Færslur: 2019 Febrúar

24.02.2019 09:07

Þilskipið Erik EA 16.

Hákarlaskipið Erik EA 16 var smíðað í Faxe í Danmörku árið 1901 fyrir Gudmanns Efterfölgere kaupmann á Akureyri og í Kaupmannahöfn. Eik. 25 brl. Selt 27 nóvember 1907, Höepfnersversluninni á Akureyri. Skipinu var oftast haldið úti til hákarlaveiða allt til ársins 1925, var þá eina hákarlaskipið sem eftir var við Norðurland. Selt árið 1928, Halldóri Magnússyni og fl. í Hafnarfirði. Sama ár (1928) var sett 60 ha. Delta vél í skipið. Erik sökk norðvestur af Látrabjargi 16 júní árið 1931. Óstöðvandi leki kom að skipinu er það var statt út af Breiðuvík og sökk það á skammri stundu. Áhöfnin, 3 menn, björguðu sér til lands í Breiðuvík á skipsbátnum. Erik var þá að flytja saltfisk frá Arnarstapa á Snæfellsnesi til Þingeyrar.


Þilskipið Erik EA 16 á Eyjafirði.                                                           Ljósmyndari óþekktur.


Fyrirkomulagsteikning af hákarlaskipi.                                                  Teikning úr Skútuöldinni.

                   Skip sekkur
       Hneykslanleg skipaskoðun 

16. þ. m. Var vélskipið Erik E. A. 16 á leið til Þingeyrar með saltfisksfarm frá Arnarstapa (undir Jökli). Þegar skipið var komið á milli Látrarastar og Patreksfjarðar og var út af Breiðuvík, kom skyndilega leki að því, og var hann svo mikill, að skipsmenn, sem voru þrír, gátu nauðuglega bjargað sér í skipsbátinn með lítið eitt af fatnaði sínum. Var hvort tveggja, að tíminn var naumur, og hitt, að skipsbáturinn var bæði lítill og lekur og gat ekki borið meira. Lentu skipverjar síðan í Breiðuvík og gekk það vel, þó töluverður sjór væri. Skipstjóri á skipinu var Halldór Magnússon úr Hafnarfirði, en vélarmaður Kristján Guðmundsson héðan úr Reykjavík. Þriðji maðurinn var sunnan úr Sandgerði. Skipið hafði gengið undir skipaskoðun ríkisins um nýjár, eins og lög mæla fyrir um, og lýsti skipstjóri því yfir í sjóprófi, að það hefði ekki orðið fyrir neinum Skakkaföllum síðan skoðun fór fram fyr en það skyndilega sökk. Sýnir þetta, sem fleiri dæmi, að eitthvað meira en lítið er bogið við skipaeftirlitið, og má svo búið ekki standa lengi, að sjómenn eigi á hættu fyrir eftirlitsleysi, að skip sökkvi skyndilega í bezta veðri, því ekki varð veðrinu um kent þarna, þó töluverður sjór væri. Töpuðu sjómenn þessir meiri hluta af farangri sínum og hefðu týnt lífinu, ef nokkuð hefði verið að veðri. Sjómannafélögin verða að krefjast þess að fá sjálf að skipa eftirlitsmenn.

Alþýðublaðið. 25 júní 1931.


23.02.2019 15:41

Þilskipið Æskan EA 20 / SI 1.

Hákarlaskipið Æskan var smíðuð á Siglufirði árið 1887 af Bjarna Einarssyni skipasmið. Eik og fura. 24,34 brl. Þetta var fyrsta skipið sem Bjarni smíðaði. Eigendur voru auk Bjarna, þeir Kristinn Havsteen, Einar Guðmundsson bóndi á Hraunum og Guðmundur Vonarformaður svokallaði, frá sama ári. 16 ha. Dan vél var sett í skipið, óvíst hvenær. Fékk skráningarnúmerið EA 20 um árið 1903. Seinna komst skipið í eigu Gránufélagsverslunar og svo 1913-14 var skipið í eigu hf. Hinna sameinuðu Íslensku verslana á Siglufirði. Árið 1922 heitir skipið Æskan SI 1. Selt 1928-29, Einari Malmquist Einarssyni á Akureyri, sama nafn og númer. Skipið var endurbyggt árið 1928-29, mældist þá 28 brl. Einnig var sett 50 ha. Tuxham vél í skipið sama ár. Æskan strandaði við Sauðanes, vestan Siglufjarðar 14 október 1934 eftir að hafa fengið á sig brotsjó sem sópaði lóðum og öðru lauslegu fyrir borð. Lóðirnar fóru í skrúfuna og við það stöðvaðist vélin. Rak skipið síðan upp í vík eina rétt við Sauðanesvitann. Áhöfnin, 10 menn, komust hjálparlaust upp í fjöruna. Æskan eyðilagðist á strandstað.


Þilskipið Æskan. Ljósmyndin mun vera tekin árið 1903.                        Ljósmyndari óþekktur.

                    Bátur ferst
                 Menn bjargast

Einkaskeyti til Morgunblaðsins Siglufirði, mánudag.
Flestir stærstu fiskibátarnir hjer réru á laugardagskvöldið. Var þá sæmilegt sjóveður, en útlit slæmt. Þegar um miðjan dag í gær (sunnudag) var komið stórbrim. Bátarnir komu að landi kl. 8-9 um kvöldið, allir nema "Æskan", eign Einars Malmquists útgerðarmanns.
"Æskan" strandaði skammt frá Sauðanesvitanum á tíunda tímanum í gærkvöldi með þeim hætti, að hún fékk brotsjó á sig á tönginni norður af vitanum. Sjórinn tók út lóðir af þilfari og vöfðust þær í skrúfuna svo að vjelin stöðvaðist. Var báturinn að berjast þarna í brimgarðinum í þrjár klukkustundir, en rak að lokum upp í Breiðuvíkina, rjett suðaustan við vitann, og svo hátt, að skipverjar gengu þar svo að kalla á þurrt land úr honum. Voru þeir allir ómeiddir að því frekast er kunnugt. Þegar sást til bátsins frá vitanum, var þegar brugðið við og sent suður að Dalabæjunum. Þaðan voru svo sendir tveir röskir menn hingað til Siglufjarðar og komu þeir hingað laust fyrir miðnætti og sögðu frjettirnar. Var þá þegar safnað mönnum og fóru 20 í hóp skemmstu leið vestur yfir fjallið. Lögðu þeir af stað um miðnætti og var hjerðaslæknir í för með þeim. En hann komst ekki alla leið sökum þess hvað færð var erfið. Þegar Siglfirðingar komu á strandstaðinn, höfðu bátsverjar bjargast í land fyrir nokkru. Goðafoss lá hjer í Siglufirði, en brá þegar við er frjettin um strandið kom og lagði þegar af stað þangað út eftir. Jafnhliða sendi hann stýrimann sinn vestur yfir fjallið með línubyssu og Morsetæki, og hafði hann samband við skipið, svo að hingað komu fregnir með því um björgunina. Flestir Siglfirðingarnir og strandmennirnir eru enn ókomnir að vestan.
"Æskan" var 28 smálestir að stærð og besta skip, smíðað 1887, en umbyggt 1928, og þá settur í það 50 hestafla Tuxham-hreyfill. Formaður var Bjarni Vilmundarson. Skipið er mjög brotið. Það mun hafa verið óvátryggt.
Í útvarpsfrjett í gær segir að báturinn hafi kastast á land undir hömrum þar sem erfitt var um uppgöngu. Tókst þó vjelamanni, Eggert Stefánssyni að klífa hamarinn og komast heim að Sauðanesi. Var þá farið þaðan með kaðla út á strandstaðinn, og hinir skipbrotsmenn dregnir upp á hamrana og gekk það greiðlega og slysalaust.

Morgunblaðið. 16 október 1934.


20.02.2019 22:27

Íslenskar eimskipamyndir í Commander sígarettupökkum.

Á þessu ári eru liðin ein 88 ár frá því að eimskipamyndirnar voru gefnar út en það var árið 1931. Þær voru í sígarettupökkum sem nefndust Commander og voru gefnar út af Tóbaksverslun Íslands h/f í samstarfi við Westminster Tobacco Co Ltd í London. Í auglýsingu í Fálkanum frá árinu 1931, segir að  "fyrir hverjar 50 íslenskar eimskipamyndir í Commander cigarettupökkum, sem oss eru sýndar, fá menn ókeypis eina gullfallega stækkaða mynd af einhverjum af 12 fallegustu myndunum". Það vill nú svo til að ég rakst á þessa "gullfallegu" stækkuðu mynd af togaranum Surprise GK 4 sem tekin var af Vigni ljósmyndara í Reykjavík. Eimskipamyndirnar á ég allar í albúmi sem sérstaklega var gert til að geyma þær í. Einstök heimild um tíma gömlu kolakynntu gufutogaranna í útgerðarsögu þjóðarinnar sem fengu þann sess að vera innan um sígarettur. En nú er öldin önnur, sígarettan á miklu undanhaldi, sem betur fer, en saga þessara miklu atvinnutækja og þeirra sem tóku við af þeim, Nýsköpunartogaranna svokölluðu, áttu mikinn þátt í því þjóðfélagi sem við þekkjum í dag.


