03.03.2024 10:25
B.v. Skúli fógeti RE 144. LBMQ.
Botnvörpuskipið Skúli fógeti RE 144 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1911 fyrir h.f. Alliance í Reykjavík. 272 brl. 500 ha. 3 þenslu gufuvél, smíðuð hjá Great Central Cooperative Engineering and Ship repairing Co Ltd í Grimsby. 41,7 x 7,0 x 3,8 m. Smíðanúmer 508. Kom til landsins 26 desember sama ár. Skúli var annar togarinn sem smíðaður var fyrir íslendinga. Skipstjóri var Halldór Kr.Þorsteinsson í Háteigi. Árið 1913 voru sett sérstök yfirhitunartæki í togarann, en það var nýjung og kolanotkun minnkaði við þetta um þriðjung. Aðeins tveir breskir togarar höfðu þá fengið slík tæki. Togarinn sökk eftir að hafa siglt á tundurdufl um 25 sjómílur norðaustur af Tynemouth í Englandi 26 ágúst 1914. Fjórir skipverjar fórust en þrettán skipverjum tókst að komast í björgunarbát og var þeim síðan bjargað um borð í síldveiðiskip, Lottie Leask að nafni frá North Shields, sem hélt með þá til lands og voru þeir settir um borð í breskt herskip sem lá við Tyne ána. Togarinn var þá á heimleið eftir söluferð til Grimsby. Þrír skipverjar slösuðust töluvert við sprenginguna og voru þeir fluttir á sjúkrahús í North Shields. Skipstjóri á Skúla fógeta þá var Kristján Kristjánsson, sem síðar varð fornbókasali í Reykjavík. Þeir sem fórust með togaranum voru:
Þorvaldur Sigurðsson frá Blómsturvöllum í Reykjavík, giftur maður, lætur eftir sig konu og börn.
Jón Jónsson frá Oddgeirsbæ í Reykjavík, einhleypur maður.
Jón Kristmundur Jónsson, ættaður af Vestfjörðum.
Þorkell Sigurðsson, ættaður frá Grunnavík í N-Ísafjarðarsýslu.
Þeir sem björguðust voru:
Kristján Kristjánsson skipstjóri.
Bergur Pálsson Stýrimaður.
Sæmundur Bjarnason bátsmaður.
Hallgrímur Jónsson vélstjóri.
Einar Guðmundsson 2 vélstjóri.
Einar Jóhannsson kyndari.
Sigþór Sigurðsson matsveinn.
Pétur A. Maack háseti. Síðar skipstjóri á Max Pemberton RE 278 og fórst með honum 10 janúar 1944.
Bjarni Pálmason háseti.
Einar Eiríksson.
Bjarni Brandson háseti. Var svo síðar á Jóni forseta RE 108 þegar hann strandaði við Stafnes 1928 og bjargaðist.
Magnús Árnason háseti.
Bjarni Einarsson háseti.
Skipstjóri var Halldór Þorsteinsson, en hann tók sér frí um tíma, fór í brúðkaupsferð til Svíþjóðar með eiginkonu sinni, Ragnhildi Pétursdóttur frá Engey.Tók þá Kristján Kristjánsson við af honum. Skipið var eign »Alliance-félagsfélagsins og vátryggt í »Det Köbenhavnske Söassurance-Selskab í Kaupmannahöfn, sem Johnson & Kaaber eru umboðsmenn fyrir. Í sama félagi eru og trygðir flestir hinna íslenzku botnvörpunga. En þeir eru ekki tryggðir gegn stríðshættu og fær því útgerðarfélagið ekki eins eyris skaðabætur. Verður þetta því tilfinnanlegt tjón fyrir það.
Heimild að hluta:
Þrautgóðir á raunastund X bindi.
Steinar J Lúðvíksson 1978.
Alliancetogarinn Skúli fógeti RE 144 eldri. Ljósmyndari óþekktur. |
Skúli fógeti RE 144
Hinn nýi botnvörpungur Forsetafélagsins kom hingað 2. dag jóla. Skúli fógeti er stærsti íslenzki botnvörpungurinn og hið sélegasta skip á að líta. Hann er 142 smálestir netto, 136 fet og 8 þml. að lengd, 23 feta breiður og 13 feta djúpur. Smíðaður er hann í Selby, og búinn að öllu eftir nýjustu og fullkomnustu gerð. Skipstjórinn er Halldór Þorsteinsson.
Ísafold. 30 desember 1911.
Teikning Bergs Pálssonar stýrimanns af Skúla fógeta RE 144. |
Skúli fógeti RE 144 ferst
Nánari fréttir
Í enskum blöðum frá 28. f. m. er sagt frá slysum þeim sem urðu fyrir framan Tyne-ósa 26. ág. og næstu daga. Skúli fógeti var fyrsta skipið, sem fórst. Hann var staddur 30. mílur (48 kílómetra) norðaustur af Tyne, þegar hann rakst á sprengiduflið. Kom þegar gat á bóg skipsins og inn féll kolblár sjór. Nokkrir af skipshöfninni voru í hásetarúminu og hlupu þeir sem uppi voru strax til að bjarga og gátu dregið upp tvo menn, og var það mjög hættulegt verk. Þeir fjórir menn sem fórust munu hafa dáið strax annað hvort af sprengingunni eða drukknað. Enskur blaðamaður hefir átt tal við Berg Pálsson stýrimann á Skúla fógeta og segir stýrimaður svo frá atburðinum:
Ég var á stjórnpallinum þegar sprengingin varð. Eg vissi strax hvað um var að vera, og reyndi til að gera menn vara við. Ég féll við hristinginn og lenti með höfuðið á veggnum. Þegar ég komst á fætur náði ég í Kristján skipstjóra og hlupum báðir fram að hásetarúminu. Það var þá orðið fullt af sjó, en við náðum í tvo háseta og gátum dregið þá upp. Það var enginn tími til að ná í hina. Þegar við vorum komnir í bátinn sökk skipið. Enskt síldarskip var þar skammt frá að veiðum. Þeir sáu blossann af tundurduflinu, sem Skúli rakst á og rétt áður höfðu tvö sprengidufl sprungið í netum þeirra. Ekki vissu þeir þó af þvi að skip hefði farist, en fundu bátinn frá Skúla skömmu síðar og fluttu í land til Shields. Fáum klukkustundum eftir að Skúli sökk, rakst norskt skip »Gottfred« á tundurdufl á sömu slóðum; það sökk þegar án þess hægt væri að koma út báti. Skipstjóri og 3 menn aðrir náðu í rekald og var bjargað af ensku síldveiðaskipi eftir 3 klukkutíma. Átta manns drukknuðu.
Þriðja skipið sem fórst var sænskt, Ena frá Svenborg, og bjargaði enskur tundurbátur skipshöfninni. Fjórða og fimmta skipið voru breskir botnvörpungar, sem voru að slæða upp tundurdufl. Af þeim fórust fimm manns.
Morgunblaðið. 4 september 1914.