Færslur: 2016 Maí

14.05.2016 08:28

Flakið af togaranum Marz RE 114 við Gerðahólma í Garði á Reykjanesi árið 1916.

Þann 26 október árið 1916 strandaði botnvörpungurinn Marz RE 114 við Gerðahólma, skammt frá Garði á Reykjanesi. Veður var fremur slæmt er skipið strandaði, en greiðlega gekk þó að bjarga áhöfninni á land. Um björgun skipsins var hins vegar strax vonlítið, þar sem það brotnaði mikið við strandið og nóttina eftir var einnig mikið brim á strandstaðnum og þá barst skipið enn hærra upp. Björgunarskipið Geir var sent á staðinn, en hafði þar aðeins skamma viðdvöl, þar sem skipstjóri þess taldi með öllu þýðingarlaust að reyna björgun. Hins vegar tókst að bjarga nokkru af búnaði skipsins.
B.v. Mars RE 114 var eitt kunnasta aflaskip íslenska togaraflotans á þessum tíma. Var skipið í eigu Íslandsfélagsins í Reykjavík frá árinu 1907. Togarinn var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Hull árið 1900, 213 brl. með 430 ha. 3 þjöppu gufuvél. Hét áður Seagull H 494 og mun hafa borið það nafn hér við land í fyrstu. Hjalti Jónsson (Eldeyjar-Hjalti) var lengi skipstjóri á Marz, en síðar tók annar þekktur sægarpur, Þorsteinn í Þórshamri við stjórn skipsins.


B.v. Marz RE 114 á strandstað. Unnið við að bjarga verðmætum úr flaki hans.


Flak togarans Marz RE 114.


Allt hirt úr flakinu sem heillegt er.                                        (C) Myndir: Handels & söfartsmuseets.dk


B.v. Mars RE 114 við bryggju í Reykjavík.                                                   Ljósm: Magnús Ólafsson.

Heimild: Þrautgóðir á raunastund 9 bindi. 

13.05.2016 09:59

Arctic. OYKV / TFMB.

Arctic var smíðuð í Bergkvara í Svíþjóð árið 1919. 491 brl. 220 ha. Völund vél. Skipið var 3 mastra skonnorta. Eigandi var Fiskimálanefnd í Reykjavík frá 27 október 1938. Fyrri eigendur voru m.a. Köbenhavns Skibssalgs-Bureau Havnegade í Kaupmannahöfn, M. Dahl A/S í Vogi í Færeyjum og Grönlands Havfiskeriselskab Nordlyset A/S. P.A.Jensen í Kaupmannahöfn. Skipið var útbúið til flutninga á frystum fiski til Evrópulanda og flutti vörur einnig til Íslands. Arctic strandaði við Stakkhamarsnes á Mýrum, Miklaholtshreppi, 17 mars árið 1943. Áhöfnin, 11 menn bjargaðist á land en skipstjórinn dó af vosbúð fáum dögum síðar.

Arctic í erlendri höfn.                                                                                      Ljósmyndari óþekktur. 

12.05.2016 11:27

Beðið eftir löndun í Neskaupstað í febrúar 1979.

Við bæjarbryggjuna í Neskaupstað bíða nokkrur loðnuskip eftir löndun í hina nýju loðnubræðslu SVN, sem sést fyrir miðri mynd í botni fjarðarins. Hún tók til starfa þremur árum fyrr eða 12 febrúar 1976. Myndin er svolítið óskýr, en ég held að það sé 1029. Svanur RE 45 sem liggur að austanverðu við bryggjuna. 
Loðnuskip við bæjarbryggjuna.                                     (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa. febrúar 1979.

11.05.2016 09:45

E.s. Esja l. LCJW / TFSA.

Esja var smíðuð hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsværft í Kaupmannahöfn árið 1923 fyrir Landsstjórnina (Ríkissjóð Íslands). 749 brl. 600 ha. 3 þjöppu gufuvél. Kom í fyrsta skipti til landsins hinn 19 apríl það ár. Fyrsta skipið sem sérstaklega var smíðað til strandsiglinga fyrir Íslendinga. Esja var seld til Chile árið 1938. Bar nafnið Tenglo þar, strandaði 28 nóvember árið 1955. Engar frekari upplýsingar um strandstað eða afdrif áhafnar skipsins.


