Blog records: 2022 N/A Blog|Month_7
08.07.2022 20:25
B.v. Tryggvi gamli RE 2. LCHR / TFQC.
Botnvörpungurinn Tryggvi gamli RE 2 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir Útgerðarfélagið Hauk (Pétur J Thorsteinsson, Jóhannes Magnússon kaupmaður og fl ) í Reykjavík. Hét fyrst Þorsteinn Ingólfsson RE 2. 326 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,70 x 7,31 x 3,36 m. Smíðanúmer 737. Seldur árið 1922, h/f Alliance í Reykjavík, fékk þá nafnið Tryggvi gamli RE 2. Tryggvi var einn þeirra togara sem lenti í Halaveðrinu í febrúar 1925 og varð fyrir talsverðum áföllum. Togarinn lenti næstum því í árekstri við b.v Hilmi þegar hann var á leið í landvar af Halamiðum. Komst togarinn inn til Patreksfjarðar töluvert laskaður en áhöfnin heil. Tryggvi gamli var seigur á sumarsíldveiðunum, oftast með aflahæstu skipunum. Mikið afla og happaskip. Togarinn var seldur í brotajárn til Danmerkur og rifinn í Óðinsvé árið 1955.
B.v. Tryggvi gamli RE 2 með trollið á síðunni. (C) Guðbjartur Ásgeirsson. |
Nýr botnvörpungur
Enn bætst við fiskiflotann. Það er Þorsteinn Ingólfsson, eign hlutafélagsins Hauks. Hann kom hingað í gær frá Englandi og voru þessir farþegar: Thor Jensen, Kjartan Thors, Friðþjófur Thorsteinsson og Gottfredsen útgerðarmaður. Skipið er af sömu gerð eins og Ingólfur Arnarson. Skipstjóri er Einar Einarsson, frá Flekkudal.
Vísir. 1 júlí 1920.
B.v. Tryggvi gamli RE 2 á siglingu. (C) Guðbjartur Ásgeirsson. |
Tryggvi gamli í Halaveðrinu
Alliance togarinn Tryggvi gamli hafði haldið af stað í veiðitúr frá Reykjavík 30. janúar. Guðmundur Markússon skipstjóri var lasinn og ákvað að taka sér frí þennan túr og var Þorvaldur Eyjólfsson, gamalreyndur skipstjóri, fenginn í hans stað. Ákvað hann að halda vestur fyrir land og var búinn að reyna fyrir sér á nokkrum stöðum þegar fregnir bárust af sæmilegu frskiríi á Halanum. Ákvað hann því að halda þangað. Föstudaginn 6. febrúar var Tryggvi gamli búinn að vera tæpa viku á Halanum og hafði fengið reytingsafla. Þurfti þá að halda til lands og taka vatn og á leiðinni út var vörpunni kastað út af Kópanesi, en þar var lítinn afla að hafa. Var því aftur haldið á Halann og komið þangað um kvöldið. Þá var veður heldur slæmt og farið að snjóa. Ekki var þó beðið boðanna og vörpunni kastað. Lítill afli fékkst um nóttina og þegar veður tók að versna á laugardagsmorgun ákvað Þorvaldur að gera sjóklárt. Sagði honum hugur um að von væri á hinu versta veðri og því væri betra að halda að landi. Eftir að búið var að gera sjóklárt var Tryggva gamla snúið og sett á hæga ferð. Þegar hann lagði af stað voru flestir togararnir enn að veiðum.
