16.04.2019 10:33

B. v. Sólborg ÍS 260. TFQD.

Nýsköpunartogarinn Sólborg ÍS 260 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Ísfirðing hf. á Ísafirði. 732 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Hét Stígandi á smíðatíma. Smíðanúmer 736. Sólborgin var síðasti gufutogarinn sem kom til landsins. Árið 1966 var ríkissjóður eigandi skipsins og var það dregið frá Ísafirði til Reykjavíkur og komið fyrir á Kleppsvíkinni við legufæri. Sólborgin fór aldrei á veiðar eftir þetta og mun hafa legið á Kleppsvíkinni í á þriðja ár. Selt í brotajárn til Blyth á Englandi árið 1968.

Sólborg ÍS 260 var einn af hinum svokölluðu "Stefaníu" togurum, sem ríkisstjórn Stefáns J Stefánssonar samdi um smíði á í Bretlandi árið 1947. Þeir voru 10 að tölu, 8 gufutogarar smíðaðir í Skotlandi og 2 díesel togarar smíðaðir í Goole á Englandi.


B.v. Sólborg ÍS 260 með góðan afla á Selvogsbanka árið 1952.                   (C) Jón Hermannsson.

 Ísafjarðartogarinn Sólborg kominn                        til landsins
 Síðasti eimtogarinn af þeim, sem                      voru í smíðum    

Klukkan 2 e. h. í gær sigldi Sólborg, hinn nýi togari Ísfirðinga, inn á Reykjavíkurhöfn. Kom skipið beint frá Aberdeen, en þar var það smíðað í skipasmíðastöð Alexander Hall. Er það 10. skipið, sem þetta fyrirtæki smíðar fyrir Íslendinga. Sólborg, sem er eign hlutafjelagsins Ísfirðingur á Ísafirði, er 732 brutto smálestir og 183 fet á lengd. Er hún síðasti eimtogarinn af þeim 8, sem samið var um smíði á árið 1947. Sólborg er hið fegursta skip. Ber hún einkennisstafina ÍS 260. Í skipinu er fiskimjölsverk smiðja, sem var reynd áður en það fór heim. Kælivjelar eru í lestarrúmum. Það er ennfremur búið fullkomnustu siglingatækjum, svo sem radar.
Meðal farþega með Sólborgu frá Englandi var Ásberg Sigurðsson, lögfræðingur, framkvæmdastjóri togarafjelagsins Ísfirðings. Skipstjóri á Sólborgu verður Páll Pálsson frá Hnífsdal. Fyrsti stýrimaður verður Guðmundur Thorlasíus og fyrsti vjelstjóri Kristinn Guðlaugsson.
Ráðgert var að skipið færi í gærkvöldi vestur til Ísafjarðar, en þaðan mun það fara á veiðar.

Morgunblaðið. 28 ágúst 1951.


B.v. Sólborg ÍS 260 við komuna til Ísafjarðar í fyrsta sinn.                      (C) Sigurgeir B Halldórsson.

   Togaraútgerð á Ísafirði eftir stríð

Eftir síðari heimsstyrjöld hófst mikil nýsköpun í sjávarútvegi Íslendinga og samið var um smíði 32 nýrra togara í Bretlandi. Bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar, einstaklingar og félög í bænum stofnuðu Togarafélagið Ísfirðing sem fékk í sinn hlut tvo nýsköpunartogara, Ísborg sem kom til landsins í maí 1948 og Sólborg sem kom í ágúst 1951. Togararnir mældust 655 og 732 rúmlestir og voru stærstu fiskiskip sem gerð höfðu verið út frá Ísafirði. Aðstaða öll og aðbúnaður voru allt önnur og betri en verið hafði á eldri togurum. Í áhöfn voru 31 á venjulegum botnfiskveiðum og allt upp í 42 þegar veitt var í salt. Togararnir öfluðu vel fyrstu árin og veittu mikla vinnu í bæinn. Þegar afli minnkaði á heimaslóðum sóttu þeir á mið við Grænland og Nýfundnaland á sumrin og gátu veiðiferðir þá orðið allt að þrír mánuðir. Ísborginni var lagt haustið 1960 þar sem fiskileysi og erfiðleikar í togaraútgerð gerðu út af við reksturinn. Útgerð Sólborgar var hætt vorið eftir. Varð þá hlé á togaraútgerð á Ísafirði í 12 ár eða þar til öld skuttogaranna gekk í garð.

Úr safnvísi Byggðasafns Vestfjarða.


B.v. Sólborg ÍS 260 að "kippa".                                                                (C) Sigurgeir B Halldórsson.


B.v. Sólborg ÍS 260 með gott karfahol.                                     Ljósmyndari óþekktur.

     Sólborgu rak á land við Klepp

Í fárviðrinu á laugardaginn losnaði togarinn Sólborg, sem legið hefur við legufæri inni á Viðeyjarsundi Ekki er ennþá ljóst hvort festarnar hafa slitnað eða hvort skipið hefur rifið Iegufæri úr botni, en svo virðist sem skipið hafi dregið þau með sér. Það liggur nú uppi í fjöru rétt við spítalann á Kleppi. Þeir sem kunnugir eru, segja, að botninn sé þar góður malarbotn svo að skipið sé ekki í hættu. Skipið var í umsjá ríkissjóðs, en tryggingarfélagið, sem það var tryggt hjá, AImennar tryggingar hefur nú tekið að sér að sjá um björgun þess. Það var um miðjan dag í fárviðrinu á laugardaginn, sem skipið komst á rek. Tvennum sögum fer af viðbrögðum. Hafnsögumenn við Reykjavíkurhöfn segja að skipið komi sér ekkert við og því hafi þeir ekkert skipt sér af því.
Umráðamenn skipsins segjast hafa athugað möguleika á að fá dráttarbátinn Magna til að koma og bjarga skipinu þá, en hann hafi ekki getað sinnt því neitt vegna þess hve mikið var að gera í Reykjavíkurhöfn. Svo mikið er víst að þarna rak skipið í land, án þess að nokkrum aðgerðum yrði við komið. Síðar um kvöldið fór umboðsmaður fjármálaráðuneytisins, Jóhann Einvarðsson ásamt Ágústi Ingvarssyni, þangað inn úr á vélbátnum Mjöll m.a. til þess að athuga legufæri togarans Brimness sem einnig liggur á Viðeyjarsundi og voru þau í lagi. Ekki þótti ástæða til að flýta björgunaraðgerðum við Sólborgu, þar sem botninn er talinn góður þar sem hún lenti.

