26.01.2024 14:46

Breski togarinn Kingston Peridot H 591 ferst út af Öxarfirði.

Síðdegis hinn 10 janúar árið 1968 lagði Hulltogarinn Kingston Peridot H 591 úr höfn í Hull og var stefnan tekin á Íslandsmið, þar sem helst þótti aflavon. Sama dag lagði togarinn St. Romanus H 223 úr höfn í Hull og var ætlunin að stunda veiðar við N-Noreg. Hann hvarf með manni og mús. Hinn 14 janúar leitaði Kingston Peridot hafnar í Reykjavík með slasaðan skipverja, matsveininn. Hélt togarinn þegar út og var ákveðið að nýr matsveinn kæmi frá Hull og yrði hann sendur vestur til Ísafjarðar og togarinn tæki hann þar um borð. Kingston Peridot var að veiðum út af Vestfjörðum næstu daganna. 25 janúar var togarinn fyrir norðan land, á Skagagrunni þegar veður tók að versna þar. Ákvað skipstjóri Kingston Peridot þá að halda austur fyrir Langanes, þar sem var ennþá sæmilegt veður. Síðast heyrðist frá togaranum að morgni hins 26 janúar og var hann þá á siglingu út af Norðurlandi á leið austur að Langanesi. Veður var þá hið versta, norðan hvassviðri eða stormur með mikilli frosthörku. Talið var að togaranum hafi hvolt út af ofurþunga íss og hafróti út af Öxarfirði í þessu óveðri. 20 menn fórust með honum.
Hellyerstogarinn Kingston Peridot H 591 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948. 658 brl, 245 nettó. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvel. 181,7 x 30,8 x 16,0 ft. (ensk) Smíðanúmer 797. Togarinn var fyrst í eigu Kingston Steam Trawling Co Ltd í Hull og var hleypt af stokkunum 10 júlí og var svo afhentur eigendum sínum 25 nóvember sama ár. Togarinn var í eigu  Hellyer Brothers Ltd í Hull frá árinu 1966 þar til hann fórst út af Öxarfirði 26 eða 27 janúar árið 1968 með allri áhöfn 20 mönnum eins og áður segir.

Óveðrið sam varð Kingston Peridot að grandi var aðeins forsmekkurinn að því mannskaðaveðri er gerði í Ísafjarðardjúpi í byrjun febrúar þegar vélskipið Heiðrún ll ÍS 12 fórst með 6 manna áhöfn og 2 breskir togarar fórust. Annar þeirra, Ross Cleveland H 61 hvolfdi undan ofurþunga ísingar og fórust þar 19 skipverjar, en einn bjargaðist. Var það stýrimaður togarans, Harry Eddom. Var björgun hans kraftaverki líkust. Hinn togarinn, Notts County GY 643, strandaði við Snæfjallaströnd og fórst þar einn maður. Það má kalla það lán í óláni að togarinn hafi strandað, enda var það algerlega yfirísað og hefði að öllum líkindum fljótlega oltið undan þunga ísingarinnar og sokkið.

Togarinn Kingston Peridot H 591.                                                       (C) Clyn Woods.


