Færslur: 2020 Desember

31.12.2020 14:42

Togarar Dalvíkinga í höfn um áramót 1983 / 1984.

Óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og takk fyrir samfylgdina hér á síðunni á árinu sem er að líða.Megi árið 2021 færa okkur öllum gæfu. Hafið það ávallt sem allra best.


Dalvíkurhöfn um áramót 1983-84.


31.12.2020 14:07

1989. Hálfdán í Búð ÍS 19. TFKK.

Togskipið Hálfdán í Búð ÍS 19 var smíðaður hjá Lunde Varv och Verkstads í Ramvik í Svíþjóð árið 1989 fyrir útgerðarfélagið Norðurtangann hf. á Ísafirði. 252 brl. 1.350 ha. Bergen díesel vél, 993 Kw. Smíðanúmer 227. Skipið var selt í Janúar 1995, Útgerðarfélaginu Donker Marine í Nelson á Nýja Sjálandi og ber nafnið Tasman Viking í dag eftir því sem ég best veit.


1989. Hálfdán í Búð ÍS 19 á siglingu í Djúpinu.                            (C) Sæmundur Þórðarson.

Hálfdán í Búð ÍS 19 er kominn heim

Hið nýja skip Norðurtangans á Ísafirði; Hálfdán í Búð ÍS-19 er kominn til heimahafnar. Það var snemma á mánudagsmorgun sem skipið lagði að Ísafjarðarbryggju í fyrsta sinn. Þá að lokinni átta daga siglingu frá Svíþjóð, þar sem það hefur verið í smíðum í um eitt ár. Fyrirtækið sem sá um smíði skipsins heitir Lundevarv og er í smábænum Ramvik, í norðurhluta Svíþjóðar. Seinni part mánudagsins var almenningi boðið að skoða skipið, og nýtti fólk sér það óspart. Þá var efnt til hófs í kaffistofu Norðurtangans við Sundahöfn, til að fagna þessum áfanga. Þar tóku til máls Jón Páll Halldórsson, framkvæmdastjóri Norðurtangans og Bárður Hafsteinsson, forstjóri Skipatækni h.f. en hann sá um hönnun skipsins ásamt Frímanni Sturlusyni. Jón Páll þakkaði þeim sem hönd höfðu lagt á plóginn við byggingu skipsins, og færði að lokum áhöfn þeirri sem sigldi skipinu heim blómvendi. Bárður útlistaði fyrir samkomugestum, ýmiss tæknileg atriði varðandi skipið. Þar kom meðal annars fram að mesta lengd skipsins er 36.5 metrar, og að það er 8.17 metrar að breidd. Það tekur 252 rúmlestir og aðalvélin er norsk Bergen dísel vél, 1350 hestöfl. 14 kojur eru um borð. Þegar Bárður hafði talað, kvaddi Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri, sér hljóðs, og óskaði skipstjóra, áhöfn og útgerð til hamingju með skipið. Haraldur afhenti skipstjóra blómvönd frá hafnarstjórn, og færði hlutaðeigendum árnaðaróskir frá bæjarstjórn. Skipið er nefnt eftir Hálfdáni Hálfdánssyni í Búð, sem var stofnandi og framkvæmdastjóri Norðurtangans fyrstu sex árin. Hálfdán fæddist í Bolungarvík árið 1878, en settist rétt eftir aldamótin að í Búð í Hnífsdal og var æ síðan kenndur við hana, og þekktist ekki undir öðru nafni. Þess má geta, að áður en skipið lét úr höfn, var skipstjóranum; Skarphéðni Gíslasyni, afhent barómet Hálfdáns í Búð, sem hann mun hafa eignast þegar hann útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum í Reykjavík aldamótaárið. Skipstjóri á Hálfdáni er eins og áður sagði Skarphéðinn Gíslason, og vélstjóri Hörður Steingrímsson.

Vestfirska fréttablaðið. 11 maí 1989.


1989. Hálfdán í Búð ÍS 19 við bryggju á Ísafirði.                               (C) Sigurvin Samúelsson.

          Hálfdán í Búð úreltur og
           seldur til Nýja Sjálands

"Þetta er stórkostlegt skip," sagði stýrimaðurinn um borð í Hálfdáni frá Búð og var stoltur af fleyinu þegar Tíminn ræddi við hann í gærkvöldi. Hann og sjö manna áhöfn frá Nýja Sjálandi eiga fyrir höndum meira en tveggja mánaða siglingu yfir á hina hlið hnattkúlunnar, til Nelson á Nýja Sjálandi. Þar hefur lítið útgerðarfyrirtæki keypt Hálfdán, 5 ára gamlan, 250 tonna skuttogara sem Norðurtanginn á Ísafirði Iét smíða í Svíþjóð. "Við kvíðum engu á þeirri siglingu, þetta er stórkostlegt skip," sagði stýrimaðurinn. Skuttogarinn Hálfdán í Búð frá Ísafirði hefur verið úreltur. Hann er í hópi meira en 300 fiskiskipa sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins hefur veitt styrkloforð til úreldingar. Fiskiskipastóllinn minnkaði um 15 þúsund tonn í fyrra. A.m.k. bárust loforð um styrk frá sjóðnum í úreldingu þess tonnafjölda og við þau verður að sjálfsögðu staðið. Úreldingar skipanna sem eru 304 talsins munu kosta 4,3 milljarða, en í fyrra voru greiddar úr sjóðnum í þessu skyni 811 milljónir króna.

Tíminn. 25 janúar 1995.


Hálfdán í Búð ÍS 19. Fyrirkomulagsteikning.                  Mynd úr Ægi.

             Hálfdán í Búð ÍS 19

Nýtt tveggja þilfara fiskiskip bættist við fiskiskipaflotann 8. Maí s.l., en þann dag kom Hálfdán í Búð ÍS 19 í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Ísafjarðar. Skipið er nýsmíði nr. 227 hjá Lunde Varv och Verkstads í Ramvik í Svíþjóð, en er hannað hjá Skipatækni h.f, Reykjavík. Hálfdán í Búð ÍS er þriðja skipið sem umrædd stöð smíðar fyrir íslendinga, hin fyrri eru Skúmur GK (kom í desember '87) og Bliki EA ( kom í október '88). Skipið er sérstaklega hannað til línu- og togveiða (afturbyggt) og er með búnað til að frysta afla um borð. Hálfdán í Búð ÍS er í eigu Norðurtangans h.f, Ísafirði. Skipstjóri á skipinu er Skarphéðinn Gíslason og yfirvélstjóri er Hörður Steingrímsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er jón Páll Halldórsson. Hálfdán í Búð kemur í stað Víkings III ÍS 280 (127), 149 brl. stálfiskiskips, smíðað í Noregi árið 1964.
Mesta lengd 36.60 m.
Lengd milli lóðlína (HVL) 32.45 m.
Lengd milli lóðlína (perukverk) ... 30.22 m.
Breidd (mótuð) 8.17 m.
Dýpt að efri þilfari 6.40 m.
Dýpt að neðra þilfari 3.78 m.
Eiginþyngd 480 tonn.
Særými (djúprista 3.78 m) 657 tonn.
Burðargeta (djúprista 3.78 m) 177 tonn.
Lestarrými 240 m3.
Brennsluolíugeymar (með daggeymi) 87.4 m3.
Ferskvatnsgeymar 13.6 m3.
Sjókjölfestugeymir 9.4 m.
Rúmlestatala 252 brl.
Skipaskrárnúmer 1989.

