Blogghistorik: 2020 N/A Blog|Month_1

30.01.2020 22:02

2890. Akurey AK 10 á útleið úr Reykjavíkurhöfn.

Ég tók þessar myndir af togaranum Akurey AK 10 þegar hann hélt í veiðiferð í veðurblíðunni í gær úr Reykjavíkurhöfn. Akurey er fallegt skip og hefur fiskað vel undanfarið eins og skipið hefur alla tíð gert síðan það kom heim nýsmíðað frá Tyrklandi.


2890. Akurey AK 10 á útleið úr Reykjavíkurhöfn í gær.














Haldið skal til hafs á ný var kveðið hér forðum.                 (C) Þórhallur S Gjöveraa. 29 janúar 2020.

27.01.2020 22:59

Suðvestan stormur á Norðfirði.

Suðvestan stormur eða rok á Norðfirði hinn 12 mars árið 1948. Hafnaraðstaða var ekki mikil á Norðfirði á þessum árum. Það var ekki margt í boði fyrir útgerðarmenn í Neskaupstað þegar það gerði slæm veður. Sennilega hefur það verið best að hafa bátana í bólum sínum, en að hafa þá við bryggju og láta þá berjast utan í hana sem gat valdið miklu tjóni á þeim. Það var ekki fyrr en árið 1963 sem að fullnægjandi hafnaraðstaða varð í Neskaupstað þegar uppfyllingin neðan við Steininn og Kastalann komst í notkun það ár. Það bætti aðstöðu útgerðarmanna til hins betra. Það var ekki fyrr en upp úr 1970, að farið var að gera höfn fyrir botni Norðfjarðar, enda er hún ein af betri höfnum landsins í dag.


Suðvestan stormur eða rok á Norðfirði 12 mars árið 1948.                       (C) Björn Björnsson.


Suðvestan stormur á Norðfirði.                                                              (C) Björn Björnsson.

23.01.2020 12:34

1397. Sólberg ÓF 12. TFFT.

Skuttogarinn Sólberg ÓF 12 var smíðaður hjá S.I.C.C. Na. Chantiers Navals í Saint Malo í Frakklandi árið 1974 fyrir útgerðarfélagið Sæberg hf á Ólafsfirði. 500 brl. 1.800 ha. Crepelle PSN SSR, 1.324 Kw. Frá árinu 1997 er skipið í eigu Þormóðs ramma-Sæbergs hf á Siglufirði (eftir sameiningu fyrirtækjanna). Ný vél (2000) 1.800 ha. Deutz vél, 1.620 Kw. Frá árinu 2001 heitir skipið Sólberg SI 12. Selt árið 2005, Frigorifico Pesquera Del Uruquay S.A. í Montevido í Uruquay, hét þar Sólberg MAT-8219. Skipið brann og sökk í höfn í Montevideo og eyðilagðist. Sólbergið átti systurskip hér á landi, en það var 1410. Dagrún ÍS 9 frá Bolungarvík. Held að hún hafi einnig endað út í Uruquay.

Heimild: Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


1397. Sólberg ÓF 12.                                                                             Ljósmyndari óþekktur.

        Ólafsfirðingar hafa fengið                              nýjan togara

Ólafsfjörður 20. sept.
Klukkan 18 í gærkvöldi kom til heimahafnar í Ólafsfirði nýr skuttogari frá Frakklandi, Sólberg ÓF 12, eign Sæbergs hf. í Ólafsfirði. Skipið hafði viðkomu í Noregi á heimsiglingu. Sólbergi var fagnað með því að fánar voru dregnir að húni í kaupstaðnum og fólk safnaðist saman á hafnargarðinum. Þar flutti séra Birgir Ásgeirsson ávarp og blessunarorð yfir skipi og skipshöfn. Bæjarstjórinn, Ásgrímur Hartmannsson, bauð skip og skipshöfn velkomin til heimahafnar og þakkaði eigendum þann stórhug, sem þeir sýndu með kaupum á þessu glæsilega skipi. Sigvaldi Þorleifsson þakkaði móttökurnar fyrir hönd eigenda og lýsti skipinu, sem er glæsilegt að útbúnaði og öllum frágangi.
Togarinn var smíðaður í Siccna í St. Malo í Frakklandi og er þetta fyrsta skipið sem er smíðað fyrir íslendinga í Frakklandi. Sólberg er 496 lestir að stærð, 50,80 metrar að lengd og 10,30 metrar á breidd. Aðalvél skipsins er Crepell 1800 hestöfl, en ljósavélar af Boduangerð. Vindur eru rafknúnar, nema flotvörpuvindan, sem er vökvaknúin. Fiskileitartæki eru öll af nýjustu gerð frá Simrad. Fiskilestar eru úr heilsoðnu stáli, búnar skilrúmum og losanlegum styttum, ef kassanotkun er æskilegri. Þá er í skipinu ísframleiðsluvél og ísdreyfingarkerfi frá Finsam-verksmiðjunum norsku. Afkastageta er 10 lestir á sólarhring. Helzta nýjungin í skipinu er svokallaður stýrisskrúfuhringur, sem eykur togkraft skipsins og snúningsgetu.
Skipstjóri á Sólberg er Björn Kjartansson, 1. stýrimaður Kjartan Eiðsson og 1. vélstjóri Jón Þorvaldsson. Stjórn Sæbergs hf. skipa þeir Ásgeir Ásgeirsson, Jón Þorvaldsson og Sigurður Guðmundsson, en framkvæmdastjóri er Gunnar Þór Sigvaldason. Skipið mun halda til veiða eftir nokkra daga.

Morgunblaðið. 24 september 1974.


1397. Sólberg ÓF 12 í höfn á Ólafsfirði.                                                (C) Sveinn Magnússon.


1410. Dagrún ÍS 9, systurskip Sólbergs.                                                   Ljósmyndari óþekktur.


Sólberg sokkið eftir brunann í höfninni í Montevideo í nóvember 2010. (C) Óskar Franz Óskarsson.

                Sólberg  ÓF 12

19. september sl. bættist annar skuttogari í flota Ólafsfirðinga með tilkomu Sólbergs ÓF 12, en á sl. ári eignuðust Ólafsfirðingar sinn fyrsta skuttogara, en það var Ólafur Bekkur ÓF. Skuttogarinn Sólberg ÓF er byggður í Frakklandi hjá skipasmíðastöðinni S. I. C. C. Na. Chantiers Navals í Saint Malo og er smíðanúmer stöðvarinnar nr. 136. Þetta er fyrsti skuttogarinn sem byggður er fyrir íslendinga í Frakklandi. Eigandi skuttogarans er Sæberg h. f. Ólafsfirði.
Rúmlestatala 500 brl.
Mesta lengd 50.73 m.
Lengd milli lóðlína 42.90 m.
Breidd milli lóðlína 10.30 m.
Dýpst að efra þilfari 7.15 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.90 m.
Lestarrými 440 m3.
Brennsluolíugeymar 148 m3.
Ferskvatnsgeymar 39 m3.
Lifrargeymir 12 m3.
Ganghraði (reynslusigling) 14.5 sjómílur.

Ægir. 20 tbl. 1 desember 1974.








