Blogghistorik: 2021 N/A Blog|Month_12
31.12.2021 10:33
Reykjavíkurhöfn um Jól árið 2018.
Óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og takk fyrir samfylgdina
hér á síðunni á árinu sem er að líða.Megi árið 2022 færa okkur öllum gæfu.
Hafið það ávallt sem allra best.
31.12.2021 09:44
B.v. Þórólfur RE 134. LCJH / TFOC.
Botnvörpungurinn Þórólfur RE 134 var smíðaður hjá Cochrane
& Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1920 fyrir h.f. Kveldúlf í Reykjavík.
403 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. 45,65 x 7,63 x 3,61 m. Smíðanúmer 694. Þórólfur
var systurskip Skallagríms RE 145, bæði smíðuð eftir sömu teikningu, en
Þórólfur var talinn mun betra sjóskip af þeim sem til þekktu og var allatíð
mikið afla og happaskip. Togarinn varð fyrir miklu áfalli hinn 17 desember árið
1948. Var hann þá á heimleið úr söluferð til Englands og var staddur um 13
sjómílur norðvestur af Þrídröngum við Vestmannaeyjar er mikill brotsjór óð að
honum b.b. megin og allar rúður í brúnnu brotnuðu þeim megin. Lagðist togarinn
svo gjörsamlega á hliðina, að þegar sjórinn var farinn hjá námu siglutoppar við
hafflötinn. Töluverður sjór komst í vélarrúmið og slökknaði eldur í þremur af
fjórum fýrum ketilsins. Lestar togarans voru nær fullar af kolum og kastaðist
farmurinn til og mikil slagsíða kom að togaranum. Tók langan tíma að rétta
skipið og koma fýrunum í gang aftur. Megnið af bátapallinum og
björgunarbátarnir, sópuðust í hafið. Kom togarinn til Reykjavíkur seinni
partinn daginn eftir. Þórólfur var einn þeirra togara sem voru að veiðum á
Halamiðum í febrúarbyrjun árið 1925 þegar eitt mesta óveður í manna minnum gekk
yfir landið (Halaveðrið) og tveir togarar, Leifur heppni RE 146 og
Hellyerstogarinn Field Marshal Robertson H 104 og mótorskipið Sólveig, fórust
með allri áhöfn, 68 mönnum. Í þessu veðri sannaði Þórólfur hversu
afburðagott sjóskip hann var. Togarinn var seldur vorið 1955, Guðmundi Kolka
sem seldi hann í brotajárn til Óðinsvé í Danmörku.
Heimildir : Þrautgóðir á raunastund. IV bindi.
Í særótinu.
B.v. Þórólfur RE 134 á tímum heimstyrjaldarinnar síðari með íslenska fánann málaðan á kinnunga skipsins. Ljósmynd í minni eigu.
"Þórólfur"
Þórólfur, hið nýja skip Kveldúlfsfélagsins, liggur nú hér á
innri höfninni. Er það mikið skip og fagurt, af sömu gerð og Skallagrímur.
Skipstjóri þess er Guðmundur Guðmundsson frá Nesi, sem lengi hefir verið í
þjónustu Kveldúlfsmanna og er reyndur og þektur dugnaðarmaður, eins og hann á
kyn til.
Ísafold. 16 tbl. 12 apríl 1920.
B.v. Þórólfur RE 134 á veiðum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Þórólfur
varð fyrir áfalli.
Togarinn Þórólfur, eign Kveldúlfs h.f. varð fyrir áfalli í
grend við Vestmannaeyjar í ofsaveðrinu á föstudagskvöldið. Reið ólag yfir
skipið og missti það báða bátana og bátadekkið brotnaði. Skipið lagðast á
hliðina við áfallið og urðu skipverjar að moka til í því frá því klukkan 11 um
morguninn og þar til kl. 7 morguninn eftir, til þess að rétta það að fullu við.
Engan mann sakaði. Skipið kom á Reykjavíkurhöfn síðdegis í gær.
Alþýðublaðið. 19 desember 1948.
Fiskur flattur um borð í Þórólfi. (C) Hjálmar R Bárðarson.