Tryggvi gamli var búinn að vera að lóna á leiðinni að landi í um fjórar klukkustundir þegar óveðrið brast á fyrir alvöru og ekki var hægt að halda áfram. Þorvaldur ákvað að snúa skipinu upp í en slíkur var veðurofsinn að það tókst ekki fyrr en sett hafði verið á fulla ferð. Eftir það varði togarinn sig vel og það þótt mikill ís færi að hlaðast á hann. Ekkert bar til tíðinda fyrr en um klukkan níu um kvöldið. Þá fékk Tryggvi gamli á sig brotsjó er kom á stjórnborðshlið hans. Kastaði brotið skipinu á hliðina og braut fiskikassann á þilfarinu og hreif hann fyrir borð. Auk þess lonsuðu lifrartunnurnar sem skorðaðar höfðu verið rækilega á þilfarinu og fóru flestar þeirra fyrir borð. Björgunarbáturinn stjórnborðsmegin kastaðist til og inn á bátaþilfarið þar sem hann brotnaði mikið og fleiri skemmdir urðu á skipinu. Þegar þetta gerðist voru flestir skipverjanna staddir aftur í. Brugðu þeir strax við, fóru niður í lestina og hófust þar handa við að kasta og moka til í skipinu og reyna að rétta það. Jafnframt fóru nokkrir skipverjanna út á bátapallinn í þeim tilgangi að koma böndum á björgunarbátinn sem færst hafði úr skorðum þar sem augljós hætta var á að ef hann færi í sjóinn gæti svo farið að vírar og kaðlar sem honum fylgdu færu í skrúfuna. Var það harðsótt verk þar sem þilfarið var flughált og þar enga handfestu að fá. Mönnunum heppnaðist þó ætlunarverk sitt og eftir því sem miðaði hjá mönnunum í lestinni tók Tryggvi gamli að rétta sig og varð smátt og smátt nokkurn veginn kjölréttur. Laust eftir miðnætti á sunnudeginum greindu mennirnir í brúnni á Tryggva gamla allt í einu ljós fram undan á stjórnborða og sáu brátt að þar var togari á reki undan veðrinu.
Stefndi í árekstur milli skipanna en Þorvaldi skipstjóra tókst að afstýra honum á síðustu stundu. Á þeirri stundu sem Tryggvi gamii skreið fram hjá munu ekki hafa verið nema nokkrir metrar á milli skipanna. Skömmu síðar fékk togarinn aftur á sig brotsjó sem kom bakborðsmegin á það. Sjórinn braut flestar rúðurnar í stýrishúsinu sem hálffylltist af sjó en brugðið var við og neglt fyrir gluggana. En eftir þetta var heldur kaldsamt í brúnni og vist mannanna hin nöturlegasta. Þeir létu það samt ekki á sig fá og einbeittu sér að því að reyna að forða skipinu frá brotsjóum og straumhnútum sem risu og féllu allt í kringum það. Allan tímann var vél skipsins keyrð á fullri ferð og hafður aukamannskapur í kyndingunni. Upp úr nóni á sunnudegi taldi Þorvaldur að komið væri slarkfært ferðaveður og fóru menn þá að reyna að reikna út hvar skipið væri statt. Kom þeim saman um að líklega væri það þvert út af Barðanum og var stefnan til lands sett eftir því. Upp úr miðnætti sást loks ljós í landi og var það á vitanum á Látrabjargi, langtum sunnar en þeir höfðu búist við að vera. Kom í ljós að skipið hafði hrakið um 30 sjómílur undan veðrinu þótt keyrt hefði verið upp í það á fullri ferð allan tímann. Hélt Tryggvi gamli síðan inn á Patreksfjörð og létu skipverjarnir það verða sitt fyrsta verk að koma upp bráðabirgðaloftneti til þess að þeir gætu látið vita af sér. Náði Adolf Guðmundsson fljótlega sambandi við Sverre Smith, loftskeytamann á togaranum Gulltoppi, og bað hann að hafa samband við Reykjavík og láta vita að Tryggvi gamli væri kominn í öruggt var og að ekkert amaði að mannskapnum um borð.
Halaveðrið.
Úr Grein í Fiskifréttum frá 8 júní 2001.
