Blogghistorik: 2023 N/A Blog|Month_3
26.03.2023 07:55
B.v. Röðull GK 518. TFPC.
Nýsköpunartogarinn Röðull GK 518 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir h/f Venus (Loftur Bjarnason og fl.) í Hafnarfirði. 680 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 55,58 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 787. Skipaskrárnúmer 174. Röðull var fyrsti Nýsköpunartogarinn sem smíðaður var með bátapall. Röðull var afhentur eigendum sínum 16 mars í Hull og kom fyrst til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar 24 mars 1948. Vilhjálmur Árnason var fyrsti skipstjóri á Röðli. Hann átti hluta í skipinu, hafði áður verið með Venus GK 519 og þar áður með Gylli RE 267, mikill fiskimaður. Aðrir skipstjórar á Röðli voru m.a. Ásgeir Gíslason og Jens Jónsson. Hinn 15 janúar árið 1963 lagði Röðull upp í örlagaríka veiðiför. Nokkrum dögum síðar, eða hinn 19 janúar kom upp Methylklorid leki um borð í togaranum með þeim afleiðingum að einn skipverji lést, hét hann Snæbjörn Aðils 22 ára að aldri. 14 aðrir skipverjar voru lagðir inn á sjúkrahús, margir þungt haldnir vegna eitrunarinnar. Mesta eiturslys sem orðið hefur í íslensku skipi. Síðar var talað um slysið sem gleymdist. Skipverjarnir sem veiktust alvarlega voru lengi að jafna sig. Sumir þeirra jöfnuðu sig aldrei og féllu frá langt um aldur fram. Hræðilegt slys. Togarinn var seldur í brotajárn til Englands og tekinn af skrá 6 desember árið 1974.
Uglurnar frammi á bakka togarans voru ætlaðar til þess að hífa upp ankerin. Á þessum tíma var mjög þröngt á þingi í höfnunum, t.d. í Hull og Grimsby. Var þá gripið til þess ráðs að leggja togurunum skáhalt upp að bryggjunum til að auka viðleguplássið. Ankerin voru þá hífð upp til að koma í veg fyrir skemmdir á kinnungum skipanna. Eftir að togurum fækkaði þurfti síður að nota þessar uglur eða bómur og voru þær þá fjarlægðar af flestum skipanna.
B.v. Röðull GK 518 á toginu. (C) Ásgrímur Ágústsson. |
B. v. Röðull væntanlegur í dag
Í dag er von á nýsköpunartogaranum Röðli, til Hafnarfjarðar. Eigendur Röðuls er h.f. Venus í Hafnarfirði. Skipstjóri verður Vilhjálmur Árnason, sem áður var skipstjóri á b.v. Venus. Röðull er smíðaður hjá skipasmíðastöð Cook Welton & Gemmel í Beverley. Togarinn verður fimm fetum lengri, en flestir hinna nýsköpunartogaranna og verður af svipaðri stærð og Reykjavíkurtogarinn Fylkir. Framkvæmdastjóri h.f. Venus er Loftur Bjarnason.
Morgunblaðið. 24 mars 1948.
B.v. Röðull GK 518 við komuna til heimahafnar sinnar 24 mars 1948. (C) Guðbjartur Ásgeirsson. |
Nýr nýsköpunartogari
Eins og minnst var á í blaðinu í gær, bættist enn einn nýsköpunartogarinn í hópinn í gær. Var það b.v. Röðull GK 518. eign h/f Venusar í Hafnarfirði. Togarinn er að ýmsu leyti frábrugðinn öðrum, sem á undan hafa komið og því rjett að benda á helstu hreytingarnar, en þær eru; Lengdur um 5 fet, bátadekk, sem nær fram undir afturmastur, brúin lengd um 2,5 fet og með gjörbreytta innrjettingu, nýjasta tegund af radar verður sett í hann í sumar, aluminium lestarlok, og svo er ráðgert að setja kælitæki í lestar með hitamæli í brú þannig að alltaf sje hægt að halda kulda í lestinni. Lýsisbræðsla færð aftur o. fl. Röðull fjekk slæmt veður á leiðinni heim, en reyndist prýðilega, gekk hann rúmar 12 mílur með 112—115 snúningshraða á vjel, en í reynsluferð gekk skipið rúmar 13 mílur.
