Færslur: 2021 Febrúar

28.02.2021 09:23

Breski togarinn Admiral Togo H 259 strandar á skerjum við Stafnes á Reykjanesi.

Það var hinn 7 mars árið 1913 að breski togarinn Admiral Togo H 259 frá Hull strandaði á skerjum út af Stafnesi á Reykjanesi í foráttuveðri. Færðist togarinn að mestu á kaf í stærstu ólögunum og þótti þegar sýnt að vonlaust yrði um nokkra björgun frá landi eins og veðri var háttað á strandstað, haugabrim og vonskuveður. Í birtingu um morguninn sáu menn í landi að enn voru menn á lífi um borð í togaranum, en ekkert var hægt að gera þeim til bjargar. Það síðasta sem sást til þeirra var að þeir fóru í björgunarbát og ætlað að reyna að bjarga sér á land á honum. En stuttu eftir að hann lagði af stað frá skipshlið, skall ólag yfir bátinn með þeim afleiðingum að honum hvolfdi og þeir drukknuðu allir. Togarinn brotnaði fljótt niður á strandstaðnum, en næstu daga stóðu masturstoppar hans upp úr sjó en þeir hurfu sjónum manna stuttu síðar. Í áhöfn Admiral Togo voru 12 menn.
St. Admiral Togo H 259 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1904. 249 brl. 76 n.h.p. gufuvél frá Messrs Amos & Smith í Hull. 127 ft. á lengd, 22 ft. á breidd og djúprista var 12 ft. Smíðanúmer 55. Togarinn var í eigu Pickering & Haldane's Steam Trawler Co Ltd í Hull og var hleypt af stokkunum í ágústmánuði það ár.


St. Admiral Togo H 259.                                                                      Ljósmyndari óþekktur.

     Skip strandar, Skipshöfn ferst

Í fyrrakveld um kl. 11 sáu menn á Stafnesi syðra, að botnverpuskip barst þar á boða úti fyrir, var þá brim afskaplegt. Fjara var á, en er fór að flæða, fór skipshöfnin í bát og ætlaði að ná landi, en bátnum hvolfdi brátt og fórust allir. Skipið sökk nokkru síðar og sjer aðeins masturtoppana. Bátinn rak í land og sást á honum að skipið, sem fórst, var Admiral Togo frá Hull. Það var byggt 1904 af stáli, eign Pickering & Haldane's S. T. Co Ltd.

Vísir. 9 mars 1913.

21.02.2021 14:15

B.v. Helgafell RE 280. TFZD.

Nýsköpunartogarinn Helgafell RE 280 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1947 fyrir samnefnt hlutafélag í Reykjavík. 654 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 54,00 x 9,17 x 4,58 m. Smíðanúmer 1321. Skipaskrárnúmer 194. Helgafell var annar nýsköpunartogarinn sem kom til landsins, hinn 25 mars sama ár. Ingólfur Arnarsson RE 201, sá fyrsti, kom til Reykjavíkur hinn 17 febrúar. Skipið var selt 2 febrúar 1953, Útgerðarfélagi Akureyringa hf á Akureyri, hét Sléttbakur EA 4. Togarinn var seldur 18 apríl árið 1974, Manuel Hevia Gonzales í Gijon á Spáni til niðurrifs. Það var Kaldbakur EA 1 sem dró Sléttbak, en hann hafði einnig verið seldur til sama aðila á Spáni í brotajárn.


B.v. Helgafell RE 280 á Pollinum á Ísafirði.                              Úr safni Kjartans Traustasonar.

      B.v. Helgafell kemur næsta                             fimmtudag

Bv. Helgafell, annar Nýbyggingarráðstogarinn, sem fullgerður er, fór í reynsluför á þriðjudag. Visir átti í gær tal við Skúla Thorarensen útgerðarmann og fékk hjá honum þær upplýsingar um Helgafell, að hann hefði reynzt í alla staði vel. Í fyrradag var hann svo tekinn í slipp til eftirlits og botnmálunar. Gert er ráð fyrir því, að skipið fari frá Hull á morgun og komi ef til vill við í Aberdeen á heimleiðinni. Má þá búast við því hingað á fimmtudag.
B.v. Egill rauði, eign Neskaupstaðar, mun verða tilbúinn um næstu mánaðamót.

