20.03.2024 13:58
E.s. Goðafoss l. LCDQ.
Farþega og flutningaskipið Goðafoss var byggður hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibswærft í Kaupmannahöfn í Danmörku árið 1915 fyrir h.f. Eimskipafélag Íslands. 1.374 brl. 845 nettó. 727 ha. 3 þenslu B & W gufuvél. 68,99 x 10,74 dýpt miðskips 6,44 m. Smíðanúmer 125. Skipinu var hleypt af stokkunum hinn 21 apríl og kom í fyrsta sinn til Reykjavíkur 13 júlí sama ár. Skipstjóri var Júlíus Júlíníusson og 1 stýrimaður var Ólafur Sigurðsson. Goðafoss var annað skip Eimskipafélagsins, hið fyrra, Gullfoss kom til landsins í apríl þá um vorið. Goðafoss var fyrsta íslenska skipið búið loftskeytatækjum. Goðafoss fór í fyrstu ferð sína frá Kaupmannahöfn 19 júní með viðkomu í Leith í Skotlandi og kom svo til Reyðarfjarðar 29 júní. Næstu viðkomustaðir voru svo Eskifjörður, Seyðisfjörður, Húsavík og Akureyri. Síðan var haldið vestur um til Ísafjarðar, en mikill hafís var á siglingaleiðinni þangað, en skipið komst að lokum til Reykjavíkur 13 júlí eins og áður sagði. Skipið var í áætlunarferðum milli Kaupmannahafnar og Íslands með viðkomu í Leith. Var einnig í strandferðum frá Austfjarðahöfnum norður um land til Húnaflóahafna, þar sem snúið var við og farið sömu leið til baka. Síðsumars 1916 fór Goðafoss eina ferð til New York og flutti stykkjavörur, póst og farþega. Einnig voru átta bifreiðar í farmi skipsins, sex af Overland gerð, ein af Saxon gerð, er átti að fara til Akureyrar og ein af Maxwell gerð. Eftir að Goðafoss hafði losað nokkuð af farminum í Reykjavík var ákveðið að hann færi vestur með viðkomu á Ísafirði, og halda svo áfram norður fyrir land. Mikill vöruskortur var þá á landsbyggðinni, þá sérstaklega fyrir vestan og norðanlands. Þetta reyndist síðasta ferð Goðafoss. Hann lagði af stað frá Ísafirði aðfaranótt 30 nóvember árið 1916 og hélt út Ísafjarðardjúpið út fyrir Ritinn og áleiðis fyrir Straumnesið, en lengra fór hann ekki, því um kl. 3 um nóttina sigldi Goðafoss upp í stórgrýtta urðina vestast á Straumnesi. Farþegar og áhöfn björguðust eftir meira en tveggja sólarhringa vist í skipinu í ofsaveðri en skipið brotnaði í fjörunni. Var hópur skipverja sendur í birtingu til Aðalvíkur eftir aðstoð. Voru þá 60 manns í skipinu. Þegar veður lægði komu vélbátar frá Aðalvík og björguðu fólkinu. Reynt var að bjarga skipinu, en allt kom fyrir ekki. Mikið bjargaðist úr flaki skipsins, mikið af farminum og úr skipinu sjálfu. Ýmsu var bjargað þaðan næsta áratuginn. Nú rúmum 100 árum seinna má enn sjá flakið af Goðafossi í fjörunni í Straumnesi, stefni skipsins og hluta af lestarými þess. Goðafoss hefur verið vel byggður.
Jökull Jakobsson samdi leikritið Hart í bak um þennan skipskaða.
Hér fyrir neðan er slóð á grein í Lesbók Morgunblaðsins frá 7 febrúar 1987 þar sem Ólafur Elímundarson tók saman eftir frásögn Guðmundar Rósa Bjarnasonar frá Aðalvík sem var 14 ára þegar Goðafoss strandaði. Þar er einnig fjallað um sjódóminn að einhverju leyti, og hvernig farið var með Ólaf Sigurðsson 1 stýrimann, og þau örlög hans að vera hrakinn frá Eimskipafélaginu að ósekju. Ólafur var seinna á Sterling, Willemoes og fleiri skipum sem hleðslumaður. Ólafur tók við skipstjórn á mótor skonnortunni Rigmor í janúar 1918, sem Konráð Hjálmarsson kaupmaður á Norðfirði átti. Hann fórst með því skipi undan Írlandsströndum í febrúar 1919 að talið er. Einnig má finna alla greinina í 3 bindi bókaflokksins „Frá Ystu Nesjum“ eftir Gils Guðmundsson, seinni útgáfu frá 1982.
https://timarit.is/page/3305560?iabr=on#page/n5/mode/2up
Heimildir að hluta:
Árin sem aldrei gleymast. Ísland og heimstyrjöldin fyrri. Gunnar M Magnúss 1965.
