Blog records: 2022 N/A Blog|Month_10

30.10.2022 05:57

E.s. Ísafold. LBDJ.

Gufuskipið Ísafold var smíðað hjá Wood, Skinner & Co Ltd. Í Bill Quay Yard í Newcastle í Englandi árið 1891 fyrir Skinningrove Iron Co Ltd í Middlesbrough ( Charles Henry Pile í London manager). Var hleypt af stokkunum hinn 28 október sama ár og afhent eigendum sínum í desember. Hét fyrst Skinningrove og smíðað sem flutningaskip. 347 brúttó (194 nettó). 140,7 x 22,1 x 10,9 fet. 185 ha. 3 þennslu gufuvél smíðuð hjá North-Eastern Marine Engineering Co. Ltd í Wallsend near river Tyne í Newcastle. Smíðanúmer 33. Árið 1954 var sett díesel vél í skipið, 2 SA 6 cyl Burmeister & Wain vél. Breytt í sandpramma árið 1981. Eigendasaga skipsins fer hér á eftir í tímaröð:
1895. P. Biraben & Fils í Bordeaux í Frakklandi, hét Pierre-Paul.
1899-1900. Johan Peter Thorkelin Bryde kaupmaður í Kaupmannahöfn, hét þá Ísafold.
1900. Brydes kaupmaður, skipið þá skráð í Reykjavík.
1910. Ekkja Brydes kaupmanns, Thora Augusta Bryde skráður eigandi. Skráð í Kaupmannahöfn.
1911. SA des Transports Cötieres Marseille, hét Prado.
1911. Franska ríkið.
1923. J. Filippi & Cie í Marseille, hét Lieutenant.
1924. M.M.E. Papadimitrou & Co í Piraeus í Grikklandi, hét Alpha.
1928. E. Mavroleon í Piraeus. Hét Maria M frá 1930.
1931. Valannis & Kariaktides í Piraeus, hét Charalambos Vaiannis.
1933. Cera Zade Mehmet Tahsin í Istanbul Tyrklandi, hét þá H. Esref.
1936. Cerrahoglu Mehmet Tahsin í Istanbul.
1944. Fakir Nadir Zeren í Istanbul.
1947. Izzet Demirtas í Istanbul.
1958. Ismail Kaptan ve Ortaklari í Istanbule, hét Ismail Kaptanoglu.
1965. Ismail Kaptanoglu í Istanbule.
1977. Turan Karakaya í Istanbul, hét Karakaylar.
1997. Skipið sökk 2 ágúst 1997 eftir árekstur við ferjuna Suadiye um 1 sjómílu út af eyjunni Heybeliada á Marmarahafi sem er um 25 sjómílur suður af Istanbul.

Bryde kaupmaður hefur haft skipið í förum milli Kaupmannahafnar og Íslands með vörur en hann var með verslun í Khöfn og víða hér á landi, m.a. í Vestmannaeyjum, Reykjavík, Hafnarfirði og Vík í Mýrdal. Ísafold hefur hentað vel í vöruflutninga hér við land því djúprista þess var ekki mikil (10,9 ft.) sem sagt komið sér vel í nær hafnlausu landi á þessum tíma.

Málverkið er í eigu Dr. Hilmars J Malmquist forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands, en hann keypti það á uppboðsvef Bruun Rassmussens í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum. Hann sendi mér myndina af Ísafold og bað mig að grafast fyrir um sögu skipsins. Ég fékk til liðs við mig Birgi Þórisson sem veit einna mest um sögu gamalla skipa hér á landi, hvort sem um er að ræða innlend eða erlend og þakka ég honum fyrir hjálpina.

Gufuskipið Ísafold á leið yfir úfinn sæ. Málari óþekktur.   (C) Hilmar J Malmquist.
 
Lieutenant Corriol árið 1923-24.                         (C) Marine-Marchande.
 
Karakayalar. Myndin tekin einhverntíman eftir 1977.         (C) Robert Boman.

23.10.2022 08:18

1110. Ása RE 17.