B.v. Tryggvi gamli RE 2 inni á Reykjarfirði við Djúpavík. (C) Guðbjartur Ásgeirsson. |
Bræðslusíldaraflinn nær helmingi meiri en í fyrra
Brimir og Tryggvi gamli hæstir af togurunum
Síldaraflinn í bræðslu var síðastliðið laugardagskvöld á miðnætti kominn upp í rúmlega 2 milj. mál og orðinn nær helmingi meiri en á sama tíma í fyrra. Á sama tíma var saltsíldaraflinn orðinn tæplega 190 þúsund tunnur, eða heldur minni en á sama tíma í fyrra. Aflahæsti togarinn er ,,Brimir“ frá Norðfirði, með 21,837 mál í bræðslu og 122 tunnur í salt. Næsthæstur er Tryggvi gamli með 20,345 mál í bræðslu og 1049 tunnur í salt. Af línuskipunum er Eldborg hæst, með 16,093 mál í bræðslu og af mótorbátum er Huginn I. hæstur, með 11.059 mál í bræðslu og 1,318 tunnur í salt.
Morgunblaðið. 31 ágúst 1937.
B.v. Tryggvi gamli RE 2 á síldveiðum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
|
Togaraútgerðarfélagið Alliance 50 ára
Í dag er elzta togaraútgerðarfélag landsins 50 ára. Það var stofnað þann 18. október 1905 og voru stofnendur þessir: Thor Jensen kaupm., f. h. verzlunarinnar „Godthaab", og' skipstjórarnir Halldór Kr. Þorsteinsson, Jón Ólafsson, Jón Sigurðsson, Jafet Ólafsson, Kolbeinn Þorsteinsson og Magnús Magnússon, allir til heimilis í Reykjavík. Þrír af stofnendunum eru enn á lífi, þeir Halldór Kr. Þorsteinsson, Jón Sigurðsson og Kolbeinn Þorsteinsson. 1. gr. félagssamningsins 18. okt. 1905 hljóðar svo: „Tilgangur félagsins er fyrst og fremst, að láta byggja botnvörpugufuskip í Englandi, er vér gerum ráð fyrir að kosti hérum bil 125 — eitt hundrað tuttugu og fimm þúsund krónur, að gjöra skip þetta út héðan til fiskiveiða, og loks ef kringumstæður leyfa, að kaupa síðar fleiri skip til fiskiveiða útgjörðar á sama hátt". Var síðan útvegað lán í Landsbanka Íslands, en þá var bankastjóri þar Tryggvi Gunnarsson, og samið um smíði togara í Skotlandi. Togarinn hlaut nafnið ,,Jón forseti" og kom hingað til lands 23. janúar 1907. Skipið var mjög vandað. Kjalarlengd var 130 fet og stærðin 233 smál. brúttó, en 91,56 smál. nettó, og ganghraði ca. 10 mílur. Var skipið með allra fullkomnustu, stærstu og beztu togurum, sem smíðaðir höfðu verið fram til þessa og fyrsti togarinn er íslendingar létu byggja. Fyrsti skipstjórinn var Halldór Kr. Þorsteinsson. Fyrsti framkvæmdastjóri félagsins var Thor Jensen þar til í árslok 1910. Hlut hans í „Alliance" keypti þá Gunnar Gunnarsson, kaupm., er varð svo framkvæmdastjóri félagsIns til ársloka 1912. Jón Ólafsson skipstjóri og síðar alþingismaður, var framkvæmdastjóri frá 1. jan. 1913 til 1930. Síðan hefir sonur hans Ólafur H. Jónsson, cand. jur., verið framkvæmdastjóri félagsins eða í rösk 25 ár.
