Blog records: 2016 N/A Blog|Month_8

31.08.2016 08:59

2774. Kristrún RE 177. TFKE.

Kristrún RE 177 var smíðuð hjá Solstrand Slip & Batbyggeri A/S í Tomrefjord í Noregi árið 1988. Smíðanúmer 53. 765 bt. 1.000 ha. Caterpillar vél, 735 Kw. Hét áður nöfnunum Appak, Eldfisk, Stalbjörn og Staalbjörn. Eigandi skipsins er Fiskkaup h/f í Reykjavík frá árinu 2008.


Kristrún RE 177 við Grandagarð.                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa. 30 ágúst 2016.

30.08.2016 10:09

173. Sigurður Ólafsson SF 44. TFVX.

Sigurður Ólafsson SF 44 var smíðaður í Risör í Noregi árið 1960 fyrir Guðmund Runólfsson Grafarnesi, Guðmund Kristjánsson og Jón Kristjánsson í Eyrarsveit Snæfellssýslu. Hét fyrst Runólfur SH 135. 115 brl. 300 ha. Wichmann díesel vél. Skipið var endurmælt í júní 1969 og mældist þá 104 brl. Selt 30 desember árið 1970, Haferninum h/f á Akranesi, hét Sigurvon AK 56. Skipið var selt 28 apríl 1975, Konráð Júlíussyni í Stykkishólmi, skipið hét Sigurvon SH 35. Ný vél (1977) 640 ha. Samofa díesel vél. Selt 4 janúar 1978, Sigurði s/f í Stykkishólmi, hét Sigurður Sveinsson SH 36. Skipið var selt 10 nóvember 1980, Sigurði Ólafssyni h/f á Höfn í Hornafirði, heitir Sigurður Ólafsson SF 44. Ný vél (1983) 640 ha. Mitsubishi vél, 471 Kw. Skipið var lengt og yfirbyggt árið 1987, mældist þá 124 brl. Ný vél (2006) 650 ha. Mitsubishi díesel vél, 478 Kw. Skipið er nú í eigu Sigurðar Ólafssonar ehf á Höfn í Hornafirði.


Sigurður Ólafsson SF 44 kominn úr slipp nýmálaður.               (C) Þórhallur S Gjöveraa. 29 ágúst 2016.


Sigurður Ólafsson SF 44 í slippnum í Reykjavík.                     (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 ágúst 2016.


Sigurður Ólafsson SF 44 við Grandagarð á leið í slipp.            (C) Þórhallur S Gjöveraa. 18 ágúst 2016.

29.08.2016 09:59

Óðinn. LBQT / TFOA.

Strandvarnaskipið Óðinn var smíðaður í Kaupmannahöfn árið 1926 fyrir Ríkissjóð Íslands. 512 brl. 1.200 ha. 3 þennslu gufuvél. Óðinn var fyrsta varðskip sem smíðað var fyrir Íslendinga og kom hann til landsins 23 júní árið 1926 með viðkomu í Vestmannaeyjum. Óðinn var seldur til Svíþjóðar árið 1936.


Óðinn á Reykjavíkurhöfn.            Ljósmyndari óþekktur. Íslenzkar eimskipamyndir. Mynd í minni eigu.

Þegar á árinu 1925 þótti þingmönnum Landhelgissjóður Íslendinga orðinn svo stór að hann nægði til að smíða eigið varðskip. Einkum var talið nauðsynlegt að halda úti skipi úti fyrir Austurlandi því þar þótti ágangur botnvörpuskipa óvenju mikill. Átti þetta við um seinni hluta vetrarvertíðar þegar fiskur gekk upp á grynningar úti fyrir söndum Skaftafellssýslu.
Nýsmíði fyrsta skipsins, sem Landhelgissjóðurinn fjármagnaði, hvíldi á herðum yfirmanns landhelgisgæslunnar, Jóns Magnússonar forsætis og dómsmálaráðherra, en Jón hafði um árabil beitt sér fyrir aukinni landhelgisgæslu hér við land. Varðskipið var smíðað í Kaupmannahöfn árið 1925 og gaf jón fyrirmæli um að það yrði skírt Óðinn. Var Jóhann P Jónsson ráðinn skipherra þess. Óðinn kom til landsins 23 júní árið 1926.

