Blog records: 2016 N/A Blog|Month_6

30.06.2016 10:50

Reykjavíkin. Tvísiglt skip með skonnortulagi.

Reykjavíkin var smíðuð í Danmörku árið 1872. Eik og fura 27,38 brl. Vélarlaus. Eigendur voru Geir Zoega kaupmaður í Reykjavík, Jón Þórðarson útvegsbóndi í Hlíðarhúsum í Reykjavík og Kristinn Magnússon óðalsbóndi og skipasmiður í Engey. Um árið 1885 keypti Geir Zoega hlut þeirra Jóns og Kristins í skipinu. Reykjavíkin fórst á Bollarifi á Faxaflóa um mánaðarmótin mars, apríl árið 1889 með allri áhöfn, 10 mönnum. Skipstjóri á Reykjavíkinni þá var Einar Sigurðsson frá Bræðraborg í Reykjavík, ættaður frá Vestmannaeyjum.


Reykjavíkin undir fullum seglum.                               Mynd eftir málverki Benedikts Gröndals frá 1876.


Árið 1865 varð harla merkilegt í ævi Geirs Zoega. Þá höguðu örlögin svo málum, að brotið var blað í sögu hans. Á því ári var lagður sá grunnur, sem þilskipaútgerðin við Faxaflóa reis upp af á næstu áratugum. 
Þeir félagar, Geir Zoega, Jón Þórðarson í Hlíðarhúsum og Kristinn Magnússon í Engey, gerðu sér þess ljósa grein þegar í upphafi, að ætti að fá úr því skorið til hlítar, hvort þilskipaútgerð frá Reykjavík gæti orðið arðbær atvinnurekstur, þyrfti að vera völ á nýju og góðu skipi til veiðanna. Tókst þeim að festa kaup á danskri skútu, er þeir álitu hentuga í þessu skyni. Að vísu var hún ekki alveg ný, hafði verið smíðuð í Middelfart í Danmörku árið 1861, en var talin góð og þægileg fleyta, 13,5 brl að stærð. Hún hét Fanny.


Fanny og Reykjavíkin á sundunum við Reykjavík.       Mynd af málverki Ólafs A Ólavsens kaupmanns.


Það má ætla að Geir og félagar hans hafi verið ánægðir með reikninga skips síns haustið 1872. Nú höfðu þeir hlotið sönnun þess að þilskipaútgerð frá Reykjavík gat borgað sig. Þeim hafði ekki glapist sýn, er þeir lögðu út í þetta ævintýri. Skúturnar voru án efa skip framtíðarinnar, og opnu kænurnar hlutu að þoka að meira og minna leyti fyrir þeim. Tóku nú eigendur Fannyar þá áhvörðun að bæta við öðru skipi fyrir næstu vertíð. Kærðu þeir sig ekkert um aflóga hró, en vildu helst spánýja skútu. 
Fyrir atbeina W. Fischers kaupmanns tókst þeim að klófesta nýsmíðað skip í Danmörku, og stærð þess mældist 27,38 brl. Skipi þessu sigldi til landsins L. Svendsen, hinn sami og stjórnað hafði Fanny tvö næstu árin á undan. Var það hinn 25 mars árið 1873 sem skútan kom til Reykjavíkur. Þetta var tvísiglt skip með skonnortulagi (með tvö siglutré). Hlaut það nafnið Reykjavíkin.

Heimildir: Skútuöldin lll bindi. Gils Guðmundsson. 1977.

29.06.2016 10:28

4 m. Sk. Haukur. NTBH.