Esja l á Reykjavíkurhöfn.                                                            Ljósm: óþekktur. Mynd í minni eigu.

10.05.2016 08:48

E.s. Á. Ásgeirsson.

E.s. Á. Ásgeirsson var smíðaður í Renfrew í Skotlandi árið 1869. 849 brl. Gufuvél, stærð ókunn. Ásgeir G Ásgeirsson kaupmaður á Ísafirði keypti skipið árið 1894. Þetta mun hafa verið fyrsta vélknúna millilandaflutningaskip í eigu Íslendinga. Síðar komst það í eigu Ásgeirsverslunar á Ísafirði. Heimahöfn skipsins var alla tíð Kaupmannahöfn. Skipið kom fyrst til landsins 8 maí 1894 og hóf þá ferðir milli Íslands og Evrópulanda og flutti einkum vörur til og frá Ásgeirsverslun á Ísafirði. Sigldi oft með saltfisk til Spánar og annarra Miðjarðarhafslanda og flutti salt og ýmsar aðrar vörur heim. Á. Ásgeirsson sigldi einnig mikið milli hafna erlendis.Skipið var selt til Abo í Finnlandi 5 mars árið 1915. Fórst á tundurdufli í Finnska flóanum 2 eða 3 árum síðar. Engar upplýsingar um afdrif áhafnarinnar.


Gufuskipið Á. Ásgeirsson á pollinum á Ísafirði.          Ljósm: Björn Pálsson. Ljósmyndasafnið á Ísafirði.

Heimild: Héraðsskjalasafnið á Ísafirði.

09.05.2016 08:22

Gulltoppur RE 247. LCJT / TFBC.

Gulltoppur RE 247 var smíðaður hjá Unterweser í Wesermunde (Lehe) í Þýskalandi árið 1921. Eigandi frá 1922 var Sigfús Blöndahl í Reykjavík, smíðanúmer 187. 316 brl. 600 ha. 3 þjöppu gufuvél. Skipið var selt 1924, h/f Sleipni í Reykjavík. (Andri RE 95, upplýsingar vantar). Seldur 20 mars 1928, h/f Andra á Eskifirði, hét Andri SU 493. Seldur í nóvember 1932, Bergi h/f í Hafnarfirði, hét Andri GK 95. Skipið var selt 3 maí 1937, Ólafi Jóhannessyni & Co h/f á Patreksfirði, hét þar Vörður BA 142. 8 ágúst 1942 var h/f Vörður á Patreksfirði skráður eigandi. Togarinn var seldur til Færeyja 24 mars árið 1947. Hét þar Hoddaberg. Talinn ónýtur og rifinn í Drelnes í Trangilsvogi í Færeyjum árið 1955.


Gulltoppur RE 247 á siglingu.                                         Ljósmyndari óþekktur, mynd í minni eigu.

08.05.2016 10:23

Flak Nýsköpunartogarans Jóns Baldvinssonar RE 208 við Hrafnkelsstaðaberg á Reykjanesi 31 mars 1955.

Jón Baldvinsson RE 208. TFCK. Smíðaður hjá Hall Russell & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. Smíðanúmer 826. 681 brl. 1.000 ha. 3 þjöppu gufuvél. Togarinn strandaði við Hrafnkelsstaðaberg á Reykjanesi 31 mars árið 1955. Áhöfninni, 42 mönnum var bjargað upp á bjargið af Björgunarsveit Slysavarnarfélags Íslands í Grindavík. Þessi myndasyrpa hér að neðan er tekin af Hannesi Pálssyni og sýnir vel þau örlög sem þetta glæsilega skip hlaut í baráttunni við úthafsölduna.


Jón Baldvinsson RE 208 á strandstað. Holskeflunnar æða yfir flakið og eira engu.