Þann 26. desember (annan dag jóla) 1911 kom annar togarinn til landsins, smíðaður fyrir félagið í Selby í Englandi; hann hlaut nafnið „Skúli fógeti", var 272 smál. brúttó að stærð og kostaði kominn til Íslands um 165 þúsund krónur. Togarar þeir, sem félagið hefir átt, eru sem hér greinir: .,Jón forseti" byggður og keyptur 1906. „Skúli fógeti", byggður og keyptur 1911. „Skúli fógeti" yngri (1920). „Tryggvi gamli" byggður 1920 og keyptur 1922. „Hannes ráðherra" (1926). „Ólafur" byggður 1926 og keyptur 1929. ,,Kári" byggður 1920 og keyptur 1932. „Jón Ólafsson" byggður 1933 og keyptur 1939. „Kári" byggður 1936 og keyptur 1947. ,,Jón forseti" byggður 1948. Þeir sem lengst hafa verið skipstjórar á skipum „Alliance" eru þessir: Halldór Kr. Þorsteinsson, sem var fyrsti skipstjóri félagsins, og var með ,,Jón forseta" eldri og ,,Skúla fógeta" eldri, Jón Sigurðsson, Hverfisg. 75, Gísli Þorsteinsson, Guðm. Markússon, Karl Guðmundsson, Snæbjörn Ólafsson, Markús Guðmundsson og Eggert Klemenzson, sem nú er skipstjóri á „Jóni forseta". Guðm. Markússon hefir lengst verið skipstjóri á skipum félagsins, eða nær óslitið frá 9. sept. 1919 til ársloka 1950, tók við skipstjórn á „Jóni forseta" 9. sept. 1919, síðan „Tryggva gamla", þá ,Hannesi ráðherra" þegar hann kom nýr „Jóni Ólafssyni" og síðast ,,Jóni' forseta" nýja frá því 1948 og til 1950, er hann lét af sjómennsku. 2. nóv. 1912 stofnaði félagið að hálfu á móti Pétri J. Thorsteinsson, kaupm., lifrarbræðslufélagið „Bræðing", en því félagi var breytt í hlutafélag 9. nóv. 1915.
Félag þetta keypti eignarjörðina Þormóðsstaði við Skerjafjörð og rak þar bræðslu á lifur úr togurunum, þar til þeir byrjuðu bræðslu lifrarinnar um borð, en það var árið 1927. Byggðir voru á jörðinni stórir fiskþurrkunarreitir, og byggð fiskverkunarhús. Nú eru fiskreitirnir horfnir en fiskhúsin standa enn og hafa verið byggð þar fleiri hús og reistir fiskþurrkunarhjallar. Árið 1913 voru keyptar eignarlóðir í Ánanaustum, vestast við Mýrargötu í Reykjavík og voru þar gerðir fiskþurrkunar reitir og reist fiskgeymsluhús, og fiskþurrkunarhús. Alliance keypti húseignina „Exeter" við Tryggvagötu nr. 4 árið 1920, og hafa skrifstofur félagsins verið þar síðan haustið 1920. Félagið á ennfremur húseignirnar Tryggvagötu 6 og Vesturgötu 14, en þær eignir keypti það árið 1938. „Alliance" stofnaði hlutafélag um síldarbræðslu á Djúpavík í Reykjarfirði, h.f. Djúpavík, og átti félagið 2/3 hluta þess á móti h.f. Einari Þorgilssyni í Hafnarfirði. Síldarbræðslustöðin Dagverðareyri var keypt árið 1941. Stjórn félagsins skipa nú: Ólafur H.Jónsson formaður, og Jón Sigurðsson skipstj. og Guðm. Markússon skipstj. meðstjórnendur.
Tíminn. 18 október 1955.