Trollið látið fara. (C) Hjálmar R Bárðarson.
Kyndarinn mokar inn kolunum í fýrinn á Þórólfi. (C) Hjálmar R Bárðarson.
B.v. Þórólfur RE 134 á Reykjavíkurhöfn. Ljósmyndari óþekktur.
Kveldúlfstogarar í Reykjavíkurhöfn. Þórólfur lengst til vinstri, þá Snorri Sturluson RE 242 og næst innst er Skallagrímur RE 145. Innsti togarinn er óþekktur. Framan við þá er Egill Skallagrímsson RE 165. Myndin trúlega frá 1921-22. (C) Helgi Sigurðsson.
Sex gamlir
togarar höggnir upp
í Danmörku og Bretlandi
Á næstunni munu sex hinna gömlu togara fara í sína hinztu
siglingu til Danmerkur og Bretlands, þar sem þeir verða ''höggnir" upp. Mun þá
ekki vera nema einn eftir hinna gömlu togara. Það er Guðmundur Kolka, sem keypt
hefur þessi gömlu skip. Hefur hann undanfarna mánuði unnið að því að fylla þau
hvert af öðru af brotajárni. Hann hefur sem kunnugt er safnað brotajárni í mjög
stórum stíl. Um skeið var hann t. d. með togara hér úti á ytri höfninni, þar
sem hann náði upp allmiklu af legufærum. Í síðasta mánuði, er verkfallið stóð
yfir, var áformað að brotajárnsskipin yrðu dregin út. Við það varð að hætta, en
á morgun eða föstudag er væntanlegur stór dráttarbátur frá Hollandi, sem fara
mun með 3 í eftirdragi til Danmerkur.
Fjórir þessara togara liggja nú vestur við Ægisgarð og hafa legið þar um Iangt
skeið, en þeir eru: Skallagrímur, Þórólfur og Höfðaborg, sem væntanlega munu
hafa samflot yfir hafið til Danmerkur um helgina. Vestur við Ægisgarð er einnig
Tryggvi gamli, sem sóttur var inn á Kleppsvík í fyrradag. Suður í Hafnarfirði á togaralegunni
liggur svo Maí, og Faxi inni á Eiðsvík. Þessir togarar munu verða dregnir til
Bretlands síðar. Ráðgert er að þegar dráttarbáturinn leggur af stað með
togarana þrjá, þá verði á hverjum þeirra fjórir menn, til þess að hafa eftirlit
með dráttartaugum og öðru. Þegar þessir gömlu togarar fara í sína hinztu
siglingu vakna án efa í brjóstum margra togarasjómanna endurminningar frá
lengri eða skemmri sjómennsku á þessum skipum á tímum friðar og ægilegra
ófriðarára. Hversu miklu fiskmagni skyldu þau vera búin að landa? T. d.
Skallagrímur, er Guðmundur heitinn Jónsson var aflakóngur á honum og í áraraðir
var Skallagrímur með aflahæstu togurunum. Nú er eftir aðeins einn hinna gömlu
togara, og er það Venus frá Hafnarfirði.
Morgunblaðið. 18 maí 1955.
26.12.2021 10:01
B.v. Skúli Magnússon RE 202. TFYD.
Nýsköpunartogarinn Skúli
Magnússon RE 202 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á
Englandi árið 1948 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. 677 brl. 1.000 ha. 3 þennslu
gufuvél. Skúli var afhentur eigendum sínum hinn 30 júní og kom til heimahafnar
sinnar, Reykjavíkur 8 júlí sama ár. 55,58 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 791.
Skipaskrárnúmer 193. Í byrjun októbermánaðar árið 1960 var togarinn við veiðar
á Nýfundnalandsmiðum og var nýlagður af stað heimleiðis með um 160 tonn af
karfa, er hann fékk á sig brotsjó. Mikill leki kom að vélarrúmi togarans og
stóðu skipverjar í austri í langan tíma. Það var svo Hafnarfjarðartogarinn Maí
GK 346 sem dró Skúla til hafnar í St. John's á Nýfundnalandi þar sem gert var
við lekann sem tók nokkurn tíma. Togarinn var seldur í brotajárn til Ghent í Belgíu
í ágústmánuði árið 1967.