Línan sem áhöfninni var bjargað með sést greinilega. Brimið hamast stanslaust á flaki togarans.


Flaki togarans hvolfdi fljótlega í brimöldunni.


Botn togarans sundurtættur eftir stórgrýtið í urðinni undir berginu við strandstaðinn.

Undan þessu bjargi verður engu skipi bjargað.

Togarinn Jón Baldvinsson fórst í fyrrinótt - Áhöfn 42 Mönnum bjargað.

Togarinn fór á fullri ferð upp í stórgrýtisurð á Reykjanesi.

 Hraðað förinni.
Enn var unnið mikið björgunarafrek í gærmorgun, er hópur vaskra Grindvíkinga bjargaði áhöfn Reykjavíkurtogarans Jóns Baldvinssonar, er strandaði undir bröttum hömrum kippkorn fyrir austan gamla vitann á Reykjanesi. Sigldi togarinn þar í Iand með fullri ferð um klukkan 4 í fyrrinótt. Togarinn var á saltfiskveiðum og voru á honum 29 íslendingar og 13 Færeyingar.  Sjópróf í máli þessu hefst í dag, en ástæðan til strandsins er ókunn. Veður var stillt en allþétt þoka. Björgun togarans er með öllu vonlaus.

Fregnin um strand nýsköpunartogarans Jóns Baldvinssonar flaug um bæinn árla í gærmorgun. Fólk varð þrumulostið yfir þessum illu tíðindum, og minntist þess, að fyrir um tveim mánuðum síðan fórst fyrsti nýsöpunartogarinn Egill rauði. En þungu fargi var af mönnum létt, er fregnir bárust um að björgunarstarfið hefði gengið framúrskarandi vel. Tíðindamenn Mbl. fóru á strandstaðinn í gær og áttu þeir stutt samtal við Sigurð Þorleifsson formann Slysvarnafélagsins í Grindavik, um björgunina. - Skrifstofustjóri SVFÍ, Henrý Háldánarson ræsti mig um kl. 4 og sagði mér af strandi togarans. Lét hann þess getið, að skipbrotsmenn hefðu lagt áherzlu á að björgunarsveitin hraðaði för sinni sem mest hún mætti, vegna mikilla ólaga, sem riðu yfir skipið Sigurður náði fljótlega saman 18 mönnum úr björgimarsveitinni og byrjað var að undirbúa bílana, sem flytja skyldi menn og áhöld. En vegurinn, sem er Iíkari troðningum út á Reykjanesið, er svo mjór að taka varð ytra afturhjólið undan hverjum vörubílanna.
 UNDIR 40-50 METRA HÁU BERGI.
Í þetta umstang fór eðlilega nokkur tími, sagði Sigurður, en um kl. 7 var björgunarsveitin komin fram á bergið, sem togarinn hafði strandað undir. Heitir það Hrafnkelsstaðaberg og er á þessum stað um 40-50 m. hátt. Á berginu hittu björgunarmenn Sigurjón Ólafsson vitavörð á 'Reykjanesi, sem komið hafði á strandstaðinn um kl. 5. Frá togaranum hafði línu verið skotið upp á bergi, svo undirbúningur að sjálfu björgunarstarfinu tók skamma stund.
FLESTIR Á HVALBAK.
Skipverjar á Jóni Baldvinssyni voru þá flestir komnir fram á hvalbak skipsins, enda náðu ólögin ekki þangað, er þau brotnuðu á reykháf og yfirbyggingu, því skipið sneri framstafni að landi. Nokkrir skipsmenn höfðust þó enn við í brúnni, sem ólog gengu yfir. En mönnum þessum gekk vel að komast fram á hvalbakinn og sættu lögum.
 BJARGAD A 1,40 KLST.
Þokuslæðingur var, og stundum bar svo þykka bólstra fyrir, að björgurarmenn á berginu sáu tæplega mennina á hvalbaknum. Björgunarstarfið gekk þó vel, sagði Sigurður enda er formaður sveitarinnar hinn traustasti maður, Tómas Þorvaldsson. Kl. 20 mín. fyrir 9, var síðasta manninum af 42 manna áhöfn togarans bjargað. Skipstjórinn, Þórður Hjörleifsss^n, fór síðastur frá borði. 
 GÓDAR MÓTTÖKUR.
Á heimili Sigurjóns vitavarðar í Reykjanesvita og konu hans Sigfríðar Konráðsdóttur, var skip brotsmönnnum borin hressing, en þeir voru blautir og nokkrir höfðu hlotið minniháttar meiðsl, og var gert að sárum þeirra þar af lækni, sem fór með björgunarsveitinni. Einni mannanna var nokkuð meiddur á fæti.
Frá Reykjanesvita voru mennirnir fluttir til Grindavíkur og voru allir komnir þangað laust fyrir hádegi.