Morgunblaðið. 25 mars 1948.
B.v. Röðull GK 518 í reynslusiglingu á Humberfljóti. Takið eftir ankerisuglunum frammi á bakkanum. (C) Cook Welton & Gemmell Ltd Beverley. |
Enn eitt afrek íslenskra sjómanna
Í síðustu Englandsferð sinni unnu skipverjar á togaranum Röðli það afrek að bjarga enskum togara, er rak fyrir sjó og vindi. Dró Röðull hann til hafnar í Skotlandi og mátti ekki tæpara standa að brezki togarinn sykki ekki.
Þegar Röðull var staddur á svokölluðum Færeyjabanka heyrði hann neyðarskeyti frá brezka togaranum Cramond Island frá Hull. Hafði vélin bilað og rak togarann undan veðrinu, en stormur var og mikill sjógangur. Fann Röðull brezka togarann með radartækjum og þrátt fyrir stórsjó tókst að koma vírum milli togaranna, en meðan verið var að því rákust togararnir saman í sjóganginum og brotnaði Röðull nokkuð aftarlega stjórnborðsmegin. Röðull dró síðan brezka togarann til hafnar í Skotlandi, en mikill sjór var kominn í brezka togarann og bað hann um björgunarbát, ef hann skyldi sökkva áður en þeir næðu höfn. Til þess kom þó ekki en mátti þó ekki tæpara standa að hann sykki.
Þjóðviljinn. 20 janúar 1949.
B.v. Röðull GK 518 við veiðar út af Vestfjörðum. (C) Sigurgeir B Halldórsson. |
Feigðarför Röðuls GK í janúar 1963
Mengunarslys í íslenskum togara
Í janúar 1963 varð mengunarslys um borð í togaranum Röðli GK frá Hafnarfirði þegar metylklóríð sem notað var sem kælimiðill á kælikerfi skipsins lak út í andrúmsloftið og komst í vistarverur skipverja frammi í skipinu. Flestir sem þar bjuggu veiktust, sumir mjög alvarlega, aðrir minna og einn lét lífið.
Svo virðist sem vanþekking manna á áhrifum mengunar af þessu tagi í bland við kæruleysi hafi átt sinn þátt í því hvernig fór. Eftirköst mengunarinnar urðu í mörgum tilvikum mjög slæm á þá sem veiktust mest og læknar telja að hún hafi leitt til ótímabærs dauðdaga nokkurra úr áhöfninni og varanlegrar örorku í öðrum tilvikum. Þeir sem veiktust voru flestir ungir menn í blóma lífsins og sá sem lést var aðeins tvítugur. Alls voru 29 menn í áhöfn Röðuls og samkvæmt bestu fáanlegum heimildum veiktust 15 þeirra. Einn Iést strax en 10 úr hópnum sem eftir lifði eru nú látnir og er meðal dánaraldur þeirra aðeins 38,7 ár. Fjórir þeirra sem veiktust eru enn lifandi, þar af tveir sem veiktust töluvert, en hinir tveir veiktust mjög lítið. 14 menn í áhöfninni veiktust ekki og úr þeim hópi eru 7 látnir í dag og meðal dánaraldur þeirra 66,8 ár.