12.01.2020 15:35

M. s. Langjökull. TFJB.

Frysti og flutningaskipið Langjökull var smíðaður hjá Aarhus Flydedok & Maskinkompagni A/S í Árósum í Danmörku árið 1959 fyrir hf Jökla í Reykjavík. 1.987 brl. 2.000 ha. Deutz vél. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 6 október sama ár. Árin 1966-67 var Langjökull í leigu hjá Company Paquet í Marseille í Frakklandi, var í ávaxtaflutningum frá Casablanca í Marokkó til Marseille, Le Havre og Rotterdam. Skipið var selt 20 júní 1967, Korean Equipment Import Corporation í Pyongyang í Norður-Kóreu, og var notað þar sem móðurskip fyrir fiskiskip úti á miðunum. Hef ekki enn fundið neitt um hvað skipið hét í Norður-Kóreu eða hvað um það varð.


140. Langjökull.                                                                 Ljósmyndari óþekktur, mynd í minni eigu.

               M.s. Langjökull

Sunnudaginn 6. okt. kom hingað til Reykjavíkur nýtt flutningaskip, kæliskipið Langjökull, eign Jökla h.f. Skipstjóri á þessu flaggskipi fyrirtækisins er Ingólfur Möller. Kjölurinn að ms. Langjökli var lagður í skipasmíðastöðinni Aarhus Flydedok og Maskinkompagni A/S í Árósum 26. sept. 1958. Aðalmál skipsins eru: Lengd 88,00 m., breidd 12,25 m., dýpt 4,90 m. og gefur það "deadweight" 2063 longton, við 16 feta djúpristu. Skipið, sem er frystiskip, er byggt eftir ströngustu kröfum Lloyd's til skipa, sem sigla eiga á öllum höfum og auk þess er skipið styrkt til siglingar í ís. Skipið hefur Lloyd's vottorð, um að það haldi 20 gráðum á celsius við +25 gráða sjávarhita og +35 gráða lofthita. Skipið, sem hefur þrjár Sabro frystivélar, þarf aðeins tvær þeirra til þess að halda þessu frosti. Í skipinu eru fjórar lestar, sem hver um sig getur haldið því hitastigi, sem óskað er, innan þeirra takmarka, sem áður getur. Rúmmál lestanna er 87,000 teningsfet.
Lestaropin eru fjögur og er þeim lokað með lúguhlemmum af allra nýjustu gerð. Allar aflvélar skipsins eru dieselvélar af Deutz-gerð: aðalvél 2000 hestöfl við 275 snúninga á mínútu, 2 hjálparvélar sem drífa 165 kw rafala og ein, sem drífur 110 kw rafal. Í skipinu eru vistarverur fyrir 28 menn. Allar vistarverur, stjórnpallur, kortaklefi, loftskeytaklefi, eldhús, búr, kæligeymslur og birgðageymslur eru aftur á skipinu. Vistarverur mjög rúmgóðar og vandaðar. Björgunarbátar eru geymdir í uglum af allra fullkomnustu gerð, og tekur aðeins um 25 sekúndur að sjósetja þá. Öryggisútbúnaður er að sjálfsögðu eins og frekast er krafizt. Skipið er búið öllum nýtízku siglingatækjum og ganghraði þess um 13,5 sjómíla á klukkustund. Sem fyrr segir er Ingólfur Möller skipstjóri á hinu nýja skipi, en fyrsti stýrimaður er Júlíus Kemp og fyrsti vélstjóri er Höskuldur Þórðarson. 

Sjómannablaðið Víkingur. 10 tbl. október 1959.

                    H.f. Jöklar 

Árið 1945 var hlutafélagið Jöklar stofnað af frystihúsaeigendum innan Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og er heimili félagsins í Reykjavík. Félagið gerði þá þegar samning í Svíþjóð um byggingu á kæliskipinu m/s Vatnajökli og var smíði þess lokið 1947.
Árið 1952 keypti félagið m/s Foldina af samnefndu hlutafélagi og var því gefið nafnið Drangajökull. Samningur var gerður 1957 í Danmörku um byggingu á kæliskipinu m/s Langjökull og var smíði þess lokið 1959. Í júnímánuði 1960 fórst m/s Drangajökull við Skotland og björguðust allir menn er með skipinu voru. Í september sama ár var gerður samningur um byggingu á kæliskipi í Hollandi, sem væntalega verður fullsmíðað haustið 1961.
Þessi skip hafa hafa eingöngu frystilestar, eru grunnskreið og stærðin miðuð við það að geta lestað frystar vörur á öllum þeim höfnum víðsvegar á landinu, þar sem frystihús eru staðsett og flutt vörurnar til hinna ýmsu markaðslanda.
Forstjóri h.f. Jökla er Ólafur Þórðarson, Ægisíðu 54 en skrifstofur fyrirtækisins eru í Aðalsstræti 6 í Reykjavík.

Ísland í dag. 1961.


M.s. Langjökull, sennilega á heimleið í október 1959.                               Ljósmyndari óþekktur.

      Jöklar hf selja tvö skipa sinna

Blaðinu barst í gær eftirfarandi fréttatilkynning frá Jöklum h.f.:
H f. Jöklar hafa ákveðið að selja tvö af frystiskipum sínum, m s.  Langjökul og m.s. Drangajökul. Kaupandi skipanna er Korea Equipment Import Corporation, Pyongyang, Norður-Kóreu. Söluverð skipanna má telja að sé hagstætt. Ástæðan til sölu skipanna er fjárhagserfiðleikar við rekstur þeirra. Eins og kunnugt er tók Eimskipafélag Íslands h.f. að sér flutninga á frystum fislki fyrir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna frá 1. apríl 1965. Þá voru ekki lengur verkefni fyrir skipin hér og hafa þau því síðan verið í flutninigum erlendis. Íslenzkum aðilum var gefinn kostur á að kaupa skipin með svipuðum kjörum, en þeir höfðu ekki áhuga á kaupum á þessum grundvelli.

Morgunblaðið. 26 maí 1967.





10.01.2020 11:56

1317. Engilráð ÍS 60. TFAB.

Vélbáturinn Engilráð ÍS 60 var smíðaður í skipasmíða & Trésmiðju Guðmundar Lárussonar hf á Skagaströnd fyrir Fjarka hf (Halldór Hermannsson) á Ísafirði. Eik og fura. 30 brl. 240 ha. Dormann vél, 170 Kw. Ný vél (1979) 265 ha. Cummins vél, 195 Kw. Seldur 24 október 1981, Friðgeiri Höskuldssyni á Drangsnesi, hét þá Grímsey ST 2. Ný vél (1987) 305 ha. Cummins vél, 224 Kw. Frá 24 júlí 1997 hét báturinn Grímsey ll ST 102. Seldur árið 2000, Röst ehf í Stykkishólmi, hét Röst SH 134, með heimahöfn í Grundarfirði. Báturinn sökk um 2 sjómílur suðvestur af Svörtuloftum á Snæfellsnesi 19 mars árið 2003. Áhöfnin, 2 menn komust með herkjum í annan gúmmíbjörgunarbátinn og var síðan bjargað um borð grænlenska loðnuveiðiskipið Siku GR 18-1, en skipstjóri þess var Norðfirðingurinn Helgi Jóhannsson. Það var síðan björgunarskipið Björg sem fór með mennina til hafnar á Rifi.