Togarinn Surprise GK 4. Verðlaunamynd Vignis ljósmyndara.                             Mynd úr safni mínu.


Bakhlið ljósmyndarinnar.                                                                               Mynd úr safni mínu.


Albúm undir íslenskar eimskipamyndir.                                                        Úr safni mínu.


Íslenskar eimskipamyndir.                                                                                           Úr safni mínu.


Auglýsing úr Fálkanum frá árinu 1931.

20.02.2019 04:54

2904. Páll Pálsson ÍS 102. í slippnum í Reykjavík.

Togari Hraðfrystihúss Gunnvarar hf í Hnífsdal, Páll Pálsson ÍS 102 var tekinn upp í slippinn í Reykjavík í gærmorgun vegna hinnar svokölluðu ársskoðunar, þ.e. ársábyrgð skipasmíðastöðvarinnar er að renna út og þá þarf að skoða skipið vel og kanna hvort einhverjir gallar hafi komið fram í smíði þess. Ísfisktogarinn Páll Pálsson ÍS 102 var smíðaður hjá Huanghai Shipbuilding Co Ltd í Rongcheng í Kína árið 2018. 1.223 bt. 2.440 ha. MAN vél, 1.795 Kw. Er hann systurskip Vestmannaeyjatogarans Breka VE 61 sem smíðaður var á sama stað og tíma. Páll hefur reynst vel að ég held og ekkert stórvægilegt komið upp á þessu tæpa ári sem skipið hefur verið í drift. Glæsilegt skip Páll Pálsson ÍS 102.


2904. Páll Pálsson ÍS 102 í slippnum í Reykjavík.


2904. Páll Pálsson ÍS 102 í slippnum í Reykjavík.


2904. Páll Pálsson ÍS 102 í slippnum í Reykjavík.         (C) Þórhallur S Gjöveraa. 19 febrúar 2019.


2904. Páll Pálsson ÍS 102 við komuna til Ísafjarðar 5 maí 2018.                                    (C) Kvótinn.


  Heimkomuhátíð Páls Pálssonar ÍS 102


Nýjum og glæsilegum togara Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf, Páli Pálssyni ÍS 102 sem kom til Ísafjarðar 5. maí var fagnað með formlegri heimkomuhátíð laugardaginn 19.maí.

Séra Magnús Erlingsson sóknarprestur á Ísafirði blessaði skipið auk þess sem karlakórinn Ernir söng nokkur lög.

Guðrún Aspelund er guðmóðir skipsins og  gaf hún því nafn og sagði við það tækifæri "Gæfa fylgi þér og áhöfn þinni Páll Pálsson."

Gestum var síðan boðið að skoða skipið og þar á eftir var boðið uppá veitingar í Edinborgarhúsinu þar sem hönnun og smíði skipsins var kynnt ástamt því að ferðasögur úr ævintýralegri heimsiglingu voru sagðar. Nú eru  starfsmenn Skagans - 3X Technilogy að vinna við uppsetningu búnaðar á millidekk og í lest og tíminn jafnframt nýttur við ýmsilegt annað eins og að gera veirafæri klár.

"Þetta er stór dagur fyrir okkur eigendur og starfsfólk Hraðfrystihússins-Gunnvarar, þetta eru tímamót í Vestfirskum sjávarútvegi og það er einkar gleðilegt að koma með nýtt og fullkomið skip heim. Skip sem búið er fullkomnasta búnaði sem völ er á.

Það er okkar bjargfasta trú að til að standast sífellt meiri áskoranir í sjávarútvegi þurfum við á hverjum tíma að hafa á að skipa bestu tækjum sem völ er og þannig geta laðað til okkar hæfasta starfsfólkið", sagði Einar Valur Kristjánsson framkvæmdastjóri í sínu ávarpi við athöfnina.

Forsvarsmenn HG þakkar öllum þeim sem komu til að skoða skipið og í móttökuna í Edinborgarhúsinu fyrir komuna.

 

Heimasíða H.G. 1 júní 2018.



17.02.2019 08:08

Evangersverksmiðjan á Siglufirði.

Árið 1907 hafði mjög sneyðst um það land sem nothæft var fyrir umsvifamikla útgerð og síldarsöltun Norðmanna á Siglufirði. Hvanneyrin var orðin þéttsetin og nokkuð farið að nýta sjávarlóðir í landi Hafnar, sunnan eyrarinnar. Gustav og Olav Evanger frá Eggesbönes á Sunnmæri fengu það sumar lóð í landi Staðarhóls, hér austan fjarðar. Strax var hafin bygging síldarstöðvar með fiskihúsi og bryggju og Herlö, gufuskip þeirra, landaði þar síld til söltunar. Það blés byrlega fyrir hinum framkvæmdasömu bræðrum og hafinn var undirbúningur að byggingu stórrar og fullkominnar síldarverksmiðju.
Með samningi við fyrirtækin H. F. Hartner og Thomas Morgan & Sohn í Hamborg var stofnað hlutafélagið a/s Siglufjord Olje & Guanofabrik og annaðist það rekstur hinnar glæsilegu síldarverksmiðju sem tók til starfa í ágúst 1911 - einnar þeirrar fyrstu á landinu.
Verksmiðjuhúsið var byggt úr timbri, þrílyft á steyptum grunni, 50 álnir á lengd (31,4 metrar) og 20 á breidd (12,5 metrar). Á jarðhæð var 140 hestafla vél knúin gufuafli. Gufan var leidd í járnrörum frá kolakyntum gufukatli. Reim frá gufuvélinni lá upp á næstu hæð og sneri þar löngum öxli. Á öxlinum voru margar og misstórar reimskífur og þaðan lágu reimar upp og niður og sneru pressum, kvörnum, færiböndum og margs konar öðrum vélbúnaði. Allt var upplýst með rafmagni frá gufutúrbínu.
Fyrir framan þetta stórhýsi, í fjörunni, var mikil steinsteypt síldarþró. Úr henni var síldin flutt með færibandi í sex suðukör á efstu hæð. Milli 80 og 100 manns unnu við verksmiðjuna og var afkastagetan um 500 mál síldar,  eða 60 lýsisámur og 100 mjölsekkir á sólarhring. Forstjóri verksmiðjunnar var Gústav Evanger. Ofurlítið þorp reis smám saman á staðnum. Þótti Siglfirðingum það tilkomumikið á síðkvöldum að sjá ljósadýrðina þar speglast í lognkyrrum sjávarfletinum og gufumökkinn frá síldarbræðslunni hverfa út í rökkrið.
Þann 12. apríl 1919 féll gríðarlegt snjóflóð af brúnum Staðarhólshnjúkanna nærri 1000 metrar á breidd og gjöreyddi mannvirkjum Evangersbræðra, húsum og bryggjum. Níu manns biðu bana í snjóflóðinu. Þótt slysið væri Evangersbræðrum mikið áfall byggðu þeir aftur upp á Staðarhólsbökkum 1922 og ráku þar umtalsverða síldarsöltun í nokkur ár áður en umsvifum þeirra á Íslandi lauk endanlega.

Heimild: Síldarminjasafnið á Siglufirði.


Síldarbræðsla Evangersbræðra á Staðarhólsbökkum við austanverðan Siglufjörð. Þessi verksmiðja var hin fyrsta stóra síldarbræðsla sem reyst var hér á landi.       (C) Örlygur Kristfinnsson.


Evangersverksmiðjan á Staðarhólsbökkum. Þetta er eina ljósmyndin sem vitað er um með vissu að til er af þessari síldarbræðslu.     Ljósmyndari óþekktur.

