Blog records: 2022 N/A Blog|Month_8

19.08.2022 13:40

B.v. Goðanes NK 105. TFUD.

Nýsköpunartogarinn Goðanes NK 105 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1947 fyrir samnefnt hlutafélag í Neskaupstað sem 8 útgerðarmenn stóðu fyrir. Þeir voru:, Vigfús Guttormsson, Sigurður Hinriksson, Stefán Höskuldsson, Anton Lundberg, Þorsteinn Júlíusson, Ársæll Júlíusson, Jónas Valdórsson og Óskar Lárusson. 655 brl 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 54,00 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 786. Togaranum var hleypt af stokkunum í Beverley hinn 16 september og kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Neskaupstaðar á annan dag jóla 1947. Strax í upphafi tókst góð samvinna við Bæjarútgerð Neskaupstaðar, sem gerði út togarann Egil rauða, og Goðanesi hf. Í febrúar 1947 samþykkti stjórn Goðaness að ráða framkvæmdastjóra Bæjarútgerðarinnar, Steindór Árnason til að annast einnig framkvæmdastjórn Goðaness hf. Rekstrarstjórn útgerðarfélaganna var ávallt sameiginleg eftir þetta. Goðanes var einn af tíu togurum sem smíðaðir voru í Beverley í Englandi fyrir Íslendinga á árunum 1947-48. Goðanes var fyrsti íslenski togarinn til að selja afla sinn í Þýskalandi eftir heimstyrjöldina. Það gerði hann í Hamborg hinn 28 apríl árið 1948 og landaði þar 255 tonnum. Goðanes strandaði í mynni Skálafjarðar á Austurey í Færeyjum á blindskerjum er Flesjar heita, að kvöldi 2 janúar árið 1957. Var togarinn þá að sækja færeyska skipverja sem verið höfðu á skipinu þá um veturinn, en farið heim með togaranum Ísólfi frá Seyðisfirði og voru þar yfir jólahátíðina. Ætlaði Pétur Hafsteinn Sigurðsson skipstjóri að leita hafnar í Þórshöfn, en vegna slæms veðurs og ókyrðar í höfninni þar, ákvað hann að leita hafnar í Rúnavík í Skálafirði, sem þá var ein besta höfn Færeyja, en strandaði á Flesjunum eins og áður segir. Færeysku skipin Vesturhavið blíða, Hrókur og togarinn Austfirðingur SU 3, björguðu 23 skipverjum af Goðanesi við mjög erfiðar aðstæður. Pétur Hafsteinn skipstjóri fórst. Pétur var aðeins 24 ára gamall og hafði verið sjómaður til fjölda ára og reyndur skipstjórnarmaður. Hann var 2 stýrimaður á Agli rauða NK 104 þegar hann strandaði undir Grænuhlíð í janúar árið 1955. Hann ætlaði að vera á Goðanesi þennan veturinn og taka síðan við skipstjórn á Hafrúnu NK 80 sem verið var að smíða hjá Dráttarbrautinni hf í Neskaupstað fyrir hann og Kristinn Marteinsson tengdaföður hans.
Afli Goðaness frá 1/1 1948 til 31/12 1956 var 34.236 tonn.

Skipstjórinn á Færeyska skipinu, Vesturhavið Blíða, Jakob Andreas Vang sagði frá því stuttu síðar að skerin sem Goðanes strandaði á og hétu Flesjar, væru einu skerin í öllum firðinum og væru þau nokkuð úr siglingaleið. Sagði hann þau ekki koma fram í ratsjá nema í logni, og því engin von til þess að þau sæjust þannig kvöldið sem Goðanes strandaði. Kom þessi vitneskja heim og saman við það sem upplýstist í sjóréttarhöldum yfir þeim sem björguðust, en þau voru haldin í Neskaupstað, strax og skipbrotsmennirnir komu þangað.

Heimildir að hluta:
Norðfjörður, saga útgerðar og fiskvinnslu. Smári Geirsson 1983.
Morgunblaðið 29 apríl 1948.
Þrautgóðir á raunastund V bindi bls. 139.
 

B.v. Goðanes NK 105 að koma til hafnar í Neskaupstað árið 1955.  (C) Björn Björnsson.