                            Óðinn kominn
Í gærkvöldi, klukkan rúmlega 10, kom hið nýja strandvarnaskip okkar hingað. Hafði það komið til Vestmannaeyja kl. 11,15 í gærmorgun, stóð þar við til kl 1.40 e. h., en kom þó hingað ekki síðar en þetta, og má af því sjá. hve hraðskreitt það er. Það lagðist að austur-uppfyllingunni, og dreif þangað margt fólk þó áliðið væri, til þess að sjá skipið, sem svo margar góðar vonir eru bundnar við.  Þegar skipið var lagst að hafnarbakkanum fór fjármálaráðherra Jón Þorláksson út í skipið og bauð það í nafni íslensku þjóðarinnar hjartanlega velkomið. Mun Morgunblaðið flytja tölu hans á morgun. Óðinn er hið fríðasta skip á sjó að sjá, vel og vandlega útbúið. Hefir því verið lýst allítarlega  áður hjer í blaðinu. En enginn efi er á því, að mörgum verður reikað niður að höfninni næstu daga til þess að sjá þetta nýja strandvarnaskip Íslendinga. Meðal farþega á Óðni frá Vestmannaeyjum var Sigurður Sigurðsson lyfsali,formaður Björgunarfjelags Vestmannaeyinga. Er hann gestur ríkisstjórnarinnar og verður við afhendingu Þórs. sem mun fara fram 1. n. m.

Morgunblaðið. 24 júní 1926.

28.08.2016 09:02

46. Fagranes. TFKA.

Djúpbáturinn Fagranes var smíðaður hjá Ankerlökken Verft A/S í Florö í Noregi árið 1963. Stál 133 brl. 495 ha. Lister díesel vél. Eigandi var h/f Djúpbáturinn á Ísafirði frá nóvember 1963. Ný vél (1985) 271 ha. Mirrlees Blackstone díesel vél, 199 Kw. Skipið var selt 12 mars, Fjörunesi h/f í Hafnarfirði, hét Fjörunes HF. Selt árið 1997, Arnari Sigurðssyni á Húsavík, fær nafnið Moby Dick ÞH og gerður út sem hvalaskoðunarbátur þar. Selt árið 2002, Moby Dick ehf í Keflavík. Árið 2014 er skipið í eigu Eyvindar Jóhannssonar í Garðabæ. Skipið var selt til Grænhöfðaeyja (2014 ?) en sú sala gekk til baka. Skipið er nú í eigu Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur.


Fagranes á siglingu í Jökulfjörðum.                                                                  Ljósmyndari óþekktur.


Moby Dick við bryggju í Keflavík.                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 október 2013.


Moby Dick við bryggju í Keflavík.                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 október 2013.

27.08.2016 09:44

Sigríður RE 22.

Kútter Sigríður RE 22 var smíðuð í Englandi árið 1885. Eik og álmur. 82,66 brl. Eigandi skipsins var Th. Thorsteinsson í Reykjavík frá 1897. Sigríður strandaði við Stafnes 13 mars 1924. Áhöfnin, 27 menn, komst í land á skipsbátnum en skipið eyðilagðist á strandstað. Hálfum mánuði áður hafði Th. Thorsteinsson, eigandi Sigríðar látist úr lungnabólgu. Skipstjóri á Sigríði var Björn Jónsson frá Ánanaustum.


Kútter Sigríður RE 22.                                                                               Ljósm: Magnús Ólafsson.

Árið 1924 var þeim skútum sem gerðar voru út frá Reykjavík farið að fækka. Eitt þeirra skipa sem eftir var, hét Sigríður, 82 lestir að stærð, og var í eigu Th. Thorsteinssonar. Í lok haustvertíðar 1923 var skútunni lagt inn á Sund, svo sem venja var, en um miðjan janúar var hafin undirbúningur þess að gera hana út á vetrarvertíð. Fyrst var skútunni siglt inn á Reykjavíkurhöfn, en þar var hún gerð klár.
Síðan var haldið út og gekk fyrsta ferð vertíðarinnar að óskum og afli var með besta móti. Þegar Sigríður kom til hafnar að lokinni veiðiferð fengu skipverjar þær fréttir að útgerðarmaðurinn hefði andast meðan þeir voru úti, en Th. Thorsteinsson var maður sérlega vinsæll meðal þeirra sem hjá honum störfuðu og öllum mikill harmdauði.

Heimild: Þrautgóðir á raunastund. Vlll bindi.

              Sigríður strandar við Stafnes

Kútter "Sigríður" strandaði í fyrrinótt í drífu við Stafnestanga. Eigi er fullkunnugt ennþá hve mikið skipið er skemt, eða hvort hægt er að ná því út aftur. Skipið var að fara hjeðan. Manntjón varð ekki. Í gær kom sú fregn af "Sigríði" að hún væri sokkin.

Morgunblaðið. 14 mars 1924.