4 mastra skonnortan Haukur var smíðaður hjá J. Ring Andersen Staalskibsværft / Svendborg Værft A/S í Svendborg í Danmörku árið 1914. 357 brl. 200 ha. díesel hjálparvél. Eigandi var Sejlskibsrederiet Phönix A/S í Thurö, Svendborg í Danmörku frá 30 september 1914. Skipið hét Phönix. Selt 25 maí 1918, Rederiet Falken A/S í Svendborg. Selt Hauki h/f í Reykjavík, hét Haukur. Skipið var aðallega í saltfiskflutningum til Miðjarðarhafslanda og flutti salt og ýmsar aðrar vörur heim. Skipið var selt árið 1922, Hans Petersen í Kaupmannahöfn, hét áfram Haukur. Skipið var selt til Kings Lynn í Englandi árið 1927 og sama ár selt til Portúgals, hét þar Anfitrite. Engar frekari upplýsingar hef ég fundið um þetta skip.


4 m. Skonnortan Haukur á siglingu.                                                                   Ljósmyndari óþekktur.

ATH.

Í bókaflokknum Íslensk skip er sagt að Haukur sé smíðaður úr Eik og furu, en í dönskum heimildum er skipið sagt smíðað úr stáli. Ágætt að leyfa þessum upplýsingum að fljóta með.

28.06.2016 07:21

Drangey EA 563. TFGB.

Drangey EA 563 var smíðuð í Peterhead í Skotlandi árið 1914. 83 brl. 180 ha. 2 þjöppu gufuvél. Hét áður Golden Ray. Eigendur voru Jón Björnsson, Þorbjörn Kasparíusson, Júlíus Hafliðason, Brynjólfur Eiríksson og Gísli Jóhannesson á Akureyri. (Útgerðarfélag póstbátsins). Þeir keyptu skipið árið 1932 og létu breyta því í farþega og flutningaskip. Drangey var í póstferðum við Norðurland milli Sauðárkróks og Þórshafnar á árunum 1933 til 1937 og flutti póst vörur og farþega. Skipið var leigt til síldveiða sumarið 1937. Drangey sökk út af Melrakkasléttu 27 ágúst 1937. Áhöfnin, 18 menn, komust í nótabátanna og réru á þeim til Raufarhafnar.

 
Drangey EA 563 að landa síld á Siglufirði.                                                   Ljósmyndari óþekktur.
 
 
 

                  Drangey sekkur. 

Við vorum komnir inn á flóann inn undir Raufarhöfn, þegar vélstjórinn kallar að nú sé eins og skipið opnist og sjór flæði inn. Víð héldum samt áfram um stund. Ég sagði mannskapnum að fara í bátana og var nú einn í brúnni. Þegar skipið var orðið svo sigið að sjór var að renna niður í lúkarinn, þá flautaði ég niður til Jóhanns vélstjóra og sagði honum að forða sér upp. Taflið væri sennilega tapað. Við hlupum aftur eftir skipinu og í bátana og slepptum. Við biðum þarna stutta stund, en þá sökk Drangey, stakkst niður á framendann. Þarna sökk skipið sem við ætluðum að kaupa, og sennilega hefur það orðið mér og fleirum til lífs. Hitinn frá gufukatlinum var búinn að þurrka burðarstoðir og byrðinginn að innan þannig að hann bókstaflega sprakk.
Þetta hefði án efa gerst síðar og þá undir öðrum og verri kringumstæðum.
Við rérum nú inn til Raufarhafnar. Koman að landi var heldur önnur en ég hafði hugsað mér, með fullt skip af góðri síld. En mannskapurinn komst allur heilu og höldnu í land. Nokkru eftir að þetta gerðist birtist nafnlaus grein í blaðinu Verkamanninum á Akureyri. Þar sagði að Drangey hefði sokkið vegna ofhleðslu. Mér var legið á hálsi fyrir að hafa ekki sést fyrir og það væri orsök óhappsins. Mér þótti hart að liggja undir svona rógi og kærði blaðið fyrir meiðyrði. Endirinn varð sá, að ábyrgðarmaður Verkamannsins var dæmdur í sekt, en ummælin dauð og ómerk.

Úr bókinni, Brotsjór rís, lífssigling Einars Bjarnasonar skipstjóra. Sveinn Sæmundsson. 1991. Einar var skipstjóri á Drangey þegar skipið sökk. Hann og nokkrir aðrir höfðu tekið skipið á leigu sumarið 1937 til síldveiða.

