Blog records: 2020 N/A Blog|Month_3
30.03.2020 20:12
Loðna fryst um borð í frystitogaranum Barða NK 120 í Norðfjarðarhöfn í febrúar 1994.
Um borð í frystitogaranum Barða NK 120 í loðnufrystingu. Frá vinstri er síðuhöfundur, í miðið, Sveinn Benediktsson skipstjóri og Gísli Gylfason vélstjóri. (C) Austurland / Elma Guðmundsdóttir.
Jón Hjörtur Jónsson matsveinn bakar lummur ofan í pungsveitta karlana eins og Elma orðaði það í texta með þessari mynd. Flott mynd af Jóni. (C) Elma Guðmundsdóttir.
Frystitogarinn Barði NK 120 TFKL var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskin Fabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1979 fyrir Útgerðarfélagið Gunnvör hf á Ísafirði. 497 brl. 2.350 ha. Wichmann vél, 1.728 Kw. Hét þá Júlíus Geirmundsson ÍS 270. Togarinn var í eigu SVN í Neskaupstað frá árinu 1989, sá fjórði í röðinni sem bar nafnið Barði. Togarinn var seldur til Namibíu árið 2002.
Loðnufrystingin
ævintýri líkust
Það er líkast sem Austfirðingar séu haldnir loðnuæði þessa
dagana og sagt er að Yen glampar séu í augum forsvarsmanna þeirra fyrirtækja
sem mest frysta af loðnu þessa dagana. Reikna má með að meðalverð á kílói af
frystri loðnu sé um 105 krónur, svo það er mikið í húfi. Mannafli frystihúsanna
hefur margfaldast og þar af leiðandi fækkað verulega á atvinnuleysisskrám víða.
Í Neskaupstað eru nú tvö fljótandi frystihús. Frysting hófst um borð í Blængi á
mánudaginn en þá höfðu verið fryst um 100 tonn um borð í Barða eða rúmlega 20
tonn á sólarhring. Um borð í Blængi voru fryst 30 tonn fyrsta sólarhringinn. Um
borð í báðum skipunum ganga áhafnirnar vaktir. Alls var búið að frysta um 650
tonn hjá Síldarvinnslunni á mánudaginn. Harðfrystihús Eskifjarðar leigði
aðstöðu Þórs hf. til loðnufrystingar. Þar er afkastagetan um 20 tonn á
sólarhring og 40 - 45 tonn í frystihúsinu. Á Eskifirði var búið að frysta á
mánudaginn um 700 tonn.
Á Seyðisfirði er fryst hjá Dvergasteini og Strandarsíld og hafa þar verið fryst
um 900 tonn. Á milli 70 og 80 manns ganga vaktir hjá Dvergasteini. Á
Reyðarfirði var búið að frysta um 300 tonn á mánudaginn. Loðnan hefur verið
nokkuð misjöfn eftir veiðisvæðum. Hrognafylling er 14.5 - 16% og hafa verið um
50 hrygnur í kílói. Sjómenn segja mikla loðnu við Hvalbak en aðalgangan er
komin vestur fyrir Ingólfshófða. Nokkur norsk skip og grænlenska loðnuskipið
Ammasat eru á veiðisvæðinu við Hvalbak. Norsku skipin eru í stærri kantinum eða
um 2000 lestir hvert og eru þau flest búin að fylla sig.
Austurland. 16 febrúar 1994.
27.03.2020 16:37
B. v. Hannes ráðherra RE 268. LBCM / TFHC.
Botnvörpungurinn Hannes ráðherra RE 268 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1926 fyrir h/f Alliance í Reykjavík. 445 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. 45,91 x 7,82 x 4,33 m. Hannes ráðherra mun hafa verið fyrsti íslenski togarinn sem stundaði veiðar á fjarlægum miðum í Norðurhöfum. Var það við Bjarnarey laust fyrir 1930. Togarinn strandaði á Músaskerjum við Brautarholt á Kjalarnesi 14 febrúar árið 1939. Áhöfnin, 18 menn, bjargaðist í skipsbát og þaðan um borð í björgunarskútuna Sæbjörgu. Togarinn var á heimleið frá Englandi eftir söluferð og villtist af leið til Reykjavíkur. Skipið eyðilagðist á strandstað.
B.v. Hannes ráðherra RE 268 á yrti höfninni í Reykjavík. Ljósmyndari óþekktur.
"Hannes ráðherra"
Hinn nýi togari "Alliancefjelagsins", kom hingað í fyrramorgun, beina leið frá Englandi. Halldór Þorsteinsson skipstjóri hefir undanfarna mánuði verið erlendis, til þess að sjá um smíði togarans, og kom hann með hann hingað. Þessi nýi togari Alliancefjelagsins er hinn traustasti að allri gerð. Hann er 150 fet að lengd á kjöl, 25 ½ fet á breidd og 15 fet á dýpt. Stærðin er 451 bruttó smálestir, 153 smálestir netto. Hann er smíðaður í Beverley..
Morgunblaðið. 25 mars 1926.
B.v. Hannes ráðherra RE 268. Sígarettupakkamynd.
Skip sem mættust á nóttu
Þegar ég fyrir skömmu rakst á erlenda frásögn af því, er vitaskipið Elbe I fórst, sem talið er meðal hinna minnisstæðustu sjóslysa, hvarflaði hugurinn til þessarar miklu óveðursnætur, þann 26. október 1936, er við á togaranum Hannesi ráðherra vorum að taka land við mynni Elbu-fljótsins, með fullfermi af fljótveiddum ufsa og karfa, er við hugðum landa í Cuxhaven með morgninum og gerðum okkur vonir um hina beztu sölu. Siglingar með ísaðan fisk til Þýzkalands höfðu aðeins staðið um nokkurra ára bil, byrjuðu ekki fyrr en um 1930. Þá var kvitfiskur á íslenzkum fiskimiðum mjög farinn að tregðast á ísfiski-tímabilinu, en Bretinn enn ekki farinn að kunna að meta ufsa og karfa til nokkurs verðs, er viðunandi væri. Það var eiginlega togarinn Hannes ráðherra, er fyrstur íslenzkra togara braut ísinn, hvað snerti að snúa bakinu við enska markaðinum, þegar mest var veiðivon í karfa og ufsa. Fyrstu sölur skipsins í Þýzkalandi báru langt af sölum í Englandi og gáfu góðar vonir um þennan nýja markað. Þjóðverjarnir voru fegnir að fá þennan góða fisk, sem þeir kunnu vel að meta og matbúa betur en allir aðrir. En á hinu furðuðu þeir sig mikið, hvað afli skipsins í hverri ferð var mikill að magni til og veiddur á skömmum tíma. Stundum, þegar veitt var fyrir Austfjörðum, á Hvalbak og við Berufjarðardjúp, var stundum landað fullfermi tvisvar í mánuði. Þeir ætluðu aldrei að trúa því, að þessi afli hefði allur veiðst á eitt skip í einni ferð, heldur væri þetta samandreginn afli fleiri skipa. Þegar þeir svo sannfærðust um, að skipið og mannskapurinn hefði eitt verið um veiðina og ekki einu sinni komið við í heimahöfn í sumum túrunum, sendu þýzkir útgerðarmenn nefndir togaraskipstjóra á fund Guðmundar Markússonar, skipstjóra, til að spyrja hann spjörunum úr, hvernig hann hagaði sér við að fá svona mikla veiði, og hvernig hægt væri að láta mannskapinn anna svona mikilli vinnu. Á þeim árum áttu Þjóðverjar aðeins litla og lélega togara, sem ekki í neinu gátu staðið íslenzkum togurum á sporði við veiðarnar.
Trollið tekið um borð í togara. Ljósmyndari óþekktur.
En litlu síðar komust Þjóðernissinnar til valda og stórfelld uppbygging í atvinnulífinu hófst, sú uppbygging náði ekki hvað sízt til aukins skipastóls og stórfelldrar útfærzlu fiskiveiðanna. Íslenzkir togaramenn frá þeim árum munu minnast þess, hvað Þjóðverjarnir á nýju togurunum fylgdust vel með íslenzku togurunum á miðunum og námu af þeim tilhögun og fangbrögð við veiðarnar. En lengi voru þeir ekki að verða þeim jafnknáir og nú byggðu þeir sér hvern togarann eftir annan, stærri og glæsilegri en íslendingar áttu. Þá kom fljótt að því, að þeir fluttu að landi, ekki einungis jafnmikinn afla og íslendingarnir, heldur jafnvel meiri og fljótfengnari, og þeir leituðu ekki upp í landsteina, eins og ensku togararnir, heldur út á djúpmiðin, þar sem aldrei áður hafði verið togað, á nýjum og fiskauðugum miðum í Grænlandshafi og víðar. Það var ekki sársaukalaust fyrir hina ötulu íslenzku sjómannastétt í þá daga, að sjá skip sín ganga úr sér með hverju ári sem leið og aldrei neitt nýtt bætast í hópinn. Hannes ráðherra var með stærstu og nýjustu íslenzku togurunum, þó var hann orðinn 11 ára, er hér var komið sögu, nóttina stormasömu í Helgolandsbugtinni. Þessi túr hafði gengið vel, eins og svo oft áður, þótt stormasamt væri við Íslandsstrendur. Skipstjóri hafði fundið aflasælan karfa og ufsablett innst í Kolluálnum á 200 metra dýpi út af Búlandshöfða á Breiðafirði, og innan um karfann og ufsann voru margar vænar ýsur. Þarna var hægt að athafna sig í flestum veðrum og gera góðan túr. Þá var þessi staður utan landhelginnar og ósóttur af landróðrabátum, en nú er hann kominn talsvert inn fyrir landhelgina, eins og margur góður blettur, vonandi öldnum og óbornum til góðs og framtíðar farsældar fyrir landið.