26.08.2016 08:09

E. s. Varanger. LBWP.

Hvalveiðiskipið Varanger var smíðað hjá Akers Mekaniske Verksted í Kristianiu (Osló) árið 1881 fyrir Stokke Interessentskab for Hvalfangst. Smíðanúmer 92. 86,55 brl. 160 ha. 2 þennslu gufuvél. Skipið var selt Hans Ellefsen og hvalveiðifyrirtæki hans árið 1900. Fékk skráningarnúmerið SU 213 þar stuttu síðar. Varanger stundaði hvalveiðar frá Sólbakka í Önundarfirði og einnig frá Asknesi í Mjóafirði, þar til hann var seldur árið 1906,Tang & Riis á Ísafirði og í Stykkishólmi, hét Varanger ÍS 213. Varanger var í póstferðum milli Ísafjarðar og Reykjavíkur með viðkomu á Vestfjarða, Breiðafjarðar og Faxaflóahöfnum á árunum 1907 til 1913. Flutti þá póst, farþega og vörur. Seldur 27 febrúar 1916 Elíasi Stefánssyni í Reykjavík og Kristjáni Bergssyni á Ísafirði, hét Varanger RE 181( samk.Sjómannaalmanaki frá 1917). Mikill leki kom að skipinu 1 ágúst árið 1926, þar sem það var við síldveiðar á Skagafirði. Var það dregið skemmstu leið í land og rennt á grunn við Skagatá. Mannbjörg varð en Varanger eyðilagðist á strandstað. Eggert Stefánsson á Akureyri var þá eigandi skipsins og hét þá Varanger EA 403.


Hvalveiðiskipið Varanger.                                                                           (C) Slottsfjellsmuseet.


Þessi mynd er tekin 18 júlí 1909 í Stykkishólmi þegar hafskipabryggjan var vígð. Strandferðaskipið Sterling liggur við bryggjuna. Breiðafjarðarbáturinn Varanger vinstra megin við Sterling. Trúlega er það kútter Hvanney BA 9 sem er upp í fjöru í Súgandisey.        (C) Þjóðminjasafn Íslands. 

Varanger RE 181 í bóli við Örfiriseyjargranda. Mynd úr Íslensk skip 4 bindi.         (C) Magnús Ólafsson.                                                                                                                                                                  



             Breiðafjarðarbáturinn Varanger

Ingólfur Jónsson verslunarstjóri Tang í Stykkishólmi, skrifar Stjórnarráðinu í desember árið 1905, og til þess að vinnuveitendur hans fengju samning um Breiðafjarðarsiglingar hafði hann sterkustu orðin um bátinn sem nota átti til siglinganna. Báturinn hét Varanger og var um þessar mundir á Önundarfirði, fyrrverandi hvalveiðibátur. Hann var 87 brúttótonn og hafði verið gerður upp og settur í hann nýr gufuketill fyrir tveimur árum með ærnum kostnaði. Varanger hafði tvö farþegarúm, framan og aftan til og rist um tíu fet. Varanger var seldur til Reykjavíkur 1913-14.

Heimild: Póstsaga Íslands. 1873-1935. Heimir Þorleifsson. Útg. 2004.

25.08.2016 07:55

2184. Vigri RE 71. TFDM.

Vigri RE 71 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1992. 1.217 brl. 4.079 ha. Wartsiila vél, 3.000 Kw. Eigandi skipsins var Ögurvík h/f í Reykjavík frá 29 september 1992. Togarinn var seldur í júní 2016, Brim h/f í Reykjavík.


Vigri RE 71 við bryggju í Örfirisey.                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa. 16 mars 2016.


Vigri RE 71 við Grandagarð.                                              (C) Þórhallur S Gjöveraa. 17 júní 2015.


Vigri RE 71 í slippnum í Reykjavík.                                     (C) Þórhallur S Gjöveraa. 3 júní 2015.


           Frystitogarinn Vigri verður áfram gerður út frá Reykjavík 

Eigendur Ögurvíkur hf. og Brim hf. hafa gert samkomulag um að Brim hf. kaupi allt hlutafé í Ögurvík hf.

Ögurvík hf. á og gerir frystitogarann Vigra RE-71 út frá Reykjavík.  Þá hefur Ögurvík hf., rekið söluskrifstofu fyrir sjávarafurðir og vélsmiðju sem m.a. framleiðir toghlera.

Á Vigra RE-71 eru tvær áhafnir, sem skipta með sér veiðiferðum, alls 54 manns. Aflaheimildir skipsins á þessu fiskveiðiári eru um 10.000 tonn upp úr sjó.

"Það er okkur eigendum Ögurvíkur hf. mikið fagnaðarefni að nú þegar við hyggjumst róa á önnur mið þá skuli öflug útgerð í Reykjavík taka við Vigra.  Það er okkur mikils virði að sem minnst röskun verði á högum sjómannanna en margir þeirra hafa unnið hjá fyrirtækinu í áratugi" segir Hjörtur Gíslason framkvæmdastjóri Ögurvíkur hf. í fréttatilkynningu um söluna. 

