Færslur: 2015 Desember

15.12.2015 22:47

Njarðvíkurhöfn 13 október 2013.

Hér eru nokkrar myndir sem ég tók í höfninni í Njarðvík,haustið 2013. Þarna biðu þeir nú nokkrir örlaga sinna. Sennilega er nú búið að rífa þá flesta niður í dag.


                                                                                                     (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.

14.12.2015 21:38

Líkön af Nýsköpunartogurunum. Vlll.

132. Kaldbakur EA 1. TFBC. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir Útgerðarfélag Akureyringa og var þriðji í röð Nýsköpunartogaranna sem komu til landsins. 654 brl. 1000 ha. 3 þjöppu gufuvél. Togarinn var seldur í brotajárn til Spánar í apríl árið 1974. Sæmundur Auðunsson var fyrsti skipstjóri á Kaldbak.


132. Kaldbakur EA 1. TFBC.                                            (C) Mynd: Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


132. Kaldbakur EA 1. TFBC.                                            (C) Mynd: Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

 
Togarinn Kaldbakur EA 1 við komuna til Akureyrar í fyrsta skipti hinn 17 maí árið 1947. Eins og sést á myndinni var komu þessa glæsilega skips ákaft fagnað af bæjarbúum,enda miklar vonir bundnar við þessi nýju atvinnutæki landsmanna.                                                           (C) Mynd: Stefán V Pálsson.

13.12.2015 16:50

Reykjavíkurhöfn 26 desember 2013.

Frystitogarar Brims h/f liggja hér við Miðbakka Reykjavíkurhafnar yfir jólahátíðina eins og þeir hafa löngum gert.


                                                                                                  

2850. Skálaberg RE 7. TFKV. Smíðaður í Kirkenes í Noregi 2003. 3.650 brl. 10.880 ha. Wartsila díesel vél. 8.000 Kw. Skipið var mestmegnis bundið við bryggju í Reykjavík meðan það var í eigu Brims h/f. Togarinn var seldur til Grænlands í maí 2014 og heitir þar Ilivileq GR-2-201. Hvort hann sé gerður þaðan út í dag,veit ég ekki.


2770. Brimnes RE 27. TFKD. Smíðaður í Tomrefjord í Noregi árið 2002. 1.503 brl. 8.160 ha. Wartsila díesel vél. 6.000 Kw.


2626. Guðmundur í Nesi RE 13. TFKG. Smíðaður í Tomrefjord í Noregi árið 2000. 1.315 brl. 7.507 ha. Wartsila díesel vél. 5.520 Kw.                                                                  (C) myndir: Þórhallur S Gjöveraa.

12.12.2015 17:14

Varðskipið Ægir. TFEA.

Ægir var smíðaður hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1929 fyrir Ríkissjóð Íslands. 497 brl. 1.300 ha. B & W díesel vél. Ægir mun vera fyrsta díeselknúna gufuskip Íslendinga ef ég man það rétt. Fyrsti skipherra á Ægi var Einar M Einarsson. Skipið var selt til Englands í brotajárn árið 1968. 


Varðskipið Ægir. Á myndinni er skipið með opinn stjórnpall en honum var svo lokað síðar. Síðustu breytingar á skipinu voru gerðar árið 1954.                                      (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


Varðskipið Ægir. Líkan.                                                                   (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

11.12.2015 20:00

Strandferðaskipið Sterling á strandstað við Brimnes í Seyðisfirði í maí 1922.

Þessi ljósmynd af Strandferðaskipinu Sterling á strandstað verður að teljast til sögulegra heimilda. Veit ekki til þess að aðrar séu til af flaki skipsins. Það brotnaði niður í næsta brimi eftir strandið og hvarf að mestu. Upplýsingar um Sterling eru að finna í færslu frá 28 nóv síðast liðinn.


Mér er ekki kunnugt um hvaða fólk þetta er sem sést í forgrunni. Flak skipsins virðist tiltölulega heillegt að sjá fyrir utan formastrið sem hefur brotnað.                                                 Ljósmyndari óþekktur.