B.v. Tryggvi gamli RE 2 með nýtt stýrishús. Ljósmyndari óþekktur.
|
Sex gamlir togarar til
niðurrifs á tveim mánuðum
Upp úr helginni leggja héðan úr höfn í síðasta sinn þrír togarar, sem lokið hafa ætlunarverki sínu sem íslensk fiskiskip. Það eru gömlu togararnir „Tryggvi gamli“, „Maí“ og Faxi. Ekki fara þeir nú að leita nýrra miða, heldur á járnið úr þeim að hverfa í bræðsluofna úti í Danmörku, nánar tiltekið í Óðinsvéum, en þangað hafa þeir verið seldir til niðurrifs. Þeir Magnús Magnússon og Guðmundur P Kolka hafa keypt þessi gömlu skip og selja þau nú til niðurrifs, því að til annars eru þau ekki nýt lengur. Tíðindamaður Vísis hitti Guðmund sem snöggvast að máli niðri á Ægisgarði í gær, en þar vann hann ásamt fleiri mönnum og stórvirkum tækjum að því að skipa fram ýmsu brotajárni sem skipin verða hlaðin. Þeir félagar hafa fyrr í sumar, í maí, selt þrjá togara aðra til Danmerkur, til sama fyrirtækis, en það voru skipin „Höfðaborg“ (sem eitt sinn hét „Belgaum“), og Kveldúlfstogararnir „Skallagrímur“ og „Þórólfur“.
Á föstudag eða laugardag er væntanlegt hingað danskt björgunar- og dráttarskip, „Sigyn" frá hinu kunna Zwitzer-björgunarfélagi, en það er 1200 hestafla skip, sem mun draga togarana þrjá til Danmerkur. Danir munu setja þrjá menn um borð í hvert skip, svo og björgunartæki handa þeim, ef eitthvað óvænt kæmi fyrir. Með þessum þrem síðustu skipum hafa allir gömlu togararnir verið seldir til niðurrifs, nema einn, „Venus“ úr Hafnarfirði, en hann var nýjastur gömlu togaranna. Nokkrir hafa verið búnir olíukynditækjum og enn í notkun. Að öðru leyti er togarastóll landsmanna eingöngu nýsköpunartogararnir, eins og kunnugt er. Þeir félagar, Guðmundur og Magnús, kaupa brotajárn til þess að ferma skipin og greiða 200 krónur fyrir hverja lest. Hafa þeir að þessu sinni keypt um 500 lestir, sem komið verður fyrir í skipunum og flutt út með þeim.
Fyrirtækið sem kaupir skipin í Óðinsvéum, bræðir þau sjálft, og járnið sem þannig fæst, verður einkum notað til skipasmíða. Má því vænta þess, að innan tíðar sigli önnur, ný skip um höfin, smíðuð að einhverju leyti úr járni úr hinum gömlu fengsælu íslensku fiskiskipum.
Vísir. 24 júní 1955.
08.07.2022 09:02
Skagfirðingur SK 1. TFAM.
Síldveiðiskipið Skagfirðingur SK 1 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1923 sem línuveiðari. Hét fyrst Ribes H 804 og var smíðað fyrir Pickering & Haldane‘s Steam Trawling Co Ltd í Hull. 97 brl. 200 ha. 2 þennslu gufuvél. 25,94 x 5,81 x 2,79 m. Smíðanúmer 783. Selt í nóvember 1925, S.A. Oostendsche Reederij-Armement Ostendais í Ostend í Belgíu, hét þar Celestin Demblon O 239. Skipið var selt 1934, Samvinnufélaginu Tindastóli á Sauðárkróki. Það var Frank Michelsen ásamt fl. Á Sauðárkróki sem keyptu það frá Belgíu. Skagfirðingur stundaði nánast eingöngu síldveiðar á meðan þeir áttu það. Selt í október 1940, Jóni Gíslasyni útgerðarmanni og Sigurjóni Einarssyni skipstjóra í Hafnarfirði, hét þá Búðaklettur GK 250. Skipið var endurbyggt árið 1941, m.a. settur hvalbakur og nýtt stýrishús á það. Einnig var gufuvélin og ketillinn tekin úr því og sett í skipið 200 ha. Newbury díesel vél. Eftir þessar breytingar mældist það 101 brl. Búðaklettur strandaði rétt við gamla vitann á Reykjanesi hinn 23 desember árið 1944. Áhöfnin, 8 menn, bjargaði sér á kaðli til lands en 2 farþegar fórust. Skipið var að koma frá Hornafirði á leið til Reykjavíkur en ætlaði að koma við í Vestmannaeyjum þar sem annar farþeginn átti heima, en komst ekki inn á höfnina vegna óveðursins sem þá gekk yfir við suðurströndina.