Vísir. 14 mars 1947.


B.v. Helgafell RE 280 með fullfermi af saltfisk á leið til Esbjerg í Danmörku. Ljósmyndari óþekktur.

 Annar nýsköpunartogarinn kominn

Togarinn Helgafell, RE 280, sem er annar nýsköpunartogarinn, kom hingað til Reykjavíkur í gærmorgun, eftir fjögra sólarhringa siglingu frá Hull. Eigandi Helgafells er samnefnt hlutafjelag hjer í bæ. Helgafell er byggður eftir sömu teikningum og b.v Ingólfur Arnarson. Á leiðinni frá Englandi hrepti skipið slæmt veður og náði veðurhæðin 9 vindstigum. Skipstjórinn, Þórður Hjörleifsson, skýrði svo frá, að skipið hefði farið vel í sjó, enda þó að sjólag hafi verið slæmt. Skipið var með 160 smálestir af sementi, og með eldsneytisforða var það á hleðslumerkjum fyrir vöruflutninga. Strax í gær hófst vinna við að setja lýsisvinsluvjelar í skipið og að búa það undir fyrstu veiðiför sína. Búist er við að togarinn fari á veiðar fyrir hátíðar.
Eins og fyrr segir er skipstjóri Helgafells Þórður Hjörleifsson. Fyrsti stýrimaður er Pjetur Guðmundsson og yfirvjelstjóri er óskar Valdimarsson.

Morgunblaðið. 26 mars 1947.


B.v. Sléttbakur EA 4 á toginu. Eftir fuglagerinu að dæma, eru þeir að fiska. (C) Ásgrímur Ágústsson.

        Eigendaskipti á togurum

Togarinn Helgafell, sem var eign samnefnds félags í Reykjavik, en framkvæmdastjóri þess var Skúli Thorarensen, var seldur til Akureyrar, og er Útgerðarfélag Akureyrar kaupandinn. Skipið heitir nú Sléttbakur og hefur einkennisstafina EA 4. Útgerðarfélag Akureyrar á þar með orðið fjóra togara, og á enginn einn aðili fleiri togara hér á landi nema Bæjarútgerð Reykjavíkur. Frá Akureyri eru því gerðir út fimm togarar, og er það einungis einum togara færra en í Hafnarfirði. Togarinn Helgafell var seldur fyrir kr. 5.500.000.00. Greiðsluskilmálar eru þessir:
Við undirskrift samningsins greiddust 500 þús kr. Upphæð þá tók Útgerðarfélag Akureyrar að láni hjá Samvinnutryggingum, til 4 ára, og fer fyrsta afborgun fram í sept. næsta ár. Þá er 500 þús. kr. víxill til sex mánaða til fyrri eigenda. Þá er skuldabréf til 10 ára til fyrri eigenda að upphæð kr. 3.084.667,30, yfirtekin skuld við stofnlánadeild sjávarútvegsins kr. 1.322.000,00 og loks yfirtekin skuld við ríkissjóð kr. 93.132,80. Skipið var afhent hinum nýju kaupendum 8. september, en þá var það tilbúið á veiðar. Skipstjóri á því er Finnur Daníelsson, sem verið hefur 1. stýrimaður á Kaldbak.

Tímaritið Ægir. 9-10 tbl. 1 september 1953.


Landað úr Sléttbak EA 4 á Akureyri.                                                Ljósmyndari óþekktur.


Stjórnpallur og skorsteinn togarans Sléttbaks EA 4.                        Úr safni Sæmundar Þórðarsonar.

