20.03.2024 18:41

Danska Póstgufuskipið Victor Emanuel / Arcturus.

Danska Póstgufuskipið Victor Emanuel var byggt hjá Alexander Denny, Albert Yard í Dunbardon í Skotlandi árið 1856. 364 brl. 262 netto. 72 ha. 2 þenslu gufuvél, smíðuð hjá Blackwood & Gordon í Paisley í Renfrewshire í Skotlandi. Smíðanúmer 40. 146,8 x 20,9 x 12,9 ensk ft. Var fyrst í eigu smíðastöðvarinnar í hálft annað ár og var skráð í Glasgow. Var í ferðum milli Clyde í Skotlandi til Miðjarðarhafslanda með vörur, póst og farþega. Frá 13 apríl 1858 er skipið komið undir danskt flagg og gert út af Koch Dampskibsexpedition í Kaupmannahöfn. Victor Emanuel var fyrsta Póstgufuskipið sem til Íslands kom. Var það hinn 27 apríl 1858 er það hafnaði sig á Reykjavíkurhöfn með farþega, vörur og póst. Þetta voru mikil tímamót í siglingum til Íslands, því seglskipin gátu verið í allt að 5 til 6 vikur á leiðinni til landsins. Victor Emanuel mun hafa verið 6 til 7 daga á leiðinni með viðkomu í Leith og Þórshöfn í Færeyjum. Síðasta Póstseglskipið, Sölöven sem hingað kom til Reykjavíkur 3 nóvember 1857, lagði af stað frá Reykjavík 26 sama mánaðar áleiðis til Kaupmannahafnar, en það fórst í miklu óveðri að talið er við Malarrif á Snæfellsnesi, 27-28 nóvember með allri áhöfn. Victor Emanuel var seldur 28 ágúst 1858, John Mitchell í Glasgow, sama nafn. Selt 7 mars 1859, C.P.A. Koch & Wm Henderson í Kaupmannahöfn, fékk þá nafnið Arcturus. Skipið var endurbyggt að einhverju leyti í Glasgow árið 1863, og nýr ketill settur í það. Selt 16 júlí 1864, L.C. Poulsen í Kaupmannahöfn. Stuttu síðar var það tekið í þjónustu danska sjóhersins vegna stríðsins við Þjóðverja það ár. Selt aftur til C.P.A. Koch & WM Henderson 16 júní 1865. Við sameiningu C.P.A. Koch & Henderson við tvö önnur skipafélög, Det Forenede Dampskibs-Selskab A/S (DFDS) og The United Steamship Company A/S. 1 janúar 1867 er skipið komið í eigu Sameinaða (DFDS), og kaupverðið var 60.000 ríkisdalir. Var Arcturus í ferðum milli Kaupmannahafnar og Íslands og einnig frá vesturströnd Noregs til Stettin í Póllandi og þaðan til Kaupmannahafnar. 18 ágúst 1871 kom skipið til hafnar í Renfrew í Skotlandi og var skipið lengt og fékk nýja vél, 4 þenslu gufuvél og ketil hjá Henderson, Coulburn & Co. Eftir lenginguna mældist það 472 br. 182,10 x 21,30 x 12,7 ft. Í desember 1877 lenti Arcturus í árekstri við norskt skip, Vidar að nafni við Noregsstrendur. Miklar skemmdir urðu á Arcturus og var gert við það í Bergen í Noregi og tók sú viðgerð á 3 mánuð. Hinn 5 apríl árið 1887 var Arcturus í skipalest á leið frá Kaupmannahöfn til Danzig í Póllandi, er það lenti í árekstri við breska kaupskipið Savona og sökk út af Falsterbo í Suður Svíþjóð. Áhöfn og farþegum Arcturus var bjargað um borð Savona.

Heimild að hluta:
Encyclopaedia & Forum.
Tímarit.is
Póstsaga Íslands. 1776-1873. Heimir Þorleifsson 1996.

Póstgufuskipið Victor Emanuel síðar Arcturus.                               Málari óþekktur.
Arcturus á þurru, sennilega í Renfrew í Skotlandi.      (C) Handel & Söfart museet.dk


             Póstskipið „Victor Emanuel“

Póstskipið Victor Emanuel, skrúfugufuskip 131 lest að stærð, skipherra P. Aanensen, hafnaði sig hér 27. f. mán. Með póstskipinu kom nægð af kláðalyfum. Aðkomnir menn úr útlöndum. Með póstskipinu komu úr útlöndum: Konrad Maurer Dr. og prófessor í lögvísi í Munchen á Þýzkalandi (Baiern), Newton, náttúrnfræðingr, og Wolley, prófessor og náttúrufræðingr, báðir frá Bretlandi; allir þessir menn ætla að ferðast hér um land; Dr. Maurer skilr og talar íslenzku, ann henni mjög og íslenzkri fræði, og ætlar hann, áðr hann leggr til ferða hér um landið, að dvelja hér í staðnum nú fyrst um 6 vikna tíma, til þess að kynna sér fornrit þau sem hér eru á Stiptsbókasafninu. Þar að auki komu með þessu skipi 2 brezkir kaupmenn. Frá Höfn kom, kaupmaðr, konsúl, M. Smith frú hans og 2 börn, „comptessa" Trampe, dóttir stiptamtmanns vors, „fröken" Guðr. Thorstensen, kandidatarnir Ólafr (Hannesson) Johnsen og Magnús P. Stephensen, báðir snögga ferð, August Thomsen sem fyr var hér gestgjafi, og P. C. Knudtzon, sonar sonr stórkaupmanns Knudtzons.

Þjóðólfur. 21 tbl. 1 maí 1858.

Flettingar í dag: 124
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 693
Gestir í gær: 60
Samtals flettingar: 852182
Samtals gestir: 62754
Tölur uppfærðar: 18.6.2024 01:03:56