Síldveiðiskipið Skagfirðingur SK 1 að landa síld á Siglufirði. (C) Kristfinnur Guðjónsson. |
„Skagfirðingur“
Til Sauðárkróks er nýkomið, eimskip, línuveiðari eða síldveiðaskip keypt frá Belgíu. Það heitir »Skagfirðingur«, smíðaður 1923. Stærð: 98 brúttó tons. Eigendur h. f. »Tindastóll«á Sauðárkrók.
Ægir. 6 tbl. 1 júní 1934.
Um borð í Skagfirðingi á síldveiðum. (C) Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. |
Breyting til batnaðar
Ýmsir útgerðarmenn, er áttu línuveiðaskip með gufuvélum hafa undanfarið látið taka gufuketil og vél úr skipunum og útbúið þau fyrir dieselvélar. Við þessar breytingar eykst burðarmagn skipanna að miklum mun, þar eð diesel vél ásamt hæfilegum olíubirgðum er léttara en gufuvél, ketill, kol og vatn. Fyrsta skipið, sem komið er af stað eftir slíka breytingu, eftir að útgerðarmenn almennt fengu áhuga fyrir þannig gerðum umbótum skipa sinna, er M.s. „Búðaklettur", eign þeirra Jóns Gíslasonar útgerðarmanns og Sigurjóns Einarssoonar skipstjóra í Hafnarfirði. Var sett í skipið 200/220 H.A. tvígengis Sirron dieselvél smíðuð af The Newbury Diesel Co. Ltd., í Englandi. „Búðaklettur", sem er 97 smálestir, fer nú röskar 8 mílur á klukkustund fullfermdur, þótt vélin sé ekki knúin að fullu enn þá, og hefir um 50 smálesta meira burðarmagn en fyrir þessar umbætur.
Sjómannablaðið Víkingur. 5 tbl. 1 maí 1941.
Búðaklettur GK 250 í Vestmannaeyjahöfn á stríðsárunum. (C) Þorsteinn Jósepsson. |
M.s. Búðaklettur strandar við Reykjanes
Tveir farþegar drukkna
Í gærmorgun um kl. 7 strandaði vjelskipið Búðaklettur frá Hafnarfirði á Reykjanesi, og fórust tveir farþegar, er voru með skipinu, en skipshöfn öll bjargaðist í land. Þeir, sem fórust voru þeir Björn Benediktsson til heimilis að Hverfisgötu 125 og Friðrik Sigjónsson frá Vestmannaeyjum. Blaðið hefir átt tal við 1. vjelstjóra á Búðakletti, Sigurð Pjetursson og skýrði hann svo frá:
Skipið var á leið frá Hornafirði til Reykjavíkur, og átti að koma við í Vestmannaeyjum, og ætlaði Friðrik þar af skipinu. Sökum veðurs komst enginn út að skipinu í Vestmannaeyjum, og var því haldið áfram áleiðis til Reykjavíkur. Ekkert sjerstakt bar til tíðinda, nema hvað veðurhæð óx stöðugt, uns skipið fjekk á sig þrjá brotsjói um kl. 7 í morgun. Var þá komið fárviðri og gekk á með hríðarjeljum. Í þeim svifum, sem skipið fjekk á sig sjói þessa, tók það niðri. Ekki er hægt að segja, hvað næst gerðist, þegar alt bar svo skjótt að höndum, en skipið hentist upp í fjöruna og gekk sjórinn stöðugt yfir það. Mun hafa verið fjara, er skipið strandaði, og reyndi nú hver, sem betur gat að bjarga sjer. Margir voru sofandi eða í rúmum sínum, er slysið bar að, og höfðu ekki ráðrúm til þess að klæða sig. Og björgunarbátum gátu þeir ekki náð. Af miklum vaskleika tókst stýrimanni, Ólafi Magnússyni frá Hafnarfirði að komast til lands með kaðal, sem hann festi og komst Sigurður Pjetursson og annar maður til eftir kaðli þessum á land, en skömmu síðar slitnaði kaðallinn.