 

        Neskaupstaður eignast tvo nýja togara í ár
           Síðari nýsköpunartogarinn kominn


Goðanes, annar nýsköpunartogari Norðfirðinga kom til Neskaupstaðar kl. 11 á annan dag jóla. Var bærinn fánum skreyttur og mikill fögnuður við komu togarans, en Neskaupstaður, sem er 1300 manna bær, hefur eignazt tvo nýja togara á þessu ári. Fyrri nýsköpunartogari Norðfirðinga, Egill rauði hefur selt fyrir á aðra milljón og er nú í sinni 6. veiðiför.
Goðanes er eign samnefnds hlutafélags í Neskaupstað og eru hluthafar þessir; Vigfús Guttormsson, formaður félagsins, Sigurður Hinriksson, Jónas Valdórsson, Óskar Lárusson, Ársæll Júlíusson, Þorsteinn Júlíusson og Anton Lundberg. Goðanes er smíðaður hjá Beverley skipasmíðastöðvunum og er frágangur allur með ágætum. Skipstjóri er Árni Ingólfsson, 1. stýrimaður Guðmundur Ólafsson, (báðir úr Reykjavík), 1. vélstjóri er Jens Hinrkisson (frá Norðfirði). II. vélstjóri Bjarni Nikulásson, Loftskeytamaður er Pétur Goldstein. Hásetar eru frá Norðfirði. Framkvæmdastjóri er sami og Bæjarútgerðar Neskaupstaðar, Steindór Árnason. Konur eigenda togarans buðu áhöfn skipsins, bæjarstjórn stjórn sparisjóðsins o. fl. til hófs um kvöldið, og sátu það nálægt 100 manns. Var þar flutt kvæði eftir Guðmund Magnússon.
Ræður fluttu: Krístín Helgadóttir, Vigfús Guttormsson, Lúðvík Jósepsson, Bjarni Þórðarson, sr. Guðmundur Helgason, Jóhannes Stefánsson og Anton Lundberg. Goðanes fór í gærkvöld áleiðis til Reykjavíkur en þar á að setja bræðslutæki í skipið en síðan fer það á veiðar. Norðfirðingar eru mjög ánægðir með að hafa eignazt tvo nýja togara á þessu ári og þakka það góðri aðstoð fyrrverandi ríkisstjórnar, nýbyggingarráði, en einkum þó Lúðvík Jósepssyni alþingismanni.
Óvenju harður vetur hefur verið fyrir austan, er þar nú hörkufrost og snjór yfir allt. Bátar eru að búa sig til vertíðar á Hornafjörð og Suðurnes.

Þjóðviljinn. 28 desember 1947.

 

B.v. Goðanes NK 105 í smíðum í Beverley. Ljósmyndari óþekktur.

 

B.v. Goðanes NK 105 á Norðfirði.          (C) Björn Björnsson.
 
B.v. Goðanes NK 105 við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað.  (C) Björn Björnsson.

 

                            Fyrstu sölur í Þýskalandi

Fyrsti íslenski togarinn, sem selur fisk á Þýskalandsmarkað, seldi í Hamborg í gær. Það var Goðanes frá Neskaupstað. Hann var með 254, 712 kg, er jafngildir 4000 kíttum. Fyrir þennan farm á samkvæmt  gerðum samningi um sölu á fiski til Þýskalands, að fást 10.100 sterlingspund. Elliðaey kom til Bremerhaven um kl. 9 í gærkveldi og mun hafa selt í nótt er leið. Togarinn var með um 270 tonn af fiski. Bjarni riddari mun væntanlega koma til Þýskalands á morgun. Hann var á leið til Grimsby, en var snúið við vegna þrengsla þar. Kaldbakur mun selja á mánudaginn. Jakob Hafstein framkvæmdastjóri, skýrði Mbl. frá þessum fyrstu sölum í viðtali í gær. Í þessu sambandi gat hann þess að við löndun í Þýskalandi kemur ekki til frádráttar 10% innflutningstollur á ísfiski, eins og í Bretlandi og í Þýskalandi þarf ekki að greiða umboðslaun, kíttaleigu eða annan löndunarkostnað, sem að öllu jöfnu nemur um 20% af sölum í Bretlandi. Ákveðið hefur verið að næstu 5000 smál. af fiski, sem íslenskir togarar flytja til Þýskalands, skuli fara óskipt til Bremerhaven. Síðar verður aflaðnum skipað hlutfallslega niður á Hamborg, Cuxhaven og Bremerhaven, þannig að til Bremerhaven fara 60%, til Hamborgar og Cuxhaven 20% á hvorn stað.