Hér fyrir neðan er greinin úr Verkamanninum sem Einar skipstjóri vitnar til í bók sinni,;      

    

     Drangey sökk vegna ofhleðslu.
 Mönnum hefir sem von er orðið tíðrætt um þann atburð þegar e. s. »Drangey« sökk skyndilega í besta veðri. Fer hér á eftir orðrétt skýrsla skipstjórans á >Drangey« fyrir sjórétti Akureyrar 30. f. m.: »Föstudaginn 27. ágúst var sildveiðaskipið Drangey E. A. 563 statt ca. 5 sjómilur N.V. af Þórshöfn á Langanesi. Kl. 9 síðdegis var búið að háfa úr nót skipsins og ganga frá öllu til landferðar, en til Siglufjarðar var ferðinni heitið til affermingar. Í skipinu var ca. 800 mál sildar og var skipið nokkuð lestað með þann afla, en skipið gat tekið, að minnsta kosti 900 mál, með þeirri lestun, sem tíðkast á síldveiðiskipum. Snurpunótinni hafði verið komið fyrir á bátadekki, eins og venja var til, en bátarnir settir aftan i skipið. Rétt um kl. 9 var lagt af stað, til Siglufjarðar, og virtist þá allt í besta lagi. Veður var gott, logn en aðeins N.V.-bára. Kl. um 11,30 varð vart við lítilsháttar leka á skipinu og þá snúið af leið og inn til Raufarhafnar, til þess að fá affermingu þar. Eftir ca. 10 mínútur hafði lekinn ágerst svo mikið, að dælur skipsins höfðu hvergi nærri við að lensa skipið og stóðu vélamennirnir í hné á fýrplássinu. Var þá sýnt að hætta var á ferðum og var því allur mannskapur kvaddur í bátana og vantaði klukkuna 10 minútur í 12 á miðnætti er bátunum var róið frá skipinu. Hættan var svo yfirvofandi, að enginn af skipverjum náði nokkru með sér og enginn hafði úr á sér er lagt var frá skipinu og er því ekki hægt að segja nákvæmlega hvað kl. var, er skipið var sokkið, en tíminn var mjög stuttur. Skipið sökk ca. 5 mílur austur af Raufarhafnarvitanum. Þegar lekinn fór að ágerast í byrjun, var gengið að því að undirbúa að létta skipið og var byrjað á verkinu, en mönnum skipað að hætta, er sýnilegt var að ekki hafðist við að dæla skipið. Um kl. 2,30 var komið til Raufarhafnar að bryggju þar. Skipverjar allir voru ómeiddir og liðan góð eftir atvikum. Eins og áður er sagt, fór allt í sjóinn með skipinu, að mönnum og bátum undanskildu. Náðust því hvorki leiðarbók skipsins eða vélardagbók. Yfirlögregluþjónn Jón Renediktsson hefir látið blaðinu í té eftirfarandi upplýsingar um e. s. »Drangey«: Skipið er byggt 1914 í Skotlandi úr eik og furu, og var keypt hingað til Akureyar 1931 og var eign Útgerðarfélags póstbátsins. Nú í sumar var »Drangey« leigð fjórum mönnum á Siglufirði til sildveiða. Á s. l. ári var sett ný innsíða i allt skipið og sáust þá hvergi merki fúa eða annara ellimarka.

Samkv. ofanskráðu þá virðist það sýnilegt að ofhleðsla hafi verið orsök þess að »Drangey« sökk. Mun það ekkert nýnæmi að síldarskip eru oft hlaðin svo að það er komið undir »guði og lukkunni« hvort þau fljóta til áfangastaðarins. Virðist vera full þörf á að setja einhver takmörk fyrir þvi hvað
hlaða má síldveiðiskip, eins og takmörk eru sett fyrir hleðslu annarra skipa.

