Blogghistorik: 2017 Länk
31.05.2017 20:50
Gömul póstkort frá sjávarsíðunni.
30.05.2017 09:35
305. Auðbjörn ÍS 17. TFPG.
Í gömlum Íslenskum sjómannaalmanökum frá 1931 og síðar er Auðbjörn sagður smíðaður í Gautaborg. Tvær aðrar heimildir segja hann smíðaðan í Djupvík í Svíþjóð, ásamt Gunnbirni ÍS 18. Það er spurning hver hinn rétti smíðastaður er.
Nýjir
Samvinnufélagsbátar
Smíði Samvinnufélagsbátanna nýju miðar vel áfram. Er annar
þeirra nær fullsmíðaður og hefur hlotið nafnið Auðbjörn í S. 17. Siglir Eiríkur
Einarsson honum upp, en Hinrik Guðmundsson, Sigurður Ingvarsson, Hermann
Erlendsson og Jón Valgeir Magnússon verða með honum. Fóru þeir á Íslandi
síðast.
Skutull 12 september 1929.
Auðbjörn ÍS
17 kominn
Hinn nýi bátur Samvinnufélagsmanna kom hingað í nótt um kl.
hálf tólf. Hafði hann verið hálfan tíunda sólarhring á leiðinni frá Svíþjóð, en lá um kyrrt vegna veðurs rúma 2 sólarhringa af þeim tíma. Ferðin gekk vel og
telja skipsmenn bátinn ágætt sjóskip. Mjög er Auðbjörn líkur hinum bátunum að ytra útliti,
þótt hann sé smíðaður á öðrum stað. En innrétting er nokkuð önnur og frágangur
undir þiljum vandaðri, en á norsku bátunum. Sama stærð er á þessum bát og hinum
og jafn stór diselvél frá Maskinverken í Södertelju. Eiríkur Einarsson, sem
hefir eftirlit með smíði bátanna, sigldi Auðbirni hingað og fer aftur út á
Íslandi til að sækja hinn bátinn.
Skipstjóri á Auðbirni verður Hinrik Guðmundsson og stýrimaður Sigurður
Ingvarsson. Auðkennisstafir skipsins eru Í S 17.
Skutull 4 október 1929.
29.05.2017 06:15
1055. Árni Friðriksson RE 100. TFJA.
Síldarrannsóknarskipið Árni Friðriksson RE 100 var smíðaður
hjá Brook Marine Ltd í Lowestoft á Englandi árið 1967 fyrir
Hafrannsóknarstofnun í Reykjavík. 474 brl. 2 x 498 ha. MAN díesel vélar. Skipið
var selt til Færeyja 4 september árið 2001. Árið 2005 hét skipið Mars Chaser og
var þá skráð í Kingston á Jamaika sem gæsluskip. Ekki er mér kunnugt um hvar
skipið er niður komið í dag eða hvort það sé komið í hinn illræmda pott.
Árni Friðriksson RE 100 í Reykjavíkurhöfn. (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.
Síldarrannsóknaskipið
"Árni Friðriksson"
Undanfarin ár hefur veiðisvæði íslenzkra síldveiðiskipa
aukizt hröðum skrefum. Jafnframt þessu hefur veiðitímabilið einkum norðanlands
og austan tvöfaldast. Af þessum sökum hefur þörfin á vel skipulagðri síldarleit
vaxið ár frá ári. Öflugri síldarleit verður þó ekki haldið uppi nema á góðum og
hentugum skipum, sem eingöngu eru til þessarar starfsemi ætluð. Fram til ársins
1965 var síldarleit eingöngu rekin með varðskipinu Ægi og á leiguskipum, sem
voru misjafnlega vel útbúin og sum þeirra því óhentug til starfsins, svo að
ekki sé meira sagt. Í ársbyrjun 1965 var svo 250 lesta skip, v.s. Hafþór,
afhentur síldarleitinni til fullra umráða. Hann hefur síðan verið búinn nýjum
siglinga- og leitartækjum og hefur reynzt hið bezta í leitinni, enda var góð
reynsla fengin áður af sams konar skipi, v.s. Pétri
Thorsteinssyni, sem leigður
var til síldarleitar á árunum 1962-1965.
Árni Friðriksson RE í smíðum í Lowestoft. (C) Hjálmar R Bárðarson.
Þeim, sem til þekkja, var þó Ijóst, að auk Hafþórs var mikil nauðsyn á að fá
nýtt skip sérstaklega smíðað til síldarleitar, enda myndi slíkt skip gegna
forystuhlutverki í síldarleitinni og koma í stað Ægis. Hafði máli þessu oft
verið hreyft á fundum sjómannasamtakanna. 1 september 1965 ritaði Jakob
Jakobsson ríkisstjórninni ítarlegt bréf um málið og óskaði þess, að hafin yrði
smíði nýs síldarleitarskips Þegar á árinu 1966. Á aðalfundi Landssambands
íslenzkra útvegsmanna, sem haldinn var í desember 1965, var samþykkt tillaga
frá fulltrúum Eyfirðinga um smíði síldarleitarskips og fjáröflun til smíði
þess. Skömmu síðar samþykkti þing Farmanna- og fiskimannasambands íslands sams
konar tillögu. Einnig bárust samþykktir frá öðrum sjómannasamtökum varðandi
málíð. Í þessum tillögum var gert ráð fyrir, að útvegsmenn, sjómenn og
síldarkaupendur stæðu straum af byggingarkostnaði skipsins, sem síðar yrði afhent
hinu opinbera til reksturs.
Árni Friðriksson RE og Skógey SF í Leirvík á Hjaltlandseyjum. (C) J. A. Hugson.
Þá þegar hafði ráðuneytið falið Jakobi Jakobssyni
að gera athuganir á smíði slíks skips og leita tilboða. Hinn 25. marz 1966
skipaði sjávarútvegsmálaráðherra fimm menn í nefnd, þá Guðmund Oddsson, Jón L.
Arnalds, Kristján Ragnarsson, Svein Benediktsson og Jakob Jakobsson, formann.
Hlutverk nefndarinnar var að taka ákvarðanir um smíði og kaup á
síldarleitarskipi, og semja uppkast að frumvarpi til laga um innheimtu gjalds
af síldarafurðum. Nefndin tók við þeim upplýsingum, sem Jakob Jakobsson hafði
aflað og hélt áfram starfi hans. Nefndin samdi frumvarp til laga um smíði
síldarleitarskips og um síldargjald. Frumvarp þetta var síðan samþykkt sem lög
frá Alþingi í maímánuði 1966. Lögin gera ráð fyrir, að skipið verði eign ríkissjóðs
og ábyrgist hann allar greiðslur og skuldbindingar vegna smíði þess.
Síldargjald það sem lögin gera ráð fyrir rennur hins vegar í ríkissjóð, unz
stofnkostnaður skipsins er að fullu greiddur. Ríkissjóður sér um innheimtu
gjaldsins. Gert er ráð fyrir í lögunum, að það nemi 0,3% af útflutningsverði
síldarmjöls og síldarlýsis, en 0,2% af útflutningsverði annarra síldar- og
síldarafurða.
Árni Friðriksson RE 100. Ljósmyndari óþekktur.
