Færslur: 2018 Ágúst

31.08.2018 19:52

Grimsbytogarinn Blackburn Rovers GY 706 í hrakningum við Austfirði.

Það er ekki í frásögur færandi að breskir togarar leituðu hafnar á Austfjörðum, öðru nær, þeir voru þar oft á tíðum daglegir gestir. Það var hinn 12 febrúar árið 1968 að breski togarinn Blackburn Rovers GY 706 var á leið á Íslandsmið. Ætlunin var að halda á miðin fyrir norðan og vestan land en kurr var í mörgum skipverjum með þá ákvörðun skipstjórans. Það var kannski ekki svo skrítið að svo væri, enda ekki nema nokkrir dagar síðan að tveir breskir togarar fórust við Ísland og sá þriðji strandaði við Snæfjallaströnd og fórust þar fjörutíu breskir sjómenn. Talið var, að á þessum tíma hafi bresku togararnir verið lítt haffærir og hvað þá á Íslandsmiðum og það um há vetur þegar allra veðra var von. Það voru nokkrir skipverjar á Blackburn Rovers sem vildu komast af skipinu hið fyrsta þrátt fyrir fortölur skipstjórans. Hann ákvað síðan að leita hafnar í Neskaupstað, en villtist hrappalega af leið og hélt inn á Mjóafjörð og ekki vildi betur til en að togarinn sigldi á bryggjuna í Brekkuþorpi með þeim afleiðingum að hún stórskemmdist. Mun togarinn hafa strandað tvívegis þar en komist hjálparlaust af strandstað í bæði skiptin. Sigldi þá togarinn út Mjóafjörðinn og náði loks til hafnar á Norðfirði þar sem fimm skipverjar voru settir á land. Mun hann einnig hafa strandað á Norðfirði áður en hann hélt til hafs, fimm skipverjum færri. Ekki fer sögum af frekari hrakningum skipverjanna á Blackburn Rovers í þessari veiðiferð þeirra á Íslandsmið í febrúar árið 1968.
Blackburn Rovers GY 706 var smíðaður hjá Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd í Goole á Englandi árið 1962. 439 brl. désel vél, stærð og gerð óþekkt. Smíðanúmer 535. Togarinn var í eigu Vendover Fishing Co Ltd í Grimsby. Var seldur til Kýpur árið 1987.


Grimsbytogarinn Blackburn Rovers GY 706.                                                       (C) James Cullen.


Blackburn Rovers GY 706 nýsmíðaður haustið 1962.                                                 James Cullen.

  Lenti í röngum firði, stórskemmdi
bryggju og strandaði þrisvar sinnum

Brezkur togari, Blackburn Rovers GY-706, lenti í talsverðum hrakningum á Austfjörðum í gær. Braut hann hafskipabryggju í Mjóafirði og er það mikið tjón og skipið tók niðri að minnsta kosti þrisvar sinnum, en losnaði af sjálfsdáðum. Verður að leggja fram tveggja milljóna króna tryggingu vegna bryggju skemmdanna, til að togarinn fái að halda úr höfn á Norðfirði, en þar er hann nú. Í dag rákust tveir brezkir togarar á út af Austfjörðum og er annar þeirra nú í höfn á Norðfirði. Blackburn Rovers var á leið á Íslandsmið frá Færeyjum, en þar var hann síðast í höfn í Klakksvík. Á leiðinni gerðu nokkrir af áhöfninni uppsteit. Fjórir hásetar og annar vélstjóri neituðu að fara með togaranum norður fyrir land til veiða, eða á þær slóðir sem brezku togararnir fórust ekki alls fyrir löngu. Vildu þessir menn komast af skipinu. Ætlaði skipstjórinn að láta þessa menn á land á Norðfirði, en hann villtist og lenti fyrst í Mjóafirði. Þegar komið var til hafnar þar tókst ekki betur til en togarinn sigldi á hafskipabryggjuna, sem er úr timbri, og stórskemmdi hana. Einnig tók togarinn niðri tvisvar sinnum í Mjóafirði. Hafskipabryggjan í Mjóafirði er byggð á staurum og var hún endurbyggð fyrir þremur árum síðan. Togainn sigldi á talsverðri ferð á bryggjuna og hangir nú hluti henna laus, er það um fimm sinnum fimm flatarmetrar af bryggjunni sem er laus. Einnig hefur það sem eftir stendur af bryggjunni skekkst. Hefur nú verið lögð fram fyrir rétti krafa um tveggja miljóna króna tryggingu vegna bryggjuskemdanna. Í Mjóafirði bað skipstjórinn um að fá lóðs til Norðfjarðar en hann var þar ekki fyrir hendi. Sigldi þá togarinn lóðslaus til Norðfjarðar og nú hitti hann á réttan fjörð og kom þangað um kl. 21. í gærkveldi. Var þegar settur sjóréttur yfir skipstjóranum vegna bryggjuskemmda í Mjóafirði. Skipstjórinn viðurkenndi strax að hafa valdið skemmdunum, enda hafði hann samband við menn í landi í Mjóafirði áður en lagt var þar úr höfn. Mjófirðingar telja að bryggjan sé ekki nothæf eins og er og krefjast að sett sé tveggja milljón króna trygging áður en togarinn heldur úr höfn. Munu skipverjarnir sem ekki vilja sigla lengur með togaranum verða settir á land, á Norðfirði. Áður en togarinn lagði að bryggju á Norðfirði kom hann við í fjörunni skammt fyrir sunnan bæinn.
Í dag varð árekstur milli tveggja brezkra togara út af Austfjörðum. Litlar skemmdir urðu á öðrum togaranum en hinn varð að leita hafnar á Norðfirði og verður gert við skemmdir hans þar.

Tíminn. 13 febrúar 1968.


28.08.2018 17:46

875. Ver KE 45.

Mótorbáturinn Ver KE 45 var smíðaður í Gilleleje í Danmörku árið 1934 fyrir Jón Guðmundsson útgerðarmann og fl. í Vestmannaeyjum. Hét fyrst Ver VE 318. Eik. 22 brl. 85 ha. Völund vél. Báturinn var seldur 1951, Karli Jónssyni í Sandgerði, hét Ver GK 45. Seldur 20 nóvember 1951, Erlendi Sigurðssyni, Sveinbirni Eiríkssyni og Þórólfi Sæmundssyni í Keflavík, hét Ver KE 45 frá árinu 1955. Ný vél (1959) 165 ha. GM díesel vél. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 26 nóvember árið 1965.


875. Ver KE 45.                                                                                               (C) Snorri Snorrason.


875. Ver VE 318 í Vestmannaeyjahöfn.                        (C) Haraldur Guðjónsson.


Mótorbáturinn Ver KE 45. Líkan Gríms Karlssonar.                             (C) Þórhallur S Gjöveraa.

26.08.2018 10:42

Seglskipið Skandia frá Marstal í hrakningum.