       Þeir gömlu seldir í brotajárn

Nú þegar hver skuttogarinn á fætur öðrum kemur til landsins vaknar sú spurning hvað gert verði við gömlu síðutogarana. Við leituðum til Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda og spurðum þar þessarar spurningar. Þar fengum við það svar að þeim yrði lagt og sennilega yrðu þeir seldir í brotajárn. Þeim er lagt, einum á móti hverjum einum skuttogara sem kemur til landsins hjá þeim aðilum sem eiga gamla síðutogara fyrir. Þannig verður til að mynda Jóni Þorlákssyni hjá BÚR lagt, þegar Bjarni Benediktsson RE er kominn til landsins. Þá verður Hallveigu Fróðadóttur lagt þegar skuttogarinn Ingólfur Arnarson RE kemur, en hann er af sömu gerð og Bjarni Ben. Þá verður Þorkeli Mána lagt þegar Snorri Sturluson RE kemur, en hann er einnig af sömu gerð og Bjarni.
Þá mun ákveðið að Sléttbaki frá Akureyri verði lagt þegar fyrsti nýi skuttogarinn kemur þangað, og svo Kaldbak þegar annar skuttogarinn kemur. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar á von á nýjum skuttogara, en ekki mun síðutogaranum Maí verða lagt þegar hann kemur og að sjálfsögðu verður Sigurði ekki lagt þegar Einar ríki fær sinn skuttogara. Það er semsagt ljóst að elztu síðutogurunum verður lagt, en þeim sem enn eru í góðu lagi, eins og Maí og Sigurði, svo dæmi séu nefnd, verður ekki lagt.

Þjóðviljinn. 21 janúar 1973.

14.02.2021 12:03

B.v. Kári RE 195. TFQD.

Botnvörpungurinn Kári RE 195 var smíðaður hjá Deutsche Schiffs und Maschinenbau A.G.Weser í Bremen í Þýskalandi, en skipið klárað hjá A.G.Seebeck í Wesermunde (Bremarhaven) í Þýskalandi í nóvember árið 1936 fyrir MacLane Ltd í London (Leverhulme Ltd), fær nafnið Northern Gift LO 166. 620 brl.1000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 556. Var einn af hinum svonefndu "sáputogurum". Seldur í október 1937, Northern Trawlers Ltd í London. Frá 1 september 1939 til 30 október 1945 var togarinn í þjónustu breska sjóhersins. Árið 1946 er hann gerður út af H. Markham Cook Ltd í Grimsby en togarinn var ekki skráður þar. Seldur 18 maí 1947, h/f Alliance í Reykjavík , fær nafnið Kári RE 195. Seldur 1950, Ludwig Janssen & Co í Wesermunde í Þýskalandi, hét Grönland. Seldur W.Ritscher í Hamborg til niðurrifs og var rifinn þar í mars árið 1957.


B.v. Kári RE 195. Trúlega er þetta hafnsögubáturinn Nóri til hægri.      Úr safni Kjartans Traustasonar.

           Alliance kaupir togara

Alliance h.f. hefir nýlega fest kaup á togara í Bretlandi, og fór áhöfn sú er sigla á togaranum hingað heim áleiðis til Bretlands í gærkveldi með Ingólfi Arnarsyni. Togari þessi er af sömu gerð og Patreksfjarðartogarar Ólafs Jóhannessonar h.f., Gylfi og Vörður. Hefir Alliance gefið hin um nýja togara sínum nafnið Kári, eftir sínu gamla skipi, er fjelagið seldi til Færeyja á s. l. vori. Einkennisstafir Kára verða RE-195.

Morgunblaðið. 24 maí 1947.


St. Northern Gift LO 166.                                                                              (C) John Clarkson.

           Ensku "sáputogararnir"

