Færslur: 2020 Apríl

30.04.2020 22:12

Bátar við bryggju í Neskaupstað.

Við bæjarbryggjuna í Neskaupstað liggja þó nokkrir bátar. Ég veit ekki hvenær þessi mynd er tekin, en giska á árið 1975. Yst að austanverðu liggur færeyskur kútter, en þeir voru algengir á Norðfirði á þessum tíma. Utan á honum er sennilega 513. Árni Bergþór NK 25, hét áður Haddur SU 300. Eigandi hans var Hávarður Bergþórsson. Óþekktur í miðju, en sennilega 1127. Kögri NK 101 ystur, var í eigu Smára Einarssonar. Næst aftan við er sennilega 517.Hafbjörg NK 7. Var í eigu samnefnds hlutafélags í Neskaupstað. Hét Haraldur VE 246. Var áður í eigu Ölvers Guðmundssonar útgerðarmanns í Neskaupstað og hét þá Jón Guðmundsson NK 97. Þar utan við er 1122. Gullfaxi NK 11, eigandi hans var Guðmundur Þorleifsson (Gummi Dolla) útgerðarmaður í Neskaupstað. Hét áður Draupnir SI 62. Yst er 1368. Silla NK 42, eigandi hennar var Jón Sigurðsson útgerðarmaður í Neskaupstað, hét áður Rökkvi SU 45 og smíðaður á Borgarfirði eystra árið 1974.


Norðfirskir bátar og færeyskur kútter við bryggju í Neskaupstað.  (C) Sigurður Arnfinnsson.