Flutningaskipið Skandia frá Marstal í Danmörku lagði af stað frá Reykjavík hinn 25 janúar árið 1918  með saltfiskfarm frá hf Kveldúlfi í Reykjavík áleiðis til Spánar. Skipið fékk gott leiði suður á móts við Landsend á Englandi en lenti þá í miklu óveðri sem olli miklum skemmdum á skipinu. Tíu dögum síðar lenti Skandia í öðru óveðri og fékk á sig brotsjó sem braut nánast allt á þilfarinu, tvö möstur og bugspjótið og auk þess braut hann skjólborðin á bæði borð um mitt skipið. Skipverjar á Skandiu voru á hrakningum á Atlantshafi uns skipið náði landsýn út af Vík í Mýrdal eftir 52 sólarhringa hrakninga í hafi. Það var svo togarinn Njörður RE 36 sem dró Skandiu til hafnar í Vestmannaeyjum þar sem það lá um tíma. Skipið var svo dregið til Reykjavíkur og lagt við steinbryggjuna til viðgerðar. Svo illa var skipið útleikið eftir hremmingarnar að það lét ekki úr höfn í Reykjavík fyrr en í október það ár.
Skandia var smíðuð hjá Skibsbygmester Otto Hansen í Stubbeköbing í Danmörku árið 1902 fyrir B.R. Albert Hansen Petersen í Marstal í Danmörku. 183 brl. 103,7 ft. á lengd, 25,2 ft. á breidd og djúprista var 11 ft. Endalok Skandiu voru þau að það sigldi á tundurdufl hinn 5 júní árið 1940 og sökk. 6 skipverjar fórust.


Seglskipið Skandia í Reykjavíkurhöfn. Eins og sést á þessari ljósmynd er skipið vægast sagt illa útleikið, mastrið kubbast af og flest mölbrotið ofanþilja. Aftan við Skandiu sést í kútter Valtý RE 98. Hann fórst svo 2 árum síðar að talið er á Selvogsbanka með allri áhöfn, 30 mönnum. Talinn hafa lent í árekstri við færeyska kútterinn Kristine, því hvorugt skipið sást eftir 28 febrúar 1920.        Mynd úr safni mínu.


Seglskipið Skandia í hremmingunum á Atlantshafi. Portrett mynd eftir Hans Andersen Hansen sem var skipverji á Skandiu þessa örlagaríku ferð.                              (C) Kulturarvsstrelsen.

Ægilegur sjóhrakningur "Skandiu"                         af Marstal

Á þriðjudagskvöld var símað hingað, frá Vík í Mýrdal, að þaðan sæist seglskip, í nauðum statt og þyrfti hjálpar við. "Njörður", togari frá Reykjavík, var hjer staddur á leið til Englands. Hann brá við þegar að vitja skipsins og kom með það hingað á miðvikudagsmorgun. Var það flutt inn í Botninn svo nefndan, og liggur nú þar. Skipið heitir "Skandia", þrísigld skonorta frá Marstal í Danmörku. Skipshöfnin er dönsk, skipstjóri heitir Hansen. það var svo útleikið, er það kom, að á það vantaði tvö möstrin og bugspjótið. Skjólborðið var brotið báðu megin um alla miðju skipsins, báturinn farinn og allt aflaga, sem aflagast gat. Skipið var á leið til Spánar, með fiskifarm, sem það tók hjá hf. "Kvöldúlfi" í Reykjavík, alls um 300 smálestir. Skandia" ljet í haf frá Rvík í lok janúarmánaðar. Hafði góðan byr í vikutíma suður eftir Atlantshafi. þá gerði ofsastorm af útnorðri og fjekk skipið áföll stór, missti bátinn o. fl. Var þá komið á 52. gr. N. Br. og 31. gr. V. L., þ. e. suður á móts við Landsend á Englandi. Tíu dögum síðar gerði annað ofviðrið af útnorðri með ægilegum sjógangi. Tók skipið brotsjó einn svo mikinn að burt svifti möstrunum tveimur, bugspjótinu, skjólborðinu og einum skipverja; hann náðist þó aftur alheill eftir einn fjórðung stundar. Úr því tóku við sífeldir hrakningar. Enskt gufuskip hittu þeir fyrir sjer og vildi það bjarga þeim, en það tókst ekki, því að vjelin í því var biluð. Sáu þeir enska skipið um tíma á hrakningi skamt frá sjer, en vissu ekki hvað um það varð síðast. Síðan reistu þeir upp stöng nokkra í stað framsiglu, gerðu sjer seglbleðla eftir föngum og sigldu jafnan er tækt var. Fyrir nokkrum dögum sáu þeir danskt seglskip fara skamt frá sjer í vesturátt, hugðu það vera á leiðinni til Ameríku og báðust hjálpar með merkjum. En dólgurinn danski Ijet sem hann sæi ekki nauðsyn landa síns, og hjelt leiðar sinnar. Sigldu þeir nú enn og ætluðu að leita sjer bjargar á einhvern hátt, er þeir kæmu í nánd við  Ísland. Nokkru af farminum urðu þeir að kasta fyrir borð til þess að ljetta skipið. Vistir höfðu þeir nægar það sem til þurfti. Að síðustu var afráðið að leita lands í Vík í Mýrdal, og það fór sem áður segir, að þaðan voru boðin gerð hingað. Skipverjar voru furðu hressir eftir allan þennan hrakning er þeir komu hingað 52 dögum eftir að þeir ljetu í haf.

Skeggi. 22 tbl. 23 mars 1918.



25.08.2018 09:25

Hrönn GK 50.

Þilfarsbáturinn Hrönn GK 50 var smíðaður af Pétri Vigelund skipasmíð í Grindavík árið 1935 fyrir Einar G. Einarsson kaupmann og útgerðarmann í Garðhúsum í Grindavík. Eik og fura. 8 brl. 18 ha. Ford vél. Ný vél (1942) 25 ha. Gray díesel vél. Seldur 1945, Gísla Styff Ólasyni í Reykjavík, hét Hrönn RE 54. Seldur 27 júlí 1953, Sigurjóni Ó Gíslasyni í Reykjavík, hét Hrönn RE 259. Seldur 13 desember 1956, Sófusi Gjöveraa og sonum hans, Sófusi Gjöveraa yngri og Alexander Gjöveraa (afi, faðir minn og föðurbróðir) í Neskaupstað, hét þá Hrönn NK 63. Talinn ónýtur vegna fúa og tekinn af skrá haustið 1959.

Fyrstu vélbátarnir sem gerðir voru út frá Grindavík voru gamlir áttæringar sem breytt var, er vél var sett í þá. Síðan tóku Grindvíkingar að smíða vélbáta og um miðjan 4 áratuginn (1934-35) voru allmargir bátar smíðaðir í víkinni (Grindavík). Þeir stærstu voru þilfarsbátarnir Hrönn GK 50 og Stormur GK 144, eigandi, Árni Vilmundsson Löndum í Grindavík. Báðir voru þeir smíðaðir af Færeyingnum Pétri Vigelund. Þeir voru báðir 8 brl. að stærð og smíðaðir árið 1935.


Þilfarsbáturinn Hrönn GK 50.                                                                          (C) Einar G Einarsson.


Hrönn GK 50. Ég fæ ekki betur séð en að þeir hafi verið á síldveiðum þegar þessi mynd er tekin. Fæ ekki betur séð en að það sé síldarnót aftan við stýrishúsið.          (C) Einar Einarsson.

          Bátasmíði í Grindavík.

Pétur Vigelund er, nú að lúka við smíði í Grindavík á vjelbát með þilfari, fyrir Einar yngra Einarsson frá Garðhúsum. Annan bát hefir Vigelund í smíðum og byrjar bráðum á þeim þriðja. Útgerðin í Grindavík er að breytast, því að eftir að bryggjan kom er hægt að hafa þar stærri báta og betur útbúna báta en áður var. Nú er t. d. verið að setja þilfar í einn trillubátinn og verður sennilega sett í fleiri báta. Nýlega hefir nýr bátur bæst í flotann í Grindavík, eigandi Karl Guðmundsson. Þessi bátur er smíðaður hjer í Reykjavík, er með stýrishúsi, og vjelahúsi. Í honum er 12-15 hestafla Scandiavjel. Báturinn var rjettar 7 stundir á leiðinni hjeðan til Grindavíkur.