1317. Engilráð ÍS 60 við bryggju á Ísafirði.                                                Ljósmyndari óþekktur.

                  Engilráð ÍS 60

Í júnímánuði afhenti Skipasmíðastöð Trésmiðju Guðmundar Lárussonar h.f. Skagaströnd nýsmíði nr. 7 og hlaut skipið nafnið Engilráð ÍS 60. Skipið er eign Fjarka h.f. Ísafirði. Skipið er 30 rúmlesta eikarfiskiskip með lúkar fremst, þar sem eru hvílur fyrir 5 menn, auk eldunaraðstöðu; þar fyrir aftan fiskilest með kælingu og uppstillingu úr áli og vélarúm aftast. Fremst í fiskilest er ferskvatnsgeymir, en brennsluolíugeymar í vélarúmi, út við síður. Yfir vélareisn er þilfarshús úr stáli, sem skiptist í stýrishús fremst, en þar fyrir aftan er salerni og skipstjóraklefi. Til hliðar og aftan við þilfarshús er lokað skýli úr áli, sem mögulegt er að taka burt. Skýlið er notað við línuveiðar, en í bátinn var sett færeysk línuvélasamstæða.
Á togveiðum (rækjuveiðum) er meginhluti skýlisins fjarlægður og komið fyrir toggálga (skuttog) aftast á þilfari. Togvinda skipsins er staðsett aftan við þilfarshús. Aðalvél er Dorman, gerð 6LDTCWM, 240 hö. við 1800 sn./mín., tengd niðurfærslugír (3:1) og skrúfubúnaði. Skrúfa skipsins er 3ja blaða með 1040 mm þvermáli. Rafall á aðalvél er Transmotor ACG, 6.3 KW. Ljósavél er Petter, gerð PH 2 W, 12.5 hö. við 1500 sn./mín. og við hana 6.3 KW Transmotor ACG rafall. Fyrir kælikerfi er 2 KVA "omformer" frá Transmotor. Rafkerfi skipsins er 24 volta jafnstraumur. Stýrisvél er frá Sharp. Vindubúnaður er vökvaknúinn (háþrýst kerfi) frá Rapp og samanstendur af togvindu, gerð CW 460/80; línuvindu gerð LS 240; losunarvinda, gerð LW 80; bómuvinda BSW-80 og kraftblökk, gerð 19 R. Fyrir utan ofangreindar vindur er skipið búið 7 rafknúnum Elektra færavindum. Ein tvöföld Vickers dæla, tengd við aflúttak framan á aðalvél, er fyrir vindukerfið. Línuvélasamstæða sú, þ. e. beitninga- og uppstokkunarvél, sem sett hefur verið í skipið er sú fyrsta af þessari gerð, sem reynd er í íslenzku skipi og er þessari samstæðu lýst í 2. tbl. Ægis 1973. Helstu siglinga-, fiskileitarog fjarskiptatæki eru: Ratsjá: Kelvin Hughes, gerð 17, 36 sml. kýptarmælir:Koden SRM-871- A. Miðunarstöð: Koden KS 510. Talstöð: Sailor T121/R104, 140 W SSB. Örbylgjustöð: Sailor RT142/ 29. Sjálfstýring: Sharp Helsman. Skipstjóri á Engilráð ÍS er Óskar Jóhannesson, en framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Halldór Hermannsson.
Stærð skipsins 30 brl.
Mesta lengd 17.40 m.
Lengd milli lóðlína 15.60 m.
Breidd (mótuð) 4.32 m.
Dýpt (mótuð) 2.00 m.
Brennsluolíugeymar 4.00 m.3
Ferskvatnsgeymar 0.60 m.3
Hraði í reynslusiglingu 9.8 sjómílur.

Ægir. 19 tbl. 1 nóvember 1973.

   Tilraunir með færeysku beitninga
             og stokkunarvélina

Þann 10. júlí s l., hófum við veiðar á nýsmíðuðum 30 lesta bát, Engilráð ÍS 60, með Færeyskri beitninga- og uppstokkunarvél. Töluverðir byrjunarörðugleikar voru fyrsta mánuðinn, sem löguðust verulega þegar fram í sótti. Úthaldið stóð til 20. september og hafði þá fiskast um 67 lestir, 13.210 kg. í júlí, 25.620 í ágúst og 27.380 kg. í september. áhöfnin var 4 menn, og stunduð útilega, vanalegast um 3 sólarhringa í senn. Lagðar voru 45-50 lóðir tvisvar á sólarhring alls um 95-100 lóðir (100 króka), 45 lóðir voru vanalegast lagðar á 45 mín. og okkur tókst að draga um 12 lóðir á klst. með því að nota uppstokkunarvélina. Beitningavélin virtist skila um 70% af beittum önglum í sjó, er það nokkru minna en gert var ráð fyrir. Beitt var bæði smokk og makríl. Hér er á ferðinni athyglisverð uppfinning fyrir smærri báta, þótt enn þá sé þetta nokkuð ungt og á greinilega fyrir sér endurbætur.
Einn hluti þessarar vélasamstæðu er tæki sem snýr ofan af taumum og tekur beitu af önglum um leið og dregið er ofan í bala, og er þá hægt að draga svo hratt sem þörf er á. Reynslan sýndi okkur að þar er á ferðinni tæki, sem létta mun beitningarmönnum vinnuna til muna, enda hefur það fengið ágæta reynslu undanfarin 2 ár um borð í þremur færeyskum útilegubátum. Forsvarsmenn fyrirtækisins Haviðnaður í Færeyjum hafa tjáð okkur að þeir vinni stöðugt að endurbótum á vélasamstæðunni og þess verði ekki langt að bíða að hún eigi eftir að skila mun betri árangri. 

Halldór Hermannsson.

Ægir. 19 tbl. 1 nóvember 1973.


1317. Engilráð ÍS 60 sennilega nýsmíðaður að koma til Ísafjarðar.                Ljósmyndari óþekktur.

          Vélbáturinn Röst SH frá                              Stykkishólmi
      sökk vestur af Snæfellsnesi