    Friða verður norðfirsk trillumið
          fyrir stórum netabátum

Trilluútgerð er mjög mikilvægur þáttur í atvinnulífi margra sjávarplássa hér á landi. Þannig eru t.d. um 40 trillur gerðar út frá Neskaupstað á hverju sumri og færa frystihúsinu mikinn og góðan afla. Fréttaritari Þjóðviljans i Neskaupstað tók einn norðfirskan "trillukarl", Guðmund Karlsson, tali og lagði fyrir hann nokkrar spurningar. Guðmundur er 35 ára gamall Húsvíkingur, en flutti til Neskaupstaðar 1963. Hann er Stýrimannaskólagenginn og hefur stundað sjómennsku sem aðalstarf, m.a. stundað trilluútgerð héðan frá Neskaupstað flest sumur frá 1968.
Fyrst var Guðmundur spurður um eigin trillu. "Hún heitir Svala NK-54, hálfdekkuð, 4,3 tonn að stærð samkvæmt nýju mælingunni. Hún er smíðuð á Siglufirði 1961 og endurbyggð í Dráttarbraut Neskaupstaðar 1975." Hvað stendur trilluútgerð lengi? "Hún stendur frá því í byrjun maí og út október hér í Neskaupstað. Þetta finnst okkur mörgum helst til stuttur tími. Því ætlum við nokkrir að gera tilraun með grásleppuveiðar nú í apríl, og kanna hvort ekki sé hægt að lengja þannig vertíðina. Grásleppuveiðar hafa lítið verið stundaðar héðan, en ég trúi því, að hægt sé að gera héðan út á grásleppuveiðar með góðum árangri." Nú stendur trilluútgerðin hér svona stuttan tíma. Hvað gera trillukallar meðan þeir róa ekki?
"Það er nú margvislegt. Sumir fara á togara en aðrir vinna það sem til fellur í landi, og þeir sem best hafa fiskað taka því bara rólega." - Hvaða veiðarfæri eru notuð á trillum? "Færi, lína og þorskanet. Langflestir róa með færi og tel ég, að þau komi best út þegar á heildina er litið. Gjörbylting varð þegar rafmagnsrúllurnar komu til sögunnar. Gera þær vinnuna á sjónum margfalt léttari og svo eru þetta undraverkfæri í miklum fiski. Einn maður getur með góðu móti annað þremur rúllum, þannig að mikið er hægt að draga þegar sá guli gefur sig." - Hefur fiskgengd á trillumið norðfirðinga minnkað síðustu árin? "Ekki held ég það nú. Segja má, að trillumið okkar norðfirðinga séu á svæðinu frá Dalatanga að Gerpi, allt út í tólf mílur. Á þessu svæði hefur fiskgengdin áreiðanlega ekkert minnkað og fiskurinn að svipaðri stærð og áður." - Hvað með netaveiðar á þessu svæði? "Ég er algjörlega á móti öllum netaveiðum á stórum bátum á þessum fiskimiðum; þessar fáu trillur, sem róa með net héðan skipta ekki máli. Ef t.d. 10 stórir bátar kæmu hingað og legðu net sín á þau fiskimið, sem við stundum veiðar á þá gætum við lagt trillunum okkar og fengið okkur eitthvað annað að gera því þeir legðu trilluútgerð héðan gjörsamlega í rúst.
Það var farið fram á það í fyrra við stjórnvöld að svæðið væri friðað fyrir netaveiðum á stórum bátum, en því var synjað. En það verður að banna þessar veiðar nú þegar á þessu ári, því annars kann illa að fara, jafnvel svo illa, ef stórir flotar netabáta koma hingað á miðin, að norðfirsk trilluútgerð heyri sögunni til. En þar sem verið er að tala um, að við verðum að auka sókn í aðra fiskistofna en þorskinn, þá finnst mér sjálfsagt að opna hér svæði fyrir snurvoðarbáta frá því í endaðan september og til áramóta, því hér eru auðug skarkolamið, sem vel ma nýta." - Eru trillur ekki orðnar vel útbúnar til sjósóknar? ,,Jú, mikil ósköp. Allar eru þær komnar með dýptarmæla og þó nokkrar með radar. En það sem athyglisverðast er, er sú staðreynd, að í hverri trillu héðan frá Neskaupstað er talstöð og eykur það mikið öryggið. Vð tilkynnum Nesradíó þegar við förum af stað, aftur rétt fyrir hádegi og svo þegar við komum að landi. En þar sem ég er farinn að tala um öryggi á sjó finnst mér tilhlýðilegt að minnast á það að brýna nauðsyn ber til þess, að allir þeir sem róa einir, séu skyldaðir til þess að vera í björgunarvestum á sjónum. Til eru hentug björgunarvesti, sem hægt er að vera í innanundir fötunum."  - Er arðsamt að róa á trillu? "Þeir sem duglegastir eru bera mannsæmandi laun úr býtum. Hæsta trillan hér í fyrra fékk td. 65 tonn. En þetta er mikil vinna. Flestir fara á sjóinn á milli klukkan 4 og 5 á morgnana og koma að landi á tímabilinu frá klukkan 18-21, þannig að vinnudagurinn er langur og tímakaupið ekki alltaf hátt. En við norðfirskir trillukallar lítum björtum augum til framtíðarinnar og kvíðum engu ef stjórnvöld fást til að friða þau fiskimið, sem við róum á. fyrir stórum netabátum."

Þjóðviljinn. 10 apríl 1976.


26.04.2020 08:21

Stykkishólmshöfn sumarið 1986.

Þessa mynd tók ég í Hólminum í júlímánuði árið 1986. Ég var þá á leið í Flatey með Baldri. Bátarnir sem liggja við bryggjuna eru, talið frá vinstri,
154. Sigurður Sveinsson SH 36, TFVD, gerður út af Sigurði sf ( Sveinbjörn Sveinsson) í Stykkishólmi, smíðaður í Brandenburg í A-Þýskalandi árið 1959. 94 brl. Hét fyrst Mímir ÍS 30 og var í eigu hf Mímis í Hnífsdal.
778. Smári SH 221, TFUS, gerður út af Rækjunesi / Björgvin hf í Stykkishólmi. Smíðaður í Hafnarfirði árið 1949. 65 brl. Hét fyrst Smári TH 59 og var í eigu Útgerðarfélagsins Vísis á Húsavík.
853. Andri SH 21, TFYV, gerður út af Sigurjóni Helgasyni hf í Stykkishólmi. Smíðaður í Bardenfleth í A-Þýskalandi árið 1956. 66 brl. Hét fyrst Tálknfirðingur BA 325 og var í eigu Hraðfrystihúss Tálknafjarðar.
6700. Gustur SH 251,(guli plastarinn) í eigu Jóhannesar Þórðarsonar og Valgeirs Gunnarssonar í Stykkishólmi og Guðbrandar Þórðarsonar í Búðardal. 5,25 brl, smíðaður í Hafnarfirði árið 1985.


