Blogghistorik: 2016 Länk

31.05.2016 09:05

1548. Barði NK 120. TFTS.

Barði NK 120 var smíðaður hjá Stocznia in Komuny Paryskiej í Gdynia í Póllandi árið 1975. 453 brl. 1.500 ha. Crepelle díesel vél. Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað kaupir skipið í Frakklandi í desember árið 1979, hét áður Boulonnais. Skipið kom fyrst til heimahafnar í Neskaupstað 23 janúar 1980. Skipið var selt 14 nóvember 1989, Gunnvöru h/f á Ísafirði, hét Guðrún Jónsdóttir ÍS 279. Togarinn var seldur úr landi 1 júní árið 1990.


Barði NK 120 í Norðfjarðarhöfn.                                                            (C) Mynd: SVN Neskaupstað.


Guðrún Jónsdóttir ÍS 279.                                                                               Ljósmyndari óþekktur.

30.05.2016 09:10

B.v. Skallagrímur RE 145 sekkur...

Sumarið 1916 stundaði Kveldúlfstogarinn Skallagrímur RE 145 síldveiðar við Norðurland. Kom togarinn til Reykjavíkur á haustmánuðum og var þá þegar hafist handa við að búa það undir þorskveiðar. Vélin var yfirfarin og skipið þrifið hátt og lágt. Þann 6 október var þetta verk svo langt komið að flutt voru kol um borð í skipið. Lauk þeirri vinnu undir myrkur og fóru síðan allir í land utan tveggja manna sem áttu að vera verðir um borð í því um nóttina.
Undir miðnætti varð maðurinn sem vakti, þess var að skipið var tekið að hallast. Fór hann þá og athugaði með lestar skipsins og sá að mikill sjór var kominn í þær. Vakti hann þá félaga sinn og settu þeir skipsbátinn á flot og réru til lands. Þegar þeir yfirgáfu Skallagrím var auðséð að skipið var komið af því að sökkva.

Skallagrímur sokkinn við Reykjavíkurhöfn. Björgunarskipið Geir til vinstri og togarinn Snorri goði RE 141 vinna við að ná togaranum upp.                                         (C) Mynd: Handels & Söfartsmuseets.dk.

Vaktmennirnir hröðuðu sér heim til Guðmundar Jónssonar skipstjóra á Skallagrími, vöktu hann og sögðu hvernig komið væri. Lét Guðmundur þegar kalla út menn og var síðan róið út til togarans. En þegar komið var á staðinn var Skallagrímur sokkinn. Svo grunnt var þar sem skipið sökk að siglur þess og reykháfur stóðu að mestu upp úr.
Björgunarskipið Geir lá á Reykjavíkurhöfn er þetta gerðist og var þegar haft samband við forráðamenn þess og óskað eftir því að reynt yrði að ná Skallagrími upp. Þegar var hafist handa. Kafari frá Geir var látinn kanna skipið og kom þá strax í ljós ástæðan fyrir því að það sökk. Þegar kolin voru sett í skipið hafði gleymst að loka fyrir eimþéttiventlana á hliðum skipsins, en þeir voru upp úr sjó áður en kolafarmurinn var settur um borð. Þétti kafari öll göt á skipinu og síðan hófust tilraunir til þess að dæla sjónum úr því. Lyftist stefni Skallagríms fljótt úr sjó, en afturhluti skipsins haggaðist hins vegar ekki.


Kveldúlfstogararnir Skallagrímur RE 145 og Snorri goði RE 141 á ytri höfninni í Reykjavík.
                                                                                                          Ljósm: Magnús Ólafsson.

Voru menn orðnir vondaufir um að Skallagrímur næðist á flot, er Jessen, sem þá var skólastjóri Vélskólans, benti Ungerskov, skipstjóra á Geir, á leið til þess að ná skipinu upp. Lagt var fleka við hlið Skallagríms og dælum björgunarskipsins komið fyrir á honum. Geir var síðan lagt við skutinn á Skallagrími og vírum smeygt gegnum skrúfugatið á honum og brugðið á vindur björgunarskipsins. Jafnframt var svo togarinn Snorri goði RE 141 fenginn til þess að draga Skallagrím upp á grynnra vatn.
Heppnaðist þessi aðgerð vel og náðist Skallagrímur von bráðar upp, en töluverðar skemmdir urðu á skipinu og þá sérstaklega á vélum þess. 