10.12.2015 10:42

Reykjavíkurhöfn stuttu eftir 1920.

Þessi mynd er tekin 4 til 5 árum eftir að hafnargerð lauk að mestu í Reykjavík. Það sést líka hversu gríðarlegar hafnarbætur þessi framhvæmd var sem gerð var á árunum 1913-17. Togarinn Austri RE 238 liggur við gömlu steinbryggjuna. Gamlir uppskipunar prammar liggja þar einnig. Togarar og kaupskip liggja í röðum við gamla kolaportið,vestan Ingólfsgarðs. Kveldúlfstogarinn sem ber í skut Austra er sennileg Þórólfur RE 134. Úti við Örfiriseyjargranda liggja togararnir í bólum sínum. Lengst til hægri eru tveir menn að sjósetja bát við Knútsen bryggju að ég held. Togarinn Austri RE 238 var smíði númer 226 hjá Cook Welton &Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1911 fyrir Neptune Steam Fishing & Co í Hull,hét MacKenzie H 349. 314 brl.550 ha.3 þjöppu gufuvél. Tekinn í þjónustu breska sjóhersins árið 1914. Seldur árið 1919,Yarborough Steam Fishing & Co í Grimsby,hét MacKenzie GY 99. Seldur Fiskiveiðahlutafélaginu Kára í Reykjavík í mars árið 1920,hét Austri RE 238. Seldur í nóvember árið 1924,h/f Kára í Viðey,hét Austri GK 238. Togarinn strandaði á Illugagrunni rétt vestan við Vatnsnes á Húnaflóa,7 september árið 1927. Áhöfnin bjargaðist á land en togarinn eyðilagðist á strandstað.


Reykjavíkurhöfn í upphafi þriðja áratugarins.                                                Ljósm: Magnús Ólafsson.

09.12.2015 09:27

Líkan af Freyr RE 1. TFXO.

Freyr RE 1. TFXO. Smíðaður hjá A.G.Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1960 fyrir Ísbjörninn h/f í Reykjavík. 987 brl. 2.300 ha. Werkspoor díesel vél. Togarinn var seldur Ross Trawlers Ltd í Grimsby 4 september 1963,hét hjá þeim Ross Revenge GY 718,og gerður út þar til ársins 1979 er hann var seldur útvarpsstöðinni Radio Caroline. Skipið var rekið sem útvarpsstöð úti fyrir ströndum Bretlands frá 1983 til ársins 1991.Ross Revenge er nú safn í Englandi. Freyr RE 1 átti þrjú systurskip hér á landi,þau voru: Maí GK 346,Sigurður ÍS 33,seinna RE 4 og Víkingur AK 100,sem öll eru farin í brotajárn.


Freyr RE 1.                                                                                      (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


Stjórnpallur togarans.                                                                        (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


Framskipið og hvalbakur.                                                                   (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


Freyr RE 1 við Ingólfsgarð í Reykjavíkurhöfn.                                        Ljósm: Jóhannes Haraldsson.


Ross Revenge GY 718.                                                                            (C) mynd: Trawlers Photo.


Ross Revenge sem Radio Caroline.                                                           (C) mynd: Radio Caroline.

08.12.2015 10:50

Líkan af Sáputogara.

Vörður BA 142. TFZC. Smíðaður í Wesermunde í Þýskalandi árið 1936. Hét fyrst Northern Reward LO 168. Togarinn var í eigu h/f Varðar á Patreksfirði frá marsmánuði 1947 þar til hann ferst í hafi á leið til Englands í söluferð,29 janúar 1950. 5 skipverjar fórust en 14 skipverjum var bjargað um borð í togarann Bjarna Ólafsson AK 67 frá Akranesi. Allar upplýsingar um Vörð er að finna hér neðar á síðunni í færslu frá 26 október síðastliðinn.


Vörður BA 142.                                                                                    (C) mynd: Grétar F Felixson.