Nokkru síðar tókst svo að koma kaðli aftur úr skipinu í land, en þá voru enn átta menn í skipinu og mun Vestmannaeyingurinn, Friðrik Sigjónsson hafa farið næstur öðrum vjelstjóra eftir kaðlinum, en hann misti takið og sogaðist út aftur. Sömuleiðis komst Björn Benediktsson á kaðalinn, en misti af honum á leiðinni til lands og hvarf í brimrótið. Skipið strandaði rjett hjá gamla Reykjanesvitanum. Farþegarnir munu hafa farist, vegna þess, að ólög riðu yfir, þegar þeir voru á leið í land á kaðlinum. Jeg fór, segir Sigurður, þegar að bústað vitavarðar og bað um hjálp, þar eð skipbrotsmenn voru flestir illa klæddir og kom jeg þangað um kl. 8.30 í gærmorgun. Þeir, sem síðast komu að vitanum, komu kl. 9.30—10 í gærmorgun. Hafði engum orðið neitt verulega meint af vosbúð sinni, enda voru móttökur vitavarðar framúrskarandi. Skipstjóri Búðakletts heitir Kristens Sigurðsson. Búðaklettur var byggt árið 1923, en endurbyggt árið 1941, en þá sett í það díeselvjel. Skipið var 101 rúmlest, alt hið traustasta. Kl. 3 í gær sást það síðast til skipsins, að það var brotið í tvent.
Morgunblaðið. 24 desember 1944.
02.07.2022 09:09
B.v. Surprise GK 4 LBTH / TFSC
Botnvörpungurinn Surprise GK 4 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska sjóherinn. Hleypt af stokkunum í maí 1919, en skipið ekki klárað. Hét Samuel Martin í þeirra eigu (Admiralty no: 4255). Seldur sama ár Hellyers Brothers Ltd í Hull, og létu þeir klára smíði skipsins og fengu það afhent í mars árið eftir (1920). Hét hjá þeim Field Marshal Plumer H 174. 313 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,11 x 7,22 x 3,86 m. Smíðanúmer 898. Togarinn var svonefnt stjórnarskip, þ.e. eitt af þeim skipum sem breska stjórnin lét smíða til stríðsnota, en þessi togari sem og fleiri, var þó ekki hleypt af stokkunum fyrr en eftir stríð. Seldur í nóvember 1924, Einari Þorgilssyni, Ólafi Tryggva Einarssyni og Þorgils G Einarssyni í Hafnarfirði. Fékk nafnið Surprise GK 4, eftir skútu sem Einar hafði átt og reynst happaskip. Það gerði einnig þetta skip hans, mikið happa og aflaskip. Frá 4 nóvember 1939 er Einar Þorgilsson & Co í Hafnarfirði eigandi togarans. Surprise stundaði síldveiðar yfir sumartímann eins og aðrir íslenskir togarar gerðu á 3 og 4 áratugnum og aflaði vel. Seldur Sæfelli h/f í Vestmannaeyjum árið 1945, fær nafnið Helgafell VE 32. Seldur Oddi Helgasyni í Reykjavík í júní árið 1952. Hann selur togarann í brotajárn og er hann rifinn í Bo'ness í Skotlandi sama ár.