Ægir. 7 tbl. 1 júlí 1989.

26.12.2020 17:56

1308. Júní GK 345. TFKT.

Skuttogarinn Júní GK 345 var smíðaður hjá Astilleros Luzuriga skipasmíðastöðinni í Pasajes á Spáni árið 1973 fyrir Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. 942 brl. 2 X 1.400 ha. MAN Bazan díesel vélar. Smíðanúmer 112. Kom fyrst til heimahafnar, Hafnarfjarðar á sjómannadaginn 3 júní það ár. Árið 1980 var sett ný vél í skipið, 3.200 ha. MaK díesel vél, 2.355 Kw. Togarinn var seldur Hval h/f Miðsandi Strandarhreppi í Borgarfjarðarsýslu, 23 apríl 1986, hét Venus HF 519. Einnig var skipinu breytt í frystiskip það ár. Skipið var lengt árið 1995 og mældist þá 1.156 brl. Skipið var selt 17 desember 2013, Grænlenska Útgerðarfélaginu Northern Seafood Aps í Grænlandi. Togarinn hét þá Juni GR 7-519 og gerður út frá Maniitsoq á Grænlandi af Íslenskum aðilum. Sú kaup gengu til baka ári síðar. Var svo seldur aftur í júní 2015, Grænlenska sjávarútvegsfélaginu Enoksen Seafood A/S og hét Maja E GR 8-83 og var gerður út frá Sisimiut á V-Grænlandi.


Skuttogarinn Júní GK 345 leggst að bryggju í heimahöfn sinni, Hafnarfirði í fyrsta skipti á sjómannadaginn 3 júní árið 1973.  (C) Kristinn Benediktsson.

    Nýr skuttogari til Hafnarfjarðar

Í fyrradag, sunnudaginn 3. júní, kom til landsins hinn nýi skuttogari Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, Júní GK 345, Júní er þriðja skip Bæjarútgerðarinnar með þessu nafni. Togarinn er systurskip b.v. Bjarna Benediktssonar, smíðað á Spáni. Á leiðinni hingað hafði það viðkomu í Noregi og lestaði þar fiskikassa fyrir B.Ú.R. Að þessari viðkomu meðtaldri tók siglingin hingað tiu daga og reyndist meðalganghraði skipsins um 14,6 sjómílur við 80% álag. Skipstjórinn á Júní, Halldór Halldórsson, sem er þekktur aflakóngur, tjáði blaðinu, að siglingin hefði gengið mjög að óskum og hefðu allir verið ánægðir með skipið. Hann bætti því við, að sú nýjung væri í þessu skipi, að hægt er að toga með einu trolli og hafa annað tilbúið á bobbingum og ef eitthvað kæmi fyrir trollið, sem úti væri, væri hægt að renna hinu fyrirvaralaust út og halda áfram veiðum eins og ekkert hefði í skorizt, í stað þess að venjulega varð löng bið á því að veiðar gætu hafizt aftur. Halldór sagði, að vegna reynslunnar, sem fengizt hefði af vélunum í Bjarna Benediktssyni, en það eru eins vélar og í Júní, þýskar M.A.N. vélar, settar saman á Spáni, hefðu verið keyptar aukaolíusíur í Frakklandi og þær settar á vélarnar til að koma í veg fyrir óæskileg óhreinindi, sem valdið geta skemmdum.
Halldór áleit, að veiðar gætu hafizt eftir hálfan mánuð, eftir að lagfæringar og smá breytingar hefðu verið gerðar í fiskmóttöku og vinnslusal. öll fullkomnustu og beztu fiskileitartæki eru í skipinu og stjórntæki öll eins fullkomin og kostur er á, sagði Halldór Halldórsson og sagðist hann jafnframt hlakka til veiðiferða á nýja skipinu. Einar Sveinsson, forstjóri Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, sagði kostnað við byggingu skipsins ekki liggja fyrir, en um upphæðir hefði verið samið í dollurum og hefði verðgildi dollarans gagnvart íslensku krónunni breytzt svolitið, síðan samningar voru gerðir. Samningsupphæð um smíði skipsins hefði verið 1,7 millj. dollara og þar af hefði ríkið lánað beint 80% og 5% af útborgun. Auk þess lánaði ríkið 2 ½ % af kaupverði veiðarfæra. Eins og áður segir er þetta þriðji togairi B.H., sem ber heitið Júní, en 1948 strandaði elzti Júní í Önundarfirði og 1964 var Júní nr. 2 seldur til Grikklands. Varðandi önnur skipakaup í náinni framtíð sagði Einar, að í athugun væri að B.H. gengi í hlutafélagið Samherja í Grindavík, sem hyggst kaupa skuttogara frá Póllandi. Á Júní mun verða 24 manna áhöfn og mun skipið fyrst um sinn veiða karfa á heimamiðum.

Morgunblaðið. 5 júní 1973.


1308. Júní GK 345. Myndin af skipinu gæti verið tekin af því nýsmíðuðu á Spáni. Mynd í minni eigu.


1308. Venus HF 519.                                                                                          (C) H.B. Grandi hf.


