Blogghistorik: 2024 N/A Blog|Month_3
31.03.2024 15:25
B.v. Garðar GK 25. LBJG / TFCD.
Botnvörpuskipið Garðar GK 25 var smíðaður hjá Smith´s Dock Co Ltd í South Bank í Middlesbrough í Englandi árið 1930 fyrir Einar Þorgilsson útgerðarmann og syni hans, Ólaf og Þorgils í Hafnarfirði. 462 brl. 860 ha. 3 þenslu gufuvél. 47,29 x 8,07 x 4,33 m. Smíðanúmer 918. Skipstjóri á Garðari var Sigurjón Einarsson sem ætíð var í fremstu röð aflamanna og brautryðjandi ýmissa nýjunga og gætinn skipstjórnarmaður. Garðar var fyrsti togarinn með dýptarmæli sem þá var neistamælir. Örlög Garðars urðu dapurleg. Hann var sigldur niður undan ströndum Skotlands 21 maí árið 1943 þegar hann var á leið til Englands í söluferð. 3 skipverjar fórust en 10 björguðust í skipsbát og var bjargað þaðan um borð í árekstrarskipið sem var Miguel de Larrinaga, 5.400 tonna kaupskip frá Liverpool.
B.v. Garðar GK 25. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
|
B.v. Garðar GK 25
Hinn 24. ágúst þ. á. kom nýr togari til Hafnarfjarðar. Heitir skipið »Garðar« og er eigandi kaupmaður Einar Þorgilsson. Skipið er smíðað af Smiths Dock Co. Ltd í Middlesborough. Það er 450,66 brúttó rúmlestir.
Það er stærsti togari á landinu. Hásetaklefi er mjög rúmgóður, bjartur og vel loftræstur; eru í honum 27 hvílur, 16 fataskápar, 3 þvottaskálar fyrir háseta ásamt 2 speglum. Undir hvalbak eru 2 skápar fyrir hlífðarföt háseta. Miðskips er skipstjóraherbergi með baðklefa og salerni. Aftan við stýrishúsið er loftskeytaklefi og miðunarstöð og í stýrishúsinu er dýptarmælir (Echo Sounder). Káeta er aftur í og þar eru hvílur fyrir 4 menn, herbergi fyrsta vélstjóra fyrsta stýrimanns og tveggja kyndara og svo búrið. Í káetu er þvottaskál fyrir þá, sem þar búa, og á skipinu eru þrjú salerni. Borðsalur er á þilfari fyrir aftan eldhúsið. Lifrarbrœðsluhúsið er allt úr járni, sambyggt skipinu. Allur útbúnaður á þilfari er ágætur. Vélin er 860 hestöfl, 15 V X 25" X 42"-27". Ketillinn er með yfirhitun og prýðilega frá öllu gengið. Í skipinu eru 2 ljósavélar, 5 og 2,5 K.W. Legufæri eru miklu öflugri en almennt eru á togurum. Þetta er hin helzta lýsing á þessu vandaða skipi. Í blaði hefir þess verið getið, að skipið hafi kostað hátt á 600 þúsund krónur, segjum að það kosti tilbúið á veiðar, 600 þús. kr., er þá verð hverrar brúttó smálestar í því, 1333 kr. Sama hlutfall kemur fram á 24 smálesta nýjum mótorbát, sem kostar 32 þúsund krónur, þar kostar einnig hver smál., 1333 kr.; sýnir það, að eftir því, sem nýsmíðuð skip eru minni, eftir því verður hver brútto smálest dýrari.
Ægir. 8 tbl. 1 ágúst 1930.
B.v. Garðar GK 25 á útleið frá Djúpavík. (C) Sigurjón Vigfússon.
|
Togarinn „Garðar" sekkur
Þrír menn fórust
Togarinn Garðar frá Hafnarfirði varð fyrir árekstri í þoku við Skotlandsstrendur s.l. föstudag um hádegi og sökk. Þrír menn af 13, sem á skipinu voru, fórust. Þeir sem fórust voru:
Oddur Guðmundsson, Smyrilsveg 22, Reykjavík. Hann var 1. vjelstjóri skipsins. Kvæntur maður.
Alfreð Stefánsson, kyndari, Kirkjuveg 5, Hafnarfirði. Kvæntur og átti 2 börn.
Ármann Óskar Markússon, háseti, frá Þykkvabæ í Rangárvallasýslu. Ókvæntur.
Hinir tíu, sem af komust, eru allir komnir til Aberdeen og líður þeim vel. Ræðismaður Íslands í Edinborg, mun vera kominn til Aberdeen til að aðstoða þá fjelaga. Fregnin um þennan sorglega atburð barst utanríkisráðuneytinu í gærkvöldi frá Pjetri Benediktssyni sendiherra í London. Var sagt í skeytinu að skipið hefði sokkið á 1 og ½ mínútu. Slysið vildi til nálægt Aberdeen.
B.v. Garðar var stærsta og nýjasta skip íslenska togaraflotans. Togarinn Garðar var byggður árið 1930 og því yngsti togarinn í flota okkar.
Garðar var 462 brúttósmálestir að stærð. Eigendur Garðars voru Einar Þorgilsson & Co. í Hafnarfirði. Frá því styrjöldin hófst hafa íslendingar þá misst 6 af togurum sínum,: Reykjaborg, Braga, Sviða, Jón Ólafsson, Gullfoss og nú Garðar.
Árið 1939 áttu Íslendingar 38 togara.
Morgunblaðið. 23 maí 1943.
29.03.2024 13:37
Þýskur kafbátur hótaði að sökkva togaranum Rán RE 54 við Skotlandsstrendur.