Sáputogarinn Vörður BA 142.                                        (C) mynd: Hafliði Óskarsson. (togarar.123.is)

07.12.2015 16:42

Líkön af Nýsköpunartogurunum. Vll.

Hafliði SI 2. TFDE. Smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir Útgerðarfélagið Hrímfaxa og Sviða h/f í Hafnarfirði. Hét Garðar Þorsteinsson GK 3. 677 brl. 1000 ha. 3 þjöppu gufuvél. 15 mars 1951 var skráður eigandi Ríkissjóður Íslands. Togarinn var seldur 24 júlí 1951,Bæjarsjóði Siglufjarðarkaupstaðar, hét Hafliði SI 2 hjá þeim. Skipið var selt 2 maí 1969,Útgerðarfélagi Siglufjarðar h/f á Siglufirði,sama nafn og númer. Togarinn var seldur til Englands í júní árið 1973.


75.Hafliði SI 2.                                             (C) mynd: Guðmundur Gauti Sveinsson. (skoger.123.is)


75.Hafliði SI 2.                                             (C) mynd: Guðmundur Gauti Sveinsson. (skoger.123.is) 


Togarinn Hafliði SI 2.                                                                       Ljósm: Auður Ingólfsdóttir. 1967.

06.12.2015 10:22

Líkön af Nýsköpunartogurunum. Vl.

Ísborg ÍS 250. TFRE. Smíðuð hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir Útgerðarfélag Ísfirðinga h/f á Ísafirði. 655 brl. 1000 ha. 3 þjöppu gufuvél. Togarinn var seldur,2 desember 1963 Stofnlánadeild sjávarútvegsins í Reykjavík.Hét Ísborg. Var breitt í vöruflutningaskip og sett í það 750 ha. Scandia díesel vél. Selt 20 apríl 1964,Borgum h/f í Reykjavík. Selt 5 febrúar 1969,Guðmundi A Guðmundssyni h/f í Reykjavík. Skipið var selt til Grikklands í desember árið 1973.
 
Ísborg ÍS 250.                                                                                (C) mynd: Sæmundur Þórðarson.


Ísborg ÍS 250 við komuna til Ísafjarðar,5 maí 1948.                     (C) mynd: Ljósmyndasafnið á Ísafirði.

 
Vöruflutningaskipið Ísborg.                                                                              Ljósmyndari óþekktur.
 


05.12.2015 09:11

Líkön af Nýsköpunartogurunum. V.

Fylkir RE 161. TFCD. Smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir Fylki h/f í Reykjavík. 677 brl. 1000 ha. 3 þjöppu gufuvél. Togarinn sökk um 25 sjómílur norður af Straumnesi,14 nóvember 1956. Tundurdufl kom í veiðarfæri skipsins og sprakk við síðu þess með fyrrgreindum afleiðingum. Áhöfnin,32 menn komst í annan björgunarbát skipsins og var bjargað þaðan um borð í togarann Hafliða SI 2 frá Siglufirði.


Togarinn Fylkir RE 161. TFCD.                                                          (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

 Í gærmorgun,14 nóvember fórst togarinn Fylkir frá Reykjavík um 25 sjómílur úti í hafi norður af Straumnesi, eftir að feikna sprenging hafði orðið undir síðu skipsins, sem stafað hefur af því að virkt tundurdufl hefur komið í vörpu skipsins, sem skipverjar voru þá að taka inn. Eftir sprenginguna sökk togarinn á fáeinum mínútum, og komust skips menn allir í annan björgunarbátinn, en togarinn Hafliði bjargaði skipbrotsmönnum úr bátnum, öllum ómeiddum utan einn, sem farið hafði úr axlarlið, en annar sem farið hafði í sjóinn hafði sopið nokkuð af sjó. Skipbrotsmenn eru væntanlegir til Reykjavíkur í fyrramálið (fimmtudag). Það var um klukkan 7,20 sem þessi atburður gerðist. Þá var enn dimmt, sjór þungur, en Fylkir hafði verið úti alls um átta daga, en úthaldið orðið tafsamt vegna storma. Á þessum slóðum voru i gærdag 10-11 vindstig og stórsjór. Skipverjar voru að taka inn belginn á vörpunni (hífa í stertinn eins og sjómenn kalla það), er mikil sprenging varð undir skipinu, sem orsakaðist af því að tundurdufl hafði lent i belgnum. Um leið og hin mikla sprenging varð valt Fylkir yfir á bakborða. Átti það sinn þátt í því telja skipsmenn, að tjónið af sprengingunni varð minna en ella. Við sprenginguna gekk allt meira og minna úr skorðum. Ljósavélin stöðvaðist, loftnetin slitnuðu niður, þungar hurðir í skipinu fóru af hjörum og skipverjar sem voru í kojum köstuðust fram á gólf.