Fyrir stríð könnuðust margir landsmenn við ensku "sáputogarana", sem svo voru nefndir. Þeir stunduðu þá flestir veiðar hér við land. Þetta voru stærri og glæsilegri skip, heldur en þá stunduðu almennt veiðar á íslandsmiðum. Á stríðsárunum voru þessi skip öll tekin í þjónustu flotans til kafbátaleitar og verndar skipalestum. Þrjú þeirra fórust á stríðsárunum, en að stríðinu loknu snéru tólf þeirra aftur til veiða. Stunduðu mörg þeirra veiðar hér við land fram á sjöunda áratuginn og voru þá vel þekkt í íslenzkum höfnum.
Þessi skip voru smíðuð í Þýzkalandi, í Bremen og Wesermúnde, og afhent árið 1936. Seebeck-fyrirtækin voru þá tekin að blómstra á ný eftir valdatöku Hitlers, en þau höfðu riðað til falls í upphafi heimskreppunnar upp úr 1930. Kaupandinn var Unilever, dótturfyrirtæki sápu- og matvælaframleiðandans Liverholme Group of Companies, sem sameinaðist hollenzka smjörlíkisframleiðandanum Van Den Berghs 1930. Andvirði skipanna var sagt, að Unilever hafi reitt af hendi í vöruskiptum með framleiðslu verksmiðja sinna, Sunlight Soap. Sumir nefndu þessa togara því "Sunlight-togarana", en algengara var að þeir væru nefndir "sáputogararnir." Skipin voru 15 og báru eftirfarandi nöfn:
Northern Chief, Northern Duke, Northern Gem, Northern Isles, Northern Princess, Northern Rover, Northern Spray, Northern Wave, Northern Dawn, Northern Foam, Northern Gift, Northern Pride, Northern Reward, Northern Sky og Northern Sun.
Skipin fóru upphaflega öll til Fleetwood og var skráður eigandi Mac Line Ltd., London, en eftir erfiðan rekstur þar, voru þau öll seld árið 1937 til William Bennet, sem stofnaði útgerðarfélagið Associated Fisheries Ltd. í Grimsby 1929. Þetta var mikil lyftistöng fyrir höfnina í Grimsby sem skömmu áður hafði aukið þjónustu við togaraflotann með byggingu á skipadokk nr. 3. Fram yfir 1930 voru flest skip, sem stunduðu veiðar á  Íslandsmiðum, í Hvítahafinu, Barentshafinu og við strendur Noregs, 130-140 fet á lengd og yfirleitt um 320-400 rúmlestir. (Árið 1945 var meðalstærð íslenzkra togara 335 rúmlestir). "Sáputogararnir" voru aftur á móti 181 fet og mældust 620-625 rúmlestir. Þeir höfðu margt fram yfir eldri skip enska flotans, voru t.d. búnir ýmsum siglinga og fiskileitartækjum, sem ekki voru í eldri togurum. Vistarverur skipverja voru einnig allt aðrar, fullkomnari og betri og hreinlætisaðstaða skipverja önnur og betri. Þeir voru taldir mjög góð sjóskip og voru auðþekktir á brúnni, sem var tveggja hæða. Á stríðsárunum var þriðju hæðinni síðan bætt ofan á brúna. Upphaflega voru togararnir allir með 1000 ha. gufuvél, kolakyntir, en fljótlega eftir stríðið var breytt yfir í olíukyndingu.
  Strax í stríðsbyrjun voru Northern-togararnir teknir í þjónustu flotans til kafbátaleitar og til verndar skipalestum, sem voru í flutningum til og frá íslandi og víðar. Voru þeir búnir fallbyssum og djúpsprengjum. Höfðu margir þeirra aðstöðu í Hvalfirði öll stríðsárin. Togarinn Northern Gem bjargaði áhöfn Libertyskipsins J. L. M. Curry út af Austfjörðum veturinn 1943 og flutti áhöfnina til Seyðisfjarðar. Togarinn Northern Reward var eitt af fylgdarskipum skipalestarinnar, sem Goðafoss var í, þegar þýzkur kafbátur réðist á skipalestina á Faxaflóa 10. nóvember 1944 og sökkti Goðafossi og fleiri skipum skammt frá Garðskaga. Skipverjum á Goðafossi hafði þá nýverið tekizt að bjarga 19 skipverjum af olíuskipinu Shirvan, sem kafbáturinn hafði áður skotið niður með tundurskeyti. Togarinn kom á vettvang tíu til fimmtán mínútum eftir að Goðafoss sökk. Hófu skipverjar togarans þá að varpa djúpsprengjum þar sem kafbáturinn var talinn lúra. Það voru talin nauðsynleg viðbrögð til að útrýma hættunni, svo að togarinn sjálfur yrði ekki fyrir árás kafbátsins, ef hann færi að bjarga fólki, eíns og reynslan var með Goðafoss. Annað skip kom einnig á vettvang, þegar Goðafossi var sökkt. Það var dráttarbáturinn Empire World, en honum var ætlað að bjarga olíuskipinu Shirvan, en kom aldrei framar til hafnar. Álitið var í fyrstu, að kafbáturinn hefði grandað dráttarbátnum, en síðar kom í ljós, að hann mun hafa farizt vegna óveðurs, en ekki af hernaðarvöldum. Togarinn Northern Reward flutti síðan skipbrotsmennina af Goðafossi til hafnar í Reykjavík. Eins og áður segir fórust þrír Northern-togararnir í stríðinu: Þýzkur kafbátur sökkti Rover við Orkneyjar í stríðsbyrjun, 30. október 1939, annar þýzkur kafbátur sökkti Princess undan Ameríkuströnd 7. marz 1942 og Isles strandaði nærri Durban í Afríku 19. janúar 1945.