Vélbáturinn Ása RE 17 var smíðaður hjá Bátalóni hf í Hafnarfirði árið 1970 fyrir bræðurna Sigurþór og Vilberg Sigurðssyni í Reykjavík. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine vél. 11,04 x 3,35 x 1,26 m. Báturinn fórst út af Hvalsnesi á Reykjanesi að talið er, hinn 6 febrúar árið 1971. Tveir skipverjar voru um borð, bræðurnir Sigurþór og Vilberg sem fórust með báti sínum. Ýmislegt brak fannst rekið úr bátnum upp á Mýrum, t.d. lestarhleri og fimm stíuborð af þilfari fannst í Knarrarnesi og í Straumsfirði fundust koddar og stíuborð rekið á fjörur.
 

Vélbáturinn Ása RE 17 í Hafnarfjarðarhöfn.               (C) Elías Sigurðsson.

 

                                         Nýtt fiskiskip

Í maímánuði s. l. var nýjum 11 brl. bát hleypt af stokkunum hjá Bátalóni hf í Hafnarfirði og hlaut hann nafnið Ása RE 17. Báturinn er smíðaður úr eik og furu og er allur hinn vandaðasti. Vélin er af gerðinni Ford Power 95 hö. Báturinn er vel útbúinn tækjum, má þar nefna dýptarmæli, talstöð, svo og 5 rafmagnsfæravindur. Báturinn er ennfremur útbúinn með sérstökum toggálga að aftan, er gerir skuttog mögulegt. Báturinn er smíðaður fyrir bræðurna Sigurþór og Vilberg Sigurðssyni í Reykjavík og óskar Ægir þeim til hamingju með hinn nýja farkost.

Ægir. 16 tbl. 15 september 1970.
 

Ása RE 17 í Hafnarfjarðarhöfn.    (C) Elías Sigurðsson.
 
Fyrirkomulagsteikning af Bátalónsbát.                          Úr safni mínu.

 

            Tveggja bræðra saknað á 11 tonna báti

Mikil Ieit hefur staðið yfir síðan á sunnudag að 11 tonna báti, Ásu RE 17, sem á eru tveir bræður; Vilberg og Sigurþór Sigurðssynir, báðir um fimmtugt. Þeir bræður fóru í róður um hálfellefu á laugardagsmorgun og er síðast vitað um þá um klukkan hálfsjö á laugardag, þegar til Ásu sást frá hjálparskipinu Goðanum. Var Ása þá á norðurleið út af Stafnnesi. Leitin að bátnum og bræðrunum tveimur hafði engan árangur borið síðast þegar Morgunblaðið frétti í gærkvöldi. Vitað er, að þeir bræður hugðu á veiðar á svonefndum Hafnaleir vestur af Höfnum. Þegar Ása RE 17 sinnti ekki tilkynningaskyldu klukkan 10—13.30 á sunnudag, lét Slysavanafélag Íslands svipazt um eftir bátnum í verstöðvum á Suðurnesjum og við Faxaflóa, ef vera kynni að bræðurnir hefðu einhvers staðar leitað vars, en, aðfaranótt sunnudagsins gerði brælu af suðvestan á þessum slóðum. Þegar ekkert spurðist til bátsins í höfn, voru slysavarnasveitir á Suðurnesjum beðnar að ganga fjörur og allir bátar, sem úti voru, frá Reykjanesi og inn allan Faxaflóa, beðnir að svipast um eftir Ásu. Allsherjarleit var svo skipulögð, er þeir bræður komu ekki til hafnar í Reykjavík á sunnudagskvöld, eins og þeir höfðu ráðgert. Í fyrrinótt leituðu 18 skip frá Akranesi, Reykjavík og Keflavík ásamt varðskipinu Óðni, hjálparskipinu Goðanum og þýzka eftirlitsskipið Meerkatze, allt svæði innan línu, sem dregin var 5 sjómílur vestur af Garðsskaga í Arnarstapa á Snæfellsnesi. Strax í birtingu í gærmorgum lögðu svo björgunarsveitir SVFÍ á Suðurnesjum, frá Staðarsveit, Borgarnesi og Akranesi upp til leitar með fjörum. Voru gengar fjörur allt frá Grindavík, fyrir Reykjanestá og inn fyrir Garðsskaga og strandlengjan á Mýrum og Staðarsveit. Þá flaug flugvél Landhelgisgæzlunnar í gærmorgun og leitaði með allri strandlengju Faxafllóa og Faxaflóa allan. Sem fyrr segir hafði leitin engan árangur borið seint í gærkvöldi og var frekari leit ákveðin strax og birti í morgun.
Ása RE 17 er nýlegur 11 tonna trébátur, sem þeir bræður, Vilberg og Sigurþór, eiga; smíðaður hjá Bátalóni hf. í Hafnarfirði og afhentur um mánaðamótin maí-júní síðastliðið ár.