Togarinn Röðull GK taldist í hópi nýsköpunartogara. Hann var smíðaður í Bretlandi árið 1948, 680 brúttólestir með 1.000 hestafla gufuvél. Hann var gerður út af fyrirtækinu Venusi í Hafnarfirði allt til ársins 1974, en þá er hann tekinn af skrá og talinn ónýtur. Röðull hélt til veiða 15. janúar 1963 og átti förin að verða hefðbundin veiðiferð en 17. janúar varð vart við mikil veikindi meðal skipverja sem bjuggu frammi í lúkar. Fyrstu viðbrögð yfirmanna voru þau að álíta að um matareitrun gæti verið að ræða, en einnig lék grunur á að neysla eiturlyfja eða vímuefna ylli veikindum mannanna þar sem viss einkenni bentu til þess. Hinir veiku þjáðust af magakvölum, uppköstum og höfuðverk, en einnig voru þeir sljóir, augnaráð starandi og minnisleysi og rugl var áberandi í fari þeirra. Sóttin elnaði jafnt og þétt og að kvöldi 18. janúar lést Snæbjörn Aðils, ungur háseti, og þá var skipinu siglt inn til Vestmannaeyja þar sem haft var samband við lækni og tveir þeirra verst höldnu voru fluttir á sjúkrahús. Því næst var siglt til Reykjavíkur og það var ekki fyrr en við komuna þangað sem fyrst varð ljóst að hér var um að ræða eitrun frá kælikerfi skipsins sem lak methylklóríðinu sem var notað sem kælimiðill. Methylklóríð var viðurkenndur kælimiðill þegar skipið var smíðað og var notað um borð í fjölda nýsköpunartogara við Ísland en vék smátt og smátt fyrir freoni sem ruddi sér til rúms á sjötta áratugnum og árið 1963 var Röðull eitt fárra skipa sem enn voru með óbreytt kælikerfi.
B.v. Röðull GK 518 í Hafnarfjarðarhöfn. (C) Guðbjartur Ásgeirsson. |
Kælivélin var staðsett við hlið netalestar sem var beint undir vistarverum skipverja í framskipinu og þegar kerfið fór að leka áttu gufurnar greiða leið í netalestina og þaðan í íbúðimar. Útblástur var í vélarrúminu til þess að blása lofti út en öryggi var ónýtt og því var útsogið ekki virkt. Loftræsting úr klefum áhafnar var höfð lokuð vegna kulda sem leitaði þar inn svo gufurnar þéttust í íbúðunum og ástandið versnaði stöðugt eftir því sem menn lágu lengur í kojum sínum. Þegar kælikerfið fór að leka voru fyrstu viðbrögð vélstjóra sem sáu um kerfið að bæta á það methyiklóríði. Því voru þeir vanir enda var það sannfæring þeirra og allra annarra um borð að hættulaust væri með öllu að anda að sér gufum af methylklóríði. Mál manna var að ekkert gerði til þótt kerfið læki. Fyrsti grunur um að um eitrun gæti verið að ræða kviknaði í huga fyrsta stýrimanns þegar hann fór fram í lúkar á leiðinni frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur til að stumra yfir einum hinna veiku. Þá fannst honum hann finna fyrir ýmsum einkennum sem rénuðu þegar hann lét opna loftræstitúður í klefanum. Stýrimaður hafði orð á þessu við skipstjóra sem kallaði vélstjóra á sinn fund en hann aftók með öllu að um eitrun gæti verið að ræða. Þó loftræstitúður væru opnaðar í íbúðum batnaði andrúmsloftið lítið þar sem suðaustankaldi blés á eftir skipinu og sneru því túðurnar upp í vindinn.