B.v. Skallagrímur RE 145 var smíðaður hjá Dundee Shipbuilders & Co Ltd í Dundee í Skotlandi árið 1905. 258 brl. gufuvél, stærð ókunn. Hét áður Gloria. h/f Kveldúlfur í Reykjavík kaupir togarann árið 1912 og gerir hann út til ársins 1920 að hann var seldur til Grimsby.           Ljósm: Magnús Ólafsson, mynd á póstkorti.

Heimild: Þrautgóðir á raunastund. lX. bindi bls. 34-35.


29.05.2016 06:24

Rigmor. NTHK.

3 mastra skonnortan Rigmor var smíðuð úr járni hjá P.Ph. Stuhrs Maskin & Skibsbyggeri í Álaborg í Danmörku árið 1915 fyrir F.L. Knakkergaard í Nýköbing á Sjálandi í Danmörku, smíðanúmer 6. 161 brl. 80 ha. Goedkoop díesel vél. Hét fyrst A.H. Schade. Selt 12 maí Firmanu Wilhelm R. Maegaard í Óðinsvé í Danmörku, fær þá nafnið Rigmor. Selt 23 febrúar 1917, Konráð Hjálmarssyni kaupmanni og útgerðarmanni á Nesi í Norðfirði. Rigmor var í saltfiskflutningum frá Norðfirði til Ibiza á Spáni og kom jafnan fulllestað af salti og öðrum suðrænum vörum heim. Skipið lagði upp í sína síðustu ferð frá Norðfirði 28 september 1918. Það síðasta sem vitað var um ferðir þess að þann 14 janúar 1919 lagði það af stað frá Lissabon í Portúgal áleiðis til Norðfjarðar. Ekkert spurðist til ferða þess eftir þetta, en álitið var að það hefði jafnvel rekist á tundurdufl og farist. Áhöfnin, 7 menn fórust með Rigmor.

 
Rigmor á Norðfirði árið 1917. Ljósm: Björn Björnsson. Úr safni Þórðar M Þórðarsonar, birt með leyfi Finns Þórðarsonar sonar hans.
 

Árið 1917 þegar Konráð var staddur að vetrarlagi i Kaupmannahöfn, keypti hann þrímastraða mótor-skonnortu um 160 smálestir, sem hann ætlaði að hafa í flutningum á vörum frá Noregi, Svíþjóð og aðallega frá Kaupmannahöfn, þar sem hann hafði mest viðskiptin, en þá var heimsstyrjöldin komin og breytti hún þessu áformi hans þannig, að hann varð að nota hana til fiskflutninga til ítalíu og Spánar og til baka með saltfarma frá Ibiza. Sjálfur segir Konráð að skonnortan hafi verið of lítil í svona langferðir. Skonnortan, sem hét Rigmor, fór síðla árs 1918 til Miðjarðarhafslanda og á heimleið tók hún fullfermi af salti í Ibiza. Var siðan siglt til Lissabon í Portúgal, þar sem skipið lá hinn 1. desember 1918 og var eitt af þrem íslenzkum skipum, sem þá dró íslenzka fánann i fyrsta sinn að húni í erlendri höfn. Hélt Rigmor síðan af stað til Norðfjarðar, en frá því að skonnortan hélt út frá Lissabon hefur ekkert, til hennar spurst. Talið er að hún hafi rekist á tundurdufl.

Morgunblaðið 7 apríl 1977.

Mótorskonnortan Rigmor var í Gíbraltar 1. desember 1918, á fullveldisdaginn, og drógu skipverjar þar íslenska fánann að húni. Rigmor varð því fyrsta skipið til að sigla undir íslenskum fána á Miðjarðarhafi. Af þessu tilefni sendi áhöfnin heillaskeyti til Íslands og var þess getið í Morgunblaðinu 4. og 5. Rigmor var eign Konráðs Hjálmarssonar, kaupmanns og útgerðarmanns á Norðfirði. 25. nóvember hafði Ólafur skipstjóri fengið skeyti frá Konráð þar sem honum var tjáð að búið væri að opna venjulega siglingaleið til Færeyja eftir lok heimsstyrjaldarinnar fyrri, en þaðan hafði skipið lagt af stað 28. september. Daginn eftir lagði Rigmor úr höfn í Barcelona á Spáni. Skipið tepptist í Gíbraltar í þrjár vikur, en á aðfangadagskvöld jóla var akkerum varpað í Lagosflóa í Portúgal þar sem áhöfnin beið af sér óveður. 14. janúar 1919 var báturinn í Lissabon í Portúgal og var lagt úr höfn þann dag. Þaðan sendi skipstjórinn síðustu bréfin, sem frá honum bárust, en frá Gíbraltar hafði hann sent konu sinni í Kaupmannahöfn dagbók frá ferðinni.

