25.04.2019 06:48

B. v. Ólafur Jóhannesson BA 77.

Nýsköpunartogarinn Ólafur Jóhannesson BA 77 var smíðaður hjá Hall Russell & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Hlutafélagið Gylfa á Patreksfirði. Hét Andvari á smíðatíma. 681 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 56,83 x 9,21 x 4,11 m. Smíðanúmer 825. Kom fyrst til heimahafnar, Patreksfjarðar hinn 14 mars það ár. Árið 1962 er togarinn kominn í eigu ríkissjóðs. Seldur 23 apríl 1963, Hans Ole Vindenes útgerðarmanni í Fjell í Noregi, hét þar Sörfold H-186-F. Árið 1967 var skipið endurbyggt í Hollandi og breytt í nótaveiðiskip. Einnig var sett í það 2.000 ha. díesel vél. Seldur til Havöysund í Noregi (óþekkt hvenær og um eigenda) Seldur til Chile árið 1989, sama nafn. Skipið sökk við eyjuna Isla Santa Maria út af borginni Coronel í Chile í óveðri 12 júlí árið 1993. 

 

"Á árinu hófst ný togaraútgerð hér á Patreksfirði með því að hlutafélagið Gylfi festi kaup á einum af hinum tíu togurum sem ríkissjóður lét byggja í Englandi. Skipið hlaut nafnið Ólafur Jóhannesson BA 77  og kom til Patreksfjarðar hinn 14 mars. Skipinu stýrði í heimahöfn hinn margreyndi og farsæli skipstjóri Jóhann Pétursson. Ein er sú nýjung í búnaði skipsins sem áður hefur ekki þekkst í íslenskum fiskiskipum, en það er að í því eru vélar og tæki til frystingar á fiski. Í þessu frystikerfi er hægt að hraðfrysta um hálfa aðra smálest af fiskflökum á sólarhring. Er hér um að ræða merkilega nýbreytni í þá átt að vinna aflann um borð í skipunum sjálfum. Í skipinu eru einnig fiskimjölsvélar."

Árbók Barðastrandarsýslu 1951.


B.v. Ólafur Jóhannesson BA 77 á veiðum.                                                         Ljósmyndari óþekktur.
 

 Togarinn heitir Ólafur Jóhannesson 

Samkvæmt upplýsingum, sem Vísir hefir fengið frá skrifstofu Gísla Jónssonar, fer togarinn Andvari, sem fer til Patreksfjarðar og fær nafnið Ólafur Jóhannesson, í reynsluferð í dag. Hann er smíðaður hjá Hall Russell í Aberdeen. Togarinn Júní, sem Bæjarútgerð Hafnarfjarðar fær, mun fara í reynsluferð á morgun.

Vísir. 27 febrúar 1951.


B.v. Ólafur Jóhannesson BA 77 í reynslusiglingu.                     (C) Hall Russell & Co Ltd Aberdeen.
 

        Nýi Patreksfjarðartogarinn
           kom til landsins í gær

Patreksfirði, 14. mars. 
Hinn nýi togari Gylfa h.f. "Ólafur Jóhannesson" lagðist hjer að bryggju í hinni nýju höfn kl. 10 í morgun í sólskini og blíðviðri. Mikill fjöldi þorpsbúa var mættur við móttöku hans. Þegar skipið hafði lagst við festar, flutti oddviti Patrekshrepps, Ásmundur Olsen, stutt ávarp og fagnaði komu þess. Gat hann þess m. a. að þetta væri sjöundi togarinn, sem þeir Vatneyrarbræður hefðu eignast síðan faðir þeirra, Ólafur Jóhannesson, keypti togarann "Glað" árið 1925 og nefndist þá "Leiknir", en með það skip kom þá sami skipstjóri og nú, Jóhann Pjetursson. Sýslumaður Barðstrendinga, Jóhann Skaftason, fagnaði einnig komu skipsins með nokkrum ávarpsorðum, en Friðþjófur Jóhannesson, einn af eigendum skipsins, og skipstjórinn, Jóhann Pjetursson, þökkuðu góðar árnaðaróskir og buðu fólki að skoða skipið.
Skipið er byggt hjá skipasmíðastöð Hall Russell í Aberdeen og er hið vandaðasta í alla staði. Það hreppti slæmt veður á leiðinni til landsins, en þótt það væri þrauthlaðið af kolum og olíu reyndist það hið besta sjóskip. Láta skipverjar mjög vel yfir því. "Ólafur Jóhannesson" mun fara á veiðar nú um næstu helgi.