     Frystitogarinn Venus kominn                         til heimahafnar 

Frystitogarinn Venus HF 519 var væntanlegur til heimahafnar í Hafnarfirði í nótt. Hann hét áður Júní GK 345, en hefur nú verið breytt í frystiskip, sem er í eigu Hvals hf. Fyrri eigandi var hlutafélag í eigu Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og Hafnarfjarðarbæjar. Áætlaður kostnaður við breytingar og endurbætur á skipinu er 200 milljónir króna, en það kostaði um 100 milljónir er það var keypt. Togarinn var byggður á Spáni 1973 og var þá 942 lestir. Skipt var um vél í honum árið 1980. Í byrjun apríl var byrjað á breytingum á togaranum í Dannebrogs Værft í Arósum og átti þeim að vera lokið í seinni hluta ágústmánaðar. Verkið hefur hins vegar tekið um helmingi lengri tíma en áætlað var og stafar það fyrst og fremst af því, að nægur mannsskapur var ekki fyrir hendi í skipasmíðastöðinni að sögn Kristjáns Loftssonar, forstjóra Hvals. Hann sagði ennfremur í samtali við Morgunblaðið, að vegna þess hefði komið upp ágreiningur um verð, sem nú hefði verið leystur og virtust þessar viðamiklu breytingar kosta um 200 milljónir króna. Hann sagði það mjög bagalegt að ekki hefði verið hægt að hefja veiðar á þessu ári, en svo virtist hæpið nú. Skipið væri skráð á sóknarmarki, sem þýddi að því væri óleyfilegt að selja kvóta. Því væri þorskurinn þeirra vonandi óáreittur í sjónum enn sem komið væri.
Eftir breytingarnar mælist togarinn Venus 1.002 brúttólestir og er með MaK-vél frá 1980, 2.354 hestöfl. Meðal annars hefur skipið verið sandblásið, trolldekk og vinnsludekk verið endurbætt og lestar einangraðar. Þá hafa frystivélar og -tæki verið sett upp svo og vinnsluvélar fyrir algengustu flsktegundir og rækju. Allt spilkerfið hefur verið endurnýjað og "Autotrawl-búnaður" verður settur í skipið við heimkomuna. Skipt hefur verið um brú á skipinu og íbúðir, eldhús og aðrar vistarverur verið endurbættar. Þá hafa flest tæki í brú verið endurnýjuð.

Morgunblaðið. 4 desember 1986.


1308. Venus HF 519 í Reykjavíkurhöfn.                                                     (C) Þórhallur S Gjöveraa.


1308. Venus HF 519 í Reykjavíkurhöfn. Búið er að selja skipið til Grænlands og verið er að setja á það nýtt nafn.   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 18 janúar 2014.


1308. Júní GK 345. Fyrirkomulagsteikning.                                  Mynd úr Ægi.

                 Júní GK 345

Á sjómannadaginn, 3. júní s.l., kom skuttogarinn Júní GK 345 til Hafnarfjarðar. Júní er byggður á Spáni, í skipasmíðastöðinni Astilleros Luzuriaga S. A. og er annar skuttogarinn sem Spánverjar byggja fyrir íslendinga. Á næstu síðu er fyrirkomulagsteikning af skipum þessum, en alls munu koma sex skip af þessari gerð. Fyrsti skuttogarinn frá Spáni var Bjarni Benediktsson RE 210, en honum var lýst í 2. tbl. Ægis, og á sú lýsing við Júní GK 345 að nær öllu leyti. Einu breytingarnar frá Bjarna Benediktssyni eru þær, að botni fiskmóttöku hefur verið lyft, og í stað annarar "roterandi" þvottavélarinnar er komin kerþvottavél. Eigandi Júnís er Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, en skipstjóri er Halldór Halldórsson og 1. vélstjóri Óskar Guðjónsson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Einar Sveinsson.
Stærð skipsins 942 brl.
Mesta lengd 68.70 m.
Lengd milli lóðlína 59.00 m.
Breidd 11.60 m.
Dýpt frá efra þilfari 7.50 m.
Dýpt frá neðra þilfari 5.00 m.
Djúprista 4.80 m.
Lestarrými 730 m3.
Olíugeymar 414 m3.
Ferskvatnsgeymar 80 m3.
Ballastgeymir (stafnhylki) 45 m3.
Lýsisgeymar 30 m3.
Hraði í reynslusiglingu 15,3 sjómílur.

Ægir. 11 tbl. 15 júní 1973.






26.12.2020 09:04

790. Stefnir GK 329. TFNP.

Vélskipið Stefnir GK 329 var smíðaður hjá Frederikssund Skibsværft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1946 fyrir Fiskveiðafélagið Stefni hf. Í Hafnarfirði. Eik. 66 brl. 265 ha. Alpha vél. Ný vél (1959) 310 ha. Alpha vél. Seldur 3 febrúar 1970, Andrési Finnbogasyni og fl. Á Flateyri, hét þá Sölvi ÍS 125. Skipið var mikið endurbyggt árið 1970, m.a. settur hvalbakur og nýtt stýrishús á skipið. Mældist eftir þessar breytingar 71 brl. Skipið sökk út af Krísuvíkurbjargi eftir að eldur kom upp í því hinn 10 júlí árið 1975. Áhöfnin, 5 menn, björguðust í gúmmíbjörgunarbát og var þeim síðan bjargað um borð í vélbátinn Pétursey GK 184 frá Grindavík. Sölvi ÍS var á humarveiðum þegar eldurinn kom upp. Skipið var þá komið í eigu Faxavíkur hf. Í Reykjavík.


790. Stefnir GK 329 á siglingu út Hafnarfjörðinn.                              (C) Haukur Sigtryggsson.

        Nýr bátur til Hafnarfjarðar

Í gærmorgun kom nýr vjelbátur til Hafnarfjarðar. Bátur þessi heitir "Stefnir", og er eign H.f. Stefnis í Hafnarfirðí. M.b. Stefnir var smíðaður í Fredrikssund í Danmörku, hann er 66 tonn að stærð með 240 hestafla díeselvjel og búinn öllum nýtísku tækjum. Þetta er annar vjelbáturinn er H.f. Stefnir fær frá Danmörku og gerir út frá Hafnarfirði. Hinn bátinn, m.b. Fram, fjekk fjelagið í vor, og er hann sömu tegundar og m.b. Stefnir. Þriðji bátur fjelagsins er í smíðum í Fredrikssund og er hann væntanlegur fyrir næstu vertíð. M.b. Stefnir er þegar útbúinn til síldveiða og mun fara norður á morgun.
Skipstjóri bátsins er Björgvin Jónsson frá Dalvík. Framkvæmdastjóri H. f. Stefnis er Guðmundur Guðmundsson, kaupmaður, en Jón Eiríksson, skipstjóri, hefir fylgst með smíði beggja bátanna af hálfu fjelagsins.

Morgunblaðið. 30 júlí 1946.