Um borð í togaranum Víði GK 450. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Það hafði verið stormasamt undanfarna daga. En þennan októberdag hafði hinn ókyrri Norðursjór hagað sér skaplega fram undir hádegið, og vonir stóðu til hjá okkur, að komast í sæmilegu veðri í höfn. Þó kvað nú við stormfregn frá ElbeWeser radio. Öll skip voru vöruð við því, bæði á tali og morse, að stórastormur væri í aðsigi með 100-120 km hraða á klukkustund, nálgaðist stormsveipurinn austur og upp Ermarsundið. Kl. um 20,00 um kvöldið var komið fárviðri í Helgolandsbugtinni, þar sem við vorum, sjórinn skófst í djúpa dali, og síðan hófu sig upp fjallháir öldutoppar með freyðandi brotfaldi. Öldudalirnir voru svo djúpir, að maður gat jafnvel búizt við, að skipið kenndi botns, þegar það rann niður í þá með ofsahraða, en mjög grunnt er á þessum slóðum. Nú var ekki um annað að gera en ná í höfn sem fljótast, enda stutt eftir. Ég var að enda við að taka síðustu radómiðunina frá Elbe-Weser radio, sem sýndi, að við nálguðumst óðum Elbe I vitaskipið, en það er dýpst liggjandi vitaskipið, um 18 sjómílur frá mynni Elbe-fljótsins. Þessi fjölfarna skipaleið er sérstaklega hættuleg vegna mikilla grynninga á bæði borð. Hættulegustu rifin eru Scharkörn og Grosse Vogelsand, en leiðin liggur á milli þeirra. Til öryggis siglingunum þarna voru á þessum tíma fjögur vitaskip, staðsett þarna við innsiglinguna. Yzta skipið var Elbe I, en hin þrjú voru Elbe II og Elbe III og Elbe IV, sem öll lágu nær landi með jöfnu millibili. Elbe IV var lagt niður eftir síðustu heimsstyrjöld, er umbætur voru gerðar á þessari siglingarennu. Þessi vitaskip hafa verið kölluð dyraverðir sjómannanna, því hverju skipi sem kemur, er kurteislega vísað inn. Það olli okkur því óblandinni ánægju, þegar við sáum hin auðkenndu ljós vitaskipsins birtast framundan, þótt það hyrfi öðru hvoru í öldurótinu, því að við vissum, að vitaskipið myndi nú vísa okkur leiðina í örugga höfn. Þegar við svo þutum fram hjá vitaskipinu, þar sem það byltist til og kippti í festarnar með miklum boðaföllum og sáum þess í milli sjóinn skafa undan því, eins og það væri á beinni leið niður, vorkenndum við þessum einöngruðu mönnum um borð í því, sem þarna voru bundir við skyldustörf sín og áttu þess ekki kost eins og við að vera komnir í rólega höfn eftir skamma stund. En ekki óraði okkur fyrir því, að þetta væri í síðasta sinni, sem við ættum eftir að sjá þessa öryggisvitaverði sjómannanna. Því um nóttina týndist þetta fræga vitaskip með allri áhöfn, 15 manns. Á leiðinni upp fljótið mættum við 10.000 smálesta hollenzku mótorskipi, Poelan Bras, sem kærði sig kollótt um allt óveður og hélt sínu striki út í stormveðrin stríð á leið sinni til Amsterdam. Þetta skip og 1000 smálesta brezkur flutningadallur, sem nálgaðist undan veðrinu utan úr Norðursjó, urðu sjónarvottar að þessum hryggilega atburði.
Um borð í breskum togara. Ljósmyndari óþekktur.
Þýzki hafnsögumaðurinn um borð í hollenzka skipinu átti að skilast yfir í hafnsögubátinn Ditmar Koel, sem átti að liggja utan á Elbe III vitaskipinu, en hann varð að vera kyrr um borð, því vegna veðursins gat hafnsögubáturinn ekki tekið við honum, hann varð því líka sjónarvottur að þessum afdrifum félaga sinna. , Bæði þessi skip nálguðust Elbe I vitaskipið sitt úr hvorri áttinni, en í svipaðri fjarlægð frá því. Hið mikla hollenzka kaupfar lá betur á öldunum og átti því betur með að fylgjast með vitaskipinu, sem aðeins sá ljósunum á því bregða fyrir meðan það reið upp á öldutoppunum. Allt í einu brá fyrir sérstaklega snörpum rokhviðum úr norðvestri, sem ráku á undan sér með óstjórnlegu afli þrjá brotsjói. Þegar fyrsta brotið skall á enska skipinu, héldu þeir um borð, að skip þeirra myndi undir engum kringumstæðum geta afborið hann, því skipið bókstaflega endasteyptist milli himinhárra öldufalda, sem svo aðeins andartaki síðar steypti sér yfir vitaskipið Elbe I, sem lá upp í norðrið og togaði í akkerisfestarnar og lá þannig flatt fyrir hinum aðsteðjandi brotum, sem með ólýsandi offorsi steyptu sér yfir vitaskipið, þar sem það hékk í festingunum, án þess að geta neitt látið undan. Með feiknaafli fleygði sjórinn því á stjórnborða, svo það lagðist á hliðina. Enginn getur staðfest, hvað gerðist á því augnabliki um borð í Elbe I, því enginn átti nokkurn tíma eftir að tala við neinn af þessum 15 hugrökku mönnum, sem um borð í því voru. Ekki einu sinni loftskeytamennirnir, sem dag og nótt héldu vörð við tækin, höfðu tíma til að láta vita, hvað var að gerast þar um borð á þessu hræðilega augnabliki.
Trollið látið fara. Ljósmyndari óþekktur.
Samt var ekki allt búið með skipið. Sjóhæfni þess var svo mikil, að einn sjór dugði ekki til að gera út af við það. Fyrsti sjórinn fleygði vitaskipinu um, svo það lagðist í sjó, en svo rétti það sig við aftur. En þá kastaðist það svo hroðalega ofan í öldudalinn, sem á eftir kom, að kjölur þess mun hafa snert botninn. Það er aðeins hægt að láta sér detta í hug, hvað gerðist á þessu örlagaríka augnabliki. Þeir, sem sáu þennan sorglega atburð úr fjarlægð, gátu ekki nánar skýrt frá einstökum atriðum, því þeir höfðu nóg að gera með að gæta síns eigin skips, og einnig var myrkt af nóttu, er þetta gerðist. Eitt er víst, að það var brotsjór nr. 2, sem skall á skipinu rétt á eftir, sem gerði út af við það. Hafnsögumaðurinn á hollenzka skipinu og stýrimaðurinn á brezka skipinu höfðu séð ljós vitaskipsins birtast eftir fyrsta brotsjóinn. Eitt andartak var greinlega hægt að sjá rauðu landternuna bakborðsmegin. Svo hurfu öll ljós vitaskipsins Elbe I. Enginn getur þó með vissu sagt, hvort það var annar eða þriðji sjórinn, sem hafði það af að hvolfa vitaskipinu og sökkva því. Stundarkorn áttuðu menn sig ekki, á hvorugu skipinu, að þarna hefði skeð hörmulegt sjóslys. Hellirigning hafði komið í kjölfar rokhviðunnar miklu og eyðilagt skyggnið. Eftir úrkomuna birti dálítið til og skimuðu þeir þá eftir vitaskipinu, því ljós þess var sönnunin um, hvar þeir voru, en ljós þess voru horfin með öllu. Hvað hafði orðið af vitaskipinu? Það var ekki nýtt fyrir sjómenn að skip færust í rúmsjó eða við klettótta strönd, en að sjá þetta fræga og trausta vitaskip í ramlegum múrningum, farast fyrir augunum á sér, var næstum því ótrúlegt. En hér var ekki um að villast. Elbe I, þessi verndarvættur sjómannanna, var með öllu horfið af yfirborði sjávar. Hafnsögumaðurinn um borð í hollenzka skipinu beindi sjónaukanum þangað, sem vitaskipið átti að vera, en sá ekkert. En hann gat ekki ímyndað sér, að það versta hefði gerzt.
Vitaskipið Elbe l.
Honum fannst þetta þó kynlegt, og bað hollenzka loftskeytamanninn að kalla upp vitaskipið. Eftir dálítinn tíma kom loftskeytamaðurinn fram í brúna og yppti öxlum: "Ég fæ ekkert svar frá vitaskipinu." Nú varð hafnsögumaðurinn fyrst alvarlega hræddur. Hann kallaði upp Elbe-Weber radio, sem síðan reyndi að ná sambandi við vitaskipið, en allt reyndist árangurslaust. Elbe I, öðru nafni Burgmeister Oswald, var ekki lengur ofansjávar. Björgunarstöðvunum í landi var nú gert aðvart, og neyðarástandi var lýst yfir. Hollenzka skipið andæfði á staðnum, þar sem vitaskipið átti að vera, og beindi sterkum leitarljósum sínum yfir hafflötinn. Að lokum urðu þeir varir við ýmislegt smárekald á sjónum og kjölréttur, mannlaus björgunarbátur flaut fram hjá þeim. Það, sem þeir í Cuxhaven ekki vildu trúa, varð nú ekki lengur í móti mælt. Fréttin um slysið barst um allan heim og allir fylltust skelfingu yfir því sem hafði skeð og fundu til innilegrar hluttekningar með aðstandendum hinna hugdjörfu sjómanna, er látið höfðu lífið við skyldustörf sín, öðrum sjómönnum til öryggis. Þetta var á sinn hátt hliðstætt við hið hörmulega Hermóðsslys í vetur, áhafnir beggja skipanna gerðar út öðrum sjófarendum til hjálpar og verndar. Það var ekki fyrr en eftir tvo sólarhringa, að veður hafði lægt svo mikið, að hægt var að rannsaka staðinn, þar sem vitaskipið Elbe I lá. Kafari var sendur niður. Hann fann skipið á 7 metra dýpi, liggjandi á stjórnborðshlið. Skipið lá þar tjóðrað við akkerin. Ef aðeins akkerisfestarnar hefðu brostið á stundu hins mikla háska, hefði það sennilega orðið skipi og áhöfn til bjargar. Þetta skeði nefnilega á öðrum stað þessa sömu nótt. Norderney vitaskipið varð fyrir áfalli, sem hefði getað riðið því að fullu, en festingarnar hrukku á réttu augnabliki, og það varð áhöfn skipsins til bjargar.
B.v. Hannes ráðherra RE 268 á leið á síldveiðar. Ljósmynd úr safni mínu.