Morgunblaðið. 15 mars 1951.


B.v. Ólafur Jóhannesson BA 77 kemur til löndunar á Patreksfirði.          (C) Kristján Jóhann Jónsson.
 

B.v. Ólafur Jóhannesson fór í fyrstu              veiðiförina á þriðjudag

Vatneyri 18 marz.
Merkust tíðindi í þessu plássi á vetrinum er að sjálfsögðu koma nýja togarans Ólafs Jóhannessonar, en hann sigldi inn á nýju höfnina árdegis hinn 14. þ.m., fánum skreyttur í fögru veðri. Þyrptust þorpsbúar allir, sem vettlingi gátu valdið, niður að höfninni til þess að fagna komu hans og skoða hann. Stutt en virðuleg fagnaðarathöfn fór þá fram þar, við höfnina, en um kvöldið var ýmsum borgurum og frúm þeirra boðið til hófs, úti í skipinu. Hafði það farið virðulega fram og vakti það fögnuð, að frú Áróra Jóhannesson, ekkja Ólafs heitins Jóhannessonar, stofnanda þeirra miklu fyrirtækja, sem nú hafa um langt skeið haldið uppi mestum atvinnurekstri hér, háöldruð kona, sem aldrei sést nú orðið á mannamótum, heiðraði hóf þetta með nærveru sinni. Dagarnir, sem síðan eru liðnir, hafa verið notaðir til þess að búa skipið á veiðar, meðal annars til að fullgera hraðfrystikerfið, sem komið hefir verið fyrir í skipinu, og eins og menn vita, er það í fyrsta sinni, sem slík tilraun er gerð á togara hér. Mjölvinslutækin voru þá og reynd og er talið, að þau séu í bezta lagi, enda var reyndur maður sendur út héðan til þess að vera með í ráðum um fyrirkomulag þeirra og var farið að tillögum hans. Fer "Ólafur Jóhannesson" nú út í frumlega veiðiför á morgun (þriðjudag), eða í fernskonar tilgangi: fyrst og fremst á hann að veiða bæði í salt og ís, þá á að reyna til þrautar gúanótækin, og loks á að flaka og hraðfrysta um borð, það, sem til vinnst. Það hef eg ennfremur frá góðum heimildum, að von muni vera á öðrum nýjum togara, síðar á þessu ári.

Vísir. 28 mars 1951.


B.v. Ólafur Jóhannesson BA 77.                                                       Úr safni Sigurðar Bergþórssonar.
 

   Íslenzkur togari seldur til Noregs

Íslenska ríkið hefur selt norska útgerðarmanninum Vindenes togarann Ólaf Jóhannesson fyrir 2,7 milljónir króna. Samningar um kaupin voru undirritaðir sl. þriðjudag. Ríkið yfirtók togarann á sínum tíma úr þrotabúi Vatneyrarþrotabúsins vegna ábyrgðar ríkissjóðs á togaranum, sem var smíðaður í Aberdeen 1951 og er 680 brúttótonn. Það var sonur Vindenæs útgerðarmanns, Ejnar, sem kom til Reykjavíkur til að ganga frá kaupunum. Mun áætlað að skipta um vél í togaranum, sem verður að fara í mikla og dýra klössun. Vindenæs mun hafa í hyggju, að nota Ólaf Jóhannesson á síldveiðar, m. a. við Ísland.

Morgunblaðið. 25 apríl 1963.


Norska síldveiðiskipið Sörfold H-186-F við bryggju í Leirvik á Hjaltlandseyjum.  (C) Shetland museum.