Við sjópróf sem haldin voru í Hafnarfirði kom fram að af hálfu framleiðanda skipsins var varað mjög við innöndun efnisins og hvatt til varkárni í umgengni við það. Viðvörunarmerki höfðu verið við kælivélina og í leiðbeiningabæklingi sem var um borð voru ítarlegar upplýsingar um hættuna sem stafað gæti af methylklóríði og leiðbeiningar um meðferð þess. Það kom einnig fram í sjóprófunum að vélstjórar höfðu áður en þetta gerðist orðið varir við eitrunareinkenni þegar þeir þurftu að meðhöndla methylklóríð og svo var einnig í þessari veiðiferð þegar stöðugt þurfti að bæta á kælkikerfið. Vélstjórar höfðu fyrst orðið varir við slík einkenni þegar verið var að taka upp kælivélina þremur árum áður en umrætt slys varð. Það kom og fram í réttinum að vélstjórum var kunnugt um það í upphafi veiðiferðarinnar að kælivélin lak. Enginn sem kom fyrir réttinn í Hafnarfirði kannaðist við að hafa séð leiðbeiningar um meðferð efnisins og fram koma að viðvörunarmerki sem hafði verið á hurð kæliklefans var löngu horfið. Methylklóríð var á þessum tíma nær algerlega lyktarlaust en það þótti varasamur eiginleiki og því framleiðendur í vaxandi mæli farnir að blanda lyktsterkum efnum, s.s. táragasi, í efnið svo fyrr yrði vart við leka. Í leiðbeiningum frá Messr. J.&E. Hall, Limited, framleiðanda kælivélarinnar í Röðli, segir orðrétt: „Forðast skal að anda að sér methýlklóríðgasi. Gasið hefur væga sæta lykt og virkar sem deyfilyf sé því andað inn í stórum skömmtum eða yfir lengri tíma. Gasið hefur skaðleg áhrif á líkama manna og veldur ógleði og svima. Sé gas í andrúmsloftinu og loftræsting ónóg ætti að nota öndunargrímu sem dugir fyrir methylkióríð. Venjulegar gasgrímur duga ekki." Þegar Röðull lagði að bryggju í Reykjavík kom borgarlæknir þegar um borð ásamt aðstoðarmanni sínum og þeir voru fljótir að átta sig á að hér var ekki um matareitrun eða vímuefni að ræða. Fjórir þeirra sem verst voru haldnir voru lagðir inn á Heilsuverndarstöðina við Barónsstíg, sem þá var borgarsjúkrahús, en aðrir fóru heim. Þeim var hins vegar smalað saman samdægurs og látnir mæta á spítalann í rannsókn daginn eftir heimkomuna og eftir þá rannsókn voru sjö til viðbótar lagðir inn. Samtals lágu 12 manns úr áhöfninni á sjúkrahúsi í nokkrar vikur, þeir sem lengst lágu voru þar í tæpa þrjá mánuði en þá voru þeir flestir útskrifaðir og taldir vinnufærir. Tveir hásetar veiktust sýnu minna en aðrir en þeir áttu það sameiginlegt að hafa lítið haldið sig frammi í vistarverum þar. Kom þar bæði til sjóveiki og einnig það að eftir lát eins hásetans vildi klefafélagi hans ekki dvelja frammí og eftir það batnaði honum. Þessir tveir eiga það sameiginlegt að lifa enn.
Um borð í togaranum Röðli GK 518. Ljósmyndari óþekktur. |
Læknar á Borgarspítalanum fylgdust grannt með áhrifum eitrunarinnar á sjúklingana enda fjöldaslys af þessu tagi sem betur fer sjaldgæf og því gafst þarna fágætt tækifæri til þess að rannsaka langtímaáhrif bráðrar methylklóríð-mengunar. Fjölmörg einkenni, bæði líkamleg og andleg, komu í ljós í hópnum og sum gengu til baka en önnur ekki. Röðulsslysið er eina slysið sinnar tegundar um borð í íslensku fiskiskipi og mun vera eitt fárra slíkra tilvika í heiminum en á stríðsárunum mun hafa orðið áhapp í sláturhúsi á Selfossi þar sem methylklóríð lak af kælikerfi og tveir menn veiktust. Læknavísindin héldu áfram að fylgjast með hópnum af Röðli eftir að þeir voru útskrifaðir af spítalanum og farnir til vinnu á ný og niðurstöður þeirra rannsókna hafa birst í tveimur erlendum læknatímaritum. Þeir sem minnst veiktust voru á sjúkrahúsi í eina til tvær vikur, en þeir sem verst voru leiknir lágu rúmfastir á sjúkrahúsi í allt að fjóra mánuði.
