08.07.2022 09:02

Skagfirðingur SK 1. TFAM.

Síldveiðiskipið Skagfirðingur SK 1 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1923 sem línuveiðari. Hét fyrst Ribes H 804 og var smíðað fyrir Pickering & Haldane‘s Steam Trawling Co Ltd í Hull. 97 brl. 200 ha. 2 þennslu gufuvél. 25,94 x 5,81 x 2,79 m. Smíðanúmer 783. Selt í nóvember 1925, S.A. Oostendsche Reederij-Armement Ostendais í Ostend í Belgíu, hét þar Celestin Demblon O 239. Skipið var selt 1934, Samvinnufélaginu Tindastóli á Sauðárkróki. Það var Frank Michelsen ásamt fl. Á Sauðárkróki sem keyptu það frá Belgíu. Skagfirðingur stundaði nánast eingöngu síldveiðar á meðan þeir áttu það. Selt í október 1940, Jóni Gíslasyni útgerðarmanni og Sigurjóni Einarssyni skipstjóra í Hafnarfirði, hét þá Búðaklettur GK 250. Skipið var endurbyggt árið 1941, m.a. settur hvalbakur og nýtt stýrishús á það. Einnig var gufuvélin og ketillinn tekin úr því og sett í skipið 200 ha. Newbury díesel vél. Eftir þessar breytingar mældist það 101 brl. Búðaklettur strandaði rétt við gamla vitann á Reykjanesi hinn 23 desember árið 1944. Áhöfnin, 8 menn, bjargaði sér á kaðli til lands en 2 farþegar fórust. Skipið var að koma frá Hornafirði á leið til Reykjavíkur en ætlaði að koma við í Vestmannaeyjum þar sem annar farþeginn átti heima, en komst ekki inn á höfnina vegna óveðursins sem þá gekk yfir við suðurströndina.
 

Síldveiðiskipið Skagfirðingur SK 1 að landa síld á Siglufirði. (C) Kristfinnur Guðjónsson. 

                                          „Skagfirðingur“

Til Sauðárkróks er nýkomið, eimskip, línuveiðari eða síldveiðaskip keypt frá Belgíu. Það heitir »Skagfirðingur«, smíðaður 1923. Stærð: 98 brúttó tons. Eigendur h. f. »Tindastóll«á Sauðárkrók.

Ægir. 6 tbl. 1 júní 1934.
 

Um borð í Skagfirðingi á síldveiðum.  (C) Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. 

                              Breyting til batnaðar

Ýmsir útgerðarmenn, er áttu línuveiðaskip með gufuvélum hafa undanfarið látið taka gufuketil og vél úr skipunum og útbúið þau fyrir dieselvélar. Við þessar breytingar eykst burðarmagn skipanna að miklum mun, þar eð diesel vél ásamt hæfilegum olíubirgðum er léttara en gufuvél, ketill, kol og vatn. Fyrsta skipið, sem komið er af stað eftir slíka breytingu, eftir að útgerðarmenn almennt fengu áhuga fyrir þannig gerðum umbótum skipa sinna, er M.s. „Búðaklettur", eign þeirra Jóns Gíslasonar útgerðarmanns og Sigurjóns Einarssoonar skipstjóra í Hafnarfirði. Var sett í skipið 200/220 H.A. tvígengis Sirron dieselvél smíðuð af The Newbury Diesel Co. Ltd., í Englandi. „Búðaklettur", sem er 97 smálestir, fer nú röskar 8 mílur á klukkustund fullfermdur, þótt vélin sé ekki knúin að fullu enn þá, og hefir um 50 smálesta meira burðarmagn en fyrir þessar umbætur.

Sjómannablaðið Víkingur. 5 tbl. 1 maí 1941.
 

Búðaklettur GK 250 í Vestmannaeyjahöfn á stríðsárunum. (C) Þorsteinn Jósepsson. 

    M.s. Búðaklettur strandar við Reykjanes
                 Tveir farþegar drukkna


Í gærmorgun um kl. 7 strandaði vjelskipið Búðaklettur frá Hafnarfirði á Reykjanesi, og fórust tveir farþegar, er voru með skipinu, en skipshöfn öll bjargaðist í land. Þeir, sem fórust voru þeir Björn Benediktsson til heimilis að Hverfisgötu 125 og Friðrik Sigjónsson  frá Vestmannaeyjum. Blaðið hefir átt tal við 1. vjelstjóra á Búðakletti, Sigurð Pjetursson og skýrði hann svo frá:
Skipið var á leið frá Hornafirði til Reykjavíkur, og átti að koma við í Vestmannaeyjum, og ætlaði Friðrik þar af skipinu. Sökum veðurs komst enginn út að skipinu í Vestmannaeyjum, og var því haldið áfram áleiðis til Reykjavíkur. Ekkert sjerstakt bar til tíðinda, nema hvað veðurhæð óx stöðugt, uns skipið fjekk á sig þrjá brotsjói um kl. 7 í morgun. Var þá komið fárviðri og gekk á með hríðarjeljum. Í þeim svifum, sem skipið fjekk á sig sjói þessa, tók það niðri. Ekki er hægt að segja, hvað næst gerðist, þegar alt bar svo skjótt að höndum, en skipið hentist upp í fjöruna og gekk sjórinn stöðugt yfir það. Mun hafa verið fjara, er skipið strandaði, og reyndi nú hver, sem betur gat að bjarga sjer. Margir voru sofandi eða í rúmum sínum, er slysið bar að, og höfðu ekki ráðrúm til þess að klæða sig. Og björgunarbátum gátu þeir ekki náð. Af miklum vaskleika tókst stýrimanni, Ólafi Magnússyni frá Hafnarfirði að komast til lands með kaðal, sem hann festi og komst Sigurður Pjetursson og annar maður til eftir kaðli þessum á land, en skömmu síðar slitnaði kaðallinn.
Nokkru síðar tókst svo að koma kaðli aftur úr skipinu í land, en þá voru enn átta menn í skipinu og mun Vestmannaeyingurinn, Friðrik Sigjónsson hafa farið næstur öðrum vjelstjóra eftir kaðlinum, en hann misti takið og sogaðist út aftur. Sömuleiðis komst Björn Benediktsson á kaðalinn, en misti af honum á leiðinni til lands og hvarf í brimrótið. Skipið strandaði rjett hjá gamla Reykjanesvitanum. Farþegarnir munu hafa farist, vegna þess, að ólög riðu yfir, þegar þeir voru á leið í land á kaðlinum.  Jeg fór, segir Sigurður, þegar að bústað vitavarðar og bað um hjálp, þar eð skipbrotsmenn voru flestir illa klæddir og kom jeg þangað um kl. 8.30 í gærmorgun. Þeir, sem síðast komu að vitanum, komu kl. 9.30—10 í gærmorgun. Hafði engum orðið neitt verulega meint af vosbúð sinni, enda voru móttökur vitavarðar framúrskarandi. Skipstjóri Búðakletts heitir Kristens Sigurðsson. Búðaklettur var byggt árið 1923, en endurbyggt árið 1941, en þá sett í það díeselvjel. Skipið var 101 rúmlest, alt hið traustasta. Kl. 3 í gær sást það síðast til skipsins, að það var brotið í tvent.

Morgunblaðið. 24 desember 1944.

Flettingar í dag: 870
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 947
Gestir í gær: 12
Samtals flettingar: 204504
Samtals gestir: 5817
Tölur uppfærðar: 13.8.2022 19:58:12