Ekki er vitað hvaða dag Rigmor fórst. Næstu daga eftir að siglt var frá Lissabon gekk á með ýmsu veðri, stormi og illviðri milli þess sem veðrið gekk niður. Hafi Rigmor staðið af sér veðrin í janúar gæti hún hafa farist í fárviðri, sem brast á 10. febrúar með miklum sjó suðvestur af Írlandi og Skotlandi.Þess má hins vegar geta að á siglingaleið skipsins frá Gíbraltar var á stríðsárunum 1914 til 1918 mikið um tundurdufl. Töldu margir að Rigmor hefði siglt á tundurdufl.
Lengi mun hafa verið vonað að skipið eða einhver úr áhöfn þess kæmi fram, en ekki verður séð í dagblöðum frá þessum tíma eða annars staðar að þess hafi verið getið hér á landi að Rigmor hafi farist með allri áhöfn.
Kristján konungur 10. afhjúpaði 29. maí 1928 minnismerki um danska sjómenn, sem taldir voru hafa farist af völdum stríðsins. Á stöpul minnismerkisins er, meðal annarra, greypt nafn Rigmor og nöfn þeirra, sem fórust með skipinu.
Þeir voru Ólafur Sigurðsson skipstjóri, sem búsettur var í Kaupmannahöfn, Ólafur Ólafsson stýrimaður, sem búsettur var í Vestmannaeyjum, Jóhann Jóhannsson vélamaður frá Mjóafirði, Karl Lárusson háseti, búsettur í Norðfirði, Þorsteinn Jóelsson matsveinn, búsettur í Reykjavík, Frímann Guðnason háseti, búsettur í Reykjavík og Guðjón Helgason háseti, búsettur í Vestmannaeyjum.

Morgunblaðið 3 júní 2000.

28.05.2016 10:25

Geir. Björgunarskip. NRBT / OXVC.

Björgunarskipið Geir var smíðað hjá A/G Weser Werk Seebeck Shiffsværft í Bremerhaven (Geestemunde) í Þýskalandi árið 1909, smíðanúmer 285. 323 brl. 625 ha. 3 þjöppu gufuvél. Eigandi var Em. Z. Svitzers Bjernings-Enterprise A/S í Kaupmannahöfn.  Geir var lengi björgunarskip hér við land, en var alla tíð undir dönsku flaggi. 9 apríl árið 1940 var Geir tekinn í þjónustu bandamanna við Gíbraltar og Tangier í Marokko. Skipið sökk undan ströndum NV Afríku, 2 febrúar 1943 eftir að það rakst á tundurdufl þegar það var á leið til Casablanca í Marokko.


Geir í Reykjavíkurhöfn.                                                                 (C) Handels & Söfartsmuseets.dk

Björgunarskipið "Geir" var sérstaklega smíðað til björgunar og viðgerðar við strendur Íslands, og var það eitthvert vandaðasta björgunarskip, sem þá var til í heiminum. Skipið var smíðað í Gestemunde í Þýzkalandi árið 1909, og hafði það öll hin fullkomnustu björgunartæki, sem þá var völ á, þar á meðal margar mótordrifnar dælur bæði 3t., 4t., 6t. og 8t. og vanalegar 26t. dælur. Einnig voru gufudælur 6 og 8 t. og sérstakur flytjanlegur gufuketill var einnig á skipinu. öllum þessum dælum fylgdu fyrnin öll af slöngum, en í vélarúmi skipsins voru svokallaðar fastadælur, sem ekki voru flytjanlegar, þar á meðal 4 t. stimpildælur til eldvarna (Þrýstidælur). Þar var einnig stærsta dæla skipsins, 15 t. dæla, sem sogaði að sér með 5-6 t. slöngum. Geir var einnig útbúinn með sérstaklega sterku ankerisspili og rammgerum lyftitækjum, en við björgunarstarfið var bæði notað vélaafl skipsins, ankerin og hið sterka spil, svo og öll sjómennskukunnátta til hins ýtrasta. Voru notaðar margskonar talíur til gufuspilanna. Í vélarrúmi skipsins var eitt hið fullkomnasta viðgerðaverkstæði, og þar á meðal fyrstu þrýstiloftsverkfæri, er til landsins komu. Þegar um björgun skipa var að ræða, var unnið nótt og dag, og voru allir til aðstoðar, þar sem helzt þurfti í það og það skiptið, og var maður þá, eins og skiljanlegt er, til aðstoðar við öll þessi margvíslegu tæki, og var auðvitað mikið að læra og margvíslegar nýjungar að sjá fyrst í stað. Öll þessi áhöld voru reynd vikulega og vel við haldið, svo og öllu skipinu, enda þótti "Geir" hin mesta bæjarprýði".

