ef hún er stöðug lengi. Þorláki var lagt nyrzt af Þorlákshafnarbátum, en það vantar eins og 2-3 steinker í hafnargarðinn til þess að bátur sem þar er sé öruggur. Það sem hér gerðist var að við lágfjöru fóru að skella grunnbrot yfir Þorlák. Keðjan var fullstrekkt þegar brot kom yfir hann og var það svo mikið að áður en það skall yfir sá í botnkeðjuna. Í þessu tilfelli slitnaði báturinn ekki upp vegna þess að lásaðist úr, heldur slitnaði keðjan beinlínis í sundur. Það skipti svo engum togum að bátinn rak upp í fjöru undir frystihúsið á líkum stað og Faxa fyrr í vetur. Eins og nú er ástatt í rokinu er ekki hægt að komast út í bátinn hvorki frá sjó né landi. Skipið var mannlaust. 

Vísir. 13 apríl 1962.


18.04.2019 11:06

Þilskipið Elliði frá Siglufirði.

Elliði er talinn smíðaður í Noregi árið 1855, hét þar Johanne Margarete. 10 brl. Keyptur til Siglufjarðar árið 1859 af Hafnarbændum, (Höfn í Siglufirði), Páli og Jóhanni Jónssyni. Jóhann var skipstjóri á Elliða fyrstu árin og tókst giftusamlega. Ekki aflaði hann meira en í meðallagi, enda var Elliði mjög lítill, en farsællega tókst honum að sjá öllu borgið, hvað sem á dundi. Af Elliða er það að segja, að hann var endursmíðaður oftar en einu sinni. Jón Stepánsson skipasmiður á Akureyri endurbyggði Elliða nánast frá grunni eftir strandið í Hornvík árið 1897. Komst Elliði loks í eigu Ólafs bónda Ólafssonar á Syðri-Bakka í Arnarneshreppi og Gudmannsverslunar á Akureyri. Var Ólafur með Elliða í mörg ár. Elliði var til fram yfir aldamótin 1900 og mun hafa að lokum verið rifinn.
Þilskipið Elliði er talinn vera fyrsta þilskip Siglfirðinga. Þótti ókostur hvað hann var lítill, en engu að síður stóð hann vel undir sínu alla tíð.

Heimildir:

Skútuöldin. Gils Guðmundsson. 1977.
Siglufjörður. 170 ára verslunarstaður. Myllu-Kobbi. 1988.


Þilskipið Elliði.                                                                                                  Mynd úr Skútuöldinni.

          Skipströnd og manntjón

Í norðan hretinu í öndverðum þ. m. fórst eyfirzkt hákarlaveiðaskip "Draupnir" í Barðsvík á Hornströndum, og týndust menn allir. Í sama hreti strönduðu og eptir nefnd þilskip á Höfn á Hornströndum:
 "Budda", skipstjóri Guðjón Sigmundsson,
 "Síldin", skipstjóri Magnús Guðbrandsson,
"Lydíana", skipstjóri Þorsteinn Sigurðsson,
"Elliði" skipstjóri Jónas Sigfússon og
"Hermes" , skipstjóri Sölvi Ólafsson.
Menn björguðust þó allir. Af skipum þessum eru þrjú hin fyrst nefndu eign Á. Ásgeirssonar verzlunar, en hin tvö eyfirzk, og kvað ekki vera vonlaust um, að takast megi að gera svo að "Síldinni", "Elliða" og "Lydíönu", að þau verði sjófær. Einn af hvalveiðabátum hr. L. Berg's á Framnesi kvað hafa sokkið við Langanes (Þórshöfn?), svo að aðeins sjái á möstrin; menn björguðust þó allir. Þilskip, sem Helgi Andrésson er skipstjóri á, hleypti inn í Ólafsvík, varð að höggva þar möstur, missti einn mann útbyrðis, er drukknaði, og annar viðbeinsbrotnaði. Enn er og eitt skip, "Þráinn" , skipstjóri Bjarni Bjarnason. frá Laugabóli í Arnarfirði, sem ekkert hefir til spurzt, eptir hretið, og ma því að líkindum telja, að það hafi farizt. Flest önnur fiskiskip héðan að vestan voru og meira eður minna hætt komin.

Þjóðviljinn ungi. 21 maí 1897.


17.04.2019 11:55

310. Baldur VE 24. TFWK.

Vélbáturinn Baldur VE 24 var smíðaður hjá A & K.A. Tommerup í Hobro í Danmörku árið 1930 fyrir H. E. Olsen í Argir í Færeyjum. Hét fyrst Trygvi E 303. Eik, beiki og fura. 55 brl. 119 ha. Alpha vél. Seldur árið 1932, dönskum útgerðarmanni, R.P. Schou að nafni í Frederikshavn í Danmörku, hét hjá honum Aud Schou FN 298. Seldur 5 júlí 1939, Haraldi Hannessyni, Rögnvaldi Jónssyni og Jónasi Jónssyni í Vestmannaeyjum, fær nafnið Baldur VE 24. Ný vél (1947) 204 ha. Ruston vél. Baldur hf. í Vestmannaeyjum var skráður eigandi bátsins í mars 1954, sömu eigendur. Ný vél (1957) 280 ha. Mannheim vél. Ný vél (1975) 425 ha. Caterpillar vél. Ný vél (1980) 431 ha. Caterpillar vél, 317 Kw. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 30 júlí árið 2002.


310. Baldur VE 24 í Vestmannaeyjahöfn.                                                 (C) Haraldur Þ. Gunnarsson. 


Baldur VE 24.                                                                 (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.


Baldur VE 24. Mynd tekin í Danmörku árið 1939.                                            (C) Heimaslóð.is