Fjórði frystitogari Brims

Brim hf. á og gerir út þrjá frystitogara frá Reykjavík, Guðmund í Nesi RE-13, Brimnes RE-27 og Kleifaberg RE-70.  Aflaheimildir skipanna nema um 24.000 tonnum upp úr sjó. Hjá fyrirtækinu vinna um 150 manns til sjós og lands.   

Brim hf. hyggst gera Vigra RE-71 áfram út frá Reykjavík að sögn Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brims.   

"Kaupin á Ögurvík hf. falla mjög vel að rekstri Brims. Brim gerir út þrjá frystitogara frá Reykjavík  og með kaupunum á Vigra styrkist rekstur félagsins. Það hefur sýnt sig að með stærri einingum verða íslensk sjávarútvegsfyrirtæki öflugri. Það á ekki síst við á erlendum mörkuðum þar sem íslenskur sjávarútvegur á í harðri samkeppni um sölu afurðanna. Það má ekki gleymast að þar ræðst afkoma okkar að stórum hluta." segir Guðmundur.   

Frétt á vef Fiskifrétta frá 6 júní 2016.


24.08.2016 08:43

752. Sigurfari SF 58. TFEW.

Sigurfari SF 58 var smíðaður í Risör í Noregi árið 1957. Eik 76 brl. 280 ha. MVM díesel vél. Eigandi var Sigurður Lárusson útgerðarmaður á Höfn í Hornafirði frá 11 janúar 1957. Báturinn fórst í Hornafjarðarósi 18 apríl 1971. 8 menn fórust en 2 björguðust um borð í Gissur hvíta SF 1 frá Höfn í Hornafirði.


Sigurfari SF 58.                                                                                              Ljósmyndari óþekktur.


Hornafjarðarós þar sem Sigurfari fórst.                                                              Ljósmyndari óþekktur.

                  Sigurfari SF ferst

Átta ungir menn fórust er vélbáturinn Sigurfari SF 58 sökk í innsiglingunni í Hornafjarðarós á laugardag um kl. 11,30. Skipið var komið á móts við svokallaðan Hlein, er skagar út frá Hvanney, sem er vestari eyrin, er slysið varð. Þegar fólk bar að á Austurfjörutanga var skipið að mestu sokkið.

Þegar skipið sökk voru allir mennirnir 10 komnir frá borði. Guðmundur Eiríksson fór síðastur frá borði og synti eins og hann gat frá skipinu til þess að sogast ekki niður með þvi er það sykki. Var hann léttklæddur og þvi létt um sund. Strax og slysið varð dældi skipshöfnin á Gissuri Hvíta SF 1 út olíu sem mest hún mátti. Tók skipstjórinn Guðmundur Illugason þetta til bragðs, er hann sá hvað verða vildi. Flaut olian fyrir straumi austur að slysstaðnum og deyfði brotsjóina, sem voru mönnum óbærilegir. Sigldi hann skipi sínu eins nálægt Hvanney og frekast var kostur og hélt skipinu frá eynni með hliðarskrúfunum. Guðmundur Sigurðsson hélt sér í bjarghring, en hann var klæddur ullarfötum. Áður en þeir félagar yfirgáfu skipið, kallaði Guðmundur Eiríksson niður í lúkarinn til Guðjóns Óla Daníelssonar, er þar svaf. Hann fór þó ekki niður, enda straumurinn þá svo þungur niður í lúkarinn að ógerningur var að komast þangað, enda var þá hver sjálfum sér næstur um björgun. Guðjón Óli komst þó upp úr skipinu.

Eymundur Sigurðsson hafsögmaður á Birni lóðs, var meðal þeirra fyrstu, sem komu á slysstað á laugardag. Hann sagði í viðtali við Mbl, að hann hefði verið að borða hádegisverð, er frystihússtjórinn Óskar Guðnason hringdi til hans og færði honum fréttirnar. Hann hringdi þá þegar í aðstoðarmann sinn og fóru þeir þegar um borð í lóðsinn, með björgunarsveit og tæki til þess að fara með út á Austurfjöru. Þar settu þeir björgunarsveitina í land með tækin. Þeir félagar hlustuðu á samtöl bátanna fyrir utan og Hornafjarðarradíós. Þrír bátar höfðu siglt upp í sandeyrina og settu menn í land með gúmbátum. Í fyrstu sagði Eymundur að talið hefði verið að báturinn hefði sokkið við Austurfjöruna, en það sást ekki vegna slæms skyggnis.