 
Afturskip togarans.                                                                                       (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

 Þegar þetta gerðist var skipstjórinn á togaranum, Auðunn Auðunsson, einn kunnasti maður í hópi togaraskipstjóra, sofandi i skipstjóraklefanum. Felmtri sló á skipverja sem von var og þeir áttuðu sig ekki á þvi i fyrstu hvað eiginlega hafði borið að höndum. Skipstjórinn þaut strax niður í vélarúm, þar sem vélstjórarnir voru að koma ljósavélinni í gang á ný. þar var enginn sjór. Leki hafði komið í fisklest, er komið hafði gat á skipið við sprenginguna. Í fyrstu gerðu skipsmenn sér nokkrar vonir um að ekki væri gatið meira en það, að hægt væri með öllum dælum skipsins að hafa við þeim leka. En svo ágerðist lekinn fljótlega og tók skipið þá að síga mjög fljótt, svo að aðeins fáar mínútur liðu, þar til Fylkir, þetta happaskip, hvarf í djúpið, en skipsmönnum hafði tekizt að koma fleka á flot og stjórnborðsbátnum. Voru mennirnir á flekanum fáir og þar aðeins skamma stund, því þeir voru teknir yfir í björgunarbátinn. Voru þá komnir í hann 32 menn og var hann þá orðinn mjög siginn.  Sjór var þungur. Strax og sprengingin varð sendi loftskeytamaðurinn, Jörundur Sveinsson, út neyðarskeyti og skotið var upp neyðarflugeldum og svifblysum. Það var haldið áfram að skjóta þeim þegar komið var út í björgunarbátinn. Skipbrotsmenn í bátnum vissu hins vegar ekki hvort skip sem var í nokkurri fjarlægð,  en þeir sáu ljós Þess í myrkrinu , myndu hafa heyrt neyðarkallið, því loftnetið slitnaði og sendirinn því nær óvirkur. Sem fyrr segir hafði Fylkir verið í þessari veiðiför átta daga. Sagði skipstjórinn, að aðeins á þessari stundu, alla þessa átta daga, hefði veðrið verið svo hagstætt að hægt hafi verið að koma björgunarbát niður, óskemmdum. Hina dagana alla hafi verið ófært veður.


Stjórnpallur togarans.                                                                                   (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