           Baldur VE 24

Þegar Baldri VE 24 var fargað vorið 2002, var hann elsta skip íslenska flotans og enginn vélbátur hafði siglt lengur til fiskjar frá Vestmannaeyjum. Hann var í eigu sömu útgerðarinnar hér frá því hann var keyptur til landsins vorið 1939 til áramóta 2001-2002. Fáum ef nokkrum var eins vel við haldið og honum alla tíð. Mikil gæfa og gifta fylgdi útgerð og áhöfnum hans öll þessi ár.
Árið 1986 sögðu þáverandi skoðunarmenn í blaðaviðtali, þeir Tryggvi Sigurðsson og Þórarinn Sigurðsson, að Baldur bæri af fyrir góða umhirðu. Hvar sem var, í lúkar, vélarrúmi, lest eða stýrishúsi og hvar sem var ofandekks og neðan, var allt á einn veg og í honum voru góð tæki. Þeir sögðu að enginn gæti látið sér detta í hug að þetta væri 55 ára gamalt skip. Skrokkurinn sérstaklega fallegur. Gætt hafi verið vel að því að hafa nóg af fríholtum á bátnum og binda vel við bryggjur. Þar færu þeir yfirleitt verst í barningi við þær og aðra báta.
Baldur fór fyrst á flot um áramótin 1930 - 1931 í Hobro í Danmörku, þá nýsmíðaður fyrir fyrirtæki í Færeyjum sem hét Rauði hringurinn. Í fyrstu hét hann Axel og voru 6 aðrir, sams konar bátar, afhentir þessu færeyska félagi um leið. Stauning, forsætisráðherra Dana, hafði forgöngu þar um. Reksturinn gekk illa og eftir 2 ár keypti danskur útgerðarmaður í Fredrikshavn, Skog að nafni, Axel og var nafninu þá breytt í Aud Schou. Skog gerði hann út á snurvoð á Íslandsmið árin sem hann átti hann.
Árið 1939, um vorið, kaupa Haraldur Hannesson, Jónas Jónsson og Rögnvaldur Jónsson bátinn og gefa honum nafnið Baldur. Haraldur var skipstjóri og var farið strax á bátnum norður á síld og þannig var það öll sumur til 1961 að alltaf voru stundaðar síldveiðar fyrir Norðurlandi, fyrst á snurpu með tveimur nótabátum í eftirdragi, en síðan einum á hringnót. A veturna var róið héðan með línu, net og troll og frá 1961 hafa verið stundaðar togveiðar héðan allt árið um kring. Rögnvaldur var á Baldri til 1964 að hann hætti sjómennsku og seldi félögunum sinn hlut. Jónas var eigandi til dauðadags 1972 en frá þeim tíma hafa fjölskyldur Haraldar og Hannesar, sonar hans, átt Baldur. Haraldur var með bátinn fram á mitt ár 1972. Þá tók Hannes við skipstjórninni. Jón Valgarð Guðjónsson leysti hann stundum af og síðasti skipstjóri Baldurs var Haraldur, sonur Hannesar. Aðrir voru ekki skipstjórar á Baldri öll sextíu og þrjú árin hans hér í Eyjum. Haraldur hafði áður verið með Hilmi frá 1932 og átti í honum með Gunnari Olafssyni í Vík og Jóni Olafssyni á Hólmi til ársins 1942. Runólfur Jóhannsson í Skipasmíðastöð Vestmannaeyja setti nýtt stýrishús á Baldur 1963 og Gunnar Marel Jónsson í Dráttarbraut Vestmannaeyja hækkaði lunningarnar að framan nokkru seinna og síðar var hvalbakur settur á bátinn. Hann var smíðaður í Magna af Jóni Þorgilssyni. Búið var að skipta um efsta plankann í byrðingnum allan hringinn. Að öðru leyti var skrokkurinn sá sami frá upphafi.
Einu sinni var slegið í allan bátinn og sögðu ísláttarmennirnir að það hefði verið óþarft verk. Báturinn virtist vera sérstaklega vel felldur. Fyrir mörgum árum þegar eitt strandferðaskipanna var að leggja hér að, lenti það harkalega á Baldri, fyrst á afturgálganum, sem gekk niður úr dekkinu og síðan á afturmastrinu sem brotnaði en nýtt var reist í staðinn. Fyrir löngu var búið að klæða allar innréttingar í lúkar, káetu og stýrishúsi með harðplasti. Þá er upptalið það sem gert hefur verið við bátinn annað en að sinnt var viðhaldi með ágætum. Í upphafi var 160 ha. Alpha vél í bátnum. Hún sveik illa, fljótlega eftir komuna hingað 1939. Þá var skipt yfir í enska 204 ha Ruston vél. Hún skilaði ágætis gangi en kraftaði lítið. Þess vegna var fljótt skipt yfir í Mannheim sem dugði vel í 16 ár. Þá fór 425 ha. Caterpillar vél um borð. Hún brotnaði hér við bryggjuna eftir 2 og 1/2 ár. Önnur ný, sams konar var þá sett í bátinn og varð af þessu aðeins viku stopp.

Aldrei var til sparað við að halda Baldri vel við. Þess þurfti ekki, hann skilaði alltaf góðu og sömu mennirnir, Haraldur og félagar hans áður og síðari árin, Hannes, sáu um allt viðhald og umhirðu. Alltaf fiskaðist vel og hann skilað góðum hlut til áhafna. Þar hefur aldrei verið um skiptaverð að ræða. Ahafnirnar hafa fengið hluti úr öllu aflaverðmætinu. Þarna voru því sömu mennirnir ár eftir ár og sú gæfa hefur fylgt að ekki hafa orðið slys sem orð er á hafandi.
Aldrei tók útgerðin víxil- eða útgerðarlán á þennan bát. Svo slétt og fellt var þetta allt saman og mun slíkt vera fátítt hjá öðrum.
Haraldur Hannesson lést ll.mai 2000, 89 ara. Síðar var útgerðin seld. Skrifað var undir sölusamninginn 1. janúar 2002. Kaupendur voru Sigurjón Óskarsson, útgerðarmaður Þórunnar Sveinsdóttur, og Viðar Elíasson, eigandi Fiskverkunar Viðars Elíassonar. Þeir skiptu aflaheimildunum á milli sín og veiðarfærahúsið í Skvísusundi fékk Viðar. Þarna, strax í janúar 2002, gáfu þeir Sigurjón og Viðar Sigurmundi Gísla Einarssyni Baldur til notkunar við ferðamennsku sem hann annast. Sigurmundur tók við honum með því að hann fengi að skila honum ef dæmið gengi ekki upp. Baldur var þá tekinn í slipp í síðasta skiptið. Við skoðun þá reyndist hann ekki í eins góðu ástandi og við mátti búast. Var honum þá skilað aftur til Sigurjóns og Viðars sem förguðu honum. Þar lauk merkri sjóferðasögu. Það má segja að hann hafi verið nýttur til fiskveiða á meðan hægt var, hundrað prósent nýting. Baldur var 55 rúmlestir, 20,75 m. langur, 5,37 m. á breidd og 2,36 m. á dýpt. Vélin var Caterpillar, 425 ha., eins og áður kom fram. Þeir feðgar, Hannes og Haraldur yngri, keyptu í maí 2002,"bát af Cleopötru gerð, Víkurröst VE 70 og gerðu hann út síðastliðið sumar í dagakerfi smábáta með góðum árangri. Hann er 5,9 tonn. Haraldur er með hann auk þess að vera á Ísleifi á nótaveiðum.
Skráð eftir frásögnum Haraldar Hannessonar eldri, Hannesar Haraldssonar og Sigurmundar Gísla Einarssonar
.

Af vefsíðunni Heimaslóð.
Friðrik Ásmundsson.