Tveir menn björguðust er 30 tonna bátur, Röst SH-134 frá Stykkishólmi, sökk um eina sjómílu suðvestur af Svörtuloftum á Snæfellsnesi á sjötta tímanum í gær. Áhöfn grænlensk-íslenska loðnuskipsins Siku bjargaði mönnunum um borð úr öðrum af tveimur björgunarbátum sem þeir höfðu náð á flot þegar báturinn fylltist af sjó á svipstundu og sökk. Loðnuskipið Sighvatur Bjarnason var á svipuðum slóðum í loðnuleit og tók hinn björgunarbátinn upp. Björgunarskipið Björg frá Rifi kom til móts við Sighvat og Siku og sigldi með mennina og björgunarbátana til hafnar á Rifi. Mennina sakaði ekki en þeir eru frændur; Gestur Már Gunnarsson, rúmlega fimmtugur, og Bergsveinn Gestsson, móðurbróðir hans á sjötugsaldri, báðir búsettir í Stykkishólmi. Er þeir komu í land sögðu þeir fréttaritara Morgunblaðsins að þeir hefðu verið á leið með trilluna til nýrra eigenda í Reykjavík þar sem búið var að selja hana. Vildu þeir að öðru leyti ekki tjá sig þá.
Er klukkuna vantaði átta mínútur í fimm í gær heyrði flugvél í neyðarsendi við Snæfellsnes og eftir athugun Tilkynningarskyldunnar kom í ljós að einn bátur hafði ekki tilkynnt sig á þessu svæði. Skömmu síðar voru kallaðar út björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Snæfellsnesi ásamt björgunarskipi frá Rifi, þyrlu Landhelgisgæslunnar og flugvél Flugmálastjórnar.
Björgunarskip frá Sandgerði var einnig til taks þar sem staðsetning neyðarsendingar var óljós í fyrstu. Flugvél Flugmálastjórnar staðsetti svo tvo gúmbjörgunarbáta við Svörtuloft kl. 17.50 og tólf mínútum síðar voru mennirnir komnir úr öðrum bátnum um borð í Siku, heilir á húfi. Var Gæsluþyrlunni, TF-LÍF, þá snúið til Reykjavíkur. Helgi Jóhannsson, skipstjóri á Siku, sagði við Morgunblaðið að mjög vel hefði gengið að koma mönnunum um borð. Hann hefði séð til neyðarblysa og ekki ætlað í fyrstu að trúa þeirri sjón sökum þess að vel hefði viðrað á þessum slóðum í gær. "Við settum stefnuna strax á þann stað sem við sáum blysin fara á loft og sáum fljótlega til björgunarbátanna," sagði Helgi og taldi sjó hafa verið frekar þungan fyrir smærri báta eins og Röstina. "Þetta er minn stærsti dagur á loðnuvertíðinni og er ég búinn að vera í þessu frá árinu 1966," sagði Helgi, glaður í bragði yfir því að hafa bjargað mönnunum heilum á húfi. Fengu þeir að borða hjá kokkinum á Siku áður en björgunarskipið Björg sótti þá og kom þeim í land á Rifi.
Samkvæmt því sem bátsverjarnir sögðu Helga fylltist Röstin af sjó á svipstundu, svo snöggt að þeir hefðu ekki náð í stýrishúsið til að kveikja á neyðarsendinum. Hins vegar hefðu björgunarbátarnir skotist út og þeir náð að komast um borð í annan þeirra og kveikt þar á neyðarsendi og skotið upp blysum. Röst SH var sem fyrr segir 30 tonna bátur, smíðaður á Skagaströnd fyrir þrjátíu árum og breytt lítillega þremur árum síðar.
Báturinn hét áður Grímsey ST og þar áður Engilráð ÍS. Jón Eyfjörð, skipstjóri um borð í Sighvati Bjarnasyni, sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki hafa séð tangur né tetur af Röst er þeir komu að björgunarbátunum tveimur. Ekkert brak hefði verið að sjá á sjónum en björgunarbátana hefði verið farið að reka að landi. "Mestu skiptir að allt fór á besta veg," sagði Jón.

Morgunblaðið. 20 mars 2003.


07.01.2020 18:02

2173. Arnar HU 1. TFAM.

Frystitogarinn Arnar HU 1 var smíðaður hjá Stocznia Remontowa NAUTA S/A í Póllandi (skrokkurinn) en skipið klárað hjá Mjellem & Karlsen Verft A/S í Bergen Noregi árið 1992 fyrir Skagstrending hf á Skagaströnd. Smíðanúmer 148. 1.331 brl. 4.076 ha. Wartsiila 8R32D vél, 3.000 Kw. Skipið var selt 16 október 1995, Grænlenska útgerðarfélaginu Royal Greenland í Nuuk, hét þar Sisimiut GR 6-500. Selt í maí 2019, Þorbirni hf í Grindavík, fékk nafnið Tómas Þorvaldsson GK 10 og er gert út á frystingu frá Grindavík í dag. Sannarlega glæsilegt skip.


2173. Arnar HU 1.                                                                                         (C) Snorri Snorrason.

             Arnar HU 1

Nýr skuttogari, b/v Arnar HU1, kom til heimahafnar, Skagastrandar, 22. Desember sl. Skipið er nýsmíði nr. 148 frá Mjellem & Karlsen Verft A/S, Bergen í Noregi, og var afhent frá stöðinni 18. desember. Skrokkur skipsins var smíðaður í Póllandi, en skipið er hannað af Skipsteknisk A/S í Noregi. Arnar HU er skrokkstærsta fiskiskip flotans, og jafnframt það breiðasta (14.00 m), eða einum metra breiðara en Vigri RE. Borið saman við Vigra RE er Arnar HU um 7% skrokkstorri miðað við margfeldi aðalmála. Arnar HU er frystitogari með búnað til flakavinnslu. Skipið er búið sjálfvirkum frystibúnaði frá Kvorner Odim líkt og Vigri RE. Af nýjungum í skipinu má telja sorpbrennsluofn og skolphreinsikerfi, hvorutveggja umhverfisvænn búnaður, og er fjallað um fyrrnefnda búnaðinn á bls. 51. Á móti hinu nýja skipi úreldir útgerðin skuttogarann ArnarHU 1 (1307), sem útgerðin hefur gert út í tæp 20 ár, og skuttogarann Sólbak EA 305 (1558), sem upphaflega hét Rán HF og var keyptur til landsins árið 1980. Arnar HU 1 er í eigu Skagstrendings hf, Skagaströnd. Skipstjóri á skipinu er Guðjón E. Sigtryggsson og yfirvélstjórar Finnur Kristinsson og Ernst K. Berndsen. Framkvæmdastjóri útgerðar er Sveinn Ingólfsson.
Mesta lengd 66.88 m.
Lengd milli lóðlína (HVL) 61.20 m.
Lengd milli lóðlína (perukverk) 58.80 m.
Breidd (mótuð) 14.00 m.
Dýpt að efra þilfari 8.55 m.
Dýpt að neðra þilfari 5.85
Eigin þyngd 2.128 tonn.
Særými (djúprista 5.85 m) 3.441 tonn.
Burðargeta (djúprista 5.85 m) 1.313 tonn.
Lestarrými (aðalfrystilest) 1.088 m3.
Lestarrými (milliþilfarslest) 179 m3.
Lestarrými (þurrlest/mjöllest) 266 m3.
Brennsluolíugeymar (svartolía) 451.2 m3.
Brennsluolíugeymar (gasolía) 79.1 m3.
Andveltisgeymir (gasolía) 52.0 m3.
Ferskvatnsgeymar 50.0 m3.
Sjókjölfestugeymar 62.6 m3.
Brúttótonnatala 2.373 Bt.
Rúmlestatala 1.331 Brl.
Ganghraði (reynslusigling) 14.5 sjómílur.
Skipaskrárnúmer 2173.

Ægir. 1 tbl. 1 janúar 1993.


2173. Arnar HU 1. Fyrirkomulagsteikning.                             (C) Mynd úr Ægi.


Frystitogarinn Sisimiut GR 6-500 á Kollafirði í Færeyjum.                                    (C) Regin Torkilsson.