Jón Páll Halldórsson. Sjómannabl. Víkingur 1 feb. 2006.

13.02.2021 21:42

1347. Jón Vídalín ÁR 1. TFVZ.

Skuttogarinn Jón Vídalín ÁR 1 var smíðaður hjá Maritima de Axpe Shipyard í Bilbao á Spáni árið 1974 fyrir Meitillinn hf í Þorlákshöfn. Smíðanúmer 72. 451 brl. 1.700 ha. MAN Bazan vél, 1.250 Kw. Var einn af 5 systurskipum sem smíðuð voru í þessari skipasmíðastöð fyrir íslendinga. Hluta árs 1996 hét skipið Jón Vídalín ll ÁR 1 og var í eigu Samherja hf á Akureyri. Skipið var selt 24 október 1996, Vídalín ehf á Höfn í Hornafirði, hét þá Vídalín SF 80. Togarinn var seldur til Namibíu árið 2002 og hét þar Rolmar Dos. Endaði að lokum í Montevideo í Uruguay. Var gert út þaðan sem línuveiðiskip.


1347. Jón Vídalín ÁR 1.                                                                      Ljósmyndari óþekktur.

   Nýr skuttogari til Þorlákshafnar

Nýr skuttogari, Jón Vídalín ÁR-1, er væntanlegur til Þorlákshafnar í næstu viku. Skipið, sem er eign Meitilsins h.f., er smíðað í Vigo á Spáni og á það að leggja af stað til landsins 22. marz n.k.

Morgunblaðið. 20 mars 1974.


Rolmar Dos við bryggju á Spáni.                                                    (C) Sveinn Ingi Thorarinsson.

                Jón Vídalín ÁR 1

Skuttogarinn Jón Vídalín ÁR 1 kom til landsins 16. apríl s.l. og er 4. í röðinni af 5 skuttogurum (451 brl.) af minni gerð, sem Spánverjar smíða fyrir íslendinga. Jón Vídalín ÁR 1 er byggður hjá skipasmíðastöðinni Maritima de Axpe Bilbao og er nýsmíði stöðvarinnar nr. 72. Skipið er eign Meitilsins h.f., í Þorlákshöfn. Fyrsta skuttogaranum af minni gerð frá Spáni, Hólmanesi SU, var lýst í 6. tbl. Ægis 1974 og á sú lýsing við þetta skip einnig. Í þeirri lýsingu slæddust þó inn tvær villur: Akkerisvinda er frá Ibercisa, en ekki frá Carral, eins og fram kom í lýsingu af Hólmanesi og miðunarstöð er Taiyo TD-A 120, en ekki TD-A 130. Í skipið verða sett tvö viðbótartæki umfram tækjabúnað, sem fylgdi skipunum, en uno FH 203 og netsjárasdiktækið er af gerðinni Furuno FH 203 og netsjártækið af gerðinni Furuno FNR200 (þráðlaust). Samsvarandi tæki verða einnig sett í Hólmanes SU, Otur GK og Aðalvík KE. Skipstjóri á Jóni Vídalín ÁR er Eðvald Eyjólfsson og 1. vélstjóri Steinar Óskarsson. Framkvæmdastjórar útgerðarinnar eru Benedikt Thorarensen og Ríkharð Jónsson. Rúmlestatala 451 brl.
Mesta lengd 47.55 m.
Lengd milli lóðlína 39.26 m.
Breidd 9.50 m.
Dýpt að efra þilfari 6.50 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.30 m.
Djúprista (mesta) 4.25 m.
Særými (djúprista 4.25 m.) 1060 tonn.
Burðarmagn (djúprista 4.25 m) 400 tonn.
Lestarrými 400 m3 .
Brennsluolíugeymar 168 m3 .
Ferskvatnsgeymar 37 m3 .
Ganghraði (reynslusigling) 14 sjómílur.

Ægir. 12 tbl. 15 ágúst 1974.













07.02.2021 08:04

Breski togarinn Daniel Quare GY 279 strandar við Langanes.