Skelfiskveiðiskip við bryggju í Hólminum í júlí árið 1986.              (C) Þórhallur S Gjöveraa.

                Stykkishólmur

Fiskvinnsla er megin stoð atvinnulífsins í Stykkishólmi, og eru starfrækt þar fjögur fiskvinnslufyrirtæki. Tvö þeirra vinna einkum hörpudisk, og hefur vinnsla á því hráefni skapað mikinn stöðugleika í atvinnulífi, auk þess sem næg atvinna hefur verið fyrir unglinga yfir sumartímann. Frá Stykkishólmi eru gerðir út 21 bátur og 34 trillur. Skipasmíðaiðnaður er og hefur verið mikilvægur hlekkur atvinnulífsins í Stykkishólmi. Stykkishólmshreppur er hluthafi í skipasmíðastöðinni Skipavík, sem annast nýsmíði og viðgerðir báta.
Einnig er starfrækt minni stöð, sem aðallega smíðar trillubáta. Byggingariðnaðarmenn eru margir í Stykkishólmi, og stunda þeir iðn sína á staðnum og þjóna nærliggjandi byggðum. Þrjár trésmiðjur eru á staðnum og vinna hjá þeim um 50 menn að staðaldri. Verzlun, viðskipti og önnur þjónusta er nokkur í Stykkishólmi. Á vegum Hólmkjörs hf. og Kaupfélags Stykkishólms er starfrækt sláturhús, sem nú er í uppbyggingu.
Á vegum hafnarsjóðs Stykkishólms hefur verið byggður nýr viðlegukantur í Stykkinu, eins og Stykkishólmi er í daglegu tali nefndur, byggð ný hafnarvog og unnið við endurbætur á dráttarbrautinni í Skipavík, sem hafnarsjóður á, en leigir Skipasmíðastöðinni Skipavík hf. Eins og fyrir aðrar hafnir landsins, er nú unnið að framkvæmdaáætlun í Stykkishólmshöfn fyrir áætlunartímabilið 1979-1982, og hefur hafnarnefnd nýlega afgreitt framkvæmdaáætlun sína. Er þar gert ráð fyrir nýbyggingum við dráttarbraut, löndunar og viðgerðarbryggju í Skipavík, nýbyggingu trébryggju, vörukanti við Mylluhöfða, lengingu Austurkants í Stykki og loks ísvarnargarði milli lands og Súgandiseyjar. Einnig er gert ráð fyrir dýpkun við Steinbryggju og viðgerð á henni. Ekki fékkst fjárveiting til framkvæmda við höfnina á árinu 1979 af þeim 223 millj. króna, sem varið er til hafnarmála á Vesturlandi, en vonir standa til, að veruleg fjárveiting fáist til hafnarframkvæmda á næsta ári í samræmi við væntanlega framkvæmdaáætlun.

Sveitarstjórnarmál. 2 hefti. 1 apríl 1979.



13.04.2020 13:40

Síldveiðiskipið Guðmundur Þórðarson RE 70 bíður löndunar í Neskaupstað.

Síldveiðiskip bíða löndunar við bryggju í Neskaupstað árið 1958-59. Þar má meðal annars sjá vélskipið Guðmund Þórðarson RE 70 og skipstjóri þar væntanlega Haraldur Ágústsson. Guðmundur var fyrsta íslenska fiskveiðiskipið sem notaði kraftblökkina með góðum árangri eftir smávægilegar lagfæringar. M.a. var settur nótakassi á bátadekkið. Kraftblökkin, þetta undratæki, var fundin upp af bandaríkjamanninum Mario Puretjc í samstarfi við fyrirtækið Marco of Seattle í Bandaríkjunum árið 1955 og var upphaflega ætlað til tunfiskveiða, þ.e. að draga netin um borð í skipin.
Vélskipið Guðmundur Þórðarson RE 70 var smíðaður í Strusshamn, Asköy í Noregi árið 1957 fyrir Baldur Guðmundsson útgerðarmann í Reykjavík. Stál, 209 brl. 320 ha. Wichmann vél. Skipið var selt 15 október árið 1970, Ólafi R Sigurðssyni Ytri Njarðvík, Magnúsi Ásgeirssyni og Karli Helgasyni í Grindavík, sama nafn og númer. Skipið var endurmælt árið 1971, mældist þá 161 brl. Talið ónýtt og tekið af skrá 2 október árið 1979.