 Arnar HU-1 seldur frá Skagaströnd

Skagstrendingur hf. hefur selt frystiskipið glæsilega Arnar HU-1 til Grænlands. Félagið mun áfram eiga Arnar gamla HU-101 og Örvar HU-21 og fyrirhuguð eru kaup á eldra og minna frystiskipi í stað Arnars. Er ákveðið skip í sigtinu í því sambandi, og standa vonir til að það skip verði komið til Skagastrandar í haust þegar Arnar fer úr landi, að sögn Óskars Þórðarsonar framkvæmdastjóra Skagstrendings. Í tilkynningu frá stjórn fyrirtækisins segir að söluverð Arnars sé mjög ásættanlegt eða nálægt bókfærðu verði skipsins. Með sölunni hyggst Skagstrendingur lækka skuldir verulega án þess að minnka umsvif félagsins. Með þessum breytingum á skipastóli er gert ráð fyrir að skuldir Skagstrendings lækki um a.m.k. 500 milljónir án þess að kvótastaðan versni. Reiknað er með óbreyttri framlegð þriggja skipa, en afskriftir og vaxtakostnaður muni lækka um nálægt 80 milljónir á ári. Mun þetta gjörbreyta rekstrar- og greiðslustöðu félagsins til batnaðar og verður það svigrúm sem fæst, nýtt til að lækka skuldir og treysta enn frekar rekstrargrundvöllinn.
Arnar HU-1 er einn stærsti og fullkomnasti frystitogari flotans og kom nýr til landsins í desember 1992. Skipið hefur náð mjög góðum árangri á veiðum miðað við þá möguleika sem eru á íslandsmiðum í dag og má nefna að það var með mesta aflaverðmæti íslenskra frystiskipa kvótaárið 1993-94 og fyrstu fjóra mánuði þessa árs. Hin mikla fjárfesting sem í skipinu felst hefur hinsvegar verið Skagstrendingi mjög íþyngjandi sl. tvö og hálft ár. Frá því ákvörðun var tekin um smíði Arnars hefur félagið orðið fyrir skerðingu á þorskkvóta sem nemur yfir þrjú þúsund tonnum auk skerðingar í öðrum tegundum. Hefur þetta ásamt lækkandi verðum á sjófrystum afurðum kippt grundvelli undan rekstri skipsins hjá Skagstrendingi. Það var mat stjórnar félagsins að rekstrargrundvöllur skipsins yrði ekki tryggður hjá Skagstrendingi í fyrirsjáanlegri framtíð. Það er grænlensk/danska stórfyrirtækið Royal Greenland sem keypti Amar. Fyrirtækið er það langstærsta í útgerðar- og fiskvinnslu á Grænlandi og að mestu í eigu landsstjórnarinnar. Það hefur yfir um 10 frystiskipum að ráða.

Feykir. 11 júlí 1995.


2173. Tómas Þorvaldsson GK 10.                                                    (C) Guðmundur St. Valdimarsson.

        Tómas Þorvaldsson GK 10

Þorbjörn hf. í Grindavík er um þessar mundir að taka við frystitogara, sem keyptur er frá Grænlandi. Togarinn er upphaflega smíðaður fyrir Skagstrending og hét Arnar HU 1. Hann var fljótlega seldur til Royal Greenland og fékk þá nafnið Sisimiut. Hjá Þorbirni fær hann nafnið Tómas Þorvaldsson GK 10 eftir stofnanda fyrirtækisins.
Einn fjögurra línubáta fyrirtækisins var úreltur á síðasta ári og verður þá skipaflotinn þrír línubátar og þrír frystitogarar. Línubátarnir sjá vinnslum fyrirtækisins í landi fyrir hráefni áfram, sem er vinnsla á saltfiski og ferskum fiski.
Eiríkur Dagbjartsson er útgerðarstjóri frystiskipa Þorbjarnar. Hann segir að Skagstrendingur hafi fengið þetta skip í lok árs 1992. Hann hafi þótt mjög fullkominn á sínum tíma. "Það voru í honum nýungar eins til dæmis sjálfvirkir frystar, sem er gríðarlega vinnusparandi og það var gert ráð fyrir beinamjölsverksmiðju í honum, sem reyndar var aldrei sett niður. Hann var mjög stór á þeirri tíma mælikvarða, sérstaklega á breiddina. 14 metra breiður.
Þeir seldu hann síðan um haustið 1995 til Royal Greenland og í einhverjum tilfellum eru Færeyingar sem sóttu hann til Skagastrandar enn um borð, allavega annar skipstjórinn. Royal Greenland hefur haldið þessu skipi mjög vel við. Þeir hafa gert miklar endurbætur á honum á undanförnum árum. Þeir breyttu til dæmis frystikerfinu úr freoni yfir í ammoníak fyrir nokkrum árum. Þá endurnýjuðu þeir að öllu leyti allt sem tengdist frystingu, svo sem öll rör, frystitæki, bæði þessi sjálfvirku og tvo aðra lárétta frysta. Þeir skiptu um skrúfublöð og skrúfuhring fyrir fimm árum. Þeir settu svo þriðju togvinduna í hann 2002 til að geta dregið tvö troll samtímis og það virkar mjög vel. Nýlega er búið að taka borðsalinn og alla þá hæð í gegn annað en áhafnarklefa en nánast allir klefar eru eins manns. Tvær setustofur og eldhús og kæli og frysti fyrir matvæli.
Það hefur því mjög margt verið gert mjög vel í honum á undanförnum árum.
Þeir eru með tárin í augunum Grænlendingarnir og Færeyingarnir sem hafa verið á honum. Sjá mikið eftir honum. Þetta er virkilega gott skip, þægilegur í sjó að leggja. Ég var um borð í honum í fjóra til fimm daga í vetur einhverjar 180 sjómílur norður af Noregi. Þó ekki hafi verið nein drullubræla var þarna kaldafýla og þá fann maður hvað þetta er ótrúlega gott sjóskip," segir Eiríkur.
Togarinn kom inn til Hafnarfjarðar síðastliðinn laugardag til löndunar og fer svo í söluslipp þar sem hann verður yfirfarinn, en Þorbjörn tekur ekki við honum fyrr en snemma í júní. Reyndar verður tækifærið notað til að botnmála, sínka og merkja hann.
Eiríkur segir að ekkert stórt verði gert í honum annað en að skipta út flökunarvélum. Settar verði flökunar vélar um borð sem gefi betri nýtingu en þeir hafi notað. Þá verði aðeins græjað á millidekki og til dæmis sett upp tæki til að hirða og vinna afskurð sem skylda sé að hirða. Að öðru leyti sé hann tilbúinn á veiðar enda keyptur með öllum veiðarfærum. Það sé nánast hægt að sleppa og fara.
Eiríkur segir að Tómas Þorvaldsson verði mjög vel græjaður sem frystitogari. Til dæmis séu í honum tveir flokkarar frá Marel, þrír hausarar, þrjár flökunarvélar, sem sé nýtt fyrir þá. Þá sé heilmikil sjálfvirkni í vinnslunni eins sjálfvirku frystarnir og í pökkuninni líka. Þar sé sjálfvirkur úrsláttur, en þar hafi mesta puðið verið í frystitogurunum, að vera að bera þungar pönnur og berja úr þeim. "Meira að segja sér kerfið um að flokka öskjurnar í rétt númer og kerfið sér um að para saman réttar öskjur, þrjár og þrjár saman í hvert hólf. Þegar komnar eru þrjár öskjur í hvert hólf. Sér kerfið um að koma með öskjurnar eftir færibandi að eina manninum, sem vinnur við úrslátt og pökkun. Hann er þá bara með merktan kassa tilbúinn og öskjurnar keyra beint inn í kassann. Hann lokar svo kassanum og sendir hann í bindingu og þaðan niður í lest.
Svo höfum við aðeins verið að skoða möguleikana á að setja  í hann mjöl- og lýsisverksmiðju með Héðni og skipatæknifræðingi. Hvort það væri mögulegt og hagkvæmt og við erum nú í þeirri vinnu. Engar ákvarðanir hafa verið teknar enn um sinn, en verð á mjöli og lýsi er gott og það væri mjög jákætt að geta nýtt alveg 100% það sem kemur um borð," segir Eiríkur.
Tómas Þorvaldsson fer á hefðbundnar veiðar á botnfiski í sumar. Hann fer ekki á makríl eins og hinir tveir frystitogararnir Hrafn Sveinbjarnarson og Gnúpur.Nokkrar sviptingar verða í skipan áhafna við komu nýja togarans. Skipstjórar verða Sigurður Jónsson, sem var annar skipstjórinn á Hrafni Sveinbjarnar og Bergþór Gunnlausson, sem var annar skipstjórinn á Gnúpi. Þeir taka með sér áhafnir sínar og yfirvélstjórar verða Björn Oddgeirsson og Árni Jón Gissurarson. Hin áhöfnin á Gnúpi fer yfir á Hrafn Sveinbjarnar og ný áhöfn hefur verið ráðin á Gnúpinn og hefur hún hafið störf. "Þar tók við skipsstjórn enginn annar en Grétar nokkur Kristjánsson, sem var hættur fyrir aldurs sakir fyrir einu og hálfu ári, en er kominn tvíefldur til baka 73 ára og reykspólar af gleði, hamingju og dugnaði. Hann var með Gylli í gamladaga," segir Eiríkur.