790. Stefnir GK 329 eins og hann leit út upphaflega.                         Ljósmyndari óþekktur.


790. Sölvi ÍS 125 í ljósum logum út af Grindavík.            (C) Morgunblaðið / Guðfinnur.

       Sölvi ÍS 125 brann og sökk

Vélbáturinn Sölvi ÍS 125 sökk í gær út af Krýsuvíkurbjargi, gjörónýtur af eldi, sem hafði logað í bátnum frá því snemma morguns. Áhöfnin fór frá borði í gúmbát innan tveggja tíma eftir að eldsins varð vart og var bjargað innan tíðar í vélbátinn Pétursey. Voru allir skipverjar ómeiddir. Það var klukkan rúmlega átta í gærmorgun, sem skipverjar sendu út hjálparbeiðni vegna elds sem logaði í bátnum, þar sem hann var 16-18 sjómílur suðaustur af Reykjanesi, á svonefndu Grindavíkurdjúpi. Nokkru siðar yfirgáfu þeir bátinn og fóru í gúmbát, þar eð eldurinn var orðinn það mikill að þeir fengu ekki við neitt ráðið og mikill reykur fylgdi honum. Vitað var að varðskip yrði komið á staðinn innan skamms tíma. Veður var gott og engin hætta á ferðum varðandi gúmbátinn. Tveir bátar héldu út frá Grindavík til aðstoðar og tók Pétursey GK 184 skipverja af Sölva um borð og kom svo taug í brennandi bátinn og tók hann í tog. Um hádegið voru skipin á móts við innsiglinguna til Grindavíkur og komu slökkviliðsmenn þá á báti út til að berjast við eldinn. Hann var þá orðinn geysimikill og sást reykurinn vel úr landi. Skömmu síðar komu óskir frá tryggingafélagi bátsins um að láta hann bara sökkva í stað þess að reyna að slökkva eldinn, enda var stýrishúsið þá fallið og olíugeymarnir sprungnir. Var Sölvi síðan dreginn austur með landinu og sökk loks um kl. 15:44 úti af Krýsuvíkurbjargi.
Sölvi ÍS 125 var 71 lestar eikarbátur, smíðaður í Danmörku 1946, skráður eign Faxavíkur hf. í Reykjavík. Hann hafði verið á humarveiðum.

Morgunblaðið. 11 júlí 1975.

25.12.2020 11:50

B. v. Rán GK 507. LCDR / TFRD.

Botnvörpungurinn Rán GK 507 var smíðaður hjá Schiffsbau Gesellschaft Unterweser í Lehe (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1915 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Ægir í Reykjavík.  Hét fyrst Rán RE 54. 262 brl. 400 ha. 3 þennslu gufuvél. Rán var fyrsti togarinn sem smíðaður var í Þýskalandi fyrir Íslendinga. Togarinn stundaði veiðar við Nýfundnaland sumarið 1918 og seldi afla sinn þar í landi. Mun líklega vera fyrsti íslenski togarinn sem stundaði veiðar á fjarlægum miðum. Seldur árið 1919, Ásgeiri Péturssyni útgerðar og kaupmanni á Akureyri, hét Rán EA 386. Seldur 23 janúar 1924, Fiskiveiðafélaginu Höfrungi í Hafnarfirði, hét þá Rán GK 507. Seldur 1935, Hlutafélaginu Rán í Reykjavík, sama nafn og númer. Seldur 23 júní 1939, Hlutafélaginu Djupavík í Reykjarfirði á Ströndum, hét þá Rán ST 50. Seldur 27 febrúar 1946, Pf. Kongshafnar Trolarafelagi í Saltangará í Færeyjum, hét þar Urd FD 435. Togarinn var seldur í brotajárn til British Iron & Steel Corporation Ltd. Í London og tekinn af færeyskri skipaskrá 9 febrúar árið 1952.


B.v. Rán GK 507 á síldveiðum.                                                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Rán RE 54.                                                                            Mynd á gömlu póstkorti.
 

                 "Rán"

Á laugardagskvöldið kom hinn nýi botnvörpungur Ægisfélagsins hingað beina leið frá Kaupmannahöfn. En þangað hafði skipið komið frá Geestemunde við Weserfljót í Þýzkalandi, þar sem það var smíðað, gegnum Kielar-skurðinn út í Kielar-fjörðinn, sem er önnur aðalherskipastöð Þjóðverja. Hlutafélagið »Ægir« er nýtt félag. Eru í því alls um 12 hluthafar. Framkvæmdarstjóri þess er Magnús Th. S. Blöndahl kaupmaður. Hefir hann dvalið í Þýzkalandi síðan í miðjum desembermánuði, til þess að vera sjálfur viðstaddur er skipið væri smíðað. Blöndahl kom á botnvörpungnum hingað og hittum vér hann skömmu síðar að máli og báðum hann segja frá förinni heim. "Það gekk ekki greitt að losna frá Þýzkalandi. Það hefði verið nær ómögulegt að komast út Weserfljótið og fram með Jótlandsströndum. Skipið varð því að fara gegnum Kielarskurðinn, en það var ekki hægt með öðru móti en því, að þýzkir sjóliðsmenn stjórnuðu skipinu. Til fararinnar varð að fá sérstakt leyfi, og tókst oss eftir mikla erfiðleika að koma því í kring. Var fyrst í ráði, að skipið sigldi undir dönsku flaggi gegnum skurðinn, en á síðustu stundu kom skipun um það, að »Rán> yrði að nota þýzka flaggið á leiðinni frá Geestemunde til Holtenau. Enginn okkar landanna fekk að vera með skipinu í þeirri för. Í Holtenau tókum vér við skipinu og var þá skift flöggum.
Vér fengum nú sérstakan hafnsögumann, en meðan skipið sigldi gegnum tundurduflasvæði Þjóðverja, var oss ekki leyft að vera á þilfarinu. Skipið komst svo til Kaupmannahafnar og vakti það töluverða eftirtekt og umtal þar, að oss skyldi hafa heppnast að koma skipinu á burt frá Þýzkalandi, með ekki minna af kopar í því, en vanalega gerist í skipum. Þóttust menn á því geta séð, að engin veruleg koparekla gæti verið í Þýzkalandi. Á sunnudaginn buðu framkvæmdarstjóri hlutafélagsins og umboðsmaður skipaverksmiðjunnar þýzku, hr. Sigfús Blöndahl kaupmanni, nokkrum bæjarmönnum á skipsfjöl, til þess að sýna þeim skipið. Rán er fyrsti botnvörpungurinn íslenzki, sem byggður hefir verið í Þýzkalandi. Hann er því að ýmsu leyti töluvert frábrugðinn hinum botnvörpungunum íslenzku. Skipið er alt sérlega vandað og virðist ekkert hafa verið sparað til þess að gera það sem fullkomnast. Rán hefir rafmagnslýsingu um alt skipið. Tvo báta hefir skipið meðferðis, og eru þeir báðir af nýjustu gerð. Eru þeir útbúnir með loftþéttum kössum, sem björgunarbátar á stærri skipum. Mikil framför frá því sem áður hefir tíðkast á botnvörpuskipum eru lifrarbræðslutækin. Tveim stórum járngeymurum hefir verið komið fyrir í klefa á þilfarinu, fyrir ofan vélina. Lifrinni er kastað í þessa geymara og brædd þar með gufu. En lýsið rannur úr geyminum í tunnur, sem standa á þilfarinu. Yfir höfuð er skip þetta hið vandaðasta og bezta botnvörpuskip, sem byggt hefir verið fyrir íslendinga.

Morgunblaðið. 23 mars 1915.


