31.08.2018 19:52

Grimsbytogarinn Blackburn Rovers GY 706 í hrakningum við Austfirði.

Það er ekki í frásögur færandi að breskir togarar leituðu hafnar á Austfjörðum, öðru nær, þeir voru þar oft á tíðum daglegir gestir. Það var hinn 12 febrúar árið 1968 að breski togarinn Blackburn Rovers GY 706 var á leið á Íslandsmið. Ætlunin var að halda á miðin fyrir norðan og vestan land en kurr var í mörgum skipverjum með þá ákvörðun skipstjórans. Það var kannski ekki svo skrítið að svo væri, enda ekki nema nokkrir dagar síðan að tveir breskir togarar fórust við Ísland og sá þriðji strandaði við Snæfjallaströnd og fórust þar fjörutíu breskir sjómenn. Talið var, að á þessum tíma hafi bresku togararnir verið lítt haffærir og hvað þá á Íslandsmiðum og það um há vetur þegar allra veðra var von. Það voru nokkrir skipverjar á Blackburn Rovers sem vildu komast af skipinu hið fyrsta þrátt fyrir fortölur skipstjórans. Hann ákvað síðan að leita hafnar í Neskaupstað, en villtist hrappalega af leið og hélt inn á Mjóafjörð og ekki vildi betur til en að togarinn sigldi á bryggjuna í Brekkuþorpi með þeim afleiðingum að hún stórskemmdist. Mun togarinn hafa strandað tvívegis þar en komist hjálparlaust af strandstað í bæði skiptin. Sigldi þá togarinn út Mjóafjörðinn og náði loks til hafnar á Norðfirði þar sem fimm skipverjar voru settir á land. Mun hann einnig hafa strandað á Norðfirði áður en hann hélt til hafs, fimm skipverjum færri. Ekki fer sögum af frekari hrakningum skipverjanna á Blackburn Rovers í þessari veiðiferð þeirra á Íslandsmið í febrúar árið 1968.
Blackburn Rovers GY 706 var smíðaður hjá Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd í Goole á Englandi árið 1962. 439 brl. désel vél, stærð og gerð óþekkt. Smíðanúmer 535. Togarinn var í eigu Vendover Fishing Co Ltd í Grimsby. Var seldur til Kýpur árið 1987.


Grimsbytogarinn Blackburn Rovers GY 706.                                                       (C) James Cullen.


Blackburn Rovers GY 706 nýsmíðaður haustið 1962.                                                 James Cullen.

  Lenti í röngum firði, stórskemmdi
bryggju og strandaði þrisvar sinnum

Brezkur togari, Blackburn Rovers GY-706, lenti í talsverðum hrakningum á Austfjörðum í gær. Braut hann hafskipabryggju í Mjóafirði og er það mikið tjón og skipið tók niðri að minnsta kosti þrisvar sinnum, en losnaði af sjálfsdáðum. Verður að leggja fram tveggja milljóna króna tryggingu vegna bryggju skemmdanna, til að togarinn fái að halda úr höfn á Norðfirði, en þar er hann nú. Í dag rákust tveir brezkir togarar á út af Austfjörðum og er annar þeirra nú í höfn á Norðfirði. Blackburn Rovers var á leið á Íslandsmið frá Færeyjum, en þar var hann síðast í höfn í Klakksvík. Á leiðinni gerðu nokkrir af áhöfninni uppsteit. Fjórir hásetar og annar vélstjóri neituðu að fara með togaranum norður fyrir land til veiða, eða á þær slóðir sem brezku togararnir fórust ekki alls fyrir löngu. Vildu þessir menn komast af skipinu. Ætlaði skipstjórinn að láta þessa menn á land á Norðfirði, en hann villtist og lenti fyrst í Mjóafirði. Þegar komið var til hafnar þar tókst ekki betur til en togarinn sigldi á hafskipabryggjuna, sem er úr timbri, og stórskemmdi hana. Einnig tók togarinn niðri tvisvar sinnum í Mjóafirði. Hafskipabryggjan í Mjóafirði er byggð á staurum og var hún endurbyggð fyrir þremur árum síðan. Togainn sigldi á talsverðri ferð á bryggjuna og hangir nú hluti henna laus, er það um fimm sinnum fimm flatarmetrar af bryggjunni sem er laus. Einnig hefur það sem eftir stendur af bryggjunni skekkst. Hefur nú verið lögð fram fyrir rétti krafa um tveggja miljóna króna tryggingu vegna bryggjuskemdanna. Í Mjóafirði bað skipstjórinn um að fá lóðs til Norðfjarðar en hann var þar ekki fyrir hendi. Sigldi þá togarinn lóðslaus til Norðfjarðar og nú hitti hann á réttan fjörð og kom þangað um kl. 21. í gærkveldi. Var þegar settur sjóréttur yfir skipstjóranum vegna bryggjuskemmda í Mjóafirði. Skipstjórinn viðurkenndi strax að hafa valdið skemmdunum, enda hafði hann samband við menn í landi í Mjóafirði áður en lagt var þar úr höfn. Mjófirðingar telja að bryggjan sé ekki nothæf eins og er og krefjast að sett sé tveggja milljón króna trygging áður en togarinn heldur úr höfn. Munu skipverjarnir sem ekki vilja sigla lengur með togaranum verða settir á land, á Norðfirði. Áður en togarinn lagði að bryggju á Norðfirði kom hann við í fjörunni skammt fyrir sunnan bæinn.
Í dag varð árekstur milli tveggja brezkra togara út af Austfjörðum. Litlar skemmdir urðu á öðrum togaranum en hinn varð að leita hafnar á Norðfirði og verður gert við skemmdir hans þar.

Tíminn. 13 febrúar 1968.


Flettingar í dag: 935
Gestir í dag: 76
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725467
Samtals gestir: 53812
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 21:47:37