Botnvörpungurinn Hannes ráðherra fórst þremur árum eftir þennan atburð, eða fyrir réttum 20 árum, aðfaranótt 14. febrúar. Við vorum að koma frá Englandi. Fyrsti stýrimaður var skipstjóri þessa ferð, annar stýrimaður var fyrsti stýrimaður og netamaður var hækkaður upp í annars stýrimannsstarf. Að öðru leyti var áhöfnin eins og hún hafði verið árum saman. Þegar við nálguðumst landið var dimmviðri svo mikið, að hvergi sá til vita. Klukkan tæplega 8 um kvöldið fórum við fram hjá Reykjanesi eftir radíómiðunum, án þess að hafa aðra landkenningu og tókum stefnu norður með Rosmhvalnesi. Vindur og alda voru á eftir. Þetta mun hafa orsakað, að skipið hafði meiri yfirferð en vegmælirinn sýndi. Það reyndist síðar, að við hefðum farið dýpra fyrir Garðskaga en áætlað var, hin venjulega stefna til Reykjavíkur lá því norðar um bugtina en gert var ráð fyrir. Dimmviðrið hélzt óbreytt og sá varla út fyrir borðstokkinn. Veðurspáin hljóðaði upp á versnandi veður. Allir um borð voru búnir að klæða sig um, tilbúnir að hlaupa í land, þegar í höfn kæmi. Þegar dregið var úr ferðinni vegna dimmviðris, kurruðu allir. Netamaðurinn, sem var 2. stýrimaður, var að skila af sér vaktinni. Skipstjórinn, sem stóð í lyftingunni, sagði: "Við eigum að vera komnir á móts við Gróttu." Hann leit á dýptarmælinn og hringdi á hæga ferð. Áður en vélin hafði tekið við sér, lék skipið á reiðiskjálfi og allt lauslegt hentist til, stýrinu var snúið hart í borð, en allt kom fyrir ekkert. Skipið var fast í grjótinu og byltist um eins og óður foli, sem lagt hefur verið beizli á í fyrsta skipti. Fyrsti vélstjóri tilkynnti í vélsímann að sjór flæddi inn í vélarúmið og nauðsynlegt væri að raka eldinn út úr kötlunum til að fyrirbyggja ketilsprengingu.
Málverk Jóns Guðmundssonar af Hannesi ráðherra RE 268. Jón fórst ásamt bróður sínum og 4 öðrum í brimlendingu í Vík í Mýrdal 6 mars árið 1941.
Skipstjóri bað mig þá að senda út SOS og segja, að skipið væri strandað við Gróttu og að leki væri kominn í skipið. Loftskeytastöðin í Reykjavík svaraði strax og lét Slysavarnafélag Íslands og eigendur skipsins vita. Þótt komið væri miðnætti, hljóp fregnin eins og eldur í sinu um alla Reykjavík og ýmislegar björgunarráðstafanir voru gerðar. Eftir skamma stund dóu út öll ljós, er sjór flæddi inn í rafalana í vélarúminu, þar með missti ég rafstrauminn af loftskeytatækjunum. Á þeim árum var ekki skylda að hafa neyðarsenditæki á togurum óháðum aðalrafal skipsins. En ég hafði haft að tómstundagamni að smíða smátalstöðvar, er gengu fyrir þurrbatteríi, og nú greip ég til einnar af þeim. Áður hafði ég aðvarað loftskeytastöðina, að hlusta eftir mér á millibylgjum, ef loftskeytatækin þögnuðu, og fékk ég strax gott talsamband. En stuttu eftir, er það samband var komið á, slitnaði loftnetið og hrundi niður á þilfar. Skipstjóri bað þá hásetana að taka dýnurnar úr kojunum sínum og kveikja með þeim bál á hvalbaknum, ef vera mætti að það sæist úr landi. Fyrsti vélstjóri kom nú upp á stjórnpall og hjálpaði mér við að koma upp neyðarloftneti frá stjórnpalli upp í reykháfinn, og þótt erfitt væri um aðstöðu, tókst það svo, að það dugði á meðan við vorum í skipinu og slitnaði ekki sambandið úr því.
Áhöfnin á Hannesi ráðherra RE 268. Úr safni Arnbjörns Jóhannessonar.
B.v. Hannes ráðherra á toginu í Jökuldýpi. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Þegar samband náðist aftur við land, var okkur sagt, að bálið hefði sézt frá Brautarholti á Kjalarnesi og værum við strandaðir á Músaskerjum. Ekki þótti okkur betra að heyra það, því allir vissu, að það var afleitur staður í vestanátt. Við fréttum, að hafnsögubáturinn Magni hefði verið sendur á stað, en snúið aftur vegna dimmviðris. Þá var okkur sagt, að við værum strandaðir of langt frá landi til að hægt væri að skjóta línu til okkar, en björgunarskipið Sæbjörg og varðskipið Ægir ætluðu að gera tilraun til að nálgast okkur frá sjó. Litlu síðar náðum við sambandi við bæði þessi skip, sem fikuðu sig í áttina til okkar. Meðan á þessu gekk, gat ég lítið fylgzt með hvað skipsfélagar mínir höfðust að úti á þiljum, nema hvað ég vissi, að allir gengu rólegir að þeim verkum, sem fyrir þá voru lögð. Nokkrir kyntu bál á hvalbak, en flestir unnu við að reyna að ná björgunarbátunum á flot, sem var erfitt viðfangs vegna sjógangs, einhvern ávæning heyrði ég af því, að annar báturinn væri þegar svo mikið brotinn, að hann væri ónýtur. Við munum hafa strandað á flóði, því þegar fjaraði út, stilltist skipið á skerinu, svo hægt var að koma hinum bátnum á flot, en illa gekk að hemja hann á síðunni meðan menn stukku um borð og hann varð strax þóttufullur af sjó. Sýnilegt var, að hann myndi ekki rúma alla áhöfnina, og var því afráðið að 10 af áhöfninni, sem var 18 menn, reyndu að komast yfir í Sæbjörgu, en þrír menn gáfu sig fram að koma með bátinn aftur, ef þessi ferð heppnaðist.
B.v. Hannes ráðherra RE 268 á strandstað á Músaskerjum við Kjalarnes,. Ljósmyndari óþekktur.
Um þetta segir svo í dagbók björgunarskipsins Sæbjargar frá þessum tíma:
Sæbjörg hafði kl. 6.45 kvöldið áður komið inn með mb. Gunnar Hámundarson, sem var með bilað stýri. Þá var veður sunnan 5 og súld. "Þriðjudaginn 14. febrúar 1939. Kl. 01.05 landfestar leystar. Farið til hjálpar bv. Hannesi ráðherra, er var strandaður. Álitið var að strandið hefði orðið nálægt Gróttu. Kl. 01.20 tilkynnti loftskeytastöðin, að Hannes ráðherra hefði strandað á Kjalarnestöngum. Var nú stefnt til Kjalarness. Þegar komið var út fyrir Engey, sást bjarmi í áttina til Músarsunds. Var haldið á ljós þetta, er síðar reyndist vera bál, sem skipverjar á b.v. Hannesi ráðherra höfðu kveikt á hvalbak togarans. Dimmviðri var og því erfiðara um vik. Þegar nálgast tók "Hannes" voru gerðar stöðugar dýptarmælingar. Minnsta dýpi reyndist vera 4 m. Kl. 02.00 var lagzt á 12 metra dýpi fyrir Bb. akkeri 1 ½ lið af keðju í ca. 150-200 faðma fjarlægð frá "Hannesi". Kl. 03.00 tilkynnti loftskeytamaðurinn á b.v. Hannesi, að líkur væru til þess, að hægt yrði að koma út öðrum lífbátnum. Sagði hann skipið vera að stillast á skerinu með útfallinu. Stöðugt talsamband var haft við b.v. "Hannes". Þá var ljóskastarinn einnig látinn lýsa í áttina til togarans. Líka hafði lífbátur "Sæbjargar" verið losaður, fluglínutæki höfð tilbúin og annað, sem að gagni mætti koma. Kl. um 03.50 kom lífbátur "Hannesar" að síðu "Sæbjargar" með 10 mönnum. Sjö þeirra voru teknir um borð, en þrír fóru aftur yfir í "Hannes" og einnig tveir hásetar frá Sæbjörgu, þeir Jón Ingvarsson og Hans Ólafsson. Kl. laust eftir 04.00 yfirgaf loftskeytamaðurinn á "Hannesi" talstöðina, þar sem báturinn mun þá aftur hafa verið kominn að síðu "Hannesar". Kl. um 04.50 kom lífbátur "Hannesar" að síðu "Sæbjargar" úr seinni ferð með þá, sem eftir höfðu verið af skipbrotsmönnunum. Sama dimmviðrið hélzt. Var þá haldið kyrru fyrir til birtingar. Kl. 7.45 létt og siglt til Rvíkur." Þegar "Hannes ráðherra" var yfirgefinn, var skipið orðið fullt af sjó undir þiljum, en svo mikið hafði reynt á skipið um nóttina, að felling hafði brotnað í síðu þess. Á fjörunni lægði sjóinn og skipið kom hátt úr sjó og sást vel úr Reykjavík, þegar létti, en það þoldi aðeins eitt eða tvö flóð til, þá var það liðað í sundur og sást ekki meir.
Sjómannadagsblaðið. 7 júní 1959.
Frásögn Henrys A. Hálfdánarsonar.
25.03.2020 19:45
M. b. Gunnar Hámundarson VE 271.
Mótorbáturinn Gunnar Hámundarson VE 271 var smíðaður í Sagvaag
í Noregi árið 1925. Fura. 20 brl. 35 ha. Wichmann vél. Eigendur voru Vigfús
Sigurðsson, Oddsteinn Friðriksson og Sigurður Friðriksson í Vestmannaeyjum frá
sama ári. Kom fyrst til heimahafnar, Vestmannaeyja hinn 13 mars sama ár. Báturinn sökk í Vestmannaeyjarhöfn ásamt öðrum bát, Frigg VE 316 hinn
3 janúar árið 1937. Blíðuveður var í Eyjum og talið að þeim hafi verið sökkt.
Vegsummerki bentu til þess að svo hafi verið. Seldur 10 júní 1938, Gunnari
Ólafssyni & Co í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Seldur 10 nóvember
1940, Ármanni Friðrikssyni og Kristni Friðrikssyni í Vestmannaeyjum, hét þá
Friðrik VE 271. Seldur 20 nóvember 1943, Guðbrandi Reykdal Jónssyni, Holberg
Jónssyni og Þórði Stefánssyni í Vestmannaeyjum, hét Björgvin VE 271. Ný vél
(1945) 70 ha. Hundested vél. 25 janúar árið 1951 voru Þórður Stefánsson og
Arnmundur Þorbjörnsson í Vestmannaeyjum eigendur bátsins. Seldur 14 nóvember
1957, Ögmundi Sigurðssyni, Gunnari Á Helgasyni og Páli Guðjónssyni í
Vestmannaeyjum, hét þá Guðbjörg VE 271. Ný vél (1957) 90 ha. Hundested vél.
Seldur 19 júní 1961, Hafsteini Sveinssyni í Reykjavík, hét þá Guðbjörg
Jónsdóttir RE 275. Báturinn sökk um 6 sjómílur suðaustur af Arnarstapa á
Snæfellsnesi 4 maí árið 1962 eftir að óstöðvandi leki kom að honum. Áhöfninni,
5 mönnum, var bjargað um borð í vélskipið Ester KÓ 25 (ex Lottie EA 8) frá
Kópavogi. Ester tók bátinn í tog og dró hann inn á Breiðuvík á Snæfellsnesi, en
þar sökk báturinn. Talið var mjög líklegt að báturinn hafi "slegið úr sér" með
fyrrgreindum afleiðingum.