B.v. Rán GK 507. Togarinn er sennilega inn á Ingólfsfirði.                       Ljósmyndari óþekktur.
 

 Þjóðverjar teppa íslenskar siglingar

Botnvörpungurinn "Rán" ætlaði með afla sinn til Bretlands, en átti aðeins ófarnar, 70 kvartmílur er 5 þýskum kafbátum skaut upp og stöðvuðu »Rán" og athuguðu farminn. Sögðust foringjar kafbátanna skyldu sleppa henni í þetta skifti, en heim yrði hún að snúa við svo búið og tilkynna það öðrum íslenskum botnvörpungum, að reyni þeir að fara með afla sinn til Englands verði þeim tafarlaust sökkt. «Rán" kom til Reykjavíkur í gærmorgun.

Íslendingur. 3 nóvember 1916.


Áhöfnin á Rán GK 507. Eins og sést á myndinni er togarinn á síldveiðum.  (C) Guðbjartur Ásgeirsson ?.


Rán GK 507 í Reykjavíkurhöfn. Togarinn vel ísaður. Einnig sjást tveir aðrir togarar í höfninni sem einnig eru vel ísaðir að sjá.           (C) Magnús Ólafsson ?.


Rán GK 507.                                            Málari óþekktur. Ein af sígarettumyndunum frá árinu 1931.


Færeyski togarinn Urd FD 435 ex Rán.             (C) George Wisemann. Úr safni Finn Björn Guttesen.
 

    Togarinn Rán seldur til Færeyja

Togarinn RÁN, sem var eign Djúpavíkur hf., hefur nú verið seldur til Færeyja og verður gerður út þaðan. Kaupendur togarans er nýtt hlutafélag, sem nefnist Pf. Kongshavnar trolarafélag í Saltangursá. Skipshöfnin á togarann kom frá Færeyjum með síðustu ferð Drönning Alexandrine og er skipið nú farið á veiðar. Breytt hefur verið um nafn á togaranum og nefnist hann nú Urd.

Alþýðublaðið. 8 mars 1946.

24.12.2020 13:12

Reykjavíkurhöfn um jól.


Togarar við bryggju í Örfirisey.                                                               (C) Þórhallur S Gjöveraa.

Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og þökk fyrir samfylgdina hér á síðunni á árinu.

Hafið það ávallt sem allra best yfir hátíðirnar  

Bestu jólakveðjur til ykkar.


20.12.2020 07:46

1536. Júlíus Geirmundsson ÍS 270. TFKL.

Skuttogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS 270 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1979 fyrir Útgerðarfélagið Gunnvör hf. á Ísafirði. 497 brl. 2.350 ha. Wichmann vél, 1.728 Kw. Smíðanúmer 123. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Ísafjarðar hinn 15 júní það ár. Skipið var selt í október 1989, Síldarvinnslunni hf. Í Neskaupstað, hét þá Barði NK 120. Togarinn var seldur í september 2002, Prestige Fishing Company Ltd í Walvis Bay í Namibíu. Hét þar fyrst um sinn sínu fyrra nafni, Bardi L 1125, en fékk svo nafnið Kamali L 1266, með heimahöfn í Luderitz í Namibíu.


1536. Júlíus Geirmundsson ÍS 270.                                                                  (C) Snorri Snorrason.

 Júlíus Geirmundsson í heimahöfn

Skuttogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS-270 kom til heimahafnar á Ísafirði s.l. föstudag. Júlíus er fimmta skipið sem Gunnvör hf. á Íafirði eignast og þriðja skipið sem félagið lætur smíða hjá Flekkefjord Slipp og Maskinfabrik í Noregi. Eldra skip félagsins með sama nafni var tekið sem greiðsla upp í þessa nýsmíði, en var síðan selt til Keflavíkur og heitir nú Bergvík KE. Skipstjóri á Júlíusi verður Hermann Skúlason. fyrsti vélstjóri Þorlákur Kjartansson og fyrsti stýrimaður Ómar Ellertsson. Frú Margrét Leósdóttir gaf skipinu nafn. Bárður Hafsteinsson skipaverkfræðingur hafði eftirlit með smíði skipsins fyrir hönd kaupenda þess. Júlíus Geirmundsson hélt til veiða í gær.
Nýja skipið er 497 brúttólestir það er 53.57 metra langt og 10,5 metra breitt. og er því 6 metrum lengra og einum metra breiðara en eldra skipið. Í skipinu er 2350 ha. Wichmann aðalvél og 2 G.M. Ijósavélar. Skipið er búið Beccer stýri og skrúfuhring frá Wichmann. Öll fiskileitartæki eru frá Simrad þar á rneðal myndtölva og sónar. Tölva þessi hefur áður aðeins verið notuð við nótaveiðar en nú á að reyna hana við togveiðar. Togvindur eru allar frá Brussel. Ísvél er frá Finsan og á hún að framleiða 16 tonn af ferskís. Atlas sjógeymir framleiðir vatn fyrir ísvélina. Í skipinu eru 4 grandaraspil sem gefur þá möguleika að ávallt er hægt að hafa 2 botntroll tilbúinn til veiða.

Vestfirska fréttablaðið. 12 tbl. 20 júní 1979.


1536. Barði NK 120 á leið út Norðfjörð.                                                             (C) Snorri Snorrason.

     Júlíus Geirmundsson keyptur 

Í lok síðustu viku var undirritaður samningur milli Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað og Gunnvarar hf. á Ísafirði um kaup Síldarvinnslunnar á togaranum Júlíusi Geirmundssyni. Samningurinn var þó undirritaður með fyrirvara um samþykki Sjávarútvegsráðuneytisins og Fiskveiðasjóðs. Búist er við að ráðuneytið fjalli um samninginn fljótlega eftir helgi en Fiskveiðasjóður ekki fyrr en seinna. Eins og kom fram í Austurlandi í síðustu viku fer togarinn Barði upp í kaupin en hann var þó ekki nægilega stór til að úreldast gegn nýsmíði sem Gunnvör hf. á í smíðum og því greip Síldarvinnslan hf. til þess ráðs að kaupa fjóra báta sem fylgja munu Barðanum í úreldingu. Bátarnir eru keyptir víðsvegar um land og eru frá 11 til 70 tonna stórir.
Togarinn Júlíus Geirmundsson ÍS 270 var byggður í Flekkefjord í Noregi árið 1979 og kom fyrst til heimahafnar sinnar á Ísafirði þann 15. júní það ár. Skipið er 497 brúttólestir að stærð og rúmlega 53 metra langt. Á árinu 1984 voru gerðar verulegar breytingar á skipinu til olíusparnaðar. Sett var á það ný skrúfa og einnig var settur í það nýr niðurfærslugír. Þá var settur ásrafall á vélina þannig að rafmagnsframleiðsla fluttist frá ljósavélum á aðalvél. Á árinu 1985 var svo settur frystibúnaður til heilfrystingar um borð. Barði, sem fer upp í kaupin, er 453 brúttólestir og ríflega 45 metra langur. Skipið var smíðað í Gdynia í Póllandi árið 1975 en var keypt til Síldarvinnslunnar frá Frakklandi árið 1980.