Morgunblaðið. 17 október 1934.



           Bát rak á land í óveðri

28.-29. marz rak vélbátinn »Hrönn«, eign verzlunar Einars G. Einarssonar, á land í Grindavík og brotnaði, en við bátinn hefur verið gert.

Ægir. 1 maí 1935.


24.08.2018 10:14

Von VE 279.

Mótorbáturinn Von VE 279 var smíðaður í (Álasundi ?) í Noregi árið 1919. Eik og fura. 26 brl. 60 ha. Finnoy vél. Hét áður Dönning . Eigendur voru Vigfús Jónsson, Guðmundur Vigfússon, Jón Vigfússon og Ingi Kristmannsson í Vestmannaeyjum frá 1928. Keyptur það ár frá Noregi. Ný vél (1935) 80 ha. Skandía vél. Seldur 15 nóvember 1944, Svavari Víglundssyni útgerðarmanni í Neskaupstað, hét Von NK 93. Svavar flutti til Hafnarfjarðar árið 1952, sama nafn og númer. Talinn ónýtur og tekinn af skrá og rifinn árið 1955.

26 ágúst árið 1939 var í síðasta sinn farið til súlna í Eldey og mátti þá litlu muna að slys hlytist af. Björguðust þá sjö menn sem í eyjuna fóru á síðustu stundu. Það voru þrettán Vestmannaeyingar sem fóru þessa ferð á mótorbátnum Von VE 279. Það má lesa um þetta björgunarafrek í Eldey í þrautgóðir á raunastund ll bindi, bls. 94.


Von VE 279 í Vestmannaeyjahöfn.                                                                  Ljósmyndari óþekktur.


Von NK 93 á Norðfirði sumarið 1944.                                   (C) Björn Björnsson.

21.08.2018 10:10

E. s. Vaagen. JLKW.

Eimskipið Vaagen var smíðað hjá Akers Mekaniske Verksted A/S í Kristianiu (Osló) í Noregi árið 1872 fyrir Jonassen & Gabrielsen í Stavanger í Noregi. Járn. 201 brl. 125 ha. 2 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Akers Mekaniske Verksted. Smíðanúmer 67. Árið 1889 er G. C. Gabrielsen í Stavanger einn eigandi Vaagen. Ottó Wathne stórkaupmaður á Seyðisfirði tók Vaagen á leigu árið 1888 og keypti það síðan í apríl árið 1896 ásamt bróður sínum, Tönnes Wathne sem var svo skipstjóri á Vaagen um tíma. Skipið var skráð í Stavanger. Vaagen var í áætlunarferðum frá Kaupmannahöfn til Stavanger og einnig til Björgvin. Þaðan fór skipið beint til Berufjarðar og síðan um verslunarstaðina á Norðausturlandi til Akureyrar. Árið 1901 var síðasta árið sem Vaagen var í Íslandsferðum á þeirra vegum, því að Ottó Wathnes erfingjar seldu skipið það ár, Jens Gran & Sön í Bergen. Árið 1904 er Vaagen komið í eigu Einars Gran og fl. í Bergen. Selt 4 janúar 1915, Martin Egeland í Stavanger og Bergen. Skipið strandaði við Longstone eyjar (Farne islands) við norðaustur strönd Englands og eyðilagðist. Var Vaagen þá á leið frá Leith í Skotlandi til Dunkerque í Frakklandi með kolafarm.


Gufuskipið "Vaagen" á Eyrarbakkahöfn.                            (C) Oline Lefolii / Byggðasafn Árnesinga.

Málverk af S.S. Vaagen.                                                                 (C) Stavanger maritime museum.

               Ottó Wathne og                              járngufuskipið "Vaagen"

Landssjóði var það ofvaxið áleit þingið í sumar að leigja skip til strandferða hjer við land. En norskur kaupmaður einn á Austfjörðum, Otto Wathne , og ekki auðugur nema í meðallagi, hefir gert það ár eptir ár einsamall. Hann hefir í þetta sinn leigt gufuskipið »Vaagen« árlangt, bæði til milliferða hjer innanlands og til Noregs, Færeyja og Skotlands, styrklaust af almannafje. Hann mundi ekki gera það ár eptir ár, ef hann hefði stórskaða af því. Þar að auki hafði hann annað gufuskip á leigu í sumar 2-3 mánuði. Leyndardómurinn er sá, að maðurinn er óíslenzkur að áræði og framtakssemi.

Ísafold. 30 september 1891.

     Ottó Wathne kaupir "Vaagen"

Austri segir að Ottó Wathne muni búinn að kaupa gufuskipið "Vaagen" fyrir 28.000 krónur.

Heimskringla. 9 apríl 1896.


20.08.2018 18:42

Ingólfur Arnarson RE 19. TFEQ.

Vélskipið Ingólfur Arnarson RE 19 var smíðaður í Marstrand í Svíþjóð árið 1946 fyrir Ágúst Snæbjarnarson hf í Reykjavík. 91 brl. 260 ha. Polar díesel vél. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 30 júli sama ár. Skipið strandaði niður af Ragnheiðarstöðum, vestan við Þjórsárósa 14 mars árið 1950. Áhöfninni, 11 mönnum, var bjargað af björgunarsveitarmönnum frá Stokkseyri. Skipið eyðilagðist á strandstað.


Vélskipið Ingólfur Arnarson RE 19.                                                              Mynd úr Íslensk skip.

         Ingólfur Arnarson RE 19

Nýr bátur frá Svíþjóð kom til Reykjavíkur í gær. Hefir hann verið nefndur Ingólfur Arnarson RE 19. Báturinn er 91 smálest að stærð og var verð hans um 500 þúsund krónur. Ágúst Snæbjarnarson hf í Reykjavík er eigandi bátsins.

Vísir. 31 júlí 1946.

         Síldveiðiskip aðstoðuð

Hinn 13. þ. m. varð mb "Ingólfur Arnarson", RE 19, fyrir vjelarbilun upp í Hvalfirði, er hann var að síldveiðum þar og hafði 800 mál síldar innanborðs. Bað skipstjórinn, Ágúst Snæbjarnarsson, um aðstoð, og dró varðbáturinn "Faxaborg" "Ingólf" til Reykjavíkur. Hinn 18. þ. m. brotnaði stýri á mb "Farsæli" AK 59, er hann var að síldveiðum í Hvalfirði, og hafði 550 mál síldar innanborðs. Bað skipstjórinn, Jóhann Guðjónsson, um aðstoð, og dró varð báturinn "Faxaborg" "Farsæl" til Reykjavíkur.

Morgunblaðið. 21 febrúar 1948.