Verkamaðurinn. 1 september 1937.
                 


 

27.06.2016 09:42

Hrímfaxi GK 2. TFPB.

Hrímfaxi GK 2 var smíðaður í Middlesborough í Englandi árið 1918. 641 brl. 700 ha. 3 þjöppu gufuvél. Skipið rak upp í Rauðarárvíkina í Reykjavík í ofsaveðri þann 27 febrúar 1941. Var þá Portúgalskt og hét Ourem. H/f Sviði í Hafnarfirði og h/f Hrímfaxi í Reykjavík keyptu skipið á strandstað, náðu því út og létu gera við það út í Englandi. Fékk nafnið Hrímfaxi GK 2. Skipið var síðan í flutningum með ísvarinn fisk til Englands og í almennum vöruflutningum. Í nokkra mánuði á árinu 1943 og fram á árið 1944 var Hrímfaxi í strandferðum í stað Súðinnar sem var þá í viðgerð eftir árás þýskrar herflugvélar á Skjálfandaflóa. Haustið 1946 og fram á vor 1947 var Hrímfaxi í síldarflutningum frá Reykjavík til Siglufjarðar (Hvalfjarðarsíldin). Að þeim flutningum loknum var skipinu lagt. Skipið var selt 10 október 1950, Kjartani Guðmundssyni í Reykjavík, hét Auðhumla GK 2. Skipið var selt til Indlands í mars árið 1951.

Hrímfaxi GK 2 í Vestmannaeyjum árið 1943.                                                           Mynd í minni eigu. 

E/S HRÍMFAXI TFPB-GK 2 Stálskip með 700 ha. gufuvél. Stærð: 641 brúttórúml. og 313 nettórúml. Aðalmál: Lengd: 52,44 m. Breidd: 9,17 m. Dýpt: 4,68 m. Smíðað i Middlesbourough í Englandi árið 1918 fyrír brezka sjóherinn sem eyðingarskip þýzkra kafbáta. Var skipið smíðað stefnislaga að aftan til þess að villa kafbátsmönnum sýn um á hvaða leið það væri. Þá var það vel búið vélum og gat gengið 16 sjómilur. Skip þetta kom fyrst hingað til Íslands sem leiguskip og hét þá Ourem frá Portúgal. Í ofsaveðri þann 27. febrúar 1941 sleit Ourem upp hér á Reykjavíkurhöfn og rak á land í  Rauðarárvikinni ásamt danska flutningaskipinu Sonju Mærsk. Að ári liðnu var skipinu náð út og gert við það í Grimsby í Englandi, og hlaut það þá nafnið Hrímfaxi. Eigendur þess urðu hf. Sviði í Hafnarfirði og Hf. Hrímfaxi í Reykjavík. Hrímfaxi hóf siðan og siglingar til Bretlands með ísaðan fisk undir stjórn Kristjáns Kristjánssonar skipstjóra. Flutti skipið um 7500 kit í ferð. Árið 1943 var Hrímfaxi leigður Skipaútgerð ríkisins til strandferða og var í Þeim næstu fimm árin. Siðla árs 1950 var skipið tekið í notkun á ný eftir tveggja ára legu inni á Sundum og hét þá Auðhumla. Auðhumla fór síðan nokkrar ferðir til Bretlands og meginlandshafna, unz það var selt Indverjum og afhent í Bretlandi árið 1951. Myndin af Hrímfaxa er tekin í Vestmannaeyjum 1943. Skipið er málað grárri stríðsmálningu, eins og öll íslensku flutningaskipin, sem voru í millilandasiglingum á þeim tíma.

Heimild: Æskan. 2 tbl. 1 feb 1972. / Íslensk skip. Guðmundur Sæmundsson.


26.06.2016 09:06

Reykjanes RE 94. TFDG.