Í enduðum októbermánaðar árið 1916 hélt botnvörpuskipið Rán RE 54, eign Ægisfélagsins í Reykjavík áleiðis til Fleetwood í Englandi með ísfisk sem átti selja þar. Þegar togarinn var staddur um 70 sjómílur út af Barra Head við Skotlandsstrendur var hann stöðvaður af þýskum kafbát. Þegar kafbátsmenn komust að því að togarinn væri á leið til Fleetwood með fisk sem selja ætti þar, gaf kafbátsforinginn fyrirmæli um að togarinn yrði yfirgefinn og honum síðan sökkt. Skipstjóri Ránar, Finnbogi Finnbogason segir í greininni hér fyrir neðan frá viðskiptum skipverja við þýsku kafbátsmennina.
Botnvörpuskipið Rán RE 54 var byggt hjá Schiffsbau Gesellschaft Unterweserwerft í Lehe (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1915 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Ægir (Magnús Th. S. Blöndahl framkvæmdastj) í Reykjavík. 262 brl. 400 ha. 3 þenslu gufuvél. 39,97 x 7,16 x 3,83 m. Smíðanúmer 109. Rán var fyrsti togarinn sem smíðaður var í Þýskalandi fyrir Íslendinga. Togarinn stundaði veiðar við Nýfundnaland sumarið 1918 og seldi afla sinn þar í landi. Mun líklega vera fyrsti íslenski togarinn sem stundaði veiðar á fjarlægum miðum. Seldur árið 1919, Ásgeiri Péturssyni útgerðar og kaupmanni á Akureyri, hét Rán EA 386. Seldur 23 janúar 1924, Fiskiveiðafélaginu Höfrungi í Hafnarfirði, hét þá Rán GK 507. Seldur 1935, Hlutafélaginu Rán í Reykjavík, sama nafn og númer. Seldur 23 júní 1939, Hlutafélaginu Djupavík í Reykjarfirði á Ströndum, hét þá Rán ST 50. Seldur 27 febrúar 1946, Pf. Kongshafnar Trolarafelagi í Saltangará (Símun á Högabóli og J.E. Simonsen) í Færeyjum, hét þar Urd FD 435. Togarinn var seldur í brotajárn til British Iron & Steel Corporation Ltd. Í London og tekinn af færeyskri skipaskrá 9 febrúar árið 1952.
Aðrar heimildir segja að Urd hafi verið seldur í brotajárn til Belgíu árið 1951.
B.v. Rán GK 507, áður RE 54 á síldveiðum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
|
,,Finnbogi Finnbogason skipstjóri sem stýrði „Rán“ í Englandsför hennar hefir gefið skýrslu um förina og fer hér á eftir útdráttur úr henni. „Ránn var stödd um 70 sjómílnr V. t. N. frá Barra Head, á sunnndaginn um kl. 3 ½ síðdegis í björtu veðri en töluverðum sjógangi, er kafbátnum skaut upp í 4—500 faðma fjarlægð frá skipinu. Kafbáturinn dró þegar upp aðvörunarmerki og þýska stríðsfánann, og skaut samstundis fallbyssuskoti og féll kúlan í sjóinn fáa faðma fyrir aftan „Rán“. „Rán“ var þá þegar stöðvuð og merki gefið um það, skipsbátarnir leystir og látnir síga niður, en á meðan á því stóð kom önnur kúla og féll í sjóinn á stjórnborða og svo nálægt, að sjógusurnar slettust inn á þilfarið og rétt á eftir kom þriðja kúlan fyrir aftan skipið og sú fjórða meðan skipshöfnin var að fara í bátana og fór hún svo nærri afturenda skipsins að flísarnar úr henni þeyttust inn á þilfarið. Var bátunum lagt frá skipinu hið bráðasta og róið í áttina til kafbátsins og bjuggust skipverjar ekki við að sjá „Rán“ framar. Þegar bátarnir voru komnir 30—40 faðma frá skipinu, kom fimmta kúlan, og svo nærri, að hvinurinn af henni heyrðist, er hún fór yfir annan bátinn og féll niður rétt aftan við hinn. Var nú farið með bátana svo nærri kafbátnum sem auðið var vegna sjógangsins.
Skipstjóra var sagt að koma upp í kafbátinn og spurði einn foringinn hann um nafn skipsins, heimili, hvaðan það kæmi, hvert það ætlaði, hver farmurinn væri, hvar og hvenær það væri bygt, og hverrar þjóðar skipshöfnin væri. Þegar skipstjóri hafði leyst úr þessum spurningum, sagði foringinn, að þar sem skipið væri með matvælafarm til óvinanna, yrði að sökkva því, en reyna að koma skipshöfninni áleiðis til lands. Finnbogi skipstjóri bað foringjann að sökkva ekki skipinu, og bauðst til að snúa við aftur til Íslands þegar í stað, en kafbátsforinginn tók lítt á því í fyrstu og er Finnbogi kvaðst skyldu gefa honum drengskapar sitt um að halda beina leið heim til Íslands, sagði hann að drengskaparheit væru lítils virði á þessum tímum, það væri hnefarétturinu sem gilti. Vék hann sér síðan að öðrum foringja, sem virtist vera yfirforingi kafbátsins og töluðust þeir við um stund. En það varð úr, að Þjóðverjar leyfðu Rán að snúa heim aftur gegn drengskaparloforði skipstjóra og skriflegri yflrlýsingu um að hann skyldi ekki flytja Bretum eða bandamönnum þeirra nein matvæli. En því var bætt við, að þó að þessu skipi væri slept í þetta sinn, þá væri það um leið aðvörun til annara botnvörpunga íslenskra um að flytja ekki fisk til Englands. Kafbátarnir væru nú búnir að finna leið þá sem botnvörpungarnir færu til Englands, og það mætti reiða sig á það, að ef þeir hittu einhvern þeirra eftir þetta á leið til Englands með fisk, þá yrði hann tafarlaust skotinn í kaf. Kvaddi foringinn síðan skipstjórann, en batt um leið borða um handlegg hans sem á stóð: II. Unterseeboots-Halbflottille. H. til sannindamerkis um að þýskur kafbátur hefði hitt skipið og bað hanri að halda hið bráðasta viðstöðulaust heim til Íslands. Var þá ekki beðið boðanna, en brottförinni hraðað svo sem hægt var. En gætur hafði kafbáturinn á Rán þangað til dimt var orðið. Gekk ferðin heim ágætlega og var það happ mikið að ekki skall á illviðri, því að kolaforðinn var lítill. Kafbátur þessi var að sögn lítið stærri en Rán að sjá. Hafði hann sýnilega Iengi verið í sjó, því hann var allur þakinn skeljum og hrúðri, enda höfðu skipverjar ekki sagst hafa komið í höfn í 9 vikur. Afli „Ránar“ var sjó og stríðsvátrygður fyrir 40 þúsund krónur og hefði líklega selst nálægt þeirri upphæð í Englandi. Vátryggingarfélagið fær hann til ráðstöfunar og selur hann að líkindum hér, Þó það skaðist á þeirri sölu má það vel við una eins og á stendur.