Austurland. 5 október 1989.


Bardi L 1125.                                                                                                 (C) Piet Sinke.


Kamali L 1266.                                                                              (C) Benedikt Már Jóhannsson.

         Barði seldur til Namibíu

Gengið hefur verið frá sölu á togaranum Barða NK 120 til Prestige Fishing Company í Walvis Bay í Namibíu. Barði er nú í sinni síðustu veiðiferð og verður afhentur nýjum eigendum í Hafnarfirði 10. september. Barði, sem áður hét Július Geirmundsson, var smíðaður í Flekkefjord í Noregi 1979. Hann var keyptur til Síldarvinnslunnar í Neskaupstað árið 1989. Í stað Barða kemur Norma Mary, áður Snæfugl SU, sem verið hefur í leigu í Skotlandi síðan SVN eignaðist hann með sameiningunni við Skipaklett. Norma Mary/Snæfugl er byggður sem frystitogari með stærra og rúmbetra vinnsluþilfar og miklu betri áhafharaðstöðu en Barði hefur. Norma Mary var smíðuð í sömu skipasmíðastöð og Barði en 10 árum seinna, þ.e. 1989. Samkvæmt skipaskrá Skerplu er Barði 990 brúttótonn en Norma Mary 1151 brúttótonn. Norma Mary, sem stundað hefur veiðar í Barentshafi, er væntanleg til Akureyrar um næstu mánaðamót og er ætlunin að skipið fari til Póllands í sandblástur og málningu og ætti að vera komið til heimahafnar um miðjan október. Salan á Barða er liður í hagræðingu þar sem einu skipi er ofaukið miðað við kvótastöðu fyrirtækisins. Reiknað er með að áhöfnin á Barða fari á nýja skipið. Hugsanlega verður falast eftir að einhverjir af yfirmönnum skipsins sigli því til Namibiu ásamt nýjum eigendum.

Dagblaðið Vísir. 10 september 2002.


Júlíus Geirmundsson ÍS 270. Fyrirkomulagsteikning.                    Mynd úr Ægi.

      Júlíus Geirmundsson ÍS 270

Nýr skuttogari, m/s Júlíus Geirmundsson ÍS-270, bottist í flota landsmanna 15. júní sl, en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Ísafjarðar. Júlíus Geirmundsson ÍS er smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S, Flekkefjord í Noregi, nýsmíði stöðvarinnar nr. 123, og er tíundi skuttogarinn, sem umrodd stöð smíðar fyrir Íslendinga. Auk þess hefur stöðin séð um smíði á einum skuttogaraskrokk fyrir Slippstöðina, sem Slippstöðin lauk við frágang á og afhenti í apríl 1977, (Björgúlfur EA). Skrokkar allra þessara skuttogara eru byggðir hjá Kvina Verft A/S í Noregi, sem annast hefur þann þátt smíðarinnar fyrir Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk. Júlíus Geirmundsson ÍS er í eigu Gunnvarar hf á Ísafirði, sem átti áður skuttogara með sama nafni og var hann fyrsti skuttogarinn, sem Flekkefjord smíðaði fyrir Íslendinga, og jafnframt fyrsti skuttogari af minni gerð sem smíðaður var fyrir Íslendinga (kom í desember 1972). Þeir níu skuttogarar, sem umrædd stöð hefur áður afhent til landsins, eru allir smíðaðir eftir ,,sömu teikningu", nema hvað fjórir síðustu voru 3.3 m lengri. Fyrstu fimm skuttogararnir (mesta lengd 46.56m) voru: Júlíus Geirmundsson ÍS (nú Bergvík KE), Guðbjartur ÍS, Bessi ÍS, Framnes I ÍS og Björgvin EA, en fjórir síðustu (mesta lengd 49.85m) voru: Guðbjörg ÍS, Gyllir ÍS, Ásgeir RE og Ásbjörn RE. Hinn nýji Júlíus Geirmundsson, sem er í hópi storstu skuttogara af minni gerð hérlendis, er ný skuttogaragerð frá "Flekkefjord" og er rúmlega 30% storri, miðað við margfeldi aðalmála, en gamli Júlíus Geirmundsson. Geta má þess að fyrirkomulagi og búnaði á togþilfari skipsins er þannig háttað, að unnt er að hafa tvær botnvörpur undirslegnar og tilbúnar til veiða, en slíkt fyrirkomulag er aðeins í stóru Spánarskuttogurunum. Skipstjóri á Júliusi Geirmundssyni ÍS er Hermann Skúlason og 1. vélstjóri Þorlákur Kjartansson. Framkvomdastjóri útgerðar er Birgir Valdimarsson.
Mesta lengd 53.45.
Lengd milli lóðlína 47.40.
Breidd 10.50.
Dýpt að efra þilfari 6.85.
Dýpt að neðra þilfari 4.50.
Eiginþyngd 840 tonn.
Særými (djúprista 4.45 m) 1.308 tonn.
Burðargeta (djúprista 4.45 m) 468 tonn.
Lestarrými 520 m3.
Lifrargeymir 10 m3.
Brennsluolíugeymar 187 m3.
Sjókjölfestugeymir 10 m3.
Ferskvatnsgeymar 76 m3.
Andveltigeymar (sjókjölfesta) 32 m3.
Ganghraði (reynslusigling) 12.8 sjómílur.
Rúmlestatala 497 brl.
Skipaskrárnúmer 1536.

Ægir. 9 tbl. 1 september 1979.



19.12.2020 18:24

Kristján EA 390. LBQJ / TFDI.

Síldveiðiskipið Kristján EA 390 var smíðaður í Noregi árið 1919. Eik og fura. 67 brl. 80 ha. June Munktell vél. Hét áður Högen og var gert út frá Melbo í Noregi. Eigandi var Guðmundur Pétursson útgerðarmaður á Akureyri frá 2 október 1923. Skipið var lengt á Akureyri árið 1937, mældist þá 92 brl, einnig var sett ný vél, 150 ha. Völund vél. Selt 25 apríl 1952, Sameignarfélaginu Kristjáni á Ólafsfirði, hét Kristján ÓF 26. Ný vél (1953) 330 ha. Gray GM díesel vél. Selt 6 desember 1961, Niðursuðu og hraðfrystihúsi Langeyrar í Súðavíkurhreppi, hét þá Kristján ÍS 125. Skipið rak á land við Langeyri 20 janúar árið 1964 og eyðilagðist.