                     Bretar við Ísland


Meðal þeirra togara, sem stunduðu veiðar á Íslandsmiðum í ársbyrjun 1968, var Kingston Peridot H-591, eign hins þekkta útgerðarfyrirtækis Hellyers Bros. í Hull. Lagði hann af stað úr höfn síðdegis 10. janúar og varð samferða öðrum togara, St. Romanus, út úr höfninni. Þar skildu leiðir. Kingston Peridot var stefnt á Íslandsmið en St. Romanus átti að stunda veiðar við Norður-Noreg. Hvorugt skipið átti afturkvæmt. Þau fórust bæði með manni og mús. Er talið líklegt að St. Romanus hafi farist á siglingu á miðin en síðdegis 11. janúar heyrði vélbáturinn Víkingur III frá Ísafirði, sem var á landleið úr róðri, óskýrt neyðarkall frá togaranum og daginn eftir fann danskur fiskibátur gúmbjörgunarbát sem síðar kom í ljós að var frá togaranum. Lét danski báturinn ekki vita um fund sinn fyrr en níu dögum síðar og það var ekki fyrr en 24. janúar sem skipulögð leit að St. Romanus hófst. Fannst þá einn björgunarhringur úr skipinu á svipuðum slóðum og gúmbáturinn fannst. Ferð Kingston Peridot til Íslands gekk áfallalaust að öðru leyti en því að á leiðinni féll matsveinn skipsins í stiga og varð fyrir meiðslum. Var honum komið í land og undir læknishendur á Ísafirði en þangað var þá kominn maður frá Bretlandi til að leysa hann af. Kingston Peridot hélt síðan til veiða og segir lítt af ferðum skipsins næstu daga.
Margar útgerðir höfðu reyndar ákveðið að hafa þann hátt á samskiptum við skip sín, sem voru á fjarlægum miðum, að þau létu vita um sig einu sinni á sólarhring. Við rannsókn á hvarfi St. Romanus og Kingston Peridot kom hins vegar í ljós að á þessu var mikill misbrestur og oft liðu margir dagar án þess að skipin létu frá sér heyra. Veðrátta var heldur rysjótt og stormasöm um allt land í janúar 1968. 25. janúar þótti Veðurstofu Íslands ljóst að hætta var á norðanáhlaupi og sendi þá ítrekað út viðvaranir til skipa og báta sem voru að veiðum fyrir norðan land. Þær urðu, öðru fremur, til þess að engir bátar voru þar á sjó þegar óveðrið skall á að morgni 26. janúar en vitað var þó að nokkrir erlendir togarar myndu vera að veiðum út af Norðurlandi. Vitað var að erlendu skipin fylgdust vel með íslensku veðurfréttunum og því þótti líklegt að þau hefðu haldið í landvar eða gert ráðstafanir til þess að verjast veðrinu. Veðurhæðin varð enn meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Um tíma mældist vindhraðinn 12 vindstig í Grímsey og 10 vindstig á Mánárbakka á Tjörnesi. Jafnhliða hvassviðrinu herti frost og var víða 11- 14 stig á Norðurlandi þegar líða tók á daginn og hríðarbylur varð svo svartur að vart sást út úr augum. Var þetta með verstu veðrum sem gert hafði um langan tíma og hélst óveðrið nær óbreytt í hálfan annan sólarhring. Var ekki komið skaplegt veður fyrr en undir hádegi 28. janúar.

Togarinn Kingston Peridot H 591.                                                           James Cullen.