Reykjanes RE 94 var smíðaður í Selby á Englandi árið 1922 sem línuveiðari. Stál 98 brl. 200 ha. 2 þjöppu gufuvél. Fyrsti eigandi hér á landi var Magnús Thorberg í Reykjavík frá 6 júlí 1926, hét þá Hafþór ÍS 453. Hét áður Silene. Skipið var selt 1 desember 1927 Árna Þórarinssyni, Sigurjóni Högnasyni, Eyvindi Þórarinssyni, Guðmundi Helgasyni, Þórarni Bernódussyni og Júlíusi Jónssyni í Vestmannaeyjum, hét Venus VE 20. Selt árið 1933 Júlíusi Guðmundssyni og fl á Þingeyri, hét Venus ÍS 160. Selt 1935 Guðmundi J Ásgeirssyni á Þingeyri. Selt 1940 Pétri O Johnson og fl í Reykjavík, skipið hét Reykjanes RE 94. Árið 1941 var skipið endurbyggt mikið, m.a. ný yfirbygging og hvalbakur settur á skipið. Einnig var sett ný vél, 232 ha. Allen díesel vél í skipið. Mældist þá 103 brl. Skipið sökk út af Tjörnesi, 24 júlí 1942. Áhöfnin, 18 menn bjargaðist í nótabátana og þaðan um borð í Ólaf Bjarnason MB 5 frá Akranesi. Skipið var þá á síldveiðum og talið að ofhleðsla hafi valdið því að skipinu hvolfdi og það síðan sokkið skyndilega.


Reykjanes RE 94 í Vestmannaeyjahöfn.                                                          Mynd í minni eigu.

ATH.

Myndin sem ég setti inn hér á síðuna í gær og átti að sýna Reykjanes RE 94 í sínu upprunalega útliti sem Hafþór ÍS 453. Þessi mynd er í 2 bindi, bls 61 í bókaflokknum Íslensk skip og merkt þar sem Hafþór, en reyndist vera vitaskipið Hermóður. Þetta er bara ein af mörgum villum í þeim annars ágæta bókaflokki sem ég vitna mikið í. Takk fyrir að benda á þetta Óttar minn, bestu kveðjur. 
                                                                                                           

25.06.2016 10:07

Flink EA 11. Hákarlaskip.

Flink EA 11 var smíðaður á Akureyri af Bjarna Einarssyni smiði fyrir Höepfnersverslun á Akureyri rétt fyrir aldamótin 1900. Eik og fura 28 brl. Skipið rak á land í Haganesvík 5 maí 1923 í miklu óveðri og eyðilagðist. Áhöfnin bjargaðist.


Hákarlaskipið Flink EA 11. Afturseglið er merkt EA 15, en það mun hafa verið af Maríönnu EA 15 sem Carl Höepfner keypti árið 1907 af Gudmann Efterfölger í Kaupmannahöfn. Maríanna fórst 13 eða 14 maí 1922 út af Hornbjargi með allri áhöfn, 12 mönnum.                                                                   Ljósm: Óþekktur.



24.06.2016 08:15

Sæfinnur NK 76. TFNK.

Sæfinnur NK 76 var smíðaður í Yarmouth á Englandi árið 1915. Eik 102 brl. 200 ha. Wichmann vél (1938). Hét áður Vigelant. Eigandi var Gísli Kristjánsson útgerðarmaður í Neskaupstað frá 20 september 1938. 27 júlí 1943 var skráður eigandi h/f Sæfinnur, Sandi í Mjóafjarðarhreppi, hét Sæfinnur SU 76. Skipið var selt 20 desember 1945, Sæfinni h/f á Akureyri, hét Sæfinnur EA 9. Selt 30 apríl 1955, Fiskveiðahlutafélaginu Viðey í Reykjavík (Jón Franklín ?) hét Sæfinnur RE 289. Skipið strandaði í Hornafjarðarósi 19 nóvember 1957 og eyðilagðist. 5 manna áhöfn og 1 farþega var bjargað af björgunarsveit SVFÍ á Hornafirði. Sæfinnur RE 289 var síðustu árin í vöruflutningum hafna á milli innanlands og í þessari síðustu ferð var skipið í leiguferð fyrir Skipaútgerð ríkisins.