Kristján EA 390 á síldveiðum á Húnaflóa.                                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Kristján EA 390.                                                                                                       (C) Doddi. 1981.

                      Nýtt skip

"Höken" heitir 70 smálesta mótorkútter, sem hingað er kominn frá Melbo í Noregi. Er hann eign Guðmundar Péturssonar útgerðarmanns, nýkeyptur. >Höken« var byggður 1919 og er hið vandaðasta skip, kostaði 150 þús. kr. nýsmíðað, en Guðmundur keypti það nú af banka í Melbo fyrir 30 þús.  Guðmundur á von á öðru skipi bráðlega.

Íslendingur. 22 júní 1923.


13.12.2020 11:47

2 m. kt. Hákon RE 113. LBPH.

Kútter Hákon RE 113 var smíðaður í Rye í Sussex á Englandi árið 1878. Eik. 74 brl. Hét fyrst hér á landi Haraldur og fékk einkennisnúmerið MB 1 árið 1903 eða 1904. Hét áður William Boyes H 1182 og var í eigu T. Doyle Ltd. í Hull og var gerður út þaðan. Fyrsti eigandi hér á landi var Böðvar Þorvaldsson á Akranesi frá apríl árið 1897. Skipið var keypt frá Hull, sennilega af Geir Zoega kaupmanni og útgerðarmanni í Reykjavík fyrir Böðvar. Árið 1901 keyptu Einar Ingjaldsson á Bakka og Björn Hannesson, Litlateigi á Akranesi skipið. Skipið var selt 1907, Árna Kristni Magnússyni, Eyjólfi Eyjólfssyni, Carli Bjarnasen og Þórði Pjeturssyni í Reykjavík. Selt 24 maí 1907 Árna Magnússyni og Þórði Pjeturssyni í Reykjavík. Selt 6 október 1910, Firmanu H.P. Duus í Reykjavík. Fékk þá nafnið Hákon RE 113. 57 ha. Alpha vél var sett í skipið, óvíst hvenær, gæti hafa verið á árunum eftir fyrra stríð. Selt 1920, hf. Hákon ( Geir Sigurðsson og fl. ) í Reykjavík. Skipið strandaði við Grindavík 9 maí árið 1926. Áhöfnin, 21 maður, bjargaðist í skipsbátnum til lands við vitann á Reykjanesi eftir 9 klukkustunda hrakninga.


Kútter Hákon RE 113.                                                                                    (C) Magnús Ólafsson.

                   Skipakaup

"William Boyes" 75,64 brl, skipstjóri Jörgensen til G. Zoega. Keypt í Englandi til fiskiveiða.

Ísland. 18 tbl. 1 maí 1897.

        Þilskipið "Hákon" strandar                            við Grindavík
                Menn komust af 

Á sunnudagsnóttina var, var fiskiskipið "Hákon" hjeðan úr Reykjavík á leið heih af veiðum sunnan fyrir land. Um nóttina gerði, eins og kunnugt er, grenjandi norðan byl, mestu stórhríðina sem hjér hefir komið sunnanlands um mörg ár. Á sunnudagsmorguninn um kl. 9, kendi "Hákon" grunns. Var svarta bylur og vissu skipverjar ekki fyrr en þeir voru strandaðir skammt frá Hrauni, innsta bæ í Grindavík, rétt fyrir austan Þórkötlustaðanes. Steytti skipið á skeri og kom strax sjór í það. Engin tiltök fannst skipverjum að komast í land, því brim var mikið, en sást þó óglöggt fyrir hríðarbylnum. Lögðu þeir því í skipsbátinn, 21 að tölu, og reyndu að komast vestur með landi. Tókst þeim það, og eftir 9 klukkustunda ferð í stórhríð og brimi, lentu þeir upp á líf og dauða í bás einum hjá litla vitanum á Reykjanesi og komust heilu og höldnu í land.
Þaðan fóru þeir gangandi heim að Reykjanesi til vitavarðar. Var þar vel tekið á móti þeim. En þeir voru allmjög þjakaðir, blautir og kaldir, því sumir höfðu verið verjulausir. Á mánudagsnóttina voru þeir hjá vitaverði, en fóru í gærmorgun til Gringavíkur til þess að líta á skipið. Það mun vera mikið brotið, eftir því sem morgunblaðið frjetti í gær, var það allt að framan. Það var með 7 þúsund af fiski.
"Hákon" var byggður 1878 í Englandi og var keyptur hingað til lands 20 árum síðar. Hann er 74 smálestir brúttó. Eigandi hans var nú Geir Sigurðsson skipstjóri og fleiri. Hann mun hafa verið vátryggður sæmilega.

Með "Hákon" er nú farið síðasta þilskipið af gamla tæginu sem var eftir orðið hjer í Reykjavík.

Morgunblaðið. 11 maí 1926.

 

12.12.2020 09:12

B.v. Hávarður Ísfirðingur ÍS 451. LBKV / TFIC.

Botnvörpungurinn Hávarður Ísfirðingur ÍS 451 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1919. 314 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 885. Hét fyrst Daniel McPherson og var í eigu breska flotans. Seldur árið 1919-20, Pickering & Haldane's Steam Trawling Co Ltd í Hull, fékk þá nafnið Lord Halifax H 79. Skipið var selt í janúar árið 1925, Togarafélagi Ísfirðinga h/f á Ísafirði, fékk nafnið Hávarður Ísfirðingur ÍS 451. 18 febrúar 1936 er skráður eigandi h/f Hávarður á Ísafirði, sama nafn og númer. Selt 29 desember 1938, h/f Val á Ísafirði, hét Skutull ÍS 451. Selt 20 mars 1942, Hlutafélaginu Aski í Reykjavík, hét Skutull RE 142. Ísfirðingar tóku togarann Þorfinn RE 33 upp í kaupin. Árið 1948 stóð til að selja Skutul til Oddsson & Co í Hull, (Jón Oddsson skipstjóri) en þau kaup gengu til baka. Mun togarinn hafa legið í höfn í Hull þar til hann var rifinn í brotajárn árið 1952.


B.v. Hávarður Ísfirðingur ÍS 451 á toginu.                                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

             Nýr botnvörpungur

Hávarður Ísfirðingur, hinn nýi botnvörpungur Ísfirðinga, kom hingað í gær frá Englandi.

Dagblað. 21 tbl. 25 febrúar 1925.


B.v. Hávarður Ísfirðingur ÍS 451.                                                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

          Frá Hávarði Ísfirðingi

Svo er sagt, að hann sé í bestu togara röð eftir stærð. Kom inn 11. þ. m. úr sinni fyrstu veiðiför, eftir 12 daga útivist, með 92 tunnur lifrar. Leggur upp í Viðey meðan hann veiðir fyrir sunnan. En þegar hingað kemur mun hann leggja upp í Hæsta. Sennilega verður sá fiskur Hávarðar, sem í Viðey er saltaður, fluttur hingað til verkunar. Fari svo er vonandi að Loptur, rían, geti haft eitthvað að telja í sumar á reitunum í Hæsta.

