29.03.2024 13:37

Þýskur kafbátur hótaði að sökkva togaranum Rán RE 54 við Skotlandsstrendur.

Í enduðum októbermánaðar árið 1916 hélt botnvörpuskipið Rán RE 54, eign Ægisfélagsins í Reykjavík áleiðis til Fleetwood í Englandi með ísfisk sem átti selja þar. Þegar togarinn var staddur um 70 sjómílur út af Barra Head við Skotlandsstrendur var hann stöðvaður af þýskum kafbát. Þegar kafbátsmenn komust að því að togarinn væri á leið til Fleetwood með fisk sem selja ætti þar, gaf kafbátsforinginn fyrirmæli um að togarinn yrði yfirgefinn og honum síðan sökkt. Skipstjóri Ránar, Finnbogi Finnbogason segir í greininni hér fyrir neðan frá viðskiptum skipverja við þýsku kafbátsmennina.
Botnvörpuskipið Rán RE 54 var byggt hjá Schiffsbau Gesellschaft Unterweserwerft í Lehe (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1915 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Ægir (Magnús Th. S. Blöndahl framkvæmdastj) í Reykjavík. 262 brl. 400 ha. 3 þenslu gufuvél. 39,97 x 7,16 x 3,83 m. Smíðanúmer 109. Rán var fyrsti togarinn sem smíðaður var í Þýskalandi fyrir Íslendinga. Togarinn stundaði veiðar við Nýfundnaland sumarið 1918 og seldi afla sinn þar í landi. Mun líklega vera fyrsti íslenski togarinn sem stundaði veiðar á fjarlægum miðum. Seldur árið 1919, Ásgeiri Péturssyni útgerðar og kaupmanni á Akureyri, hét Rán EA 386. Seldur 23 janúar 1924, Fiskiveiðafélaginu Höfrungi í Hafnarfirði, hét þá Rán GK 507. Seldur 1935, Hlutafélaginu Rán í Reykjavík, sama nafn og númer. Seldur 23 júní 1939, Hlutafélaginu Djupavík í Reykjarfirði á Ströndum, hét þá Rán ST 50. Seldur 27 febrúar 1946, Pf. Kongshafnar Trolarafelagi í Saltangará (Símun á Högabóli og J.E. Simonsen) í Færeyjum, hét þar Urd FD 435. Togarinn var seldur í brotajárn til British Iron & Steel Corporation Ltd. Í London og tekinn af færeyskri skipaskrá 9 febrúar árið 1952.
Aðrar heimildir segja að Urd hafi verið seldur í brotajárn til Belgíu árið 1951.

B.v. Rán GK 507, áður RE 54 á síldveiðum.                           (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Áhöfnin á Rán GK 507. Togarinn er á síldveiðum.           (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
B.v. Rán GK 507.                                                                                     Sígarettumynd.
B.v. Rán RE 54.                                                                         Mynd á gömlu póstkorti.
     
Af ferð Ránar og viðskiftum við þýska kafbátinn
                      Skýrsla skipstjóra


 