Eftir rækilega athugun komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að hagstætt tilboð í
fullkomið síldarleitarskip væri fáanlegt frá skipasmíðastöðinni Brooke Marine
Ltd. í Lowestoft í Englandi. Lagði hún til, að tilboði þessu yrði tekið. Skip
það, sem hér um ræðir, er í öllum aðalatriðum eins og rannsókna- og leitarskip,
sem skipasmíðastöðin hefur þegar lokið smíði á fyrir brezku hafrannsóknirnar,
en undirbúningur að smíði þess skips tók sérfræðinga langan tíma og var í alla
staði mjög til hans vandað. Var nefndin þess fullviss, að hér væri um mjög
hagstætt tilboð að ræða, ekki sízt vegna þess, að hér nytum við allrar þeirrar
miklu undirbúningsvinnu, sem lögð var í brezka skipið og þess öryggis og
hagræðis, sem í því felst, að skipasmíðastöðin hefur þegar smíðað sams konar
skip. Ítarlegar athuganir höfðu verið gerðar á teikningum og smíðalýsingu
skipsins og voru kallaðir til aðstoðar við það starf margir íslenzkir
sérfræðingar. Ríkissjóður átti kost á allt að 80% af andvirði skipsins að láni
og eru ársvextir 5%. Með hliðsjón af þessu tók ríkisstjórnin ákvörðun um smíði
sildarleitarskipsins í samræmi við tillögur nefndarinnar. Samningar um smíði
skipsins voru síðan undirritaðir hinn 17. maí 1966. Árni Friðriksson RE 100 er
450 rúmlestir, hann er um 41,4 m. langur, 9,7 m. breiður og um 4,6 m. djúpur.
Aðalvélar skipsins eru tvær 498 ha M.A.N. dieselvélar, sem tengdar eru á einn
öxul. Ljósavélar verða einnig tvær. Knýr önnur 125 kw riðstraumsrafal, en hin
28 kw rafal. Auk þess verður 125 kw rafall knúinn af aðalvélum. Skiptiskrúfa er
sænsk af Ka Me Va gerð.
Árni Friðriksson RE 100 eftir breytingarnar árið 1990. Þar var m.a. byggt yfir afturþilfar skipsins, innréttuð ný rannsóknarstofa og skipt um togbúnað. (C) Hafrannsóknarstofnun.
Í vélarúmi er
hljóðeinangraður stjórn-og vinnuklefi, en auk þess er unnt að stjórna vélbúnaði
frá lyftingu. Þar er einnig viðvörunarkerfi. Vélarúmið er allt hljóðeinangrað
og allar vélar, gírkassi, dælur og rafalar eru á gúmmístoðum til að hindra
titring í skipinu. Að utan hefur byrðingur skipsins verið gerður eins sléttur
og kostur er. Hvorki verður ytri kjölur né veltibretti á skipinu. Í þess stað
er svokallaður veltitankur eða geymir, sem nær þvert yfir skipið. Hann er
hálffylltur af sjó og er ætlast til að sjórinn streymi jafnan á móti veltu
skipsins og dragi allt að 50- 60% úr veltunni. Framangreindar ráðstafanir hafa
verið gerðar til að leitarhæfni fiskileitartækjanna komi að sem beztum notum og
góð starfsskilyrði verði fyrir hvers konar nákvæmnisvinnu um borð. Leitartækin
verða af Simrad gerð. Í fyrstu verður aðalfiskritinn venjulegur S. B. Simrad
Sonar (Stóri Simrad), en í ársbyrjun 1968 verður mun stærra leitartæki, sem nú
er hafin smíði á, sett í skipið.
Mars Chaser í Tromsö í Noregi árið 2005. (C) Hildur Pétursdóttir.
Þetta nýja tæki er sérstaklega gert eftir
okkar kröfum og óskum. Auk þeirra tæknilegu ráðstafana, sem þannig hafa verið
gerðar til þess, að skipið geti sem bezt gegnt hlutverki sínu, er það einróma
álit þeirra sem til þekkja að hér sé um mjög gott og traust sjóskip að ræða. Þá
ber að geta þess, að skipið verður útbúið til skuttogs- og hringnótaveiða.
Vindur verða frá Brattvág í Noregi. Tvær rannsóknastofur eru í skipinu, þar sem
aðstaða verður til úrvinnslu nauðsynlegra gagna við síldarleitina o.fl.
Smíðaverð skipsins er um 40 millj. kr. Smíði þess hófst síðla sumars 1966, og
hinn 1. marz s.l. var það sjósett og gefið nafnið Árni Friðriksson, en hann var
fyrsti forstöðumaður Fiskideildar Atvinnudeildar Háskólans og síðar
framkvæmdastjóri Alþjóðahafrannsóknaráðsins í mörg ár. Mesta afrek dr. Árna á
sviði síldarrannsókna má tvímælalaust telja kenningar hans um hinar miklu
síldargöngur milli Íslands og Noregs. Dr. Árni Friðriksson lézt á s.l. hausti.
Skipið var afhent hinn 5. þ.m. og gekk 12,9 sjómílur í reynsluferð.
Ægir. 16 tbl. 15 september 1967.
28.05.2017 09:53
B. v. Hannes ráðherra RE 268. LBCM / TFHC.
B.v. Hannes ráðherra RE 268 að veiðum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Hannes
ráðherra verður fyrir áfalli
Kolin köstuðust úr stjómborðsboxi yfir í bakborða og einnig frammá fýrpláss og skipið fékk mikla slagsíðu til bakborða. Vaktin sem var komin frammi, kom strax upp og afturí og við unnum allir við að færa kolin yfir til stjórnborða. Skipinu var haldið upp í sjó og vind meðan á þessu stóð, því það tók nokkurn tíma að rétta það við. Vegna þess að loftnetið slitnaði frá, vorum við sambandslausir.
B.v. Hannes ráðherra RE 268. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Óveðrið
þegar vitaskipið Elbe 1 fórst
Við hásetarnir vorum látnir hjálpa til við að koma fiskikössum á markaðnum uppá flutningatæki, því þeir bókstaflega flutu upp, slíkur var þrýstingurinn á sjónum upp fljótið. Veðurhæðin var ofsalega mikil og varla stætt í verstu hryðjunum. Hávaðinn í þrumunum var ærandi, engu líkara en björg væru að rifna og bjart sem að degi til, þegar eldingarnar gengu yfir. Loftið var hrikalegt, með æðandi skýjabólstrum og ýmsum litbrigðum. Þessi djöfulgangur lofts og lagar stóð mikinn hluta nætur. Það sorglegasta og um leið eftirminnilegasta er gerðist þessa nótt, var varðandi vitaskipið Elbe 1 sem legið hafði fyrir sínum múrningum og flætt fyrir hinum æðisgengnu brotsjóum er æddu upp fljótið á móti straumi. Að sögn manna á skipum er lónuðu í nánd við Elbe 1, höfðu verið mjög djúpir öldudalir og æðandi brotsjóirnir hvolft sér yfir skipið og sökkt því og Ijós þess þar með horfið sjónum þeirra. Eigi var hægt að koma við neinum björgunaraðgerðum vegna veðurofsa og náttmyrkurs.
Vitaskipið svaraði ekki kalli og þótti þá sýnt hvað orðið var. Daginn eftir var mikill sorgardagur um allt Þýskaland og hjá öllum sjófarendum er notið höfðu þess öryggis er skipið veitti, þar sem Ijós þess sást er skip komu af hafi. Þarna hafði það legið við múrningar og skipverjar unnið sín skyldustörf, svo árum skipti, en nú var það horfið af yfirborði sjávar. Er við fórum niður fljótið daginn eftir, var það sannarlega þögul skipshöfn er horfði á auðan sjóinn þar sem Elbe 1 hafði verið. Slíkar stundir gleymast eigi.