     Landnám Norðmanna og fyrsta
    úthafssíldin berst til Siglufjarðar

Svo segir í Landnámu: "Þormóður inn rammi hét maðr. Hann vá Gyrð, móðurföður Skjálgs á Jaðri, og varð fyrir það landflótti og fór til Íslands. Hann kom skipi sínu í Siglufjörð. Hann deildi við Ólaf bekk (Iandnámsmann í næsta firði) og varð sextán manna bani áðr en þeir sættust".
Fyrsti íbúi Siglufjarðar var því norskur víkingur, sem lét sverðið gera út um vandamálin, að þeirra tíma sið. Eftir því sem sagan greinir, var það fyrir hreina tilviljun, að hann nam land í Siglufirði. Ísland var þá að mestu fullnumið, nema útnes og litlir firðir. Skjálgur á Jaðri var einn mesti höfðingi Noregs á sinni tíð. Hann var faðir Erlings Skjálgssonar, eins helzta stuðningsmanns Ólafs Tryggvasonar. Og þessi tilviljun, að Þormóður rammi skyldi óvingast svo gróflega við þennan áhrifamikla höfðingja, neyddi hann til að leita skjóls á Íslandi, nánar tiltekið á Siglufirði. - Engar sögur fara af afkomendum Þormóðs ramma og reyndar lítið sagt frá Siglfirðingum í íslenzkum sögnum, allt fram undir síðustu aldamót, en þá má segja, að Norðmenn hafi numið land á Siglufirði í annað sinn.
Þetta annað Iandnám Norðmanna í Siglufirði hófst með síldveiðunum á úthafinu fyrir Norðurlandi. Það var árið 1903, sem þetta tímabil hófst með komu fyrstu úthafssíldarinnar til Siglufjarðar. Ole Tynes, Norðmaður, sem bjó á Siglufirði um áratugi og rak þar umfangsmikla útgerð og síldarsöltun, skrifar eftirfarandi um þessi merku tímamót:
 "Um miðaftanleytið 8. júlí 1903 flýgur sú fregn eins og eldur í sinu meðal íbúa þorpsins, að seglskip væri í augsýn úti á hafinu á leið til Siglufjarðar. Skipið mjakast ofurhægt inn fjörðinn og það varpar akkerum framan við bryggju þorpsins. Báti er skotið út frá skipinu, sem ber nafnið "Marsley". Báturinn rennir að bryggju, skipstjórinn stígur á land. Um það voru allar konur, sem þarna voru staddar, sammála, að skipstjórinn, sem þarna kom neðan bryggjuna, væri langfallegasti Norðmaðurinn, sem nokkru sinni hefði stigið fótum á Siglfirzka grund. Hann var um þrítugt, hár og íturvaxinn, ljós yfirlitum og norrænn á svip. En þarna á malarkambinum voru saman komnir því nær allir íbúar Siglufjarðarþorps, ungir og gamlir, enda var fólksfjöldinn ekki mikill í þá daga. Allir vildu fagna og heilsa hinu nýja skipi. Þá var einhver, sem spurði, hvað það væri, sem skip hans hefði á þilfari og glitraði svo mjög. Þá brosti skipstjóri og sagði, að það væri síld. - Síld? - Já, Við létum reka í fyrrinótt og fengum þá ellefu tunnur. En svo létum við reka aftur í nótt, og þá komu í netin sextíu og sjö tunnur síldar. Við verðum að fá hjálp til að koma þessu í salt. Skipið leggst að bryggju og allt kemst á ferð og flug. Snjóhvítar tunnur hlaðast upp í stafla ofan við bryggjuna. Og er þannig hafði gengið um stund, hófst sá starfinn, sem mest var um verður: Fyrsta hafsildin, sem veidd var á djúpmiðum, er affermd til söltunar á Siglufirði. Klukkan eitt miðnættis er fyrsta siglfirzka hafsíldin komin í salt. Fólkið er að hætta og farið að þvo sér og þrífa sig. Þá kemur skipstjórinn með tvær litlar skjóður. Hann ber sína í hvorri hendi. Hann sezt á tóman síldarstamp og hefur hreina heiltunnu fyrir afgreiðsluborð. Og þarna greiðir hann fólkinu kaup þess í glerhörðum peningum. Þetta var nýlunda á Siglufirði. Hver gengur til sinna heimkynna í blíðu sumarnæturinnar í þann mund, er nætursólin hellir geislaflóði sínu yfir bæinn og breytir hverri rúðu í lýsigull. Á morgun er helgidagur. Þetta er sunnudagsnótt. Nú eru peningar komnir inn á hvert heimili á Siglufjarðareyri. Menn leggjast til hvílu ánægðir í friði og kyrrð sólskinsnæturinnar. Í hverju brjósti ríkir óvenjulegt öryggi og sælublandin von. Menn sofna með bros á vör. Það er kominn nýr dagur. - Nýi tíminn hefur haldið innreið sína í hið litla, fátæklega þorp norður við heimskautsbauginn." Þannig byrjaði síldarævintýrið á Siglufirði.

Sveitarstjórnarmál. 3 hefti 1 júní 1976.


Síldarsöltunarstöð Norðmannsins Hans Söbstad á Siglufirði. Talið er að síldin úr reknetaskipinu Marsley hafi verið söltuð í þessari stöð 8 júlí 1903. Þessi síldarstöð Söbstads brann til grunna hinn 6 júlí árið 1919 ásamt íbúðarhúsi og tunnuverksmiðju.   (C) Sílsarsaga Íslands.

              Snjóflóð í Siglufirði Stórkostlegar skemmdir og manntjón

Siglufirði í gær. Í nótt kl. 4 féll snjóflóð úr Staðarhólsfjalli og tók með sér allar byggingar Evangers, að einu litlu húsi undanskildu, og bar á sjó út. Flóðbylgjan gerði afskaplegar skemmdir hérna megin fjarðarins, mölvaði allar bryggjur og fjölda skipa og bata. Um manntjón er ókunnugt, því að ófært hefir verið yfir um vegna roks og fádæma stórhríðar, en því miður líklega eitthvað. Skaðinn skiftir hundruðum þúsunda króna. Hér er komin svo afskapleg fönn, að heita má að bærinn sé kominn í kaf. Nánar í kvöld eða á morgun. Annað símskeyti, sem hingað barst frá Siglufirði, hermir það að 18-20 manns muni hafa látið lífið í snjóflóðinu, en vonandi er að sú fregn sé orðum aukin.

Morgunblaðið. 13 apríl 1919.

         Snjóflóðið mikla í Siglufirði

Snjóflóðið mikla, sem féll í Siglufirði aðfaranótt laugardagsins, mun hafa valdið meira tjóni en nokkurt annað snjóflóð hér á landi. Það hljóp ofan úr háfjalli og kom fyrst á bæinn Neðri-Skútu. Heimilisfólkið þar, sjö talsins, mun hafa verið í fasta svefni, er flóðið reið á bæinn með ómótstæðilegu afli. En bærinn var þéttari fyrir heldur en timburhús og sópaðist eigi brott, heldur fór í kaf. Óttuðust menn að fólkið mundi allt hafa biðið bana, Og því kom sú fregn fyrst, að um 20 manns mundi hafa farist. En í fyrradag var þó gerð tilraun til þess að grafa upp bæinn og fannst þá fólkið allt lifandi, en nokkuð þjakað og meitt, því að niður hafði bærinn fallið undan snjóþunganum. Blindhríð var á allan laugardaginn og því eigi unt að leita þeirra, sem búið höfðu í timburhúsunum niður á bakkanum, sem flóðið tók og bar á sjó út. Þar áttu heima 10. eða 11 manns. Var það gamall maður, Sæther, umsjónarmaður stöðvar Evangers, og kona hans. Í öðru íbúðarhúsi, sem þar var, bjuggu tvenn hjón í þurrabúð: Friðbjörn Jónsson, kona hans og fóstursonur, og Benedikt Sveinsson, kona hans og 3 eða -4 börn. Má telja víst, að þetta fólk hafi allt saman farist. Þegar snjóflóðið skall í sjóinn, varð af svo mikil flóðalda, að hún gekk langt á land upp kaupstaðarmegin og braut þar fimm bryggjur svo að segja í spón, en jakar úr flóðinu bárust langt á land og bátum, sem stóðu uppi í f jöru, fleygði til. Snjóflóð hafa áður fallið úr Staðarhólsfjalli og gert skemmdir. Eftir seinasta flóðið var gerður grjótgarður uppi í hlíðinni til varnar gegn snjóflóðum framvegis, en nú kom hann að engu haldi, því að snjórinn var svo mikill, að hann var í kafi.
Ákaflega mikill snjór er nú á öllu Norðurlandi. Eru menn víða hræddir við snjóflóð, t. d. í Bolungarvík og á Seyðisfirði. Er mælt að verzlun hf. Framtíðin á Seyðisfirði hafi verið lokað af ótta við snjóflóð.

Morgunblaðið. 14 apríl 1919.

16.02.2019 16:39

Blakknes BA 119. TFAS.

Vélskipið Blakknes BA 119 var smíðað hjá Frederikssund Skibsværft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1947 fyrir Vesturnes hf á Patreksfirði. Eik. 99 brl. 300 ha. Mias vél. Smíðanúmer 782. Selt 29 janúar 1954, Baldri Guðmundssyni (Baldur blanki) í Reykjavík, hét Gissur hvíti RE 120. Skipið sökk 11 febrúar árið 1954 á Faxaflóa eftir árekstur við vélskipið Rifsnes RE 272. Áhöfninni, 12 mönnum, var bjargað um borð í Rifsnesið sem skemmdist lítið, en Gissur hvíti hvarf í djúpið á nokkrum mínútum.


Vélskipið Blakknes BA 119 á siglingu.                                             Ljósmyndari óþekktur.