16.04.2019 10:33

B. v. Sólborg ÍS 260. TFQD.

Nýsköpunartogarinn Sólborg ÍS 260 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Ísfirðing hf. á Ísafirði. 732 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Hét Stígandi á smíðatíma. Smíðanúmer 736. Sólborgin var síðasti gufutogarinn sem kom til landsins. Árið 1966 var ríkissjóður eigandi skipsins og var það dregið frá Ísafirði til Reykjavíkur og komið fyrir á Kleppsvíkinni við legufæri. Sólborgin fór aldrei á veiðar eftir þetta og mun hafa legið á Kleppsvíkinni í á þriðja ár. Selt í brotajárn til Blyth á Englandi árið 1968.

Sólborg ÍS 260 var einn af hinum svokölluðu "Stefaníu" togurum, sem ríkisstjórn Stefáns J Stefánssonar samdi um smíði á í Bretlandi árið 1947. Þeir voru 10 að tölu, 8 gufutogarar smíðaðir í Skotlandi og 2 díesel togarar smíðaðir í Goole á Englandi.


B.v. Sólborg ÍS 260 með góðan afla á Selvogsbanka árið 1952.                   (C) Jón Hermannsson.

 Ísafjarðartogarinn Sólborg kominn                        til landsins
 Síðasti eimtogarinn af þeim, sem                      voru í smíðum    

Klukkan 2 e. h. í gær sigldi Sólborg, hinn nýi togari Ísfirðinga, inn á Reykjavíkurhöfn. Kom skipið beint frá Aberdeen, en þar var það smíðað í skipasmíðastöð Alexander Hall. Er það 10. skipið, sem þetta fyrirtæki smíðar fyrir Íslendinga. Sólborg, sem er eign hlutafjelagsins Ísfirðingur á Ísafirði, er 732 brutto smálestir og 183 fet á lengd. Er hún síðasti eimtogarinn af þeim 8, sem samið var um smíði á árið 1947. Sólborg er hið fegursta skip. Ber hún einkennisstafina ÍS 260. Í skipinu er fiskimjölsverk smiðja, sem var reynd áður en það fór heim. Kælivjelar eru í lestarrúmum. Það er ennfremur búið fullkomnustu siglingatækjum, svo sem radar.
Meðal farþega með Sólborgu frá Englandi var Ásberg Sigurðsson, lögfræðingur, framkvæmdastjóri togarafjelagsins Ísfirðings. Skipstjóri á Sólborgu verður Páll Pálsson frá Hnífsdal. Fyrsti stýrimaður verður Guðmundur Thorlasíus og fyrsti vjelstjóri Kristinn Guðlaugsson.
Ráðgert var að skipið færi í gærkvöldi vestur til Ísafjarðar, en þaðan mun það fara á veiðar.

Morgunblaðið. 28 ágúst 1951.


B.v. Sólborg ÍS 260 við komuna til Ísafjarðar í fyrsta sinn.                      (C) Sigurgeir B Halldórsson.

   Togaraútgerð á Ísafirði eftir stríð

Eftir síðari heimsstyrjöld hófst mikil nýsköpun í sjávarútvegi Íslendinga og samið var um smíði 32 nýrra togara í Bretlandi. Bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar, einstaklingar og félög í bænum stofnuðu Togarafélagið Ísfirðing sem fékk í sinn hlut tvo nýsköpunartogara, Ísborg sem kom til landsins í maí 1948 og Sólborg sem kom í ágúst 1951. Togararnir mældust 655 og 732 rúmlestir og voru stærstu fiskiskip sem gerð höfðu verið út frá Ísafirði. Aðstaða öll og aðbúnaður voru allt önnur og betri en verið hafði á eldri togurum. Í áhöfn voru 31 á venjulegum botnfiskveiðum og allt upp í 42 þegar veitt var í salt. Togararnir öfluðu vel fyrstu árin og veittu mikla vinnu í bæinn. Þegar afli minnkaði á heimaslóðum sóttu þeir á mið við Grænland og Nýfundnaland á sumrin og gátu veiðiferðir þá orðið allt að þrír mánuðir. Ísborginni var lagt haustið 1960 þar sem fiskileysi og erfiðleikar í togaraútgerð gerðu út af við reksturinn. Útgerð Sólborgar var hætt vorið eftir. Varð þá hlé á togaraútgerð á Ísafirði í 12 ár eða þar til öld skuttogaranna gekk í garð.

Úr safnvísi Byggðasafns Vestfjarða.


B.v. Sólborg ÍS 260 að "kippa".                                                                (C) Sigurgeir B Halldórsson.


B.v. Sólborg ÍS 260 með gott karfahol.                                     Ljósmyndari óþekktur.

     Sólborgu rak á land við Klepp

Í fárviðrinu á laugardaginn losnaði togarinn Sólborg, sem legið hefur við legufæri inni á Viðeyjarsundi Ekki er ennþá ljóst hvort festarnar hafa slitnað eða hvort skipið hefur rifið Iegufæri úr botni, en svo virðist sem skipið hafi dregið þau með sér. Það liggur nú uppi í fjöru rétt við spítalann á Kleppi. Þeir sem kunnugir eru, segja, að botninn sé þar góður malarbotn svo að skipið sé ekki í hættu. Skipið var í umsjá ríkissjóðs, en tryggingarfélagið, sem það var tryggt hjá, AImennar tryggingar hefur nú tekið að sér að sjá um björgun þess. Það var um miðjan dag í fárviðrinu á laugardaginn, sem skipið komst á rek. Tvennum sögum fer af viðbrögðum. Hafnsögumenn við Reykjavíkurhöfn segja að skipið komi sér ekkert við og því hafi þeir ekkert skipt sér af því.
Umráðamenn skipsins segjast hafa athugað möguleika á að fá dráttarbátinn Magna til að koma og bjarga skipinu þá, en hann hafi ekki getað sinnt því neitt vegna þess hve mikið var að gera í Reykjavíkurhöfn. Svo mikið er víst að þarna rak skipið í land, án þess að nokkrum aðgerðum yrði við komið. Síðar um kvöldið fór umboðsmaður fjármálaráðuneytisins, Jóhann Einvarðsson ásamt Ágústi Ingvarssyni, þangað inn úr á vélbátnum Mjöll m.a. til þess að athuga legufæri togarans Brimness sem einnig liggur á Viðeyjarsundi og voru þau í lagi. Ekki þótti ástæða til að flýta björgunaraðgerðum við Sólborgu, þar sem botninn er talinn góður þar sem hún lenti.

Vísir. 31 janúar 1966.


B.v. Sólborg ÍS 260. Líkan.                                                             Ljósmyndari óþekktur.

              Höfum við ráð á......?