Breski togarinn Daniel Quare GY 279 strandaði við Skoruvík, um 5 kílómetra austan  Svínalækjartanga á Langanesi aðfaranótt 9 september árið 1955. Svartaþoka var á er togarinn strandaði en veður var gott á strandstaðnum. Varðskipið Þór var sent á staðinn og einnig lagði breska eftirlitsskipið Pincher af stað á strandstað, en það var þá statt út af Vestfjörðum. Varðskipið Þór kom á strandstað snemma morguns og tókst þá þegar að bjarga áhöfn togarans, 20 mönnum. Daniel Quare strandaði á stórgrýttum flösum og mikill leki kom að honum. Þegar leið á daginn versnaði veður þá til mikilla muna að togarinn tók að brotna á strandstað, þannig að honum varð ekki bjargað.
Daniel Quare GY 279 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1936. 440 brl. 114. H.p. (rhp) 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 1165. Hét fyrst Ocean Monarch GY 279 og var í eigu Ocean Steam Fishing Co Ltd í Grimsby. Seldur sama ár, Charlson-Smith Trawlers Ltd í Hull, hét Ocean Monarch H 327. Togarinn var tekinn í þjónustu breska sjóhersins í október árið 1939, hét þá H.M.T. Stella Carina. Seldur árið 1946, Kopanes Steam Fishing Co Ltd í Grimsby, hét Kopanes GY 279. Seldur 1949, Henry Croft Baker & Sons Ltd í Grimsby, hét þá Daniel Quare GY 279. Togarinn strandaði eins og áður sagði á Langanesi hinn 9 september árið 1955 og varð honum ekki bjargað. Enn í dag má sjá leifar hans á strandstaðnum.


St. Daniel Quale GY 279 í höfn í Grimsby.                                                         Mynd úr safni mínu.

   Brezkur togari strandar norðan á                   odda Langaness

Í fyrrinótt strandaði brezki togarinn Daniel Quare yzt og norðan á Langanesi, við Svínalækjartanga. Skipsmönnum öllum, 20 talsins, var bjargað í varðskipið Þór. Talið var óhægt um vik að bjarga skipinu, þar sem allmikill leki virtist kominn að því. Togari þessi, sem er frá Grimsby, GY-279, er um 300 smálestir, smíðaður 1936. Hann sendi út neyðarkall um kl. 1,30. Ekki var hvasst á þessum slóðum, en myrkur og niðaþoka. Var enn þoka þegar leið fram á morgun, en þá kom varðskipið Þór á vettvang. Lögðu varðskipsmenn út báti um kl. 8 og björguðu allri skipshöfn togarans.
Brezka varðskipið Pincher var um þetta leyti fyrir Vestfjörðum, en það lagði einnig af stað til strandstaðar. Var ætlunin að gera tilraun til að draga togarann aftur á flot, en þó var útlit fyrir björgun skipsins ekki vænlegt. Það er skammt frá landi á stórgrýttum flösum og er trúlegt að það hafi skemmzt illa í botninn, enda var kominn leki að skipinu. Þegar leið á daginn versnaði í sjóinn, þó enn væri veður frekar stillt. Má því búast við að erfitt verði síðar að bjarga skipinu.

Morgunblaðið. 10 september 1955.


Flakið af Daniel Quare GY 279 á strandstað við Skoruvík.                               (C) Langanesbyggð.is


Enn má sjá leifar skipsins í fjörunni.          (C) Gunnar Tryggvi Ómarsson.


                                                                    (C) Gunnar Tryggvi Ómarsson.


                                                                 (C) Gunnar Tryggvi Ómarsson.


St. Daniel Quare GY 279.                                                                             Mynd úr safni mínu.

     Togarinn sennlega eyðilagður

Reynt var í gær að bjarga brezka togaranum Daniel Quare, sem strandaði við Skoruvík á Langanesi í fyrrinótt. Kom björgunarskip á strandstaðinn í gær. Var komið dælum í skipið og var hægt að dæla úr því og var því haldið þurru, en svo brimaði aftur með flóðinu og tóku þá björgunarmenn dælurnar aftur um borð til sín. Var síðan lagt af stað frá strandstaðnum með skipbrotsmennina. Má gera ráð fyrir að skipið sé eyðilagt.

Vísir. 10 september 1955.



  • 1
Flettingar í dag: 210
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 568
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 1075590
Samtals gestir: 77617
Tölur uppfærðar: 28.12.2024 05:15:33