31.12.2021 09:44

B.v. Þórólfur RE 134. LCJH / TFOC.

Botnvörpungurinn Þórólfur RE 134 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1920 fyrir h.f. Kveldúlf í Reykjavík. 403 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. 45,65 x 7,63 x 3,61 m. Smíðanúmer 694. Þórólfur var systurskip Skallagríms RE 145, bæði smíðuð eftir sömu teikningu, en Þórólfur var talinn mun betra sjóskip af þeim sem til þekktu og var allatíð mikið afla og happaskip. Togarinn varð fyrir miklu áfalli hinn 17 desember árið 1948. Var hann þá á heimleið úr söluferð til Englands og var staddur um 13 sjómílur norðvestur af Þrídröngum við Vestmannaeyjar er mikill brotsjór óð að honum b.b. megin og allar rúður í brúnnu brotnuðu þeim megin. Lagðist togarinn svo gjörsamlega á hliðina, að þegar sjórinn var farinn hjá námu siglutoppar við hafflötinn. Töluverður sjór komst í vélarrúmið og slökknaði eldur í þremur af fjórum fýrum ketilsins. Lestar togarans voru nær fullar af kolum og kastaðist farmurinn til og mikil slagsíða kom að togaranum. Tók langan tíma að rétta skipið og koma fýrunum í gang aftur. Megnið af bátapallinum og björgunarbátarnir, sópuðust í hafið. Kom togarinn til Reykjavíkur seinni partinn daginn eftir. Þórólfur var einn þeirra togara sem voru að veiðum á Halamiðum í febrúarbyrjun árið 1925 þegar eitt mesta óveður í manna minnum gekk yfir landið (Halaveðrið) og tveir togarar, Leifur heppni RE 146 og Hellyerstogarinn Field Marshal Robertson H 104 og mótorskipið Sólveig, fórust með allri áhöfn, 68 mönnum. Í þessu veðri sannaði Þórólfur hversu afburðagott sjóskip hann var. Togarinn var seldur vorið 1955, Guðmundi Kolka sem seldi hann í brotajárn til Óðinsvé í Danmörku.

Heimildir : Þrautgóðir á raunastund. IV bindi.
                   Í særótinu.


B.v. Þórólfur RE 134 á tímum heimstyrjaldarinnar síðari með íslenska fánann málaðan á kinnunga skipsins. Ljósmynd í minni eigu.

                     "Þórólfur"

Þórólfur, hið nýja skip Kveldúlfsfélagsins, liggur nú hér á innri höfninni. Er það mikið skip og fagurt, af sömu gerð og Skallagrímur. Skipstjóri þess er Guðmundur Guðmundsson frá Nesi, sem lengi hefir verið í þjónustu Kveldúlfsmanna og er reyndur og þektur dugnaðarmaður, eins og hann á kyn til.

Ísafold. 16 tbl. 12 apríl 1920.


B.v. Þórólfur RE 134 á veiðum.                                                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

          Þórólfur varð fyrir áfalli.

Togarinn Þórólfur, eign Kveldúlfs h.f. varð fyrir áfalli í grend við Vestmannaeyjar í ofsaveðrinu á föstudagskvöldið. Reið ólag yfir skipið og missti það báða bátana og bátadekkið brotnaði. Skipið lagðast á hliðina við áfallið og urðu skipverjar að moka til í því frá því klukkan 11 um morguninn og þar til kl. 7 morguninn eftir, til þess að rétta það að fullu við. Engan mann sakaði. Skipið kom á Reykjavíkurhöfn síðdegis í gær.

Alþýðublaðið. 19 desember 1948.


Fiskur flattur um borð í Þórólfi.                                                    (C) Hjálmar R Bárðarson.


Trollið látið fara.                                                                                 (C) Hjálmar R Bárðarson.


Kyndarinn mokar inn kolunum í fýrinn á Þórólfi.                            (C) Hjálmar R Bárðarson.


B.v. Þórólfur RE 134 á Reykjavíkurhöfn.                                            Ljósmyndari óþekktur.


Kveldúlfstogarar í Reykjavíkurhöfn. Þórólfur lengst til vinstri, þá Snorri Sturluson RE 242 og næst innst er Skallagrímur RE 145. Innsti togarinn er óþekktur. Framan við þá er Egill Skallagrímsson RE 165. Myndin trúlega frá 1921-22. (C) Helgi Sigurðsson.


   Sex gamlir togarar höggnir upp
        í Danmörku og Bretlandi

Á næstunni munu sex hinna gömlu togara fara í sína hinztu siglingu til Danmerkur og Bretlands, þar sem þeir verða ''höggnir" upp. Mun þá ekki vera nema einn eftir hinna gömlu togara. Það er Guðmundur Kolka, sem keypt hefur þessi gömlu skip. Hefur hann undanfarna mánuði unnið að því að fylla þau hvert af öðru af brotajárni. Hann hefur sem kunnugt er safnað brotajárni í mjög stórum stíl. Um skeið var hann t. d. með togara hér úti á ytri höfninni, þar sem hann náði upp allmiklu af legufærum. Í síðasta mánuði, er verkfallið stóð yfir, var áformað að brotajárnsskipin yrðu dregin út. Við það varð að hætta, en á morgun eða föstudag er væntanlegur stór dráttarbátur frá Hollandi, sem fara mun með 3 í eftirdragi til Danmerkur.
Fjórir þessara togara liggja nú vestur við Ægisgarð og hafa legið þar um Iangt skeið, en þeir eru: Skallagrímur, Þórólfur og Höfðaborg, sem væntanlega munu hafa samflot yfir hafið til Danmerkur um helgina. Vestur við Ægisgarð er einnig Tryggvi gamli, sem sóttur var inn á Kleppsvík í fyrradag. Suður í Hafnarfirði á togaralegunni liggur svo Maí, og Faxi inni á Eiðsvík. Þessir togarar munu verða dregnir til Bretlands síðar. Ráðgert er að þegar dráttarbáturinn leggur af stað með togarana þrjá, þá verði á hverjum þeirra fjórir menn, til þess að hafa eftirlit með dráttartaugum og öðru. Þegar þessir gömlu togarar fara í sína hinztu siglingu vakna án efa í brjóstum margra togarasjómanna endurminningar frá lengri eða skemmri sjómennsku á þessum skipum á tímum friðar og ægilegra ófriðarára. Hversu miklu fiskmagni skyldu þau vera búin að landa? T. d. Skallagrímur, er Guðmundur heitinn Jónsson var aflakóngur á honum og í áraraðir var Skallagrímur með aflahæstu togurunum. Nú er eftir aðeins einn hinna gömlu togara, og er það Venus frá Hafnarfirði.

Morgunblaðið. 18 maí 1955.



Flettingar í dag: 1064
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 724410
Samtals gestir: 53732
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 22:25:52