    Nýr Danmerkurbátur til landsins

Síðastliðinn föstudag kom til Hafnarfjarðar nýr mótorbátur frá Danmörku. Báturinn er eign h.f. Vesturnes á Patreksfirði og heitir "Blakknes", um 90 lestir að stærð: Áður hefir sama útgerðarfélag keypt annan bát byggðan hjá sömu skipasmíðastöð. Báturinn var 7 daga frá Frederikssund í Danmörku til Hafnarfjarðar og reyndist í heimsiglingunni mjög vel, enda mjög vandaður og traustur, útbúinn öllum nýjustu siglinatækjum. Skipstjóri á bátnum var Helgi Guðmundsson frá Patreksfirði. Báturinn er byggður hjá A.S Fredrikssunds Skibsværft, eftir íslenzkum byggingarreglum og undir eftirliti Bureau Veritas. Vél bátsins er 270 ha. Dieselvél. Talstöð, dýptarmælir og spil eru öll af beztu gerð. Híbýli áhafnar og skipstjóra mjög rúmgóð og öllu haganlega fyrir komið. Eggert Kristjánsson & Co. h.f. í Beykjavik hefir selt bátinn hingað til lands en það verzlunarfyrirtæki er umboðsmaður A.S Frederikssunds Skibsværft. Eggert Kristjánsson & Go h.f. hefir nú síðan styrjöldinni lauk selt hingað til landsins 10 fiskibáta frá 35-90 lesta, alla byggða í Danmörku. Þess má geta að smíðanúmer vb. "Blakknes" hjá skipasmíðastöðinni var nr. 782 en að þeim bát meðtöldum höfðu 65% af nýbyggingum A.S Frederikssunds Skibsværft verið fyrir Íslendinga, enda ber öllum saman um, að bátar þessarar skipasmíðastöðvar séu mjög hentugir til fiskveiða hér við land. Skipasmíðastöðin hefir einnig gjört sér mjög mikið far um að kynna sér þarfir og óskir íslenzkra fiskimanna vegna þeirra báta er stöðin hefir byggt fyrir þá. Einnig má geta þess að verð þeirra báta er Eggert Kristjánsson & Co. h.f. hefir útvegað hingað frá Danmörku hefir verið töluvert lægra en sambærilegra báta, sem byggðir hafa verið annars staðar.

Vísir. 20 október 1947.


Vélskipið Rifsnes RE 272 að landa síld á Djúpavík.                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 Vélskipið Gissur hvíti sökk í gær á
 svipstundu eftir árekstur í Faxaflóa
     Giftusamleg björgun áhafnar

Í gærdag varð sjóslys hér úti í Faxaflóa, er tvö skip rákust á. Annað þeirra, Gissur hvíti, sem gerður er út frá Borgarnesi, sökk á fáeinum mínútum. Hitt skipið í árekstri þessum, Rifsnes frá Reykjavík, bjargaði allri áhöfninni af bátnum, 12 mönnum. Rifsnes sakaði ekki. Árekstur þessi varð um kl. 3 í gærdag um 36 sjómílur frá Reykjavík. Annað skipið, Gissur hvíti var á leið til Borgarness úr fyrsta róðri sínum á vertíðinni, með um 20 tonn af fiski, eftir fimm daga útivist. Rifsnes var á leið út á miðin er áreksturinn varð. Skipstjórinn Gísli Gunnarsson, Vesturgötu 52, var á stjórnpalli. Stefni Rifsness, sem er járnskip, kom á stjórnborðshlið Gissurar hvíta, rétt aftan við miðju. Skipverjar á bátnum voru allir uppi, en skipstjórinn Bjarni Gíslason, Hraunteigi 10, svaf er þetta gerðist og var háseti við stýrið. Skipstjórinn á Rifsnesi gerði tilraun til að forða árekstrinum, með því að setja á fulla ferð afturábak, en allt kom fyrir ekki, enda var skammt milli skipanna, sem bæði höfðu verið á fullri ferð.
Þar sem stefnið kom á stjórnborðshlið Gissurar hvíta, gekk það 2-4 fet inn í skipið og skipti það engum togum að það tók þegar að sökkva. En án þess að hreyfa Rifsnes frá þeim stað sem það var, að árekstrinum afstöðnum, tókst að ná sjö mönnum af 12 manna áhöfn Gissurar hvíta, upp í Rifsnesið, en fimm fóru í sjóinn. Einn hásetanna á Gissuri hvíta var lengra frá félögum sínum fimm, sem í sjóinn fóru og hægt var án frekari tafa að draga upp í skipið. Þessum manni bjargaði einn hásetanna á Rifsnesi, Elís Bjarnason, Knoxbúðum B-9, með því að synda til hans með línu og bjargaði hann lífi mannsins. Í samtali sem tíðindamaður Mbl. átti við skipstjórana í gærkvöldi um klukkan hálf ellefu, er Rifsnes kom til Reykjavíkur, bar þeim saman um það sem var aðalatriðið, að björgun áhafnarinnar á Gissuri hvíta hefði ekki getað heppnast betur. Ekkert fum, engin mistök. Um 10 mínútur munu hafa liðið frá því að áreksturinn varð, þar til skipbrotsmenn voru allir komnir um boð í Rifsnes, en þá var Gissur hvíti horfinn í djúpið.

Morgunblaðið. 12 febrúar 1954.


12.02.2019 17:02

589. Hrönn GK 240. TFYM.

Vélbáturinn Hrönn GK 240 var smíðaður í Dráttarbrautinni í Keflavík árið 1944 fyrir Hrönn hf í Sandgerði. 34 brl. 171 ha. Buda vél. Seldur 1962, Þórhalli Árnasyni, Indriða Hjaltasyni og Högna Jónssyni á Skagaströnd, hét Hrönn HU 15. Ný vél (1963) 200 ha. Scania vél. Seldur 1964, Júlíusi Árnasyni og Baldri Árnasyni á Skagaströnd, sama nafn og númer. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 6 september árið 1967. Var svo brenndur stuttu síðar.


Hrönn GK 240 á siglingu á Siglufirði.                                                  Ljósmyndari óþekktur.


Hrönn HU 15.                                                                                                 Ljósmyndari óþekktur.

                    Nýr bátur

Fyrir skömmu var lokið við smíði á nýjum báti í Dráttarbraut Keflavíkur. Báturinn er smíðaður eftir teikningum Egils Þorfinnssonar skipasmiðs. Báturinn er 34 tonn að stærð með 154 / 171 Hk Buda diesel vél, og er allur smíðaður úr eik og frágangur hinn vandaðasti. Raflagnir sá Raftækjavinnustofa Keflavíkur um, en alla aðra vinnu leysti Dráttarbrautin af hendi. Báturinn var smíðaður fyrir hlutafjelagið "Hrönn" í Sandgerði, og hlaut hann nafnið, "Hrönn" GK 240, kostnaðarverð var 350 þúsund krónur. "Hrönn" fór á flot þann 18. þ. mán. og reyndist vel í hvívetna, skipstjóri er Guðmann Guðmundsson úr Sandgerði.

Morgunblaðið. 1 febrúar 1945.


10.02.2019 08:19

467. Grundfirðingur ll SH 124. TFSU.

Vélbáturinn Grundfirðingur ll SH 124 var smíðaður í Nyköbing Mors í Danmörku árið 1956 fyrir Soffanías Cecilsson skipstjóra og útgerðarmann í Grafarnesi í Grundarfirði. Eik. 54 brl. 240 ha. Alpha vél. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Grundarfjarðar 16 mars sama ár. Ný vél (1971) 350 ha. Caterpillar vél. Seldur 20 maí 1989, Bjargi hf á Patreksfirði, hét Brimnes BA 800. Seldur 29 október 1992, Látraröst hf á Patreksfirði, hét þá Látraröst BA 590. Seldur 8 febrúar 1994, Nesbrú hf í Reykjavík, hét Sverrir Bjarnfinns ÁR 110. Báturinn hét Sæljós ÁR 11 frá 29 janúar 1997 og var gerður út frá Þorlákshöfn. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 17 nóvember árið 2014.


467. Grundfirðingur ll SH 124 með fullfermi af síld.                                 Ljósmyndari óþekktur.

         Grundfirðingur ll SH 124

Grundarfirði 17. marz. Það sem af er vertíð hafa sjö bátar stundað róðra héðan, en nú nýverið bættist Við áttundi báturinn og í gær hinn níundi. Eru bátarnir 38 og 65 tonna. Nýi báturinn er Grundfirðingur ll, er var byggður í Danmörku og kom hingað eftir að hafa verið 5 ½ sólarhring á leiðinni. Er báturinn hið glæsilegasta skip, með 240 hestafla díeselvél. Geta má þess að stýrishúsið og þilfar er úr tekkviði. Báturinn er búinn beztu siglingatækjum og var byggður á vegum Eggerts Kristjánssonar h.f. í Reykjavík. Eigandi bátsins og skipstjóri er Soffanías Cecilsson. Báturinn fer í sinn fyrsta róður á morgun.

Morgunblaðið. 20 mars 1956.


Grundfirðingur ll SH 124 í smíðum í Nyköbing árið 1956.                  (C) Soffanías Cecilsson.


Grundfirðingur ll SH 124 á Siglufirði.                     (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.


Grundfirðingur ll SH 124 með fullfermi af síld og vel það.                                (C) Soffanías Cecilsson.


Grundfirðingur ll SH 124 með fullfermi við bryggju, sennilega á Raufarhöfn.     Ljósmyndari óþekktur.


Grundfirðingur ll SH 124. Líkan Gríms Karlssonar.                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa.