Fyrri rannsóknin var gerð af þeim Óskari Þórðarsyni, Gunnari Guðmundssyni, Ólafi Bjarnasyni og Þorkatli Jóhannesyni og birtist í Nordisk Medicin árið 1965 og þar er skýrt frá því að 20 mánuðum eftir slysið finni margir en til verulegra eftirkasta. Minnkuð vinnugeta, skjálfti í útlimum, taugakippir í andliti, riðuköst og minna áfengisþol voru algengustu einkennin. Sálræn einkenni birtust í þunglyndi sem leiddi til þess að tveir úr hópnum styttu sér aldur. Þrír úr hópnum eru þegar rannsóknin er gerð úrskurðaðir með 75%-30% örorku. Skemmdir í miðtaugakerfi, sem virðast varanlegar, birtast einkum í kvíðaköstum, svefnleysi, minnkaðri kyngetu og fleiri einkennum. í niðurstöðum greinarinnar segir að níu þeirra sem veiktust eigi við varanleg og alvarleg eftirköst að stríða sem einkum birtast í skemmdum í miðtaugakerfi. Methylklóríð hljóti því að teljast alvarlegt eitur og hvatt er til meiri varfærni í umgengni við það.
Seinni rannsóknin var gerð af Gunnari Guðmundssyni og var birt í tímaritinu Archives of Environmental Health árið 1976. Þá var enn haft samband við þá sem lentu í slysinu á Röðli og heilsufar þeirra rannsakað. Þá náðist til 10 af þeim 11 sem enn lifðu af hópnum, en meðalaldur þeirra var þá rúm 38 ár. Þá voru þeir allir í vinnu, þar af átta enn til sjós. Allir kvörtuðu þeir þá enn undan úthaldsleysi, höfuðverkjum, minna áfengisþoli, getuleysi og þunglyndi, svo nokkur einkenni séu nefnd. Af þessum 10 voru sex taldir sýna skýr einkenni um taugaskemmdir sem rekja mætti til mengunarinnar. í lokaorðum greinarinnar segir að Ijóst sé að allir sem eftir lifa sýni væg en varanleg eftirköst á sálarlífi og taugakerfi sem rekja megi beint til methylklóríðmengunarinnar 13 árum áður. Fjórir þeirra sem upphaflega veiktust og greindust með vöðvaskemmdir af völdum eitursins eru þá látnir og segir Gunnar að dauða þriggja þeirra megi rekja beint til slyssins. Sá fjórði lést 34 ára af hjartabilun eftir 10 ára veruleg örkuml.
Eins og fram kemur í upphafi greinarinnar lifa enn fjórir þeirra sem veiktust um borð í Röðli GK í hinni örlagaríku sjóferð í janúar 1963. Ekki verður hér gerð nein úttekt á heilsufari þeirra en því er í einhverjum tilvikum áfátt eins og kemut fram í viðtali við Jón Eðvarð Helgason hér á eftir. Methylklóríð er ekki lengur notað sem kælimiðill á Íslandi en það er flutt inn til notkunar í iðnaði, einkum til framleiðslu á polyúrethan-einangrun og svampi. Þegar innflutningur og notkun á ósóneyð- andi freon-tegundum var stöðvaður fyrir tveimur árum jókst notkun methylklóríðs eitthvað á ný. Það er flutt inn í 200 lítra tunnum og kostar rúmlega 50 þúsund krónur tunnan. Að sögn Þorsteins Guðnasonar hjá Skeljungi, sem m.a. flytur inn methylklóríð, er það skilgreint sem hættulegt efni en innflutningur þess ekki háður eftirliti Hollustuverndar. Þorsteinn sagði að markvisst hefði verið unnið að því undanfarin ár að útrýma efninu úr einangrunarframleiðslu þar sem það væri ekki umhverfisvænt. Sú þróun hefði leitt til þess að nú væru seldar örfáar tunnur á ári. Enn virðist þó vankunnátta í meðferð efnisins vera til staðar líkt og fyrir 33 árum því bæði starfsfólk í svampframleiðslu og sölumenn olíufélaga fullyrtu í samtölum við blaðamann Ægis að efnið væri að þeirra áliti algerlega hættulaust.