Síldveiðiskipið Guðmundur Þórðarson RE 70 bíður löndunar við bryggju í Neskaupstað ásamt nokkrum öðrum skipum. Held að myndin sé tekin áður en kraftblökkin kom um borð í skipið. Nokkrir nótabátar liggja einnig við bryggjuna.    (C) Sigurður Guðmundsson.

                  Nýtt fiskiskip

Hinn 14. maí kom til Reykjavíkur nýtt fiskiskip, "Guðmundur Þórðarson". RE 70. Skipið er byggt úr stáli í Strusshamn, Asköy, Noregi 1957, en eigandi þess er Baldur Guðmundsson, útgerðarmaður í Reykjavík. Fer hér á eftir lýsing á skipinu. Stærð:
Lengd 31,85 m.,
breidd 6,85 m.,
dýpt 3,45 m.,
208 brúttólestir.
Aðalvél: Wickmann-diesel 320/400 ha.
Ganghraði í reynsluför 10.6 sjóm.
Hjálparvélar: Buck 40 ha. og 20 ha. 3 rafalar.
Vökvadrifnar vindur:
Þilfarsvinda,
línuvinda og ankerisvinda.
Auk þess er bómuvinda, sem hreyfir bómuna úr borði í borð og þar af leiðandi þarf ekki "gertamenn" við lestun og losun. Báturinn er fyrsti fiskibáturinn, sem þessi tegund vindu er sett í og fyrsta íslenzka skipið, sem hefur þannig olíudrifna bómuvindu. Í bátnum er þýzk miðunarstöð, talstöð og dýptarmælir með asdikútbúnaði af Simradgerð og rafmagns- og vökvadrifið stýri. Mannaíbúðir:
Fram í undir þilfari eru 2 þriggja manna og 1 fjögra manna lúkarar og undir hvalbak er einn þriggja manna lúkar.
Aftur í undir þilfari eru fjögur eins manns herbergi ætluð fyrir stýrimann, 1. og 2. vélstjóra og matsvein. Fremst í reisn er íbúð skipstjóra, en þar aftan við er eldhús og matsalur. Í bátnum eru 3 snyrti- og þvottaherbergi fyrir skipverja, með 2 steypiböðum. Miðstöðvarhitalögn og rafmagnshitalögn er í öllum íbúðum og heitt og kalt vatn leitt í öll íbúðarherbergi. Á bátaþilfari er að framan stýrishús en aftan við það kemur herbergi fyrir talstöð og miðunarstöð og enn aftar kortaklefi. Hjálmar Bárðarson, skipaskoðunarstjóri gerði teikningu og smíðalýsingu af bátnum. Byggingarverkstæði er Haugsdal Skipsbyggeri, Strusshamn, Asköy.
Skipstjóri er Björgvin Oddgeirsson frá Grenivík.

Ægir. 1 júní 1957.


Guðmundur Þórðarson RE 70.              (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.


Líkan Gríms heitins Karlssonar af Guðmundi Þórðarsyni RE 70.     (C) Þórhallur S Gjöveraa.