            Soffanías Cecilsson
        Byrjaði með síldarverkun                            en stundar nú
    saltfiskverkun og rækjuvinnslu 

Ég keypti þetta upphaflega 1965 af hlutafélagi, sem Ienti í greiðsluerfiðleikum. Ég byrjaði á síldarverkun með hálfum hug, því þá sögðu forráðamenn Síldarútvegsnefndar að oft hefði verið erfitt að salta síld, en aldrei eins og þá. Útkoman út úr söltuninni var þannig að ég fór að trúa því að hægt væri að gera fleiri ómögulega hluti í fiskverkun, sagði Soffanías Cecilsson fiskverkandi í Grundarfirði. Síðan hefur Soffanías verið að stækka hjá sér fyrirtækið smám saman og síðastliðin þrjú ár hefur hann byggt frystiklefa, stækkað fiskverkunarhúsnæðið og rýmkað alla aðstöðu fyrir starfsfólkið.  Höfuðgreinin hefur verið saltfiskurinn, en rækjuvinnslan leiddi til frystihúsreksturs. Það sem háð hefur rækjuveiðunum er að tíminn er alltaf að styttast vegna þröngsýni stjórnvalda sem hafa elt hleypidóma manna er ekki þekkja veiðarnar. Tímabilið í ár er algjörlega óraunhæft til samanburðar, þar sem við fengum ekki leyfið fyrr en 27. maí. Þá eru tveir bestu mánuðirnir liðnir, og þar af leiðandi færri bátar.
Í endaðan júlí var rækjuveiðin orðin 120 tonn og sá afli að mestu kominn af tveim bátum. Áður voru allt upp í 6 bátar og þá var aflinn þegar best var um 400 tonn, sem ég tók á móti. Aðalveiðisvæðið er í klukkutíma siglingu frá Grundarfirði, en í vor fundust gjöful mið 10-20 sjómílur út af Jöklinum á 160-180 faðma dýpi og veiðin verið mest þar í sumar. Þrátt fyrir þetta kom Ieyfið svona seint, því að óeðlilega mikið magn af smáýsu gekk á nærliggjandi svæði við gömlu miðin og þeir voru hræddir um að við færum á þau. Það sem helst hefur verið fundið rækjutrollinu til foráttu er hversu smáriðið það er. En staðreyndin er sú að í rækjutrollið kemur aðeins stór fiskur og við höfum sannanir fyrir því að það liggur í toghraðanum. Rækjutroll er dregið mjög hægt þannig að smáfiskurinn forðar sér en sá stóri er það latur að hreyfa sig að hann lendir í. Á fiskitrolli hins vegar er toghraðinn það miklu meiri að smáfiskurinn nær ekki að forðu sér. Það er því spurning í sambandi við friðunaraðgerðir hvort ekki eigi að minnka toghraðann hjá bátunum. Vertíðin í vetur var betri en við áttum von á. Við vorum viðbúnir því að mæta minni afla í ört minnkandi aflabrögðum. Frá áramótum og fram til 31. júlí er búið að taka á móti 2.100 tonnum af slægðu og óslægðu og einnig er rækjan talin með. Við söltum allt árið og eru nú komin um 600 tonn af stöðnum fiski, en lítið af skreið. Í haust er ég að hugsa um að hefja skelvinnslu, því að dauft er yfir öðrum veiðum hér á þeim tíma og atvinnumálin þannig að skelin er vænlegust. Að lokum sagði Soffanías að hann hefði byrjað mjög snemma í úgerð en aldrei kynnst hugtakinu taprekstur á útgerð. Það er svo einkennilegt hér í Grundarfirði, sagði hann, að hér þrífast ekki hlutafélög eða samvinnurekstur eins og svo víða annars staðar. Það virðist vera að einstaklingsframtakið sé það sem gildir hér.

Frjáls verslun. 1 ágúst 1976.


09.02.2019 06:39

438. Frigg VE 316. TFGU.

Vélbáturinn Frigg VE 316 var smíðaður hjá A.K. Work í Esbjerg í Danmörku árið 1948. Hét áður Anna Nissen E 242. Eik og fura. 49 brl. 150 ha. Hundested vél. Eigendur voru Sveinbjörn Hjartarson skipstjóri og bróðir hans, Alfreð Hjörtur Hjartarson frá ágúst 1952. Ný vél (1958) 280 ha. MWM vél. Bátinn rak upp í Krísuvíkurbjarg 29 mars árið 1973 og brotnaði í spón þar. Sjór hafði komist í olíugeymi eftir að báturinn fékk á sig brotsjó með þeim afleyðingum að vélin stoppaði. Var hann þá í um mílu fjarlægð frá bjarginu. Áhöfnin, 5 menn, komust í björgunarbát og var bjargað um borð í vélskipið Sigurð Gísla VE 127 frá Vestmannaeyjum.


Frigg VE 316 tilbúin til heimferðar frá Esbjerg í ágúst árið 1952.              Mynd úr safni mínu.

              Nýr bátur til Eyja

Vestmannaeyjum, 11. Ágúst. Nýlega bættist Vestmannaeyjaflotanum nýr bátur. Er það annað skipið, sem Eyjaflotanum bætist á skömmum tíma. Bátur þessi heitir Frigg VE 316, og eru eigendur hans bræðurnir Sveinbjörn og Alfreð Hjartarsynir frá Geithálsi hér í Eyjum. Bát þennan keyptu þeir bræður í Esbjerg í Danmörku. Hann er byggður í Danmörku árið 1948, og er 50 smálestir að stærð með 150 hestafla Hundested mótor. Virðist bátur þessi hið vandaðasta skip. Hann er búinn öllum helztu siglingatækjum. Bræðurnir Alfreð og Sveinbjörn hófu útgerð 1947, þá á 21 smálesta bát, en í vor seldu þeir hann vestur á Bíldudal og keyptu í staðinn bát þann, er fyrr greinir.

Morgunblaðið. 12 ágúst 1952.


Anna Nissen E 242 á siglingu í Esbjerg nýsmíðuð árið 1948.                   Mynd úr safni mínu.

  Frigg VE stjórnlaus undan brotsjó
Sigurður Gísli VE bjargaði áhöfninni

Vélbáturinn Sigurður Gísli kom hingað í dag með 5 manna áhöfn af Vestmannaeyjabátnum Frigg VE 316, sem fékk á sig brotsjó út af Grindavík í gær. Vél bátsins drap fljótlega á sér þegar sjór komst í olíuna og rak bátinn stjórnlaust að landi. Var báturinn aðeins um 1 mílu frá landi. Skipverjar fóru í gúmmíbát þegar vb. Sigurður Gísli VE 127 kom á vettvang og var báturinn dreginn á milli. Gekk það vel og hélt Sigurður Gísli með mannskapinn til lands. Varðskip reyndi síðar um daginn að ná til Friggs, en það tókst ekki og síðast þegar vitað var um bátinn, var hann á reki skammt utan við Krísuvíkurbjarg. Frigg er um 60 lestir að stærð og var hann á trolli. Skipshöfnin hélt frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur og Grindavíkur.
Skipstjóri á Sigurði Gísla er Friðrik Ásmundsson frá Vestmannaeyjum, en skipstjóri á Frigg var Sveinbjörn Hjartarson, einnig frá Eyjum.

Morgunblaðið. 30 mars 1973.

        Brotnaði í Krísuvíkurbjargi

Landhelgisgæzlan taldi í gær líklegt að vélbáturinn Frigg hefði sogast upp í Krísuvíkurbjarg og brotnað þar. Síðast þegar til bátsins spurðist var hann á reki undan bjarginu en loks hafði Gæzlan ekki lengur tök á að fylgjast með honum og ekki var unntt að koma tógi á milli. Mönnunum af Frigg hafði áður verið bjargað um borð í annan bát, en Frigg fékk upphaflega á sig brotsjó.

Morgunblaðið. 31 mars 1973.


08.02.2019 08:14

1609. Stakfell ÞH 360. TFRJ.

Skuttogarinn Stakfell ÞH 360 var smíðaður hjá Storvik Mekanisk Verksted A/S í Kristiansund í Noregi, (skrokkurinn) en skipið síðan klárað hjá Sterkoder Mekanisk Verksted A/S í Kristiansund í Noregi árið 1982 fyrir Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga hf á Þórshöfn. 471 brl. 2.202 ha. Wichmann vél, 1.619 Kw. Smíðanúmer 95A. Selt 10 mars 1989, Hraðfrystistöð Þórshafnar hf á Þórshöfn, sama nafn og númer. Skipið var selt / leigt 29 september 1997, Arnbæk á Suðurey í Færeyjum, hét þá Sverri Ólason TG. Selt aftur til Þórshafnar 1998, fékk sitt gamla nafn Stakfell ÞH 360. Selt árið 2000, Saami Co Ltd í Murmansk í Rússlandi, hét þá Stakfell M 225. 

Stakfell var selt / leigt árið 1997 til Arnbæk á Suðurey sem Hraðfrystistöð Þórshafnar hf átti hlut í. En kaupin / leigan gekk til baka árið eftir vegna þess að Norðmenn neituðu skipinu um veiðileyfi við Svalbarða vegna veiða þess í Smugunni á árum áður.