Vísir. 3 nóvember 1916.
23.03.2024 15:03
1087. Farsæll SI 93.
Vélbáturinn Farsæll SI 93 var smíðaður af Konráð Konráðssyni skipasmið á Siglufirði árið 1969 fyrir bræðurna Pétur og Ólaf Guðmundssyni á Siglufirði. Eik og fura. 8,23 brl. 2 nettó. 72 ha. Lister vél. 10,30 x 3,28 x 1,22 m. Skipaskrárnúmer 1087. Ný vél (1986) 93 ha. Lister vél, 68 Kw. Farsæll var tekinn af skipaskrá 19 desember árið 1994. Báturinn er á Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði. Þessa klausu hér neðar um Farsæl fann ég á minjaskrá hjá Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði. Veit ekki hversu langt síðan þetta var skrifað né heldur, í hvernig ástandi Farsæll er í dag.
Til þess að koma honum í geymslu var sagað af honum stýrishúsið en að öðru leyti er hann lítið breyttur. Varðveislustaður: Mjölhúsið. Ástand bátsins er slæmt.
Þar er einnig sagt að Sigurður Konráðsson, væntanlega sonur Konráðs skipasmiðs, hafi komið að smíðinni á Farsæl. Það gæti alveg verið, en er engan veginn víst að svo hafi verið.
Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði.
Farsæll SI 93 við bryggju á Siglufirði. Trillan neðst t.h. heitir Óðinn. Ljósmynd í minni eigu.
|
20.03.2024 18:41
Danska Póstgufuskipið Victor Emanuel / Arcturus.
Danska Póstgufuskipið Victor Emanuel var byggt hjá Alexander Denny, Albert Yard í Dunbardon í Skotlandi árið 1856. 364 brl. 262 netto. 72 ha. 2 þenslu gufuvél, smíðuð hjá Blackwood & Gordon í Paisley í Renfrewshire í Skotlandi. Smíðanúmer 40. 146,8 x 20,9 x 12,9 ensk ft. Var fyrst í eigu smíðastöðvarinnar í hálft annað ár og var skráð í Glasgow. Var í ferðum milli Clyde í Skotlandi til Miðjarðarhafslanda með vörur, póst og farþega. Frá 13 apríl 1858 er skipið komið undir danskt flagg og gert út af Koch Dampskibsexpedition í Kaupmannahöfn. Victor Emanuel var fyrsta Póstgufuskipið sem til Íslands kom. Var það hinn 27 apríl 1858 er það hafnaði sig á Reykjavíkurhöfn með farþega, vörur og póst. Þetta voru mikil tímamót í siglingum til Íslands, því seglskipin gátu verið í allt að 5 til 6 vikur á leiðinni til landsins. Victor Emanuel mun hafa verið 6 til 7 daga á leiðinni með viðkomu í Leith og Þórshöfn í Færeyjum. Síðasta Póstseglskipið, Sölöven sem hingað kom til Reykjavíkur 3 nóvember 1857, lagði af stað frá Reykjavík 26 sama mánaðar áleiðis til Kaupmannahafnar, en það fórst í miklu óveðri að talið er við Malarrif á Snæfellsnesi, 27-28 nóvember með allri áhöfn. Victor Emanuel var seldur 28 ágúst 1858, John Mitchell í Glasgow, sama nafn. Selt 7 mars 1859, C.P.A. Koch & Wm Henderson í Kaupmannahöfn, fékk þá nafnið Arcturus. Skipið var endurbyggt að einhverju leyti í Glasgow árið 1863, og nýr ketill settur í það. Selt 16 júlí 1864, L.C. Poulsen í Kaupmannahöfn. Stuttu síðar var það tekið í þjónustu danska sjóhersins vegna stríðsins við Þjóðverja það ár. Selt aftur til C.P.A. Koch & WM Henderson 16 júní 1865. Við sameiningu C.P.A. Koch & Henderson við tvö önnur skipafélög, Det Forenede Dampskibs-Selskab A/S (DFDS) og The United Steamship Company A/S. 1 janúar 1867 er skipið komið í eigu Sameinaða (DFDS), og kaupverðið var 60.000 ríkisdalir. Var Arcturus í ferðum milli Kaupmannahafnar og Íslands og einnig frá vesturströnd Noregs til Stettin í Póllandi og þaðan til Kaupmannahafnar. 18 ágúst 1871 kom skipið til hafnar í Renfrew í Skotlandi og var skipið lengt og fékk nýja vél, 4 þenslu gufuvél og ketil hjá Henderson, Coulburn & Co. Eftir lenginguna mældist það 472 br. 182,10 x 21,30 x 12,7 ft. Í desember 1877 lenti Arcturus í árekstri við norskt skip, Vidar að nafni við Noregsstrendur. Miklar skemmdir urðu á Arcturus og var gert við það í Bergen í Noregi og tók sú viðgerð á 3 mánuð. Hinn 5 apríl árið 1887 var Arcturus í skipalest á leið frá Kaupmannahöfn til Danzig í Póllandi, er það lenti í árekstri við breska kaupskipið Savona og sökk út af Falsterbo í Suður Svíþjóð. Áhöfn og farþegum Arcturus var bjargað um borð Savona.