Sjómannablaðið Víkingur. 7-8 tbl. 1951. Viðtal við Ársæl Jónasson kafara sem var um tíma á Geir.

27.05.2016 12:20

E.s. Columbus. TFLB.

Columbus var smíðað í Bergen í Noregi árið 1911. 1.185 brl. 1.500 ha. 3 þjöppu gufuvél. Skipið hét fyrst Commander Rollins. Fram h/f í Reykjavík (Árni Gunnlaugsson skipstjóri, Þorsteinn Þorsteinsson og fl.) keypti skipið 28 ágúst árið 1934. Columbus var í vöruflutningum milli Íslands og Evrópulanda og flutti bæði stykkjavörur og þungavörur í heilum förmum. Skipið var selt til Svíþjóðar árið 1936.


E.s. Columbus.                                                                                Málverk, myndasmiður óþekktur.

26.05.2016 10:22

Tuneq GR 6-40 í slippnum í Reykjavík.

Ég tók þessa myndasyrpu af skipinu á meðan verið var að mála það. Tuneq var tekinn upp 18 apríl og að lokum settur niður að kvöldi hinn 4 maí. Skipið hét upphaflega Helga ll RE 373 í eigu Ingimundar h/f í Reykjavík og var smíðuð í Noregi árið 1988. Bar einnig nafnið Þorsteinn EA 810 og ÞH 360.


Tuneq á leið í slippinn í Reykjavík 18 apríl 2016.


Tuneq kominn upp að kvöldi 18 apríl 2016.


Tuneq að kvöldi 19 apríl 2016.


Tuneq að kvöldi 25 apríl 2016.


Tuneq að kvöldi 26 apríl 2016.


Tuneq að kvöldi 27 apríl 2016.


Tuneq að kvöldi 28 apríl 2016.


Tuneq að kvöldi 2 maí 2016.


Tuneq að kvöldi 3 maí 2016.


Tuneq 4 maí 2016.


Tuneq að kvöldi 4 maí 2016. Skipið komið niður og málningarvinna að hefjast ofan dekks.


Tuneq GR 6-40 við Grandagarð 19 maí 2016. Skipið fullmálað.

                                                          (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 18 apríl 2016 til 19 maí 2016.

25.05.2016 09:50

B.v. Jón Ólafsson RE 279. TFWD.

Jón Ólafsson RE 279. ex Loch Seaforth, smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi fyrir Loch Fishing & Co Ltd í Hull árið 1933. Hann var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir þetta útgerðarfélag. 425 brl. 700 ha. 3 þjöppu gufuvél. 154 ft.á lengd (47m). Seldur h/f Alliance í Reykjavík, 17 mars árið 1939. Fékk nafnið Jón Ólafsson RE 279. Togarinn fórst á leið frá Englandi til Íslands, 23 október 1942, með allri áhöfn,13 mönnum. Talið að togarinn hafi farist af hernaðarvöldum, en það er og verður óstaðfest.

Alliancetogarinn Jón Ólafsson RE 279 að veiðum.                                                                Ljósmyndari óþekktur.  

Togarinn Jón Ólafsson talinn af

Ekkert hefur til hans spurst í 14 daga. Á togaranum var 13 manna áhöfn.