Eymundur fékk lánaða tvo menn frá vélbátnum Akurey, þar eð hann og menn hans heyrðu að gúmbátar væru á floti. Ég taldi þá að komið gæti til greina sagði Eymundur, að við gætum frekar lagt að en stærri bátarnir. Það voru hinis vegar engir menn i bátunum og mikið brim milli gúmbátanna og okkar en við vorum inni á ósnum. Skipstjórinn á Eskey sá báða gúmbátana koma upp eftir að Sigurfari sökk. Annar gúmbátanna var hálfuppblásinn. Eymundur taldi að snarræði Guðmundar Illugasonar skipstjóra á Gissuri hvíta við að dæla olíu í sjóinn hafa bjargað þeim tveimur mönnum sem af komust.

Fjórum klukkustundum eftir slysið tók Steinunn SF 10 niðri á þeim stað sem slysið var. Ekki er ljóst hvort Steinunn hefur rekist á flakið af Sigurfara eða tekið niðri á svokallaðri Bólu, sem er sker við innsiglinguna. Skemmdist kjölur Steinunnar töluvert og sigldi skipið til Neskaupstaðar til viðgerðar í gær. Sex flokkar manna leituðu allan gærdag af reka úr Sigurfara. Eitt lík fannst, lík Óttars Hlöðverssonar háseta. Leitað var úr flugvél allt frá Skipatanga í vestri að Stokksnesi í austri.

Guðmundur Sigurðsson, 1. vélstjóri, sem var annar tveggja  sem nú bjargaðist er sonur Sigurðar Lárussonar, útgerðarmanns Sigurfara. Sigurður var skipverji á Borgey, sem fórst 6. nóv. 1946 og með henni 5 menn. Þrír komust af og var þar Sigurður á meðal. Á bátnum var 7 manna áhöfn og ung 15 ára stúlka farþegi, sem fórst.

Þannig er skýrt frá slysinu: "Borgey var á leið frá Hornafirði austur á firði með gærufarm frá kaupfélaginu á Höfn. Veður var sæmilegt, en vindur allhvass af suðvestri. Þegar Borgey var fyrir skömmu lögð af stað, sást úr landi, að eitthvað myndi vera að. Fór vélbáturinn Þristur þegar á vettvang, en er hann kom þar, sem Borgey hafði verið var hún sokkin. Tveir menn voru þá í björgunarbátum og einn í bjarghring. Náðust þeir allir upp. Borgey hafði verið komin út fyrir svonefnd Eystrisker við Hornafjörð, er skipstjóri sneri við og hugðist halda aftur inn til hafnar. Heyrðu menn hann þá segja: "Þetta er ekkert skip." Þegar báturinn vax kominn hálfa leið til lands aftur, tók hann að hallast á bakborða. - Skipti nú engum togum, báturinn tók að sökkva og sökk svo fljótt, að ekki varð komið út björgunarbát. Þó tókst að losa böndin af bátnum, og björguðust í honum tveir skipverja eins og fyrr segir.

Þeir sem fórust með Sigurfara voru,;
Halldór Kárason skipstjóri. Höfn í Hornafirði.
Heimir Ólafsson stýrimaður. Höfn í Hornafirði.
Heiðar Hannesson háseti. Hólabrekku á Mýrum.
Ævar Ívarsson matsveinn. Höfn í Hornafirði.
Víðir Sigurðsson 2 vélstjóri. Baldurshaga á Mýrum.
Guðjón Óli Daníelsson háseti. Fáskrúðsfirði.
Jón Níels Jónasson háseti. Krossavík í Þistilfirði.
Óttar Hlöðversson háseti. Höfn í Hornafirði.

Þeir tveir sem björguðust voru,;
Guðmundur Sigurðsson 1 vélstjóri. Höfn í Hornafirði.
Guðmundur Eiríksson háseti. Höfn í Hornafirði.

Morgunblaðið. 20 apríl 1971.




23.08.2016 11:19

765. Skeljungur l.

Skeljungur var smíðaður í Arnarvogi í Garðahreppi árið 1963. 27 brl. 87 ha. Volvo Penta díesel vél. Eigandi var olíufélagið Skeljungur h/f í Reykjavík frá 21 júní 1963. Báturinn var lengdur árið 1973. Ný vél (1983) 156 ha. Volvo Penta díesel vél. Var notaður til olíuflutninga þar til hann var tekinn á land til geymslu í Örfirisey 23 mars árið 2003, þar sem hann er enn, og í slæmu ástandi.


Skeljungur í olíuportinu í Örfirisey.                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa. 5 ágúst 2016.