Þrjú tréskip hafa á stuttum tíma á núlíðandi stundu "gliðnað" sundur, undir fótum skipshafnar, tvö sokkið en einu bjargað, illu heilli. Og ennþá er okkur ráðlagt að byggja öll minni skip (allt að 100 tonnum?) úr tré. Þessar ráðleggingar koma frá ábyrgum aðilum, svo sem skipaskoðunarstjóra, í fróðlegum og skemmtilegum þætti í sjónvarpi fyrir nokkrum tíma. Sú skoðun skipaskoðunarstjóra, "að heppilegra muni vera að byggja öll smærri skip úr tré," og ég hafi leyft mér að taka sem ráðleggingu hans; hlýtur að byggjast á þeirri reynslu undanfarandi ára, að með hinum fullkomnu björgunartækjum, sem íslenzk fiskiskip nú eru búin, hefur mannbjörg orðið í flestum tilfellum þegar þessi "leka hrip" hafa gengið undir og þeirri staðreynd að vátryggingafélögin borga, og gera kannske ekki mikinn mun (ef nokkurn) á skipum byggðum úr tré eða stáli. Þetta er kapítuli út af fyrir sig, sem sýnir og sannar að á þessu sviði geta Islendingar verið "Stedig som en Islænder?" Á þessum sama tíma sem þjóðin hefur losnað við þrjár tréfleytur sem engan rétt eiga á sér á nútíma vélaöld. Lagði varðskipið Ægir upp frá Reykjavik með tvo "nýsköpunartogara" í eftirdragi frá Reykjavík til Englands, þar sem öll þessi skip skyldu fara í brotajárn. V.s. Ægir var að vísu orðinn nokkuð gamall, en að óreyndu verður því aldrei trúað að hann hafi ekki verið í nokkuð góðu ásigkomulagi, þannig að hann hefði getað annað einhverri þjónustu hér heima, í nokkur ár ennþá, án mikils viðgerðarkostnaðar.
B.v. Sólborg var einn af hinum yngri og stærri "nýsköpunartogurum" og eitt vandaðasta skip flotans á sínum tíma. Hún var búin að liggja árum saman, ný klössuð, fyrst á Ísafirði og síðan dregin til Reykjavíkur og hefur legið hér. Hún var árlega tekin í slipp til hreinsunar og eftirlits á botni. B.v. Brimnes var að vísu ekki eins vel haldinn, þó mun bolur og ýmis tæki í honum hafa verið í góðu ásigkomulagi, enda oft á "Slipp?" sinn langa legutíma. Ekki er mér full kunnugt um söluverð þessara þriggja skipa, en varla mun það hafa verið mikið yfir tvær milljónir íslenzkra króna. B.v. Sólborg ein hlýtur að vera búin að kosta ríkissjóð meiri upphæð í krónum síðan henni var lagt á Ísafirði, en söluverð allra þessara skipa. Því var henni ekki sökkt á sínum tíma? B.v. Brimnes, sem af einhverjum ástæðum hefur verið talið eitthvert vandræða skip, var búið að liggja í Reykjavíkurhöfn og á Kleppsvík í 8-9 ár og ekki sýndur sami sómi og b.v. Sólborg. Mun þó hafa verið allsæmilegt skip, og búið að kosta ríkissjóð drjúgan skilding. Með öðrum orðum hefur söluverð þessara þriggja skipa engan veginn nægt til þess að dekka þennan kostnað sem orðinn er á þeim frá því þeim var lagt. - Sólborg og Brimnes, og ennþá erum við með útlend skip í fastaleigu og ennþá eru smíðuð skip úr "tré," sem gliðna sundur undan vélaafli nútímans. Höfum við ráð á þessu á hinum umtöluðu "krepputímum" í dag, þegar allt á að spara og öllu að "hagræða."    G. Þorbjörnsson.

Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 1969.



B.v. Sólborg ÍS 260 á siglingu.                                                                         Ljósmyndari óþekktur.

           Ægir dregur tvo úr landi
            skipin seld í brotajárn

Ægir gamli hefur nú verið seldur í brotajárn til Englands, að því er annar eigandinn, Gísli Ísleifsson, hrl., tjáði Morgunblaðinu í gær. Verður honum siglt til Blyth í næstu viku og á að láta hann draga með sér tvo togara, Brimnes og Sólborgu, sem einnig hafa verið seldir þangað í brotajárn. Skipstjóri í þessari síðustu för Ægis gamla verður Haraldur Ólafsson, en alls taldi Gísli, að 10 eða 11 menn þyrftu að vera á skipunum þremur í þessari ferð.

Morgunblaðið. 16 júní 1968.





14.04.2019 13:32

B. v. Walpole RE 239. LCJM / TFZC

Botnvörpungurinn Walpole RE 239 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1914 fyrir Cyril E Grant útgerðarmann í Grimsby, hét fyrst Walpole GY 269. 301 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. 41,19 x 7,12 x 3,17 m. Smíðanúmer 604. Seldur 1918, Robert D Clark í Grimsby, sama nafn og númer. Seldur 30 júní 1920, Hlutafélaginu Stefni í Reykjavík, hét þá Walpole RE 239. Seldur 25 júlí 1923, Hlutafélaginu Vífli í Hafnarfirði, hét þá Walpole GK 239. Það má geta þess að Jón Otti Jónsson var um 10 ára skeið skipstjóri á Walpole.Togarinn strandaði á skerjum er Fitjar heita út af Gerpi 16 september árið 1934, Walpole losnaði af skerinu en óstöðvandi leki kom að honum og sökk togarinn stuttu síðar út af Vöðlavík. Áhöfnin komst í björgunarbátana og réru heim að Karlskála í Reyðarfirði. Það var síðan vélbátur þaðan sem dró björgunarbátana inn til Eskifjarðar.

 

B.v. Walpole RE 239.                                                                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

Áhöfnin á Walpole GY 269 stillir sér upp fyrir myndatöku. Það er líka spurning hvort þetta séu Íslendingar að taka við skipinu ytra.    (C) Jeffrey Pullen.
 

               Walpole GY 269

Walpole heitir enskur botnvörpungur, sem hingað kom í fyrradag og leystur úr sóttkví í morgun. Skipstjóri er Jón Oddsson og verður skipið gert út héðan um hríð.

Vísir. 6 mars 1920.


B.v. Walpole RE 239 sennilega í Hafnarfjarðarhöfn.                                        Ljósmyndari óþekktur.
 

               Walpole RE 239

Walpole kom frá Bretlandi í fyrradag og er skipið nú komið undir íslenzkan fána. Farþegar voru kaupmennirnir Einar Pétursson og Björn Ólafsson.

Morgunblaðið. 10 júlí 1920.