Þar snæddu þeir hádegisverð í boði kvennadeildar SVFÍ þar. Að miðidegisverði loknum héldu skipbrotsmenn för sinni áfram til Reykjavíkur.
SJÓPRÓF.
 Það er ekki vitað hvað olli því, að Jón Baldvinsson sigldi með fullri ferð upp að Hrafnkelsstaðabergi, það mun væntanlega koma fram við sjóprófin. Togarinn hafði verið á saltfiskveiðum um tveggja vikna skeið og var nú  síðast á Selvogsbanka. Mun hann hafa ætlað á vestlægari mið, Eldeyjarbankann ,eða jafnvel vestur undir Jökul. Skipstjórinn Þórður Hjörleifsson var ekki á vakt, og var fyrsti stýrimaður Indriði Sigurðsson yfirmaður á stjórnpalli.
Jón Baldvinsson var 3 ára og 9 mánaða. Hann sigldi fánum skreyttur inn á Reykjavíkurhöfn 25. Júní  1951. Hann var af sömu gerð og t.d. togarinn Pétur Halldórsson. sem einnig er eign Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Var Jón Baldvinsson tæplega 700 lesta skip. Er hann strandaði var hann með á annað hundrað tonn af saltfiski og nokkuð af fiskimjöli. Alla tíð var togarinn aflasæll.

Morgunblaðið. 1 apríl 1955.

07.05.2016 07:54

1066. Ægir. TFTA. Varðskip.

Ægir var smíðaður hjá Aalborg Værft A/S í Álaborg í Danmörku árið 1968 fyrir Ríkissjóð Íslands. 927 brl. 2 x 4.300 ha. MAN díesel vélar, 3.165 Kw hvor um sig. Skipið er í þjónustu Landhelgisgæslu Íslands og heimahöfn skipsins er í Reykjavík.


Varðskipið Ægir við Faxagarð 4 maí 2016.                                          (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


Ægi gefið nafn hjá Aalborg Værft A/S í Álaborg árið 1968.                                        Mynd í minni eigu.

Hliðarskrúfa var sett í varðskipið árið 1987. Töluverðar breytingar voru gerðar á varðskipinu í Póllandi árið 1997. Sett var radarkúla á turn skipsins, svínahryggur og öldubrjótur á stafn, þyrlupallur lengdur um 5 m og byggt yfir neðra þilfar. Smíðaðir vour stigar utan á sitt hvora síðuna. Settir vour 3 neyðarútgangar úr íbúðum og ljósavélarúmi. Bætt var var við 16 tonna kjölfestutanki og 30 tonna kjölur settur undir skipið.

Skipið fór til Póllands til viðhalds 2001, en kominn var tími á tankaþil og loft. Tanki tvö var skipt í 2 sjálfstæðar einingar. Allir tankar sandblásnir og epoxýmálaðir. Einnig vour 2 stýri sett á skipið. Þriggja rúmmetra WC tankur var settur í nónarrúm og hann tengdur síðar. Rafgeymaklefinn var færður og stækkaður. Bætt var við 2 landfestapollum á framþilfari. Tvær loftrásir frá millidekki vour lagfærðar, ásamt ýmsum öðrum smá lagfæringum, breytingum og öðru viðhaldi.