Ægir 1 ágúst 1996.
Loftskeytaklefi togarans í Minjasafni Hafnarfjarðar. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
|
Engin eftirmeðferð
Bárður Árni Steingrímsson var 17 ára þegar hann fór í hina örlagaríku ferð með Röðli. Eftir slysið lauk hann Stýrimannaskólanum, árið 1966, og var til sjós allt fram til ársins 1975. Eftir að Bárður kom í land starfaði hann sem fisksali en hann er sonur Steingríms Bjarnasonar, fisksala í Grímsbæ. Hin síðari ár hefur hann starfað sem eftirlitsmaður Fiskistofu á Flæmingjagrunni við Nýfundnaland en vinnur nú hjá Bræðrunum Ormsson. Bárður segist muna vel eftir ýmsum atvikum sem gerðust í ferðinni örlagaríku. „Ég man eftir því að við fórum í koju á útstíminu og lögðum okkur. Það var hins vegar ekki fyrr en seint á föstudegi eða aðfaranótt laugardags að ég fór að finna fyrir veikindum. Það byrjaði með þyngslum yfir höfði og flökurleika sem magnaðist hratt og skyndilega var ég orðinn rúmfastur og gat ekkert gert. Þessu fylgdu miklar kvalir sem lýstu sér eins og gaddavír væri snúið inni í maganum. Áður hafði ég reynt að aðstoða félaga mína en nú var það ég sem þurfti aðstoð. Við vorum 14 eða 16 þarna niðri og ástandið var hræðilegt. Klósett voru stífluð, margir með uppköst og niðurgang auk þess sem allt var orðið útælt.
Þá man ég eftir því að einn okkar stóð allt í einu upp, klæddi sig í betri fötin og ætlaði í land hvað sem það kostaði. Ég hefði reynt að stoppa hann ef ég hefði getað en sem betur fer komu aðrir til hjálpar. Síðustu klukkustundirnar man ég ekki neitt og það er ekki fyrr en viku seinna að ég ranka við mér á spítalanum. Mér er sagt að ég hafi fengið mikil krampaköst og um tíma var óttast um Iíf mitt. Við tóku um 4 mánuðir á spítalanum og með reglulegu millibili fórum við í mænustungur. Á þessum tíma missti ég sjónina, var lamaður fyrir neðan mitti, missti mikið af hári og átti erfitt með svefn vegna martraða sem ég fæ enn þann dag í dag. Á tímabili var ég dæmdur 100% öryrki en síðan 14% eftir það. Það var ekki fyrr en um 15 árum síðar að ég fór að sætta mig við orðinn hlut. Einkennin hurfu hins vegar aldrei og eru enn að minna á sig. Til dæmis fæ ég enn skjálfta- og þunglyndisköst og finn fyrir skorti á einbeitingu. Ég hef þó ekkert sérstaklega litið á þetta sem afleiðingar slyssins fyrr en nú þegar við komum saman til umræðu um það. Flestir okkar hafa fundið fyrir sömu einkennum og ég held við séum allir nokkuð slegnir yfir því. Ef draga ætti einhvern lærdóm af þessu, sem ég vil kalla stórslys, þá er það áfallahjálpin. Hún var nákvæmlega engin en samt áttu margir okkar við langvarandi sálarstríð að etja. Ég er sannfærður um að fleiri okkar væru enn á lífi ef tekið hefði verið rétt á þeirn málum á sínum tíma.“ Bárður vill fyrir hönd þeirra sem eftir lifa senda samúðarkveðjur til þeirra sem misstu ástvini sína í kjölfar þessa slyss.