B.v. Hannes ráðherra RE 268 á leið til síldveiða. Mynd úr safni mínu.
Áhöfnin á Hannesi ráðherra RE 268. (C) Arnbjörn Jóhannesson.
B.v. Hannes ráðherra RE 268. Málverk eftir Jón Guðmundsson.
Hannes
ráðherra" strandar við Kjalarnes
Togarinn "Hannes ráðherra" strandaði nokkru eftir
miðnætti í nótt á Músarsundi við Kjalarnes. Var togarinn að koma frá Englandi á
innsiglingu til Reykjavíkur. Togarinn fjekk strax talsamband við
loftskeytastöðina hjer. Skipverjar vissu í upphafi ekki glögglega hvar þeir
voru, hjeldu jafnvel að skipið hefði strandað nálægt Gróttu. Veður var mjög
dimmt. Báðu þeir um að send yrðu skip til þeirra hið fyrsta.
Brátt kom á daginn, að togarinn var við Kjalarnes. Skipstjórinn Guðmundur
Markússon hafði ekki farið með togaranum í þessari Englandsferð. Fjekk hann
talsamband við skipið. Lagði hann svo fyrir, að kynt yrði bál á þilfari
skipsins. Nokkru síðar sást bálið hjerna frá hafnarskrifstofunni. Talsamband
hjelst milli togarans og Loftskeytastöðvarinnar einn hálftíma eftir að togarinn
strandaði. En þá var kominn sjór í vjelarrúm skipsins, svo slökkt var undir
vjelinni, svo ljós sloknuðu og loftskeytasamband þvarr. En nokkru seinna tókst
loftskeytamanni að koma á talsambandi að nýju með batteríum. Meðan þessu fór fram
lagði Sæbjörg af stað á strandstaðinn, og hafnarbáturinn Magni litlu síðar.
Þetta var kl. að ganga tvö. Logn var á strandstaðnum, er skipin komu, en
talsverð alda. Eigi var talið að skipverjar á Hannesi ráðherra væru í neinni
lífshættu. Frá Brautarholti á Kjalarnesi var símað í nótt, nokkru eftir að
togarinn strandaði. Var sagt þaðan, að hann væri um 500 metra frá landi um
háflóð. Flóð var kl. 2. Jón Bergsveinsson og Guðmundur Markússon skipstjóri
fóru landveg á strandstaðinn með björgunartæki á vörubíl, línubyssu og annað,
til þess að vera þar viðbúnir, ef þess þyrfti með, að taka mennina í land í
björgunarstól.
Kl. 3.30 átti blaðið tal við Ólaf Bjarnason í Brautarholti. Logn var þar þá, en
þung alda. Sagði hann, að togarinn myndi vera 500 metra frá landi. En þegar
væri hálffallið út, um kl. 6 f. h., yrði hægt að komast út á klett, sem ekki
væri nema 2-300 metra frá skipinu. Fyrir þann tíma verður björgunarsveitin með
línubyssuna komin uppeftir. Magni sneri við aftur vegna þoku, en Sæbjörg er
nálægt togaranum og hefir talsamband við hann. Fullvissa skipverjar á Hannesi
ráðherra skipverja á Sæbjörgu um það, að engin lífshætta sje á ferðum.
Klukkan 4.45 voru allir skipverjar af Hannesi ráðherra komnir um borð í
Sæbjörgu. Þótti ekki ráðlegt að vera lengur í togaranum. Því fóru þeir í
björgunarbát frá Hannesi ráðherra út í Sæbjörgu. Voru farnar tvær ferðir. Í
fyrra skifti komu þeir til Sæbjargar kl. 4. Skiluðu þá af sjer 8 togaramönnum.
4 reru til baka í togarann. 14 fóru síðan í björgunarbátnum. Allir sluppu
heilir á húfi í björgunarskútuna, að því er blaðið frjetti síðast. Ægir fór
hjeðan kl. 4 í nótt á strandstaðinn, til þess að athuga um björgun á togaranum.
Um horfur á því er blaðinu ekki kunnugt
Morgunblaðið. 14 febrúar 1939.
27.05.2017 08:44
B. v. Goðanes NK 105 í hrakningum.
Björgun
togarans "Goðaness"
Mánudaginn 23. janúar 1950. Varðskipið Ægir var statt við
Vestmannaeyjar. Kl. 04,00 var haldið vestur um fyrir Reykjanes. Veður: VSV 8
stórsjór. Kl. 12,00 var varðskipið satt 10 sjómílur SA af Reykjanesi. Veður þá:
V 7 mikill sjór. Heyrðist þá, að togarinn Goðanes var að tilkynna, að hann væri
með bilað stýri, ca. 10 mílur SA af Stokksnesi, og þyrfti hjálp. Mjög illt var
að komast í samband við hann, vegna lofttruflana, er munu hafa stafað af
éljaveðri. Fyrst var athugað, hvort nokkur skip væru nálægt Goðanesi, er gætu
veitt því hjálp, en það reyndist ekki neitt. Var þá Goðanesi boðin hjálp, og
kl. 12,47 var haldið með fullri ferð austur um í áttina að Goðanesi. Siglt var
sem leið liggur austur með landi. Þriðjudaginn hinn 24. Kl. 08,30 var komið að Goðanesi,
er var á reki 14,5 sjóm. í réttv. 105° frá Stokksnesi. Var þá strax settur í
togarann vír, 4,5" sver, og honum lásað í stjórnborðskeðju togarans og
gefið út 60 metrar af keðjunni og 240 metrar af vírnum, og haldið af stað kl.
09,10 með togarann í eftirdragi, var þá gott veður.
Þess skal getið, að þótt
stýri togarans væri brotið, var það hart í stjórnborða og varð ekki hreyft
þaðan. Þess vegna vildi togarinn rása mikið til stjórnborðshliðar, og var þar
af leiðandi erfiður í drætti. Kl. 10,00 fór að vinda aftur af vestri, og á
hádegi kominn V 7, sjór tilsvarandi. Stefnan var sett 12 mílur undan
Ingólfshöfða. Kl. 16,40 var bætt við vírinn ca. 100 metrum og gefið út 30 metra
af keðju togarans í viðbót. Um kl. 20,00 gekk vindur til SSV með éljaveðri. Ekki
var hægt að hafa úti vegmæli, línan fór á vírinn, vegna þess hvað togarinn
rásaði mikið. Kl. 20,35 var farið framhjá Ingólfshöfða í 10,7 sjómílna
fjarlægð. Var þá vindur SSV 6, sjór tilsvarandi og éljaveður. Miðvikudaginn
hinn 25. Kl. 00,17 varð að stöðva vegna smábilunar á Ægi. Vildu þá skipin
dragast saman, vegna þunga vírsins er lagðist í botn, voru þá bæði skipin í
nokkurri hættu. Kl. 00,40 var búið að leysa úr sambandi, einn bullustrokkinn,
er bilunin var í, var þá hægt að halda áfram með minnkaðri ferð. Kl. 01,16 var
viðgerð lokið. Var þá stoppað aftur meðan strokkurinn var settur í samband. Kl.