1609. Stakfell ÞH 360 á siglingu.                                       (C) Snorri Snorrason. Mynd úr safni mínu.

       Þórshafnartogarinn kominn                            til síns heima

Þórshafnartogarinn svokallaði kom til heimahafnar í gær. Fjölmenntu íbúar kauptúnsins á bryggjuna til að fagna komu hans, enda var gefið frí á vinnustöðum í tilefni dagsins. Togarinn, sem hefur hlotið nafnið Stakfell ÞH 360, er í eigu útgerðarfélags Norður-Þingeyinga. Hluthafar þess eru Hraðfrystistöð Þórshafnar, Kaupfélag Langnesinga, Þórshafnarhreppur, Svalbarðshreppur og Útgerðarfélagið Jökull hf. á Raufarhöfn. Stakfell er smíðað hjá skipasmíðastöðinni Storvik í Kristjánssundi í Noregi. Hið nýja skip er um 473 tonn og rúmir 50 metrar að lengd. Það er búið 2.200 hestafla vél, sem er gerð fyrir brennslu á svartolíu. Kaupverð togarans var 50 milljónir og er þá reiknaður fjármagnskostnaður á byggingartímanum, sem var eitt og hálft ár. Skipstjóri á Stakfelli er Ólafur Aðalbjörnsson.

Dagblaðið Vísir. 29 júní 1982.


Skuttogarinn Stakfell ÞH 360. Fyrirkomulagsteikning.                               Ægir. júní 1982.

            B.v. Stakfell ÞH 360

28. júní s.l. kom skuttogarinn Stakfell ÞH 360 í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Þórshafnar. Skipið er hannað hjá Storvik Mek. Verksted A/S í Kristiansund í Noregi, svonefnd S-165 gerð, og fór smíði skrokksins þar fram (smíðanúmer 95), en síðan yfirtók skipasmíðastöðin Sterkoder Mek. Verksted A/S í Kristiansund samninginn og lauk smíði skipsins, og ber skipið smíðanúmer 95A hjá umroddri stöð. Stakfell ÞH er fyrsti skuttogarinn hérlendis eftir þessari teikningu frá Storvik Mek. Verksted, en eldri gerðir frá umræddri stöð (R-155A), þ.e. 9.0 m á breidd og síðar 9.4 m á breidd, eru þekktar hérlendis. Níu skuttogarar í eigu landsmanna eru smíðaðir hjá Storvik Mek. Verksted A/S og er þá Stakfell ÞH ekki meðtalinn. Stakfell ÞH er útbúið afkastamiklum kæliþjöppum og er gert ráð fyrir þeim möguleika að koma fyrir frystitokjum síðar og geyma frystan fisk í lestum. Nefna má sérstaklega að allir svefnklefar (12 talsins) eru búnir baðklefa, en það hefur ekki þekkzt áður í íslenzkum fiskiskipum. Stakfell ÞH er í eigu Útgerðarfélags Norður-Þingeyinga h.f. Skipstjóri á skipinu er Ólafur J. Aðalbjörnsson og 1. vélstjóri Sigurður Vilmundarson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Páll Árnason.
Mesta lengd 50.75 m.
Lengd milli lóðlína 44.00 m.
Breidd 10.30 m.
Dýpt að efra þilfari 6.75 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.50 m.
Eiginþyngd 765 tonn.
Særými (djúprista 4.45 m) 1.188 tonn.
Burðargeta (djúprista 4.45 m) 423 tonn.
Lestarrými 440 m3.
Brennsluolíugeymar (svartolía) 123 m3.
Brennsluolíugeymar (dieseolía) 37 m3.
Daggeymar 4 m3.
Sjókjölfestugeymir (stafnhylki) 39m3.
Ferskvatnsgeymar 62 m3.
Ganghraði (reynslusigling) 13.3 sjómílur.
Rúmlestatala 471 brl.
Skipaskrárnúmer 1609.

Tímaritið Ægir. Júní 1982.


07.02.2019 17:06

2861. Breki VE 61 í slippnum í Reykjavík.

Breki VE 61, togari Vinnslustöðvarinnar hf í Vestmannaeyjum er nú í slipp í Reykjavík. Þar sem ársábyrgð smíðastöðvarinnar er að renna út, þarf að skoða skipið vel ef um einhverja galla í smíði þess sé að ræða. Breki VE 61 er smíðaður hjá Huanghai Shipbuilding Co Ltd í Rongcheng í Kína árið 2017. Skipið er 1.223 bt að stærð með 2.440 ha. MAN vél, 1.795 Kw. Breki er systurskip Páls Pálssonar ÍS 102. Ég tók þessar myndir af togaranum í gær. Breki er glæsilegt skip og hefur að ég held, reynst vel í alla staði.


2861. Breki VE 61. TFMA í slippnum í Reykjavík. 


2861. Breki VE 61.                                                      (C) Þórhallur S Gjöveraa. 6 febrúar 2019.

          Breki brá sér í borgina

Breki VE var tekinn upp í slipp í Reykjavík í vikunni í tengslum við skoðun á skipinu í tilefni af því að ársábyrgð kínversku skipasmíðastöðvarinnar rennur brátt út.
Skipið var afhent Vinnslustöðinni í Kína 13. mars 2018 með ársábyrgð og nú er það grandskoðað á meðan ábyrgðin varir.
Allt virðist vera í góðu standi og ekkert kom heldur fram við skoðun á þurru landi í höfuðborginni. Málað var yfir rispur á botninum ,sem flestar urðu reyndar til þegar skipið var tekið í slipp.

Heimasíða Vinnslustöðvarinnar.

6 febrúar 2019.                     


06.02.2019 17:55

Ketill Hængur NS 312. TFCL.

Mótorbáturinn Ketill Hængur NS 312 var smíðaður í Noregi árið 1918. Fura. 33 brl. 50 ha. Bolinder vél (1926). Fyrsti eigandi hér á landi var Jón S Björnsson á Seyðisfirði frá árinu 1931 (Fiskiskýrslur frá því ári). Seldur árið 1932-33, Jóni Eiríkssyni á Seltjarnarnesi, hét þá Bangsi GK 75. Ný vél (1933) 110 ha. June Munktell vél. Seldur 11 júlí 1937, Ólafi B Björnssyni á Akranesi, hét Bangsi MB 23. Báturinn var endurbyggður og lengdur árið 1940, mældist þá 41 brl. Seldur 5 janúar 1942, Ólafi Lárussyni útgerðarmanni í Keflavík, hét Bangsi GK 445. Seldur 30 nóvember 1943, Einari Guðfinnssyni útgerðarmanni í Bolungarvík, hét Bangsi ÍS 80. Ný vél (1947) 150 ha. June Munktell vél. Báturinn fórst í róðri um 16 sjómílur út af Ritnum 15 janúar árið 1952 í ofsaveðri, hafði þá misst skrúfuna. 2 skipverjar fórust en 3 skipverjum var bjargað um borð í björgunarskipið Maríu Júlíu frá Reykjavík.


Mótorbáturinn Ketill Hængur NS 312 við bryggju á Seyðisfirði.                Ljósmyndari óþekktur.

                 Vertíðarbátar

Bátar héðan frá Seyðisfirði eru nú á förum til Hornafjarðar og Djúpavogs. Munu bátar Jóns Björnssonar verða fyrstir. Óskar Austri þeim öllum góðrar vertíðar.

Austri. 4 mars 1931. 


Mótorbáturinn Bangsi ÍS 80 frá Bolungarvík.                                          Ljósmyndari óþekktur.

          M.b. Bangsi ÍS 80 ferst
            Tveir menn drukkna.