B.v. Skúli Magnússon RE 202 í Reykjavíkurhöfn. (C) Helgi Kristjánsson.
Skúli
Magnússon kom í gær
Skúli Magnússon, annar nýsköpunartogari Reykjavíkurbæjar,
sígldi fánum skreyttur hjer inn á höfn í gær morgun. Nokkru fyrir hádegi fór
borgarstióri bæjarráðsmenn og útgerðarráð bæjarins, um boð í skipið til að
skoða það. Skúli Magnússon er nokkru lengri en Ingólfur Arnarson. Þilfarslengd
skipsins er 180 ½ fet, en togarinn þarf
199 feta langt bryggjupláss, þar sem hann liggur við Faxagarð. Ferðin heim gekk
mjög vel og láta skipverjar vel yfir skipinu. Einkennisstafir Skúla Magnússonar
eru RE-202. Í reykháf skipsins er hið
nýja merki Bæjarútgerðar Reykjavíkur, en það er bókstafurinn R í skildi, sem
málaðir eru á fánalitirnir. Þetta merki teiknaði Halldór Pjetursson.
Skipstjóri á Skúla Magnússyni er Halldór Guðmundsson, er lengi var á Júní.
Fyrsti stýrimaðuri er Sigurður Þorleifsson er var skipstjóri á Skutli og fyrsti
vjelstjóri er Loftur Ólafsson, en hann var á Max Pemberton um langt skeið.
Morgunblaðið. 9 júlí 1948.
Nýsköpunartogarinn Skúli Magnússon RE 202 nýr út í Hull. (C) Cook Welton & Gemmell Ltd.
B.v. Skúli Magnússon RE 202 nýr út í Hull. (C) Cook Welton & Gemmell Ltd.
Skúli
Magnússon kom til St. Johns í gær
með sjó í vélarúmi
Togarinn Maí kom um hádegið í gær inn til St. Johns á
Nýfundnalandi með togarann Skúla Magnússon í eftirdragi og var þá liðinn réttur
sólarhringur frá því að Maí kom Skúla til hjálpar og tók hann í tog um 190
mílur austur af Nýfundnalandi, er leki kom að skipinu. Dælurnar höfðu vel við á
leiðinni, en talsverður sjór var í vélarúmi skipsins er það kom til St. Johns.
Fréttaritari blaðsins í St. Johns símaði í gær, að kl. um 5 á mánudagsmorgun
hafi skipstjórinn á Skúla Magnússyni, Þorbjörn Finnbogason, tilkynnt að leki
væri kominn að skipinu og þar af leiðandi vélar stöðvast. Togarinn Maí frá
Hafnarfirði, skipstjóri Benedikt Ögmundsson var staddur næst togaranum og kom
honum til hjálpar, eins og áður hefur verið skýrt frá. Um miðjan dag í gær var
ekki enn kunnugt um hvað valdið hefði lekanum. Átti þá að taka Skúla í slipp og
kanna skemmdirnar. En Maí fór aftur út á veiðar kl. 3. Áhöfnin er öll heil á
húfi í St. Johns. Hvort hún verður látin bíða þar eða koma heim, fer eftir því
hve langan tíma tekur að gera við skipið, að því er Þorsteinn Arnalds
skrifstofustjóri Bæjarútgerðarinnar tjáði blaðinu í gær, en vonast væri til að
það gengi fljótt.
Togarinn Skúli Magnússon er 677 smálestir að stærð, byggður í Bretlandi árið
1948. Eigandi er Bæjarútgerð Reykjavíkur.
Morgunblaðið. 5 október 1960.
B.v. Skúli Magnússon RE 202 við bryggju í Leirvík á Hjaltlandseyjum. (C) J.A. Hugson.
B.v. Skúli Magnússon RE 202 í Leirvík. (C) J.A. Hugson.
B.v. Skúli Magnússon RE 202 í Leirvík. (C) J.A. Hugson.