Sæfinnur NK 76 á Norðfirði á stríðsárunum.                                                        Ljósm: Karl Pálsson.


Sæfinnur RE 289 á Reykjavíkurhöfn.                                                                Ljósmyndari óþekktur.

23.06.2016 11:49

1090. Hekla. TFCA.

Hekla var smíðuð hjá Slippstöðinni á Akureyri árið 1970 fyrir Skipaútgerð ríkisins. 708 brl. 1.650 ha. Deutz vél. Hekla var stærsta stálskip sem smíðað hafði verið á Íslandi til þess tíma. Skipið var í strandferðum við Ísland og flutti vörur, póst og farþega milli hafna. Hekla var seld til Panama 26 september árið 1983.


Hekla við komuna til Reykjavíkur í fyrsta sinn.                                                       Mynd í minni eigu.

22.06.2016 03:34

B.v. Ethel RE 237.

Ethel RE 237 var smíðaður hjá Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd í Goole á Englandi árið 1907. Smíðanúmer 267. 278 brl. 3 þjöppu gufuvél smíðuð af W.V.V. Lidgerwood Coatbridge. Hét áður Ethel FD 173 og var fyrst í eigu Louis Cohen í Fleetwood. Seldur 24 júní 1912, The Active Fishing Co Ltd í Fleetwood. Var í þjónustu breska flotans frá júní 1915 þar til honum var skilað til eigenda sinna 12 mars 1919. Seldur í desember 1919, h/f Atlanta í Reykjavík (Elías Stefánsson), fær nafnið Ethel RE 237. Seldur í desember 1923, J.Marr & Son Ltd í Fleetwood, hét Irvana FD 430. Seldur árið 1925, Comissariado Gereal dos Abastecimentos í Lissabon, Portúgal, hét Apolo. Seldur í janúar 1927, Sociedade Comercial Maritima Ltda í Lissabon, hét Cabo Juby. Togarinn var seldur í brotajárn árið 1958.

 
B.v. Ethel RE 237.                                                                                                  Málari óþekktur.                                       

21.06.2016 08:49

Kútter Bergþóra RE 54. LBPM.

Bergþóra RE 54 var smíðuð í Englandi árið 1881. Eik 85 brl. Eigandi var Jón Jónsson í Melhúsum á Seltjarnarnesi frá 10 september árið 1897. Guðmundur Ólafsson í Nýjabæ á Seltjarnarnesi eignast Bergþóru árið 1902 eða 1903. Hún var svo seld til Færeyja 16 febrúar árið 1914.


Kútter Bergþóra RE 54 á Reykjavíkurhöfn.                                                  Ljósm: Magnús Ólafsson.

Mánudaginn 5. September árið 1904 varð hrapallegt slys vestur á Patreksfirði. Þar var nýkomin inn á skipaleguna fiskiskútan Bergþóra frá Nýjabæ á Seltjarnarnesi, eign Guðmundar bónda Ólafssonar. Skipstjórinn, Sigurður Guðmundsson, fór í land og ætlaði að festa kaup á ís til beitugeymslu. Gekk það vel og fékk hann vilyrði um ísinn. Fór síðan um borð aftur til að sækja meiri mannafla, og kvaddi til ferðar með sér stýrimann og 8 háseta. Þegar kænan var að leggja af stað frá skipinu, báðu þrír af skipverjum þeim, sem eftir voru, um leyfi til að fara yfir í aðra fiskiskútu, Gunnvöru, er lagzt hafði örskammt í burtu. Var þeim veitt leyfið og stigu þeir út í skipsbátinn, sem þó var fullhlaðinn áður. Tók þegar að renna inn í hann sjór að afta, og sáu allir, að fyllast myndi. Ruddust þá einhverjir fram í ofboði, en við það stakkst kænan á endann og sökk með alla mennina, þrettán saman. Kom hún ekki upp fyrr en löngu síðar, né heldur mennirnnir. Skipstjóri á Gunnvöru lét þegar höggva bátinn þar úr tenglsum og hleypa niður. Jafnframt var kastað út köðlum og bjarghringum, því að slysið vildi til rétt hjá, og sáu Gunnvarar-menn það margir. En allt kom fyrir ekki. Mönnunum sást ekki skjóta upp, fyrr en eftir langan tíma, og voru þá allir drukknaðir.
Veður var hvasst nokkuð á norðan, en sjólaust þó inni á höfninni.
Líkin fundust öll nema eitt. Voru þau flutt til Reykjavíkur og jarðsungin þar, tólf saman.