Morgunblaðið. 25 janúar 1998.
Viðtal við Bárð Árna Steingrímsson skipverja á Röðli GK.
B.v. Röðull GK 518 í Hafnarfjarðarhöfn. (C) Snorri Snorrason. |
Metsala
Togarinn Röðull frá Hafnarfirði seldi 53,7 tonn af fiski á Englandsmarkaði í gær fyrir 8.566 pund. Þessi sala er óvenjulega góð, og var greitt langhæsta meðalverð sem íslenzkur togari hefur fengið - kr. 19.23 á kíló. Skipstjóri á Röðli er Jens Jónsson, Reykvíkingur, sem hefur Verið með Röðul í nokkur ár. Aðal uppistaða aflans var koli og hleypti það verðinu upp til muna. Togarinn fékk megnið af aflanum Fyrir Suðausturlandi.
Tíminn. 6 janúar 1966.
18.03.2023 20:30
3011. Freyja. TFUA.
Varðskipið Freyja var smíðuð hjá Dong-gu Ulsan í Suður-Kóreu árið 2010. 4.566 Bt, 1.370. Nt. 2 x 16. 315 ha. Bergen vélar, 12.000 Kw. 86,0 x 19,9 x 8,8 m. Togkraftur 210 tonn. Skipaskrárnúmer 3011. Hét áður GH Endurance og þar áður Vittoria. Skipið er búið að vera í eigu Landhelgisgæslu Íslands og Ríkissjóðs frá árinu 2021 og heimahöfn þess er á Siglufirði.
Varðskipið Freyja í Keflavíkurhöfn í liðinni viku. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
|
Fánalituð Freyja komin til Siglufjarðar
Varðskipið Freyja er nú komið til sinnar heimahafnar á Siglufirði en skipið keypti Landhelgisgæslan af United Offshore Support GmbH að undangengnu útboði fyrr á árinu. Skipið var smíðað árið 2010 og er vel búið til öryggis- og löggæslustarfa en síðustu ár hefur það verið notað í þjónustu við olíuiðnaðinn. Skipið er 86 metra langt, 20 metra breitt og kostaði 1,7 milljarða króna. Varðskip Landshelgisgæslunnar eru tvö með tilkomu Freyju sem er á margan hátt sambærilegt varðskipinu Þór hvað stærð og aðbúnað varðar en það hefur þó mun meiri dráttargetu. Freyja var í kjölfar afhendingar tekin í slipp í Rotterdam í Hollandi þar sem hún var máluð og minniháttar lagfæringar gerðar. Síðan var látið úr höfn og stefnan sett á Siglufjörð þar sem heimahöfn skipsins verður.
Ægir. 8 tbl. 2021.
12.03.2023 10:41
753. Sigurvon ÍS 304.
Vélbáturinn Sigurvon ÍS 304 var smíðaður í Danmörku árið 1906 og þá trúlega í Frederikssund. 4 brl. með 4 ha. Alpha vél. 8,24 x 2,52 x 1,02 m. Sigurvon var fjórði vélbáturinn sem keyptur var til Suðureyrar í Súgandafirði. Eigendur hans voru Guðmundur Sigurðsson í Bæ, Veturliði H Guðnason og Halldór Guðmundsson allir búsettir á Suðureyri, frá sama ári. Ekki hafði báturinn verið pantaður fyrir Súgfirðinga, heldur menn í Dýrafirði. Þá um vorið voru hinir væntanlegu eigendur á þilskipi sem fórst og mennirnir með því. Báturinn var því boðinn öðrum og varð til þess að Súgfirðingar fengu hann. Guðmundur í Bæ keypti bátinn hálfan, og Ibsen, sonur hans sem þá var 14 ára varð sameignarmaður föður síns. Veturliði og Halldór, sem báðir voru til heimilis á Suðureyri keyptu sinn fjórða partinn hvor. Árið 1915 slitu þeir félagar samvinnu og keyptu feðgarnir hlut þeirra. Ibsen Guðmundsson tók þá við formennsku á Sigurvon og réri henni í 40 ár, til ársins 1955. Þá brotnaði báturinn í stórviðri á firðinum. Var gert við hann, en Ibsen hætti þá formennsku. Eftir það var Kristján sonur hans formaður á Sigurvon í 5 ár. Hún var seld til Flateyrar skömmu síðar.