Þegar loftskeytamaðurinn sendi út neyðarkallið, var loftskeytamaðurinn á Siglufjarðartogaranum Hafliða SI 2 á varðbergi í klefa sínum. Heyrði hann eitt kall frá skipinu og hann sá líka neyðarflugeldana. Skipstjórinn á togaranum, Alfreð Jónsson, sem eins og þeir á Fylki var að veiðum, lét strax taka vörpuna inn og hélt Fylkismönnum til hjálpar. Á leiðinni sáu þeir frá Hafliða, hvar skotið var upp blysum frá björgunarbátnum og auðveldaði og hraðaði það björgun þeirra, því Hafliði gat siglt með fullri ferð alla leið og þurfti ekki að tefja við að leita bátsins í myrkrinu. Skipverjar af Fylki höfðu verið um hálfa klukkustund í bátnum er Hafliði kom á vettvang. Einn skipverjanna, Ólafur Halldórsson frá Hafnarfirði, hafði farið úr axlarlið, en Gunnar Eiríksson frá Vestmannaeyjum hafði fallið í sjóinn og sopið nokkuð af sjó.  Þessir menn voru fluttir í sjúkrahúsið hér er togarinn Hafliði kom hingað inn til ísafjarðar klukkan 1,30 í dag með áhöfn Fylkis. Hér höfðu þeir nokkurra klst. viðdvöl og var þá boðið til kaffidrykkju í Uppsölum af Útgerðarfélaginu ísfirðingi h.f.  Í kvöld héldu þeir áleiðis til Reykjavíkur með skipi og eru væntanlegir þangað árdegis í dag. Þeir sem fluttir voru í sjúkrahúsið koma þó ekki með hópnum. Togarinn Fylkir var 677 tonna skip. Aðalsteinn heitinn Pálsson keypti það til landsins fyrir samnefnt hlutafélag og var hann sjálfur með togarann fyrstu árin, en síðan tók Auðunn Auðunsson við, en hann er einn hinna miklu sægarpa, sona Auðuns Sæmundssonar, sem sjálfur var bræðslumaður á Fylki og lenti í þessum mannraunum með syni sínum og skipsfélögum. Tvisvar hefur Fylkir bjargað nauðstöddum skipum; var það togarinn Gylfi frá Patreksfirði í annað skiptið, er eldur kom upp í skipinu, en þá dró Fylkir togarann hingað inn til Reykjavíkur brennandi. í hitt skiptið var það erlent vöruflutningaskip sem var í nauðum statt í stórviðri úti fyrir suðurströnd landsins. Togarinn Fylkir er þriðji nýsköpunartogarinn, sem ferst. Hann var löngum eitt af aflasælustu skipum flotans.Framskipið og bakkinn.                                                                    (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

Skipshöfnin á Fylki sem komst af  Samkvæmt upplýsingum frá Þorsteini Einarssyni, forstöðumanni skrifstofu lögskráningar skipshafna, voru þessir menn á Fylki í þessari síðustu veiðiferð skipsins: Auðunn Auðunsson, skipstjóri, Gunnar Hjálmarsson, 1. stýrim., Lundi við Nýbýlaveg. Valdimar Einarsson, 2. stýrim., Nesvegi 66. Viggó Gíslason, 1. vélstjóri, Mávahlíð 24. Guðmundur í. Bjarnason, 2. vélstjóri, Kvisthaga 21. Þórður Hannesson, 3. vélstjóri, Hverfisgötu 96. Jörundur Sveinsson, loftskeytam., Litla-Landi, Mosfellssveit. Þorbjörn Þorbjörnsson, bátsm., Birkimel 6A. Emil Pálsson, 1. matsveinn, Vestmannaeyjum. Karl Jóhannsson, 2. matsveinn, Akurgerði 8. Einar Steingrímsson, kyndari, Reykjahlíð 10. Auðunn Sæmundsson, bræðslumaður, Miklubraut 62. Magnús G. Jóhannsson, netam., Akranesi. Rafn Kristjánsson, netamaður, Lækjargötu 12. Steingrímur Elíasson, netamaður. Stað, Seltjarnarnesi. Jóhannes H. Jónsson, Höfðaborg 39. Magnús Jónasson, háseti, Skipasundi 13. Ólafur Halldórsson, háseti, Eskihlíð 12B. Guðmundur Guðlaugsson, háseti, Tálknafirði. Hafsteinn Gunnarsson, háseti, Höfðaborg 41. Árni Konráðsson, háseti, Bergþórugötu 41. Þór G. Jónsson, háseti, Víðimel 49. Ari Jóhannesson, háseti, Vesturgötu 55. Kristmundur Þorsteinsson, háseti, Flókagötu 18. Gunnar Eiríksson, háseti, Vestmannaeyjum. Guðjón Sigmundsson, háseti, skála við Faxaskjól. Ragnar Zophóníasson, háseti, Mávahlíð 9. Ásgeir Þorsteinsson, háseti, Borgarholtsbraut 30A, Kópav. Friðþjófur Strandberg, háseti, Rvík. Heimilisfang ókunnugt. Indriði Indriðason, háseti, Hverfisgötu 98A. Njáll Guðmundsson, háseti, Skipasundi 3. Benedikt Kristinsson, háseti, Hjallavegi 10.