Mótorbáturinn Gunnar Hámundarson VE 271 í Vestmannaeyjahöfn. Ljósmyndari óþekktur.
Nýr
mótorbátur
Mótorbáturinn "Gunnar Hámundarson" kom hingað í gærkvöldi
frá Noregi.
Þór. 14 mars 1925.
M.b. Gunnar Hámundarson VE 271 í Vestmannaeyjahöfn. Ljósmyndari óþekktur.
Tveir
vélbátar sökkva á Vestmannaeyjahöfn
Að morgni hins 3. þ, m. tóku menn eftir því, að tveir
vélbátar, sem lágu hér á höfninni, voru horfnir. Þegar betur var aðgætt voru
bátarnir sokknir, höfðu sokkið um nóttina í sæmilega góðu veðri. Það voru
bátarnir, Frigg V.E. 316 og Gunnar Hámundarson V.E. 271. Brátt náðist Frigg upp
og Gunnar Hámundarson tveimur dögum síðar. Báðir voru bátarnir óskemmdir að
öðru en því, að farið hafði verið í vélarrúm beggja og lok botnkrana vélar
annars bátsins hafði verið skrúfað af, en botnrör vélar hins bátsins skrúfað
laust. Sjór hafði því fossað inn í bátana uns þeir sukku. Ekki er talin vafi á
því, að hér sé um glæpsamlegt athæfi að ræða, þó að ekki sé skiljanlegt í hvaða
tilgangi það er framið. Bæði Bátaábyrgðarfélagið og eigendur bátanna hljóta að
verða fyrir tilfinnanlegum skaða, og ekki er sjáanlegt að sá er slíkt skítverk
fremur, geti haft nokkurn hag af því, Það er því varla líklegt að hér sé um
óþokkaskap einan að ræða, heldur öllu fremur einhverskonar brjálsemi.
Það er eftirtektarvert að tvö síðastliðin ár var kveikt í bát hér í Slippnum,
og hlaust nokkurt tjón af í fyrra. Óhætt er að segja að það sé hundrað faldur
glæpur í samanburði við það, sem nú hefir skeð. Því ef bátur sekkur
innanhafnar, þá er nokkurnveginn fyrirfram sjáanlegt hvað af slíku hlýst, en ef
að bátur logar í Slippnum, þar sem margir bátar standa hlið við hlíð, og
talsverð olía er í hverjum bát, þá eru mjög litlar líkur til að slíkur eldur
verði slökktur, ef hann er orðinn magnaður, þegar hans verður vart, fyrr en
ógurlegt tjón hefir af hlotist. Enn er ekki vitað hver brennuvargurinn er, sem
kveikt hefir í bátum hér, og litlar eru líkur til að það vitnist bráðlega hvaða
aumingi hefir gaman af að sjá sökkvandi skip. Á meðan ekkert sannast, mun
mörgum finnast að líkur bendi til, að sömu hendur hafi verið að verki í báðum
tilfellunum.
Víðir. 13 janúar 1937.
Áhöfnin á Guðbjörgu Jónsdóttur RE 275 við komuna til Reykjavíkur. Neðri röð frá v;, Óskar Guðmundsson vélstjóri og Hjálmar Helgason skipstjóri. Efri röð frá v;,Hannes Bergsteinsson, Egill Egilsson og Erlendur Helgason. Ljósmyndari óþekktur.
V.b.
Guðbjörg Jónsdóttir sekkur
Föstudaginn 5. maí s. l. um kl. 16 sökk vélskipið Guðbjörg
Jónsdóttir frá Reykjavík sex sjómílur suðaustur af Arnarstapa. Áhöfn skipsins
bjargaði vélskipið Ester frá Reykjavík og reyndi ennfremur að draga skipið til
Stapa, en það tókst ekki. Skipstjórinn á Guðbjörgu Jónsdóttur, Hjálmar
Helgason, skýrir svo frá:
Við vorum allir undir færum fimm skipverjar, er við tókum eftir því að vélin
tók að hiksta. Er að var gáð var kominn mikill sjór í vélarrúmið og ekkert hægt
að gera til að koma vélinni af stað. Ester var ekki langt frá, en þetta skeði
um kl. 14. Hálfri stundu síðar yfirgáfum við skipið og fórum yfir í Ester.
Norðaustan kaldi var, en annars ekki slæmt veður og sjór ekki mikill. Ester
reyndi að draga skip okkar marandi í kafi inn á Stapavík eftir að við komum um
borð. Var það í togi í um einn og hálfan tíma áður en það sökk. Skipstjóri á
Ester er Valgarður Þorkelsson og kom hann til Reykjavíkur með áhöfn Guðbjargar
Jónsdóttur um miðnætti sama dag.
Vélskipið Guðbjörg Jónsdóttir, RE 275, hét áður Guðbjörg og er 20 brúttólestir
að stærð, smíðað, í Sagvaag í Noregi árið 1925. Eigandi er Hafsteinn Sveinsson,
Reykjavík.
Sjómannablaðið. 5 tbl. 1 maí 1962.
23.03.2020 21:33
226. Beitir NK 123 bíður löndunar á Norðfirði.
226. Beitir NK 123 bíður löndunar hjá S.V.N með um 1.300 tonn. (C) Jóhann G Kristinsson.
Ekki óalgeng sjón á Norðfirði. Beitir og Börkur bíða löndunar (C) Guðni K Ágústsson.
Neskaupstaður Tæp 100 þúsund tonnn til bræðslu á árinu
Bræðsla Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað tók á móti tæpum
hundrað þúsund tonnum til bræðslu á síðasta ári og hefur hún ekki tekið við
jafnmiklu aflamagni síðan 1966. Með úrgangi var aflamagnið til bræðslunnar
99.958 tonn og þar af var loðna 89.124 tonn og síld var 6.157 tonn.
Síldarvinnslan hf. tók á móti 9.316 tonnum af bolfiski til vinnslu á árinu og
2.104 tonn af loðnu og síld komu til frystingar. Síldarsöltun nam 1.178 tonnum.
Bjartur var aflahæstur Norðfjarðartogara með 3.834 tonn. Barði var með 3.464
tonn og Birtingur 3.029 tonn. Loðnuskipið Beitir landaði á árinu 28.933 tonnum
af loðnu og auk þess landaði það 1.275 tonnum af frystum fiski, aðallega karfa.
Börkur landaði 27.185 tonnum af loðnu. Á árinu flutti Börkur út 959 tonn af
fiski að verðmæti 67.816.461 króna. Meðalverð þess afla í sölu var 70,74
krónur.
Austurland. 12 janúar 1989.
23.03.2020 10:44
V. b. Birkir SU 519. TFDK.
Vélbáturinn Birkir SU 519 var smíðaður
í Vestnes í Noregi árið 1934 fyrir Útgerðarsamvinnufélagið Kakala á Eskifirði.
Eik og fura. 48 brl. 130 ha. June Munktell vél. Seldur í febrúar 1936, Þorláki
Guðmundssyni, Björgvin Guðmundssyni og Ara Hallgrímssyni á Eskifirði. Báturinn
var lengdur árið 1941 og mældist þá 64 brl. Seldur í janúar 1945, Hólmaborgu
h/f á Eskifirði. Ný vél (1946) 180 ha. June Munktell vél. Seldur í maí 1951,
Höskuldi Jóhannessyni í Reykjavík, báturinn hét Birkir RE 74. Báturinn
eyðilagðist af eldi á Húnaflóa, 21 ágúst árið 1951. Breski togarinn Reighton
Wyke H 425 frá Hull bjargaði áhöfninni, 7 mönnum til lands. Togarinn dró síðan
bátinn upp undir Skaga. Birkir var svo tekinn í tog af varðskipinu Ægi sem
dró hann til Höfðakaupstaðar (Skagastrandar). Var báturinn síðan dreginn á land
við Hólsnes. Eldurinn logaði í bátnum alla nóttina eftir að hann var dreginn upp
í fjöruna og gereyðilagðist.
Vélbáturinn Birkir SU 519. Bátnum nýlega hleypt af stokkunum í Vestnes í Noregi árið 1934. Mennirnir fram við lúkarskappann er áhöfnin sem sigldi honum heim. (C) Ljósmyndasafn Eskifjarðar.
M.b. Birkir
SU 519
M.b. Birkir kom til Eskifjarðar í gær frá Molde í
Suður-Noregi, eftir 3 ½ sólarhrings
ferð. Mótorbátur þessi er 50 smálestir að stærð og er eign Samvinnufélagsins
Kakala á Eskifirði. Formaður bátsins er Bjarni Jónsson, frá Fáskrúðsfirði. -
Kakali hefir látið smíða alls 4 báta erlendis og er Birkir sá 4. í röðinni.
Hinir eru um 20 smálestir að stærð hver og heita Einir, Reynir og Víðir.
Alþingi samþykkti heimild til þess að ríkið ábyrgðist 120,000 kr. lán fyrir
Samvinnufélagið Kakala til bátakaupa. - Bátarnir eru keyptir fyrir milligöngu
Gísla J. Johnsen, sem einnig útvegaði félaginu bankalán erlendis. Vísir. 1 febrúar 1934. Útgerð og
aflabrögð á Eskifirði Frá Eskifirði hafa stundað 9 dekkaðir vélbátar þegar flest
var. Hafa sumir þessara báta farið örfáar sjóferðir og er því tæpast hægt að
telja þá með. Heimafenginn afli þessara báta er aðeins 172 smálestir, og er það
nálægt þriðjungi minna en í fyrra. 6 af þessum bátum veiddu á Hornafirði á
vetrarvertíðinni og öfluðu sæmilega. Verður því heildarafli Eskifjarðarbáta
álíka mikill og árið 1932. - Eskifjörður mun sú veiðistöð á Austurlandi, þar
sem útgerð hefur hrakað mest hin síðari árin. Um eitt skeið voru þar nálægt 20
dekkaðir vélbátar. Þá var gerður út þaðan línuveiðari í sjö ár og togarinn
»Andri" var gerður út þaðan, að nafninu til. Þegar h/f »Andri« var stofnað, var
það gert með það fyrir augum, að reka togaraútgerð frá Eskifirði og var togari
keyptur í þeim tilgangi. Í reyndinni var togarinn gerður út frá Reykjavík að
mestu leyti, lagði aðeins dálítinn hluta af aflanum á land á Eskifirði. Af
útgerð »Andra« er því lítil eða engin reynsla fengin fyrir því, hvort hagkvæmt
sé að gera út togara frá Austurlandi. Engu að síður var það atvinnumissir, eigi
lítill, fyrir þorpsbúa, þegar togarinn »Andri« var seldur.