Skipstjórar og skip ll. Jóhannes Ingólfsson skipstjóri 1986.
Danska skipaskráin frá 1916.
Goðafoss við komuna til Seyðisfjarðar í júní / júlí 1915. (C) Ingvar E Ísdal.
|
Goðafoss kominn
Í síðasta blaði var í aðaldráttuni skýrt frá viðtökum þeim sem Goðafoss fékk, er hann kom hingað í gær, en tíminn leyfði ekki ítarlega frásögn. Þegar inn á höfnina kom, voru alþingismenn og aðrir boðsgestir leiddir inn í borðsal fyrsta farrýmis, og bauð formaður Eimskipafélagsins, Sveinn alþm. Björnsson, gestina velkomna og þakkaði þingi, stjórn og blöðum góðan stuðning, frá því fyrsta, en hugmyndin um stofnun félagsins fæddist. Í ræðulok las hann upp drápu mikla eftir Hannes S. Blöndal skáld, sem birt er á öðrum stað hér í blaðinu. Drápa þessi vakti svo almenna aðdáun, að Sveinn varð að lesa hana tvisvar og henni tekið með dynjandi Iófaklappi í bæði skiftin. Síðar Ias hann upp vísu þessa:
Elfar-blossi og auðnu hnoss
yfir þig fossi daga og nætur,
gæfan hossi Goðafoss,
gefi þér kossa Ránardætur.
Jón Ólafsson rithöfundur hafði ort hana á leiðinni út í Goðafoss á skipinu Rán. Þá tók til máls forseti sameinaðs þings, Kristinn próf. Daníelsson, og flutti alllanga tölu, Þakkaði hann stjórn Eimskipafélagsins unnið starf og kvað félagið og skip þess mundu verða óskabörn þings og þjóðar, taldi hann víst, að þingið mundi styrkja fyrirtækið í framtíðinni, hverjir sem skipuðu þingsalinn og óskaði félaginu góðs gengis í nútíð og framtíð. Ráðh. Einar Arnórsson fagnaði komu skipsins og óskaði félaginu svo mikils gróða, að skipastóll þess gæti aukist og margfaldast. Eggert Claessen, gjaldkeri félagsins, þakkaði útgerðarstjóra Magnúsi Blöndahl fyrir lánið á Rán og bað menn að drekka minni botnvörpunga-útgerðarfélaganna sem væru að verða máttarstoðir undir öllum framkvæmdum hér á landi. Bríet Bjarnhéðinsdóttir kvað karlmönnum hætta til þess, að gleyma kvenfólkinu, en nú væri svo komið, að vissara væri að gera það ekki framvegis. Taldi hún kvenfólkið hafa reynst vel, sem sjálfboðaliðar, og það mundi reynast vel þessu fyrirtæki, sem og öllu öðru er landinu mætti að gagni koma, ekki síst á þann hátt, að hafa áhrif á hug og vilja barna sinna og ala þau upp í ást á framafarafyrirtækjum þjóðarinnar. Þá komu þeir Júlíus Júliníusson, skipstj. skipsins og framkvæmdarstjóri Emil Nielsen inn í salinn, höfðu þeir verið að sjá skipinu fyrir góðu lægi á höfninni. Við komu þeirra var sem ræðumönnum yxi ásmegin, og voru nú haldnar fjórar ræður fyrir minni skipstjórans. Nielsen framkvæmdarstjóri byrjaði. Þakkaði hann skipstjóra fyrir félagsins hönd, snildarlega stjórn á skipinu í þessari hættulegu og vandasömu för norðan og vestan um landið, og sagði að skipstjóri hefði sýnt það, að skipinu væri vel borgið undir stjórn hans. Bað hann menn að lokum um að hrópa ferfalt húrra fyrir skipstjóra, og var drengilega tekið undir það. Sveinn Björnsson tók þá fram, að stjórn félagsins vildi undirslryka þessi húrrahróp sérstaklega, og var því stungið upp á einu »extra« húrra í stjórnarinnar nafni og brugðust menn vel við því.