01,28 var viðgerð lokið og haldið áfram. Frá Ingólfshöfða var stefnan sett 20
mílur undan Mýrartanga, sama undan Dyrhólaey, síðan 15 mílur undan Geirfuglaskeri
út af Vestmannaeyjum.
Vindur fór vaxandi af SSV, einnig sjór. Kl. 16,00 var
vindur orðinn 10 vindstig, og hélst það, sem eftir var dagsins. Kl. 20,00 gekk
vindur í S með sama ofsa. Fimmtudaginn hinn 26. Sama veður S 10. Kl. 05,00 gekk
vindur í SA með sama veðurofsa og dimmviðri og stórsjó. Var þá ratsjá skipsins
biluð, en bergmálstækið lóðaði sama og ekkert vegna sjógangs. Vegmælir var ekki
í gangi, þar eð línan fór strax í dráttarvírinn, en Goðanes hafði vegmæli úti.
Um kl. 09,00 var farið framhjá Reykjanesi, til lands sást þó ekki vegna
roksins. Kl. 10,00 var komið fárviðri. Kl. 11,00 slitnaði dráttarvírinn. Voru
skipin þá út af Hafnarleir. Voru þá strax vírslítrin dregin inn, nýr vír, 200
faðma langur og 5" sver, tekinn upp úr geymslurúmi, síðan lagt að Goðinesi
aftur, línu skotið yfir, og síðan fest í Goðanes eins og áður. Kl. 12,30 var
þessu öllu lokið og haldið af stað. Kl. 15,00 var farið framhjá Garðskaga, var
vindur þá S 11. Kl. 19,05 var varpað akkeri á Reykjavíkurytrihöfn, var þá
vindur S 7. Tveir dráttarbátar drógu Goðanes inn að bryggju, og þar með var
björguninni lokið.
Útdráttur úr dagbók varðskipsins Ægis.
Eiríkur Kristófersson skipherra.
Ægir. 1 tbl. 1 janúar 1951.
25.05.2017 18:21
Sævar NK 88.
Sævar NK 88 var smíðaður á Borgundarhólmi í Danmörku árið 1907. Eik og fura. 13 brl. 15 ha. Bolinder vél. Hét Hjálparinn ÁR 107 og eigandi hans var Einarshafnarverslun á Eyrarbakka frá árinu 1917. Báturinn var seldur árið 1919, Lárusi Halldórssyni, Bryngeiri Torfasyni og Guðmundi Gíslasyni í Vestmannaeyjum, hét Hjálparinn VE 232. Ný vél (1923) 30 ha. Alpha vél. Ný vél (1931) 30 ha. Bolinder vél. Árið 1937 var Bryngeir Torfason einn eigandi bátsins. Seldur 5 október 1939, Guðjóni Runólfssyni, Sigurði Ólafssyni og Þorsteini Jónssyni í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Seldur 21 júlí 1941, Ragnari Péturssyni útgerðarmanni og fyrrv. bæjarstjóra í Neskaupstað, báturinn hét Sævar NK 88. Báturinn var seldur til Færeyja 7 júlí árið 1945.
22.05.2017 06:32
Vonin EA 19. LBDK / TFRJ.
Vonin EA 19 var smíðuð í Rudköbing í Danmörku árið 1885 sem
skonnorta. Eik. 27 brl. Eigendur voru
Kristinn Havsteen, Guðmundur Jónsson og Eggert Snorrason, á Siglufirði,
frá 2. marz 1885. Bjarni Einarsson bátasmiður á Akureyri, eignaðist bátinn
sennilega á árinu 1924-25, en þá var báturinn endurbyggður og stækkaður á
Akureyri. Einnig var sett í hann 76 ha. Hera vél, árgerð 1925. Mældist eftir
það 38 brl. Seldur 8. desember 1937 Þorsteini Jónssyni og Sigurði P. Jónssyni á
Dalvík og Þorsteini Antonssyni, Efstakoti og Árna Antonssyni Kvíum í Eyjafirði, báturinn hét Vonin EA 119. Ný vél
(1938) 90 ha. June Munktell vél. Seldur 20. nóvember 1940 Ragnari Bjarnasyni í
Sandgerði og Stefán Franklín í Keflavík, báturinn hét Björn ll GK 397. Báturinn
var lengdur 1941 og mældist þá 46 brl. Báturinn sökk í Faxaflóa eftir að mikill
leki kom að honum 12 febrúar árið 1944. Áhöfnin, 5 menn, bjargaðist um borð í
vélbátinn Fylki MB 6 frá Akranesi.
Vonin EA 19. (C) Hallgrímur Einarsson.
Hákarlaskip á Oddeyrartanga á Akureyri. Vonin er fremst á myndinni. Ljósmyndari óþekktur.
Hákarlaskipið
Vonin
Hákarlaskipið Vonin var smíðuð í Danmörku veturinn 1885-86. Létu þeir smíða hana Christian (Kristinn) Havsteen, þáverandi verslunarstjóri á Siglufirði, Eggert Snorrason og Guðmundur Jónsson, sem lengi var skipstjóri hennar, alkunnur sjómaður og aflamaður. Drukknaði hann síðar (1901) niður um ís á Eyjafirði. Guðmundur var utanlands, meðan Vonin var smíðuð, og sigldi henni upp snemma um vorið. Vonin var smíðuð úr eik, mjög sterk og ágætt sjóskip, enda hefur hún margann garðinn þolað. Hún var upphaflega með skonnortusiglingu, og þá að stærð 26,8 brúttólestir, en hefur nú verið lengd og siglingu hennar breytt í kútter og sett í hana gangvél.
Vonin lenti í miklum hrakningum í aprílmánuði árið 1891. Þá hraktist skipið austur um land, náði landi á Seyðisfirði. Hrakningarnir stóðu í nærfellt 6 vikur og fór Vonin hringinn umhverfis landið.
Frásögn Kristins Ásgrímssonar skipverja á Voninni. Skútuöldin lV bindi.
Björn ll GK
397 sekkur
Mannbjörg
M.b. Björn II. G. K. 397 hafði róið með öðrum Akranesbátun.
Skipstjóri á honum var Kristinn Jónsson, góðkunnur aflamaður, áður skipstjóri á
m.b. Hermóði. Morgunblaðið náði tali af Kristni seint í gærkvöldi. Hann skýrði
svo frá : Um kl. 9 í gærmorgun (laugardag) fórum við að draga línuna, en urðum
að yfirgefa hana kl. 12. Ljet jeg því skera á línuna og vorum við þá búnir að
draga 16 bjóð af 28. Vorum við þá staddir um 18 sjómílur NV frá Akranesi.
Einnig voru þar bátarnir Fylkir, Hrefna, Sigurfari og Ásbjörn, allir frá
Akranesi. Vegna særoks sást ekki nema örskammt frá skipunum. Samt tókst okkur
að halda hópinn í ca. 1/2 klukkustund. Hjeldum við upp í vindinn í SA og SSA
til þess að forðast Mýrarnar. Um kl. 1.30 var grunnbrot framundan. Var þá snúið
upp og var dýpið 18 fm.