Heimild að hluta:
Encyclopaedia & Forum.
Tímarit.is
Póstsaga Íslands. 1776-1873. Heimir Þorleifsson 1996.
Póstgufuskipið Victor Emanuel síðar Arcturus. Málari óþekktur.
|
Póstskipið „Victor Emanuel“
Póstskipið Victor Emanuel, skrúfugufuskip 131 lest að stærð, skipherra P. Aanensen, hafnaði sig hér 27. f. mán. Með póstskipinu kom nægð af kláðalyfum. Aðkomnir menn úr útlöndum. Með póstskipinu komu úr útlöndum: Konrad Maurer Dr. og prófessor í lögvísi í Munchen á Þýzkalandi (Baiern), Newton, náttúrnfræðingr, og Wolley, prófessor og náttúrufræðingr, báðir frá Bretlandi; allir þessir menn ætla að ferðast hér um land; Dr. Maurer skilr og talar íslenzku, ann henni mjög og íslenzkri fræði, og ætlar hann, áðr hann leggr til ferða hér um landið, að dvelja hér í staðnum nú fyrst um 6 vikna tíma, til þess að kynna sér fornrit þau sem hér eru á Stiptsbókasafninu. Þar að auki komu með þessu skipi 2 brezkir kaupmenn. Frá Höfn kom, kaupmaðr, konsúl, M. Smith frú hans og 2 börn, „comptessa" Trampe, dóttir stiptamtmanns vors, „fröken" Guðr. Thorstensen, kandidatarnir Ólafr (Hannesson) Johnsen og Magnús P. Stephensen, báðir snögga ferð, August Thomsen sem fyr var hér gestgjafi, og P. C. Knudtzon, sonar sonr stórkaupmanns Knudtzons.
Þjóðólfur. 21 tbl. 1 maí 1858.
20.03.2024 13:58
E.s. Goðafoss l. LCDQ.
Farþega og flutningaskipið Goðafoss var byggður hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibswærft í Kaupmannahöfn í Danmörku árið 1915 fyrir h.f. Eimskipafélag Íslands. 1.374 brl. 845 nettó. 727 ha. 3 þenslu B & W gufuvél. 68,99 x 10,74 dýpt miðskips 6,44 m. Smíðanúmer 125. Skipinu var hleypt af stokkunum hinn 21 apríl og kom í fyrsta sinn til Reykjavíkur 13 júlí sama ár. Skipstjóri var Júlíus Júlíníusson og 1 stýrimaður var Ólafur Sigurðsson. Goðafoss var annað skip Eimskipafélagsins, hið fyrra, Gullfoss kom til landsins í apríl þá um vorið. Goðafoss var fyrsta íslenska skipið búið loftskeytatækjum. Goðafoss fór í fyrstu ferð sína frá Kaupmannahöfn 19 júní með viðkomu í Leith í Skotlandi og kom svo til Reyðarfjarðar 29 júní. Næstu viðkomustaðir voru svo Eskifjörður, Seyðisfjörður, Húsavík og Akureyri. Síðan var haldið vestur um til Ísafjarðar, en mikill hafís var á siglingaleiðinni þangað, en skipið komst að lokum til Reykjavíkur 13 júlí eins og áður sagði. Skipið var í áætlunarferðum milli Kaupmannahafnar og Íslands með viðkomu í Leith. Var einnig í strandferðum frá Austfjarðahöfnum norður um land til Húnaflóahafna, þar sem snúið var við og farið sömu leið til baka. Síðsumars 1916 fór Goðafoss eina ferð til New York og flutti stykkjavörur, póst og farþega. Einnig voru átta bifreiðar í farmi skipsins, sex af Overland gerð, ein af Saxon gerð, er átti að fara til Akureyrar og ein af Maxwell gerð. Eftir að Goðafoss hafði losað nokkuð af farminum í Reykjavík var ákveðið að hann færi vestur með viðkomu á Ísafirði, og halda svo áfram norður fyrir land. Mikill vöruskortur var þá á landsbyggðinni, þá sérstaklega fyrir vestan og norðanlands. Þetta reyndist síðasta ferð Goðafoss. Hann lagði af stað frá Ísafirði aðfaranótt 30 nóvember árið 1916 og hélt út Ísafjarðardjúpið út fyrir Ritinn og áleiðis fyrir Straumnesið, en lengra fór hann ekki, því um kl. 3 um nóttina sigldi Goðafoss upp í stórgrýtta urðina vestast á Straumnesi. Farþegar og áhöfn björguðust eftir meira en tveggja sólarhringa vist í skipinu í ofsaveðri en skipið brotnaði í fjörunni. Var hópur skipverja sendur í birtingu til Aðalvíkur eftir aðstoð. Voru þá 60 manns í skipinu. Þegar veður lægði komu vélbátar frá Aðalvík og björguðu fólkinu. Reynt var að bjarga skipinu, en allt kom fyrir ekki. Mikið bjargaðist úr flaki skipsins, mikið af farminum og úr skipinu sjálfu. Ýmsu var bjargað þaðan næsta áratuginn. Nú rúmum 100 árum seinna má enn sjá flakið af Goðafossi í fjörunni í Straumnesi, stefni skipsins og hluta af lestarými þess. Goðafoss hefur verið vel byggður.
Jökull Jakobsson samdi leikritið Hart í bak um þennan skipskaða.