Kn. Zimsen borgarstjóri kvað allmikið bresta á að Goðafoss yrði fagnað svo sem vert væri, vegna þess að höfnin væri svo skamt á veg komin. Að lokum bað hann menn drekka minni hinnar ötulu sjómannastéttar þessa Iands, því að dugnaði hennar væri það að þakka, að íslendingar ættu nú svo fríðan skipastól. Tóku menn ræðu þessari hið besta, enda var hún vel og skörulega flutt. Magnús Pétursson, þingmaður Strandamanna, þakkaði skipstjóra fyrir hönd þeirra sem við Húnaflóa búa frækilega för hans um þær slóðir. Kvað hann það mundu hafa verið mönnum þar hið mesta lán og fagnaðarefni, að »Goðafoss« komst alla leið, því það hefði verið viðkvæðið í alt vor, er kvartað var þar nyrðra yfir ísnum og ótíðinni, að alt væri gott, ef »Goðafoss« kæmist þar ferða sinna með varninginn. Óskaði hann að lokum, að allar ferðir skipsins yrðu eins happadrjúgar landi og lýð og þessi. Þorsteinn Gíslason ritstjóri þakkaði fyrir blaðamanna hönd boð félagsstjórnarinnar og bað menn að drekka minni hennar. Loks talaði Sighvatur Bjarnason bankastjóri fyrir framkvæmdarstjóra félagsins, Emil Nielsen og kvað landsmenn mega hrósa happi yfir því að hann tók að sjer framkvæmdarstjórnina og rómaði mjög dugnað hans og fyrirhyggju. Allur mannsöfnuðurinn tók undir orð þessi af svo miklum móði, að aldrei hafði betur tekist, þótt síst þyrfti yfir því að kvarta, að menn spöruðu hljóðin áður, og var það ekki síst að þakka ötulli framgöngu Sigurðar Eggerz fyrv, ráðherra. Var það ánægjulegt að heyra hve mjög þingmönnum hafði farið fram frá því á þingsetningardaginn, þegar þeir áttu að húrra fyrir kónginn. Eftir þetta fóru menn að skoða skipið, er það að öllu vel úr garði gert og mjög líkt Gullfossi, þó er það 5 fetum styttra og farrými nokkru minna, en burðarmagn heldur meira; hraðinn er 10 ½ míla á vökunni með fullfermi.
Vísir. 14 júlí 1915.
Málverk Júlíusar Gregersen af Goðafossi á siglingu undan suðurströndinni. (C) Eimskipafélag Íslands.
|
Goðafoss-strandið
Nánari fregnir
Oss var eigi unt að ná sambandi við Ísafjörð, til þess að fá nánari fregnir um hið sorglega Goðafossstrand, í fyrrakvöld áður en blaðið, sem út kom í gær, fór í pressuna. Enda hefði samband verið til litils, því það var harla lítið, sem menn vissu á Ísafirði, fram yfir þá stuttu, köldu fregn, sem símskeytið til Morgunblaðsins flutti. Það var þá aðeins kominn einn bátur til Ísafjarðar frá Aðalvík, en menn þeir, sem á honum voru, vissu lítið sem ekkert um atvikið. Goðafoss var strandaður, vélrúmið og stórlestin var full af sjó, mannbjörg hafði orðið, en meira vissu menn ekki. Í gærmorgun áttum vér samtal við fréttaritara vorn á Ísafirði, og hafði hann þá fengið nokkuð nánari fregnir af strandinu, þó eigi fullkomlega nákvæmar. Hans frásögn er sumpart höfð eftir mönnum, sem komið hafa til Ísafjarðar norðan úr Aðalvík, og er á þessa leið. Það var niðdimm nótt og ílt útlit með veður, þegar Goðafoss var ferðbúinn frá Ísafirði, og bjóst til þess að halda á stað norður fyrir Horn. Það var um klukkan 12 aðfaranótt fimtudagsins 30. nóv. að Goðafoss lagði á stað frá Ísafirði. Þremur stundum síðar sigldi hann á land á vestanverðu Straumnesi, fáum föðmum innan við nestána, fyrir norðan og vestan Aðalvík. Var þá níðamyrkur, sjór dálitill og vaxandi stormur. Var þegar gerð tilraun til þess að losa skipið af grunninum, en það tókst ekki. Skipverjar fóru flestir í skipsbátinn og komust að Látrum í Aðalvík á fimtudaginn, en farþegar um 20 talsins, komu þangað á föstudagsnóttina. Vissu menn á bæjunum ekkert um strandið fyr en skipbrotsmenn komu þangað. Botn er mjög stórgrýttur við Straumnes, aðdjúpt nokkuð og sigling greið nokkrum föðmum utar en þar sem Goðafoss lenti. Menn sem að norðan komu á báti, sögðu að skipið hefði verið óbrotið á fimtudagskvöld, en aðrar fregnir að norðan herma að sjór hafi verið kominn í stórlest og vélarúm á föstudaginn. Nákvæmlega veit þetta enginn hér enn.