Enn er haldið til Póllands til frekari breytinga 2005. Nú var kominn tími á brú og íbúðir. Skipt var um brú og hún stækkuð. Útsýnisturn færður aftar um 60 cm og byggt að radarkúlu. Skrifstofuhæð breytt þannig að hæðin nýttist betur. Allar íbúðir áhafnar ásamt göngum endurnýjaðar ásamt þvottahúsi. Nýtt 46 tonna dráttarspil frá Rolls Royce var sett í skipið fyrir 2700 m af 40 mm dráttarvír og Dynex tógi. Sjónvörp og hljómflutningstæki eru í öllum íbúðum með aðgang að gervihnattasjónvarpi. NMT, GSM og Globstar gervihnattarsímar eru til afnota fyrir áhöfn skipsins. Hægt er að hringja frá herbergjum úr GSM og Globalstar. NMT síminn er í símaklefa.

Varðskipið er búið góðum siglinga- og fjarskiptatækjum. Það er búið skutakkeri, fjölda færanlegra slökkvitdæla og slökvibúnað ýmiskonar. Skipið hefur kafar til aðstoðar öðrum skipum. Rúmgóður sjúkraklefi er í skipinu með ýmsum búnaði. Bolurinn er sér styrktur fyrir siglingu í ís og reisn hönnuð með tilliti til ísingarhættu. Vatnsþétt hólf eru 11. Skipið er með 2 krana, þar af annan sem nota má við þunga hluti, s.s. gáma eða baujur. Skipið er hluti af almannavarnakeðju landsins og er því með mikinn búnað sem því tengist, s.s. sjúkrabörur og sjúkrabúnað, ísaxir, hjálma, gönguskó o.fl. Loks má nefna að 4 léttbátar eru um borð, 1 Springer MP-800, 1 Valiant, 1 Zodiac HD og 1 Zodiac MK-3.

Af vefsíðu LHG.


06.05.2016 10:49

E.s. Ceres. NKHM.

Ceres var smíðað hjá Kockums Mekaniska Verksted í Malmö í Svíþjóð árið 1882 fyrir Sydsvenska Angbots A/S í Malmö. Smíðanúmer 36. 1.166 brl. 800 ha. 2 þjöppu gufuvél (200 nHK 800 iHK 2-cylinder), Hét Ceres. Skipið var selt 4 maí 1899, Det Forende Dampskibs Selskab, (D.F.D.S) í Kaupmannahöfn. Ceres var í áætlunarferðum á vegum sameinaða milli Kaupmannahafnar og Íslands með vörur og farþega og kom víða við á höfnum landsins. Skipinu var sökkt af þýska kafbátnum U-88, 13 júlí 1917 um 180 sjómílur norðvestur af Írlandi þegar skipið var á leið frá Fleetwood til Reykjavíkur með saltfarm. 2 skipverjar fórust en aðrir komust í skipsbát.

E.s. Ceres á Reykjavíkurhöfn.                                                                          Mynd úr safni mínu. 

05.05.2016 09:14

1421. Týr. TFGA. Varðskip.

Týr var smíðaður hjá Aarhus Flydedok A/S í Árósum í Danmörku árið 1975 fyrir Ríkissjóð Íslands. 923 brl. 2 X 4.300 ha. MAN díesel vélar, 3.165 Kw hvor um sig. Skipið er í þjónustu Landhelgisgæslu Íslands og heimahöfn þess er í Reykjavík.


Týr við Faxagarð.                                                           (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa. 4 maí 2016.

Varðskipið varð fyrir allmiklu tjóni á bol í fiskveiðideilunni við Breta árið 1976. Skipið sigldi til skipasmíðastöðvar eftir að þorskastríðinu lauk og gert var við skipið. Töluverðar breytingar voru gerðar á varðskipinu í Póllandi 1997. Sett var radarkúla á turn skipsins, þyrlupallur lengdur um 5 m og byggt yfir neðra þilfar. Smíðaðir voru stigar utan á sitt hvora síðuna. 30 tonna kjölur var settur undir skipið.