Hjeldum við og hinir bátarnir á hægri ferð upp í V og SV
og var lóðað af og til og dýpi sama og grunnbrot ekki langt frá. Um kl. 2.30
kom óstöðvandi leki að Birni II. Dælan hafði ekki við og þótt tveir hásetar
færu í lífaustur, hafðist ekkert við lekanum. Þegar hjer var komið hafði jeg misst
sjónar af hinum bátunum, nema m.b. Fylki. Gat jeg gefið skipstjóranum, Njáli
Þórðarsyni, merki um að tala við mig í talstöðina og ljet hann vita í henni,
hvernig komið væri. Giska jeg á, að þessir snúningar hafi tekið um 10 mínútur.
Á meðan hafði sjórinn í lúkarnum hækkað um einn meter og var hann kominn á móts
við efri kojur í lúkarnum, þegar jeg kom til baka. Sjór var einnig kominn í
vjelarúm, en vjelin í gangi. Bað jeg skipstjórann á m.b. Fylki að koma strax
til hjálpar, meðan vjelin í Birni hjeldist í gangi og hægt væri að hafa nokkra
stjórn á bátnum. Settum við allir á okkur björgunarbelti, þar sem báturinn var
kominn að því að sökkva.
Andæfðu báðir bátarnir. Kom Fylkir strax til hjálpar. Helti hann olíu í sjóinn
til þess að lægja öldurnar. Lagði hann upp með m.b. Birni II. að aftan á
hljeborða. Hentum við til hans kastlínu og drógum til okkar línu, sem hann
hafði útbúið og bundum við hana undir hendurnar á einum skipverja, sem var
dreginn á línunni yfir í m.b. Fylki, en við drógum línuna aftur til baka á
snæri, sem fest var í hana. Var bilið á milli bátanna þá 10-15 faðmar. Var
okkur fimm, sem vorum á Birni II., bjargað þannig yfir í Fylki og "höfðum
við björgunarbeltin spent um okkur og munum hafa verið um mínútu í sjónum hver
okkar. Mun kl. hafa verið um 2,40, þegar björgunin hófst, og eftir hálftíma
vorum við allir komnir um borð í m.b. Fylki. Stöðvaðist vjelin í m.b. Birni II
til fulls í þessum svifum og eftir ca. 10 mínútur maraði hann í kafi fyrir
flötu og braut á honum. Ef við á m.b. Birni II. hefðum ekki fengið svo skjóta
og góða hjálp frá Njáli Þórðarsyni skipstjóra og skipshöfn hans á m.b. Fylki,
væri jeg ekki hjer í símanum til frásagnar, því hjer mátti engu muna. Bið jeg
Morgunblaðið að færa Njáli og skipverjum hans fyrir mína hönd og skipverja
minna, innilegustu þakkir fyrir björgunina.
Morgunblaðið. 13 febrúar 1944.
21.05.2017 09:15
2917. Sólberg ÓF 1. TFYY.
Nýr
frystitogari útgerðarfyrirtækisins Ramma í Fjallabyggð kom til hafnar á
Siglufirði á hádegi í dag. Skipið var smíðað í Tyrklandi og var kaupverðið
rúmlega fimm milljarðar króna.
Frystitogarinn, sem hefur fengið nafnið Sólberg ÓF-1, mun leysa tvo eldri
frystitogara af hólmi, Sigurbjörgu og Mánaberg, sem hafa þjónað útgerðinni svo
áratugum skiptir. "Við erum að endurnýja gömul skip með nýju og mjög fullkomnu
skipi. Við ætlum að minnka eldsneytisnotkun frá því sem var og auka
aflaverðmæti með því að vinna afurðir sem ekki hafa áður verið unnar úti á
sjó," segir Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma.
Tvær áhafnir verða á skipinu og 34 einstaklingar manna hvora áhöfn. Það
eru talsvert færri sjómenn en voru samtals á Sigurbjörgu og Mánabergi. Þá
er Sólberg útbúinn nýjustu tækni í veiðum og vinnslu sem kallar á minna
vinnuafl um borð. Ólafur segir því að nokkrir hafi misst vinnuna í
breytingunum, en sömuleiðis hafi verið nokkuð um tilfærslur innan áhafnarinnar,
með fækkun yfirmanna.
ruv.is
19 maí 2017.
20.05.2017 10:32
735. Karmöy ÍS 526.
Upphaf
rækjuveiða og rækjuvinnslu
Veiðin gekk vel, en ekki reyndist nokkur leið að selja rækjuna, svo að félagarnir snéru sér að öðrum verkefnum. Fjórum árum seinna gerði Sveinn Sveinsson frá Felli tilraun til rækjuveiða, en hún bar lítinn árangur. Árið 1934 gerðu þeir Símon Olsen og Syre svo aðra tilraun sína. Sláturfélag Suðurlands tók þá af þeim ópillaða rækju og hafði til sölu í matardeild félagsins í Hafnarstræti í Reykjavík. En áhugi kaupenda á Íslandi reyndist ennþá takmarkaður. Árið eftir fóru þeir svo að reyna fyrir sér með útflutning í huga, eins og áður sagði. Þeir félagar áttu báðir eftir að koma mikið við sögu þessarar nýju atvinnugreinar á Ísafirði.
Heimild: Frá línuveiðum til togveiða. Jón Páll Halldórsson 1999.
Rækjuverksmiðjan
á Ísafirði
Sumarið 1935 byrjuðu tveir Norðmenn á Ísafirði að veiða
rækjur og öfluðu þeir ágætlega. Þá um sumarið var selt lítilsháttar af ísuðum
rækjum til Englands, en þær líkuðu ekki og var því ekki um frekari sölu að
ræða. Síðan hefir, að minnsta kosti þrívegis, verið reynt til að koma ísuðum
rækjum á markað í Englandi, en farið á sömu lund og áður. Talið er að þær
rækjur, sem til þessa hafa veiðzt vestra, séu of litlar, til þess að senda þær
ferskar á Lundúnamarkaðinn. Síðari hlula sumars 1935, þótti það þegar sýnt, að
svo mikið væri um rækjur í Ísafjarðardjúpi, að þeirra hluta vegna væri
tiltækilegt að reisa niðursuðuverksmiðju, er gerði þær að markaðshæfri og
seljanlegri vöru. Snemma vetrar, þetta sama ár, var svo hafinn undirbúningur að
því að verksmiðjan yrði reist. Um miðjan júni 1936 var verksmiðjan komin upp og
tók þá þegar til starfa. Ísafjarðarkaupstaður reisti verksmiðjuna með tilstyrk
Fiskimálanefndar.
Ekkert op var á pokanum til losunar, heldur var rækjan háfuð úr pokanum með handháf. Feðgarnir Kristján og Símon Ólsen að háfa rækju úr nótinni. Ljósmyndari óþekktur.
Þorvaldur Guðmundsson var ráðinn til þess að veita verksmiðjunni forstöðu.
Snemma á árinu 1935 sigldi Þorvaldur til Danmerkur og Þýzkalands, til þess að
kynna sér ýmiskonar niðursuðu. Dvaldi hann aðallega í niðursuðuverksmiðjum og
rannsóknarstofum, er snertu þessa grein framleiðslunnar. Í þessari sömu ferð
fór hann og einnig til Noregs og athugaði þar margar verksmiðjur. Í fyrstu
eftir að rækjuverksmiðjan tók til starfa stundaði aðeins einn bátur
rækjuveiðar, Karmöy, en þeim fjölgaði brátt upp í 7 og voru þeir allir við
veiðar fram á haust, en þá fækkaði þeim aftur og hafa ekki verið nema þrír og
fjórir í vetur. Veiðin hefir yfirleitt gengið ágætlega og mikla betur en menn
bjuggust við í upphafi. Mestur afli, sem komið hefir á einn bát á dag er um
1400 kg. Til samanburðar má geta þess, að í Danmörku er það talin góð veiði, ef
bátur fær 100 -200 kg á dag.