Um borð í Walpole GK 239.                           Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Walpole RE 239.                                                                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

         Walpole GK strandaði og                          sökk út af Gerpi

Aðfaranótt sunnudags rakst togarinn Walpole frá Hafnarfirði á klett á svonefndum Fitjum yst á Gerpi. Aðdjúpt var þarna svo skipið stóð aldrei. Laskaðist skipið svo mikið, að það fylltist brátt af sjó, og sökk. Skipverjar fóru í björgunarbátunum til Eskifjarðar. Skömmu eftir hádegi á sunnudag barst sú fregn hingað frá Eskifirði, að skipshöfnin af togaranum Walpole væri þangað komin í björgunarbátunum. En togarinn hafi strandað á Fitjum, yst á Gerpi, og sokkið síðan. Frá framkvæmdastjóra fjelagsins Vífill, er Walpole átti, Ásgrími Sigfússyni, hefir blaðið fengið eftirfarandi frásögn um slys þetta. Togarinn var nýkominn til Austfjarða, ætlaði að taka bátafisk frá Eskifirði til Englands. En þar eð nokkur bið yrði á því, að fiskurinn væri til fór Walpole á veiðar. Hafði hann verið á veiðum skamt undan Reyðarfirði. En kl. um 1 aðfaranótt sunnudags var Walpole á siglingu norður með landinu. Margir skipverjar voru þá í svefni, og eins skipstjóri.
Allt í einu rakst skipið á klett, með því afli, að gat kom á, og fossaði sjór inn í lúgarinn, sem fylltist svo ört, að hásetar, sem þar voru, urðu að flýja þaðan samstundis. Gátu þeir lítið eitt tekið með sjer upp úr lúgarnum. Skipið seig strax frá skerinu, því að aðdjúpt var þarna , einir 30 metrar í botn. Var reynt að hefta leka skipsins og dæla það. En jafnframt skyldi reynt að sigla því til hafnar eða grunns. En brátt varð það skipverjum ljóst, að við ekkert varð ráðið, og myndi togarinn skammt eiga eftir ofansjávar. Því var leitað til björgunarbátanna , og fóru skipverjar í þá. Liðu um 20 mínútur frá því áreksturinn varð, og þangað til Walpole sökk. Var togarinn þá kominn út af Vöðlavík. Er gert ráð fyrir, að sjór hafi komist strax í skipið framan við skilrúm það, sem er framan við lúgarinn, sennilegt að skilrúmið hafi laskast við áreksturinn. Sjór kom og strax í framlest skipsins. Þó skipverjar yrðu að flýja lúgarinn í dauðans ofboði, og hafa sennilega ekki allir getað tekið með sér föt sín þaðan, voru þeir allir alklæddir er í björgunarbátana kom, munu hafa getað fengið föt hjá þeim skipverjum, sem höfðust við aftar í skipinu. Dimmviðri var á, en sjógangur ekki mikill. Reru skipbrotsmenn inn að Karlsskála, en þar fengu þeir trillubáta, er drógu þá inn á Eskifjörð. Walpole var byggður í Englandi 1914, var 301 tonn að stærð. Hingað var hann keyptur árið 1920, en fjelagið sem átti hann, keypti hann árið 1923.  Skipstjóri á Walpole var Ársæll Jóhannesson frá Eyrarbakka.

Morgunblaðið 18 september 1934.

13.04.2019 08:36

B. v. Otur RE 245. LCJR / TFOD.

Botnvörpungurinn Otur RE 245 var smíðaður í Lehe í Þýskalandi árið 1921 fyrir h.f Otur í Reykjavík. 316 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 21 maí árið 1938 var skipið komið í eigu Útvegsbanka Íslands. Selt 30 desember 1938, Hrafna-flóka hf. í Hafnarfirði, hét Óli Garða GK 190. Talinn ónýtur og seldur í brotajárn árið 1955. Við norðanverðan Fossvoginn má sjá hluta af flaki hans sem kemur vel uppúr á fjöru. Einnig má sjá togspil togarans í Drafnarslippnum í Hafnarfirði.


B.v. Otur RE 245 á toginu.                                                                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson. 


B.v. Otur RE 245.                                                                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

                  Otur RE 245

"Otur" heitir nýr botnvörpungur, smíðaður í Þýskalandi, sem hingað kom í morgun. Eigendur eru h.f. Otur í Reykjavík.

Vísir. 13 febrúar 1922.


B.v. Óli Garða GK 190 í ólgusjó.                                                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Óli Garða GK 190. kominn þarna með nýja brú.                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson ?

                Nýtt togarafélag

Í Hafnarfirði hefir verið stofnað nýtt togarafélag, er heitir "Hrafna-Flóki". Hefir félag þetta keypt togarann "Otur" af Utvegsbankanum. Togarinn heitir nú "Óli Garða", eftir gömlum og aflasælum sjómanni í Hafnarfirði. Skipstjóri á "Óla Garða" verður Baldvin Halldórsson, er áður var með "Júni". Forstjóri fyrir félaginu "Hrafna-Flóki" verður Ásgeir Stefánsson, sem einnig er forstjóri Bæjarútgerðarinnar.

Ægir. 12 tbl. 1 desember 1938.


08.04.2019 14:17

371. Draupnir ÍS 485. TFLW.

Vélbáturinn Draupnir ÍS 485 var smíðaður hjá William H Jansens Badebyggeri í Bröns Odde í Vejle í Danmörku árið 1958 fyrir útgerðarfélagið Hring hf. á Suðureyri við Súgandafjörð. Eik. 71 brl. 310 ha. Alpha vél. Seldur 5 júní 1969, Meitlinum hf. í Þorlákshöfn, hét Klængur ÁR 2. Ný vél (1971) 400 ha. Lister vél. Seldur 26 febrúar 1974, Sveini Stefánssyni í Kópavogi, hét þá Erlingur RE 65. Seldur 10 febrúar 1977, Halldóri Halldórssyni á Seltjarnarnesi og Magnúsi Jónssyni í Keflavík, hét Einir RE 177. Seldur 16 nóvember 1978, Hermanni Haraldssyni og Tryggva Gunnlaugssyni á Djúpavogi, hét Einir SU 18. Hét Einir SU 181 frá 30 júlí 1980. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 2 desember árið 1980.


371. Draupnir ÍS 485 á Siglufirði.                                                        (C) Hannes J Baldvinnsson.

                Draupnir ÍS 485

Vélbáturinn Draupnir er smíðaður í Vejle í Danmörku, kom til Suðureyrar fyrir jólin. Báturinn er 70 rúmlestir að stærð, búinn öllum fullkomnustu nútímatækjum. Eigandi er hlutafélagið Hringur, framkvæmdastjóri Jóhannes Þ. Jónsson kaupfélagsstjóri, formaður stjórnar hlutafélagsins er Sturla Jónsson, og skipstjóri er Samúel Guðnason.

Ægir. 3 tbl. 15 febrúar 1959.