,,Finnbogi Finnbogason skipstjóri sem stýrði „Rán“ í Englandsför hennar hefir gefið skýrslu um förina og fer hér á eftir útdráttur úr henni. „Ránn var stödd um 70 sjómílnr V. t. N. frá Barra Head, á sunnndaginn um kl. 3 ½  síðdegis í björtu veðri en töluverðum sjógangi, er kafbátnum skaut upp í 4—500 faðma fjarlægð frá skipinu. Kafbáturinn dró þegar upp aðvörunarmerki og þýska stríðsfánann, og skaut samstundis fallbyssuskoti og féll kúlan í sjóinn fáa faðma fyrir aftan „Rán“. „Rán“ var þá þegar stöðvuð og merki gefið um það, skipsbátarnir leystir og látnir síga niður, en á meðan á því stóð kom önnur kúla og féll í sjóinn á stjórnborða og svo nálægt, að sjógusurnar slettust inn á þilfarið og rétt á eftir kom þriðja kúlan fyrir aftan skipið og sú fjórða meðan skipshöfnin var að fara í bátana og fór hún svo nærri afturenda skipsins að flísarnar úr henni þeyttust inn á þilfarið. Var bátunum lagt frá skipinu hið bráðasta og róið í áttina til kafbátsins og bjuggust skipverjar ekki við að sjá „Rán“ framar. Þegar bátarnir voru komnir 30—40 faðma frá skipinu, kom fimmta kúlan, og svo nærri, að hvinurinn af henni heyrðist, er hún fór yfir annan bátinn og féll niður rétt aftan við hinn. Var nú farið með bátana svo nærri kafbátnum sem auðið var vegna sjógangsins.
Skipstjóra var sagt að koma upp í kafbátinn og spurði einn foringinn hann um nafn skipsins, heimili, hvaðan það kæmi, hvert það ætlaði, hver farmurinn væri, hvar og hvenær það væri bygt, og hverrar þjóðar skipshöfnin væri. Þegar skipstjóri hafði leyst úr þessum spurningum, sagði foringinn, að þar sem skipið væri með matvælafarm til óvinanna, yrði að sökkva því, en reyna að koma skipshöfninni áleiðis til lands. Finnbogi skipstjóri bað foringjann að sökkva ekki skipinu, og bauðst til að snúa við aftur til Íslands þegar í stað, en kafbátsforinginn tók lítt á því í fyrstu og er Finnbogi kvaðst skyldu gefa honum drengskapar sitt um að halda beina leið heim til Íslands, sagði hann að drengskaparheit væru lítils virði á þessum tímum, það væri hnefarétturinu sem gilti. Vék hann sér síðan að öðrum foringja, sem virtist vera yfirforingi kafbátsins og töluðust þeir við um stund. En það varð úr, að Þjóðverjar leyfðu Rán að snúa heim aftur gegn drengskaparloforði skipstjóra og skriflegri yflrlýsingu um að hann skyldi ekki flytja Bretum eða bandamönnum þeirra nein matvæli. En því var bætt við, að þó að þessu skipi væri slept í þetta sinn, þá væri það um leið aðvörun til annara botnvörpunga íslenskra um að flytja ekki fisk til Englands. Kafbátarnir væru nú búnir að finna leið þá sem botnvörpungarnir færu til Englands, og það mætti reiða sig á það, að ef þeir hittu einhvern þeirra eftir þetta á leið til Englands með fisk, þá yrði hann tafarlaust skotinn í kaf. Kvaddi foringinn síðan skipstjórann, en batt um leið borða um handlegg hans sem á stóð: II. Unterseeboots-Halbflottille. H. til sannindamerkis um að þýskur kafbátur hefði hitt skipið og bað hanri að halda hið bráðasta viðstöðulaust heim til Íslands. Var þá ekki beðið boðanna, en brottförinni hraðað svo sem hægt var. En gætur hafði kafbáturinn á Rán þangað til dimt var orðið. Gekk ferðin heim ágætlega og var það happ mikið að ekki skall á illviðri, því að kolaforðinn var lítill. Kafbátur þessi var að sögn lítið stærri en Rán að sjá. Hafði hann sýnilega Iengi verið í sjó, því hann var allur þakinn skeljum og hrúðri, enda höfðu skipverjar ekki sagst hafa komið í höfn í 9 vikur. Afli „Ránar“ var sjó og stríðsvátrygður fyrir 40 þúsund krónur og hefði líklega selst nálægt þeirri upphæð í Englandi. Vátryggingarfélagið fær hann til ráðstöfunar og selur hann að líkindum hér, Þó það skaðist á þeirri sölu má það vel við una eins og á stendur.

Vísir. 3 nóvember 1916.

Flettingar í dag: 335
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 1134
Gestir í gær: 51
Samtals flettingar: 1062960
Samtals gestir: 76987
Tölur uppfærðar: 11.12.2024 16:16:38