Birkir SU 519 á Eskifirði eftir lenginguna árið1941. Ljósmyndari óþekktur.
Útgerðin hefur gengið svo saman á Eskifirði síðustu árin, að til vandræða
horfir. Sjávarútvegur hefur verið aðal atvinnuvegur þorpsbúa. Geta og gjaldþol
einstaklinga og sveitarfélags hefur aðallega byggst á útgerðinni. Nú er jafnvel
svo komið, að sveitarfélagið hefur orðið að leita á náðir ríkissjóðs um hjálp
til að standast nauðsynleg útgjöld. Til að reyna að ráða nokkra bót á þessu
ástandi, heimilaði Alþingi 1932 ríkisstjórninni að ábyrgjast lán til handa
samvinnufélagi á Eskifirði, er ræki útgerð. Félagið var stofnað og ábyrgðin
notuð og hefur félagið nú látið smíða 4 báta, þrjá í Danmörku, um 19 smálestir
hvern og einn í Noregi 50-60 smálestir. Var síst vanþörf á að fá nýja báta, því
að flestir þeirra sem fyrir eru, eru orðnir gamlir. Er þess að vænta, að nokkuð
greiðist úr fyrir Eskfirðingum við þessa aukningu útgerðarinnar, þótt reynsla
undanfarinna ára á útgerð vélbáta frá Eskifirði sé ekki góð. Menn hefur talsvert
greint á um það, hver bátastærð mundi hentugust, og skal enginn dómur á það
lagður hér. En sú reynsla, sem fengin er á útgerð stærri vélbáta austanlands,
bendir ekki til að 50-60 smálesta bátar gefi stórar tekjur. Þó má vera að þetta
fari á annan veg með breyttri tilhögun. Bátarnir þrír, sem smíðaðir voru í
Danmörku, komu til Eskifjarðar nú um áramótin.
Ægir. 2 tbl. 1 febrúar 1934.
Birkir SU á Eskifirði á styrjaldarárunum. (C) Sveinn Guðnason.
Bátur hætt
kominn
Vjelbáturinn Birkir úr Eskifirði var hætt kominn úti fyrir
suðurströnd landsins síðastliðinn laugardag. Báturinn er nú kominn til Eskifjarðar.
Frjettaritari útvarpsins á Eskifirði skýrir þannig frá hrakningum bátsins: "Síðastliðið
föstudagskvöld lagði vjelbáturinn Birkir úr Eskifirði, skipstjóri Þorlákur
Guðmundsson, af stað frá Vestmannaeyjum til Seyðisfjarðar, fermdur saltfiski.
Undan Ingólfshöfða skall á hann norðaustan hríðarveður, með miklum stormi og
sjógangi. - Tók þá að ganga sjór yfir bátinn og sópaði sjórinn fiskstakki, sam
var aftan við stýrishúsið, fram gangana beggja megin. Við það stíflaðist sjórás
úr bátnum og var ekki annað sýnna en að fiskurinn mundi lenda í stýrisumbúnaði
bátsins, svo að ekki yrði hægt að stjórna honum, jafnframt því að
hleðslujafnvægi haggaðist og báturinn varð svo framhlaðinn, að til háska
horfði. Voru þá bæði farþegar og hásetar kallaðir á þilfar og tókst að ryðja
framþiljur, sem einnig höfðu verið hlaðnar fiski, og rjettist þá báturinn. Munu
um 10 smálestir af fiski hafa farið útbyrðis. Báturinn lá lengi undir áföllum
og er talinn hafa verið hætt kominn. - Kom hann til Hornafjarðar á sunnudag, lá
þar um hríð, en fór síðan til Seyðisfjarðar og kom til Eskifjarðar í fyrradag."
Morgunblaðið. 12 maí 1938.
Birkir RE í ljósum logum á Húnaflóa. Ljósmyndari óþekktur.
Hulltogarinn Reighton Wyke H 425 sem bjargaði áhöfninni á Birki. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1937. 465 brl. Var þá í eigu West Dock Steam Fishing Co Ltd í Hull. Hét síðar Arctic Trapper H 425 og var þá í eigu Boyd Line Ltd í Hull. (C) James Cullen.
Vélbáturinn
Birkir brennur á hafi úti
Dóttur
skipstjórans bjargað á síðustu stundu
Laust fyrir klukkan 8 þriðjudagsmorguninn 21. þ. m. kom
eldur upp í vélbátnum Birki frá Reykjavík, þar sem hann var staddur 40 sjómílur
norðvestur af Siglufirði á suðurleið með farm af síldartunnum, fullum og tómum.
Breiddist eldurinn óðfluga út aftur á skipinu og einn hásetanna, Eggert Ó.
Kristinsson, bjargaði á síðustu stundu 10 ára gamalli dóttur skipstjórans,
Hildu, sem svaf í brúnni. Þegar eldurinn kom upp miðskips, var Eggert á vakt og
gerði hann skipstjóranum, Guðmundi B. Péturssyni, aðvart. Guðmundur hafði
brugðið sér fram í lúkarinn og verið þar svo sem 5 mínútur, er Eggert tjáði
honum að það væri kviknað í skipinu. Guðmundur hafði konu sína, Lydíu
Guðmundsdóttur, og tvö börn, 10 ára dóttur og 3 ára son, með sér í ferð
þessari. Skipsmenn voru 11. Varð þegar á öllu séð, að eldurinn magnaðist svo
fljótt, að ekki varð við neitt ráðið. Var þá það ráð tekið að forða sér í
nótabátinn, sem dreginn var á eftir. Komust margir þangað mjög fáklæddir, því
að óttast var, að sprenging kynni að verða aftur á og þess vegna reynt að
komast sem fyrst burt frá brennandi skipinu. Til þess að hafa hugmynd um hve
óðfluga eldurinn læsti sig um aftur á, skal þess getið að mjög óvíst er hvort
Hildur litla hefði bjargast úr brúnni ef Eggert hefði ekki gefið sér tíma til
þess að hlaupa upp í brúna til hennar og ná henni út úr reykhafinu, áður en
hann hJjóp fram í lúkar til þess að tilkynna skipstjóranum, hvernig komið væri
og vekja skipsmenn.
Það vildi til happs, að sjór var ládauður og skip nærstatt, því að allir voru
fatalitlir og jafnvel fatalausir og algerlega matarlausir, því að ekki gafst
tími til þess að bjarga neinu. Skipsmenn og farþegar misstu þarna allt, sem
þeir höfðu meðferðis og auk þess brann þarna verðmætur farmur (230 tunnur af
sykursaltaðri síld, 140 tunnur af saltsíld og 130 tómar tunnur) og skipið
gjöreyðilagðist. Eftir 2-3 stundarfjórðunga kom enskur togari, sem var á veiðum
skammt undan á vettvang og tók bátsverja um borð. Síðan var lagt í ferð að hinu
brennandi skipi á ný, og tókst að koma taug í það. Enski togarinn dró Birki
síðan í áttina að Skaga, og þegar tólf mílna leið var eftir, kom Ægir á
vettvang frá Siglufirði og var þá reynt að slökkva eldinn. Tókst að lægja hann
nokkuð, en svo miklu af sjó hafði verið dælt í skipið, að ekki þótti fært að
dæla meiru. Eftir tveggja tíma ferð var komið undir Kálfshamarsvík, og var þá
aftur tekið til við slökkvistarfið. Brátt var þó sýnt, að ekki mundi verða hægt
að ráða niðurlögum eldsins nema með því að sökkva skipinu. Var þá horfið að því
ráði að draga það til Höfðakaupstaðar og þar var því rennt upp i fjöru um
kvöldið. Eldurinn logaði góða stund eftir það og gjöreyðilagðist skipið að
heita má. Eigandi skipsins var Höskuldur Jóhannesson, Drápuhlíð 48, Reykjavík.
Fálkinn. 31 ágúst 1951.
18.03.2020 15:41
314. Baldvin Þorvaldsson EA 24. TFPV.
Agnar Smári Einarsson gerði bátinn út frá Neskaupstað í nokkra mánuði á árinu 1977.
Heimildir að mestum hluta eru fengnar frá Hauki Sigtryggi Valdimarssyni.
314. Baldvin Þorvaldsson EA 24 með fullfermi til Dalvíkur 1958. Báturinn hægra megin hét Valur EA 110. Hann fórst í mannskaðaveðrinu 10 apríl 1963 og með honum 2 menn. Úr safni Arnars Jónassonar.
314. Baldvin Þorvaldsson EA 24 í smíðum hjá Dröfn í Hafnarfirði árið 1955. Ljósmyndari óþekktur.
Nýjum báti
hleypt af stokkunum í Hafnarfirði
Hinn 17. marz sl. var hleypt af stokkunum hjá
Skipasmíðastöðinni Dröfn hf. í Hafnarfirði, nýjum vélbát, 59 rúmlesta að stærð.
Var honum gefið nafnið Baldvin Þorvaldsson EA 24. Eigendur bátsins eru
Aðalsteinn Loftsson og fleiri á Dalvík. Báturinn er smíðaður úr eik, en með
yfirbyggingu úr stáli. Hann er með 270
hestafla díselvél, Mannheim-gerð. Hann er með vökvalínu og dekkvindu,
dýptarmæli með asdic-úrfærslu og yfirleitt búinn öllum beztu tækjum, sem völ er
á og að öllu leyti mjög vandaður. Smíði þessa vélbáts var hafin snemma á
síðasta ári. Hann er smíðaður eftir teikningum Egils Þorfinnssonar,
skipasmíðameistara. Yfirumsjón með verkinu hafði Sigurjón Einarsson,
skipasmíðameistari, en yfirsmiður var Hans Lindberg.
Yfirbyggingu, niðursetningu á vél og alla járnsmíði og hitalögn, annaðist Vélsmiðjan
Klettur hf. Raflögn lögðu rafvirkjameistararnir Jón Guðmundsson og Þorvaldur
Sigurðsson, málun framkvæmdu málarameistararnir Sigurjón Vilhjálmsson og
Aðalsteinn Egilsson. Reiðar og segl voru gerð af Sören Valentínussyni,
dýptarmælir settur niður af Friðriki A. Jónssyni, útvarpsmeistara. Þilfar og
línuvinda var smíðað af vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar. Þetta er 9.
vélbáturinn, sem Skipasmíðastöðin Dröfn hf. hefur byggt á þeim 14 árum, sem
skipasmíðastöðin hefur starfað, og er undirbúningur hafinn að smíði þess
tíunda.
Morgunblaðið. 29 mars 1956.