Morgunblaðið. 29 apríl 1948.
 

B.v. Goðanes NK 105 í Reykjavíkurhöfn. Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.
 
B.v. Goðanes NK 105 á leið í siglingu. Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.
 
B.v. Goðanes NK 105 á toginu. Úr safni Hafliða Óskarssonar.


 

                             Fékk 240 tonn á 5 dögum

Togarinn Goðanes frá Norðfirði kom til Ísafjarðar í gærkvöldi með 240 tonn af fiski eftir 5 daga veiðiför á Halamið. Mestallur fiskurinn eða rúmlega 200 tonn var stór þorskur og fer hann í frystihúsin á Ísafirði, Súðavík og Bolungarvík. Veður er gott á Ísafirði í dag, blæjalogn og dálítil þoka í fjöllum. Í stjórnmálunum fer hvessandi, enda nálgast nú alþingiskosningar óðum.

Vísir 28 maí 1952.
 

B.v. Goðanes NK 105 að landa í gúanó.  (C) Magnús Hermannsson.
 
Um borð í b.v. Goðanesi NK 105. Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.
 
B.v. Goðanes NK 105 með fullt dekk af fiski. (C) Kjartan Traustason.

 

                     B.v. Goðanes ferst við Færeyjar

Miðvikudaginn 2. janúar s.l. strandaði togarinn Goðanes frá Neskaupstað á skeri við mynni Skálafjarðar á Austurey í Færeyjum. Togarinn sat fastur á skerinu í brimi og stormi fram undir morgun, en þá brotnaði hann í tvennt og sökk. Skipið var á leið til Skálafjarðar, sem er langur og mjög þröngur og krókóttur fjörður, er gengur inn í Austurey. Hvassviðri var, dimmt og sjómikið. Skipverjar voru að búa sig undir að taka land, skipstjóri var á stjórnpalli ásamt háseta við stýrið. Klukkan 20,45 eftir íslenzkum tíma tók skipið niðri. Hringt var úr brú á fulla ferð aftur á bak, en skipið haggaðist ekki. Brimið tók þegar að ganga yfir skipið. Sent var út neyðarskeyti, og heyrðu það ýmis skip í nágrenni og samband náðist þegar við togarann Austfirðing, sem var ekki langt undan. Ljósblysum var og skotið til lofts og reynt að setja út björgunarbáta, fyrst bakborðsbát, sem hvolfdi við skipshlið, og síðan stjórnborðsbát, sem skipverjar misstu frá skipinu. Skipshöfnin hélzt fyrst við á bátadekki og stýrishúsi, en menn urðu brátt að yfirgefa bátaþilfarið og leita skjóls í stýrishúsi, kortaklefa og loftskeytaklefa. Skipstjóri reyndi að skjóta línu frá hinum strandaða togara til bátanna, sem í nánd voru, en það mistókst. Áður en langt leið fengust björgunartæki að láni frá tveim þýzkum togurum, sem lágu innar á Skálafirði.
Voru það stólar, línur og línubyssur. Klukkan langt gengin fimm um morguninn tókst loks að koma traustri línu í Goðanes, og eftir það tókst björgunin, aðallega yfir í vélbátinn Hrók. Klukkan 5,15 í gærmorgun hafði þrem mönnum verið bjargað, og klukkan tæplega sex 15 mönnum. En þegar hér var komið, sáust þess greinileg merki, að Goðanes myndi ekki standast sjóina öllu lengur, heldur brátt brotna. Skipstjóri tilkynnti og í talstöðina, að nú yrði að hraða björgun sem mest og spurði, hvort ekki væru tiltækir litlir trillubátar, sem gætu komizt nær skerinu en hinir stærri bátar. Var svo, og reyndu þeir að fara eins nærri og fært þótti. Alls var 18 mönnum bjargað í línustól, en þegar skipstjóri var að hjálpa tveim síðustu í stólinn, brotnaði skipið í tvennt, og hlutarnir sigu út af skerinu og sukku. Þá var klukkan 6,25. Þá voru sex menn á flakinu eftir, og fóru þeir allir í sjóinn, er skipið brotnaði og sökk. Reyndi þá hver að bjarga sér á sundi sem hann mátti, og var fimm þeirra bjargað upp í færeyska trillubáta, sem þarna voru til taks. Einn mannanna sást hvergi og fannst ekki þrátt fyrir ýtarlega leit. Kom í ljós, að það var skipstjórinn, Pétur Hafsteinn Sigurðsson.
Á Goðanesi var í þessari ferð 24 manna áhöfn, 17 Íslendingar og 7 Færeyingar.
Þeir voru, auk skipstjórans, þessir: Halldór Halldórsson, stýrimaður., Guðmundur Vestmann, 2. stýrimaður, Guðmundur Helgason, 1. vélstjóri, Ingvar Bjarnason, 2. vélstjóri, Guðmundur Sigurðsson, Axel Óskarsson, loftskeytamaður, Jón B. Jónsson, Magnús Skarphéðinsson, Gils Sveinþórsson, Högni Jónasson, Emil Ásgeirsson, Sigurríkur Ormsson, Kristján Vilmundsson, Sigurjón Jónsson, Finnbogi Finnbogason, Olavur Debes, Andreas Hildeberg, Kaj Johannesen, Johannes H. Petersen, Óli J. Beck, Anton E. Petersen, Eyvind Gudmundson og Jónas Hólm. Hinn síðasttaldi tók sér aðeins far með skipinu til Reykjavíkur. Allir björguðust þeir nema skipstjórinn, sem fyrr segir. Pétur Hafsteinn Sigurðsson, sem fórst með Goðanesi, var 24 ára að aldri, átti heima í Neskaupstað, sonur hjónanna Sigurðar Bjarnasonar og Guðlaugar Sigurðardóttur, sem hafa átt þar heima lengi. Eiga þau einn annan son, sem verður stýrimaður á hinum nýja togara Norðfirðinga. Pétur var hinn mesti efnismaður. Hann var 1. stýrimaður á Goðanesi, en skipstjórinn á skipinu, Ólafur Aðalbjörnsson frá Grenivík, var í landi.  Axel Óskarsson loftskeytamaður var einn þeirra skipverja er eftir voru í Goðanesinu er það brotnaði og sökk, og var mjög hætt kominn. Hefur hann skýrt þannig frá björgun sinni: „Þegar ég hafði lokið síðasta kallinu, fór ég úr loftskeytaklefanum fram á stjórnpallinn og sá Guðmund Sigurðsson standa bakborðsmegin við dyrnar út á brúarvænginn.