Síðdegis 28. janúar varð vart við mikla olíubrák á sjónum í Axarfirði. Í fyrstu var hún ekki sett í samband við sjóslys en þegar mannlaus gúmbátur fannst rekinn á fjörur við Einarsstaði í Axarfirði daginn eftir höfðu menn þar nyrðra samband við Slysavarnafélag Íslands. Þeir Henry A. Hálfdánarson framkvæmdastjóri félagsins, og Hannes Þ. Hafstein erindreki könnuðu þá þegar hvort skips væri saknað en í fyrstu virtist svo ekki vera. Var það ekki fyrr en aðfaranótt 30. janúar að fregnir bárust hingað til lands að Kingston Peridot hefði ekki svarað þótt ítrekað hefði verið reynt að ná sambandi við skipið. Eftirgrennslanir leiddu í ljós að síðast hafði heyrst til togarans laust fyrir hádegi 26. janúar. Þá hafði skipstjórinn samband við starfsfélaga sinn á togaranum Kingston Sardius, sem var frá sömu útgerð. Sagðist skipstjórinn á Peridot hafa verið að veiðum á Strandagrunni en þar færi veður ört versnandi og væri hann búinn að gefa sínum mönnum skipun um að ganga frá vörpunni og ætlaði hann síðan að halda austur á bóginn í átt að Kingston Sardius. Ræddust skipstjórarnir við í um hálfa klukkustund en eftir að samtali þeirra lauk ræddu loftskeytamenn skipanna, sem voru kunningjar, saman um hríð. Lauk samtali þeirra með því að loftskeytamaðurinn á Kingston Peridot sagði að komið væri vitlaust veður, þar sem togarinn var staddur. Búið væri að gera skipið sjóklárt og áhöfnin hefði um stund reynd að berja ísinn af því („lay for a couple of hours while the crew cleared ice from the deck.“). Ákváðu„ mennirnir að tala aftur saman um kvöldið. Undir kvöld var komið svo slæmt veður, þar sem Kingston Sardius var að veiðum út af Langanesi, að skipstjórinn ákvað að hætta veiðum og halda sjó. Laust fyrir klukkan átta reyndi hann að ná sambandi við Kingston Peridot en fékk þá engin svör. Um kvöldið og nóttina var öðru hverju reynt að kalla skipið upp, en ekkert heyrðist frá því. Töldu menn líklegt að ísing hefði sest á loftnetskipsins og jafnvel slitið það niður. Daginn eftir var enn reynt að ná sambandi en eins og áður var köllunum svarað með þögninni einni. Skipstjórinn á Kingston Sardius sendi þá skeyti til útgerðarinnar í Bretlandi. Þetta var á laugardegi og var skeytið borið til skrifstofu útgerðarinnar þar sem það mun hafa legið óskoðað fram á mánudagsmorgun. Þá reyndi útgerðin að ná sambandi við togarann en fékk engin svör. Hins vegar náðist í aðra togara útgerðarinnar sem voru á Islandsmiðum.Var það þó ekki fyrr en að kvöldi 29. janúar að útgerðin ákvað að gera eitthvað í málunum en þá hafði tryggingafélag hennar haft samband og greint frá því að fregnir frá Íslandi hermdu að mikil olíubrák væri í Axarfirði og þar hefði fundist gúmbátur sem gæti verið frá Kingston Peridot. Að morgni 30. janúar var eftirfarandi tilkynningu útvarpað í Ríkisútvarpinu bæði á íslensku og ensku: „Slysavarnafélag Íslands biður alla, sem eitthvað vita um breska togarann Kingston Peridot Hull 591, að láta skrifstofu félagsins vita. Síðasta samband við þennan togara var kl. 10:00 f.h. þann 26. janúar og var hann þá staddur vestur af Grímsey. Togarinn er grámálaður og hefur reykháf með bláu flaggi og bókstafnum H.“ Næstu daga fór fram mjög umfangsmikil leit að togaranum og stjórnaði Hannes Þ. Hafstein henni. Flogið var yfir víðáttumikið svæði við Norðurland og fjörur gengnar skipulega. Fannst brak rekið á fjörur undan bænum Skógum í Axarfirði, m.a. tveir björgunarhringir sem merktir voru Kingston Peridot. Margir bátar tóku þátt í leitinni, auk varðskipsins Alberts og stjórnaði skipherra þess, Helgi Hallvarðsson, leitinni á sjó. Veittu menn því þá athygli að óvenjulega mikið hrafnager var í Lágey, einni af Mánáreyjum, og tilsýndar vitist hrafninn hegða sér eins og hann væri í æti. Datt mönnum í hug að einhverjum úr áhöfn Kingston Peridot hefði auðnast að komast á land í Lágey en ekki náð að skipbrotsmannaskýli sem var í eyjunni.

Málverk eftir Steve Farrow af Kingston Peridot H 591.


Tókst tveimur skipverjum af Albert, þeim Þorvaldi Axelssyni og Kristni Árnasyni, að komast í land í Lágey þrátt fyrir mjög erfið skilyrði. Leituðu þeir í eyjunni en urðu ekki varir við neitt sem bent gat til mannaferða. Hins vegar var fjaran við eyjuna útötuð í olíu. Gúmbáturinn, sem fannst við Einarsstaði, var fluttur til Reykjavíkur þar sem hann var rannsakaður gaumgæfilega. Af merkingum á honum varð ráðið að hann var af Kingston Peridot en ekkert benti til þess að menn hefðu komist um borð í bátinn eða hafst við í honum. Allur búnaður bátsins var á sínum stað og hnífur, sem nota átti til að skera á fangalínuna, var í slíðrum. Þótti ljóst að línan hefði slitnað af miklu átaki og var getum leitt að því að báturinn hefði blásist upp eftir að skipið var sokkið og slitið hana. Leit var haldið áfram næstu daga. Töluvert brak rak á fjörur en ekki var vitað með vissu hvort það var úr Kingston Peridot. 2. febrúar voru togarinn og áhöfn hans talin af og sama dag var tilkynnt opinberlega í Hull að St. Romanus hefði farist með allri áhöfn. 40 menn fórust með skipunum tveimur og voru flestir þeirra úr sama hverfinu í Hull, St. Andrews. Fólk þar var sem þrumu lostið og undraðist það sem því fannst vera skeytingarleysi útgerða skipanna. Var boðað til almenns fundar í hverfinu til þess að ræða slysin. Um svipað leyti og fundarboðið var borið þar í hús var fáni dreginn í hálfa stöng á byggingu Thomasar Hamling, útgerðarfyrirtækis St. Romanus, og nokkrum mínútum síðar á byggingu Hellyers Bros. Þá varð Mack Neve, framkvæmdastjóra Verkalýðssambandsins í Hull, að orði: „Fjörutíu menn farnir og þetta er allt og sumt: Fáni í hálfa stöng.“ Geysilegt fjölmenni var á fundinum sem haldinn varí kapellu í St. Andrews hverfinu.

