06.12.2020 09:20

Hulltogarinn Japan H 580 strandar á Brunasandi í Vestur Skaftafellssýslu.

Það var aðfaranótt hins 4 nóvember árið 1908 að breski togarinn Japan H 580 frá Hull strandaði á Fossfjöru á Brunasandi í Vestur Skaftafellssýslu. Áhöfn togarans, 12 skipverjar, komust í land og héldu út á sandauðnina í leit að mannabyggð. Mörg hafa skipin strandað við hafnlausa suðurströnd Íslands og í mörgum tilfellum hefur enginn orðið til frásagnar um hrakninga skipbrotsmanna sem komist hafa á land en orðið úti á söndunum, látist úr vosbúð og kulda eða frosið í hel. Þeir voru heppnir skipverjarnir á Japan, því nokkrum árum áður hafði Thomsen konsúll í Reykjavík látið setja niður stikur sem leiðbeindu hröktum sjófarendum til byggða. Það voru einmitt þessar stikur sem björguðu 10 skipverjum af togaranum og leiddu þá til byggða, að Orrustustöðum og bænum Sléttabóli, báðir á Brunasandi. 2 skipverjar örmögnuðust og urðu úti á sandinum.
Togarinn Japan H 580 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1904. 249 brl. 76 n.h.p. (450 ha. ?) 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 57. 38,6 m. á lengd og 6,7 m. á breidd. Togarinn var í eigu Pickering & Haldane´s Steam Trawling Co í Hull.


S.t. Japan H 580.                                                                                Ljósmyndari óþekktur.


S.t. Japan H 580.                                                                                    Ljósmyndari óþekktur.


Flak togarans komið nánast á kaf í sandinn.                                           Ljósmyndari óþekktur.

            Strand á Brunasandi

Skrifað er austan af Síðu 6. þ. m.: " Aðfaranótt 4. þ. m. strandaði botnvörpungurinn ,,.Japan" frá Hull, skipstjóri Charles Cook, á Fossfjöru. Það var þá slyddubylur og afskaplegt rok. Skipið strandaði kl. 3 um nóttina, en kl. 8 um morguninn yfirgáfu mennirnir skipið og fóru að leita byggða. Þá var sama veður, nema rigning. Þeir urðu að vaða langar leirur, sem liggja ofan við fjöruna, og sukku sumstaðar í mitti, en þar fyrir ofan taka við sandhólar með vatnsleirum á milli með sandbleytum. Þá urðu þeir ósáttir um stefnuna, er þeir komu þangað, því ekkert sá fyrir sandbyl, og skyldu, fór skipstjóri við sjötta mann austur, en stýrimaður við sjötta mann vestur. Eftir að hafa gengið nokkuð lengi, rakst skipstjóri á eina af stikum þeim, er settar eru niður að tilhlutun Thomsens konsúls í Reykjavík, og gátu þeir svo fylgt þeim alla leið heim að Orustustöðum; þangað komu þeir nálægt kl. 2.30. um daginn. hungraðir, votir og komnir að niðurfalli, og var þeim hjúkrað þar eftir föngum, en þeir fluttir daginn eftir að Fossi, til hreppstjórans. Þar talaði ég við skipstjóra og sagði hann, að þeir ættu stikunum lífið að þakka, því án þeirra hefðu þeir ekki náð til byggða, og einn hásetinn, sem var sænskur, sagði mér, að hann hefði ekki getað gengið lengur en sem svaraði 10 mínútum; hann hefði verið farinn að detta hvað eftir annað af þreytu.
Ég sagði þeim af sæluhúsinu á Skeiðarársandi og að Thomsen konsúll hefði í huga, að koma einnig upp sæluhúsi á þessum fjörum, og virðist það nú tímabært, því þessi flokkur týndi einum manninum í sandhólunum. Hann drógst aftur úr sökum þreytu og var hans leytað af 10 mönnum allan næsta dag og fannst hann eigi, en aftur fannst stýrimaðurinn, foringi hins flokksins, dauður; voru vitin full af sandi og lá hann upp í loft, en hina mennina úr flokki hans fann bóndinn á Sljettabóli (sem er sunnar og vestar á Brunasandi en Orustustaðir) og menn hans til og frá á stangli; voru þeir að leita að þeim fram í myrkur og höfðu þá fundið alla, eins og áður segir, daginn eftir. Í dag eru 5 menn að leita þess, sem vantar. Aðfaranótt 5. þ. m. var gott veðar og ekkert frost, og þó dó þessi maður, sem fundinn er, af hungri, þreytu og kulda, mittisvotur eða meira. Það er seigpínandi dauðdagi. Síra Magnús á Prestsbakka var ný búinn að láta rétta við stikur Thomsens konsúls frá Orustustöðum og suður að Hvalsýki og var ein þeirra brotin, en á henni var mynd af bæ og áttavísunarmerki, og lét síra Magnús negla hana saman og reisa upp. En það var hún, sem glæddi mest von þeirra um að þeir væru á réttri leið til bæja, og hvatti þá til að gjöra sitt ítrasta til að ná þangað". 

Reykjavík. 53 tbl. 24 nóvember 1908.

Flettingar í dag: 528
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 858
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 698925
Samtals gestir: 52775
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 09:55:06