M.b. Bangsi, ÍS 80 fór á sjó þann 15. þ.m. kl. 3 um morguninn. Línan var lögð um 16 sjómílur N til A frá Rit. Veður var gott framan af degi norðaustan átt og lítilsháttar snjóél. Þegar leið á daginn tók veður að versna. Allt gekk þó vel þar til kl. 17, en þá brotnaði skrúfublað og eftir það lét báturinn ekki að stjórn. Var þá búið að draga 80 lóðir. Vindur var þá orðinn allhvass af norðaustri með mikilli snjókomu. Þegar eftir bilunina var kallað á Maríu Júlíu, og með aðstoð togarans Austfirðings tókst að ná sambandi við Maríu og koma til hennar hjálparbeiðni. Þegar þetta skeði var staða skipsins 15 sjómílur N til A frá Rit og voru segl dregin upp og reynt að komast nær landi. Þá er María Júlía fékk hjálparbeiðnina var hún stödd á Ísafjarðardjúpi og lagði þegar af stað til aðstoðar við m.b. Bangsa. Veður fór hríðversnandi og um kl. 24,40, þegar María Júlía kom að m.b. Bangsa, voru komin um 11 vindstig, brotsjór, stórhríð og náttmyrkur. Þá var staða m.b. Bangsa 7 sjómílur í N af Rit. Skömmu áður en María Júlía kom á staðinn, fékk m.b. Bangsi á sig brotsjó sem skolaði öllu lauslegu fyrir borð, braut rúður og hurðir í stýrishúsi, einnig öll skjólborð annars vegar og hálffyllti bátinn af sjó. Þá kastaðist báturinn á hliðina, öll ljós slokknuðu, tvo menn tók út og sást ekkert til þeirra eftir það. Mennirnir sem fórust voru þessir:
Magnús A. Jónsson, annar vélstjóri, 35 ára. Lætur eftir sig tvö munaðarlaus börn og unnustu.
Ólafur P. Steinsson, háseti, 25 ára, ókvæntur. Lætur eftir sig aldraða foreldra.
Meðan María Júlía var á leiðinni á slysstaðinn, hafði hún stöðugt talsamband við Bangsa og tók miðanir meðan talstöð hans var í lagi. Vegna veðurs og brotsjóa var ekki hægt að halda áfram með fullri ferð eftir að komið var út fyrir Rit. Ljósin á Bangsa sáust ekki fyrr en skömmu áður en komið var að honum, og sáu skipverjar á Maríu Júlíu þegar brotsjórinn reið yfir bátinn, og hurfu þá ljósin eins og fyrr segir. Var Bangsa þá leitað með ljóskastara Maríu Júlíu; fannst hann aftur svo að segja samstundis. Sást þá hvernig umhorfs var um borð, og skipverjar á Bangsa tilkynntu að mikill sjór væri kominn í bátinn. Nú var ekki um annað að ræða en að reyna að ná mönnnunum úr bátnum. Skipstjórinn á Maríu Júlíu, Haraldur Björnsson, tók það ráð að leggja að bátnum til hlés og dæla olíu í sjóinn meðan á því stóð. Voru bjarghringir, línubyssa og annar björgunarútbúnaður hafður til taks meðan á þessu stóð, og áhöfn björgunarskipsins stóð á þilfarinu reiðubúin til að aðstoða mennina af Bangsa. Tók björgunin örstutta stund. Rétt á eftir hvarf Bangsi út í bylinn og náttmyrkrið. Leitað var á slysstaðnum fram eftir kvöldinu, en ekki sást annað en brak úr bátnum. Á leiðinni til lands var svo slæmt í sjóinn, að allt þar til komið var inn fyrir Rit var dælt út olíu til öryggis skipinu. Legið var undir Grænuhlíð þar til í birtingu næsta morgun, síðan haldið til Ísafjarðar, og komið þangað kl. 10,30 f.h. Samkv. frásögn skipstjóranna á Maríu Júlíu og m.b. Bangsa, hefði ekki mátt muna einni mínútu til þess að ekki hefði verið hægt að finna bátinn. Þeir sem björguðust voru:
Ásgeir Guðbjartsson, skipstjóri.
Guðmundur Karlsson, I. vélstjóri og
Guðmundur Rósmundsson, stýrimaður.
Voru þeir allir ómeiddir nema Guðmundur Karlsson, sem meiddist nokkuð á fæti. Skipstjórinn á m.b. Bangsa rómar mjög áræði og snarræði skipstjóra og skipverja á Maríu Júlíu við þessa björgun.

Skutull. 18 janúar 1952.


03.02.2019 08:17

531. Hafrún NK 80. TFDK.

Vélbáturinn Hafrún NK 80 var smíðaður hjá Dráttarbrautinni hf í Neskaupstað árið 1957 fyrir Neista hf (Kristinn Marteinsson útgerðarmann í Dagsbrún og fl.) í Neskaupstað. Eik. 61 brl. 280 ha. MWM vél. Seldur 30 nóvember 1968, Hraðfrystistöð Eyrarbakka hf á Eyrarbakka, hét þá Hafrún ÁR 28. Ný vél (1970) 346 ha. Cummins vél. Seldur 25 apríl 1972, Valdimar Eiðssyni skipstjóra og Ragnari Jónssyni á Eyrarbakka, sama nafn og númer. Mikill eldur kom upp í bátnum 12 september árið 1974 þegar hann var að veiðum um 10 sjómílur austur af Vestmanneyjum. Áhöfnin, 6 menn, björguðust í gúmmíbjörgunarbát og var þeim síðan bjargað um borð í vélskipið Hafbjörgu VE. Hafrún var dregin af Lóðsinum í Vestmannaeyjum upp undir Landeyjasand alelda, þar sem hún síðan sökk.


Hafrún NK 80 í kappsiglingu á Sjómannadag í Neskaupstað.         Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.

                 Hafrún NK 80

Rétt upp úr miðnætti 27. þ. m. var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð Dráttarbrautarinnar nýjum fiskibáti. Báturinn var skírður með virðulegri athöfn. Jóhannes Stefánsson hélt stutta ræðu, þá gaf Elsa Kristinsdóttir Marteinssonar skipstjóra bátnum nafn með því að brjóta kampavínsflösku á stefni hans og nefna hann Hafrún. Óskaði Elsa bátnum gæfu og gengis. Þá voru borðar, sem huldu nafn skipsins fjarlægðir og báturinn látinn síga hægt í sjóinn. Var hann fánum prýddur. Nokkuð var af fólki við athöfn þessa, en fáir munu hafa vitað um að sjósetning bátsins ætti að fara fram á þessum tíma. Jóhannes gat þess að nú ættu Norðfirðingar 12 fiskibáta stærri en 55 lestir og um 20 dekkbáta innan við 55 lestir auk margra opinna vélbáta. Kvað hann stækkun bátaflotans hafa verið svo öra á fáum árum, að ýmislegt annað sem útgerðinni væri brýn nauðsyn til aðstöðu í landi, hefði orðið á eftir. Væri því aðkallandi að bæta aðstöðu bátaútvegsins með byggingu bátahafnar, byggingu verbúða og geymslu fyrir síldarnætur. Einnig þyrfti að stækka eða byggja nýja fiskimjöls- og síldarbræðslu. Eigandi bátsins er nýstofnað hlutafjelag er Neisti heitir.
Aðaleigendur eru þeir Kristinn Marteinsson, skipstjóri og Páll Þorsteinsson, útgerðarmaður. Hafrún er 61 brúttósmálestir að stærð með 280 hestafla Mannheim vél. Ganghraði hefur enn ekki verið mældur. Báturinn er búinn öllum venjulegum öryggis og siglingartækjum, þar á meðal fisksjá. Einkennisstafir eru N. K. 80. Hafrún er smíðuð eftir teikningu, sem Sverrir Gunnarsson gerði og var hann einnig yfirsmiður. Niðursetningu vélar og aðra slíka vinnu annaðist vélsmiðja Dráttarbrautarinnar undir stjórn Reynis Zoega, vélsmíðameistara, raflagnir annaðist Kristján Lundberg, rafvirkjameistari og málningu Bjarni Lúðvíksson, málarameistari. Skipstjóri á Hafrúnu verður Kristinn Marteinsson og 1. vélstjóri Guðmundur Sigurðsson. Báturinn mun fara á síld innan fárra daga.
Austurland áskar eigendunum til hamingju með þennan glæsilega bát. Skipasmíðastöðin hér er langt komin með smíði á öðrum báti. Er sá rúmlega 20 tonn. Þá verður bráðlega lagður kjölur að um 70 lesta báti og er efni þegar komið á staðinn. Sá bátur verður smíðaður fyrir reikning fyrirtækisins sjálfs og ekki seldur fyrr en hann er fullsmíðaður.

Austurland. 28 júní 1957. 


Hafrún NK 80 sennilega nýsmíðuð.                                                       (C) Þorsteinn Jóhannsson.


Bátar í smíðum og viðhaldi hjá Dráttarbrautinni hf í Neskaupstað 1957.  (C) Höskuldur Stefánsson.