Skipið fór til Póllands til viðhalds árið 2001, en kominn var tími á tankaþil og loft. Tvö tanknum var skipt í tvær sjálfstæðar einingar. Allir tankar sandblásnir og epoxýmálaðir. Einnig voru tvö stýri sett á skipið. Þriggja rúmmetra WC tankur var settur í sónarrúm og hann var tengdur síðar. Bætt var við tveimur landfestapollum á framþilfari. Tvær loftrásir fá millidekki voru lagfærðar ásamt ýmsum öðrum smá lagfæringum, breytingum og öðru viðhaldi.

Enn er haldið til Póllands til frekari breytinag 2006. Nú var kominn tími á brú og íbúðir. Skipt var um brú og hún stækkuð. Útsýnisturn færður aftar um 60 cm og byggt að radarkúlu. Skrifstofuhæð breytt þannig að hæfðin nýtist betur. Þyrluskýli stækað. Allar íbúðir áhafnar ásamt gögnum endurnýjaðar ásamt þvottahúsi. Nýtt 46 tonna dráttarspil frá Rolls Royce var sett í skipið fyrir 2700 m af 4 mm dráttarvír og Dynex tógi. Sjónvörp og hljómflutingstæki eru í öllum íbúðum með aðgang að gervihnattasjónvarpi. NMT, GSM og Globalstar gervihnattarsímar eru til afnota fyrir áhöfn skipsins. Hægt er að hringja frá herbergjum úr GSM og Globalstar NMT síminn er í símaklefanum.

Varðskipið er búið góðum siglinga- og fjarskiptatækjum. Það er búið skutakkeri, fjölda færanlegra slökkvidæla og slökkvibúnað ýsmiskonar. Skipið hefur kafara til aðstoðar öðrum skipum. Rúmgóður sjúkraklefi er í skipinu með ýmsum búnaði. Bolurinn er sér styrktur fyrir siglingu ís og reisn hönnuð með tilliti til ísingarhættu. Vatnsþétt hólf eru 11. Skipið er með 2 krana, þar af annan sem nota má við þunga hluti, s.s. gáma eða baujur. Skipið er hluti af almannavarnakeðju landsins og er því með mikinn búnað sem því tengist, s.s. sjúkrabörur og sjúkrabúnað, ísaxir, hjálma, gönguskó o.fl. Loks má nefna að 4 léttbátar eru um borð, 1 Springer MP-800, 1 Valiant, 1 Zodiac HD og 1 Zodiac MK-3.

Af vefsíðu LHG.

04.05.2016 09:49

E.s. Botnia. NFBQ / OXUB.

Botnia var smíðuð hjá Löbnitz & Co Ltd í Renfrew í Skotlandi árið 1891. Smíðanúmer 364. 1.032 brl. 1.050 ha. 3 þjöppu gufuvél (158 nHK 1.050 iHK triple expansion). Eigandi skipsins var Det Forende Dampskibs Selskab (D.F.D.S) Sameinaða gufuskipafélagið í Kaupmannahöfn frá 24 nóvember 1891. Skipið var endurbyggt og lengt hjá B&W Kjöbenhavns Flydedok & Skibswærft í Kaupmannahöfn árið 1904, mældist þá 1.206 brl. Skipið var aftur endurbyggt og lengt árið 1909 á sama stað (B&W), mældist þá 1.322 brl. Botnia var í áætlunarferðum á vegum sameinaða á milli Íslands og Kaupmannahafnar með viðkomu á höfnum landsins. Skipið var selt 23 mars 1935, Hughes Bolcow Shipbreaking Co í Blyth á Englandi og rifið þar sama ár. 


E.s. Botnia, sennilega í upphaflegu útliti.


E.s. Botnia, sennilega eftir allar umbæturnar.                     (C) Myndir:  Handels & söfartsmuseets.dk

03.05.2016 12:08

Togaraflak austan Ingólfshöfða.