Enn er höggvið stórt skarð í íslenzka sjómannastétt. Togarinn "Jón Ólafsson" er talinn af. Á honum var 13 manna áhöfn. í 14 daga hefur ekkert til skipsins spurzt. Er því talið að þessir 13 sjómenn vorir hafi orðið vörgum eða vítisvélum hafsins að bráð, eins og 'skipshafnirnar á Reykjaborg, Pétursey og öðrum þeim skipum, sem vér áður höfum misst. "Jón Ólafsson" fór frá Englandi 21. október, og eðlilegum tíma síðar mætti togarinn Karlsefni honum norðan við Skotland. Síðan hefur ekki til hans spurzt, þótt spurnum hafi verið haldið uppi. Lét því eigandi skipsins, Alliance h.f., tilkynna að- standendum skipshafnarinnar í gær að vonlaust væri talið, að skipið kæmi fram.

Á "Jóni Ólafssyni" var 13 manna áhöfn, og voru það þessir menn: Sigfús Kolbeinsson, skipstjóri, Hringbraut 64, f. 19. nóv. 1904, kvæntur. Helgi Kúld Eiríksson, 1. stýrimaður. Sóleyjargötu 12, f. '21. apríl 1906, ókvæntur. Haraldur Guðjónsson, 2. stýrimaður, Lokastíg 15, f. 27. apríl 1904, kvæntur. Guðmundur Óskarsson, loftskeytamaður, Reynimel 58, f. 5. ágúst 1918, ókvæntur. Ásgeir Magnússon, 1. vélstjóri, Vesturgötu 65, f. 30. marz 1903, kvæntur. Valentínus Magnússon, 2. vélstjóri, Hverfisgötu 82, f. 19. júní 1900, kvæntur. Þorsteinn Hjelm, kyndari, Höfðaborg 75, f. 5. okt. 1918, ókvæntur. Karel Ingvarsson, kyndari, Lambastöðum, Seltjarnarnesi, f. 24. janúar 1899, kvæntur. Gústaf Gislason, matsveinn, Fálkagötu 19; f 20 júlí 1905, kvæntur.  Sveinn Markusson, haseti,  Kárastíg 8, "f. 25. júní 1911, ' kvæntur. Erlendur Pálsson, háseti, Hjálmstöðum, Árnessýslu, f. 18. janúar 1910, ókvæntur. Vilhjálmur Torfason, netamaður, Höfðaborg 61, f. 25. apríl 1906, kvæntur. Jónas Bjarnason, háseti, Langholtsveg 12, f. 8. júní 1918, kvæntur. "Jón Ólafssorí' var einn af nýjustu togurunum, byggður 1933, var 425 tonn. Númer hans var R E 279.

Þjóðviljinn 6 nóvember 1942.

ATH. Ég setti inn færslu um Jón Ólafsson RE 279 hér á síðuna 14 sept. síðastliðinn, en þar sem mér hefur áskotnast betri mynd þá uppfærði ég færsluna ásamt því að setja inn nöfn áhafnarinnar.
Einnig set ég inn hér álit sem kom frá Sjöfn Rafnsdóttur í fyrri færslu en það hljóðar svo.;

Frá vísindavefnum: Þetta var einn af stærstu togurum okkar, alls 425 brl., vel búinn og mikið aflaskip. Því var mikil eftirsjá í honum. Í ljós kom að kafbáturinn U-383 undir stjórn Horst Kremsers hafði rambað á Jón Ólafsson á heimleið frá Bretlandi djúpt suður af Ingólfshöfða, líklega við hnitin 61°N, 15°V. Líkt og átti við um Jarlinn rúmu ári áður kom ekki í ljós fyrr en eftir stríð hver afdrif skipsins urðu. Jón Ólafsson reyndist eina fórnarlamb U-383 í stríðinu.

                              

24.05.2016 10:21

E.s. Magni l. Dráttar og Hafnsöguskip. TFHB.

Magni var smíðaður hjá Reiherstieg Schiffwerft í Hamborg árið 1920. Hét fyrst Minna Schupp, 110,5 brl. 325 ha. 2 þjöppu gufuvél. Eigandi var Hafnarnefnd Reykjavíkur frá 18 júní árið 1928. Kom fyrst til heimahafnar 7 júlí það ár. Magni var talinn ónýtur árið 1955 en skrokkur hans var lengi notaður sem flotbryggja fyrir hafnsögubáta Reykjavíkurhafnar.


Magni l á Reykjavíkurhöfn stuttu eftir komu hans til landsins.                              Ljósmyndari óþekktur.


Magni l stuttu áður en hann var tekin úr notkun.                                             Ljósm: Hannes Pálsson.


E.s. Minna Schupp í slipp í Hamborg vorið 1928.                                               Ljósmyndari óþekktur.