Hér fyrir neðan er slóð á grein í Lesbók Morgunblaðsins frá 7 febrúar 1987 þar sem Ólafur Elímundarson tók saman eftir frásögn Guðmundar Rósa Bjarnasonar frá Aðalvík sem var 14 ára þegar Goðafoss strandaði. Þar er einnig fjallað um sjódóminn að einhverju leyti, og hvernig farið var með Ólaf Sigurðsson 1 stýrimann, og þau örlög hans að vera hrakinn frá Eimskipafélaginu að ósekju. Ólafur var seinna á Sterling, Willemoes og fleiri skipum sem hleðslumaður. Ólafur tók við skipstjórn á mótor skonnortunni Rigmor í janúar 1918, sem Konráð Hjálmarsson kaupmaður á Norðfirði átti. Hann fórst með því skipi undan Írlandsströndum í febrúar 1919 að talið er. Einnig má finna alla greinina í 3 bindi bókaflokksins „Frá Ystu Nesjum“ eftir Gils Guðmundsson, seinni útgáfu frá 1982.
https://timarit.is/page/3305560?iabr=on#page/n5/mode/2up
Heimildir að hluta:
Árin sem aldrei gleymast. Ísland og heimstyrjöldin fyrri. Gunnar M Magnúss 1965.
Skipstjórar og skip ll. Jóhannes Ingólfsson skipstjóri 1986.
Danska skipaskráin frá 1916.
Goðafoss við komuna til Seyðisfjarðar í júní / júlí 1915. (C) Ingvar E Ísdal.
|
Goðafoss kominn
Í síðasta blaði var í aðaldráttuni skýrt frá viðtökum þeim sem Goðafoss fékk, er hann kom hingað í gær, en tíminn leyfði ekki ítarlega frásögn. Þegar inn á höfnina kom, voru alþingismenn og aðrir boðsgestir leiddir inn í borðsal fyrsta farrýmis, og bauð formaður Eimskipafélagsins, Sveinn alþm. Björnsson, gestina velkomna og þakkaði þingi, stjórn og blöðum góðan stuðning, frá því fyrsta, en hugmyndin um stofnun félagsins fæddist. Í ræðulok las hann upp drápu mikla eftir Hannes S. Blöndal skáld, sem birt er á öðrum stað hér í blaðinu. Drápa þessi vakti svo almenna aðdáun, að Sveinn varð að lesa hana tvisvar og henni tekið með dynjandi Iófaklappi í bæði skiftin. Síðar Ias hann upp vísu þessa:
Elfar-blossi og auðnu hnoss
yfir þig fossi daga og nætur,
gæfan hossi Goðafoss,
gefi þér kossa Ránardætur.
Jón Ólafsson rithöfundur hafði ort hana á leiðinni út í Goðafoss á skipinu Rán. Þá tók til máls forseti sameinaðs þings, Kristinn próf. Daníelsson, og flutti alllanga tölu, Þakkaði hann stjórn Eimskipafélagsins unnið starf og kvað félagið og skip þess mundu verða óskabörn þings og þjóðar, taldi hann víst, að þingið mundi styrkja fyrirtækið í framtíðinni, hverjir sem skipuðu þingsalinn og óskaði félaginu góðs gengis í nútíð og framtíð. Ráðh. Einar Arnórsson fagnaði komu skipsins og óskaði félaginu svo mikils gróða, að skipastóll þess gæti aukist og margfaldast. Eggert Claessen, gjaldkeri félagsins, þakkaði útgerðarstjóra Magnúsi Blöndahl fyrir lánið á Rán og bað menn að drekka minni botnvörpunga-útgerðarfélaganna sem væru að verða máttarstoðir undir öllum framkvæmdum hér á landi. Bríet Bjarnhéðinsdóttir kvað karlmönnum hætta til þess, að gleyma kvenfólkinu, en nú væri svo komið, að vissara væri að gera það ekki framvegis. Taldi hún kvenfólkið hafa reynst vel, sem sjálfboðaliðar, og það mundi reynast vel þessu fyrirtæki, sem og öllu öðru er landinu mætti að gagni koma, ekki síst á þann hátt, að hafa áhrif á hug og vilja barna sinna og ala þau upp í ást á framafarafyrirtækjum þjóðarinnar. Þá komu þeir Júlíus Júliníusson, skipstj. skipsins og framkvæmdarstjóri Emil Nielsen inn í salinn, höfðu þeir verið að sjá skipinu fyrir góðu lægi á höfninni. Við komu þeirra var sem ræðumönnum yxi ásmegin, og voru nú haldnar fjórar ræður fyrir minni skipstjórans. Nielsen framkvæmdarstjóri byrjaði. Þakkaði hann skipstjóra fyrir félagsins hönd, snildarlega stjórn á skipinu í þessari hættulegu og vandasömu för norðan og vestan um landið, og sagði að skipstjóri hefði sýnt það, að skipinu væri vel borgið undir stjórn hans. Bað hann menn að lokum um að hrópa ferfalt húrra fyrir skipstjóra, og var drengilega tekið undir það. Sveinn Björnsson tók þá fram, að stjórn félagsins vildi undirslryka þessi húrrahróp sérstaklega, og var því stungið upp á einu »extra« húrra í stjórnarinnar nafni og brugðust menn vel við því.
Kn. Zimsen borgarstjóri kvað allmikið bresta á að Goðafoss yrði fagnað svo sem vert væri, vegna þess að höfnin væri svo skamt á veg komin. Að lokum bað hann menn drekka minni hinnar ötulu sjómannastéttar þessa Iands, því að dugnaði hennar væri það að þakka, að íslendingar ættu nú svo fríðan skipastól. Tóku menn ræðu þessari hið besta, enda var hún vel og skörulega flutt. Magnús Pétursson, þingmaður Strandamanna, þakkaði skipstjóra fyrir hönd þeirra sem við Húnaflóa búa frækilega för hans um þær slóðir. Kvað hann það mundu hafa verið mönnum þar hið mesta lán og fagnaðarefni, að »Goðafoss« komst alla leið, því það hefði verið viðkvæðið í alt vor, er kvartað var þar nyrðra yfir ísnum og ótíðinni, að alt væri gott, ef »Goðafoss« kæmist þar ferða sinna með varninginn. Óskaði hann að lokum, að allar ferðir skipsins yrðu eins happadrjúgar landi og lýð og þessi. Þorsteinn Gíslason ritstjóri þakkaði fyrir blaðamanna hönd boð félagsstjórnarinnar og bað menn að drekka minni hennar. Loks talaði Sighvatur Bjarnason bankastjóri fyrir framkvæmdarstjóra félagsins, Emil Nielsen og kvað landsmenn mega hrósa happi yfir því að hann tók að sjer framkvæmdarstjórnina og rómaði mjög dugnað hans og fyrirhyggju. Allur mannsöfnuðurinn tók undir orð þessi af svo miklum móði, að aldrei hafði betur tekist, þótt síst þyrfti yfir því að kvarta, að menn spöruðu hljóðin áður, og var það ekki síst að þakka ötulli framgöngu Sigurðar Eggerz fyrv, ráðherra. Var það ánægjulegt að heyra hve mjög þingmönnum hafði farið fram frá því á þingsetningardaginn, þegar þeir áttu að húrra fyrir kónginn. Eftir þetta fóru menn að skoða skipið, er það að öllu vel úr garði gert og mjög líkt Gullfossi, þó er það 5 fetum styttra og farrými nokkru minna, en burðarmagn heldur meira; hraðinn er 10 ½ míla á vökunni með fullfermi.