Ægir. 30 árg. 1 mars 1937.
Toggálginn á Karmöy. Ljósmyndari óþekktur.
Báts er
saknað í Ísafjarðardjúpi
Feðgar eru á
bátnum
Rækjuveiðabátsins Karmöy frá Ísafirði er saknað frá því í
gær. Haldið hefur verið uppi leit að bátnum á sjó og landi í dag, en án
árangurs. Á bátnum eru tveir menn , feðgar, Símon Olsen og Kristján sonur hans.
Karmöy, sem er 8 tonn að stærð fór frá Ísafjarðardjúpi
í gærmorgun og veiddi í Mjóafirði. Veður var allhvasst af NA. Er báturinn kom
ekki að landi á tilskildum tíma í gær, var reynt að hafa talsamband við hann,
en það tókst ekki. Var þá hafin leit að bátnum. Snemma í morgun fór vélbáturinn
Hrönn frá Ísafirði út að leita hans. Sigldi Hrönn um allt Ísafjarðardjúp og inn
í alla firði, en skipverjar urðu einskis varir. Símasaband var haft við alla
bæi í djúpinu, sem símasamband er við, og fólk beðið um að skyggnast eftir
Karmöy. Fyrir hádegi í dag fór flokkur manna frá Ísafirði inn í Djúp, til að
ganga á fjörur, þar sem engin byggð er nærri, en þegar síðast fréttist höfðu
þeir ekki heldur orðið varir við nokkuð, sem bent gæti til afdrifa bátsins og
mannanna tveggja. Veður er mjög slæmt til leitar. NA stormur og dimmviðri.
Síðustu fréttir Seint í gærkvöldi fregnaði mbl að fundizt hefðu snemma í
gærmorgun rækjukassar í Þernuvík, sem ugglaust væri talið að væru af Karmöy.
Morgunblaðið. 27 september 1961.
Feðgarnir á
"Karmöy" taldir af
Fullvíst er nú talið, að rækjuveiðabáturinn Karmöy frá
Ísafirði hafi farizt og með honum tveir menn, feðgarnir Simon og Kristján
Ragnar Olsen. Eins og skýrt var frá í blaðinu í gær, fór báturinn til veiða á
mánudagsmorgun í og út af Mjóafirði. Veður var vont, og þegar báturinn kom ekki
fram um kvöldið, var hafin leit og leitað alla nóttina. Á þriðjudagskvöld
fundust svo hlutir í Þernuvík, utarlega í Mjóafirði, og grennd, sem eru
ugglaust úr Karmöy. Þar á meðal má nefna rækjukassa, hluta af lúkarkappa,
lestarhlera og reimuð stígvél.
Í gær var lítt sem ekkert hægt að leita á fjörum
vegna veðurs, en ekki er talið, að mennirnir séu lengur á lífi. Simon Olsen var
63 ára að aldri, ættaður frá eynni Körmt (Karmöy) í Noregi. Hann ásamt öðrum
Norðmanni var upphafsmaður rækjuveiða hér við land og því höfundur merkilegs
kafla í atvinnusögu Íslands. Hann lætur eftir sig konu og 2 uppkomin börn.
Kristján Ragnar, sonur hans, var 23 ára gamall. Hann lætur eftir sig konu og
barn á fyrsta ári.
Morgunblaðið. 28 september 1961.
18.05.2017 20:27
Bátar á Norðfirði í vetrarskrúða.
17.05.2017 06:20
B. v. Kaldbakur EA 1. TFBC.
Kaldbakur EA
1
Laust fyrir klukkan 5 e. h. sl. laugardag sigldi hinn nýi
togari Útgerðarfélags Akureyringa h.f. "Kaldbakur" hér inn á höfnina, og
lagðist litlu síðar á ytri Torfunefsbryggju. Hér var skipinu fagnað hið bezta.
Skip í höfninni og hús í bænum voru fánum prýdd, og mikill mannfjöldi safnaðist
saman niður við höfnina til þess að sjá hið nýja skip og taka þátt í
móttökuathöfninni.
Með skipinu kom frá Reykjavík framkvæmdastjóri Útgerðarfélagsins, Guðmundur
Guðmundsson, en stjórnarnefndarmenn og forseti bæjarstjórnar héldu strax um
borð, og þaðan ávarpaði Þorsteinn M. Jónsson mannfjöldann og skipsmenn og bauð
skipið velkomið.
Guðmundur Guðmundsson lýsti skipinu. Samkvæmt frásögn hans er Kaldbakur 175
feta langur, 30 fet á breidd og 16 fet á dýpt. Hann er 642 brúttó rúmlestir og
216 nettó lestir. Burðarmagn hans er 500 smálestir, með 81 cm. borð fyrir báru.
Bolurinn er hólfaður sundur með 7 vatnsþéttum skilrúmum, en alls eru í skipinu
20 vatnsþétt hólf. Botn þess er tvöfaldur frá vélarrúmi og fram úr og skiptist
í geyma fyrir olíu, vatn og lýsi. Eru
vatnsgeymar fyrir 60 smálestir, olíugeymar fyrir 245 smálestir og lýsisgeymar
fyrir 20 smáIestir. Framrúmi er skipt í tvö fiskirúm, en þeim aftur í 12 stíur,
sem hver er útbúin með 4 hillum. Rúmar skipið þannig 300 smálestir af ísfiski.
Fyrir framan fiskirúmið er stór veiðarfærageymsla með skápum og hillum. Íbúðir
skipverja eru í stafni, eru íbúðir í tveimur hæðum fyrir 24 menn alls. Eru þar
rúmgóðir svefnsalir og setustofa, snyrting o. fl. Hverri hvílu fylgir klæðaskápur
og fleiri þægindi. Í skut eru einnig íbúðir á tveimur hæðum fyrir yfirmenn og
vélamenn. Eru herbergi öll útbúin með hvílum, stoppuðum og klæddum legubekkjum,
borðum og skápum, en þiljur allar úr gljáðum við. Þarna er einnig matsalur
skipverja, rúmgóður og vistlegur, snyrtiherbergi o. fl. Fyrir framan borðsalinn
er rúmgott eldhús með olíukyntri eldavél.
Undir stjórnpalli er íbúð skipstjóra,
mjög rúmgóð og vel búin öllum þægindum. Skipið hefir 1390 hestafla gufuvél, sem
keyrir það áfram með 13 mílna hraða á klst. Vél þessi, ásamt hjálparvélum, eru
þær fullkomnustu er nú þekkjast og eru brezk framleiðsla, eins og allt annað um
borð að undanteknum loftskeytatækjum, sem keypt eru hjá þekktu dönsku
fyrirtæki. Ný tegund vökvastýrisvélar er tengd beint við stýrið og er virk frá
stýrishúsi. Er þetta mikil endurbót. Togvinda skipsins er eimknúin og er hún 300 hestafla og tekur
1200 faðma af 3 þumlunga vír. Þá eru í skipinu 2 diesel vélar, hvor 120
hestöfl, með átengdum rafal fyrir 80 kw, sem framleiðir alla raforku fyrir
aukavélar og til Ijósa. Að loknum ræðum hyllti mannfjöldinn skipið og
skipshöfnina með húrrahrópum.