Grípum hér aðeins niður í frásögn Geirs Sigurðssonar skipstjóra um kaupin á Magna, en hann var einn þeirra sem fór til Þýskalands vorið 1928 þeirra erinda að fá dráttarskip fyrir Reykjavíkurhöfn,;

Það var snemma á árinu 1928, að hafnarnefnd Reykjavíkur ákvað að festa kaup á dráttarbát handa Reykjavíkurhöfn. Áður hafði verið notast við mótorbáta, sem að vísu voru góðir, svo langt sem þeir náðu, en gátu ekki með nokkru móti annað hlutverki sínu lengur, ekki síst eftir að skipakomur tóku stórlega að aukast til Reykjavíkur og skipin jafnan að stækka, sem hingað komu. Mótorbátarnir voru of afllitlir og gátu því ekki veitt þá aðstoð, sem nauðsynlegt var, einkum ef einhver vindur var, en hér er sjaldnast logn eins og alkunna er.
Svo var ráð fyrir gert, að báturinn ætti að vera byggður sem ísbrjótur, og svo stór, að nota mætti skipið í smá björgunarleiðangra í nágrenni Reykjavíkur. Þórarni Kristjánssyni hafnarstjóra, þeim mæta manni, höfðu borist mörg tilboð í slíka dráttarbáta, og fól hafnarnefnd honum og mér að velja úr þeim og gera tillögu um kaup á bátnum. Er skemmst af að segja, að við fórum utan í maímánuði 1928, og festum kaup á ísstyrktum dráttar- og björgunarbáti, e.s. "Minna Schupp" frá Hamborg. Kom báturinn hingað til Reykjavíkur 7.júlí.
Báturinn, sem hlaut nafnið "Magni", var smíðaður hjá Reiherstieg Schiffwerft í Hamborg árið 1920, 26,6 metra langur, 6 metra breiður og 110,5 brúttólestir að stærð. Skrokkurinn var gerður úr 13 mm. Plötum að framan, aftur að vélarrúmi, og 10 mm. Plötum þar fyrir aftan. Vélin var 325 hestöfl.
Koma "Magna" til Reykjavíkur var merkisatburður í sögu hafnarinnar og bæjarins, og var nú sýnt, að Reykjavík var í alvöru að slíta barnsskónum sem nútíma hafnarborg.

Endurminningar Geirs Sigurðssonar skipstjóra. Bls.102-103. Setberg 1955.


23.05.2016 11:51

Náttúruperlan Flatey á Breiðafirði.

Góðri vinnuferð í Flatey lokið í blíðskaparveðri yfir helgina. Ég gaf mér þó smá tíma og rölti um þorpið með myndavélina og smellti af myndum af því sem fyrir augu bar í þessari paradís sem á fáa sína líka hér á landi.

 
Þorpið í Flatey á Breiðafirði.


Frá vinstri talið eru, Vorsalir, Ásgarður, Vogur, Gamla Pakkhúsið, Félagshús og Gunnlaugshús aftan við það sambyggt.


Annar björgunarbáturinn af togaranum Þormóði goða RE 209. Hann er nú notaður til fjárflutninga í dag.


Báturinn okkar, Þorbjörg BA 81 sem við vorum að gera kláran fyrir dúnleitirnar sem hefjast eftir nokkra daga.


2084. Djúpey BA 151 við bryggju í Flatey.


Breiðafjarðarferjan Baldur að koma frá Brjánslæk með viðkomu í Flatey.
                                                                             (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 20-22 maí 2016.


20.05.2016 01:01

Cape Race í slippnum í Reykjavík.

Cape Race var smíðaður hjá Shipyard of George T Davie & Sons í Quebec í Kanada árið 1963 sem djúpsjávartogari sem stundaði veiðar við Labrador og á miðunum við Nýfundnaland. Hann var gerður út frá Halifax á Nýfundnalandi. Er í dag rannsóknar og farþegaskip á norðurslóðum. Skipið er 110 ft á lengd og er með 3.512 ha. Caterpillar vél (1996). Skipið getur siglt um 7.000 mílur án þess að taka olíu. Skipið er skráð í New York. Cape Race er búinn að liggja í Sundahöfn síðan í september. Lítið annað veit ég um þetta skip. Tók þessar myndir af skipinu í dag í slippnum. Hann er fallegur skrokkurinn á honum.


Cape Race í slippnum í Reykjavík.


Cape Race.


Cape Race.