Skúli
Magnússon seldur
Alþýðublaðið hefur sannfrétt, að Bæjarútgerð Reykjavíkur
hefur ákveðið að selja togarann Skúla Magnússon úr landi í brotajárn, Ekki
tókst í gærkvöldi að fá nánari fregnir af sölunni, hvert söluverðið væri, eða
hver væri kaupandi. Eins og kunnugt er, er Skúli Magnússon einn af
nýsköpunartogurunum, og einn af fyrstu togurunum sem keyptir voru til landsins
eftir stríðið.
Alþýðublaðið. 19 ágúst 1967.
19.12.2021 07:51
B.v. Garðar Þorsteinsson GK 3. TFDE.
Nýsköpunartogarinn Garðar
Þorsteinsson GK 3 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á
Englandi árið 1948 fyrir Útgerðarfélagið Hrímfaxa og Sviða h/f í Hafnarfirði.
677 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 55,58 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 790. Skipið
var sjósett 28 janúar 1948. Kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar,
Hafnarfjarðar 21 júní sama ár. 15 mars árið 1951 var Ríkissjóður Íslands
skráður eigandi. Skipið var selt 24 júlí 1951, Bæjarsjóði
Siglufjarðarkaupstaðar, hét Hafliði SI 2. Selt 2 maí árið 1969, Útgerðarfélagi
Siglufjarðar h/f. Hafliði sökk við bryggju á Siglufirði 8 desember 1972, en stuttu áður höfðu nokkrir skipverjar af Hrafni Sveinbjarnarsyni GK í Grindavík ætlað að kaupa togarann, en ekkert orðið af því þegar svona var komið fyrir honum.Togarinn var seldur í brotajárn til Skotlands og tekinn af
skrá 7 júní árið 1973.
B.v. Garðar Þorsteinsson GK 3 fánum skreyttur við komuna til Hafnarfjarðar hinn 21 júní árið 1948. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Garðar
Þorsteinsson kom í gær
Nýsköpunartogarinn , Garðar Þorsteinsson GK 3 frá Hafnarfirði, lagðist að bryggju þar suður frá fánum skreyttur laust fyrir hádegi í gær. Mannfjöldi var á bryggjunni til að fagna skipi og skipverjum, en bryggjan hafði verið fánum skreytt. Kristján Bergsson framkvstj. útgerðarinnar, Hrímfaxi og Sviði h/f, bauð gestum að skoða skipið og lýsti byggingu þess. Garðar Þorsteinsson er af næst stærstu gerð nýsköpunartogaranna, Röðul-gerðin, 180 feta langur. Hann er byggður í Beverley. Togarinn er nefndur eftir Garðari Þorsteinssyni alþingismanni, er Ijest á s.l. ári. Skipstjóri á Garðar Þorsteinssyni er Guðmundur Þorleifsson og fyrsti vjelstjóri Jón Björnsson. Togarinn er 26. nýsköpunartogarinn sem til landsins kemur. Hann fer væntanlega á veiðar annað kvöld.
Morgunblaðið. 22 júní 1948.
B.v. Hafliði SI 2 við bryggju á Siglufirði. Ljósmyndari óþekktur.
Um borð í b.v. Hafliða SI 2. (C) Helgi Kristjánsson.
B.v. Hafliði SI 2. (C) Auður Ingólfsdóttir.
Hafliði SI 2 klakabrynjaður í Siglufjarðarhöfn nýkominn úr veiðiferð. (C) Hannes Baldvinsson.
Skipsbjallan úr Garðari Þorsteinssyni GK 3. (C) Þjóðminjasafn Íslands.
Líkan af Hafliða SI 2. (C) Þórhallur S Gjöveraa 2016.
Nýr togari
keyptur til bæjarins
Nýsköpunartogarinn "Garðar Þorsteinsson" lagðist að
bryggju hér kl. 8,50 í gærkvöldi. Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Bjarnason,
bæjarfógeti, bauð skipið velkomið með snjallri ræðu, en bæjarstjóri, Jón
Kjartansson, sem kom með skipinu, talaði af skipsfjöl. Þá talaði og
bæjarfulltrúi, G. Jóhannsson. "Canton kvartetinn" söng á milli ræðanna. Undanfarið
hefur verið unnið að því, í sambandi við lausn á hinu erfiða atvinnuástandi í
bænum, að fá hingað nýsköpunartogara. Fóru þeir Bjarni Bjarnason, forseti
bæjarstjórnar, Jón Kjartansson, bæjarstjóri, og í þeirra fylgd Þóroddur
Guðmundsson, til Reykjavíkur á sínum tíma til að vinna að þessu máli.