22.08.2016 08:46

S. t. Imperialist H 143.

Imperialist H 143 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1925 fyrir Hellyers Brothers Ltd í Hull. Skipið var sjósett 13 desember árið 1924 og svo afhent eigendum sínum 23 mars árið 1925. 488 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð ásamt katlinum hjá Amos & Smith í Hull. Smíðanúmer 457. Þann 19 nóvember árið 1931 tók Imperialist ásamt fleiri breskum togurum, þátt í björgun skipverjanna af Grimsbytogaranum Howe GY 177 sem strandaði á skerjum út af Bogevik á Bjarnarey. Þeir voru svo síðar heiðraðir af bretakonungi fyrir þetta björgunarafrek. Skipið var selt 15 október 1934, Newfoundland Trawling Co í St. Johns á Nýfundnalandi, sama nafn. Seldur árið 1938, L' Armement St. Perrals í St. Pierre á Nýfundnalandi, hét Administrateur de Bournat. Skipið var hertekið af bretum árið 1940 og tekið í þjónustu breska sjóhersins sem tundurduflaslæðari, hét fyrst þar Alastor en fékk svo nafnið, HMT Bretwalda FY 266. Árið 1944 lendir skipið í árekstri við hollenskan kafbát á Clyde fljóti og varð fyrir miklum skemmdum. Skipið var gert upp og selt árið 1946, St. Andrews Steam Fishing Co Ltd í Hull, hét White Nile H 39. Skipið var selt 11 janúar 1947 til Póllands ( Polish Goverment Fleet ), einnig þekkt undir skammstöfuninni D.A.L.M.O.R, hét Jupiter GDY 121. Að lokum var skipið selt í brotajárn árið 1960 og rifið skömmu síðar.


Hellyerstogarinn Imperialist H 143.                                  Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.


Imperialist H 143 í höfninni í Hull.                                                                     (C) James Cullen.


Tryggvi Ófeigsson skipstjóri og síðar útgerðarmaður í Hafnarfirði og Reykjavík, tók við Imperialist nýsmíðuðum í Hull í mars árið 1925. Grípum hér niður í Tryggva sögu Ófeigssonar þegar hann fer utan til að taka við togaranum;

Seinni hluta janúar 1925 fór ég ásamt nokkrum manna minna út til að sækja Imperialist. Meðal þeirra, sem fóru með mér, voru Sigurður Bjarnason frá Móakoti á Vatnsleysuströnd, Einar frá Hjörskoti á Hvaleyri, Þorgrímur Sveinsson frá Gerðum, Guðmundur Guðmundsson frá Ófeigsfirði, Helgi Jóhannesson loftskeytamaður, Þórður Bjarnason og Sigtryggur Ólafsson, Eyfirðingur, sem fór seinna til Boston á togaranum Rán, sem gerður var þaðan út frá Íslandi um tíma í stríðslokin (1918-1919) Allt voru þetta úrvalstogaramenn.
Imperialist var stærsti togari í eigu Englendinga á þessum tíma, 460 tonn. Hann var 160 feta langur og 27 feta breiður, með 700 hestafla vél. Vandað hafði verið til smíðinnar, og margt var þar um borð frábrugðið því, sem var á öðrum togurum. Hann var fyrsti togarinn sem ég vissi til, með tveimur ljósavélum, og mannaíbúðir voru þar betri en í öðrum togurum, gluggar stærri, góður lúkar og káeta og rúmgóður borðsalur voru niðri í skipinu. Tvö skipstjórnarherbergi, hvort aftur af öðru undir brúnni, misstór, það fremra stærra, og úr því sást til beggja hliða og framundan. Minna herbergið var herbergi flaggskipstjórans. Stýrishúsið var stórt, á þess tíma mælikvarða, og aftur af því var stór loftskeytaklefi, þar sem minn ágæti loftskeytamaður, Helgi Jóhannesson hafði aðsetur sitt. Helgi var öll árin hjá mér á Imperialist, nema við Grænland, 1926, þá var hann veikur og loftskeytamaðurinn var enskur.
Imperialist var afburðamikið skip, óbilugur á framendann, en helst til blautur að aftan eins og mörg Beverleyskip, þar sem áhersla var lögð á toghæfnina.;

Tryggvi var svo með Imperíalist til ársins 1929. Það ár hættu Hellyersbræður allri útgerð og fiskvinnslu á Íslandi. Tryggvi gekk svo inn í útgerðarfélagið h/f Júpíter í Hafnarfirði sem stofnað var 26 júlí 1929, með Lofti Baldvinssyni og Þórarni Olgeirssyni, sem árið 1925 höfðu látið smíða skip fyrir sig í Beverley, það skip var Júpíter GK 161. Tryggvi varð svo skipstjóri á honum þegar Þórarinn Olgeirsson hætti skipstjórn þar árið 1929.