                  Kraftblökkin

Þann 21. júní, 1959 hélt m/s Guðmundur Þórðarson, RE 70 til síldveiða við Norðurland, með hringnót og búinn kraftblökk. Nótinni var komið fyrir aftast á þilfari skipsins og henni kastað og hún dregin af skipinu, en ekki notaður nótabátur. Lítill vélbátur var hafður meðferðis, var hann hafður í enda nótarinnar þegar kastað var og síðan til þess að halda nótinni frá skipinu á meðan háfað var.
Kraftblökkinni var komið fyrir í bómu á afturmastri skipsins og voru stjórntækin fyrir blökkina við mastrið. Bóma var höfð tvo metra aftan við bakka og korkaendi nótarinnar bundinn fremst á hana, þegar bundið var á síðu og háfað, en brjóstið lá í fellingum eftir henni að síðunni og steinateinninn bundinn aftureftir skipinu. Nótin var síðan hífð inn með kraftblökk, þar til að hægt var að háfa. Fyrirkomulagið reyndist ekki vel, skipið dróst inn í nótina með afturendann. Á tímabilinu frá 23. júní til 6. júlí var kastað átta sinnum. Fékkst síld í flestum köstunum, en þó aldrei yfir 100 tunnur í kasti.
Í þessum köstum komu í ljós töluverðir annmarkar á þessu fyrirkomulagi. Staðsetningin á blökkinni var slæm og erfitt að þurrka upp með henni.
Eftir þessi átta köst var gerð breyting. Smíðaður var nótakassi á bátadekki og blökkin færð í fremri davíðuna stjórnborðsmegin. Stjórntæki blakkarinnar voru færð að brúnni stjórnborðsmegin. Einnig varð að grynna poka nótarinnar. Við þessa endurbót var þrautin leyst og hafa aðrir byggt á reynslu þeirri er þarna fékkst. Stærð nótarinnar var 230 faðmar að lengd og 53 faðmar á dýpt, felling 40 til 50 %. Kastað var 72 sinnum. Afli var 13.250 mál & tunnur. Úthaldsdagar voru 77. M/b Guðmundur Þórðarson var þriðja aflahæsta skipið á sumarsíldveiðunum 1959, þrátt fyrir tafirnar við tilraunirnar. Með þessu afreki urðu þáttaskil í sögu síldveiðanna hér við land og byggðu aðrar fiskveiðiþjóðir við Norður-Atlantshaf á þeirri reynslu, sem fékkst með tilrauninni á m/s Guðmundi Þórðarsyni. Skipstjóri var Haraldur Ágústsson, stýrimaður Björn Ólafur Þorfinnsson, yfirvélstjóri var Sigurður Gunnarsson, Brettingur.
Eigandi skipsins var Baldur Guðmundsson útgerðarmaður í Reykjavík og kostaði hann tilraunina alfarið sjálfur.


Morgunblaðið 9 ágúst 1995.


08.04.2020 14:01

Seglskipið Gyða frá Bíldudal.

Seglskipið (Jaktin) Gyða var smíðuð á Bíldudal af Kristjáni Kristjánssyni skipasmið frá Veðrará í Önundarfirði árið 1892  fyrir P. J. Thorsteinsson & Co á Bíldudal. Eik og fura.15 brl. Gyða fékk skráningarnúmerið BA 69, 1904-05. Selt 4 apríl 1905, Hannesi B Stephensen & Co á Bíldudal. Pétur kaupir Gyðu aftur 5 september 1907. Gyða var talin hafa farist í mynni Arnarfjarðar 23 apríl árið 1910 með allri áhöfn, 8 mönnum. 
Það var svo í nóvember árið 1953 sem mastrið af Gyðu að talið var, kom í rækjutrollið hjá m.b. Frigg BA. Mastrið og minnisvarði um þá sem fórust með skipinu er á Bíldudal.


Seglskipið Gyða á Bíldudal.                                                                      Ljósmyndari óþekktur.


Minningaskjöldur um sjómennina 8 sem fórust með Gyðu á Bíldudal.


Minnisvarðinn og mastrið á Bíldudal.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 ágúst 2008.

             Seglskipið "Gyða"