Heimild: Skútuöldin lll bindi bls. 304-305.

20.06.2016 10:12

Steffano EK 1601. ESKS.

Úthafsveiðitogarinn Steffano EK 1601 er í eigu Reyktal AS sem heyrir undir Icelandic Export Center Ltd í Reykjavík en skipið er skráð í Tallinn í Eistlandi. Hét áður Steffen C GR 6-22. Togarinn hét upphaflega Pétur Jónsson RE 69, skipaskrárnr: 2288. Smíðaður hjá Skibsverft STX Europe í Aukra í Noregi árið 1997. 1.069 brl. 5.017 ha. Wartsiila vél, 3.693 Kw. Togarinn var í eigu Péturs Stefánssonar ehf í Kópavogi en heimahöfn skipsins var í Reykjavík.


Steffano EK 1601 í Hafnarfjarðarhöfn.


Steffano EK 1601 í Hafnarfjarðarhöfn.                          (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 11 júní 2016.

17.06.2016 04:52

Guðrún. LBMN.

Skonnortan Guðrún var smíðuð í Dunkerque í Frakklandi árið 1861. 94 brl. Hét áður Camilla og var gerð út til fiskveiða við Ísland. Hún strandaði á Patreksfirði árið 1883 og keypti Markús Snæbjörnsson hana á uppboði. Náði hann henni á flot lítið skemmdri og gerði við hana. Þetta myndarlega skip var síðan í verslunarferðum innanlands og utan, einkum með fisk til Spánar og Ítalíu, en einnig til Danmerkur. Var Markús sjálfur skipstjóri á Guðrúnu fyrstu árin. Guðrún var seld til Svíþjóðar árið 1900.


Skonnortan Guðrún á Patreksfirði.                                                                   Ljósmyndari óþekktur.

16.06.2016 09:43

Kútter Ása GK 16. LBCQ.

Ása GK 16 var smíðuð í Galmpton í Englandi árið 1886 og gerð út frá Grimsby. Eik og fura, 89 brl. með hjálparvél, tegund ókunn. Keypt til Íslands árið 1902 frá Noregi, hét þá Evening Star. Eigandi var Ólafur Á Ólafsson (Olavsen) í Keflavík frá 17 nóvember 1902. Í desember 1904 er firmað H.P. Duus í Keflavík eigandi Ásu. Skipið strandaði við Hvalsnes 10 október 1919 þegar það var á leið til Englands með saltfiskfarm. Áhöfnin bjargaðist á land en Ása eyðilagðist á strandstað. Ása var stórt og gott skip og að margra dómi eitt fallegasta skip flotans á þessum árum. Hafði Ása verið í röð aflahæstu skipanna ár eftir ár, enda kunnur sægarpur sem fór með stjórn á því, Friðrik Ólafsson frá Ártúni á Kjalarnesi.


Kútter Ása GK 16 á Krossvík við Akranes í byrjun vetrarvertíðar 1908.                       Ljósm: óþekktur.

15.06.2016 09:06

Skonnortan Sigurborg.