                                                                           Heimildir; morgunblaðið 15 nóv 1956.

                                                                                         Íslensk skip.

04.12.2015 10:33

Líkön af Nýsköpunartogurunum. lV.

Elliði SI 1. TFID. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Siglufjarðar. 654 brl. 1000 ha. 3 þjöppu gufuvél. Togarinn fórst um 25 sjómílur norðvestur af Öndverðarnesi,10 febrúar 1962. Tveir menn fórust er gúmmíbjörgunarbátur sem þeir komust í,slitnaði frá skipinu í aftaka veðri. 26 skipverjum var bjargað á síðustu stundu við illan leik um borð í togarann Júpíter RE 161 frá Reykjavík. Það má geta þess að vélbáturinn Skarðsvík SH 205 frá Rifi sem fann gúmmíbjörgunarbátinn af Elliða með líkum skipverjanna tveggja sem fórust,sökk þegar báturinn var á heimleið eftir að mikill leki kom að honum. Áhöfninni var bjargað um borð í Stapafell SH 15 frá Ólafsvík.

 
Elliði SI 1.                                                  (C) mynd: Guðmundur Gauti Sveinsson. (skoger.123.is)


Elliði SI 1. Sjá má í líkan af togaranum Hafliða SI 2,en honum verða gerð góð skil síðar.
                                                               (C) mynd: Guðmundur Gauti Sveinsson. (skoger.123.is

 Á sunnudaginn,19 október lagðist hinn nýi togari Bæjarútgerðar Siglufjarðar, Elliði SI 1 í fyrsta sinn að bryggju á Siglufirði. Þetta er fyrsti togarinn, sem Siglfirðingar eignast og fyrsti togarinn, sem héðan verður gerður út. Það er því fyllilega réttmætt að segja, að koma þessa glæsilega skips marki tímamót í sögu bæjarins. Nýr þáttur er að hefjast í athafnalifi hans, togaraútgerð. Mikliar vonir eru tengdar við þennan atburð. Siglufjörður er mikill starfs og athafnabær. - Hvergi á íslandi mun vera aflað jafnmikilla verðmæta fyrir þjóðarbúið og hér á Siglufirði, að tiltölu við fólksfjölda. Og tæpast mun sá bær finnast hér á landi, þar sem jafnmikill fjöldi íbúanna vinnur við arðskapandi framleiðslustörf yfir sumartímann og hér. En samt sem áður stendur ennþá ófyllt skarð í athafnalifi bæjarins. Atvinnuleysið herjar enn á íbúana á hverjum vetri. Vinnan við síldveiðarnar er aðeins árstíðarvinna. Framleiðslan þarf að verða fjölbreyttari. Siglfirðingar þurfa að einbeita sér að því að fylla þetta skarð á sem skemmstum tíma.Að því ættu allir bæjarbúar að geta stuðlað af fremsta megni, án flokkadrátta. Hér þarf að rísa upp fiskútgerð og verksmiðjuiðnaður í sambandi við sjávarútveginn, sem starfræktur yrði allt árið og ekki sízt á veturna. Nýi togarinn á að geta fyllt þetta skarð að nokkru, þó miklu þurfi þar við að bæta. Auk þeirra siglfirzku sjómanna, sem vinna á skipinu, mun verða nokkur vinna í Iandi í sambandi við útgerð hans. Koma togarans Elliða er vissulega merkilegur og gleðilegur viðburður í sögu bæjarins, og munu árnaðaróskir allra bæjarbúa fylgja honum og skipshöfn hans, er hann leggur upp í sína fyrstu veiðiför, og ævinlega. Bræðslutæki Elliða eru smíðuð af vélsmiðjunni Héðni í Reykjavik. Voru þau tekin um borð um daginn, er togarinn fór til Hafnarfjarðar. Er nú unnið af kappi að því, að setja tækin niður og mun það sennilega taka 1-2 vikur.