Tryggvi Ófeigsson kunni best að segja frá kaupum Einars Þorgilssonar á togaranum Surprise. Gefum honum orðið" Þegar ég kom af síldinni um haustið 1924, fór ég aftur stýrimaður á Walpole. Á miðju hausti (19 nóv), er við vorum í höfn á Walpole, að hringt er í til mín og sagt í símann: "Hér er Einar Þorgilsson í Hafnarfirði. Mig vantar skipstjóra á togara, sem ég er að kaupa úti í Englandi af Hellyer, og hann þarf að vera kominn"po stoende fod"sá skipstjóri um borð í Íslandið annað kvöld á leið til Leith. Öll lífstíð er á fleygiferð". Tryggvi lét til leiðast og fór út til Leith með Íslandinu. Var hann kominn þangað 23 nóvember og degi síðar til Hull. Gefum honum aftur orðið þegar hann kemur um borð í togarann sem Einar keypti. "Þetta var hið álitlegasta skip, en þó hafði Einar viljað fremur annan togara, sem Hellyers átti, Allanby,en þann togara vildi Hellyers ekki selja. Hann strandaði síðar við Grindavík. Orlando(annar Hellyers bróðirinn, hinn hét Owen) sagði mér, að sér væri minnisstætt, hve Einar hefði sótt fast að fá Allanby, og kom þar fram sem víðar, að Einar Þorgilsson lét ekki af sínu fyrr en í fulla hnefana. Hann margsagði, þegar þeir voru að ræða um togarakaupin: "I want Allanby" Svo mörg voru þau orð.Tryggvi var fyrsti skipstjóri á Surprise og var á honum tvo túra.
Tryggvasaga Ófeigssonar.
Ásgeir Jakobsson 1979.
B.v. Surprise GK 4 á siglingu. Sígarettumynd stór í minni eigu. |
„Surprise“ GK 4
Nýr togari kom til Hafnarfjarðar í gær. Hefir Einar Þorgilsson útgerðarmaður keypt hann í Englandi. Togarinn er 4 ára gamall og heitir „Surprise“.
Morgunblaðið. 12 desember 1924.
B.v. Surprise GK 4 á útleið frá Hafnarfirði á stríðsárunum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
|
Síldarafli togaranna
Allir togarar eru nú hættir síldveiðum og herpinótaveiði virðist vera að hverfa, en reknetaveiði að glæðast. Þessir togarar eru hættir síldveiðum og hafa þeir aflað alls í sumar mál og tunnur, sem hér segir:
Garðar 19.259,
Surprise 17.886,
Tryggva gamli 16.400,
Kári 13.360,
Arinbjörn hersir 11.040,
Egill Skallagrímsson 13.182, og
Skallagrímur 12.812.
Garðar, Surprise, Egill Skallagrímsson og Arinbjörn hersir fara heimleiðis. Kári og Tryggvi gamli byrja karfaveiðar og leggja aflann á land í Djúpuvík. Skallagrímur er byrjaður karfaveiðar.
Nýja dagblaðið. 25 ágúst 1936.
B.v. Surprise GK 4 á leið til löndunar í Djúpavík. (C) Sigurjón Vigfússon.
|
Hálfa skipið með járnfarminn
leggur af stað
Hálfa Liberty-skipið, sem Tíminn skýrði frá um daginn og birti mynd af, er nú að verða ferðbúið til hafsiglingar sinnar með tundurspillinn innanborðs. Í fyrrakvöld var búið að koma brotajárninu að mestu úr tundurspillinum fyrir í því og búa það til ferðar, og var það dregið innan úr Elliðaárvogi í Reykjavíkurhöfn í fyrrakvöld, en þar lá það í gær og þótti kynlegur farkostur. Er nú væntanlegur þýzkur dráttarbátur, sem á að draga hálfa skipið út, svo og togarann Helgafell, sem seldur hefir verið til niðurrifs. Það er Keilir h.f. sem á þetta skip og farm þess og sendir út til sölu.
Tíminn. 23 júlí 1952.
- 1