Hulltogarinn St. Romanus H 223. Togarinn fórst við Noregsstrendur. (C) James Cullen.


Þar var ákveðið að senda fulltrúa til Lundúna og ná þar fundi Harolds Wilsons forsætisráðherra. Skrifuðu um sjö þúsund manns undir skjal þar sem skorað var á forsætisráðherrann að láta málið til sín taka og sjá til þess að öryggi breskra togarasjómanna yrði aukið og aðbúnaður þeirra um borð í skipunum bættur auk þess sem skoðun færi fram á þeim skipum sem send væru á fjarlægar og hættulegar norðurslóðir. Rétt eins og það var íslenskt fiskiskip, sem að lokum fann hina votu gröf Goth, var það hlutur sem kom upp í veiðarfærum sem upplýsti hvar Kingston Peridot hafði farið niður. 22. apríl um vorið var vélbáturinn Sæþór frá Ólafsfirði að togveiðum djúp út af Axarfirði. Þegar trollið var híft reyndist torkennilegur hlutur vera í því auk þess sem bátsverjum virtist olíubrák koma á sjóinn undan trollinu. Bátsverjar tóku hlutinn með sér í land og var hann síðan sendur til Reykjavíkur til skoðunar. Reyndist þetta vera hetta af loftventli togara. Send var lýsing á hettunni til útgerðar Kingston Peridots en þaðan fengust þau svör að hettan gæti ekki verið úr togaranum. Meira en ári eftir að togarinn fórst fékk togskipið Björgvin frá Dalvík brak í vörpu sína er skipið var að veiðum á svipuðum slóðum og Sæþór hafði fengið ventilhettuna. Brak þetta reyndist vera úr björgunarbát og sáust á því merkingar þannig að unnt var að taka af allan vafa. Það var úr björgunarbáti Kingston Peridot. Umfangsmikil sjóréttarhöld fóru fram í Hull haustið eftir slysið og mættu tveir íslendingar, Hannes Þ. Hafstein og Hlynur Sigtryggsson, fyrir rétti og gáfu skýrslur. Við það tækifæri fór fram rannsókn á ventilhettunni, sem Sæþór hafði fundið, og fékkst þá staðfest að hún var úr Kingston Peridot. Á hettunni var bót og staðfesti starfsmaður í vélsmiðju, sem vann fyrir útgerð skipsins, að hann hefði sjálfur soðið bótina á hettuna. Málarekstur snerist ekki síst um það hvort Kingston Peridot hefði farist á rúmsjó eða við land en hefði skipið farist við land hefði tryggingafélag skipsins sennilega sloppið við að greiða aðstandendum mannanna, sem fórust, bætur. Þá snerust réttarhöldin einnig um hvort Kingston Peridot hefði verið sjóhæfur og kom fram það álit skoðunarmanna að togarinn hefði tæplega talist sjóhæfur til veiða við Ísland.
Framburður þeirra Hannesar og Hlyns, og þó einkum fundur ventilhettunnar og staðfesting á því að hún væri úr togaranum, varð til þess að niðurstaða réttarins varð sú að skipið hefði farist í rúmsjó og að skipstjórnarmenn gætu ekki hafa borið ábyrgð á því hvernig fór.

Úr greininni, Bretar við Ísland.
Rifjuð upp saga nokkurra breskra togara sem horfið hafa á Íslandsmiðum á síðustu áratugum.
Steinar J Lúðvíksson.
Fiskifréttir. 47 tbl. 19 desember 1997.

Flettingar í dag: 1655
Gestir í dag: 92
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 743414
Samtals gestir: 55998
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 11:04:06