314. Baldvin Þorvaldsson EA 24 í reynslusiglingu í mars 1956. Ljósmyndari óþekktur.
314. Baldvin Þorvaldsson EA 24 með nótabátinn á síðunni. (C) Loftur ?
314. Baldvin Þorvaldsson EA 24 á sjómannadag á Dalvík, sennilega árið 1957. Ljósmyndari óþekktur.
Þessi mynd er frá sjómannadegi einhvern tímann fyrir 1960. Á
myndinni sjást fjórir helstu síldarbátar Dalvíkurflotans, fánum prýddir. Frá
hægri eru þetta Hannes Hafsteinn EA 475, Bjarmi EA 760, Baldvin Þorvaldsson EA
24 og næst hafnargarðinum Júlíus Björnsson EA 216. Framan við Július Björnsson
má sjá tvo minni báta. Nær bryggjunni er Hafþór EA 102 og utan á honum Valur EA
110. Þessir tveir bátar fórust nokkrum árum síðar eða 1963 og með þeim sjö menn
eins og fram kemur í heimildamyndinni Brotið. Þess má geta að 20 árum síðar
fórst Júlíus Björnsson, sem þá hét Hellisey VE 503, og með honum fjórir menn,
en einn, Guðlaugur Friðþórsson náði með undraverðum hætti að synda í land. Um
þann atburð hefur Baltasar Kormákur gert kvikmyndina Djúpið.
Ljósm. Héraðsskjalasafn Svarfdæla.
314. Þverfell ÞH 139. (C) Tryggvi Sigurðsson.
314. Sæbjörg ST 7. (C) Snorri Snorrason.
314. Sæbjörg ST 77. Báturinn kominn á leiðarenda. (C) Bjarni Guðmundsson.
Stýrishúsið af Baldvin Þorvaldssyni EA 24 / Sæbjörgu ST 77 rétt utan við Hólmavík. Varla hefur það verið notað sem sumarhús. (C) Tryggvi Sigurðsson.
Dalvíkurbátar
halda suður
Frá fréttaritara Tímans á Dalvík í gær.
Tíðarfar hefir verið hér mjög erfitt síðan fyrir jól, snjóað meira eða minna á
hverjum degi síðastliðinn hálfan mánuð og allir vegir ófærir bílum en mjólk
flutt á sleðum framan úr sveit og sjóleiðis til Akureyrar. Fjórir bátar fóru
héðan í gærkvöldi áleiðis til verstöðva á Suðurnesjum. Voru það Hannes
Hafstein, Bjarmi, Þorsteinn og Björgvin. Haukur I fer næstu daga. Verið er að
byggja 55 lesta bát í Hafnarfirði fyrir Aðalstein Loftsson og fleiri á Dalvík.
Verður hann tilbúinn i næsta mánuði og heitir Baldvin Þorvaldsson. Verður hann
gerður út í Keflavík í vetur. Margt fólk fer héðan til vertíðarstarfa suður,
jafnvel heilar fjölskyldur, sem taka sig upp og skilja íbúðirnar auðar eftir.
Tíminn. 26 janúar 1956.
17.03.2020 13:00
701. Hekla SU 379.
701. Hekla SU 379. Ljósmyndari óþekktur.
16.03.2020 13:38
483. Sunnutindur SU 59. TFEG.
483. Sunnutindi SU 59 hleypt af stokkunum í Bardenfleth. (C) Sveinn Þorsteinsson.
Sunnutindi
hleypt af stokkunum
Bremen, 20. jan. - Nýlega var hleypt af stokkunum í bænum
Bardenfleth við Weser-fljót nýjum 75 smálesta fiskibát fyrir íslendinga. Hann
hlaut nafnið Sunnutindur. Eigandi bátsins er Þorsteinn Sveinsson, Djúpavogi.
Verður hann afhentur eigendum eftir hálfan mánuð og þannig ætlazt til að hann
komist á vetrarvertíð við Ísland. Báturinn er 22,5 m langur, 5,62 m á breidd og
hæð hans 2,7 m. Hann er smíðaður úr járni og er búinn radar-tækjum. - Hann
hefur vistarverur fyrir 11 manns. Er knúinn 280 hestafla fjórgengisvél og getur
náð 10,5 sjómílna hraða.
Morgunblaðið. 30 janúar 1957.
Sunnutindi SU 59 hleypt af stokkunum. (C) Sveinn Þorsteinsson.
Sunnutindur SU 59. (C) Sveinn Þorsteinsson.
Nýr bátur
til Djúpavogs
Á föstudaginn var bættist Djúpavogsmönnum nýr fiskibátur,
sem þann dag kom nýsmíðaður frá Þýzkalandi. Báturinn er 75 rúmlestir að stærð,
byggður úr stáli. Hann er með 280 hestafla Mannheim-dísilvél og 23ja ha.
ljósavél og búinn þeim siglingar- og öryggistækjum sem tíðkast á bátum af
þessari stærð, þar á meðal fisksjá. En auk þess er báturinn búinn radartæki með
35 mílna sjónhring. Skipstjóri er Karl Kristjánsson, en alls verða skipverjar
11 talsins. Eigandi þessa nýja báts, sem hlotið hefur nafnið Sunnutindur, er
hlutafélagið Búlandstindur á Djúpavogi. Báturinn, með öllum útbúnaði, mun kosta
1.7 millj. kr. Níels Ingvarsson, yfirfiskimatsmaður, var staddur á Djúpavogi
þegar báturinn kom. Lætur hann mjög mikið yfir því hvað báturinn sé vandaður og
fallegur. Telur hann Sunnutind taka hollenzku stálbátunum mjög fram.
Austurland. 15 febrúar 1957.
483. Guðný ÍS 266. (C) Tryggvi Sigurðsson.
483. Guðný ÍS 266. Líkan. (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
Nýr bátur
Í fyrra mánuði kom hingað til bæjarins 75 smálesta
stálbátur, er hlotið hefur nafnið Guðný ÍS - 266. Eigandi bátsins er nýlega
stofnað hlutafélag, Búðanes h.f. Félagið keypti bátinn frá Djúpavogi. Báturinn
verður gerður út héðan úr bænum, og er hann þegar byrjaður róðra. Skipstjóri er
Halldór Hermannsson. Framkvæmdastjóri félagsins er Baldur Jónsson.
Ísfirðingur. 6 desember 1960.
483. Gústi í Papey SF 188. (C) Sverrir Aðalsteinsson.
Sökk við
Langanes
þrír menn björguðust
Leki kom að bátnum Gústa í Papey SF 188 um níuleytið í
gærkvöldi. Báturinn sökk síðan um ellefuleytið um sex sjómílum suður af
Langanesi. Björgunarsveitinni Pólstjörnunni á Raufarhöfn barst beiðni um að
fara með dælur um borð í bátinn um tíuleytið. Björgunarsveitin lagði af stað á
björgunarbátnum Gunnbjörgu og Bryndísi ÞH. Þrír menn voru í bátnum og var þeim
bjargað af skipverjum á Árbaki EA 5, sem var á leið inn til Akureyrar. Að sögn
Stefáns Sigurðssonar, skipstjóra á Árbaki EA 5, voru þeir á siglingu aðeins
nokkrum sjómílum frá Gústa í Papey. Veður var ágætt, hæg norðaustanátt. "Við
vorum einungis nokkrar mínútur á staðinn, og settum út slöngubát yfir til
þeirra, og björguðum þeim yfir í bátinn til okkar um hálftíuleytið. Svo horfðum
við á bátinn sökkva," sagði Stefán í samtali við Morgunblaðið.
Morgunblaðið. 5 júní 2004.
12.03.2020 15:24
M. b. Njáll GK 456.
Njáll GK 456 í bóli sínu. Ljósmyndin er tekin á Norðfirði. (C) Carl Ólafsson.
Mótorbáturinn Njáll GK 456. Þessi teikning kom í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja árið 1972.
Bátstapi
Í Vestmannaeyjum vildi það slys til í fyrradag, að vjelbátur
sökk örstutt utan við hafnargarðinn og týndust þar allir skipverjar 4 að tölu.
Slysið bar að með þeim hætti, að vjel bátsins stöðvaðist rjett utan við
hafnargarðinn. En norðlægur vindur var og hrakti bátinn á sker, sem þarna er
skammt frá garðinum og brotnaði óðara. Höfðu tveir vjelbátar aðrir, er til hans
sáu, leitast við að koma í hann dráttarkaðli, en ekki tekist. Báturinn hjet
Njáll og var úr Skaftafellssýslu. Allir voru mennirnir ættaðir utan
Vestmannaeyja. Það fylgir þessari fregn, að slys þetta sje nær því dæmalaust,
að vjelbátur sökkvi með þessum hætti svo nálægt höfn. Er það fullyrt, að
bátsmenn hefðu ekki þurft annað en að kasta akkeri þegar vjelin bilaði, þá
hefði öllu verið borgið.
Morgunblaðið. 18 febrúar 1923.
Þeir sem fórust með Njáli GK 456 voru;
Sigurfinnur Lárusson formaður, Álftagróf í Mýrdal, 27 ára. Hafði hann farið
ungur til sjóróðra í Vestmannaeyjum, en þetta var fyrsta vertíð hans sem
formaður.
Erlendur Árnason vélamaður, Borgum í Norðfirði, um þrítugt.
Sigurður Hallvarðsson háseti, Reynisholti á Mýrum, 33 ára.
Guðfinnur Jakobsson háseti, Skammadal í Mýrdal, 24 ára.
Magnús Runólfsson háseti, Skaganesi í Mýrdal, 36 ára. Honum var bjargað á land,
einum skipverja, en lífgunartilraunir báru ekki árangur.
Þrautgóðir á raunastund Vlll bindi.
10.03.2020 20:35
727. Akurey SF 52. TFEV.
727. Akurey SF 52 nýsmíðaður í Faaborg í Danmörku. Ljósmyndari óþekktur.
727. Rán SU 58. (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.
Tveir nýir
bátar bætast í fiskiflota Hornfirðinga
Höfn í Hornafirði í gær.
Í gær komu hingað til Hornafjarðar þeir
tveir nýju bátar frá Danmörku, sem tafizt hafa um skeið vegna ísa og verkfalla.
Eru þeir þegar byrjaðir róðra. Bátarnir áttu upphaflega að koma upp úr
áramótunum. Þeir heita Akurey og Helgi og eru báðir eins að stærð og gerð, 53
lestir með 230 hestafla dísilvél. Þeir eru búnir öllum venjulegum
siglingatækjum. Sími er frá stýrishúsi fram í háseteaklefa. Eigandi Akureyjar
er Haukur Runólfsson og fleiri, en eigendur Helga eru Tryggvi Sigurjónsson og
Ólafur Runólfsson. Bjarni Runólfsson og Guðjón Jóhannsson sigldu bátunum heim,
en þeir voru smíðaðir í Faaborg. Bátarnir fóru þegar út til róðra í dag. Afli
báta hér er alltaf góður, og mun Gissur hvíti nú vera búinn að fá um 100
skippund, en það er með hæstu, ef ekki hæsti afli báts á þessari vertíð á
landinu. Hornafjarðarbátarnir eru nú orðnir fimm.