Auðlindin. 27 maí 2019.


04.01.2020 16:14

B. v. Maí GK 346. LCHP / TFMD.

Botnvörpungurinn Maí GK 346 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1920 fyrir breska sjóherinn. Hét á smíðatíma Ephraim Bright FY 4407 (á pappírunum), en kláraður sem Maí RE 155, og var í eigu Fiskiveiðahlutafélagsins Ísland frá maí sama ár. 339 Brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,70 x 7,66 x 3,29 m. Smíðanúmer 423. Kom fyrst til heimahafnar Reykjavíkur hinn 4 júní 1920. Skipið var selt í febrúar árið 1931, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar og fékk þá nafnið Maí GK 346. Maí var fyrsti togari Bæjarútgerðarinnar en hún var stofnuð 12 febrúar það ár. Togarinn var seldur í brotajárn til Danmerkur og rifinn í Odense í júlímánuði árið 1955.

Skipið var aldrei skráð með nafninu Ephrain Bright nema einungis á pappírunum. Það var einungis FY 4407 númerið sem var á skipinu þangað til það var selt Íslandsfélaginu í maí 1920, eftir því sem ég best veit.


B.v. Maí GK 346 á toginu.                                                                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 

          Botnvörpungurinn Maí 

Hinn nýi botnvörpungur fiskifélagsins "Ísland", kom í nótt frá Bretlandi og liggur fánum skreyttur við hafnarbakkann. Einar skipstjóri Guðmundsson kom með hann hingað, en Björn Ólafsson tekur nú við skipstjórninni. Maí er samskonar skip eins og Apríl.

Vísir. 4 júní 1920.


Sannarlega mannfagnaður um borð í Maí. Held að myndin sé frá árinu 1931 þegar Bæjarútgerðin keypti skipið.      Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Maí GK 346.                                                                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

B.v. Maí RE 155 á toginu.                                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.



           Hafnarfjörður á togaraöld

  Bæjarútgerð Hafnarfjarðar fram til 1960

Hugmyndin að bæjarútgerð kom fram strax árið 1916 í Hafnarfirði og í Reykjavík, sama ár og Alþýðuflokkurinn og Alþýðusambandið var stofnað. Þar átti hugmyndin sínar rætur og lifði áfram þó ekki yrði af framkvæmdum. Fyrsti vísir að bæjarútgerð var myndaður í Hafnarfirði veturinn 1927. Þá var atvinnuleysi nokkuð í bænum, en Alþýðuflokksmenn höfðu náð meirihluta í bæjarstjórninni árið áður. Tók bæjarsjóður á leigu botnvörpunginn Clementínu í samvinnu við Akurgerði sf. sem þeir Ásgrímur Sigfússon og Þórarinn B Egilsson stjórnuðu. Útgerðin heppnaðist vel og skilaði hagnaði, en ekki stóð hún nema þessa einu vertíð. Haustið 1930 var atvinnuástand í Hafnarfirði ískyggilegt. Kreppan var skollin á og Hellyers-útgerðin horfin úr bænum. Fyrirsjáanlegt var mikið atvinnuleysi nema eitthvað kæmi til. Þá var að undirlagi Alþýðuflokksmanna stofnuð Bæjarútgerð Hafnarfjarðar í febrúar 1931. Var það fyrsta bæjarútgerðin hér á landi, en mörg bæjarfélög hafa síðan tekið þátt í útgerð og fiskverkun með beinum hætti. Keyptur var togari og hann nefndur Maí og ennfremur fiskverkunarstöðin, Edinborgareignin, sem Flygering-feðgar áttu síðast. Þar með var bæjarútgerðin hlaupin af stokkunum.
Ásgeir G. Stefánsson var ráðinn framkvæmdastjóri og stjórnaði hann fyrirtækinu af mikilli röggsemi allt til ársins 1954.
Skipstjóri á Maí var ráðinn Benedikt Ögmundsson og stjórnaði hann skipum fyrir Bæjarútgerðina í þrjá áratugi, mikill aflamaður alla tíð. Bæjarútgerðin var stofnuð á erfiðum tíma í sjávarútveginum og var stofnfé hennar nær allt fengið að láni. Það þarf því engan að furða þó reksturinn skilaði ekki hagnaði í því árferði. En áfram var stefnt. Fiskverkunaraðstaða fyrirtækisins var illa nýtt með einum togara, svo fljótlega var reynt að auka skipastól þess, en gekk erfiðlega. Hins vegar minnkaði atvinnuleysi í bænum lítið og fór heldur vaxandi er á leið. Var þá reynt að ná í fleiri togara. Ásgeir G. Stefánsson stofnaði ásamt nokkrum sjómönnum samvinnufélag árið 1932 sem keypti togarann Njörð af Útvegsbankanum og tók að gera hann út undir nafninu Haukanes. Árið 1939 var félaginu slitið og stofnað hlutafélagið Vífill um rekstur togarans og nafninu breytt til samræmis. Togarinn lagði upp hjá Bæjarútgerðinni. Árið 1934 tókst Bæjarútgerðinni sjálfri að komast yfir annan togara og munaði þar mestu að Maí gerði góða sölu á ísfiski í Englandi og var þá hægt að ganga frá kaupum á togara þar í landi fyrir 150.000 kr. Var togarinn nefndur Júní. Enn voru uppi áform um að kaupa togara til bæjarútgerðarinnar 1938, en þá hafði fyrirtækið safnað svo skuldum að viðskiptabanki þess treystist ekki að lána því fyrir meiri fjárfestingum. Brugðu þá Alþýðuflokksmenn, sem höfðu alla stjórn þessa óskabarns síns með höndum, á það ráð að stofna hlutafélagið Hrafna Flóka og keyptu togara sem nefndur var Óli Garða.
Sífellt tap varð á bæjarútgerðinni árin 1931-1939 eða samtals 690 þús. kr. Þetta samsvaraði þreföldum útsvörum bæjarbúa árið 1939. En á sama tíma hafði fyrirtækið greitt í vinnulaun 2,8 milljónir króna, og hefur verið sagt að með atvinnurekstri sínum hafi fyrirtækið komið í veg fyrir fjárhagslegt hrun í bænum. Slíkt var ástandið á þessum erfiðu árum. En skjótt skipast veður í lofti og er heimsstyrjöldin síðari hófst haustið 1939 tók fiskverð að stíga á fiskmörkuðum í Evrópu og um veturinn urðu fyrstu roksölur togaranna í stríðinu. Næstu árin var mestallur fiskur seldur ísaður til Bretlands, og varð mikill hagnaður af allri togaraútgerð. Hagnaður bæjarútgerðarinnar árin 1940-1946 varð samtals 9 milljónir króna. Af þessu lagði fyrirtækið eina milljón fram til bátakaupa árið 1944 og voru smíðaðir átta bátar í samvinnu við bæjarútgerðina, þar af fimm í Hafnarfirði. Næstu árin varð aðalverkefnið að endurnýja togaraflota útgerðarinnar. Bæjarútgerðin keypti einn nýsköpunartogaranna árið 1947, og nefndist hann Júlí. Árið eftir strandaði Júní við Vestfirði. Í marz 1951 fékk B.Ú.H. enn nýjan togara og hlaut hann nafnið Júní. 1953 var keyptur togari frá Vestmannaeyjum og nefndur Ágúst. Þá var hætt að gera út gamla Maí og hann seldur úr landi. Apríl var svo keyptur frá Eskifirði árið 1960. Árið áður hafði útgerðin orðið fyrir sínu mesta áfalli er nýsköpunartogarinn Júlí fórst við Nýfundnaland með allri áhöfn. Nýr togari var smíðaður í Þýskalandi og kom hann 1960 og var nefndur Maí.

Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1986.

02.01.2020 21:31

Bátar í höfn í Grindavík á árum áður.

Grindavík hefur um undanfarna áratugi verið uppgangs- og athafnapláss. Ekki samt vegna þess, að jörðin sé gjöful og frjó, því þorpið stendur á malarkambi og ofanvert við það er lítið annað en hraun og auðn. Hins vegar eru fengsæl fiskimið skammt undan og höfn er þar og skipslægi hið ákjósanlegasta frá náttúrunnar hendi, enda þótt innsiglingin sé viðsjárverð og hafi orðið mörgum að fjörtjóni um dagana.þessi sjálfgerða höfn í Grindavík hefur óefað stuðlað að því að þar hefjast snemma á öldum kaupstefnur og verzlunskip leggja þar upp með vörur sínar. Þá voru þar einstakir bæir á stangli, en þorpsmyndun er tiltölulega ný af nálinni til þess að gera eins og annars staðar á Reykjanesskaganum.
Í dag er Grindavík einn af stærstu útgerðarstöðum landsins.


Netabátar í höfn í Grindavík. Á miðri mynd er vélbáturinn Hrafn Sveinbjarnarson ll GK 205, smíðaður í Njarðvík árið 1946. 36 brl. Hét áður Ársæll Sigurðsson GK 320.              Ljósmyndari óþekktur.