Sá ég þá að Guðmundur stakk sér út um dyrnar og yfir brúarvænginn og í sjóinn. Hann var með bjarghring um sig. Þegar ég kom að bakborðsdyrunum stóð straumurinn inn í stýrishúsið og sjór upp í mitti. Hafði ég ekki handfestu og kastaði straumurinn mér aftur á bak og lenti ég á dýptarmælisskápnum, sem festur er á framhlið brúarinnar milli 3. og 4. glugga, og stöðvaðist þar. Gerði ég mér nú grein fyrir að heppilegra mundi reynast að komast út um bakborðsdyrnar heldur en gluggana eða stjórnborðsdyrnar. Náði ég taki með vinstri hendi á dyrakarminum. Var straumurinn inn í brúna svo mikill að fyllti út í dyrnar. Tókst mér þó að stinga höfðinu í strauminn og koma hægri fæti út fyrir dyrnar og upp á brúarvænginn. Einhvern veginn tókst mér að koma höfðinu út fyrir dyrnar og efri hluta líkamans, þannig að meðan straumurinn var inn í stýrishúsið sogaðist neðri hluti líkamans inn í stýrishúsið. Straumurinn fór nú að minnka og þegar jafnvægi hafði náðst fannst mér ég sjá ljósglætu fyrir ofan mig og byrjaði að synda upp, en ég var í björgunarvesti og barst allhratt upp. Skaut mér upp í gegnum þykkt olíulag. Ég sá ekki neitt til að byrja með. Næst kom alda og kastaði mér til í sjónum og lenti ég á braki án þess þó að meiða mig. Þá synti ég af stað í átt til Ijósa, sem ég sá á björgunarskipum. Var þarna brak allt í kringum mig, ég kallaði nöfn nokkurra skipsfélaga minna, en hvorki sá til þeirra né heyrði. Synti ég þá áfram, en bóman á formastri flaksins kom upp úr sjónum 2—3 m frá mér og breytti ég því stefnu til að komast fram hjá henni. Því næst tók ég aftur stefnu á ljós björgunarskipanna, þræddi fyrir brak í sjónum og komst svo nálægt að ég greindi skipsskrokkinn þrátt fyrir bjarmann af kastljósunum og heyrði mál manna á skipinu, sem reyndist vera Hrókur. Sá ég trillubát leggja af stað frá Hrók og koma í áttina til mín. Var ég nú tekinn um borð í trillubátinn".
Sjóréttur var haldinn út af strandi b/v Goðaness í Neskaupstað dagana 5.—7. janúar. Kom þar m. a. fram í sambandi við björgun skipverja af frásögn Halldórs Halldórssonar 1. stýrimanns, að skipverjar reyndu strax að koma út björgunarbátunum, en bakborðsbáturinn brotnaði strax, en hinum tókst að koma á sjóinn, en skipverjar misstu hann frá sér meðan verið var að koma honum til hléborða. Er skipið fór að síga að aftan gaf skipstjóri fyrirmæli um að allir skyldu flýta sér fram á stjórnpall. Sluppu allir sem á bátadekkinu voru og mátti þó ekki tæpara standa. Eftir það höfðust allir við í brúnni, kortaklefa og loftskeytaklefa þar til öruggt fluglínusamband við færeyskt skip og björgun gat hafist. Munu 10 menn hafa farið í björgunarstólinn fyrsta klukkutímann.
Skipstjóri batt alla í stólinn. Þegar 18. maður var um það bil kominn út í björgunarskipið, brotnaði Goðanes um hádekkið og afturhlutinn fór að síga hraðar. Björgunartóllinn kom samt aftur og átti að setja tvo menn í hann, Sigurrík Ormsson og Finnboga Finnbogason. Sá síðarnefndi flaut úr stólnum aftur, en Sigurríkur varð fastur með annan fótinn í stólnum og hélt hann utan um Halldór stýrimann, sem haldið hafði við stólinn og sleppti ekki takinu. Voru þeir þannig dregnir yfir að björgunarskipinu. Það síðasta, sem 1. stýrimaður sá, var að skipstjórinn hjálpaði Finnboga aftur upp á brúarvænginn, en Guðmundur Sigurðsson og Axel Óskarsson voru inni í brúnni." Gaf Guðmundur merki með vasaljósi, að draga mætti björgunarstólinn yfir, en slík merkjagjöf var viðhöfð meðan á björgun stóð. Eftir þetta hvarf afturhluti skipsins sjónum Halldórs stýrimanns. Guðmundur Sigurðsson 3. vélstjóri skýrði frá því að það síðasta sem hann hafi séð til skipstjórans hafi verið er honum (skipstjóra) og Finnboga skolaði út af brúarvængnum. Ekki gat hann séð að skipstjórinn hefði neitt flot sér til bjargar, en áður sá hann að hann hafði belg hjá sér, þó ekki bundinn við sig.