Lúðrasveit Akureyrar lék nokkur lög á undan og eftir. Um kvöldið hafði
Útgerðarfélagið boð inni fyrir skipshöfn, blaðamenn og fleiri. Voru þar margar
ræður fluttar. Helgi Pálsson, formaður Útgerðarfélagsins, lýsti sögu
togarakaupanna og þakkaði þeim, er höfðu lagt málinu lið. Aðrir ræðumenn voru:
Þorsteinn Stefánsson, settur bæjarstjóri, Jakob Frímannsson, framkvæmdastjóri,
Þorsteinn M. Jónsson, forseti bæjarstjórnar, Jón Ingimarsson og Friðgeir Berg,
sem flutti skipinu fagra kveðju í ljóðum.
Sæmundur Auðunsson skipstjóri þakkaði allan vinarhug í garð
skipshafnarinnar. Daginn eftir var blaðamönnum boðið að ganga um skipið undir
leiðsögn framkvæmdastjóra félagsins og skipstjórans. Virðist vinna öll og
útbúnaður vera vandaður og smekklegur og skipið allt hið glæsilegasta hvar sem
á það er litið. Mikill mannfjöldi skoðaði skipið á sunnudaginn og luku alllir
upp einum munni um að allt virtist þar vel úr garði gert og með miklum nýtízku
brag. Skipið fer væntanlega á veiðar í þessari viku. Áhöfn er 33 menn.
Skipstjóri er Sæmundur Auðunsson, ungur maður og rösklegur, 1. vélstjóri er
Henry Olsen, en 1. stýrimaður Þorsteinn Auðunsson. Að undanteknum þessum yfirmönnum,
bátsmanni og netamönnum, er áhöfnin héðan úr bænum.
Dagur. 21 maí 1947.
15.05.2017 06:27
745. Gunnbjörn ÍS 18. TFGH.
Gunnbjörn ÍS
kominn
M.b. Gunnbjörn kom hingað á miðvikudagsmorgun eftir fjögurra
sólarhringa ferð frá Færeyjum. Þangað var hann þrjá sólarhringa frá Svíþjóð. Í
Norðursjónum hreppti hann fárviðri, en allt gekk slysalaust. Eru nú bátar
samvinnufelagsmanna orðnir 7.
Skutull. 16 desember 1929.
Samvinnufélag
Ísfirðinga Ísafirði
Samvinnufélag Ísfirðinga tók til starfa nú um áramótin.
Félagið var formlega stofnað og lög þess samþykt i árslok 1927. Var síðan sótt
til Alþingis um að ríkisstjórninni heimilaðist, að ábyrgjast allt að 4/5
kaupverðs báts hvers, er félagið hafði sett sér að markmiði að útvega
félagsmönnum. Ábyrgðarheimild sú, er Alþingi samþykti í þessu skyni, nam allt
að 320 þús. kr. Jafnfram var áskilið, að Ísafjarðarkaupstaður væri á undan
ríkissjóði í nefndri ábyrgð, svo og að sjálfsögðu eigendur hvers skips, og að lokum
skipin sjálf með 1. veðrétti. Eigendur hafa lagt til 1/5 hluta kaupverðs, svo
ábyrgðin er ekki nema fyrir 4/5 verðsins, eins og áður segir. Bátarnir, sem
keyptir hafa verið eru 5, smíðaðir í Risör í Noregi, með Elve vélum. Bátarnir
komu hingað um og eftir áramótin. Þeir eru rúmlega 40 smálestir með 90 hesta
vélum, lagleg skip og rúmgóð.
Þeir heita Ásbjörn, Ísbjörn, Sæbjörn, Valbjörn og
Vébjörn. Eigendur bátanna eru fyrst og fremst skipstjórar þeirra, hvors um sig,
og fleiri og færri menn í félagi með þeim. Hvert bátsfélag er sérstök og
sjálfstæð deild innan Samvinnufélagsins, þannig að hvert bátsfélag ábyrgist
einungis skuldbindingar sínar, nema að því leyti sem viðskiftin við
Samvinnufélagið snertir. Bátarnir hafa reynst nokkuð dýrari en áætlað var í fyrstu,
en ekki svo að ábyrgðarheimild Alþingis sé tæmd með þessum 5 bátum. Býst ég
ekki við að aukið verði við fleiri bátum fyrst um sinn. Aðallánin til
bátskaupanna eru fengin erlendis með góðum lánskjörum. Því hefir verið fleygt,
að Alþingi hafi sýnt gáleysi með nefndri ábyrgð. En þegar þess er gætt að
Ísafjarðarkaupstaður, eigendur skipanna, auk 1. veðréttar í skipunum, ganga á
undan ábyrgð ríkissjóðs, þá verður ekki með sanngirni sagt, að Alþingi hafi
sýnt óvarkárni í þessu efni. Að öðru leyti verður reynslan og framtíðin að sýna
hvernig þessu reiðir af. Kreppur og erfið ár geta öllu grandað, þótt í
aðalatriðum sé stefnt í rétta átt.
Ísafirði, 19. janúar 1929. Kristján Jónsson frá Garðsstöðum.
Ægir. 19 janúar 1929.
14.05.2017 10:13
Hólmsteinn ÍS 155.
Nýr vélbátur
Í þessari viku hljóp af stokkunum í skipasmíðastöð
Marselíusar Bernharðssonar hér á Ísaflrði nýr vélbátur, Hólmsteinn að nafni,
14,03 smálestir. Báturinn er úr eik og með sama lagi og Ðísirnar og Páll
Pálsson frá Hnífsdal. Í bátnum er ensk vélartegund, og heitir hún Kelvin.
Eigandi þessa báts er nýtt hlutafélag á Þingeyri í Dýraflrði. Það heitir
Kaldbakur. Í stjórn þess eru Edvard Proppé, Matthías Guðmundsson
vélaverkfræðingur og Óskar Jóhannesson hreppstjóri, sem gekkst fyrir stofnun
félagsins og er formaður stjórnarinnar. Skipstjóri á bátnum verður Björn
Jónsson frá Þingeyri, Jóhannssonar.
Báturinn er heitinn eftir Jóni Hólmsteini
Guðmundssyni, lengi bónda á Granda í Brekkudal, föður Guðmundar, sem nú er
skipstjóri á e. s. Eddu. Jón Hólmsteinn var lengi skipstjóri á seglskipum frá
Þingeyri, aflamaður í bezta lagi og stjórnandi ágætur. Hann var. lengst
skipstjóri á skonnortunni Phönix, sem áður hét Rósamunda, en það skip hafði
einkennisbókstafína ÍS 155, og
hefir Hólmsteinn hlotið þá í arf. Hólmsteinn er hin fríðasta og vandaðasta
fleyta, og er þess að vænta, að honum fylgi gæfa og gengi svo sem nafna hans
Jóni Hólmsteini. Færi betur, að Dýrflrðingar gætu sem fyrst bætt við sig svo
sem tveimur, þremur bátum af svipaðri stærð og þessi er og ekki síður vönduðum
að allri gerð.
Skutull. 16 nóvember 1940.