        Björgun skipshafnarinnar                   á Ingólfi Arnarsyni gekk vel
    Dýptarmælirinn sýndi 20 faða dýpi, skömmu                            áður en báturinn strandaði

Björgun skipbrotsmanna af vjelbátnum Ingólfi Arnarsyni, sem strandaði í fyrrinótt, gekk mjög greiðlega. Tíu menn voru á bátnum, og bjargaði björgunarsveitin frá Stokkseyri þeim öllum, og var björgunarstarfinu lokið eftir um fjórar klukkustundir. Báturinn er talinn ónýtur. Ingólfur Arnarson strandaði ekki við Knarrarósvita, eins og talið var í fyrstu, heldur skammt frá Ragnheiðarstöðum, sem eru um fimm kílómetrum fyrir austan vitann. Björgunarsveitin sem Helgi Sigurðsson stjórnar, fór á strandstað í þremur bílum. Við Loftstaðahól var numið staðar og gengið þar upp, til að skyggnast eftir hinum strandaða báti. Sáu menn hvar hann lá, og að því er virtist, alllangt frá landi, skipbrotsmenn höfðu kynnt bál á hvalbak. Var nú haldið, eins og leið liggur að Ragnheiðarstöðum, og síðar fram sandinn, sem var greiður yfirferðar, vegna þess hve frosinn hann var. Klukkan mun hafa verið um þrjú, þegar komið var niður í fjöruna. Snjeri báturinn stefni að landi og voru um 200 metrar út að honum. Undirbúningur að sjálfu björgunarstarfinu gekk vel, og fyrsta björgunarlínan hæfði skipið. Hófst þá skömmu síðar björgun mannana. Vegna þess hve langt var út í skipið slakknaði svo á línunni, er mennirnir voru dregnir í land í björgunarstólnum, að hver einasti þeirra fór á kaf í sjóinn. Skipstjórinn, Ágúst Snæbjarnarson, yfirgaf síðastur skip sitt, nokkru fyrir klukkan átta. Á strandstað var upphitaður bíll er mönnunum var hjúkrað í eftir þörfum. Enginn þeirra var meiddur en kalt var þeim orðið enda talsvert frost Skipbrotsmönnunum mun öllum hafa tekist að bjarga einhverju af fatnaði sínum og var hann dreginn í land í björgunarstólnum.
Brim var nokkurt, og tilgangslaust að ætla sjer að setja bát á flot. Það varð skipbrotsmönnum þessum til lífs, að þeir skyldu bíða björgunarsveitarinnar í skipinu. Stokkseyringar telja ekki líkur til þess, að Ingólfi Arnarsyni verði bjargað. Báturinn liggur á skeri, og er botn hans nokkuð brotinn. Skipstjóri var enn þar eystra í gærkveldi, og nokkrir af mönnum hans. Á vjelbátnum voru þessir menn:
Ágúst Snæbjarnarson skipstjóri. Laugaveg 135,
Sveinn Magnússon stýrimaður, Skipasundi 17,
Jón Jónasson 1. vjelstjóri, Mávahlíð 9,
Hilmar Valdimarsson 2. vjelstjóri, Kamp Knox G-6,
Jóhann Í. Guðmundsson matsveinn, Lindargötu 63,
Halldór Karlsson háseti, Hofteigi 6,
Guðjón Einarsson háseti, frá Moldnúpi Rangárvallasýslu
Ágúst Steindórsson, háseti Ási í Hrunamannahreppi
Björn Jónsson, háseti, Hofsósi,
Magnús Jónsson háseti, Höfðaborg 51 
Björgvin Guðmundsson, háseti, frá Hólmavík.
Skipbrotsmenn hafa skýrt svo frá, að þeir hafi verið á siglingu er báturinn strandaði, og hafi dýptarmælirinn sýnt 20 faðma dýpi, rjett í þann mund er báturinn strandaði.

Morgunblaðið. 15 mars 1950.


18.08.2018 10:13

S. t. Marconi H 777.

Botnvörpungurinn Marconi H 777 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1903. 261 brl. 70 n.h.p. (400 ha ?)  þriggja þjöppu gufuvél, smíðuð hjá C.D. Holmes & Co Ltd í Hull. Smíðanúmer 36. Eigandi var Francis & Thomas Ross Ltd í Hull frá sama ári. Skipið var 130 ft á lengd, 22 ft á breidd og djúprista var 12 ft. Togarinn strandaði við Hofsnes í Öræfum 6 mars árið 1909. Áhöfninni, 18 mönnum var bjargað í land af Öræfingum. Það þótti nýlunda að á þessum togara voru fimm ungir íslendingar sem höfðu ráðið sig á skipið til að læra vinnubrögð á togurum. Marconi varð ekki bjargað. 


Hulltogarinn Marconi H 777 á strandstað í Öræfum.                                    Ljósmyndari óþekktur.


Trollið tekið á Marconi H 777.                                                                        (C) Steve Goodhand.


Skipverjar á Marconi með stórlúðu í þessu holi.                                             (C) Steve Goodhand.


Skipverjar í aðgerð. Virðist vænn fiskur hjá þeim.                            (C) Steve Goodhand.


Marconi H 777 í Reykjavíkurhöfn. Esjan er greinileg í baksýn.                     (C) Steve Goodhand.

                   Skipströnd

Tveir útlendir botnvörpungar hafa strandað í Skaftafellssýslu snemma í þessum mánuði. Öðru strandinu olli ásigling annars botnvörpungs, braut hann gat á skipið, svo það varð að hleypa til lands á Hvolsfjöru í Mýrdal. Það skip var þýzkt og hét Brandenburg. Einn maður druknaði af því skipi, en 11 björguðust.
Hitt skipið var enskt og hét Marconi, Það strandaði fram undan Fagurhólsmýri í Öræfum. Þar björguðust allir mennirnir, 18, og eru 5 af þeim íslendingar.
Enn strandaði botnvörpungur 18. þ. m. við Fossfjöru á Síðu. Menn björguðust.

Fjallkonan. 11 tbl. 27 mars 1909.


15.08.2018 09:27

Kirkella H 7. MACF3.

Hulltogarinn Kirkella H 7 var smíðaður hjá Mykleburst Shipyard í Gursken í Noregi árið 2018 fyrir Onward Fishing Company Ltd í Hull. 4.113 brl. 3.600 Kw Rolls Royce vél. Skipið er 81 m. á lengd og 16 m. á breidd. Haukur Sigtryggur Valdimarsson sendi mér þessar myndir af Kirkellu þegar skipið lagðist að bryggju á Akureyri í gærkvöldi. Skipið er einnig í eigu Samherja í gegn um dótturfélög þess í Bretlandi. Kirkella er systurskip Cuxhaven NC 100 og Berlin NC 105 sem gerð eru út af DFFU í Cuxhaven í Þýskalandi og Emeraude sem er í eigu Euronor  í Boulogne og Compagnie de Péches í St. Malo í Frakklandi. Þakka Hauki fyrir sendinguna, glæsilegt skip.


Kirkella H 7 við bryggju á Akureyri í gærkvöldi.                    (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

Kirkella H 7.                                                                          (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Kirkella H 7.                                                                       (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Dótturfélög Samherja í Evrópu.                                                                    Heimasíða Samherja hf.


       Erlend starfsemi Samherja

Samherji hefur tekið þátt í sjávarútvegi í öðrum löndum frá árinu 1994, eitt sér eða í samstarfi með öðrum. Samherji á hlut í og tekur virkan þátt í rekstri nokkurra útvegs- og fiskvinnslufyrirtækja í Evrópu og frá árinu 2007 teygir erlend starfssemi sig einnig til Afríku.  Erlend starfsemi er rúm 55% af heildarstarfsemi félagsins.

Af heimasíðu Samherja hf.



14.08.2018 10:05

576. Hrafn Sveinbjarnarson MB 85.

Mótorbáturinn Hrafn Sveinbjarnarson MB 85 var smíðaður af Magnúsi Guðmundssyni skipasmið á Byggðarenda í Reykjavík árið 1913. Eik og fura. 20 brl. 50 ha. Tuxham vél. Eigandi var Bjarni Ólafsson & Co á Akranesi frá sama ári. Ný vél (1933) 80 ha. Völund vél. Seldur 24 júní 1939, Ólafi E Einarssyni í Keflavík, hét Hrafn Sveinbjarnarson GK 255. Báturinn var lengdur árið 1942, mældist þá 25 brl. Ný vél (1944) 100 ha. Buda díesel vél. Seldur 17 maí 1946, Sverri Sigurðssyni, Þorbirni Sigurðssyni og fl. í Grindavík, sama nafn og númer. Seldur 23 febrúar 1955, Ágúst Snæbjörnssyni í Reykjavík, hét þá Hrafn Sveinbjarnarson RE 332. Seldur 10 mars 1959, Hrólfi Ingólfssyni og Einari Sigurðssyni í Vestmannaeyjum, hét Hrafn Sveinbjarnarson VE 141. Ný vél (1962) 137 ha. Penta díesel vél. Seldur 5 mars 1962, Jógvan Hansen í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 28 júní árið 1968.