Morgunblaðið. 9 febrúar 1971.
 

Bræðurnir Sigurþór og Vilberg Sigurðssynir.        Mynd úr Morgunblaðinu.
 
Brakið sem fannst úr Ásu sem rak á land á Mýrum.          (C) Morgunblaðið.
 
Vélbáturinn Ása RE 17 í Reykjavíkurhöfn.                 Ljósmyndari óþekktur.

 

                               Tveir bræður drukkna
        Fullvíst talið, að Ása hafi farizt

 

Fullvíst er nú talið, að vélbáturinn Ása RE 17, hafi farizt og með henni tveir menn; bræðunir Vilberg og Sigurþór Sigurðssynir. Brak, sem fannst rekið í Straumsfirði og á Knarrarnesi á Mýrum, reyndist vera úr Ásu, en til bátsins sást síðast með vissu um sexleytið á laugardagskvöld og sigldi hann þá í norður út af Stafnesi. Á laugardagskvöld var suðlæg átt á þeim slóðum; 4—5 vindstig og ákaflega lifandi sjór. Bræðurnir Vilberg og Sigurþór voru báðir þrautvanir sjómenn og þaulkunnugir á Faxaflóaslóðum.  Sigurþór var 51 árs, kvæntur, en barnlaus. Vilberg var 47 ára. Hann lætur eftir sig konu og fimm börn. Í gær var leit að bræðrunum og bátnum haldið áfram. Björgunarsveitir SVFÍ gengu fjörur á Mýrum og þyrla Iandhelgisgæzlunnar og Slysavarnafélagsins leitaði við beztu skilyrði strandlengjuna frá Borgarfirði norður fyrir Akra á Mýrum, svo og sker og úteyjar allar. Eins og áður hefur verið skýrt frá fannst brak, lestarhleri og fimm stíuborð af þilfari, rekið á Knarrarnesi og 2 stíuborð til viðbótar og koddar í Straumsfirði.
Síðdegis í gær hafði rannsókn leitt í ljós, að brak þetta er úr Ásu RE 17. Ása RE 17 fór í róður frá Reykjavík fyrir hádegi á laugardag. Síðast sást til bátsins með vissu um klukkan 18 á laugardag frá hjálparskipinu Goðanum, sem þá var statt um 1,7 sjómílur út af Stafnesi. Ása var þá á norðurleið miklu nær landi. Slysavarnafélag Íslands hafði samband við um 30 báta, sem komu til hafnar í Keflavík, Sandgerði og sigldu fyrir Skaga á tímabilinu frá klukkan 18 til 21:30 á laugardagskvöld og kvaðst enginn hafa orðið bátsins var, utan hvað skipstjórinn á Jóni Bjarnasyni, sem kom inn til Sandgerðis klukkan 19:45, kvaðst hafa séð til ferða lítils báts mjög grunnt og nærri landi út af Hvalsnesi. Slysavarnafélag Íslands hefur beðið alla aðila að fylgjast vel með reka á fjörum; bæði frá Stafnesi í Garðskaga og á Mýrum. Einnig hafa sjómenn við Faxaflóa verið beðnir að svipazt um á ferðum sínum á og af fiskimiðum. Ása RE 17 var ellefu tonna þilfarsbátur, smíðaður hjá Bátalóni hf. í Hafnarfirði í fyrra.

Morgunblaðið. 12 febrúar 1971.