Skutull. 13 tbl. 27 mars 1925.


B.v. Hávarður Ísfirðingur á siglingu.                                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

           Togarafélag Ísfirðinga,
         hf. Hávarður og hf. Valur

Togarafélag Ísfirðinga h.f gerði út togarann Hávarð Ísfirðing frá 1925, en félagið komst í þrot árið 1935. Landsbankinn tók þá togarann af því og gerði hann út sjálfur um stuttan tíma. Síðan var hlutafé félagsins aukið og nafni þess breytt í Hf. Hávarður, um leið og bæjarsjóður Ísafjarðar gerðist hluthafi. Skemmst er frá því að segja að Hf. Hávarður fór á hausinn árið 1938. Forráðamönnum bæjarins þótti samt sem ekki mætti missa skipið úr bænum, og var þá stofnað nýtt hlutafélag um rekstur þess, og hlaut það nafnið Valur. Það fékk togarann, hann var skírður upp og nefndur Skutull og félagið gerði hann út um nokkurra missera skeið eða þar til síðla árs 1941, þegar hann var seldur til Reykjavíkur. Lá svo togaraútgerð frá Ísafirði niðri þar til Ísborgin kom árið 1948.

Heimild: 4. bindi Sögu Ísafjarðar.

 

06.12.2020 09:20

Hulltogarinn Japan H 580 strandar á Brunasandi í Vestur Skaftafellssýslu.

Það var aðfaranótt hins 4 nóvember árið 1908 að breski togarinn Japan H 580 frá Hull strandaði á Fossfjöru á Brunasandi í Vestur Skaftafellssýslu. Áhöfn togarans, 12 skipverjar, komust í land og héldu út á sandauðnina í leit að mannabyggð. Mörg hafa skipin strandað við hafnlausa suðurströnd Íslands og í mörgum tilfellum hefur enginn orðið til frásagnar um hrakninga skipbrotsmanna sem komist hafa á land en orðið úti á söndunum, látist úr vosbúð og kulda eða frosið í hel. Þeir voru heppnir skipverjarnir á Japan, því nokkrum árum áður hafði Thomsen konsúll í Reykjavík látið setja niður stikur sem leiðbeindu hröktum sjófarendum til byggða. Það voru einmitt þessar stikur sem björguðu 10 skipverjum af togaranum og leiddu þá til byggða, að Orrustustöðum og bænum Sléttabóli, báðir á Brunasandi. 2 skipverjar örmögnuðust og urðu úti á sandinum.
Togarinn Japan H 580 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1904. 249 brl. 76 n.h.p. (450 ha. ?) 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 57. 38,6 m. á lengd og 6,7 m. á breidd. Togarinn var í eigu Pickering & Haldane´s Steam Trawling Co í Hull.


S.t. Japan H 580.                                                                                Ljósmyndari óþekktur.


S.t. Japan H 580.                                                                                    Ljósmyndari óþekktur.


Flak togarans komið nánast á kaf í sandinn.                                           Ljósmyndari óþekktur.

            Strand á Brunasandi

Skrifað er austan af Síðu 6. þ. m.: " Aðfaranótt 4. þ. m. strandaði botnvörpungurinn ,,.Japan" frá Hull, skipstjóri Charles Cook, á Fossfjöru. Það var þá slyddubylur og afskaplegt rok. Skipið strandaði kl. 3 um nóttina, en kl. 8 um morguninn yfirgáfu mennirnir skipið og fóru að leita byggða. Þá var sama veður, nema rigning. Þeir urðu að vaða langar leirur, sem liggja ofan við fjöruna, og sukku sumstaðar í mitti, en þar fyrir ofan taka við sandhólar með vatnsleirum á milli með sandbleytum. Þá urðu þeir ósáttir um stefnuna, er þeir komu þangað, því ekkert sá fyrir sandbyl, og skyldu, fór skipstjóri við sjötta mann austur, en stýrimaður við sjötta mann vestur. Eftir að hafa gengið nokkuð lengi, rakst skipstjóri á eina af stikum þeim, er settar eru niður að tilhlutun Thomsens konsúls í Reykjavík, og gátu þeir svo fylgt þeim alla leið heim að Orustustöðum; þangað komu þeir nálægt kl. 2.30. um daginn. hungraðir, votir og komnir að niðurfalli, og var þeim hjúkrað þar eftir föngum, en þeir fluttir daginn eftir að Fossi, til hreppstjórans. Þar talaði ég við skipstjóra og sagði hann, að þeir ættu stikunum lífið að þakka, því án þeirra hefðu þeir ekki náð til byggða, og einn hásetinn, sem var sænskur, sagði mér, að hann hefði ekki getað gengið lengur en sem svaraði 10 mínútum; hann hefði verið farinn að detta hvað eftir annað af þreytu.
Ég sagði þeim af sæluhúsinu á Skeiðarársandi og að Thomsen konsúll hefði í huga, að koma einnig upp sæluhúsi á þessum fjörum, og virðist það nú tímabært, því þessi flokkur týndi einum manninum í sandhólunum. Hann drógst aftur úr sökum þreytu og var hans leytað af 10 mönnum allan næsta dag og fannst hann eigi, en aftur fannst stýrimaðurinn, foringi hins flokksins, dauður; voru vitin full af sandi og lá hann upp í loft, en hina mennina úr flokki hans fann bóndinn á Sljettabóli (sem er sunnar og vestar á Brunasandi en Orustustaðir) og menn hans til og frá á stangli; voru þeir að leita að þeim fram í myrkur og höfðu þá fundið alla, eins og áður segir, daginn eftir. Í dag eru 5 menn að leita þess, sem vantar. Aðfaranótt 5. þ. m. var gott veðar og ekkert frost, og þó dó þessi maður, sem fundinn er, af hungri, þreytu og kulda, mittisvotur eða meira. Það er seigpínandi dauðdagi. Síra Magnús á Prestsbakka var ný búinn að láta rétta við stikur Thomsens konsúls frá Orustustöðum og suður að Hvalsýki og var ein þeirra brotin, en á henni var mynd af bæ og áttavísunarmerki, og lét síra Magnús negla hana saman og reisa upp. En það var hún, sem glæddi mest von þeirra um að þeir væru á réttri leið til bæja, og hvatti þá til að gjöra sitt ítrasta til að ná þangað". 

Reykjavík. 53 tbl. 24 nóvember 1908.

  • 1
Flettingar í dag: 210
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 568
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 1075590
Samtals gestir: 77617
Tölur uppfærðar: 28.12.2024 05:15:33