Hrafn Sveinbjarnarson MB 85.                                (C) Árni Böðvarsson / Ljósmyndasafn Akraness.


Hrafn í sínu upprunalega útliti, með stýrishúsið rétt aftan við miðjan bát. Báturinn liggur þarna við steinbryggjuna sem Bjarni Ólafsson lét gera árið 1915.              (C) Úr tímaritinu Akranesi.


    Bjarni Ólafsson útgerðarmaður

Bjarni Ólafsson var brautryðjandi mótorbátaútvegsins og því enginn viðvaningur í þeim efnum, hann hugsaði sér því þá þegar að láta byggja fyrir sig stærsta mótorskipið, sem enn hafði verið smíðað hér á landi, því helzt vildi hann, að það væri smíðað af íslenzkum höndum. Hann samdi því við ungan skipasmið í Reykjavík að smíða fyrir sig 20 tonna bát, sem þá þótti stórt skip. Þetta var hinn happasæli Hrafn Sveinbjarnarson. Valið á nafni bátsins, svo langt og óhentugt sem það var að ýmsu leyti sem bátsnafn, gefur nokkra hugmynd um hug og innræti Bjarna. Hrafninn var 20.84 smálestir að stærð, og var sett í hann 20 hk. Scandia-vél, en þá þótti ágætt að hafa hestafl á tonn.
Smíði bátsins var hafin 1913 og var óvenjulega traustbyggður og svaraði fullkomlega kröfum tímans, kom hann fullbúinn til fiskveiða til Akraness 2. marz 1914. Þá var stýrishús bátsins fram undir miðju dekki, en var við næstu vélaskipti fært aftur þar sem það er nú, aftur við mastur. Bjarni var sjálfur formaður á bátnum og enda þótt nú þætti Hrafninn ekki sjófært skip með 20 hk. vél, sótti Bjarni sjóinn fast. Fór hann til viðlegu í Sandgerði á vetrarvertíðum en í útilegur undir Jökul síðari hluta vertíðar og á vorin Þótti honum ekki gaman að koma heim nema með hlaðið skip, og var oft vel látið í. Á síldveiðar fór hann á sumrin á snurpu, þó lítill væri. Þannig var hann á móti Nönnu úr Hafnarfirði 1916. Bjarni var lengi skipstjóri á Hrafni og síðar lengi Jón bróðir hans.
1939 var báturinn seldur Ólafi G. Einarssyni í Keflavík. Hrafn Sveinbjarnarson var hin mesta happa- og gæðafleyta og færði Akurnesingum margan ugga á land. 1915 lét Bjarni byggja fyrstu steinbryggju, sem byggð var í Lambhússundi, var það örlítið sunnar en steinbryggjan, sem þar er nú. Var hún byggð fram af tveim skúrum, er hann lét reisa þar áður, en þar stendur nú fiskhús B. Ólafsson & Co. Mynd sú, sem hér fylgir af Hrafni er með stýrishúsinu í sinni upphaflegu mynd, og liggur hann þar við þessa bryggju. 

Akranes. 6 tbl. 1 júní 1943.

Þættir úr sögu Akraness lll.
Sjávarútvegurinn.
Ól. B. Björnsson.


12.08.2018 10:48

B. v. Brimir NK 75 að landa síld í Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar sumarið 1936.

Norðfjarðartogarinn Brimir NK 75 landaði oftast síldarafla sínum í Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar og hefur hann eflaust haldið þessari verksmiðju gangandi á meðan hann var í eigu Norðfirðinga. Þessi bræðsla var sú fyrsta sem reist var á Austfjörðum og var það þýski efnafræðingurinn Dr.Carl Paul sem það gerði ásamt norðmönnum árið 1927. Verksmiðjan tók til starfa í júnímánuði það ár. Árið 1931 hætti dr. Paul rekstri bræðslunnar og var ástæðan sögð vera fjármálakreppan í Þýskalandi. Bærinn eignaðist svo verksmiðjuna árið eftir og var hún stækkuð árið 1934 og aftur 1938 og gat þá brætt rúmlega 700 mál á sólarhring. Árið 1940 er verksmiðjan komin í eigu Landsbankans og svo sama ár í eigu Síldarverksmiðja ríkisins sem ráku hana aldrei, heldur sendu menn austur til að negla fyrir glugga og loka henni til frambúðar. Síldarbræðsla hófst ekki aftur á Norðfirði fyrr en Síldarvinnslan hf var stofnuð og byggði sína bræðslu árið 1957.


Togarinn Brimir NK 75 að landa síld í Fóðurmjölsverksmiðjuna 1936.  Úr safni Salgerðar Jónsdóttur.

           "Gúanó" verksmiðjan

Þýsk-norskt fjelag er nú byrjað á byggingu stórrar "gúanó-verksmiðju" hjer á Norðfirði. Er henni ætlað fyrst um sinn að vinna mjöl úr þorskúrgangi, hausum og hryggjum og er svo ráð fyrir gert, að þorsk-úrgangar frá öðrum fjörðum hjer eystra, verði fluttur hingað og malaður hjer, og mun skip verða haft í förum til þeirra flutninga. Er svo sagt, að reist muni verða þrjú hús, verksmiðjan, geymsluhús og íbúðarhús forstjóra, auk þess á að byggja bryggju og önnur "plön" tilheyrandi verksmiðjunni. Er svo til ætlast, að byggingu verði lokið í júnímánuði n. k. Er stundir líða, mun fjelagið einnig hyggjast að koma upp síldarbræðsluverksmiðju, ef síldveiði glæðist hjer eystra og mun jafnvel í ráði, að hafa litla "síldarpressu" nú þegar, svo hægt verði að veita viðtöku því er veiðast kynni í sumar. Blaðið hefir átt tal við forstjórann, hr. Joakim Indbjo, og spurt hann um, hvort nokkrir útlendingar mundu teknir til vinnu við verksmiðjuna og hefir hann lýst því yfir, að svo muni ekki verða, nema ekki yrði hægt að fá íslenska vjelamenn og verkstjóra, þá mundu Norðmenn verða til þess teknir. Verksmiðjan mun því verða reist og starfrækt með íslenskum vinnukrafti eingöngu, enda væri annað óverjandi í því atvinnuleysi, sem nú er hjer á Austfjörðum.

Jafnaðarmaðurinn. 1 tbl. 1 mars 1927. 


Þrær bræðslunnar sumarið 1937.                                                                  (C) Sveinn Guðnason.