01.10.2022 19:03

Breski togarinn City of London GY 188 strandar við Klapparvík.

Það var hinn 27 janúar árið 1909 að breskur togari, City of London GY 188, sigldi inn á Reykjavíkurhöfn og lagðist við ankeri á höfninni. Togari þessi var þá nýkominn til landsins og ekki hafið veiðar enn. Um miðjan dag er veður versnaði og gerði suðvestan hvassviðri þá slitnaði hann upp og rak á land í klettana við Klapparvör. Töluverðar skemmdir urðu á togaranum, m.a. komu nokkur göt á botn hans. Björgunarskipið Geir náði togaranum á flot nokkrum dögum síðar. Geir var þá nýlega kominn til landsins og var þetta fyrsta björgun hans hér við land.
Grimsbytogarinn City of London GY 188 var smíðaður hjá Edwards Brothers (Howdon) í North Shield‘s í Englandi árið 1897 fyrir Hagerup, Doughty & Co Ltd í Grimsby. 226 brl. 71 nt. 400 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá North-Eastern Marine Engineering Co Ltd í Wallsend. 129,6 x 22,6 x 10,8 ft. (ensk) Smíðanúmer 536. Í apríl 1906 er togarinn í eigu Consolidated Steam Fishing & Ice Co Ltd í Grimsby. 1913 er hann í eigu Thomas W Ward Ltd í Sheffield. Í ágúst 1916 er togarinn í eigu Robert D Clarke í Grimsby og fær þá skráningarnúmerið GY 955. Togarinn var seldur til Spánar í september árið 1920.

Það má geta þess hér að Klapparstígur í Reykjavík dregur nafn sitt að klöppunum, Klapparvík og vörinni þar sem margir Reykvíkingar drógu áraskip sín á land. Bærinn Klöpp stóð þarna rétt vestan við klappirnar að ég held og var hann rifinn stuttu eftir að British Petrolium (BP), reisti sína olíustöð á uppfyllingu þarna á klöppunum árið 1929.

Grimsbytogarinn City of London GY 188 á strandstað í Klapparvík.  Mynd úr safni mínu.





                                                  Skipstrand

 Aðfaranóttina 28. þ. m. rak enskt botnvörpuveiðagufuskip, er lá hér á höfninni upp í klettana við Klapparvör, og komu göt á það, svo sjór féll inn. Liggur það þar enn, og er óvíst hvort því verður náð út. Skipið heitir „City of London" og er frá Grimsby.

Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi. 3-4 tbl. 31 janúar 1909.

City of London á strandstað í Klapparvík.              (C) Söfart Historiet.dk.
 
Myndin sýnir gamla Klapparbæinn sem Klapparstígur er kenndur við. Klapparvör með bátum Skugghverfinga er í forgrunni, en þaðan þótti gott útræði. Handan við Klöpp var bærinn Skuggi sem Skuggahverfið er kennt við. Myndin er tekin árið 1899. Klöpp byggðist út úr landi bæjarins Arnarhóls árið 1838. Býlið stóð á hárri klöpp, sem það dró nafn sitt af.
Maður að nafni Eyjólfur Þorkelsson reisti fyrsta bæinn á Klöpp. Sonur hans, Níels Eyjólfsson, var ábúandi þar um áratuga skeið ásamt Helgu konu sinni. Þau ræktuðu mikla kálgarða við bæinn suðvestanverðan, þar sem síðar reis Trésmiðjan Völundur. Síðasta íbúðarhúsið á Klöpp var rifið árið 1931, þremur árum fyrr hafði fyrirtækið British Petroleum Company (síðar Olís) tekið í notkun olíustöð sína framan á klöppinni. Bensínstöðin var starfrækt fram á níunda tug síðustu aldar. Verulegar landfyllingar hafa átt sér stað og klöppin sem bærinn var kenndur horfin sem og Klapparvör.

 

 

 

  • 1
Today's page views: 166
Today's unique visitors: 13
Yesterday's page views: 568
Yesterday's unique visitors: 68
Total page views: 1075546
Total unique visitors: 77614
Updated numbers: 28.12.2024 04:54:32