             Í Grindavík  

Þið ættuð að koma hingað í brimi, sagði ungur skipstjóri við okkur þegar við komum niður á bryggjuna í Grindavík í fyrrakvöld. Það var norðanátt og dálítill næðingur. Þó risu myndarlegar öldur við nesið utan við hina frægu rennu, en svo er innsiglingin til Grindavíkur oft nefnd. Þessi ungi skipstjóri heitir Dagbjartur Einarsson og hann var að koma niður að skipi föður síns, vélbátnum Ólafi, farsælum báti, sem nokkuð er tekinn að reskjast. Bátur þessi er skýrður eftir Ólafi heitnum Thors, sem svo lengi var þingmaður þeirra Suðurnesjamanna. Dagbjartur kallaði til föður síns, sem stóð uppi á vörubílspallinum og tók á móti fiiskikössunum og tæmdi: - Þið voruð að fá'ann? - Minnstu ekki á það ógrátandi, 5 eða 6 tonn, svaraði faðir hans, en það var svo sem enginn klökkva- eða barlómshreimur í röddinni. Meðan Einar er önnum kafin uppi á bílpallinum tökum við Dagbjart tali. - Já, það er ekki hægt að kvarta yfir vertíðinni hérna í vetur. Þetta hefir verið ágætt.
Að vísu er miklu af aflanum hérna ekið í burtu, nær allur togbátafiskurinn fer til Keflavíkur, Njarðvíkur, Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og nokkuð af netafiskinum líka. Héðan hafa róið 50-60 bátar og höfnin hefir oft verið full af bátum í vetur. Þeir hafa komið frá Vestfjörðum og Austfjörðum og öllum stöðum þar á milli. Allir stærri bátarnir eru á netum. Einar stekkur niður af bílnum, þrekvaxinn, veðurbarinn, brosleitur og hlýlegur en hressilegur og rómsterkur, dæmigerður sjómaður. Þegar við spurðum hann að heiti svaraði hann: - Ég er skýrður Einar Jónsson en er Dagbjartsson. - Og aldurinn? - Er módel 1917. - Grindvíkinigur? - Já, og stundað hér sjóinn frá 9 ára aldri. Samtalið verður slitrótt vegna anna sjómannanna, en við komumst að því að Ólafur er keyptur frá Þorlákshöfn og hafði verið þar hið farsælasta skip, er 36 tonn og alltaf gerður út á troll frá því hann kom til Grindavíkur, upphaflega danskbyggður. Þeir eru fjórir á Ólafi, yfirleitt eru þeir þetta 4 til 5 á trollinu. - Ég man bara ekki eftir annarri eins fiskigengd hér á Grindavíkurmiðum, frá því ég fór að stunda sjó, eins og hefir verið á þessari vertíð, síðan Grænlandsfiskurinn kom hérna 1929, segir Einar. - Ég geri ráð fyrir að þetta geri kuldinn í sjónum. Fiskurinn hefir verið lítið við Snæfellsnesið eða á Breiðafirðinum, eins og hann hrekist hingað suður undan kuldanum til að hrygna.
Og hann er ekki allur gotinn enn. Lítill hnokki kemur að bátum og vill fá að fara um borð. Einn sjómannanna tekur hann niður í bátinn og þar stendur stubburinn og horfir á aðfarirnar, alls óhræddur við slorið, þótt varla sé meira en þriggja-fjögurra ára. Þegar hnokkinn er farinn af stað á ný, sé ég að Einar horfir á eftir honum. - Er þetta kanske sonarsonur þinn? - Já. - Sjómannsefni? - Hann ætti að geta orðið það, Grímseyingur í móðurættina! Þar með sjáum við bát nálgast utan við innsiglinguna og við vendum fram á bryggju. Þegar við erum að leggja af stað snarar Einar sér að okkur og segir formálalaust: - Þið verðið að fá í soðið, piltar. Eigið þið ekki konu og krakka og éta þau ekki fisk? Og áður en varir er ljuffengt nýmetið komið í skottið á bílnum. Ég hef tekið eftir því að það er eins og sumir sjómenn geti ekki kvatt mann við bátshlið án þess að bjóða manni í soðið. Úti á bryggjusporði sjáum við hvar Hrafn Sveinbjarnarson siglir inn rennuna, fer þessar köppu setubeygjur og "veltir súðavöngum", þegar fyrst er lagt hart í bak og síðan hart í stjór. Þeir kunna það þessir, þótt það sé eins og að skríða gegnum nálarauga að komast hér inn í höfnina. Um borð í Hrafni Sveinbjarnarsyni hittum við Eyfirðing, sem skipstjóra. Við fréttum raunar ekki af því fyrr en eftir ofurlitla stund. Það er heill hópur í brúnni, og við komumst að því síðar í umræðunum, að þarna eru þrír skipstjórar saman komnir. Raunar slapp einn út áður en við vissum þetta. Vélstjórinn kjaftaði svo mikið að skipstjórinn komst fyrir aftan okkur. Það sem meira var að þetta voru skipstjórarnir á Hröfnunum, Pétur Sæmundsson á Hrafni Sveinbjarnarsyni og Bjarni Þórðarson á Hrafninum öðrum og þessi rauðhærði, sem var af Hrafninum þriðja, slapp með nafnið. Og nú byrjar vélstjórinn aftur: -
Þið segið nefniega svo mikið um háu hlutina á bátunum að það geri stórskaða, jafnvel læknarnir segjast ekki hafa nóg kaup og hlaupa bara úr landi. Og kokkurinn tekur undir. - Já, þetta eru meiri helvítis skrifin um háu hlutina. Við reynum í allri auðmýkt að koma því að, að við getum nú stundum um meðaltalsafla og meðaltalshlut. - Taktu ekkert mark á þeim. Þetta er kokkandskotinn að rífa kjaft. Svona verið þið ekkert að skamma mennina. Þeir eru mínir gestir. Það er skipstjórinn sem tekur orðið. Og auðvitað lendir þetta í snakki og hlátri, allt eins og vera ber. Talað á heiðarlegu sjómannamáli, nokkuð á hærri tónunum og með stærri orðunum. Þarna kann ég vel við mig. Ég heimta kaffi og engar refjar. Og ekki stendur á kokknum. Svo förum við að rabba við þá skipstjórana, Pétur og Bjarna, sem báðir eru ungir menn aldir upp á og við sjóinn, Pétur fyrir norðan en Bjarni hefir róið frá Grindavík í 15 ár. Þeir láta lítið yfir aflanum þennan daginn, en vertíðin hefir verið góð. Hvað framundan er mun ekki fullráðið enn, kannske Pétur veiði fyrir Norðurstjörnuna, Bjarni fer senniiega á troll. Pétur langar ekki norður eftk- á sáMina, til að hadda þar sjó vikum saiman í hríð og hraglanda um hásumar, frekar er það þá Norðursjórinn. Á þessari vertíð hafa landlegur engar verið og sennilega aldrei verið dregið í lakara veðri en í vetur. Þeir eru báðir með net.
Ástæðan er að nú er lagt svo mikið upp úr góðum fiski. Og nú eru Norðmennirnir búnir að finna síldina við Írland. Reykjaborgin var víst að fara í Norðursjóinn. Svo höfum við heyrt í talstöðini að Örfiriseyjan ætli til Ameríku eins og Örninn. Eitthvað að glæðast þar.
Þannig hirðum við fréttirnar upp á stangli. Niðri í matsal liggur harmónikka á borðinu. Það kemur í ljós að það er heil hljómsveit um borð. Kokkurinn gefur okkur kræsingar með kaffinu og við tölum um hvað sjómennirnir fari að gera þegar þeir gerast sjóþreyttir, netagerð, slorið í landi, verkstjórar, vasast eitthvað við útgerðina. - Maður er að verða vitlaus af hávaðanum, segir vélstjórinn. - Búinn að vera nokkuð lengi. Fer sennilega að fara í land. Verði maður eldri í þessu fer maður aldrei í land. Konunni og krökkunum farið að leiðast þetta. Maður er aldrei heima. Ég er líka skemmtilegur maður. Við hlæjum. Víst er hann skemmtilegur maður, skrafhreyfinn og vingjarnlegur. - Þetta hefir gengið vel. Fyrst lentum við á balli og dönsuðurn okkur í stuð. Þannig er rabbað, allt í léttum tón, en alvarlegri undiröldu, eins og gengur í góðu sjólagi. Uppi á bryggju hittum við Björgvin Gunnarsson, skipstjóra á Geirfuglinum. Hann er með næstmestan afla Grindavíkurbátanna. Björgvin er borinn og barnfæddur Grindvíkingur og þekkir miðin eins og lófann á sér. - Ætli við séum ekki að nálgast 1250 tonn, segir hann, eftir að við höfum spurt ákaflega varfærnislega eftir dembuna í brúnni á Hrafni Sveinbjarnarsyni. Björgvin segir okkur að hann sé með 5-6 tonn eftir daginn, góður fiskur, þar á meðad 10 kg. ýsa, sú stærsta sem hann man eftir að hafa fiengið eða séð. - Það hefir verið mjög góð afkoma á veiðarfærunum í vetur. Við höfum aðeins tapað einu neti, segir Björgvin og kveður um leið og hann býður okkur í soðið. En nú getum við ekki þegið meira af því tagi. Bátarnir verða að vera komnir snemma að á morgun (30. apríl). Allt verður að vera búið fyrir miðnætti. 1. maí er helgari en jólin. Við verðum líklega að vera komnir inn fyrir klukkan þrjú á morgun. Það má ekki einu sinni jæja, eftir miðnætti, sagði einn skipstjórinn við okkur.
Þar með kveðjum við Grindavíkurhöfn og vonum að þeir dansi sig í lokastuðið á góðu balli 1. maí.

Morgunblaðið. 1 maí 1969.



  • 1
Antal sidvisningar idag: 378
Antal unika besökare idag: 26
Antal sidvisningar igår: 568
Antal unika besökare igår: 68
Totalt antal sidvisningar: 1075758
Antal unika besökare totalt: 77627
Uppdaterat antal: 28.12.2024 05:57:47