  Fiskimjölsverksmiðja Norðfjarðar

Fóðurmjölsverksmiðja Norðfjarðar er nú tekin til starfa. Með sönnu verður eigi annað sagt en að fljótt og vel hafi gengið að reisa verksmiðjuna, þar sem eigi var byrjað að vinna þar fyr en eftir nýár, en nú getur að líta þar á lóðinni myndarlegt íbúðárhús, vjelahús úr stáli og bárujárni ásamt geymsluhúsi. Auk þessa hafa reistir verið pallar (plön) og hafskipabryggja byggð. Fyrir byggingum þessum hefir staðið framkvæmdastjóri verksmiðjunnar, hr. J. Indbjör, en hann hefir haft sjer til aðstoðar erlenda sjerfræðinga við járnhúsagerðina og vjelaniðursetninguna. Bendir allt á, að örugg hafi forystan verið. Og verkstjórar og vinnulýður verið samtaka, enda mun þar ríkt hafa friður og eindrægni og full samúð allra aðila. Hefir verkamönnum þessa þorps orðið hinn besti styrkur að byggingarvinnu þessari, enda munar um minna. Verksmiðjan hefir áræðanlega greitt verkalaun inn í þorpið svo þúsundum króna skiftir. Þar að auki kaupir hún fiskiúrgang, hausa og dálka, og þó að þar sje ekki um stóran tekjustofn að ræða, þá horfir það samt til hagabóta sjómönnum, og afarmikils hreinlætisauka í bænum. Einnig  má telja víst, að sjómennirnir muni í tómstundum sínum taka að stunda hjer upsaveiði, því að markaðinn skortir eigi lengur, verksmiðjan kaupir upsann. Vel mætti vera að nokkrar tekjur mætti af slíkri veiði hafa, því að oft er fjörðurinn fullur af smáupsa á sumrin og framan af vetri. Það er vonandi að iðnaðarfyrirtæki þetta verði alþýðu manna bæði hagfelt og hugfelt, og í fullu trausti þess að svo reynist, óska jeg því góðs gengis.

Jafnaðarmaðurinn. 2 júlí 1927.

Botnvörpungurinn Brimir NK 75. LBMQ / TFXC. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska flotann. Hét þar Simeon Moon. Smíðanúmer 897. 314 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur sama ár, Hellyers Bros Ltd í Hull, hét General Rawlinsson H 173. Seldur 13 september 1924, Fiskveiðahlutafélaginu Víði í Hafnarfirði, hét Ver GK 3. Skipið var selt 4 september 1931, h/f Ver í Reykjavík, hét Ver RE 32. Selt 18 apríl 1936, Togarafélagi Neskaupstaðar í Neskaupstað, hét Brimir NK 75. Seldur 29 júlí 1939, Hlutafélaginu Helgafelli í Reykjavík (Skúli Thorarensen), hét þar Helgafell RE 280. Selt 15 júní 1945, Hlutafélaginu Hrímfaxa í Reykjavík og Hlutafélaginu Sviða í Hafnarfirði, skipið hét Skinfaxi GK 3. Skipið var selt til Færeyja í ágúst 1947, hét þar Miðafell FD 69. Togarinn var seldur í brotajárn til Antwerpen í Belgíu og rifinn þar í október árið 1951.


Áhöfnin á togaranum Brimi NK 75 sumarið 1937.                     Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.

     5-6 þúsund mál af síld veiddust í gær
       á Húnaflóa, við Skaga og Langanes
            Togarinn Brimir fékk 1.700 mál

Síldarflotinn er nær allur á leið til Langaness

Mikil síld veiddist í gær á Húnaflóa, við Haganesvík og við Langanes. Munu hafa veiðst að minsta kosti 5-6 þúsund mál alls á þessum slóðum. Mestan afla fékk Bæjarútgerðartogarinn "Brimir" frá Norðfirði,1.700 mál. Mest allur síldveiðaflotinn mun nú vera á leiðinni austur undir Langanes. Sólskin og ágætt síldarveður var fyrir Norðurlandi í fyrradag og í gær og í gær komu mörg síldveiðaskip inn til Síldarverksmiðjanna á Norðurlandi, Siglufirði, Dagverðareyri og Djúpuvíkur. Höfðu þau flest fengið síldina á Húnaflóa og við Haganesvík. Til Siglufjarðar komu í nótt Freyja með 500 mál, Alden með 400 mál, Hringur með 700 mál, Fáfnir með 750 mál og Vébjörn með 250 mál. Auk þess komu nokkur önnur skip með minna. Sildin er nú mun feitari en áður og er meðalfita á þeirri síld, sem mæld var í gær á Siglufirði um 15% en feitasta síld, sem mæld var var 17%. Til Dagverðareyrar komu í gær línuveiðarinn Langanes með 250 mál. Er það fyrsta skipið, sem leggur upp síld í þeirri verksmiðju í ár, en búizt var við þremur skipum þangað í morgun. Þau skip höfðu einnig fengið síldina á Húnaflóa og við Skaga. Til Djúpuvíkur kom í gær Surprise með 240 mál, en von var í dag þangað á togaranum Ólafi með 150 mál, sem hann hafði fengið í nótt og Garðari með 300 mál.
Togarinn Brimir frá Norðfirði, eign bæjarins, kom til Norðfjarðar í morgun og landar þar í dag 1.700 mál, sem hann hafði fengið við Langanes í gær. Er það mesti síldarafli sem eitt skip hefir fengið sem og fyrsti afli sem kemur til síldarverksmiðjunnar á Norðfirði. Eftir því sem frést hefir mun síldveiðaflotinn nú yfirleitt halda austur að Langanesi og mun verksmiðjan á Raufarhöfn verða tilbúin að taka á móti síld eftir fáa daga. Flest skip, sem ætla að stunda síldveiðar í sumar eru nú farin á veiðar og munu þegar vera komin um annað hundrað skip til veiðanna. Véíbáturinn Eggert frá Sandgerði kom í gær til Keflavíkur með 80 tunnur af síld til frystingar í frystihúsi hlutafélags Keflavíkur. Síldin veiddist í reknet síðastliðna nótt 15 sjómílur í vestur frá Sandgerði. Skipstjórinn áleit mikla síld á þeim slóðum. Síldin er talin eins góð eða betri en síld sú er veiddist síðari hluta síðastliðins hausts.

Alþýðublaðið. 23 júní 1936.


11.08.2018 11:16

Hákarlaskipið Hríseyjan EA 10.

Hákarlaskipið Hríseyjan EA 10 var smíðuð úr eik og furu og var 21,35 brl. Tvær heimildir hef ég um smíðastað og ár. Önnur þeirra segir skipið líklega smíðað í Skotlandi á milli 1860-70 og mun hafa verið keypt þar í landi um 1880 af Kristni Stefánssyni í Ystabæ í Hrísey og fl. Hríseyingum. Hin heimildin segir skipið smíðað í Noregi árið 1885. Skipið var í eigu Einars Ásmundssonar í Nesi um tíma, og einnig í eigu Jakobs og Kristinns Havsteen á Oddeyri á Akureyri. Carl Höepfner kaupmaður á Akureyri mun trúlega hafa eignast skipið haustið 1888 og var það lengi gert út til hákarlaveiða af honum, síðast vorið 1918. Einna lengst munu hafa verið þar skipstjórar, Eggert Jónsson í Samkomugerði, Sæmundur Sæmundsson frá Látrum og Kristinn Ásgrímsson úr Fljótum.
Hríseyjan varð einna langlífust allra hinna gömlu hákarlaskipa. Var hún notuð alla þá stund, sem gert var út á hákarl og gekk seinast til veiða vorið 1918. Eftir að hákarlaveiðar hættu með öllu, stóð Hríseyjan lengi uppi á Akureyri, en var að lokum sett á flot og notuð sem geymsluskrokkur undir síldartunnur og annað dót við bryggjur á Siglufirði. Þar mun þetta gamla hákarlaskip hafa grotnað niður.