Draupni ÍS hleypt af stokkunum hjá William Jansen í Vejle 1958.   (C) Handel & Söfartmuseet.dk


Draupnir ÍS 485 á siglingu.                                                                           Ljósmyndari óþekktur.

       Suðureyri við Súgandafjörð

Fólksfækkun á Suðureyri hefir verið stöðvuð með hafnarframkvæmdum og aukinni útgerð. Nú flytur fólkið til Suðureyrar en ekki burt þaðan. Og hér er urmull af börnum. Það gerir steinbítsátið á veturna. Sturla Jónsson, formaður Kaupfélags Súgfirðinga og fyrrum oddviti, rabbaði við fréttamann um daginn og veginn á Suðureyri. - Þið lifið á kjarnafæðu . . . ? - Hér er sitt af hverju betra en annars staðar. Ef þú herðir fisk í Reykjavík, þá verður hann hundaskítur þar, en hunangsmatur hér, og eins og þetta geti ekki verkað á mannskepnurnar? - Þú minntist á börnin. Hvað um barnaskólann nýja? - Hann var vígður 25. október við mjög hátíðlega athöfn. Skólinn er talinn kosta 16-17 hundruð þúsund. Húsið er 229 fermetrar, tvílyft með þrem skólastofum, kennaraherbergi o. fl. Þeir ætluðu að hengja mig út af þessari fjárfestingu, en nú er þetta um garð gengið. - Og skólastjóri er ? - Jón Kristinsson. Læknirinn og presturinn kenna, og von er á kennslukonu úr Reykjavík. Súgandafjörður var nýlega gerður að sérstöku læknishéraði. Við gerum ráð fyrir að byggja Iæknisbústað að vori. - Og þorpsbúum fjölgar ört?  -Já , mannfjöldinn var tæp 400 fyrir áramótin 1956--'57. Síðan hafa flutzt hingað nokkrar fjölskyldur um 20-30 manns.
- Þið eruð að bæta við skipastólinn ? - Við fengum tvo í vetur, Friðbert Guðmundsson og Draupni. Það er 70 tonna skip, heitir eftir Draupni, sem ég átti í 25 ár.
Friðbert Guðmundsson er 66 tonna eins og Freyja, sem kom hingað í vor. Allir þessir bátar eru smíðaðir í Danmörku, Draupnir í Vejle, hinir í Frederikssund. Eldri bátarnir eru síðan 1954-'55. Draupnir er sá sjöundi í röðinni. Auk þess höfum við leigt bát til flutninga. - Þið sláið ekki slöku við skipakaupin. - Við lifum á sjósókn og getum ekki verið bátlausir. - Og hafið getuna til að borga? Sturla brosir. Svarar ekki spurningunni, enda gerist þess ekki þörf. Þeir á Suðureyri kaupa ekki báta til að horfa á þá, en afla verðmæta, sem gefa fé í aðra hönd. Með dugnaði hefir þeim tekizt að afla sér fleiri skipa en gerist í öðrum verstöðvum á skömmum tíma. - Hver er eigandi Draupnis? - Það er Hrignur h.f., nýstofnað hlutafélag. Kaupfélagið er stærsti hluthafinn. Félagið nytjar aflann sjálft. Það keypti frystihús af mér; þar var gamla rækjuverksmiðjan. - Verður þá hætt við rækjuvinnsluna? - Það er mér ómögulegt að segja um. Geri ráð fyrir, að rækjuvinnsla hefjist þar aftur engu síður þótt þetta félag eigi hlut að máli. - Og hver er framkvæmdastjóri ? - Kaupfélagsstjórinn, Jóhannes Jónsson. - Hvað er þetta stórt frystihús? - Það er minnsta frystihús á Íslandi. Ég frysti einu sinni 96 kassa yfir daginn. Geymsluplássið var stækkað um helming í sumar. Má reikna með, að 10-11 manns vinni þar í framtíðinni. Fiskherzla og söltun eru í sambandi við húsið. Hjallar fyrir 10-100 tonn miðað við blautfisk. -
Hvað um hinar fiskvinnslustöðvarnar ? - Fiskiðjan Freyja hefir tekið afla af einum bát í söltun og herzlu á vertíðinni. Þeir hafa síldarsöltun og söltuðu á fimmta þúsund tunnur í sumar að mér er sagt. Annan sinn afla hafa þeir selt frystihúsinu Ísveri, sem er rekið af samnefndu hlutafélagi. Þrír til fjórir bátar hafa lagt upp hjá Ísveri á vertíð. Vinnslugeta er milli 30-40 tonn á dag. Ísver hefir gert út bát, og Hermann Guðmundsson og Óskar Kristjánsson gera út nótabátinn Frey, nýlegan bát, smíðaðan í Svíþjóð, 51 tonn. -Hvað um hafskipabryggjuna ? -Henni var lokið á árinu 1956. En hér eru óleyst vandamál. Til dæmis er legan of grunn fyrir þessa stóru báta. Þyrfti helzt bátakví. - Og aðrar opinberar framkvæmdir? - Það er félagsheimilið. Nú vantar aðeins herzlumuninn til að það sé fullgert. Hreppurinn hefir lagt þessu húsi að einum þriðja; aðrir eigendur eru verkalýðsfélagið, íþróttafélagið, kvenfélagið, skátafélagið og stúkan Dagrún. - Hvað um vegamálin, Sturla? - Vestfirðingar telja sér það eiginlega til skammar, að enn þá skuli vera sýslur á Vestfjörðum, sem ekki hafa verið tengdar vegakerfi landsins. Það ætti að vera nægileg vísbending um áslandið í vegamálunum. Annar Súgfirðingur, sem fréttamaður hafði tal af, var Þórður Þórðarson, fyrrum símstöðvarstjóri. Þórður lýsti ánægju sinni yfir öllum þeim framförum, sem orðið hafa á Suðureyri, einkum nýju skipunum. - Ég held það sé dálítil lyftistöng í þessu öllu saman, sagði Þórður. Þórður hefir stundað sjó sem aðrir Súgfirðingar. Byrjaði á 16. árinu og hélt það út í 30-40 ár. Hann var í hákarlalegum og býst við að þau vinnubrögð mundu þykja harkaleg nú á dögum. - Ekki að tala um annað en liggja úti og mæta hverju veðri. - Hann þótti góður hákarlinn, en nú er hann að hverfa. Nú geta þeir lagt 150 lóðir yfir sólarhringinn og sést ekki hákarl, en um aldamótin mátti ekki leggja 30 lóðir svo hákarlinn eyðilegði þær ekki og biti allt í sundur. Ég hef ekki heyrt þá leggja það fyrir sig, fiskifræðingana, hvað er orðið af honum. Hvað höfðuð þið í hákarlabeitu ? --- Hérna var beitt sel og hestaketi meikuðu í rommi. Þeir helltu svona potti af rommi ofan í sel og súrruðu fyrir báða enda, kjaftinn og rassinn. Svo var hann geymdur og skorinn niður í beitu og það var sterk sæt lykt af honum. Þetta var brúkað. Að lokum spurði undirritaður Pétur um álit hans á togveiðum Breta í landhelgi úti fyrir Vestfjörðum, en þá voru þær enn í fullum gangi. - Ég skil ekki, að þeir haldi það út, sagði Pétur. - Norðaustanbyljirnir. Togurum þótti alls ekki við vært hér út af Djúpál í slíkum veðrum. - Já, það er margt, sem kemur fyrir þá, sem bágt er. Og ekki eftirsóknarvert að standa í þessu fyrir skipsmennina. Hann hefir nú verið vanur að koma norðangarðurinn, sérstaklega þegar kemur fram á vetur. Það var óskaplegt, þegar þeir fórust hérna norður af Horninu, það var óhemju þá.