Tíminn. 8 apríl 1956.
09.03.2020 20:39
3 m. Sk. Sólarris VA 226. KBNT / OXUG.
Þriggja mastra skonnortan Sólarris VA 226 var smíðuð hjá
Chantiers Navala St. Malo í Frakklandi árið 1910. Eik og álmur. 235,58 brl. 135
ha. Vél. Djúprista skipsins var 12 ft. Skipið var keypt til Færeyja árið
1929, Hét þá Grande Hermine. Það var C.C. Johansen í Þórshöfn sem átti skipið
fyrst í Færeyjum, hét þá Ella TN 331. Á árinu 1930 fær skipið nafnið Sólarris TN 331, sami eigandi. Selt árið 1933, Firmanu Jegvan Elias
Thomsens Eftf, í Sandavogi, hét þá Sólarris VA 226.. Skipið sökk eftir að hafa siglt á
tundurdufl út af Berufirði, hinn 18 ágúst árið 1941. Var skipstjórinn, Peter
Steig við stýrið, en matsveinn og háseti voru aftur í stýrishúsi. Skipstjórinn,
matsveinninn og hásetinn, köstuðu sér allir í sjóinn og náðu til
björgunarflekans. Áttu þeir ömurlega vist á flekanum og voru þeir í þann mund
að bugast af þorsta, að þeir gátu fangað selskóp og drukkið úr honum blóðið.
Það var síðan aðfaranótt hinn 21 ágúst að mótorbáturinn Höfrungur frá Djúpavogi
sem bjargaði mönnunum og fór með þá til Djúpavogs. Nöfn mannanna sem björguðust
auk skipstjórans voru, Alfred Jacobsen matsveinn og David Maggnúsen háseti.
Það er mikil missögn af þessu sjóslysi, því hér að neðan í frétt Morgunblaðsins segir "að þeir hafi komið siglandi á báti til Djúpavogs og sagt tíðindin. Ennfremur segir að fimm skipverjar hafi farist en tveir bjargast. Í þrautgóðum á raunastund ll bindi segir að það hafi verið mótorbáturinn Höfrungur frá Djúpavogi sem bjargaði mönnunum, aðfaranótt hinns 21 ágúst. Þar segir ennfremur að þeir hafi verið þrír. Á færeyska skipavefnum, www.vagaskip.dk segir að skipverjar á Sólarris hafi verið átta og að þremur þeirra hafi verið bjargað eftir 84 klukkustunda hrakninga.
Færeyska skonnortan Sólarris VA 226. Þegar þessi ljósmynd er tekin heitir skipið Grande Hermine. Fann þessa mynd í morgun eftir mikla leit. Mynd á gömlu póstkorti.
Skonnortan Sólarris VA 226 sennilega á Grænlandi. Úr safni Finn Björn Guttesen.
Færeysk
skúta ferst á tundurdufli
fyrir Austfjörðum
Fimm menn drukkna Tveir bjargast
Seint í gærkvöldi barst hingað sú fregn að færeysk skúta,
"Sólaris", hafi rekist á tundurdufl út af Austfjörðum og sokkið. Fimm menn af
áhöfninni fórust en tveir björguðust.
Slys þetta mun hafa átt sjer stað út af Djúpavogi. Seint í gær komu tveir menn
róandi á báti til Djúpavogs. Voru það skipstjórinn af "Sólaris" og einn
hásetanna. Þeir höfðu bjargast og sögðu þeir tíðindin. Ekki var getið að fleiri
en 7 hefðu verið á skútunni og getur það vel átt sjer stað, því skipið hefir
verið í fiskflutningum.
"Sólaris" var á leið til Seyðisfjarðar og átti að taka fisk þar. Skipið hefir
sennilega farið yfir hið auglýsta hættusvæði fyrir Austurlandi.
Morgunblaðið. 22 ágúst 1941.
09.03.2020 10:48
1239. Þverfell ÓF 17.
1239. Þverfell ÓF 17 í Reykjavíkurhöfn. Ljósmyndari óþekktur.
Siglufjarðarfréttir
Bátasmíðar
Hér hefur nokkuð verið unnið að bátasmíðum í vetur og meira
en nokkru sinni fyrr. Tveir 11 lesta bátar liggja hér við bryggju, búnir til
brottfarar. Fönix, ÞH - 148 fer til Raufarhafnar, eigandi Baldur Hólmsteinsson
og Skálafell, SH - 240, fer líklega til Ólafsvíkur og er aðaleigandi hans
Kristján Helgason. Skálafell er smíðað hjá þeim Hauki Kristjánssyni Sigurði
Konráðssyni og Konráði Konráðssyni en Þverfell hjá Berg, 7-8 smálesta bát í smíðum,
sem fer til Ólafsfjarðar. Eigandi hans mun vera Sigurjón Antonsson. Ráðgert er
og að hefja þegar smíði á öðrum 11 lesta báti, sem þeir standa að Berg hf og
Kristján Sigurðsson. Sá bátur mun fara til Ólafsfjarðar. Loks er Kristján
Sigurðsson að smíða tvær trillur, 4-5 lesta. Fer önnur þeirra til Ólafsfjarðar
en hin til Grímseyjar.
Tíminn. 14 mars 1972.
1239. Auður HF 8 (á miðri mynd) í Flensborgarhöfninni í Hafnarfirði. (C) Lárus K Ingason.
Þremur
bjargað af sökkvandi báti
Þrír menn björguðust þegar Þverfell ÓF 17, átta tonna
trébátur, lagðist á hliðina og sökk í þokkalegu veðri undan Gróttu um klukkan
16 í gær. Mennirnir þrír björguðust af lunningu bátsins yfir í Pálma RE 48, sjö
tonna bát, sem var að veiðum skammt undan. Bátarnir voru að netaveiðum um það
bil eina mílu undan Gróttu. "Við vorum að beygja á stjórnborða og ætluðum að
fara að leggja út trossu. Þá kom alda undir bátinn stjórnborðsmegin og hann
lagðist á hliðina," sagði Jón Barðdal, en hann var um borð í Þverfellinu ásamt
Arnari, tvítugum syni sínum, og Sigurjóni Antonssyni, eiganda bátsins og
skipstjóra. "Ég var afturá, komst upp á lunningu og náði að losa bátinn. Arnar
var niðri í lúkar en komst upp. Skipstjórinn náði að kalla: "Pálmi -
Þverfell" í stöðina. Þeir litu við, sáu hvað var að gerast og keyrðu beint
til okkar. Þeir voru 2-3 mínútur á leiðinni og við biðum á lunningunni. Þeir
Iögðu að og við stukkum yfir til þeirra. Við reyndum að rétta Þverfellið við en
það var vonlaust. Ég hugsa að ekki hafi liðið meira en 5-7 mínútur frá því að
hann fór á hliðina og þar til hann var sokkinn."
Morgunblaðið. 19 apríl 1989.
08.03.2020 10:40
203. Gísli Jónsson GK 30. TFQY.
Vélskipið Gísli Jónsson GK 30 nýsmíðaður í Lubeck í Þýskalandi. (C) Sveinn Þorsteinsson.
Nýr bátur
til Grindavíkur
Nýlega kom til Grindavíkur nýr 139,5 lesta stálbátur
smíðaður í Vestur-Þýzkalandi. Heitir hann Gísli Jónsson GK 30, og eru eigendur
þeir Guðjón, Jón og Óskar Gíslasynir og Sæmundur Jónsson. Báturinn fer á
síldveiðar í næstu viku og verður Óskar Gíslason skipstjóri.
Morgunblaðið. 8 júlí 1960.
Vélskipið Sunnutindur SU 59 við bryggju á Djúpavogi. (C) Sveinn Þorsteinsson.
Útgerð og
aflabrögð á Djúpavogi
Á Djúpavogi var aðeins v/b "Sunnutindur" gerður út, en
hóf ekki róðra fyrr en seint í mánuðinum. Þau tíðindi höfðu gerzt í mánuðinum
að v/b "Sunnutindur" fyrri var seldur burt úr plássinu, og er þessi
"Sunnutindur" nýr stálbátur 140 lesta, og er búinn öllum nýjustu tækjum
til veiða og til öryggis. Hann fór aðeins einn túr og fékk 25 lestir.
"Sunnutindur" hinn fyrri þótti of lítill til að stunda útilegu á haustin
og vetrarverðtíðinni og var þess vegna seldur, og þessi nýi fenginn í staðinn.
Engir minni bátar hafa stundað veiðar í mánuðinum.
Ægir. Desember 1960.
203. Fjölnir GK 17. (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.
Nýr bátur
til Grindavíkur
Síðastliðinn föstudag bættist í flota Grindavíkur 150 lesta
stálbátur og nefnist hann Fjölnir GK 17. Var hann keyptur frá Stykkishólmi.
Kaupendurnir eru Páll H. Pálsson og Ásgeir Lúðvíksson en skipstjóri verður
Hjálmar Júllusson frá Þórkötlustöðum í Grindavik.
Morgunblaðið. 7 júlí 1976.
Kaup á nýju
skipi til rækjuveiða
Í rækjuvinnslunni Dögun h.f. á Sauðárkróki hefur nánast
engin vinna verið frá því í janúar í vetur. Síðustu dagar eru þó undantekning
en þá hefur verið unninn afli Hafborgarinnar frá Hofsósi sem aflað hefur mjög
vel, 13 tonn í þremur róðrum. Nú hefur Dögun fest kaup á 152 tonna skipi sem
fór á veiðar um helgina. Að sögn Garðars Sveins Árnasonar, framkvæmdastjóra,
eru þessi kaup tilraun til að tryggja hráefni allt árið um kring, en rækjan
hefur ekki fengist í firðinum í vetur. Skipið sem hér um ræðir heitir nú Röst
SK 17 en hét áður Fjölnir GK 17. Það er smíðað í Þýskalandi 1960 og síðan
stækkað 1966. Í skipinu er 810 hestafla MWN-vél sem er smíðuð árið 1972 og
gírskiptiskrúfa, ljósavél og rafkerfi frá árinu 1984, en það ár var vélin
yfirfarin. Verð skipsins, fullbúið til veiða, er 27 milljónir króna.