Í skipaskrá frá árinu 1933 er Hríseyjan sögð vera 48 ára gamalt skip og kemur það heim og saman við það að skipið hafi verið smíðað árið 1885 í Noregi.

Heimildin um að Hríseyjan hafi verið smíðuð í Skotlandi kemur frá Ásgeiri Halldórssyni í Hrísey.


Hákarlaskipið Hrísey á Oddeyrartanga á Akureyri. Þar stóð það lengi.  Ljósmyndari óþekktur.

Hákarlaskipin "Hríseyja" og "Oddeyri"

Undirskrifaður hefir umboð til að selja 2 nýleg góð hákarlaskip, "Hríseyja" og "Oddeyri" ásamt öllum útbúnaði til hákarlaveiða í bezta lagi. Bæði skipin standa her á Oddeyri. Lysthafendur geta snúið sér til mín og fengið að vita um skipin og hvað þeim fylgir, og með hvaða skilmálum þau verða seld.
Oddeyri 12. okt 1888.
J. V. Havsteen.

Lýður. 17 október 1888.


Hákarlaskipið Hrísey EA 10. Sjá má í Aage EA 13 aftan við Hríseyna.         Ljósmyndari óþekktur.

        Hákarlaskipið Hríseyjan

Hákarlaskipið "Hríseyjan" eign C. Höepfners, kom í gærmorgun hér inn á höfnina aflalaus. Skipið var komið á hákarlamið er ofsarokið á vestan skall á þann 3. þ. m. hleypti þá til Grímseyjar og lagðist austan við eyjuna við aðalakkeri sitt. Eftir stutta stund slitnaði keðjan, og tapaðist þannig akkerið og talsvert af keðju. Skipið lagðist síðan við vara akkeri sitt og keðju, sem hvorttveggja var fremur grant, og þorðu skipverjar því ekki að treysta því eingöngu, heldur lágu við stjórafærið líka. Í þessum festum hékk skipið unz rokinu létti, og vindurinn gekk lítið eitt til norðurs; þá var í ráði að komast á Eyjafjörð, en þegar komið var lítið eitt frá eyjunni, skall á sami vestan ofsinn aftur, svo skipið náði hvorki Eyjafirði né Flatey. Því var þá lagt til hafs, en brátt sáu skipverjar sitt óvænna, sneru við og komust við illan leik inn á Húsavík. Náðu þar í skipafestir verzlunarinnar og Iágu við þær óhultir, þar til á miðvikudagsmorguninn, var þá komið bezta veður, og var þá lagt á stað áleiðis hingað. Ís sáu skipverjar engan og vissu ekki neitt um önnur hákarlaskip.

Norðurland. 29 tbl. 11 apríl 1903.


Hákarlaskipið Hríseyjan EA 10. Líkan Gríms Karlssonar.                            (C) Þórhallur S Gjöveraa.

         "Blikaði voðin, kári söng"

Skip undir seglum er fögur sjón. Ég minnist fiski- og hákarlaskipanna, sem sigldu út og inn Eyjafjörð í mínu ungdæmi, undir hvítum eða rauðbrúnum seglum. Stórar þrímastraðar flutningaskútur sáust einnig auk hinna fjölmörgu litlu fiskibáta, róandi eða siglandi, og svo kváðu við skellirnir í öslandi mótorbátum. Lítum á eyfirskt hákarlaskip. Um skeið færði hákarlinn drjúga björg í bú, meðan lifrin og lýsið voru í háu verði. Beitt var m.a. selspiki og úldnu hrossakjöti. Veiðarfærin ekkert smásmíði, þ.e. sókn (öngull), járnfesti og vaður. Ennfremur krókur (ífæra). Venjulega leyndi sér ekki ef hákarl beit á, en komið gat fyrir að hann hreyfði sig svo lítið að vaðarmaður varð einskis var fyrst í stað, og dró að lokum upp bitinn, jafnvel halfstýfðan skrokk. Höfðu þá aðrir hákarlar ráðist á hinn öngulfasta. Þegar búið var að innbyrða hákarl, var hann umsvifalaust ristur á kvið til lifrar með breddu mikilli, hákarlaskálminni. Lifrin var aðalverðmætið, en flestum skrokkum var fleygt. Fáeinir þó hirtir til kæsingar og matar. Mikill hugur var í hákarlamönnum og gengu þeir berserksgang í aflahrotum. Þótti slæmt að vera sleppifengur, sbr. vísuna sem Guðni gamli spekúlant söng við fiskasteininn:
"Hákarlinn eg missti minn,
mikil voru óhöppin
Ofan í kórinn ufsa inn,
illa fór hann gráni minn."
Hákarl var fyrrum algengur matur með brauði og harðfiski, bæði glær hákarl (af kviðnum) og hinn mjúki bragð- og lyktarsterki skyrhákarl. Börn og óvanir kusu glæran hákarl. Jafnan vildu menn láta hákarlsbeitur hanga lengi uppi og töldu að þá fyrst yrði hann góður matur. Stöku sinnum var gerð stappa úr nýjum, ungum hákarli (gotum), en óhollt þótti að éta mikið af henni. Guðmundur Hannesson læknir kvað vel verkaðan hákarl góðan gegn sumum magakvillum. Viss óholl efni munu hverfa við kæsinguna. Guðmundur taldi kæsingarstaði mjög misgóða og færi það sennilega eftir gerla- og sveppagróðri í bælunum. Var kæst vor eftir vor á sama staðnum ef vel reyndist. Sumir hákarlar eru etnir erlendis, en ekki veit ég hvort kæsing er notuð annars staðar en á Íslandi? Amerískur prófessor hafði frétt af Íslenskri hákarlsverkun og bað um sýnishorn og lýsingu. Fékk hvort tveggja, bauð til sín gestum (prófessorum og læknum) og lét bera hakarl á borð. Aðeins tveir þorðu að bragða hnossgætið og létu allvel yfir. Hinum þótti svakalegt að heyra að hákarlinn hefði verið grafinn i jörð og látið slá í hann, þeir þorðu ekki að smakka, fussuðu bara! Talið var að menn yrðu sterkir af hákarlalýsi, sumir unglingar supu á því sjálfrunnu til að verða hraustir.
Það var hörkulegt lif og lítil þægindi um borð í hákarlaskipum, þetta 15 - 20 smálestir að stærð. Nokkur þó 20 - 30 smálestir, keypt frá Noregi. Einna flest munu hákarlaskipin hafa verið í Eyjafirði og Siglufirði frá 1883 - 1900. Eftir það fór að draga úr útgerðinni.

Tíminn. 11 febrúar 1982.
Ingólfur Davíðsson.



08.08.2018 19:20

Trollið tekið á gömlum gufutogara.

Þarna eru skipverjar að taka trollið á gömlum kolakynntum togara og skipstjórinn fylgist með hvað er í pokanum. Ekki veit ég hvaða togari þetta er en hann er sennilega smíðaður í Englandi á árunum 1910-20, eftir stjórnpallinum að dæma, með 4 glugga á hvorri hlið. Það eru nokkuð margir togarar sem koma til greina. Ég held að þessi mynd sé tekin um borð í Hafnarfjarðartogaranum Ver GK 3. Það er kannski einhver sem kannast við skipstjórann ? Birgir Þórisson og Einar Ásgeirsson vita sjálfsagt hvaða togari þetta er og jafnvel hver skipstjórinn er. 


Trollið tekið og pokinn vænn.                                Guðbjartur Ásgeirsson ?. Ljósmynd í minni eigu.