Bæjarstjóri hefur og að staðaldri, dvalið fyrir sunnan til að koma máli þessu
áleiðis. Nú eru þau góðu tíðindi að segja, að fest hafa verið kaup á
nýsköpunartogaranum "Garðari Þorsteinssyni" og er hann væntanlegur til
bæjarins, í dag. Nýsköpunartogarinn "Garðar Þorsteinsson" er af stærri
gerð eldri nýsköpunartogaranna, af Neptúnus-stærð, og er því nokkru stærri en
bæjartogarinn "Elliði". Hann hefur það og fram yfir "Elliða", að hann
hefur fullkomin kælitæki í lest. Kaupverð skipsins er kr. 5.400. 000, eða
nokkuð á fjórðu milljón lægra en þeirra togara, sem nú er verið að smíða í
Englandi. Með í kaupunum fylgja öll veiðarfæri skipsins og annað það stórt og
smátt sem skipinu tilheyrir. Skipstjórinn á "Elliða", sem staddur var í
Reykjavík, sagði skip, vélar og veiðarfæri í góðu ásigkomulagi. Togarinn er
nýkominn úr "slipp" þar sem fram fór ketilhreinsun, botnhreinsun og
málning skipsins. Togarinn getur því þegar hafið veiðar og atvinnusköpun hér í
bæ.
Ríkisstjórnin kaupir skipið af fyrri eigendum þess og selur það síðan hingað
með mjög hagstæðum og aðgengilegum kjörum. Sýna þessar aðgerðir ríkisstjórnar
Sjálfstæðisfl. og Framsóknarfl. fullkominn skilning á hinu erfiða
atvinnuástandi Siglfirðinga. Án aðstoðar hennar hefðu Siglfirðingar hvorki
getað keypt togarann né önnur atvinnutæki. Siglfirðingar hafa því ríka ástæðu
til að vera ríkisstjórninni þakklátir fyrir aðgerðir hennar í þessu máli.
Gengið var frá kaupum á togaranum og samningar undirskrifaðir miðvikudaginn 14.
marz s. l. Samningana undirskrifuðu fyrir hönd bæjarstjórnar: Jón Kjartansson,
bæjarstjóri, Ólafur Ragnars og Áki Jakobsson. Má það að vísu undarlegt heita,
að Áki skuli fenginn til þess verks, þar sem hann hefur ekki svo vitað sé,
komið nálægt útvegun togarans, enda ríkisstjórnin þannig skipuð og málum þann
veg háttað, að ásjónir kommúnista eyðilögðu frekar fyrir málinu en hitt. Út af
fyrir sig er það máske aukaatriði, þótt þessi brátt fráfarandi þingmaður okkar
Siglfirðinga seti nafn sitt á kaupsamningana. Aðalatriðið er auðvitað hitt, að
fyrir velvilja núverandi ríkisstjórnar og dugnað og harðfylgi flokksmanna
ríkisstjórnarflokkanna hér, hefur tekizt að fá nýjan togara í bæinn með
kostakjörum. Togara, sem skapa mun mikla atvinnu hér og verður væntanlega til
að bjarga mörgu heimilinu hér í bæ frá bölvun atvinnuleysisins. Bæjarbúar fagna
allir komu hins nýja togara og þakka þeim öllum, sem að komu hans hafa unnið.
Jafnframt þakka bæjarbúar núverandi ríkisstjórn fyrir velvilja hennar og
skilning í garð Siglfirðinga í þessu máli. Bæjarbúar bjóða hið nýja skip
velkomið til Siglufjarðar, svo og skipstjóra þess og aðra yfirmenn, sem koma
með skipinu. Og hugheilustu óskir bæjarbúa um giftu og velfarnað fylgja skipinu
og áhöfn þess í höfnum og á höfum úti.