Cape Race.


Cape Race.                                                              (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 19 maí 2016.

P.S. Ég læt þessar myndir njóta sín hér á síðunni fram yfir helgi, þar sem ég er að fara vestur í hina rómuðu paradís, Flatey á Breiðafirði. Óska ykkur öllum sem þetta lesa góðrar helgar.


19.05.2016 08:05

Hafstein ÍS 449. LCKG / TFND.

Hafstein ÍS 449 var smíði númer 895 hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1919. Hét fyrst Michael Mcdonald og var í eigu breska flotans. 313 brl. 600 ha. 3 þjöppu gufuvél. Seldur sama ár Hudson Brothers Ltd í Hull, fær nafnið Kanuck H 123. Togarinn var seldur h/f Græði á Flateyri árið 1925 og fær nafnið Hafstein ÍS 449. Árið 1935 er skráður eigandi Gnótt h/f á Flateyri. Seldur árið 1938 Gnótt h/f á Grundarfirði. Seldur 1939 h/f Mars í Hafnarfirði, fær nafnið Hafstein RE 156. Seldur í júlí 1944 Einari Einarssyni í Grindavík, hét Hafstein GK 363. Í október sama ár er Ólafur E Einarsson h/f í Keflavík eigandi skipsins. Selt h/f Vestra í Reykjavík árið 1945. Selt 1948 Dieselskipi h/f í Reykjavík. Selt sama dag Selvik p/f í Saurvogi í Færeyjum, hét Havstein VA 16. Togarinn var seldur í brotajárn til Danmerkur árið 1955 og rifinn í Odense sama ár.


Hafstein ÍS 449 í Reykjavíkurhöfn.                                                                  Ljósmyndari óþekktur.

18.05.2016 11:18

A. Snekkja. ZCDW2.

Snekkjan A var smíðuð hjá Blohm & Voss Shipyard í Hamborg í Þýskalandi árið 2008. Hét áður Sigma (SF99). 5.959 brl. 2 x 6.035 ha. MAN RK 280 díesel vélar. Skipið er 118 m. á lengd og 18 m. á breidd. Eigandi þess er Eurochem sem er í eigu Rússans Andrey Melnichenko. Skipið mun hafa kostað litlar 400 milljónir $. A er skráð á Bermúdaeyjum með heimahöfn í Hamilton. Skipið hélt af landi brott síðdegis í gær eftir að hafa tekið olíu í Örfirisey.


A að taka olíu í Örfirisey í gær.


Snekkjan A í Örfirisey.


Laugarnesið og A í Örfirisey.                                        (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 17 maí 2016.

17.05.2016 09:48

Kútter Hákon RE 113. LBPH.

Kútter Hákon RE 113 var smíðaður í Englandi (Yarmouth ?) árið 1878. Eik og fura 74 brl. 57 ha. Alpha vél. Hét fyrst hér á landi Haraldur og fékk einkennisnúmerið MB 1 seinna. Mun hafa heitið William Boyce í Englandi. Fyrsti eigandi hér á landi var Böðvar Þorvaldsson á Akranesi frá apríl árið 1897. Árið 1901 keyptu Einar Ingjaldsson á Bakka og Björn Hannesson, Litlateigi á Akranesi skipið. Skipið var selt 20 desember 1901, Árna Kristni Magnússyni, Eyjólfi Eyjólfssyni, Carli Bjarnasen og Þórði Pjeturssyni í Reykjavík, skipið fær nafnið Hákon RE 113. Selt 24 maí 1907 Árna Magnússyni og Þórði Pjeturssyni í Reykjavík. Selt 6 október 1910 Firmanu H.P. Duus í Reykjavík. Skipið strandaði við Grindavík 9 maí árið 1926, hét þá Hákon RE 113. Áhöfnin, 21 maður, bjargaðist í skipsbátnum til lands.


Kútter Hákon RE 113.                                                                       (C) Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Hinn gamli góðkunni slagari: Kátir voru kallar af kútter Haraldi, hefur gert þetta litla fiskiskip nær ódauðlegt, því enn er sungið um kallana á kútter Haraldi, og margir munu þeir vera sem halda að kútter Haraldur sé einhverskonar þjóðsagnaskip.