Ver GK 3. LBMQ / TFXC. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska flotann. Hét þar Simeon Moon. Smíðanúmer 897. 314 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur sama ár, Hellyers Bros Ltd í Hull, hét General Rawlinsson H 173. Seldur 13 september 1924, Fiskveiðahlutafélaginu Víði í Hafnarfirði, hét Ver GK 3. Skipið var selt 4 september 1931, h/f Ver í Hafnarfirði, hét Ver RE 32. Selt 18 apríl 1936, Togarafélagi Neskaupstaðar í Neskaupstað, hét Brimir NK 75. Seldur 29 júlí 1939, Hlutafélaginu Helgafelli í Reykjavík (Skúli Thorarensen), hét þar Helgafell RE 280. Selt 15 júní 1945, Hlutafélaginu Hrímfaxa í Reykjavík og Hlutafélaginu Sviða í Hafnarfirði, skipið hét Skinfaxi GK 3. Skipið var selt til Færeyja í ágúst 1947, hét þar Miðafell FD 69. Togarinn var seldur í brotajárn til Antwerpen í Belgíu og rifinn þar í október árið 1951.


07.08.2018 09:24

554. Hávarður ÍS 160. TFDX.

Vélbáturinn Hávarður ÍS 160 var smíðaður í Vejle í Danmörku árið 1959. Eik. 77 brl. 310 ha. Alpha díesel vél. Eigandi var Ísver hf á Suðureyri við Súgandafjörð frá 22 janúar 1960. Báturinn var seldur í mars 1967, Magnúsi Stefánssyni í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. 21 apríl árið 1967, strandaði Hávarður skammt vestan við Eldvatnsós á Meðallandssandi. Náðist hann út um mánuði síðar lítið skemmdur. Seldur 12 mars 1969, Guðmundi Pálmasyni, Óskari Hervarssyni og Pétri Jónssyni á Akranesi, hét Sæfari AK 171. Seldur 19 febrúar 1973, Herði Jóhannssyni á Eyrarbakka, hét Sæfari ÁR 22. Ný vél (1974) 310 ha. Alpha díesel vél. Seldur 1 febrúar 1977, Soffaníasi Cecilssyni, Hallgrími Magnússyni og Magnúsi Magnússyni á Grundarfirði, hét Fanney SH 24. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 8 apríl árið 1986.


Vélbáturinn Hávarður ÍS 160.                                  (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.

      Nýr bátur til Súgandafjarðar

Súgfirðingum bættist glæsilegur vélbátur 29. f. m. Hann heitir Hávarður og hefir fengið einkennistölu ÍS-160. Eigandi bátsins er ísver h.f. Hávarður er 76 rúmlestir, eikarbátur, smíðaður í Brensodda í Vejle. Guðni Jóhannsson sigldi bátnum heim, en skipstjóri verður Kristján Ibsen, vélstjóri Guðmundur Jónsson. Hávarður byrjar vertíð í þessari viku. Hann er búinn öllum nýtízku tækjum og er hið fríðasta skip.

Vísir. 5 febrúar 1960.


Hávarður ÍS 160 á strandstað á Meðallandssandi í apríl 1967.                         Ljósmyndari óþekktur.

    Bátur strandar á Meðallandssandi
                       Mannbjörg varð  

        Líkur að bjarga megi bátnum

Vélbáturinn Hávarður ÍS-160 sem er 77 tonn að stærð, strandaði um kl. 11 í fyrrakvöld skammt vestan við Eldvatnsós á Meðallandssandi. Báturinn sendi þegar út neyðarkall og barst Slysavarnarfélaginu í Reykjavík tilkynning um strandið kl. 11:10. Eftir fyrstu staðarákvörðun bátsins var álitið, að hann væri strandaður skammt austan Mýrnatanga við Álftaver og var því björgunarsveitin í Álftaveri þegar kölluð út, en henni til aðstoðar björgunarsveitirnar í Meðallandi og Mýrdal. Í ljós kom litlu síðar, að báturinn var strandaður á allt öðrum stað, því að tilkynnt var frá bænum Fljótum að glampi frá ljóskastara sæist við ströndina, skammt vestan við Eldvatnsós. Voru þá björgunarsveitirnar frá Álftaveri og Mýrdal kallaðar aftur, en björgumarsveitin í Meðallandi fór á vettvang. Gekk björgunin mjög greiðlega og var öll áhöfn bátsins, sem er sex menn, komin í land um kl. 4. Áformað er að reyna að ná bátnum út og var varðskip komið á strandstað í gær, og átti að gera tilraun til að draga bátinn út. Mbl. átti í gær stutt símtal við Sigurgeir Jóhannsson, formann björgunardeildarinnar í Meðallandi, og bað hann að lýsa björgunarstarfinu.
Sigurgeir kvað björgunardeildina hafa fengið tilkynningu um strandið um kL 11:30, og var þá haldið að strandstaðurinn væri skammt frá Mýrnatanga. Það var þó frjótlega leiðrétt, og hélt þá björgunarsveitin þegar áleiðis að hinuim rétta stað. Kafaldsmugga var og tafði nokkuð förina, en þeir sem áttu styðzt að fara voru komnir á strandstaðinn um tvö leytið, en hinir, sem lengra þurftu að fara, laust fyrir kl. 3. Báturinn var þá komin mjög nærri landi sagði Sigurgeir, en skipverjar höfðu látið línu reka að landi og þurftum við því ekki annað en ganga frá björgunartækjum. Tókum við mennina í land í björgunarstól, og hefur það ekki tekið nema 10-15 mínútur að bjarga allri áhöfninni. Ég tel miklar líkur á þvi að hægt sé að bjarga bátnum, því að hann liggur réttur fyrir og snýr stefni í land. Þarna er aðeins um að ræða mjúkan sand, og er því lítil hætta á að báturinn brotni, nema að aftökuveður geri, sagði Sigurgeir að endingu. Ekki liggur Ijóst fyrir með hvaða hætti báturinn strandaði, en sem fyrr segir var mikil snjókoma og skyggni ákaflega slæmt Skipbrotsmennirnir sex voru allir fluttir að Bakkakoti, þar sem Sigurgeir býr, og voru þeir þar yfir nóttina. Í gærmorgun fór svo skipstjórinn, Magnús Stefánsson, ásamt tveimur mönnum á strandstaðinn til að athuga allar aðstæður til björgunar.

Morgunblaðið. 23 apríl 1967.


06.08.2018 11:23

Snorri Sturluson NK 11.

Mótorbáturinn Snorri Sturluson NK 11 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1915. Eik. 8,62 brl. 14 ha. Alpha vél. Eigandi var Ingvar Pálmason útgerðarmaður og síðar alþingismaður Austfirðinga á Nesi í Norðfirði frá árinu 1916. Báturinn bar skráningarnúmerið SU 380 til ársins 1929, að það varð NK 11. Seldur 23 september 1930, Ólafi Kristjánssyni, Bjarna Þórðarsyni, Árna Einarssyni, Sigurði Bjarnasyni og Valdimar Sigurðssyni í Neskaupstað, hét þá Snorri Sturluson NK 11. Árið 1934 var nafni bátsins breytt, hét þá Snorri NK 11. Ný vél (1940) 40 ha. Rapp vél. Seldur 16 júlí 1945, Kaupfélagi Berufjarðar á Djúpavogi, hét þá Snorri SU 380. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 6 janúar árið 1948.


Snorri Sturluson NK 11. Ber raunar nafnið Snorri NK 11 á myndinni.              Ljósmyndari óþekktur.
Flettingar í dag: 281
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 568
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 1075661
Samtals gestir: 77621
Tölur uppfærðar: 28.12.2024 05:36:39