Um fiskiskipið "Gyða", er fórst frá Bíldudal á nýafstöðnu vori sbr. 23-24. nr. "Þjóðviljinn" þ. á., hafa oss nú borizt grenilegri fregnir, en þar var getið. Það er talið víst, að "Gyða hafi farizt laugardagsnóttina fyrstu í sumri. Skip frá Bíldudal mætti henni á innsiglingu úti í mynni Arnarfjarðar föstudagskvöldið fyrsta í sumri. en um kl. 1-2 um nóttina gerði afspyrnuveður af norðri, með frosti og fannkomu, og er álitið, að "Gyða" muni hafa verið komin inn undir Stapadal, er hún fórst, með því að rekið hefir af henni ýmislegt lauslegt, þar á meðal tvo þiljuhlera, og tvo sjóhatta, á Fífustaðahlíðum, milli Fífustaða og Selárdals, flest á mánudaginn, eptir að slysið varð. Á skipinu voru þessir menn:
1. Þorkell Kristján Magnússon, skipstjóri, kvæntur maður á Bíldudal, er lætur eptir sig ekkju og fjögur börn, þar af þrjú í ómegð.
2. Magnús, sonur hans, er var stýrimaður, 18 ára að aldri.
8. Páll Jónsson, 15 ára, sonur síra Jóns Árnasonar á Bíldudal.
4. Jón Jónsson, unglingspiltur á Bíldudal, 19 ára að aldri.
5. Jón húsmaður Jónsson, í Hokinsdal, kvæntur maður, aldraður, er lætur eptir sig ekkju og uppkomna dóttur.
6. Ingimundur Loftsson, ekkjumaður að Fossi í Suðurfjörðum, 58 ára. Átti uppkomin börn.
7. Einar Líndal Jóhannesson, til heimilis að Bakka í Dalahreppi, 31 árs. Hann lætur eptir sig ekkju, og þrjú börn í ómegð.
8. Jóhannes Leopold Sæmundsson að Vaðli á Barðaströnd, kvæntur maður, er átti eitt eða tvö börn í ómegð. Hér er að mun skýrt glöggar frá þeim sem drukknuðu, en gert var í fyrgreindu nr. blaðs vors. Þegar litið er á manntjónið af "Industri", frá Patreksfirði, en á því skipi voru og ýmsir úr Arnarfirði, þá er ljóst, að í Arnarfirði á margur um sárt að binda, eptir skipskaða þessa og hefir eigi slíkt mannfall átt sér þar stað síðan bátstapinn mikli varð þar í sept. sumarið 1900. Hlutaðeigandi sveitir hafa og misst mikið, þar sem þær hafa misst nýta og dugandi menn, og efnilega unglinga.

Þjóðviljinn ungi. 5 ágúst 1910.


03.04.2020 17:05

S.t. Trocadero GY 129 strandar austan Grindavíkur.

Það var aðfaranótt 6 september árið 1936 að fólk í Grindavík varð vart við togara sem strandað hafði rétt austan við bæinn. Reyndist þetta vera Grimsbytogarinn Trocadero GY 129. Var strandstaður skipsins töluvert langt frá landi og útilokað að koma taug um borð og heldur ekki mögulegt að fara þangað út á báti vegna dimmviðris og veðurs. Í birtingu sást til togarans og hafði hann þá borist nær landi. Slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík kom mjög fljótlega á staðinn, ákveðið að bíða birtingar og vonast að skipið ræki nær landinu. Þegar það gekk eftir, skutu þeir línu til hins strandaða skips og heppnaðist það í þriðju tilraun. Síðan voru skipsbrotsmennirnir dregnir til lands í björgunarstól þar til þeir voru allir 14 talsins komnir upp í fjöru.
Trocadero GY 129 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1902 fyrir Humber Steam trawling Co Kingston Upon-Hull. Hét fyrst Walter S. Bailey H 546. 244 brl. 1x3 triple expansion engine 63 n.h.p. power. Smíðanúmer 316. 38,1 m. á lengd, 6,7 m. á breidd. Togarinn var í eigu Line Fishing Co Ltd í Grimsby þegar hann strandaði. Trocadero eyðilagðist á strandstað.

Af ljósmyndunum af skipinu að dæma var Trocadero GY 129 enginn "línuveiðari", frekar 244 brl. botnvörpungur. Kannski hefur verið einhver "misskilningur" hjá mörlandanum um að ræða, því skipið var þá í eigu "Line Fishing" Co Ltd í Grimsby. Það væri þá vel í samræmi við flestar þær upplýsingar um strönd erlendra skipa hér við land á þessum tíma. Margar þeirra svo vitlausar að það tók út yfir allt það sem vitlaust var, þó vægt sé til orða tekið. !!


Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík að bjarga 14 skipverjum af togaranum Trocadero GY 129 frá Grimsby.   (C) Einar Einarsson.


S.t. Trocadero GY 129.                                                                  (C) James Cullen.


S.t. Walter S. Bailey H 546.                                                     (C) James Cullen.

