20.01.2017 10:53

2677. Bergur VE 44. TFZZ.

Bergur VE 44 var smíðaður hjá Skarstensens Skibsværft í Skagen í Danmörku árið 1998. 299 brl. 1.300 ha. Alpha díesel vél, 956 Kw. Smíðanúmer 376. Eigandi Bergs er Bergur ehf í Vestmannaeyjum frá árinu 2005. Hét áður Brodd 1 M 88 H og var gerður út frá Álasundi í Noregi. Var upphaflega smíðaður fyrir útgerð í Skotlandi. Ég tók þessar myndir af Berg VE þegar hann var í slippnum hér í Reykjavík í maímánuði árið 2015.


Bergur VE 44 í slipp í Reykjavík.                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1 maí 2015.


Bergur VE 44 í slipp.                                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1 maí 2015.


Bergur VE 44 ný málaður og fínn.                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 maí 2015.


                 Bergur VE 44 til Eyja

Nýjasta skipið í flota Eyjamanna er Bergur VE 44, sem kom til Eyja í lok október sl. Bergur VE, sem er um 540 brúttólestir, bar áður nafnið Brodd I og var smíðaður í Danmörku árið 1998. Skipið er 35 metra langt og 10,5 metra breitt. Kaupverð er um 200 milljónir króna og endurbætur á því í Póllandi lögðu sig á um 50 milljónir króna. Upphaflega var skipið smíðað fyrir útgerð í Skotlandi, en þaðan var það gert út til skamms tíma. Næstu árin var skipið gert út frá Álasundi í Noregi, aðallega á ufsaveiðar. Bergur ehf. í Eyjum festi kaup á skipinu, en að þeirri útgerð stendur Sævald Pálsson og fjölskylda hans. Synirnir eru allir á fullu í útgerðinni. Grétar Þór er skipstjóri á Bergi, Sigurgeir stýrimaður og afleysingaskipstjóri og Elías Geir stýrir útgerðinni í landi. Sigurbjörn Theódórsson er yfirvélstjóri.
Bergur VE er öflugt skip.
 Hann er búinn MAN B&W Alpha aðalvélabúnaði - gerð 6L28/32ADVO - sem Afltækni hefur umboð fyrir. Tvær 28 tonna togvindur eru af gerðinni Rapp. Sem fyrr segir voru gerðar endurbætur á skipinu í Póllandi, nánar tiltekið í Skipapol skipasmíðastöðinni í Gdansk í samvinnu við Vélasöluna, umboðsaðila Skipapol. Í Gdansk var skrúfustýrishringurinn tekinn af skipinu og nýtt stýri sett aftan við skrúfuna. Jafnframt var afturhluti skipsins lengdur um 1,20 metra. Lestin var endurnýjuð og henni breytt til þess að innrétta fyrir fiskikör, en nú rúmar lestin um 230 440 lítra ker. Jafnvægistankar voru settir aftur í skutinn og innréttingar í vistarverum endurnýjaðar. Skipið var sandblásið í hólf og gólf og málað með Hempels skipamálningu frá Slippfélaginu.
Vélaverkstæðið Þór í Vestmannaeyjum vann að því þegar skipið kom heim að setja upp nýja aðgerðaraðstöðu um borð og koma fyrir sjósetningarbúnaði. Skipasýn ( Sævar Birgisson ) hannaði breytingarnar á Bergi. Áður gerði Bergur ehf. út samnefnt uppsjávarveiðiskip, en Ísfélag Vestmannaeyja keypti það ásamt aflaheimildum í maí sl. og greiddi að hluta fyrir með bolfiskveiðiheimildum. Það má því segja að Bergur ehf. hafi skipt um gír, farið úr uppsjávartegundunum yfir í bolfiskinn. "Við erum mjög sáttir og teljum okkur vera komna með gott skip," segir Elías Geir Sævaldsson, útgerðarstjóri, en skipið fór í sinn fyrsta túr 17. nóvember sl. og gekk ágætlega. Í það heila hefur Bergur ehf. yfir að ráða um 1900 tonna kvóta á skipið. Ellefu manns eru í áhöfn og segist Elías Geir reikna með að skipið verði að jafnaði tæpa viku á veiðum. Aflinn verður seldur á mörkuðum, bæði hér heima og erlendis.

Ægir. 1 október 2005.

Flettingar í dag: 373
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 196
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 722559
Samtals gestir: 53632
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 20:00:41