Hann hafði verið keyptur hingað til lands árið 1898. Nokkru eftir að kútterinn kom, en eigandi hans var Geir Sigurðsson skipstjóri og fleiri, kom Geir til Akraness á skipi sínu Og lagði því við festar á legunni. Fór hann í land til þess að hitta kunningja sína, en meðal þeirra var Böðvar kaupmaður Þorvaldsson. Meðan Geir var í landi skall á ofsaveður. Kútterinn hét þá enn sínu skotzka nafni, en Geir hafði keypt hann í Skotlandi.

Þegar óveðrið stóð sem hæst Og menn óttuðust að kútterinn myndi þá Og þegar slitna upp Og reka upp í stórgrýtið, hafði Geir sagt við lítinn son Böðvars, Harald, að nú skyldi hann heita á hann: Ef að kútterinn færi ekki upp í þessu ofsaveðri, skyldi hann láta skíra kútterinn Harald. Svo varð. Festar kúttersins héldu og veðrinu slotnaði og Geir stóð við sitt heit kútterinn var skírður Haraldur og einkennisstafirnir MB 1.- Haraldur þessi varð er honum óx fiskur um hrygg einn mesti athafnamaður landsins og er það hinn þjóðkunni útgerðarmaður Haraldur Böðvarsson á Akranesi. En það er af kútter Haraldi að segja að hann var síðar seldur til Reykjavíkur, en meðan hann var á Akranesi var hann hið mesta happaskip, eins Og vísan sem Geir skipstjóri gerði sjálfur um hina kátu kalla á kútter Haraldi. Eftir að hann kom til Reykjavíkur var hann skírður upp á ný og hlaut nafnið Hákon og hann strandaði 1926 í Grindavík. Bar kútterinn beinin þar.

Morgunblaðið 3 maí 1961.

16.05.2016 10:12

Skeljungur l. TFIB.

Skeljungur l var smíðaður í Amsterdam í Hollandi árið 1928 fyrir Olíusöluna í Reykjavík. 223 brl. Frá árinu 1932 er Shell h/f í Skildingarnesi talið eigandi skipsins. Skipið var lengt í Hollandi árið 1934 og mældist þá 247 brl. Þá var sett í það 375 ha. Kromhout vél. Skeljungur var fyrsta olíuflutningaskip (tankskip) í íslenskri eigu. Skipið var alla tíð í flutningum milli hafna á Íslandi. Skipið var selt 26 maí árið 1947, Grana h/f á Hjalteyri í Eyjafirði sem lét breyta því í síldveiðiskip. Skipið hét Snerrir EA 771. Skipið sökk á Skagagrunni 12 júlí 1947. Áhöfnin, 21 maður, bjargaðist í nótabátana.

 
Skeljungur l að losa olíutunnur í Vestmannaeyjum.                                             Ljósmyndari óþekktur.

15.05.2016 09:40

1046. Birtingur NK 119. TFBQ.

Birtingur NK 119 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrik Verksted A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1967 fyrir Síldarvinnsluna h/f í Neskaupstað, smíðanúmer 91. 306 brl. (275 brl.ný mæling). 800 ha Lister díesel vél. Kom nýr til Neskaupstaðar 6 júlí 1967. Skipið var selt 14 desember 1972, Þrótti h/f í Grindavík, hét Albert GK 31. Skipið var lengt og yfirbyggt árið 1976, mældist þá 316 brl. Ný vél, 1.450 ha. Alpha díesel vél var sett í skipið 1977. Lengt aftur 1987, mældist þá 335 brl. Ný vél, 1.470 ha. MAN B&W, 1.081 Kw var sett í skipið 1989. Skipið var selt 1996, Oddeyri h/f á Akureyri, hét Oddeyrin EA 210. Frá 27 nóvember 1997 er Samherji h/f á Akureyri skráður eigandi skipsins. Skipið var selt til Danmerkur í brotajárn haustið 2005.


Birtingur NK 119. Myndin er tekin á Seyðisfirði.                                    (C) Mynd: SVN í Neskaupstað.


Albert GK 31.                                                                     (C) Mynd: Vigfús Markússon. Brimbarinn.


Oddeyrin EA 210 stuttu áður en skipið var selt í brotajárn 2005.          (C) Mynd: Guðbjörn Ármannsson.
Antal sidvisningar idag: 378
Antal unika besökare idag: 26
Antal sidvisningar igår: 568
Antal unika besökare igår: 68
Totalt antal sidvisningar: 1075758
Antal unika besökare totalt: 77627
Uppdaterat antal: 28.12.2024 05:57:47