31.12.2020 14:07

1989. Hálfdán í Búð ÍS 19. TFKK.

Togskipið Hálfdán í Búð ÍS 19 var smíðaður hjá Lunde Varv och Verkstads í Ramvik í Svíþjóð árið 1989 fyrir útgerðarfélagið Norðurtangann hf. á Ísafirði. 252 brl. 1.350 ha. Bergen díesel vél, 993 Kw. Smíðanúmer 227. Skipið var selt í Janúar 1995, Útgerðarfélaginu Donker Marine í Nelson á Nýja Sjálandi og ber nafnið Tasman Viking í dag eftir því sem ég best veit.


1989. Hálfdán í Búð ÍS 19 á siglingu í Djúpinu.                            (C) Sæmundur Þórðarson.

Hálfdán í Búð ÍS 19 er kominn heim

Hið nýja skip Norðurtangans á Ísafirði; Hálfdán í Búð ÍS-19 er kominn til heimahafnar. Það var snemma á mánudagsmorgun sem skipið lagði að Ísafjarðarbryggju í fyrsta sinn. Þá að lokinni átta daga siglingu frá Svíþjóð, þar sem það hefur verið í smíðum í um eitt ár. Fyrirtækið sem sá um smíði skipsins heitir Lundevarv og er í smábænum Ramvik, í norðurhluta Svíþjóðar. Seinni part mánudagsins var almenningi boðið að skoða skipið, og nýtti fólk sér það óspart. Þá var efnt til hófs í kaffistofu Norðurtangans við Sundahöfn, til að fagna þessum áfanga. Þar tóku til máls Jón Páll Halldórsson, framkvæmdastjóri Norðurtangans og Bárður Hafsteinsson, forstjóri Skipatækni h.f. en hann sá um hönnun skipsins ásamt Frímanni Sturlusyni. Jón Páll þakkaði þeim sem hönd höfðu lagt á plóginn við byggingu skipsins, og færði að lokum áhöfn þeirri sem sigldi skipinu heim blómvendi. Bárður útlistaði fyrir samkomugestum, ýmiss tæknileg atriði varðandi skipið. Þar kom meðal annars fram að mesta lengd skipsins er 36.5 metrar, og að það er 8.17 metrar að breidd. Það tekur 252 rúmlestir og aðalvélin er norsk Bergen dísel vél, 1350 hestöfl. 14 kojur eru um borð. Þegar Bárður hafði talað, kvaddi Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri, sér hljóðs, og óskaði skipstjóra, áhöfn og útgerð til hamingju með skipið. Haraldur afhenti skipstjóra blómvönd frá hafnarstjórn, og færði hlutaðeigendum árnaðaróskir frá bæjarstjórn. Skipið er nefnt eftir Hálfdáni Hálfdánssyni í Búð, sem var stofnandi og framkvæmdastjóri Norðurtangans fyrstu sex árin. Hálfdán fæddist í Bolungarvík árið 1878, en settist rétt eftir aldamótin að í Búð í Hnífsdal og var æ síðan kenndur við hana, og þekktist ekki undir öðru nafni. Þess má geta, að áður en skipið lét úr höfn, var skipstjóranum; Skarphéðni Gíslasyni, afhent barómet Hálfdáns í Búð, sem hann mun hafa eignast þegar hann útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum í Reykjavík aldamótaárið. Skipstjóri á Hálfdáni er eins og áður sagði Skarphéðinn Gíslason, og vélstjóri Hörður Steingrímsson.

Vestfirska fréttablaðið. 11 maí 1989.


1989. Hálfdán í Búð ÍS 19 við bryggju á Ísafirði.                               (C) Sigurvin Samúelsson.

          Hálfdán í Búð úreltur og
           seldur til Nýja Sjálands

"Þetta er stórkostlegt skip," sagði stýrimaðurinn um borð í Hálfdáni frá Búð og var stoltur af fleyinu þegar Tíminn ræddi við hann í gærkvöldi. Hann og sjö manna áhöfn frá Nýja Sjálandi eiga fyrir höndum meira en tveggja mánaða siglingu yfir á hina hlið hnattkúlunnar, til Nelson á Nýja Sjálandi. Þar hefur lítið útgerðarfyrirtæki keypt Hálfdán, 5 ára gamlan, 250 tonna skuttogara sem Norðurtanginn á Ísafirði Iét smíða í Svíþjóð. "Við kvíðum engu á þeirri siglingu, þetta er stórkostlegt skip," sagði stýrimaðurinn. Skuttogarinn Hálfdán í Búð frá Ísafirði hefur verið úreltur. Hann er í hópi meira en 300 fiskiskipa sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins hefur veitt styrkloforð til úreldingar. Fiskiskipastóllinn minnkaði um 15 þúsund tonn í fyrra. A.m.k. bárust loforð um styrk frá sjóðnum í úreldingu þess tonnafjölda og við þau verður að sjálfsögðu staðið. Úreldingar skipanna sem eru 304 talsins munu kosta 4,3 milljarða, en í fyrra voru greiddar úr sjóðnum í þessu skyni 811 milljónir króna.

Tíminn. 25 janúar 1995.


Hálfdán í Búð ÍS 19. Fyrirkomulagsteikning.                  Mynd úr Ægi.

             Hálfdán í Búð ÍS 19

Nýtt tveggja þilfara fiskiskip bættist við fiskiskipaflotann 8. Maí s.l., en þann dag kom Hálfdán í Búð ÍS 19 í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Ísafjarðar. Skipið er nýsmíði nr. 227 hjá Lunde Varv och Verkstads í Ramvik í Svíþjóð, en er hannað hjá Skipatækni h.f, Reykjavík. Hálfdán í Búð ÍS er þriðja skipið sem umrædd stöð smíðar fyrir íslendinga, hin fyrri eru Skúmur GK (kom í desember '87) og Bliki EA ( kom í október '88). Skipið er sérstaklega hannað til línu- og togveiða (afturbyggt) og er með búnað til að frysta afla um borð. Hálfdán í Búð ÍS er í eigu Norðurtangans h.f, Ísafirði. Skipstjóri á skipinu er Skarphéðinn Gíslason og yfirvélstjóri er Hörður Steingrímsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er jón Páll Halldórsson. Hálfdán í Búð kemur í stað Víkings III ÍS 280 (127), 149 brl. stálfiskiskips, smíðað í Noregi árið 1964.
Mesta lengd 36.60 m.
Lengd milli lóðlína (HVL) 32.45 m.
Lengd milli lóðlína (perukverk) ... 30.22 m.
Breidd (mótuð) 8.17 m.
Dýpt að efri þilfari 6.40 m.
Dýpt að neðra þilfari 3.78 m.
Eiginþyngd 480 tonn.
Særými (djúprista 3.78 m) 657 tonn.
Burðargeta (djúprista 3.78 m) 177 tonn.
Lestarrými 240 m3.
Brennsluolíugeymar (með daggeymi) 87.4 m3.
Ferskvatnsgeymar 13.6 m3.
Sjókjölfestugeymir 9.4 m.
Rúmlestatala 252 brl.
Skipaskrárnúmer 1989.

Ægir. 7 tbl. 1 júlí 1989.

Flettingar í dag: 646
Gestir í dag: 51
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 723992
Samtals gestir: 53724
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 16:57:18