21.08.2016 09:25

155. Lundey NS 14. TFQL.

Lundey NS 14 var smíðaður hjá Werft Nobisksug G.m.b.H í Rendsburg í V-Þýskalandi árið 1960 sem síðutogari fyrir Guðmund Jörundsson útgerðarmann í Reykjavík, hét Narfi RE 13. 890 brl. 1.900 ha. Werkspoor díesel vél. Skipið var yfirbyggt árið 1974 og breytt í skuttogara. Skráð sem nótaskip árið 1977. Skipið var selt 9 nóvember árið 1980, Hraðfrystihúsi Eskifjarðar h/f á Eskifirði, hét Jón Kjartansson SU 111. Ný vél (1980) 2.880 ha. Alpha díesel vél, 2.118 Kw. Skipið var lengt og endurbyggt 1998, mældist þá 836 brl. Ný vél (1999) 6.690 ha. Wartsiila vél, 4.920 Kw. Árið 2003 var Eskja h/f á Eskifirði eigandi skipsins. Nafni skipsins var breytt árið 2005, hét Guðrún Þorkelsdóttir SU 211. Skipið var selt árið 2006, H.B. Granda h/f í Reykjavík, heitir í dag Lundey NS 14. Skipið var gert út á Loðnu, kolmunna og makrílveiðar frá Vopnafirði sem jafnframt var heimahöfn skipsins. Skipið liggur nú við bryggju á Akranesi og búið að gera það lengi og allsendis óvíst hvað verður um þetta sögufræga skip.


155. Lundey NS 14 í Reykjavíkurhöfn.                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 16 júlí 2015.


155. Lundey NS 14 í Reykjavíkurhöfn.                                      (C) Þórhallur S Gjöveraa. 16 júlí 2015.


155. Jón Kjartansson SU 111.                                                                           Ljósmyndari óþekktur.


155. Guðrún Þorkelsdóttir SU 211.                                            Ljósmyndari óþekktur, mynd af netinu.


155. Narfi RE 13 í sínu upphaflega útliti.                                                           (C) Karl Kristjánsson.

            Fyrsta frystiskip Íslendinga

1963 voru sett frystitæki um borð í togarann Narfa RE 13, með veiðar við V-Grænland í huga, því þar var mikið um smáþorsk, sem erfitt var að vinna. Smáþorskurinn var þess vegna heilfrystur og ýmist hausaður eða ekki. Fyrst í stað sigldi Narfi með aflann til Bretlands. Síðar veiðir Narfi fyrir Rússlandsmarkað, en var bolað þaðan út af frystihúsunum vegna þess, að árið 1968 barst mikið af smáfiski á land fyrir norðan. Þá tók þýski markaðurinn við, og fór Narfi nokkra túra þangað. Verðið í Þýskalandi var nokkuð gott, en með auknu framboði frá þýskum frystiskipum hætti Narfi þessum veiðum samfara því hve erfitt var að fá menn í langa túra, sérstaklega eftir metvertíðina 1970.

Sjómannablaðið Víkingur 1 mars 1975.


20.08.2016 10:22

Reykjavíkurhöfn stuttu eftir 1920.

Reykjavíkurhöfn hefur alla tíð verið lífæð Reykjavíkur síðan hún var gerð á árunum 1913 til 1917. Eins og sést á þessari mynd hefur alltaf verið mikið að gera þar, kaupskip að koma og fara og eftir þessar miklu hafnarframkvæmdir geta þau lagst við bryggju og losað vörur þangað í stað þess að liggja út á ytri höfninni og láta ferja allan varning með uppskipunarprömmum á land. Skipunum, stórum jafnt sem smáum er siglt upp í sandinn og látið fjara undan þeim og þau lagfærð eða máluð á fjörunni eða hvað annað sem til féll. Utan á Miðbakkanum er erlent kaupskip. Austan við Miðbakkann er togarinn Ver GK 3 frá Hafnarfirði, smíðaður í Selby 1920. Framan við hann í kverkinni er óþekkt skonnorta. Við gömlu steinbryggjuna, að vestanverðu er Skjaldbreið RE 199, smíðaður í Taxe í Danmörku 1917, 38 brl. Aftan við hann er gamall uppskipunarprammi. Austan við steinbryggjuna, nær er Svanur GK 462, smíðaður í Reykjavík 1916, 14 brl. aftan við hann er Höskuldur RE 191, smíðaður í Danmörku 1916, 44 brl. Hét fyrst Ingibjörg EA 363. Togararnir sem liggja í sandinum austan við steinbryggjuna eru Draupnir RE 258, smíðaður í Beverley árið 1908, í miðið óþekktur og fjærst er Skúli fógeti RE 144, smíðaður í Beverly árið 1920. Við Faxa og Ingólfsgarðinn liggja togararnir í röðum, sumir að bíða eftir kolum fyrir næstu veiðiferð.

Reykjavíkurhöfn á 3 áratugnum.                                      Ljósm: Magnús Ólafsson. Mynd í minni eigu.


19.08.2016 09:24

Mótorsk. Nordlyset.