Sigurvon var eini báturinn sem eftir hálfa öld var til af þeim bátum, sem keyptir voru til Suðureyrar á fyrsta tug aldarinnar. Vitanlega var bátnum breytt á þessu tímabili að því leyti að hann var hækkaður á borð og yfirbyggður og skipt um vél, en súð bátsins mun að mestu leyti hafa verið hin sama, enda var báturinn framúrskarandi vel hirtur. Ibsen var sérstakur hirðumaður og alldrjúgur aflamaður. Afkoma Sigurvonar í þau 50 ár, sem hún var í eigu þeirra feðga var mjög góð og mun það vera nokkuð sérstakt í íslenskri útgerðarsögu.
Ný vél var sett í bátinn 1947, 15 ha. Säffle vél. Árið 1962 var sett í hann 36 ha. Bukh vél. Sigurvon var gerð út af Einari Hafberg á Flateyri og jafnvel af fleirum þar í bæ. Báturinn sökk á Flateyri 25 maí árið 1972 í miklu óveðri og var ekki gerður meira út. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 27 maí sama ár.
Þilskipið sem talað er um hér að ofan sem fórst um vorið 1906 gæti hafa verið þilskipið eða réttara sagt jaktin Anna Soffía ÍS 132 sem Filippus Árnason skipstjóri á Ísafirði og Jón Gunnlaugsson kaupmaður í Eyrardal í Álftafirði áttu. Anna Soffía var smíðuð í Haderslev á Jótlandi í Danmörku árið 1859 og var 24 brl. Skipið fórst í mannskaðaveðrinu 26-28 apríl árið 1906 með allri áhöfn, 9 mönnum. 5 þeirra voru frá sama bænum, Hvammi í Dýrafirði. Þeir gætu hafa verið hinir upphaflegu kaupendur Sigurvonar.
Heimildir:
Súgfirðingabók. Byggðasaga og mannlíf. Gunnar M Magnúss 1977.
Íslenskt sjómannaalmanak 1973.
Sigurvon á siglingu á Súgandafirði. Ljósmyndari óþekktur. |
Þrír Flateyrarbátar í lamasessi
Þrír Flateyrarbátar eru ennþá í lamasessi eftir ofviðrið sem geysaði á staðnum í maí síðastliðnum. Að sögn Emils Hjartarsonar fréttaritara blaðsins á Flateyri er talið að tveir bátanna séu alveg ónýtir, en einn megi gera upp með ærnum tilkostnaði. Alls skemmdust sex bátar meira og minna í óveðrinu, en þrem hefur tekist að koma á flot að nýju. Það er dýrt fyrir lítið byggðarlag eins og Flateyri að missa þrjá báta á einu bretti, og bátamissirinn hefur þýtt það að minni atvinna er í frystihúsinu en ella væri, þrátt fyrir að afli handfærabáta sé með mesta móti. Mikil atvinna er á Flateyri þrátt fyrir áföllin, og munar þar mestu um að unnið er að endurbótum á frystihúsinu og beinamjölsverksmiðjunni á staðnum. Nýr 200 tonna bátur er væntanlegur til Flateyrar á næstunni, Hafdís, keypt frá Neskaupstað. Þá er bátur í lengingu í Noregi. Í sumar er unnið að vegarlagningu í nágrenni Flateyrar, og þykir Flateyringum það ekki seinna vænna eftir að peningum hefur verið ausið í Djúpveginn ár eftir ár.
Alþýðublaðið. 30 júní 1972.
- 1