Tíminn. 14 janúar 1959.


07.04.2019 10:06

V. b. Aðalbjörg MB 30. TFKO.

Vélbáturinn Aðalbjörg MB 30 var smíðaður hjá Djupviks Botvarv A/B. í Djupvík í Svíþjóð árið 1946 fyrir Þorvald Ellert Ásmundsson útgerðarmann á Akranesi. Eik. 51 brl. 170 ha. Atlas vél. Árið 1947 fékk Aðalbjörg skráningarnúmerið AK 30. Ný vél (1954) 347 ha. Buda vél. Frá 19 nóvember 1958 var Fiskver hf. á Akranesi eigandi Aðalbjargar. Seldur 8 janúar 1959, Fiskvinnslunni hf. á Akureyri, hét Hrefna EA 33. Seldur 1 ágúst 1963, Einari J Guðjónssyni í Reykjavík, hét þá Hrefna RE 81. Báturinn sökk eftir að mikill leki kom að honum um 20 sjómílur út af Stapa 27 júlí árið 1964. Áhöfnin, 6 menn, björguðust í gúmmíbjörgunarbát. Var síðan bjargað um borð í vélskipið Höfrung AK 91 frá Akranesi.


Aðalbjörg MB 30.                                                                                 Ljósmyndari óþekktur.

               Nýr bátur

Laugardaginn 20. apríl kom til Akraness nýr bátur Aðalbjörg M.B. 30. Bátur þessi er einn hinna svonefndu Svíþjóðarbáta, og festi bæjarstjórnin upphaflega kaup á tveim þessara báta, sem síðar voru látnir af hendi við einstaklinga í bænum. M.b. Aðalbjörg er eign Þorvaldar Ellerts Ásmundssonar, skipstjóra. Báturinn er byggður hjá Bröðr. Jóhansson í Djupvik, og er mældur þar 55 tonn. Vélin er 170 H.K. Atlas-Polar díeselvél, en ljósavélin er 10 Hk. Bolinder. Í bátnum er ágætt rúm fyrir skipverja, bæði framí og afturí. Stýrishúsið er stórt, með áföstu herbergi fyrir skipstjórann. Vélin er snarvent, sett í gang í stýrishúsinu og stjórnað þaðan. Hún hvað vera auðveld í allri meðferð. Báturinn gengur 9 mílur. Hann er búinn öllum nýtízku tækjum, svo sem: djúpmæli, talstöð, miðunarstöð, einnig óvenjulega sterkum ljóskastara. Í honum er og fullkomin olíudrifinn stýrisútbúnaður. Rafmagn er fullkomið, og eru íbúðir aftur í, hitaðar með rafmagni. Vinna öll virðist vera sérlega vönduð og lagleg. Elías Benediktsson sigldi bátnum heim með Ellert og fleiri mönnum, en þeim fannst hann fara mjög vel í sjó. Bátnum fylgir og fullkominn togútbúnaður, og fer hann nú fljótlega á þær veiðar. Ellert sagði að ólíku væri saman að jafna um verðlag hér eða í Svíþjóð um þessar mundir. Á þessari áminnstu skipasmíðastöð, þar sem þessi bátur var byggður, vinna nú 35 manns. 5 af þessum mönnum höfðu 1,60 um tímann, hinir frá 1,50 og allt niður í 0,80 um tímann. Fæði og húsnæði fyrir þá, meðan þeir stóðu við, var 7 kr. á dag fyrir hvern þeirra.

Akranes. 4 tbl. apríl 1946.


Aðalbjörg AK 30 að landa síld hjá Sunnu á Siglufirði.                     Ljósmyndari óþekktur.


Hrefna EA 33.                                                                                                     (C) Lúðvík Karlsson.


Hrefna RE 81.                                                                                                (C) Snorri Snorrason ?

          Bátur með sex manna áhöfn                              sekkur undan Stapa

                Mannbjörg varð

Í gærkvöldi kl. 22.45 sökk vélbáturinn Hrefna RE 81, 19-20 sjómílur undan Stapa, suður af Hellnanesi. Sex manna áhöfn var á bátnum og bjargaðist hún öll um borð í v b. Höfrung AK 91, sem væntanlegur var til Akraness kl. 2 í nótt. Hrefna RE 81 var áður Hrefna EA 33 (þar áður Aðalbjörg). Þetta er einn af Svíþjóðarbátunum, smíðaður úr eik árið 1946, 51 tonn að stærð. Morgunblaðið náði í gærkvöldi tali af Guðmundi Sveinssyni, skipstjóra á Höfrungi. Sagði hann Hrefnu hafa beðið um aðstoð kl. 20.30, því að báturinn væri að sökkva. Höfrungur var nærstaddur ásamt Gylfa ÍS og Bárði Snæfellsási, og héldu þeir allir á staðinn. Þegar Hrefna sendi aðstoðarbeiðnina út, streymdi sjór inn í bátinn, og sáu skipverjar, að ekki yrði við ráðið. Skipstjóri á Hrefnu var Einar Guðjónsson, og auk hans fimm menn á bátnum. Þegar Höfrungur kom á staðinn, var áhöfnin komin í tvo gúmmíbáta. Var þeim öllum bjargað um borð í Höfrung, en Hrefna sökk rétt á eftir. Sökk hún mjög hratt síðustu mínúturnar. Gott var í sjóinn, en alda hafði verið fyrr um daginn. Gúmmíbátarnir reyndust báðir í góðu lagi. Bæði skipin voru þarna á humarveiðum.

Morgunblaðið. 28 júlí 1964.