Mótorskonnortan Nordlyset var smíðuð í Helsingborg í Svíþjóð árið 1897. 93 brl. Var með hjálparvél, stærð og gerð óþekkt. Alfred Fr Philipsen kaupmaður í Reykjavík og forstjóri Hins íslenska steinolíufélags í Reykjavík, sem var dótturfélag D.D.P.A (Det Danske Petroleumsselskab í Kaupmannahöfn), keypti skipið árið 1908. Nordlyset var í olíuflutningum milli hafna á Íslandi. Olían var þá flutt í stórum tréfötum. Nordlyset var selt úr landi árið 1915.


Mótorskonnortan Nordlyset.                                                                        Ljósm: Magnús Ólafsson.

18.08.2016 10:48

E. s. Miaca. LBDG.

Miaca var smíðuð í Rutherglen í Skotlandi árið 1866. Stál 349 brl. 2 x 75 ha. gufuvélar. Skipið var strandferðaskip við Kínastrendur í 10 ár, en Ottó Wathne kaupmaður og útgerðarmaður á Seyðisfirði keypti skipið 10 nóvember 1886. Það var aðallega í flutningum með vörur og farþega milli Austur og Norðurlandshafna og Skotlands. Flutti m.a. útflytjendur til Granton í Skotlandi, sauðfé og hesta til Leith í Skotlandi. 26 apríl 1888 var Miaca á leið til Seyðisfjarðar en lenti í ís og festist. Á flóðinu 28 apríl kom los á ísinn svo að skipið losnaði og var þá reynt að komast suður á Fáskrúðsfjörð. Kom þá leki að skipinu og var því rennt á land í Vöðlavík, norðan Reyðarfjarðar. Þar varð skipið að flaki.


Miaca í fjörunni í Vöðlavík.                                                                              Ljósmyndari óþekktur.


Teikning af Miaca.                                                                                                 Teiknari óþekktur.


Ferðaáætlun sem birtist í Ísafold 1 júní árið 1887 fyrir gufuskipið Miaca.

17.08.2016 11:36

E. s. Gullfoss l LCDM / TFGA.

Gullfoss var smíðaður hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsværft í Kaupmannahöfn árið 1915. Smíðanúmer 124. Skipið var sjósett 23 janúar sama ár og gefið nafnið Gullfoss. 1.414 brl. 1.200 ha. 3 þennslu gufuvél. Gullfoss var afhentur eigendum sínum, h/f Eimskipafélagi Íslands í marsmánuði 1915 og var það fyrsta skip félagsins og kom til hafnar í Vestmannayjum 15 apríl. Gullfoss var fyrsta vélknúða skipið sem smíðað var fyrir Íslendinga og jafnframt fyrsta íslenska skipið sem búið var frystirými.
 Gullfoss var í siglingum bæði til Vesturheims og meginlandsins auk strandsiglinga við Ísland. Við hernám Danmerkur, 9 apríl 1940 var Gullfoss staddur í Kaupmannahöfn og var þá hertekinn af Þjóðverjum. Var skipið undir stjórn Þjóðverja allt til stríðsloka. Er bandamenn hertóku Kiel í maí 1945 fannst skipið þar, þá mjög illa farið, en það hafði verið notað sem spítalaskip. Vátryggjendur skipsins létu draga það til Kaupmannahafnar. Eimskipafélagið var þá búið að fá greitt út vátryggingafé skipsins, en þar sem mikill skortur var á skipum, var sá möguleiki kannaður, hvort ekki væri unnt að fá skipið aftur. Frá því var þó horfið, þar sem skipið þótti vera í svo slæmu ástandi að ekki kæmi til greina að kaupa það á ný.
Keyptu þá tveir Íslendingar skipið, þeir Baldvin Einarsson og Pétur Guðmundsson, og komu því til Gautaborgar í Svíþjóð til viðgerðar. Að viðgerð lokinni árið 1947 seldu þeir p/f Skipafélag Föroya í Þórshöfn skipið og fékk það nafnið Tjaldur. Skömmu áður en Tjaldur var seldur til niðurrifs var nafni hans breytt í Gamla Tjaldur. Var skipið selt Eisen & Metall K.G. - Lehr & Co í Hamborg til niðurrifs árið 1953 og kom það þangað 6 október sama ár.

Gullfoss við komuna til landsins í apríl 1915.                                                     Ljósmyndari óþekktur.

 
Gullfoss í erlendri höfn á tímum fyrri heimstyrjaldar.                          (C) Handels & Söfartsmuseets.dk


Tjaldur ex Gullfoss.                                                                       (C) Handels & Söfartsmuseets.dk

Heimild: Eimskipafélag Íslands í 100 ár. Útg. 2014.
Today's page views: 224
Today's unique visitors: 26
Yesterday's page views: 681
Yesterday's unique visitors: 32
Total page views: 723570
Total unique visitors: 53699
Updated numbers: 25.4.2024 08:38:21