   Dauðadæmd togaraútgerð

Talið hagkvæmara að "gefa" togarana
            úr landi en kosta upp á                                 allsherjarklössun

Svo virðist sem ný stefna hafi verið tekin upp í sjávarútvegsmálum þjóðarinnar, sem búast má við að hafi ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir þjóðarbúskapinn. Togarinn Ólafur Jóhannesson hefur verið seldur úr landi fyrir álíka verð og lítilmótlelegur vélbátur, og virðast allir dauðfegnir að vera lausir við togarann! Virðist því ekkert annað fyrir dyrum en aðrir togarar þjóðarinnar fari sömu leiðina, en eins og kunnugt er hefur togaraútgerðin átt í óskaplegu basli, hvert útgerðarfyrirtækið af öðru farið hreinlega á hausinn, og þeim fáu, sem sæmilega hefur gengið, reynzt erfitt að fá mannskap á fleyturnar. Togarinn Ólafur Jóhannesson er einn af nýsköpunartogurunum svonefndu, búinn hverskyns nýtízku veiðarfærum, og upphaflega ætlað það hlutverk að vera a. m. k. heilu plássi bjargvættur. Verðgildi hans er óvíst, en samkvæmt upplýsingum, er okkur hafa borizt, munu samskonar togarar, sem eru í gangi, vera tryggðir (skv. matsverði?) fyrir allt að 23 milljónum króna.
Söluverð togarans var 2,5 milljónir íslenskra króna. Fylgdu fregninni um söluna þær upplýsingar, að fyrir dyrum hefði staðið kostnaðarsöm allsherjarviðgerð, og sjálfur hefði togarinn bara hlaðið á sig kostnaði með því að liggja aðgerðalaus við land.
Þá hefur flogið fyrir, að hinir norsku kaupendur hafi orðið all kámpakátir yfir þessum kjörum á togaranum, þar eð kaupverðið væri tæplega verðgildi góðmálms í togaranum og mælitækja, væri hann rifinn. En það mun naumast ætlun þeirra. Almenningi er naumast láandi, þótt hann reki upp stór augu yfir þessum tíðindum. Merkir þetta upphafið á endalokum togaraútgerðar á Íslandi, og verða togarar þeir, sem nú liggja bundnir ef til vill látnir sæta sömu eða svipuðum örlögum og Ólafur Jóhannesson? Þetta er annars orðið alvörumál, hvernig komið er fyrir togaraútgerðinni. Flestir einstaklingar og allar bæjarútgerðir stórtapa á henni. Hér þarf róttækra aðgerða við. Hvernig væri nú að setja á laggirnar nefnd til að gera samanburð á rekstri og útgerðarafkomu togara og stærri bátanna. Við lifum víst í landi nefndanna og það hefði einhvern tíma þótt minni ástæða til að skipa nefnd í mál en af þessu tilefni. Það er sannað mál að hægt er að græða á útgerð nú á dögum. Það er því eitthvað bogið við þessi stórtöp bæjarútgerðanna, þegar aðrir leika sér að því að græða á fiskveiðum.
Ef það kemur í ljós, að bátarnir eru gróðavænlegir, en togararnir ekki, eins og allar líkur benda til, þá er sjálfgert fyrir öll útgerðarfélög að hætta við togaraútgerð og fara þess í stað að gera út stóra báta. Annað væri hrein heimska. Það yrði að vísu blóðugt að sjá þessi góðu og fallegu skip fara úr landi fyrir sama og ekkert verð, eða horfa á þá bundna við hafnarbakkann eða fyrir akkerum á skipalægi, mánuð eftir mánuð, jafnvel ár eftir ár. En við því verður ekkert að segja. Við verðum að gera okkur það ljóst, að það er að verða bylting í þessum málum hér á landi. Stóru bátarnir eru að taka við af togurunum. Togaraútgerðin er dauðadæmd. Við skulum bara horfast í augu við þá staðreynd og hegða okkur í samræmi við það. 

 

Ný vikutíðindi. 19 tbl. 10 maí 1963.

Flettingar í dag: 594
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 418
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 698133
Samtals gestir: 52756
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 17:31:42