Skonnortan Sigurborg var smíðuð í Danmörku árið 1875. 32 brl. Eigendur voru Eyjólfur E Jóhannsson í Flatey á Breiðafirði og fl í Breiðafjarðareyjum frá 15 apríl árið 1886. Þannig hljóðar það í 1 bindi Íslenskra skipa. Í Skútuöldinni segir orðrétt,; 
Sumarið 1886 keypti Hafliði Eyjólfsson í Svefneyjum 30 rúmlesta skútu, ásamt Snæbirni í Hergilsey, Kristjáni föður hans og Eyjólfi Jóhannssyni kaupmanni í Flatey. Hafliði sá um útgerð skipsins og annaðist fjárreiður, en Snæbjörn var skipstjórinn. Sigurborg nefndist skúta þessi og var dönsk að smíði, sterkt skip og gott. Hún var með skonnortusiglingu og þótti hin þægilegasta fleyta,;
Í almanaki handa íslenzkum fiskimönnum frá árinu 1917 heitir skútan Flatey BA 131 og í eigu Pjeturs A Ólafssonar á Patreksfirði. Ekki minnst á að vél sé í skútunni þar. Í skrá yfir Íslensk skip frá árinu 1928 segir,; Flatey BA 131. 32 brl. 40 ha. Bolinder vél. 16,70.m á lengd, 4,52 m. á breidd og djúprista 1,82 m. Eigandi þá var Pjetur A Ólafsson á Patreksfirði.


Skonnortan Sigurborg á þurru í Grýluvogi í Flatey. Silfurgarðurinn í forgrunni. Nafnið fékk hann vegna þess að Guðmundur Scheving sýslumaður, sem lét hlaða hann, greiddi verkamönnunum í silfri fyrir verkið. Myndin er tekin stuttu fyrir aldamótin 1900.                                                           Ljósm: Pjetur A Ólafsson.


Skonnortan Flatey á fjörukambi í Patreksfirði.    Ljósm: Pjetur A Ólafsson.

Varðandi færsluna frá því í gær um kútter Hvanney, hefur Birgir Þórisson mikið til síns máls í áliti sínu frá því í gær. Í fyrsta lagi er myndin ekki af kútter sem er rúmlega 50 brl. að stærð. Einnig það að samanburður á þessum myndum hér að ofan og myndinni af "Hvanney" frá því í gær, má leiða að því líkum að hér sé um sama skipið að ræða.

Heimildir: Íslensk skip. 1 bindi.
              Skútuöldin. 1 bindi.
              Eylenda ll.

14.06.2016 08:27

Kútter Hvanney BA 9. LBTM.

Hvanney var smíðuð í Englandi árið 1883. Eik 50 brl. Eigandi var Islandsk Handels & Fiskeri Co í Kaupmannahöfn frá 6 mars árið 1900. (I.H.F). Var danskt félag að mestu leiti og var með sína aðstöðu á Patreksfirði. Skipið var selt Pjetri A Ólafssyni á Patreksfirði 6 maí 1908. Var svo síðar selt Hjálmari Sigurðssyni í Stykkishólmi (1910-11 ?). Var síðast í eigu Kaupfélags verkamanna í Stykkishólmi. Talið ónýtt og rifið árið 1927.


Hvanney BA 9 á fjörukambi á Patreksfirði.                                                  Ljósm: Pjetur A Ólafsson.

Í blaðinu Vestra frá 9 september árið 1905 birtist þessi auglýsing frá I.H.F. ; 


I.H.F seldi flest öll þilskip sín á árunum 1907-8 og var það verslunarstjóri þeirra, Pjetur A Ólafsson sem keypti þau flest og hélt úti mikilli útgerð frá Patreksfirði. Pétur keypti svo árið 1911 enskan togara, Invicta af Alec Black í Grimsby. Sá togari fékk nafnið Eggert Ólafsson BA 127.


Today's page views: 166
Today's unique visitors: 13
Yesterday's page views: 568
Yesterday's unique visitors: 68
Total page views: 1075546
Total unique visitors: 77614
Updated numbers: 28.12.2024 04:54:32