Vísir. 14 júlí 1915.
Málverk Júlíusar Gregersen af Goðafossi á siglingu undan suðurströndinni. (C) Eimskipafélag Íslands.
|
Goðafoss-strandið
Nánari fregnir
Oss var eigi unt að ná sambandi við Ísafjörð, til þess að fá nánari fregnir um hið sorglega Goðafossstrand, í fyrrakvöld áður en blaðið, sem út kom í gær, fór í pressuna. Enda hefði samband verið til litils, því það var harla lítið, sem menn vissu á Ísafirði, fram yfir þá stuttu, köldu fregn, sem símskeytið til Morgunblaðsins flutti. Það var þá aðeins kominn einn bátur til Ísafjarðar frá Aðalvík, en menn þeir, sem á honum voru, vissu lítið sem ekkert um atvikið. Goðafoss var strandaður, vélrúmið og stórlestin var full af sjó, mannbjörg hafði orðið, en meira vissu menn ekki. Í gærmorgun áttum vér samtal við fréttaritara vorn á Ísafirði, og hafði hann þá fengið nokkuð nánari fregnir af strandinu, þó eigi fullkomlega nákvæmar. Hans frásögn er sumpart höfð eftir mönnum, sem komið hafa til Ísafjarðar norðan úr Aðalvík, og er á þessa leið. Það var niðdimm nótt og ílt útlit með veður, þegar Goðafoss var ferðbúinn frá Ísafirði, og bjóst til þess að halda á stað norður fyrir Horn. Það var um klukkan 12 aðfaranótt fimtudagsins 30. nóv. að Goðafoss lagði á stað frá Ísafirði. Þremur stundum síðar sigldi hann á land á vestanverðu Straumnesi, fáum föðmum innan við nestána, fyrir norðan og vestan Aðalvík. Var þá níðamyrkur, sjór dálitill og vaxandi stormur. Var þegar gerð tilraun til þess að losa skipið af grunninum, en það tókst ekki. Skipverjar fóru flestir í skipsbátinn og komust að Látrum í Aðalvík á fimtudaginn, en farþegar um 20 talsins, komu þangað á föstudagsnóttina. Vissu menn á bæjunum ekkert um strandið fyr en skipbrotsmenn komu þangað. Botn er mjög stórgrýttur við Straumnes, aðdjúpt nokkuð og sigling greið nokkrum föðmum utar en þar sem Goðafoss lenti. Menn sem að norðan komu á báti, sögðu að skipið hefði verið óbrotið á fimtudagskvöld, en aðrar fregnir að norðan herma að sjór hafi verið kominn í stórlest og vélarúm á föstudaginn. Nákvæmlega veit þetta enginn hér enn.
Í gærmorgun snemma fóru 5 mótorbátar frá Ísafirði til strandstaðarins til þess að reyna að bjarga einhverju af vörunum. Voru það bátarnir Ísleifur, Harpa, Freyja, Frigg og Grótti. Er búist við þeim aftur til Ísafjarðar á morgun. Flora var hér stödd, þegar fregnin kom hingað fyrst. En það skip fór frá Ísafirði kl. 9 í gærmorgun, sunnudag og ætlaði að koma við að Látrum í Aðalvík og taka þar farþegana úr Goðafossi, sem fara ætla norður. Á skrifstofu félagsins vita menn ekki gjörla, hversu marga farþega Goðafoss hafði meðferðis. Fæstir þeirra keyptu farseðla í landi. Meðal þeirra, sem menn vita um, eru þessir: Árni Gíslason læknir, á leið til Hólmavíkur til þess að gegna þar embætti Magnúsar Péturssonar um þingtímann, Jóhann Ólafsson kaupm., á leið til Akureyrar og ungfrú Guðrún Bjarnadóttir frá Steinnesi. Eimskipafélagið hér fékk símskeyti frá Júlíusi skipstjóra í fyrrakvöld, Var það sent með mótorbát til Ísafjarðar. Í skeytinu, sem sent er frá Ísafirði kl. 4,17 síðd. á laugardag 2, des., segir skipstjóri, að Goðafoss hafi strandað á Straumnesi og að skipið standi »nokkuð hart«. Sjór í vélarúmi og stórlestinni. Þar sem skipið liggur er engin kvika, en aðalgufurörið í vélinni er bilað og þess vegna sé ekki hægt að dæla skipið. Biður skipstjóri svo um, að hjálp verði send og að farþegum sé ráðstafað. Það sé ekki hægt að senda til Aðalvíkur með farþega, vegna stórhríðar. Skeyti þetta kveðst skipstjóri ætla að reyna að senda til Aðalvíkur með skipsbátnum. En það hefir ekki tekist, því Júlíus bætir við fyrra skeytið því, sem hér fer á eftir: Hefir verið ómögulegt að senda ennþá, sendi í nótt. Skipið liggur ennþá eins; sjór í vélarúmi og stórlest. Bið Flóru taka farþega norður. Hefi nú í dag bjargað farþegum hingað (Aðalvik) með mótorbátnum. Bókverð Goðafoss er 540 þús. krónur, en skipið er vátrygt fyrir 900.000 kr. að sumu leyti hjá Danske Lloyd, en aðallega hjá þeim Trolle og Rothe.