Hinn 6 maí árið 1930 strandaði þýski togarinn Marz frá Wesermunde, skammt fyrir austan Ingólfshöfða í góðu veðri, en nokkurri þoku. Miklar grynningar eru út frá landinu, þar sem skipið strandaði og var langt út til þess í fyrstu. 13 skipverjar voru í áhöfn togarans og bjargaðist hún á land í skipsbátnum og komst til Fagurhólsmýrar í Öræfum. Skipið náðist ekki út og eyðilagðist það fljótlega á strandstaðnum.


Flakið af Marz austan við Ingólfshöfða.                                                             Ljósm: Helgi Arason.

Togari strandar við Ingólfshöfða.

Mannbjörg

Eftir símtali við Vík. Þýskur togari, "Marz", frá Weesermunde strandaði í fyrrinótt rjétt austur við Ingólfshöfða. Skipshöfnin, 13 menn, björguðust allir. Var þokuslæðingur og nokkuð brim þegar skipið strandaði, en gott veður.  Miklar grynningar eru á strandstaðnum og var skipið alllangt frá landi, en var sem óðast að færast nær í gær. Skipsmennirnir voru komnir að Fagurhólsmýri í Öræfum og dvelja þar nokkra daga til þess að sjá hvort ekki verður hægt að taka þá um borð í skip við sandana. En haldist brim áfram, verða strandmennirnir fluttir annað hvort til Hornafjarðar eða Víkur.

Morgunblaðið 7 maí 1930.

02.05.2016 09:33

Goðafoss l. LCDQ.

Goðafoss l var smíðaður hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsværft í Kaupmannahöfn í Danmörku árið 1915. Smíðanúmer 125. 1.374 brl. 1.200 ha. B&W 3 þjöppu gufuvél, (aðrar heimildir segja 727 ha) Goðafoss var annað skipið í eigu h/f Eimskipafélags Íslands og kom í fyrsta sinn til Reykjavíkur hinn 13 júlí árið 1915. Hóf skipið siglingar til Kaupmannahafnar og Leith auk strandferða, en fór þó eina ferð til Bandaríkjanna. Ekki var Goðafoss lengi í þjónustu Eimskipafélagsins því hann strandaði við Straumnes 29 nóvember 1916 í slæmu veðri á leið frá Ísafirði til Reykjarfjarðar á Ströndum. Skipsbátur með 6 mönnum fór til Látra í Aðalvík og síðan björguðu Aðalvíkingar öllum sem um borð voru á land í Aðalvík á bátum sínum. Goðafoss var fyrsta Íslenska skipið sem búið var loftskeytatækjum. Enn í dag má sjá leifar flaksins í fjörunni við Straumnes.

Goðafoss l.                                                                                (C) Mynd: h/f Eimskipafélag Íslands.

Flakið af Goðafossi í fjörunni við Straumnes um 1990.                                    (C) Mynd: Árni Sæberg.

Smíðateikning af Goðafossi l.                                                         (C) Handels & söfartsmuseets.dk

 

01.05.2016 08:02

E.s. Borg. LBJV.

E.s. Borg var smíðuð í Greenock Dockyard í Greenock í Skotlandi árið 1901. Hét áður Albert Zelek. 762 brl. 620 ha. 3 þjöppu gufuvél. Skipið mun hafa borið nafnið H.A. Hansen í upphafi, en engar upplýsingar til um það. H/f Kveldúlfur í Reykjavík keypti skipið seint á árinu 1916 eða snemma árs 1917 og hafði það í kolaflutningum handa togurum sínum. Skipið var ekki skrásett hér á landi meðan það var í eigu Kveldúlfs. 17 september 1917 keypti landsstjórnin skipið og þá var það skrásett hér á landi. Borg sigldi milli Íslands og Englands á stríðsárunum, en eftir styrjaldarlok sigldi það milli Íslands og Evrópulanda og kom víða við á höfnum innanlands. Skipið var selt til Svíþjóðar 26 október 1923.


E.s. Borg. Á myndinni er nafn skipsins H.A. Hansen. Hef ekki upplýsingar um hvenær skipið bar það nafn.
                                                                                     (C) Mynd: Handels & Söfartsmuseets.dk
Flettingar í dag: 396
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 724928
Samtals gestir: 53765
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 06:20:27