Sjómannablaðið Víkingur. 1-2 tbl. 1 febrúar 1957.
 

Pétur Hafsteinn Sigurðsson skipstjóri.
 

Skipbrotsmennirnir af Goðanesi. Myndin er tekin í Þórshöfn. Þeir eru frá vinstri í efri röð:, Finnbogi Finnbogason Seyðisfirði. Axel Óskarsson loftskeytamaður Neskaupstað. Jóhannes Hendrik Petersen Rituvík í Færeyjum. Halldór Halldórsson stýrimaður Eskifirði. Guðmundur Vestmann Neskaupstað. Emil Ásgeirsson Neskaupstað. Jónas Hólm Eskifirði. Anton Petersen Rituvík í Færeyjum. Eivind Guðmundsson Glyvrum í Færeyjum. Sigurríkur Ormsson Bíldudal. Kristján Gils Sveinþórsson Neskaupstað. Sigurjón Jónsson Neskaupstað.
Fremri röð frá v:, Högni Jónasson Neskaupstað. Jón Barðason Jónsson Neskaupstað. Guðmundur Sigurðsson Neskaupstað. Magnús Skarphéðinsson Neskaupstað. Guðmundur Helgason Neskaupstað. Kristján Vilmundarson Neskaupstað og Ingvar Bjarnason Neskaupstað. Á myndina vantar Færeyingana Olav Debes, Andreas Hilduberg, Kaj Johannessen og Ole J Beck.


 

  • 1
Today's page views: 115
Today's unique visitors: 9
Yesterday's page views: 568
Yesterday's unique visitors: 68
Total page views: 1075495
Total unique visitors: 77610
Updated numbers: 28.12.2024 04:33:23