Flakið af Goðafossi í fjörunni á Straumnesi. (C) Daníel Sigmundsson.
|
Síðustu fréttir frá Goðafossi
Ísafirði 3. des. kl. 5,40.
Mótorbáturinn »Ísleifur«, sem er einn af þeim 5 bátum, er fóru til strandsins, er nýkominn hingað. Fór hann frá strandstaðnum kl. 2 í dag. Veður var þá kyrt og allgott, en dálítil alda. Allir 5 bátarnir hafa unnið að því, að bjarga pósti og vörum úr skipinu og hefir það gengið vel. Skipstjórinn af Goðafossi hefir beðið um fleiri báta og menn. Er von á hinum bátunum hingað í kvöld og á morgun, fara þeir sennilega allir aftur og líklega 5 aðrir að auki. Geir var ókominn þegar Ísleifur fór frá Goðafossi. Um Goðafoss segir skipstjórinn á Ísleifi að skipið liggi flatt með fjörunni. Sjór er í stórlestinni upp undir miðja miðlest. Var eigi komið háflóð þegar Ísleifur fór, en þá var 18 feta djúpur sjór fyrir framan mitt skip og líkt dýpi afturundan. Skipið stendur á steini og gerir skipstjórinn á Goðafossi sér vonir um það, að lekinn á skipinu sé ekki meiri en svo, að Geir geti haldið því á floti með dælum, ef honum tekst að lyfta því af steininum. FIóra tók farþegana í Aðalvík og mætti Ísleifur henni, er hún var að koma þaðan.
Morgunblaðið. 4 desember 1916.
03.03.2024 10:25
B.v. Skúli fógeti RE 144. LBMQ.
Botnvörpuskipið Skúli fógeti RE 144 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1911 fyrir h.f. Alliance í Reykjavík. 272 brl. 500 ha. 3 þenslu gufuvél, smíðuð hjá Great Central Cooperative Engineering and Ship repairing Co Ltd í Grimsby. 41,7 x 7,0 x 3,8 m. Smíðanúmer 508. Kom til landsins 26 desember sama ár. Skúli var annar togarinn sem smíðaður var fyrir íslendinga. Skipstjóri var Halldór Kr.Þorsteinsson í Háteigi. Árið 1913 voru sett sérstök yfirhitunartæki í togarann, en það var nýjung og kolanotkun minnkaði við þetta um þriðjung. Aðeins tveir breskir togarar höfðu þá fengið slík tæki. Togarinn sökk eftir að hafa siglt á tundurdufl um 25 sjómílur norðaustur af Tynemouth í Englandi 26 ágúst 1914. Fjórir skipverjar fórust en þrettán skipverjum tókst að komast í björgunarbát og var þeim síðan bjargað um borð í síldveiðiskip, Lottie Leask að nafni frá North Shields, sem hélt með þá til lands og voru þeir settir um borð í breskt herskip sem lá við Tyne ána. Togarinn var þá á heimleið eftir söluferð til Grimsby. Þrír skipverjar slösuðust töluvert við sprenginguna og voru þeir fluttir á sjúkrahús í North Shields. Skipstjóri á Skúla fógeta þá var Kristján Kristjánsson, sem síðar varð fornbókasali í Reykjavík. Þeir sem fórust með togaranum voru:
Þorvaldur Sigurðsson frá Blómsturvöllum í Reykjavík, giftur maður, lætur eftir sig konu og börn.
Jón Jónsson frá Oddgeirsbæ í Reykjavík, einhleypur maður.
Jón Kristmundur Jónsson, ættaður af Vestfjörðum.
Þorkell Sigurðsson, ættaður frá Grunnavík í N-Ísafjarðarsýslu.
Þeir sem björguðust voru:
Kristján Kristjánsson skipstjóri.
Bergur Pálsson Stýrimaður.
Sæmundur Bjarnason bátsmaður.
Hallgrímur Jónsson vélstjóri.
Einar Guðmundsson 2 vélstjóri.
Einar Jóhannsson kyndari.
Sigþór Sigurðsson matsveinn.
Pétur A. Maack háseti. Síðar skipstjóri á Max Pemberton RE 278 og fórst með honum 10 janúar 1944.
Bjarni Pálmason háseti.
Einar Eiríksson.
Bjarni Brandson háseti. Var svo síðar á Jóni forseta RE 108 þegar hann strandaði við Stafnes 1928 og bjargaðist.
Magnús Árnason háseti.
Bjarni Einarsson háseti.
Skipstjóri var Halldór Þorsteinsson, en hann tók sér frí um tíma, fór í brúðkaupsferð til Svíþjóðar með eiginkonu sinni, Ragnhildi Pétursdóttur frá Engey.Tók þá Kristján Kristjánsson við af honum. Skipið var eign »Alliance-félagsfélagsins og vátryggt í »Det Köbenhavnske Söassurance-Selskab í Kaupmannahöfn, sem Johnson & Kaaber eru umboðsmenn fyrir. Í sama félagi eru og trygðir flestir hinna íslenzku botnvörpunga. En þeir eru ekki tryggðir gegn stríðshættu og fær því útgerðarfélagið ekki eins eyris skaðabætur. Verður þetta því tilfinnanlegt tjón fyrir það.
Heimild að hluta:
Þrautgóðir á raunastund X bindi.
Steinar J Lúðvíksson 1978.