                                                                            Heimild: Mjölnir,10 árg.22 okt.1947.

Togarinn Elliði SI 1 við bryggju á Siglufirði.                                                Ljósm: Hinrik Andrésson.

Ég vil þakka Guðmundi Gauta Sveinssyni fyrir þessar myndir af líkaninu af Elliða.

Einnig vil ég þakka Sæmundi Þórðarsyni og Hauki Sigtryggi Valdimarssyni fyrir þeirra innlegg sem birt verða hér á síðunni á næstunni. Bestu kveðjur.

03.12.2015 10:54

Líkön af Nýsköpunartogurunum. lll.

Ingólfur Arnarson RE 201. TFXD. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. 654 br. 1000 ha. 3 þjöppu gufuvél. 26 júní 1972 urðu nafnaskipti á togaranum,hét Hjörleifur RE 211. Seldur í brotajárn til Spánar í desember 1974. Ingólfur var fyrsti Nýsköpunartogarinn sem kom til landsins,17 febrúar 1947. Jafnframt var hann fyrsta fiskiskip í heiminum með ratsjá svo vitað sé. Á þeim rúmlega 27 árum sem Ingólfur var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur aflaði hann um 94 þúsund tonna að andvirði 2.500 milljóna króna (1974). Togarinn kostaði 3 milljónir nýsmíðaður en seldur í brotajárn fyrir 9 milljónir.


121. Ingólfur Arnarson RE 201.                                                          (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


Afturskip togarans.                                                                           (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


Togarinn Ingólfur Arnarson RE 201 við komuna til Reykjavíkur,17 febrúar 1947. Mikill mannfjöldi hafði safnast saman á Miðbakka Reykjavíkurhafnar að bera þennan fyrsta boðbera nýsköpunar augum og einnig að fagna komu þessa glæsilega togara Bæjarútgerðar Reykjavíkur til landsins. Ljósm: Þórarinn Sigurðsson.                          

02.12.2015 08:45

Líkön af Nýsköpunartogurunum. ll.

Jón forseti RE 108. TFME. Smíði no: 792 hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir h/f Alliance í Reykjavík. 675 brl. 1000 ha.3 þjöppu gufuvél. Togarinn var seldur Henriksen & Co Ltd í Hull,9 júní 1966,hét hjá þeim Larissa H 226. Seldur Thomas W. Ward í brotajárn,18 apríl 1968 og rifinn í júní sama ár. Jón forseti var sennilega eini Íslenski togarinn sem seldur var í söluferð með ísfisk til Englands.


Jón forseti RE 108.                                                                           (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


Bátapallur var settur á skipið seinna.                                                  (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


Jón forseti RE 108.                                                                           (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

01.12.2015 21:12

Líkön af Nýsköpunartogurunum.

Hallveig Fróðadóttir RE 203. TFUE. Smíðuð hjá Goole S.B.& Repg. Co Ltd í Goole á Englandi árið 1949 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. 609 brl. 1200 ha.Ruston díesel vél.Togarinn var seldur til Spánar í brotajárn í febrúar 1974. Hallveig Fróðadóttir var fyrsti díesel togari Íslendinga.


Hallveig Fróðadóttir RE 203.                                                              (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa. 


Fallegt skip Hallveig.                                                                        (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


Afturskipið,bátapallurinn og vélarreisn.                                               (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.
Flettingar í dag: 710
Gestir í dag: 261
Flettingar í gær: 1610
Gestir í gær: 153
Samtals flettingar: 1952272
Samtals gestir: 494573
Tölur uppfærðar: 5.8.2020 10:00:25