Siglfirðingur. 20 mars 1951.
12.12.2021 12:15
S.k. Hans SH 40. NVQG / LBKH.
Skonnortan Hans var smíðuð hjá Skibsbygmester Jörgen Ring
Andersens Træskibsværft í Svendborg í Danmörku árið 1885 fyrir Carl Peter
Christensen skipstjóra í Svendborg. Eik. 39,41 brl, 30 nettó. Smíðanúmer 41.
21,44 x 5,09 x 2,23 m. Dýpt miðskips 7,3 ft. (dönsk). Seld 1889, Frederick
Krull Hansen í Marstal í Danmörku. Seld 1899, R.P. Hansen í (Mullerup), Korsör
í Danmörku. Seld um aldamótin 1900 (1902-03 ?) Leonhard Tang & Sön í
Kaupmannahöfn og á Ísafirði. Hans var að mestu
notaður til flutninga fyrir verslun hans hér við land. Leonhard Tang
reisti verslunarhús í Stykkishólmi árið 1890 og mun skipið trúlega hafa verið
mest notað við verslunina í Stykkishólmi, enda fékk Hans skráningarnúmerið SH
40 snemma á öldinni. Árið 1905 var sett 8 ha. hjálparvél í Hans og eftir það
var hann oftast nefndur "mótor" Hans. Árið 1918 varð Árni Riis, (fæddur á
Ísafirði), sameignarmaður Tangs að versluninni og hét hún eftir það Tang &
Riis en varð gjaldþrota í kreppunni upp úr 1930. Ný vél (1920) 22 ha. Alpha
vél. Sigurður Ágústsson þingmaður og síðar útgerðarmaður í Stykkishólmi kaupir
verslun Tang & Riis hinn 18 febrúar 1933 og eignast þar með skonnortuna
Hans. Mun þetta vera stofndagur útgerðar og fiskvinnslu Sigurðar Ágústssonar hf
í Stykkishólmi. Skonnortan Hans var talin ónýt og rifin árið 1935.
Skonnortan Hans við legufæri í höfninni í Stykkishólmi snemma á síðustu öld. Stykkið sem Stykkishólmur er kenndur við er hægramegin á myndinni og Súgandisey í baksýn. Erlent kaupskip austan við eyna. Lituð ljósmynd á gömlu póstkorti.
Skonnortan Hans í höfninni í Stykkishólmi. Stykkið nær og Súgandisey í baksýn. Gamalt póstkort.
Verslunarveldi
Leonhard Tang og gosdrykkjaframleiðsla
Merkilegur fundur varð á Ísafirði í byrjun síðustu viku er
gamlar flöskur og lóðir fundust í gömlu húsi. Lóðirnar eru talin vera frá því
um miðja síðustu öld en flöskurnar teljast enn eldri og merkilegri. Önnur
þeirra er merkt sem hindberja límonaði frá Tangsverslun á Ísafirði en hin er
gömul bjórflaska frá Carlsberg og er hakakrossinn á miðjum miða. "Leonhard Tang
var með verslun á Ísafirði á seinni hluta 19. aldar og henni tilheyrði
gosdrykkjaverksmiðja. Svo fundum við einnig bjórflösku sem er athyglisverð
fyrir það að á miðjum miðanum er stór hakakross. Við héldum fyrst að hún væri
frá seinni heimstyrjöldinni en við ræddum við sögufróðari menn sem telja að hún
sé enn eldri, en hakakrossinn var notaður mikið af Dönum áður fyrr, enda merkilegt
tákn hjá Ásatrúarmönnum", segir Úlfar Ágústsson einn fundarmannanna. Auk þess
fundust nokkrir lóðarstokkar bæði fyrir minni og stærri báta. Einn stokkurinn
er merktur Andvara sem var skip smíðað af Marzellíusi Bernharðssyni fyrir
Suðureyri.