Í gærmorgun snemma fóru 5 mótorbátar frá Ísafirði til strandstaðarins til þess að reyna að bjarga einhverju af vörunum. Voru það bátarnir Ísleifur, Harpa, Freyja, Frigg og Grótti. Er búist við þeim aftur til Ísafjarðar á morgun. Flora var hér stödd, þegar fregnin kom hingað fyrst. En það skip fór frá Ísafirði kl. 9 í gærmorgun, sunnudag og ætlaði að koma við að Látrum í Aðalvík og taka þar farþegana úr Goðafossi, sem fara ætla norður. Á skrifstofu félagsins vita menn ekki gjörla, hversu marga farþega Goðafoss hafði meðferðis. Fæstir þeirra keyptu farseðla í landi. Meðal þeirra, sem menn vita um, eru þessir: Árni Gíslason læknir, á leið til Hólmavíkur til þess að gegna þar embætti Magnúsar Péturssonar um þingtímann, Jóhann Ólafsson kaupm., á leið til Akureyrar og ungfrú Guðrún Bjarnadóttir frá Steinnesi. Eimskipafélagið hér fékk símskeyti frá Júlíusi skipstjóra í fyrrakvöld, Var það sent með mótorbát til Ísafjarðar. Í skeytinu, sem sent er frá Ísafirði kl. 4,17 síðd. á laugardag 2, des., segir skipstjóri, að Goðafoss hafi strandað á Straumnesi og að skipið standi »nokkuð hart«. Sjór í vélarúmi og stórlestinni. Þar sem skipið liggur er engin kvika, en aðalgufurörið í vélinni er bilað og þess vegna sé ekki hægt að dæla skipið. Biður skipstjóri svo um, að hjálp verði send og að farþegum sé ráðstafað. Það sé ekki hægt að senda til Aðalvíkur með farþega, vegna stórhríðar. Skeyti þetta kveðst skipstjóri ætla að reyna að senda til Aðalvíkur með skipsbátnum. En það hefir ekki tekist, því Júlíus bætir við fyrra skeytið því, sem hér fer á eftir: Hefir verið ómögulegt að senda ennþá, sendi í nótt. Skipið liggur ennþá eins; sjór í vélarúmi og stórlest. Bið Flóru taka farþega norður. Hefi nú í dag bjargað farþegum hingað (Aðalvik) með mótorbátnum. Bókverð Goðafoss er 540 þús. krónur, en skipið er vátrygt fyrir 900.000 kr. að sumu leyti hjá Danske Lloyd, en aðallega hjá þeim Trolle og Rothe.
Flakið af Goðafossi í fjörunni á Straumnesi. (C) Daníel Sigmundsson.
|
Síðustu fréttir frá Goðafossi
Ísafirði 3. des. kl. 5,40.
Mótorbáturinn »Ísleifur«, sem er einn af þeim 5 bátum, er fóru til strandsins, er nýkominn hingað. Fór hann frá strandstaðnum kl. 2 í dag. Veður var þá kyrt og allgott, en dálítil alda. Allir 5 bátarnir hafa unnið að því, að bjarga pósti og vörum úr skipinu og hefir það gengið vel. Skipstjórinn af Goðafossi hefir beðið um fleiri báta og menn. Er von á hinum bátunum hingað í kvöld og á morgun, fara þeir sennilega allir aftur og líklega 5 aðrir að auki. Geir var ókominn þegar Ísleifur fór frá Goðafossi. Um Goðafoss segir skipstjórinn á Ísleifi að skipið liggi flatt með fjörunni. Sjór er í stórlestinni upp undir miðja miðlest. Var eigi komið háflóð þegar Ísleifur fór, en þá var 18 feta djúpur sjór fyrir framan mitt skip og líkt dýpi afturundan. Skipið stendur á steini og gerir skipstjórinn á Goðafossi sér vonir um það, að lekinn á skipinu sé ekki meiri en svo, að Geir geti haldið því á floti með dælum, ef honum tekst að lyfta því af steininum. FIóra tók farþegana í Aðalvík og mætti Ísleifur henni, er hún var að koma þaðan.
Morgunblaðið. 4 desember 1916.