Vísir. 31 janúar 1966.


B.v. Sólborg ÍS 260. Líkan.                                                             Ljósmyndari óþekktur.

              Höfum við ráð á......?

Þrjú tréskip hafa á stuttum tíma á núlíðandi stundu "gliðnað" sundur, undir fótum skipshafnar, tvö sokkið en einu bjargað, illu heilli. Og ennþá er okkur ráðlagt að byggja öll minni skip (allt að 100 tonnum?) úr tré. Þessar ráðleggingar koma frá ábyrgum aðilum, svo sem skipaskoðunarstjóra, í fróðlegum og skemmtilegum þætti í sjónvarpi fyrir nokkrum tíma. Sú skoðun skipaskoðunarstjóra, "að heppilegra muni vera að byggja öll smærri skip úr tré," og ég hafi leyft mér að taka sem ráðleggingu hans; hlýtur að byggjast á þeirri reynslu undanfarandi ára, að með hinum fullkomnu björgunartækjum, sem íslenzk fiskiskip nú eru búin, hefur mannbjörg orðið í flestum tilfellum þegar þessi "leka hrip" hafa gengið undir og þeirri staðreynd að vátryggingafélögin borga, og gera kannske ekki mikinn mun (ef nokkurn) á skipum byggðum úr tré eða stáli. Þetta er kapítuli út af fyrir sig, sem sýnir og sannar að á þessu sviði geta Islendingar verið "Stedig som en Islænder?" Á þessum sama tíma sem þjóðin hefur losnað við þrjár tréfleytur sem engan rétt eiga á sér á nútíma vélaöld. Lagði varðskipið Ægir upp frá Reykjavik með tvo "nýsköpunartogara" í eftirdragi frá Reykjavík til Englands, þar sem öll þessi skip skyldu fara í brotajárn. V.s. Ægir var að vísu orðinn nokkuð gamall, en að óreyndu verður því aldrei trúað að hann hafi ekki verið í nokkuð góðu ásigkomulagi, þannig að hann hefði getað annað einhverri þjónustu hér heima, í nokkur ár ennþá, án mikils viðgerðarkostnaðar.
B.v. Sólborg var einn af hinum yngri og stærri "nýsköpunartogurum" og eitt vandaðasta skip flotans á sínum tíma. Hún var búin að liggja árum saman, ný klössuð, fyrst á Ísafirði og síðan dregin til Reykjavíkur og hefur legið hér. Hún var árlega tekin í slipp til hreinsunar og eftirlits á botni. B.v. Brimnes var að vísu ekki eins vel haldinn, þó mun bolur og ýmis tæki í honum hafa verið í góðu ásigkomulagi, enda oft á "Slipp?" sinn langa legutíma. Ekki er mér full kunnugt um söluverð þessara þriggja skipa, en varla mun það hafa verið mikið yfir tvær milljónir íslenzkra króna. B.v. Sólborg ein hlýtur að vera búin að kosta ríkissjóð meiri upphæð í krónum síðan henni var lagt á Ísafirði, en söluverð allra þessara skipa. Því var henni ekki sökkt á sínum tíma? B.v. Brimnes, sem af einhverjum ástæðum hefur verið talið eitthvert vandræða skip, var búið að liggja í Reykjavíkurhöfn og á Kleppsvík í 8-9 ár og ekki sýndur sami sómi og b.v. Sólborg. Mun þó hafa verið allsæmilegt skip, og búið að kosta ríkissjóð drjúgan skilding. Með öðrum orðum hefur söluverð þessara þriggja skipa engan veginn nægt til þess að dekka þennan kostnað sem orðinn er á þeim frá því þeim var lagt. - Sólborg og Brimnes, og ennþá erum við með útlend skip í fastaleigu og ennþá eru smíðuð skip úr "tré," sem gliðna sundur undan vélaafli nútímans. Höfum við ráð á þessu á hinum umtöluðu "krepputímum" í dag, þegar allt á að spara og öllu að "hagræða."    G. Þorbjörnsson.

Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 1969.



B.v. Sólborg ÍS 260 á siglingu.                                                                         Ljósmyndari óþekktur.

           Ægir dregur tvo úr landi
            skipin seld í brotajárn

Ægir gamli hefur nú verið seldur í brotajárn til Englands, að því er annar eigandinn, Gísli Ísleifsson, hrl., tjáði Morgunblaðinu í gær. Verður honum siglt til Blyth í næstu viku og á að láta hann draga með sér tvo togara, Brimnes og Sólborgu, sem einnig hafa verið seldir þangað í brotajárn. Skipstjóri í þessari síðustu för Ægis gamla verður Haraldur Ólafsson, en alls taldi Gísli, að 10 eða 11 menn þyrftu að vera á skipunum þremur í þessari ferð.

Morgunblaðið. 16 júní 1968.





Flettingar í dag: 316
Gestir í dag: 83
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 738968
Samtals gestir: 55673
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 02:23:44