Húsið sem munirnir fundust í er að Aðalstræti 37 og var nýlega keypt af
Hamraborg. Það var byggt um 1835 og stækkað árið 1880. Bæjarins besta hafði
samband við Jón Pál Halldórsson fyrrum formann Sögufélags Ísfirðinga vegna
flöskufundarins. Jón Páll segir það engum vafa undirorpið að flöskufundurinn sé
stórmerkilegur. Við ræddum síðan aðeins verslunarveldið sem Leonhard Tang rak
hér í Hæstakaupstað. "Þetta var gríðarlega stórt verslunarfyrirbæri með mikil
umsvif en þar var til að mynda fiskverkun, verslun, vélsmiðja og fjölþætt
starfsemi", segir Jón Páll. Við vildum að sjálfsögðu fara aðeins betur ofan í
saumana á því hverslags framleiðsla hafi átt sér þar stað þar sem að
flöskufundurinn vekur marga til umhugsunar um það og einnig vita aðeins meira
um starfsemina. "Það er talið líklegast að verksmiðjan hafi tekið til starfa
1901 eftir að vatnsveita var lögð niður á eyrina og Ísfirðingar áttu kost á
heilnæmu og góðu vatni. "Þess má til gamans geta að límonaðið sem hér var
framleitt var talið það besta sem finna mátti hér við land og voru gæðin rakin
til vatnsins úr þessari fyrstu vatnsveitu landsins sem þótti með eindæmum gott.
Flaskan sem fannst innhélt forðum Hindberjalímonaði og hlýtur það að teljast
til drykkja sem voru af hinni vanalegu framleiðslu því Jón Páll gat frætt okkur
um það að hann vissi til þess að á tímabili var Leonhard Tang að bæta við
framleiðslu sína og bættust þá við eftirfarandi tegundir: Kampavínslímonaði,
Keisaralímonaði og Búalímonaði.
Ekki var bara framleitt límonaði í ýmsum útfærslum í Hæstakaupstað en þar var
einnig framleiddur brjóstsykur og hétu tegundirnar Bismark og Kongen af
Danmark. Á sama tíma og Tang rak veldi sitt hér á Ísafirði var hann með rekstur
í Stykkishólmi í samstarfi með J.M Riis, keyptu þeir þangað bæði gos og bolsíur
frá Ísafirði í beinum siglingum. Meðal þeirra sem störfuðu þarna við
framleiðslu á gosi og sælgæti var fyrstu tvo áratugi síðustu aldar var Guðjóna
Ágústa Magnúsdóttir fósturmóðir Ingvars Jónssonar sem var faðir Sigurðar Th.
Ingvarsson og Stellu Ingvarsdóttur sem eru Ísfirðingum vel kunn. Það er ljóst
að flaskan sem áður innihélt Hindberjalímonaði og var framleidd í Hæstakaupstað
á Ísafirði er mikill fengur fyrir bæjarbúa að hafa hér áþreifanlega hluti úr
sögu staðarins sem auðveldar það til muna að halda henni lifandi.
Bæjarins besta. 28 september 2006.
04.12.2021 20:21
M.b. Suðri NK 36.
Mótorbáturinn Suðri NK 36 var smíðaður af Þorsteini
Tómassyni í Mjóafirði árið 1924 fyrir Víglund Þorgrímsson í Holti í Mjóafirði.
Eik og fura. 2,62 brl. 6 ha. Wichmann vél. Seldur Svavari Víglundssyni á
Norðfirði, ekki vitað hvenær. Seldur 20 nóvember 1939, Ara Björnssyni í
Neskaupstað. Seldur 6 mars 1940,
Borgþóri Jónssyni í Mjóafirði. Seldur Gunnari Víglundssyni í Mjóafirði, það gæti
hafa verið seint á árinu 1940. Baturinn varð ónýtur á meðan Gunnar átti hann.
Var tekinn á land og brenndur, óvíst hvenær það var.
Suðri var smíðaður í Mjóafirði og ætti þar af leiðandi að
hafa borið SU skráninguna, en ég hef ekki fundið neitt um það ennþá.
Suðri NK 36 að koma að landi í Mjóafirði með fullt af fólki um borð. Ekki veit ég tilefnið eða nákvæmlega hvar í firðinum myndin er tekin, en utarlega og að sunnanverðu er það. Lóðabelgirnir (svartir) í forgrunni eru merktir NK Suðri. (C) Björn Björnsson.
- 1