14.08.2018 10:05

576. Hrafn Sveinbjarnarson MB 85.

Mótorbáturinn Hrafn Sveinbjarnarson MB 85 var smíðaður af Magnúsi Guðmundssyni skipasmið á Byggðarenda í Reykjavík árið 1913. Eik og fura. 20 brl. 50 ha. Tuxham vél. Eigandi var Bjarni Ólafsson & Co á Akranesi frá sama ári. Ný vél (1933) 80 ha. Völund vél. Seldur 24 júní 1939, Ólafi E Einarssyni í Keflavík, hét Hrafn Sveinbjarnarson GK 255. Báturinn var lengdur árið 1942, mældist þá 25 brl. Ný vél (1944) 100 ha. Buda díesel vél. Seldur 17 maí 1946, Sverri Sigurðssyni, Þorbirni Sigurðssyni og fl. í Grindavík, sama nafn og númer. Seldur 23 febrúar 1955, Ágúst Snæbjörnssyni í Reykjavík, hét þá Hrafn Sveinbjarnarson RE 332. Seldur 10 mars 1959, Hrólfi Ingólfssyni og Einari Sigurðssyni í Vestmannaeyjum, hét Hrafn Sveinbjarnarson VE 141. Ný vél (1962) 137 ha. Penta díesel vél. Seldur 5 mars 1962, Jógvan Hansen í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 28 júní árið 1968.


Hrafn Sveinbjarnarson MB 85.                                (C) Árni Böðvarsson / Ljósmyndasafn Akraness.


Hrafn í sínu upprunalega útliti, með stýrishúsið rétt aftan við miðjan bát. Báturinn liggur þarna við steinbryggjuna sem Bjarni Ólafsson lét gera árið 1915.              (C) Úr tímaritinu Akranesi.


    Bjarni Ólafsson útgerðarmaður

Bjarni Ólafsson var brautryðjandi mótorbátaútvegsins og því enginn viðvaningur í þeim efnum, hann hugsaði sér því þá þegar að láta byggja fyrir sig stærsta mótorskipið, sem enn hafði verið smíðað hér á landi, því helzt vildi hann, að það væri smíðað af íslenzkum höndum. Hann samdi því við ungan skipasmið í Reykjavík að smíða fyrir sig 20 tonna bát, sem þá þótti stórt skip. Þetta var hinn happasæli Hrafn Sveinbjarnarson. Valið á nafni bátsins, svo langt og óhentugt sem það var að ýmsu leyti sem bátsnafn, gefur nokkra hugmynd um hug og innræti Bjarna. Hrafninn var 20.84 smálestir að stærð, og var sett í hann 20 hk. Scandia-vél, en þá þótti ágætt að hafa hestafl á tonn.
Smíði bátsins var hafin 1913 og var óvenjulega traustbyggður og svaraði fullkomlega kröfum tímans, kom hann fullbúinn til fiskveiða til Akraness 2. marz 1914. Þá var stýrishús bátsins fram undir miðju dekki, en var við næstu vélaskipti fært aftur þar sem það er nú, aftur við mastur. Bjarni var sjálfur formaður á bátnum og enda þótt nú þætti Hrafninn ekki sjófært skip með 20 hk. vél, sótti Bjarni sjóinn fast. Fór hann til viðlegu í Sandgerði á vetrarvertíðum en í útilegur undir Jökul síðari hluta vertíðar og á vorin Þótti honum ekki gaman að koma heim nema með hlaðið skip, og var oft vel látið í. Á síldveiðar fór hann á sumrin á snurpu, þó lítill væri. Þannig var hann á móti Nönnu úr Hafnarfirði 1916. Bjarni var lengi skipstjóri á Hrafni og síðar lengi Jón bróðir hans.
1939 var báturinn seldur Ólafi G. Einarssyni í Keflavík. Hrafn Sveinbjarnarson var hin mesta happa- og gæðafleyta og færði Akurnesingum margan ugga á land. 1915 lét Bjarni byggja fyrstu steinbryggju, sem byggð var í Lambhússundi, var það örlítið sunnar en steinbryggjan, sem þar er nú. Var hún byggð fram af tveim skúrum, er hann lét reisa þar áður, en þar stendur nú fiskhús B. Ólafsson & Co. Mynd sú, sem hér fylgir af Hrafni er með stýrishúsinu í sinni upphaflegu mynd, og liggur hann þar við þessa bryggju. 

Akranes. 6 tbl. 1 júní 1943.

Þættir úr sögu Akraness lll.
Sjávarútvegurinn.
Ól. B. Björnsson.


Flettingar í dag: 110
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 858
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 698507
Samtals gestir: 52767
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 01:50:37