      Enskur línuveiðari strandar                            í Grindavík
         Skipsmönnum 14 talsins                             bjargað á línu

Um klukkan 2 aðfaranótt sunnudags strandaði enskt línuveiðaskip, Trocadero frá Grimsby, suður í Grindavík. Það var utan til við þorpið í Grindavík, miðhverfið, sem skipið strandaði. Svarta myrkur var og talsverður stormur. Þegar þorpsbúar urðu strandsins varir fór björgunarsveitin út. Ekki var viðlit að koma út báti, vegna brims. Skipið var svo langt undan landi, að björgunarmenn treystu sjer ekki að skjóta út línu, enda var dimt. Tóku björgunarmenn því það ráð að bíða í fjörunni þar til að birti. Þegar birta tók sáu björgunarmenn úr landi að skipsmenn voru frammi á hvalbaknum, en ekki nein hætta á ferðum, þar sem sjór fór batnandi. Skipið var það langt undan landi, að erfitt var að draga menn á línu í land; var því afráðið að bíða enn um stund, því að skipið færðist altaf nær landinu. En nú virtust skipsmenn verða órólegir og tóku að skjóta línu frá borði, en drógu ekki til lands. Til þess að skipsmenn færu ekki að freista þess að fara að yfirgefa skipið og þar sem þeir virtust órólegir, var skotið til þeirra línu úr landi og hæfði hún skipið.
Var nú byrjað að draga mennina á land í björgunarstól. En þetta gekk fremur seint til að byrja með, því að vegalengdin var löng. Tókst þannig að bjarga öllum mönnunum, 14 talsins, á land og var því lokið um kl. 10.30 á sunnudagsmorgun. Skipbrotsmenn voru talsvert þjakaðir er þeir komu á land, því að þeir voru mikið í sjó í drættinum. Þeir hresstust þó fljótt, er þeir fengu aðhlynningu í landi. Skipið er 35 ára gamalt og lítil von til að það náist út.

Morgunblaðið. 8 september 1936.


01.04.2020 16:31

64. Svala SU 7. TFBO.

Vélskipið Svala SU 7 var smíðað í Halsö í Svíþjóð árið 1939. Eik. 81 brl. 200 ha. June Munktell vél. Það voru Páll Oddgeirsson útgerðarmaður, Gunnar Marel Jónsson skipasmiður og Guðni Jóhannsson skipstjóri í Vestmannaeyjum sem keyptu bátinn frá Gautaborg í Svíþjóð í febrúar 1946, hét þá Heimaklettur VE 12. Skipið var selt 4 mars 1947, H.f. Heimakletti í Reykjavík, hét Heimaklettur RE 26. Selt 16 október 1953, Svölunni hf (Þórlindi Magnússyni skipstjóra og fl.) á Eskifirði, hét þá Svala SU 7. Ný vél (1955) 330 ha. GM vél. Selt 18 mars 1963, Svölunni hf á Fáskrúðsfirði, sama nafn og númer. Endurmælt árið 1965, mældist þá 102 brl. Selt sama ár, Halldóri Bjarnasyni í Reykjavík, hét Guðmundur góði RE 313. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 30 september árið 1967.


64. Svala SU 7.                                                             (C) Geir Hólm. / Ljósmyndasafn Eskifjarðar.


Heimaklettur RE 26 (frekar en VE 12) að landa síld á Siglufirði.             Ljósmyndari óþekktur.

      Nýr bátur til Vestmannaeyja

Síðastliðinn laugardag kom hingað til Eyja bátur, sem keyptur hafði verið hingað frá Sviþjóð. Eigendur bátsins eru þeir Gunnar Marel Jónsson skipasmíðameistari, Páll Oddgeirsson útgerðarmaður og Guðni Jóhannsson skipstjóri. Var frjettamönnum blaða og útvarps boðið í gær, ásamt fleiri gestum, að skoða skipið. Er það hið glæsilegasta. Skipið er keypt í Gautaborg fyrir 340.000 íslenskar krónur og er 84 smálestir að stærð með 200 hestafla June Munktell-vjel, og er ganghraði yfir 9 mílur. Skipið er raflýst. Mannabústaðir eru mjög rúmgóðir og vel úr garði gerðir. Er upphitun með miðstöðvarkyndingu, og yfirleitt má segja, að útbúnaður skipsins sje mjög fullkominn enda er skipið svo að segja nýtt, aðeins 5 ára. Skipið hlaut nafnið "Heimaklettur". Hafa eigendur í hyggju að nota það til fiskflutninga í vetur og á síld að sumri.

Morgunblaðið. 14 febrúar 1946.


  • 1
Flettingar í dag: 210
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 568
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 1075590
Samtals gestir: 77617
Tölur uppfærðar: 28.12.2024 05:15:33