Alliancetogarinn Skúli fógeti RE 144 eldri. Ljósmyndari óþekktur. |
Skúli fógeti RE 144
Hinn nýi botnvörpungur Forsetafélagsins kom hingað 2. dag jóla. Skúli fógeti er stærsti íslenzki botnvörpungurinn og hið sélegasta skip á að líta. Hann er 142 smálestir netto, 136 fet og 8 þml. að lengd, 23 feta breiður og 13 feta djúpur. Smíðaður er hann í Selby, og búinn að öllu eftir nýjustu og fullkomnustu gerð. Skipstjórinn er Halldór Þorsteinsson.
Ísafold. 30 desember 1911.
Teikning Bergs Pálssonar stýrimanns af Skúla fógeta RE 144. |
Skúli fógeti RE 144 ferst
Nánari fréttir
Í enskum blöðum frá 28. f. m. er sagt frá slysum þeim sem urðu fyrir framan Tyne-ósa 26. ág. og næstu daga. Skúli fógeti var fyrsta skipið, sem fórst. Hann var staddur 30. mílur (48 kílómetra) norðaustur af Tyne, þegar hann rakst á sprengiduflið. Kom þegar gat á bóg skipsins og inn féll kolblár sjór. Nokkrir af skipshöfninni voru í hásetarúminu og hlupu þeir sem uppi voru strax til að bjarga og gátu dregið upp tvo menn, og var það mjög hættulegt verk. Þeir fjórir menn sem fórust munu hafa dáið strax annað hvort af sprengingunni eða drukknað. Enskur blaðamaður hefir átt tal við Berg Pálsson stýrimann á Skúla fógeta og segir stýrimaður svo frá atburðinum:
Ég var á stjórnpallinum þegar sprengingin varð. Eg vissi strax hvað um var að vera, og reyndi til að gera menn vara við. Ég féll við hristinginn og lenti með höfuðið á veggnum. Þegar ég komst á fætur náði ég í Kristján skipstjóra og hlupum báðir fram að hásetarúminu. Það var þá orðið fullt af sjó, en við náðum í tvo háseta og gátum dregið þá upp. Það var enginn tími til að ná í hina. Þegar við vorum komnir í bátinn sökk skipið. Enskt síldarskip var þar skammt frá að veiðum. Þeir sáu blossann af tundurduflinu, sem Skúli rakst á og rétt áður höfðu tvö sprengidufl sprungið í netum þeirra. Ekki vissu þeir þó af þvi að skip hefði farist, en fundu bátinn frá Skúla skömmu síðar og fluttu í land til Shields. Fáum klukkustundum eftir að Skúli sökk, rakst norskt skip »Gottfred« á tundurdufl á sömu slóðum; það sökk þegar án þess hægt væri að koma út báti. Skipstjóri og 3 menn aðrir náðu í rekald og var bjargað af ensku síldveiðaskipi eftir 3 klukkutíma. Átta manns drukknuðu.
Þriðja skipið sem fórst var sænskt, Ena frá Svenborg, og bjargaði enskur tundurbátur skipshöfninni. Fjórða og fimmta skipið voru breskir botnvörpungar, sem voru að slæða upp tundurdufl. Af þeim fórust fimm manns.
Morgunblaðið. 4 september 1914.
02.03.2024 09:36
B.v. Valur RE 122. LBKG.
Botnvörpuskipið Valur RE 122 var smíðaður hjá Cochrane & Cooper Ltd, Grovehill í Beverley í Englandi árið 1894. 137 brl. 45 nt. 200 ha. 3 þenslu gufuvél, smíðuð hjá Amos & Smith Ltd í Hull. 92,5 x 20,5 x 11,0 ensk ft. Smíðanúmer 114. Hét fyrst Northwold GY 625 og var í eigu Northwold Steam Fishing Co Ltd í Grimsby. Var seldur í mars 1905, H.A. Roed í Sandefjord í Noregi, sennilega sama nafn. Í júní 1906 er togarinn komin í eigu fyrri eiganda í Grimsby, hét þá Northwold GY 179. Seldur í maí 1908, Árna Hannessyni skipstjóra og m.a. Gunnari Einarssyni konsúl og Halldóri Steinssyni skipstjóra í Reykjavík, fékk þá nafnið Valur RE 122. Milljónafélagið átti einnig hlut í Val. Fljótlega var Hlutafélagið Valur stofnað um rekstur togarans og var Árni Hannesson skipstjóri á honum. Milljónafélagið í Viðey eignast togarann á uppboði í desember 1909 og eftir það er Valur gerður út frá Viðey. Við gjaldþrot Milljónafélagsins árið 1914, stofnuðu nokkrir menn tengdir því í Hafnarfirði, Fiskiveiðahlutafélagið Alpha og keyptu togarann. Fékk hann þá nafnið Alpha GK 433. Togarinn var seldur haustið 1915, A/S Gudmund í Haugasundi í Noregi, hét þá Jacob. Frá árinu 1926 er togarinn í eigu A/S G. Sandvik & Co í Haugasundi í Noregi, hét þá Velox. Seldur 1929, V & S Sævik í Kopervik í Noregi, hét þá Sævik. Frá árinu 1931 hét togarinn Sævik l. Seldur 1936, Sören og Johannes Sævik í Haugasundi. Togarinn strandaði í febrúar árið 1940 er hann var á leið til hafnar í Haugasundi í illviðri og eyðilagðist.
Heimild að hluta:
Birgir Þórisson.
B.v. Valur RE 122 á ytri höfninni í Reykjavík. (C) Magnús Ólafsson. |
Nýr botnvörpungur
„Valur" heitir botnvörpungur, sem nýkeyptur er af fjelagi hjer í Reykjavík og byrjaður á veiðum. Skipstjórinn heitir Árni Hannesson og keypti hann skipið í Englandi, en í fjelagi með honum eru: G. Einarsson konsúll, H. Steinsson skipstjóri, hlutafjelagið P. J. Thorsteinsson & Co. og ef til vill fleiri. Skipið er 62 smál. og hefur kostað hingað komið 45 þús. kr. Auk botnvörpunnar hefur það lóðir og síldveiðaútbúnað.
Lögrétta. 24 júní 1908.
- 1