Óttast um
bát með 4 mönnum
"Vjelbáturinn "Hólmsteinn", 14 smálestir að stærð,
réri frá Þingeyri s.l. föstudag, en hefir ekki komið fram síðan, og er farið að
óttast um afdrif bátsins og fjögra manna, sem á honum voru. Veður var hið besta
fyrir Vesturlandi þangað til í gær, að nokkuð hvesti og komst vindurinn upp í
6-7 vindstig, og er því næsta óskiljanlegt, hvað orðið hefir að hjá bátnum.
Vjelbátur frá Þingeyri fór að leita ,,Hólmsteins" á hvítasunnudag. Fundu
bátverjar 6 bjóð af lóð ,,Hólmsteins", en hann var alls með 14 bjóð.
Slysavarnafjelagið hefir beðið skip að svipast um eftir bátnum, en hann hefir
ekki fundist. Flugvjelin Haförnin ætlaði kl. 3 í nótt til að leita bátsins.
Morgunblaðið. 4 júní 1941.
Hólmsteinn
ÍS 155 skotinn niður
Föstudaginn 30.maí
1941 fór Hólmsteinn í hefðbundinn róður út af Vestfjörðum. Um borð
voru fjórir þaulvanir sjómenn og veður hið ákjósanlegasta til fiskveiða á
miðunum vestur af Dýrafirði. Síðan spurðist ekkert til Hólmsteins né
áhafnarinnar og í landi var fólk farið að óttast um hann. Bátur var þá sendur
frá Þingeyri til leitar ásamt varðskipinu Óðni. Einnig leitaði flugvél (Haförninn) á
stóru svæði, en ekkert fannst nema 6 bjóð. Þann 5 júní fann síðan
vélbáturinn Kveldúlfur frá Hnífsdal tvo tóma lóðastampa (hálftunnur)
um 28 sjómílur NV af Deild.(beint út af Dýrafirði) og talið var víst að
lóðastamparnir væru frá Hólmsteini komnir.
Það vakti athygli manna að lóðastamparnir frá Hólmsteini vor með kúlnagötum,
auk þess sem í þeim fannst sprengjubrot sem benti til þess að skipverjar á
Hólmsteini hefðu lent í skothríð. Það var hald manna að Hólmsteinn hafi óvart
lent á átakasvæði Þýskra og Breskra herskipa sem börðust nú um yfirráðin yfir
Atlantshafi.
Hólmsteinn hafði verið við fiskveiðar út af Dýrafirði í sæmilegu veðri
þegar Walter Kell foringi á kafbátnum U-204 varð var við
Vb.Hólmstein. Um kl 5:15 um morguninn (31.maí) kom kafbáturinn úr kafi og réðst
á fiskibátinn fyrirvaralaust með vélbyssu og sökkti honum. Stóð árásin í um
klukkustund. Í árásinni fórust einnig skipverjarnir fjórir.
Hólmsteinn var fyrsta fórnarlamb Walter Kell á kafbátnum U-204. Erfitt
er að glöggva sig á hvað Walter gekk til með að ráðast á svo lítilfjörlega bráð
sem augljóslega hafði engan tilgang og hafði í raun ekkert með gang styrjaldarinnar
að gera. Hinsvegar höfðu þjóðverjar lýst því yfir að N-Atlantshafið væri
ófriðarsvæði og að öll skip og bátar sem þar færu um væru lögmæt skotmörk.
Skipverjar á Hólmsteini voru:
Ásgeir Sigurðsson formaður frá Bolungarvík, Níels
Guðmundsson, Helgi Jóhannsson og Guðmundur Kristjánsson, allir
frá Þingeyri.
Vélbáturinn Hólmsteinn ÍS 155 var 14 tonna eikarbátur, gerður út
frá Þingeyri vorið 1941. Eigandi var Kaldbakur hf.
Walter Kell var fæddur 14.desember 1913. Hann fórst með kafbátnum U-204 þann 19
oktober 1941 þegar honum var sökkt af korvettunni HMS Mallow.
Sagnabrunnurinn. 10 júlí 2010.
13.05.2017 10:34
B. v. Glaður RE 248. LCJV.
Togarinn
"Leiknir" strandar við Kúðaós.
Mannbjörg
Fyrir fáum dögum barst hingað sú fregn, að togarinn
»Leiknir« frá Patreksfirði hefði hefði strandað við Kúðaós, fram af Álftaveri.
Fregn þessi hafði borist með loftskeyti frá togaranum, og hafði Loftskeytastöðin
í Reykjavik náð fregninni. Var sýslumanninum í Skaftafellssýslu þegar tilkynnt um
strandið, en hann gerði ráðstafanir til þess, að Álftveringar færu á
strandstaðinn. Þeir voru komnir á strandstaðinn kl. 9-10 . Loftskeytastöðin hér
í bænum hafði samband við »Leikni« til kl. 2; taldi skipstjóri víst, að
skipverjar kæmust allir í land með fjöru. Kl. um 1 voru 6 skipverjar komnir á
land. Aðstandendur skipverja voru mjög áhyggjufullir er ekkert fréttist siðari
hluta dags en áður dimma tók, fréttist að allir væru komnir á land. Þau fara að
verða nokkuð mörg slysin á sjó og haldi þau áfram líkt og hin siðustu 6 ár, má
eiga það vist, að erlendu félögin, sem endurtryggja skaða hér, hækki svo
iðgjöld að til vandræða horfi fyrir skipaeigendur. Sjótjón hin siðustu 6 ár eru
þessi og aðeins nefndir togarar:
»Leifur heppni« 8. febr. 1925. Fórst á rúmsjó.
»Ása« 20. des. 1925. Við Jökul. '
»Eiríkur rauði« 2. marz 1927. Við Sandana.
»Ása« 3. apríl 1927. Við Grindavík.
»Austri« 7. sept. 1927; Við Vatnsnes nyrðra.
»Jón forseti« 27. febr. 1928. Við Stafnes.
»Menja« 12. júní 1928. Sökk á rúmsjó.
»Apríl« 1. des. 1930. Fórst á rúmsjó.
»Barðinn« 21. ágúst 1931. Við Þjót.
»Leiknir« 21. nóvember. Við Kúðaós.
Þannig lítur þessi sorglegi listi út. Frá 1. desember 1930 til 21. nóvember
1931, er tæpt ár og á því farast 3 dýr skip og 10 togarar, sumir að heita nýir,
síðan árið 1925. Hið siðasta strand, »Leiknis« er órannsakað er Ægir verður
prentaður, en 23. nóvember sendi Sjóvátryggingarfélag Íslands reyndan
skipstjóra, austur á strandstaðinn og varðskipið »Ægir« mun gera tilraun til að
ná skipinu út. Sjóréttur var haldinn í Vík í Mýrdal hinn 24. nóvember og
framhaldspróf mun haldið hér í Reykjavik. Á þrem mánuðum hafa 2 togarar strandað,
sem vátryggðir hafa verið hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands fyrir um 600 þúsund
krónur.
»Leiknir« var smíðaður í Þýzkalandi árið 1921 fyrir hlulafélagið Sleipni í
Reykjavik, og hét fyrst »Glaður«. Var hann 316 smálestir brúttó. Fyrir nokkrum
árum seldi Sleipnir skipið, Ólafi Jóhannessyni & Co. á Patreksfirði, og
hefur það síðan verið gert út þaðan.
Ægir. 11 tbl. nóvember 1931.
11.05.2017 20:33
Veitt í salt á Barða NK í Barentshafi sumarið 1994.
- 1
- 2