Skipinu fylgir 600 tonna fiskkvóti og sagðist Garðar Sveinn vonast til að
samkomulag næðist við fiskvinnsluna og útgerðarfélagið um nýtingu kvótans á sem
bestan hátt fyrir alla aðila. Sagðist hann þar hafa í huga að skipta við
útgerðarfélagið, þannig að togarar félagsins nýttu þá daga, sem ekki nýttust að
sóknarmarkinu, til rækjuveiða eins og veiðiskip á nokkrum öðrum stöðum hafa
gert. Skipstjóri á Röst er Friðrik Friðriksson, alvanur rækjuskipstjóri. Sex
manna áhöfn er á skipinu. Í sumar munu tíu til tólf manns hafa atvinnu af
rækjuvinnslunni.
Dagur. 17 júní 1986.
203. Röst SK 17 til vinstri og Hilmir ll SU 177 að leggja af stað síðasta spölinn. (C) DV.
Sökkt á
Rauða torginu
Röst SK 17 "prýðir" ekki lengur höfnina á Sauðárkróki
en skipið hafði legið þar við bryggju frá því á síðasta hausti að það missti
haffærisskírteinið. Úreldingin hefur því tekið langan tíma og það var ekki fyrr
en sl. mánudag að það var dregið út úr höfninni af Hilmi II. Ferðinni var
heitið á "Rauða torgið" þar sem því var sökkt. Fjöldi fólks var mættur á
bryggjuna á mánudag til að kveðja þetta happafley og ekki var laust við að tár
læddust fram í augnkrókana á sumum. Það var rækjuverksmiðjan Dögun sem átti
Röstina. Á stærri myndinni er Hilmir með Röst í drætti en á þeirri minni sjást
þeir sem sem mættu á bryggjuna til að kveðja happafleyið.
Dagblaðið / Vísir. 5 október 1989.
.
04.03.2020 19:22
Skipsbjallan úr Nýsköpunartogaranum Jóni forseta RE 108.
Jón forseti RE 108 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir h/f Alliance í Reykjavík. 675 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 792. Skipið var selt 11 maí árið 1966, Henriksen & Co Ltd í Hull, hét Larissa H 266. Togarinn var seldur í brotajárn og rifinn árið 1968. Þeir sem áhuga hafa á að kaupa bjölluna geta farið inn á linkinn hér að neðna.
https://www.ebay.co.uk/itm/Antique-Bell-Lovely-Rare-12kg-Large-Ships-Bell-Jon-Forseti-1948-Reykjavik/124032128117?hash=item1ce0e41475:g:xzAAAOSwrsFeDyiU
Skipsbjalla togarans Jóns forseta RE 108.
Nýsköpunartogarinn Jón forseti RE 108. í Reykjavíkurhöfn. (C) Snorri Snorrason.
04.03.2020 09:36
E. s. Reykir LC..
Gufuskipið Reykir. Ljósmyndari óþekktur.
Íbúðar og verslunarhús Konráðs Hjálmarssonar í Mjóafirði um árið 1900. Gamalt póstkort.
Gufuskipið
"Reykir"
"Reykir'', hið laglega fiskiveiðagufuskip kaupmanns Konráðs
Hjálmarsonar, hefir af og til komið hingað í sumar í ýmsum erindagjörðum, og
nokkrum sinnum flutt lækni fram og til baka.
Austri. 27 tbl. 30 september 1898.
Fiskirannsóknir
1898
Eftir Bjarna Sæmundsson
Mjóifjörður er eins og nafnið ber með sér mjóstur allra
fjarðanna. Lengdin er rúmar 2 mílur frá línu milli Norðfjarðarnípu og
Steinsness, inn í botn. Dýpið er mikið, 40 faðmar inni við botn, og smádýpkar
út. Í firðinum er leirbotn, en úti fyrir nokkur hraun. Útræði er frá flestum
bæjum við fjörðinn, en einkum frá Brekku. Sé fiskur ekki inni í firðinum, róa
menn út í flóann milli Nípu og Dalatanga eða á djúp, alt að 1 mílu undan
Dalatanga. Alls ganga úr firðinum 30-40 bátar, flestallir færeyskir, og svo 1
gufubátur. Bræðurnir Konráð kaupmaður og Vilhjálmur hreppstjóri Hjálmarssynir,
síra Þorsteinn Halldórsson og Benedikt Sveinsson á Brekku fræddu mig um
veiðarnar.
Fyrir hér um bil 10 árum byrjaði Otto sál. Wathne að gjöra út gufuskip til
fiskiveiða, hin fyrsta tilraun hér á landi í þá átt. Urðu þau smámsaman 3 að
tölu: »Egeria«, »Bjólfur« og »Elín«, (sem áður var strandferðabátur á
Faxaflóa).
Fiskverkunarpláss Konráðs í Mjóafirði um árið 1900. Mynd á gömlu póstkorti.
Hin 2 síðastnefndu eru mjög lítil, en Egeria nokkuð stór. Þau voru
látin stunda þorskveiðar með lóð og var fyrirkomulagið þannig, að þau fóru út
með smábáta, er lögðu lóðirnar og tóku þær, og voru úti 1-2 sólarhringa, eftir
því sem veður var til og afli mikill. Var svo gert að aflanum á landi. Þau
fiskuðu á djúpmiðunum í nánd við Seyðisfjörð, en sjaldan lengra burtu, svo sem
norður frá, suður af Langanesi, eða úti fyrir Vopnafirði, eða niður með, út af
Suðurfjörðunum. Gjörðu menn sér miklar vonir um þessa veiðiaðferð, og í
"blöðunum var látið eigi alllítið yfir hinum ágæta afla þessara skipa, og
talið víst, að útgerðarmaðurinn hefði mikinn ábata á þeim. Þau hafa og eflaust
aflað vel með köflum. En síðari árin hefir þeim ekki gengið vel og ábatinn
orðið lítill. Og ekki heyrðist mér á Wathne sál. í sumar, að honum hafí þótt
útgerðin vera sérlega arðberandi, sem bezt hefir sýnt sig á því, að hann í
hitteð fyrra (1896) losaði sig að mestu leyti við skipin öll, þannig, að hann
seldi þau að mestu leyti hlutafélagi einu dönsku, þar sem verzlunarhúsið 0rum
og Wulff keypti flesta hlutina, en Wathne átti aðeins lítinn hluta, en hélt
áfram að annast um útgerðina og fiskverkunina, ásamt með Bache kaupmanni á
Vopnafirði, sem nú er aðal-umsjónarmaður útgerðarinnar. 1897 sagði hann mér, að
skaðinn á útgerðinni hefði orðið 15 % og í sumar höfðu skipin varla aflað fyrir
kolunum, þegar eg fór frá Austfjörðum; í haust hafa þau ekki aflað svo mikið,
að þau hafi borgað sig. Mér heyrðist einnig á Bacbe, að félagið vildi helzt
losna við skipin, ef hægt væri að selja þau án mikilla affalla. Eftir þessu að
dæma hefir þessi útgerð því ekki orðið eins happasæl og menn gjörðu sér vonir
um. Síðustu 3 ár hafa heldur ekki verið góð.
Bjarni Sæmundsson (fjær) við fiskirannsóknir sínar um borð í togaranum Baldri RE 146 árið 1912.
Konráð kaupmaður Hjálmarsson í Mjóafirði
lét smíða í fyrravetur gufubát, 14 smál. netto að stærð, fyrir 24,000 kr. Gekk
báturinn (»Reykir«) til fiskiveiða í sumar, og var fyrirkomulagið sama og á
hinum skipunum, hafði 2 báta með lóð, fór vanalega út á hverjum degi kl. 4 f.
m. og kom aftur kl. 2 e. m., þegar veður leyfði. Hann fiskaði vanalega á
djúpmiðunum út af Mjóafirði, en stundum nokkuð lengra burtu. Í sumar mun hann
ekki hafa borgað sig ( útgerð og rentur), því til þess tíma, sem ég fór af
Austfjörðum, gekk honum oftast illa. Þorsteinn kaupm. Jónsson í Borgarfirði
átti von á gufubát í sumar, sem á að ganga til fiskiveiða. Þetta eru þær
tilraunir, sem Austfirðingar hafa gert til að reka fiskiveiðar með gufuskipum,
og þær eru mjög virðingarverðar, þar sem þær sýna mikla framtakssemi og hafa
mikinn kostnað í för með sér. En því miður eru ýmsir agnúar á þessari útgerð,
sem þegar hafa sýnt afleiðingar sínar á útgerð Watnesskipanna og Konráð jafnvel
hefir þegar rekið sig á. Ég skal benda á hina helztu af þeim: Aðalgallinn er
sá, að skipin eru of lítil. Af því leiðir, að þau eru nauðbeygð til að leita
hafnar, eftir mjög stutta útivist, af því að ekki er hægt, vegna rúmleysis, að
gera að aflanum og salta hann á skipinu, en fiskurinn þolir ekki að liggja
lengi óslægður, einkum á sumrin. En við þessar tíðu ferðir út og inn eyðist
mikið af kolum og tíma.
Bjarni Sæmundsson um borð í togaranum Skallagrími RE 145.
Þau eru af þessu einnig bundin við mjög takmarkað
fiskisvæði, í stað þess geta haldið á þau mið, þar sem helzt er veiðivon, ef
afli bregzt á heimamiðunum. Úr því mætti bæta, ef skipin gætu lagt aflann upp á
öðrum hötnum, en til þess þyrfti að vera fólk fyrir til að hirða aflann, eða að
hann væri seldur þar. Af smæðinni leiðir ennfremur, að skipin eru eigi eins góð
í sjó að leggja og æskilegt væri, því lítil gufuskip eru mjög ágjöful og ókyrr,
ef sjór er ókyrr, og því illt að athafna sig á þeim. Þau verða því oftast að
liggja inni, þegar opnir bátar ekki geta róið veðursins vegna. Aftur á móti eru
stór gufuskip dýr, og eigi þau að vera lengi úti í senn, þurfa þau mikið rúm
fyrir kol, sem dregst frá lestarrúmi því, er aflinn ætti að verkast í. En svo
er þeirri spurningu enn ósvarað, hvort það muni geta borgað sig, að gera út
stór gufuskip til þorskveiða og salta þorskinn á skipinu, og mikið efamál, að
það geti orðið, meðan verð á saltfiski er jafnlágt og það hefir verið nú að
undanförnu. Konráð kaupmaður bjóst við, að bátur sinn gæti borgað sig, ef
fiskur væri ávalt á heimamiðum. En þess skilyrðis ætti ekki að þurfa með, þegar
um gufuskip er að ræða, því opnir bátar geta þá líka borgað sig. Það má þá
segja, að gufuskipið sé aðeins til að draga bátana á miðin.
Andvari. 1 tbl. 1 janúar 1899.
- 1
- 2