23.03.2020 21:33

226. Beitir NK 123 bíður löndunar á Norðfirði.

Nótaskipið Beitir NK 123 bíður löndunar hjá loðnuverksmiðju Síldarvinnslunnar hf í Neskaupstað. Beitir er með um 1.300 tonn af loðnu. Þetta var ekki óalgeng sjón á Norðfirði, Beitir og Börkur með fullfermi, bíðandi eftir löndun, hvort sem var við bæjarbryggjuna eða á kæjanum inn í bræðslu. Beitir NK var keyptur til Síldarvinnslunnar hf í apríl árið 1981 til að tryggja loðnuverksmiðjunni hráefni. Fyrri eigandi, Ólafur Óskarsson útgerðarmaður í Reykjavík, keypti skipið af Bæjarútgerð Reykjavíkur árið 1978, hét þá Þormóður goði RE 209. Skipið fór í miklar endurbætur í Finnlandi sama ár og var gert að nótaveiðiskipi þar. Hét eftir það Óli Óskars RE 175 og var oftast með aflahæstu skipum loðnuveiðiflotans. Norðfirðingar bundu miklar vonir við þetta mikla skip, en árið eftir að skipið kemur austur á Norðfjörð er sett á loðnuveiðibann. Til að bregðast við því er Beitir sendur norður á Akureyri árið 1982 og sett skutrenna á hann. Hann hélt til veiða um mitt það ár. Var hann þá fjórði skuttogarinn í eigu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.


226. Beitir NK 123 bíður löndunar hjá S.V.N með um 1.300 tonn.        (C) Jóhann G Kristinsson.


Ekki óalgeng sjón á Norðfirði. Beitir og Börkur bíða löndunar                  (C) Guðni K Ágústsson.

                 Neskaupstaður                          Tæp 100 þúsund tonnn til                         bræðslu á árinu

Bræðsla Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað tók á móti tæpum hundrað þúsund tonnum til bræðslu á síðasta ári og hefur hún ekki tekið við jafnmiklu aflamagni síðan 1966. Með úrgangi var aflamagnið til bræðslunnar 99.958 tonn og þar af var loðna 89.124 tonn og síld var 6.157 tonn. Síldarvinnslan hf. tók á móti 9.316 tonnum af bolfiski til vinnslu á árinu og 2.104 tonn af loðnu og síld komu til frystingar. Síldarsöltun nam 1.178 tonnum.
Bjartur var aflahæstur Norðfjarðartogara með 3.834 tonn. Barði var með 3.464 tonn og Birtingur 3.029 tonn. Loðnuskipið Beitir landaði á árinu 28.933 tonnum af loðnu og auk þess landaði það 1.275 tonnum af frystum fiski, aðallega karfa. Börkur landaði 27.185 tonnum af loðnu. Á árinu flutti Börkur út 959 tonn af fiski að verðmæti 67.816.461 króna. Meðalverð þess afla í sölu var 70,74 krónur.

Austurland. 12 janúar 1989.


Flettingar í dag: 797
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 720694
Samtals gestir: 53524
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 11:07:13