         Eldur í Hafrúnu úti á rúmsjó

  Sex mönnum bjargað en báturinn
    látinn reka upp í Landeyjafjöru

Eldur kom upp í v.b. Hafrúnu ÁR-28 frá Eyrarbakka í fyrrinótt. Skipti engum togum, að eldurinn breiddist út á örskammri stund, en skipverjunum, sex að tölu, tókst að komast í gúmbát. Síðan tókst að koma dráttartaug fyrst yfir í Hafbjörgu VE og síðan yfir í Lóðsinn, sem dró bátinn upp að Landeyjasandi, þar sem hann var látinn reka upp í fjöru. Þá var báturinn þó brunninn að mestu. Skipverjum var hins vegar bjargað um borð í Hafbjörgu, sem fór með mennina til Eyja, en til Eyrarbakka komu þeir um hádegisbil í gær með Sæfara frá Eyrarbakka. "Það var um kl. 2.30 í fyrrinótt, sem við urðum varir við eld í vélarrúminu, og skipti það engum togum, eldurinn breiddist fljótt út og ekki varð við neitt ráðið," sagði Ragnar Jónsson, fyrsti vélstjóri á Hafrúnu, þegar við ræddum við hann, skömmu eftir að hann kom til Eyrarbakka í gær. Hafrún var að leggja af stað til Eyrarbakka, þegar eldurinn brauzt út, en báturinn var búinn að vera á togveiðum frá því á laugardagskvöld. Þegar vart varð við eldinn, var báturinn staddur um 10 mílur austur af Vestmannaeyjum á vesturleið. Skipverjar reyndu að slökkva eldinn, en ekkert gekk. "Þegar ljóst var, að ekki yrði unnt að slökkva eldinn, sem allur var í vélarrúminu, hafði skipstjórinn, Valdimar Eiðsson, samband við Vestmannaeyjaradíó og Hafbjörgu VE (áður Breki), sem þarna var skammt frá á togveiðum." sagði Ragnar enn fremur. "Eftir því sem ég bezt veit, þá hjuggu skipverjar Hafbjargar trollið frá og héldu þegar til móts við okkur. Var báturinn kominn að Hafrúnu u.þ.b. einni klukkustund eftir að eldurinn brauzt út. Við náðum strax í gúmbátana, sem voru á þaki stýrishússins, og fórum við fljótlega yfir í annan bátinn, en bundum bátana saman. Enn fremur létum við dráttartaug síga út fyrir borðstokk Hafrúnar." Þá sagði Ragnar, að þegar Hafbjörg hefði komið, hefðu þeir verið búnir að vera á reki í 10 mínútur.
Gekk skipverjum vel að komast úr gúmbátnum yfir í Hafbjörgu, og er þeir voru komnir um borð, var Hafrún tekin í tog. Var ætlunin að draga bátinn upp á hraunið austur af Eyjum, til þess að hann sykki ekki á togveiðisvæði bátanna. Þegar Hafbjörg var búin að vera með Hafrúnu í togi í eina og hálfa klukkustund, kom Lóðsinn frá Vestmannaeyjum á vettvang, en um borð í honum voru menn frá slökkviliðinu í Eyjum með fullkomnar slökkvidælur. Sáu þeir strax að eldurinn yrði ekki slökktur og tóku því Hafrúnu í tog og drógu áleiðis að landi. Var báturinn síðan dreginn upp á Landseyjasand og látinn reka þar upp í fjöru, en hann var þá að mestur brunninn, eins og áður segir. Hafbjörg hélt aftur á móti með skipverjanna sex til Eyja, en þangað sótti svo einn Eyrarbakkabátanna þá, eins og fyrr getur. Þórarinn Öfjörð Markússon háseti á Hafrúnu, sagði í samtali við blaðamann Morgunblaðsins, að skipverjar hefðu átt í nokkrum erfiðleikum með að losa gúmbátanna vegna gífurlegs hita og reykjarsvælu. Sagði hann, að skipverjar teldu einkennilegt, að báðir bátarnir skyldu vera settir á sama stað í skipinu, t.d. hefði verið betra að hafa annan fram undan hvalbak.
Hafrún var röskar 60 lestir að stærð, smíðuð í Neskaupstað fyrir Kristinn Marteinsson og fleiri. Báturinn var síðan seldur til Eyrarbakka fyrir fáeinum árum, og var fyrst í eigu Hraðfrystistöðvarinnar, en frá 1971 var hann í eigu þeirra Ragnars Jónssonar, vélstjóra, og Valdimars Eiðssonar, skipstjóra. Við spurðum Ragnar, hvort þeir félagar hygðu á kaup á nýju skipi, en hann svaraði því til, að enginn vissi, hvað nú tæki við, en kaup á nýju skipi væri ekkert fráleitara en hvað annað. Fyrst í stað mundu þeir þó athuga málið nánar.

Morgunblaðið. 13 september 1974.


02.02.2019 18:39

821. Sæborg BA 25. TFBE.

Vélskipið Sæborg BA 25 var smíðað í Bardenfleth í Þýskalandi árið 1956 fyrir Kamb hf á Patreksfirði. 66 brl. 280 ha. MWM vél. Selt 20 maí 1967, Sveini Valdimarssyni og Hilmari Árnasyni í Vestmannaeyjum, hét Sæborg VE 22. Ný vél (1971) 425 ha. Caterpillar vél. Selt 16 desember 1972, Heimi hf í Keflavík, hét þá Sæborg KE 177. Ný vél (1979) 425 ha. Caterpillar vél, 313 Kw. Selt 25 september 1981, Sæborgu sf á Blönduósi og Særúnu hf, einnig á Blönduósi, hét Sæborg HU 177. Selt 1988, Sæborgu sf í Ólafsvík, hét þá Sæborg SH 377. Skipið fórst í róðri 7 mars árið 1989 eftir að hafa fengið á sig tvö brot. Einn maður fórst, Magnús Þórarinn Guðmundsson skipstjóri frá Ólafsvík. 7 skipverjar komust í gúmmíbjörgunarbát við illan leik og var bjargað um borð í vélskipið Ólaf Bjarnason SH 137 frá Ólafsvík.

821. Sæborg BA 25 nýsmíðuð í Þýskalandi.                                      Ljósmyndari óþekktur.

     Nýr stálbátur til Patreksfjarðar

Patreksfirði í gær. Nýr stálbátur kom hingað í morgun frá Þýzkalandi. Er  þetta 67 tonna skip. Báturinn  hreppti versta veður á leiðinni heim frá Þýzkalandi og segja skipverjar, að báturinn hafi reynzt mjög vel. Var báturinn 6 sólarhringa á leiðinni en yfirleitt voru 11 vindstig. Hinn nýi bátur ber nafnið Sæborg og er eign Kambs h.f. Skipstjóri er Gísli Snæbjörnsson og er hann einn hluthafi. Aðrir hluthafar eru Hraðfrystihús Patreksfjarðar og ýmsir einstaklingar.

Alþýðublaðið. 29 desember 1956.


Áhöfnin sem sótti Sæborgu til Þýskalands. Þeir eru frá vinstri talið; Andrés Finnbogason skipstjóri, óþekktur, Jón Þórðarson kokkur, Jón Magnússon síðar útgerðarmaður á Patreksfirði, Gísli Snæbjörnsson, Finnbogi Magnússon og Ingimar Jóhannesson.     Ljósmyndari óþekktur.


Sæborg BA 25 á siglingu.                                                                    Ljósmyndari óþekktur.

     Sæborg SH 377 sökk á Breiðafirði

      Sjö björguðust, eins er saknað

Sæborg SH 377, 66 tonna bátur frá Ólafsvík sökk, á Breiðafirði um kl. 20.30 í gærkvöldi. Átta manns voru um borð og var sjö þeirra bjargað af Ólafi Bjarnasyni SH-137 sem staddur var í grenndinni. Mikil leit var gerð að þeim sem saknað er af Sæborgu í gærkvöldi og tóku átta skip þátt í henni, en auk þess er varðskip á leiðinni. Senda á flugvél Landhelgisgæslunar til leitar í birtingu í dag. Björn Erlingur Jónasson skipstjóri á Ólafi Bjarnasyni segir að hann hafi heyrt neyðarkall frá Sæborgu laust fyrir kl. 20.30. Þá var Sæborgin stödd um 4-5 mílur undan Rifi á leið til Ólafsvíkur og átti eftir um klukkutíma siglingu til heimahafnar eftir veiðitúr. Björn segir að Sæborgin hafi sokkið mjög skyndilega eftir að hafa fengið á sig brot að hann telur. Veður á þessum slóðum var fremur slæmt, austan 7-8 vindstig með frosti og fór versnandi. Þeir sem Ólafur Bjarnason bjargaði tókst að komast um borð í gúmmíbjörgunarbát. Björn Erlingur segir að ekkert hafi amað að þeim er þeir voru teknir um borð í Ólaf.

Morgunblaðið. 8 mars 1989.

   Fengum á okkur tvö brot hvort á eftir öðru
     segir Eymundur Gunnarsson stýrimaður                                       á Sæborgu

Eymundur Gunnarsson stýrimaður á Sæborgu segir að skipið hafi fengið á sig tvo brotsjói hvorn á eftir öðrum með þeim afleiðingum að skipið lagðist á hliðina og sökk. Við fyrra brotið fylltist skipið af sjó á stjórnborðsvæng og reyndi skipstjórinn þá að keyra það upp í á fullu vélarafli til að reyna að losa það við sjóinn. Í því kom seinna brotið og þá lagðist skipið á hliðina og sökk skömmu síðar. "Við sem björguðumst gátum allir skriðið út um gluggana bakborðsmegin og upp á skipið þar sem við losuðum um gúmmíbjörgunarbátinn." Segir Eymundur. "Við stukkum síðan frá borði og tókst að komast í gúmmíbjörgunarbátinn. Ólafur Bjarnason kom síðan að okkur um 15 mínútum síðar og tók okkur um borð." í máli Eymundar kemur fram að Sæborgin var á siglingu til Ólafsvíkur eftir veiðiferð. Er veður tók að versna bað skipstjórinn alla um borð að koma aftur í brú og vera við öllu viðbúna. Sjólag fór síðan stöðugt versnandi eftir það. "Það sem einnig gerðist við seinna brotið var að það drapst á vélinni og eftir það varð ekki við neitt ráðið," segir Eymundur. "Ég vil taka það fram að ég og annar skipverji um borð vorum í vinnuflotgöllum og ég tel að það hafi alveg tvímælalaust bjargað lífi okkar." Í máli Eymundar kemur fram að þeir hafi svo komið til Ólafsvíkur um kl.21.30 um kvöldið og þá farið allir í heilsugæslustöðina en fengið að fara þaðan að lokinni skoðun.

Morgunblaðið. 8 mars 1989.


  
  • 1
Flettingar í dag: 281
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 568
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 1075661
Samtals gestir: 77621
Tölur uppfærðar: 28.12.2024 05:36:39