05.04.2019 07:26

2182. Baldvin Njálsson GK 400. TFTF.

Skuttogarinn Baldvin Njálsson GK 400 var smíðaður hjá Construcciones Navales Santodomingo S.A. í Vigo á Spáni árið 1991. 736 brl. 2.992 ha. Wartsiila vél, 2.200 Kw. Smíðanúmer 636. Skipið hét Grinnöy T 52 T fyrst og var gert út frá Noregi. Selt 7 ágúst 1992, Ottó Wathne hf. á Seyðisfirði, hét Ottó Wathne NS 90 og gerður út þaðan sem frystitogari. Selt 29 mars 1994, Stálskipum hf. í Hafnarfirði, hét Rán HF 42. Skipið var selt 28 júní 2005, Nesfiski hf. í Garði, heitir Baldvin Njálsson GK 400 og er gerður út þaðan í dag.


Baldvin Njálsson GK 400 við Bótarbryggjuna ný málaður.          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 júlí 2014.

     Ottó Wathne til heimahafnar

Nýr frystitogari lagðist að bryggju á Seyðifirði í gærdag. Togarinn heitir Ottó Wathne NS 90 og er í eigu samnefnds útgerðarfélags. Kemur hann í stað ísfisktogarans Ottó Wathne NS. Margir bæjarbúar voru á bryggjunni til að fagna komu skipsins. Móttökuathöfn fór fram um borð og voru eigendum og fjölskyldum þeirra færð blóm og árnaðaróskir í tilefni dagsins. Ottó Wathne er keyptur frá Noregi. Skipið var smíðað á Spáni árið 1991. Er það 720 brúttórúmlestir að stærð, 51,5 metrar á lengd og 12 metra breitt. Frystigeta um borð er rúm 50 tonn á sólarhring og frystirými fyrir um 550 tonn. 3.000 hestafla vél er í skipinu. Að sögn Trausta Magnússonar annars eiganda skipsins er ætlunin að Ottó Wathne farið á veiðar einhvern næstu daga. Verður byrjað á karfa og verður hann heilfrystur.

Morgunblaðið. 26 ágúst 1992.


Baldvin Njálsson GK 400 ný kominn úr slipp. 1578. Ottó N Þorláksson RE 203 hinu megin við Bótarbriggjuna við Grandagarðinn.   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 júlí 2014.

Otto Wathne seldur til Hafnarfjarðar

Frystitogarinn Otto Wathne hefur verið seldur til Stálskipa í Hafnarfirði, fyrirtækis þeirra Guðrúnar Lárusdóttur og Ágústs Sigurðssonar. Að sögn Trausta Magnússonar hjá Ottó Wathne hf. Var söluverðið viðunandi en óvíst er um framhald á útgerð hjá fyrirtækinu. Báðir togarar þess hafa verið seldir, Ottó Wathne hefur verið að veiðum á Flæmska hattinum svokallaða undanfarna 5 sólarhringa. Veiði hefur verið heldur dræm, skipið aðeins fengið um 30 tonn af frystum fiski.

Dagblaðið Vísir. 15 febrúar 1994.


Frystitogarinn Rán HF 42.                                                  (C) Hafþór Hreiðarsson. skipamyndir.com


Frystitogarinn Rán HF 42 á Viðeyjarsundi.                          (C) Hafþór Hreiðarson. skipamyndir.com

           Rán kveður Fjörðinn

Útgerðarfyrirtækið Stálskip hf. Í Hafharfirði hefur selt Nesfiski hf. Í Garði frystitogarinn Rán HF 42. Rán mun vera síðasti frystitogarinn í eigu Hafnfirðinga og telja margir eftirsjá að Ráninni. Aflaheimildir skipsins eru um 2.000 þorskígildistonn, en ekki er ljóst hversu mikið af aflaheimildum fylgir með í kaupunum. Nesfiskur á fyrir tvo togara og nokkra minni báta. Forsvarsmenn Nesfisks segjast styrkja rekstur og afkomumöguleika fyrirtækisins með kaupunum.

Dagblaðið Vísir. 30 júní 2005.


Frystitogarinn Ottó Wathne NS 90 á leið inn Seyðisfjörðinn í fyrsta sinn, 25 ágúst árið 1992.
(C) Jón Magnússon.


Fyrirkomulagsteikning af Ottó Wathne NS 90.                                                   Mynd úr Ægi.


            Ottó Wathne NS 90

25. ágúst sl. kom skuttogarinn Ottó Wathne NS 90 í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Seyðisfjarðar. Skuttogari þessi, sem áður hét Grinnöy, er keyptur notaður frá Noregi, en er smíðaður árið 1991 (afhentur í apríl) hjá skipasmíðastöðinni Construcciones Navales Santodomingo S.A. í Vigo á Spáni, smíðanúmer 636 hjá stöðinni. Skipið er hannað af Nordvestconsult A/S í ÁIesund í samvinnu við Cramaco A/S í Tromsö. Skipið er með búnað til heilfrystingar á afla og kemur í stað eldri skuttogara útgerðar, sem bar sama nafn, Ottó Wathne NS 90 (1474), 299 rúmlesta skuttogara, smíðaður árið 1977. Jafnframt gengur endurnýjunarréttur Erlings KE 45 (1361) upp í nýja skipið, 328 rúmlesta nótaveiðiskip, smíðað árið 1969 (sökk árið 1990). Áður en skipið kom til landsins voru gerðar ákveðnar breytingar á því af núverandi eigendum, m.a. fjölgað hvílum í eins manns klefum, sett í skipið flotvörpuvinda og bakstroffuvindur og bætt við tækjum í brú. Hinn nýi Ottó Wathne er smíðaður í EO-klassa, þ.e. vaktfrítt vélarúm.
Ottó Wathne NS er í eigu samnefnds hlutafélags á Seyðisfirði. Skipstjóri á skipinu er Páll Ágústsson og yfirvélstjóri Víglundur Þórðarson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Trausti Magnússon.
Mesta lengd 51.45 m.
Lengd milli lóðlína (HVL) 46.90 m.
Lengd milli lóðlína (perukverk) 45.10 m.
Breidd (mótuð) 11.90 m.
Dýpt að efra þilfari 7.23 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.83 m.
Eigin þyngd 1.273 tonn.
Særými (djúprista 4.83 m) 1.741 tonn.
Burðargeta (djúprista 4.83 m) 468 tonn.
Lestarrými 600 m 3.
Brennsluolíugeymar 305.3 m 3.
Ferskvatnsgeymir 19.7 m 3.
Sjókjölfestugeymir 32.0 m 3.
Andveltigeymir
(brennsluolía/sjór) 36.7 m 3.
Brúttótonnatala 1.199 BT.
Rúmlestatala 598 Brl.
Skipaskrámúmer 2182.

Ægir. 10 tbl. 1 október 1992.





Flettingar í dag: 281
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 568
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 1075661
Samtals gestir: 77621
Tölur uppfærðar: 28.12.2024 05:36:39